Háleyjar

Gerð var þriðja tilraunin til að ná “Íslandsklukku” þeirri er Helgi Gamalíasson frá Stað hafði sagst hafa séð í fjörunni neðan við Háleyjabungu fyrir alllöngu síðan er hann var þar við minkaveiðar. Helgi vissi sjálfur til þess að gripurinn hafi verið þarna í fjörunni í tugi ára.

Háleyjar

Háleyjar – spilakoppur.

Nú voru þátttakendur orðnir betur undirbúnir en áður, höfðu reynslu af svæðinu, voru vel gallaðir og tilbúnir að bjóða náttúruöflunum byrginn, en í fyrri tilraunum höfðu þau látið öllum illum látum á meðan á leitum stóð.
Þrátt fyrir stilltan sjó með ströndinni brimaði talsvert neðan við Bunguna. Sjór gekk þó ekki yfir hleinina. Á meðan aðrir leituðu af sér allan grun beggja vegna sjávarmarka fór einn þátttakenda út á Háleyjahleinina svona til að draga athygli aflanna að sér, ef á þyrfti að halda. Enda kom það síðar á daginn að honum tókst það með ágætum.

Háleyjar

Háleyjahlein – brimið.

Leitað var í klofstígvélum eins langt frá landi og mögulegt var og skoðað var undir hvern stein ofan sjávarmarka. Eftir allnokkra leit fram og til baka, án þess að nokkrum kæmi til hugar að gefast upp, var eins og kippt hefði verið í einn þátttakandann í fjörunni. Hann féll við og viti menn; þarna var “klukkan” skorðuð á milli stórra steina. Gengið hafði verið nokkrum sinnum framhjá henni, án þess að hún gæfi kost á sýnileika.
Skyndilega gekk sjórinn yfir hleinina með miklum látum. Það var sem Ægir hafi verið vakinn og hann risið upp til að fylgjast með hvað væri nú um að vera. Ofurhuginn hvarf í holskefluna, en barðist við Ægi og ekki síst fyrir því að halda sér við hleinina. Hefði sjórinn náð að skola honum yfir hana og yfir í víkina milli hennar og lands hefði mátt spyrja að leikslokum.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Útsogið úr víkinni var mikið og ofurhuginn hefði sennilega skolast á haf út án þess að geta haft nokkuð um það ráðið. Önnur holskefla gekk ufir hleinina, en maðurinn gat þokað sér nær landi með því að halda sér föstum í FERLIRshúfuderið með annarri hendi og þreifa sig áfram með hinni.

Á meðan var grafið hratt frá gripnum með járnkarli og hann losaður. Einn FERLIRsfélaganna, tók hann síðan í fangið og bar áleiðis á land. Í þá mund komst ofurhuginn heill og höldnu til lands, blautur og hrakinn. Ef hann hefði ekki haft húfuna er ekki að vita hvert hann hefði farið eða endað.

Saltfiskssetur Íslands

Saltfiskssetur Íslands.

“Klukkunni” var komið fyrir utan við aðaldyr Saltfiskseturs Íslands í Grindavík, eins og um var talað. Að því búnu var þátttakendum boðið í kaffi þar innan dyra.
Sú sögn er um Háleyjahlein að þar hafi brak úr þilfarsbát (Helga) frá Vestmannaeyjum rekið á land eftir að eldur kom upp í honum utan við ströndina. Ekki er ólíklegt að gripurinn gæti hafa verið úr þeim bát.
Þeir, sem eiga leið um Saltfisksetrið, geta barið klukkulaga ryðgaðan gripinn augum, þar sem hann stendur á stéttinni við aðaldyrnar að safninu.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.