Færslur

Háleyjar

Reynt var enn á ný við “Íslandsklukkuna” í Háleyjahlein undir Háleyjabungu. Háleyjarnar höfðu fyrr sýnt sig bera nafn með rentu. Þegar einn félaganna hafði fetað sig út á eina þeirra í nokkurri stillu tók sig allt í einu upp reið holskefla og skellti sér yfir klettana. Náði hann að beygja sig niður og halda sér uns álagið slotaði, enda maðurinn vanur Skálastrandastórsjóum og með eðlislæg viðbrögð í blóðinu. Þá var hann með FERLIRshúfuna á kollinum, en án hennar hefði getað farið illa.

Háleyjar

Háleyjahlein.

Stórstraumsfjaran dugði þó ekki til að þessu sinni. Ægir vildi ekki sleppa klukkunni. Lét hann bæði himinháar öldur af suðvestan og lúmsklæðandi undiröldu verja hana töku. Braut á skerjum og eyjum, hvítfyssandi særokið fyllti loftið og hellt var úr lárréttum regnhretum þess á milli. Sólin gægðist þó í gegnum sortann að baki liði sínu og var ekki laust við að hún glotti út í annað í öllum látunum, ekki ólíkt og Óli Jó. fyrrum.
Minkur, sem hafði verið að synda í rótinu, neitaði að færa sig. Hann náði að klóra sig upp á stein skammt undan landi og var þaðan vitni að leitinni á milli þess sem Ægir færði hann í kaf. Utar í Háleyjabungu mátti sjá andlit á þurs í berginu. Það var augsýnilega staðið vörð um klukkuna.

Háleyjar

Varða ofan Háleyja.

Einn FERLIRsfélaganna, húfulaus, ætlaði að sýnast djarfari en aðrir, kraflaði sig niður að sjóröndinni, en sleipt þangið slengdi honum um koll. Varð hann aumur allan hringinn eftir, en óstórbrotinn þó.
Helgi Gamalíasson hafði séð þessa klukku af og til síðan hann var smápatti – síðast fyrir 9 árum er hann var þarna á minkaveiðum í fjörunni sem svo oft áður.

Um tíu metra kafli við ströndina kom til greina svo auðvelt ætti að vera að finna hana – þegar færi gefst. Enda á op klukkunnar að vera hátt í 60 cm í þvermál og hæðin eftir því. Klukkan lá, að sögn, á hliðinni síðast þegar hún sást og sneri opið þá mót vestri. Hún á að vera í kvos á milli stórra steina á alla vegu.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Enginn veit hvaða klukka þetta er eða hvaðan hún er kominn. Úr því verður ekki skorið fyrr en tekist hefur að koma henni á þurrt. Talið er líklegt að Skálholtssbiskup hafi gert út frá Háleyjabungu um tíma, a.m.k. látið sveina sína liggja þar við, með von um reka. Hvort þeir hafi reynt að “egna” fyrir skip með ljósum í myrkri og vondum veðrum skal ósagt látið.
FERLIR varð frá að hverfa að þessu sinni, en er þó þrátt fyrir það skrefi nær takmarkinu. “Farin ferð skilar sínu, en ófarin engu”, segir jú máltækið. Og svo tekur það alltaf svolítinn tíma að sefa náttúruöflin.
Frábært veður – a.m.k. voru litbrigðin eftirminnileg.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.

Básar

Í sunnanverðri Háleyjabungu, ofan Háleyja á sunnanverðum Reykjanesskaga, milli Krossavíkur (Krossavík/Krossvík) og Sandvíkur, milli Grindavíkur og Reykjaness, er tóft. Hún er um 180×420 að innanmáli, hagalega hlaðin úr grjóti. Í dag er tóftin að mestu leyti fallin saman, en þó mótar enn fyrir rýminu og útlínum hennar. Dyr eru mót suðri. Elstu menn muna eftir því að gluggar voru á vestur- og austurvegg, en þeir eru nú vegggrónir.
haleyjar-toft-2014Vestan við tóftina er Krossavíkur, sem fyrr sagði. Vestan hennar er Krossavíkurberg innan við Krika. Í heimildum er þess getið að Garðakirkja á Álftanesi hafi átt rekaítök í Garðabás við Grindavík. Ef Garðar hafa átt þennan bás þá hlýtur það hafa verið vegna reka því ekki hafa þeir þurft á fisknum að halda því það er það eina sem þeir eiga heima fyrir, meira segja segir í jarðabókinni 1703; “útræði hið besta meðan fiskur var í Hafnarfirði. Rekavon í minsta lagi og nær engin..”!
Að sögn Helga Gamalíelssonar, fæddur á Stað árið 1947, kannaðist hann við örnefnin Básar (Hrófabás og Sölvabás) vestan Staðarbergs. Svæðið þar fyrir vestan væri honum minna kunnugt vegna fjarlægðar frá bænum. Þó fór hann oftlega um Básana og man vel eftir bátsflaki einu ofan Krossavíkur. Honum þætti ekki ólíklegt að kirkjan hafi nytjað rekann á þessu svæði allt frá tímum Skálholts og þangað til það færðist undir kirkjujörðina á Stað. Tóftin á Háleyjum væri það vel gert mannvirki að ekki væri ólíklegt að kirkjan hafi látið byggja hana á þessum stað og þá að öllum líkindum sem nytjastað, t.d. til að vinna rekaviðinn, sem þarna var drjúgur fyrrum. Innan við Háleyjar er gott bátalægi í sunnan og suðaustanstrengjum, en lendingin þar er slæm. Í fjörunni fann FERLIR, eftir lýsingu Helga, leifar af bátnum Helga frá Vestmannaeyjum (sjá http://ferlir.is/?id=4173).
krossavikurVið skoðun á tóftinni kom í ljós að nýlega hafði verið grafið í hana, þ.e. skurður inn um dyrna, þvert yfir gólfið og að útveggnum að norðanverðu. Hver það gerði er ekki vitað því ekki virðist liggja fyrir skýrsla um rannsóknina.

Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1903 segir Brynjúlfur Jónsson eftirfarandi um tóftina á Háleyjum: “Á Krossvíkum er ekkert  örnefni á landi, sem bent geti á, að kross hafi staðið þar eftir að hraun var runnið yfir. Liggur því beint við að hugsa sér, að áður en hraunið rann, hafi þar staðið kross, en staðurinn sem hann stóð á, sé hrauni hulinn. Krossinn gerir ráð fyrir mönnum í nánd, — til hvers skyldi hann annars hafa verið reistur? — og bendir það til bygðar eða að minsta kosti til mannaferða. Nú er undantekning ef menn koma þar. Enn má nefna »Háleyjar« (eða Háleygjarr). Það er ágætur lendingarstaður, skamt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Aðeins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem bygð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er
krossavikur-21Jón hét bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó að heiman. Því bygði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa af þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalending eigi verið notuð. Af hverju nafnið »Háleyjar« sé komið, get eg ekki vel hugsað mér. Þar eru engar eyjar; og þó svo væri, þá væri fyrri hluti nafnsins: »hál-« óskiljanlegur fyrir því. Helzt sýnist mér vit í að gera ráð fyrir, að »háleyskir« menn hafi sezt þar að í fornöld, og aðsetur þeirra verið kent við þá t. a. m. Háleygjabær (eins og Gaulverjabær), en svo hafi niðurlagi nafnsins verið slept, þegar bærinn (eða hvað það var nú) var ekki lengur til. En ekki er til neins að fara lengra út í þetta mál”.

Um framangreint má gera eftirfarandi athugasemdir; a) hraunið ofan við Krossvíkur rann um fimm þúsund árum fyrir landnám, b) í Háleyjum hefur varla verið góður lendingarstaður fyrir smábáta (stórgrýtt fjara) og vandfarin innsigling, c) Háleyjar eru austan við Krossvíkur, en ekki vestan, og d) ekkert bendir til annars en að sagan af “Jóni bónda á Vatnsfelli” sé einber þjóðsaga því engar heimildir eru til um að búið hafi verið á Vatnsfelli áður en nýr bær vitavarðar var byggður þar árið 1878. Brynjúlfur segir jafnframt frá því í þessari frásögn sinni að byggð ku hafa verið ofan Krossavíkurbergs ([H]Rafnkelsstaðabergs) frá landnámi, en það er líkt með þeirri sögu og sögunni um “Jón bónda”, hvorki heimildir né minjar styðja þá lýsingu. Þá er hvergi í  næagrenninu að finna neinar leifar fiskvinnslu fyrrum, s.s. garða, þurrkbyrgi o.fl.
FERLIR hafði áður þaulleitað svæðið, en ekki enn fundið nein ummerki þessa (utan hlaðins skjóls í Skálafelli, sem er af öðrum toga).

krossaviku-25

Í Ægi árið 1916 kemur framangreint svæði m.a. í hrakningalýsingum sama árs, en hvergi er þó getið um tóftina, sem þá hefði átt að vera hið ágætasta skjól sjómönnum er lentu þar í sjávarháska og björguðust: “Hann mun verða mörgum Grindvíkingum minnisstæður föstudagurinn fyrsti i einmánuði (24. mars) 1916…
…Þorkötlustaðaskipunum hinum og einu úr Járngerðarstaðahverfi tókst að ná Staðarhverfi; engin hinna náðu landi fyrir austan Staðarberg og urðu þvi að leita lendingu á Víkunum og lánaðist það flestum, sem náðu best, lentu þar sem heitir Jögunarklettur (»Kletturinn«), og þau næstu nokkuru utar (vestar), þar sem heitir á Háleyjum (gömul verstöð?), og farnaðist þeim öllum vel, því að mönnum tókst að bjarga þeim með heilu og höldnu undan sjó, enda var þar mannafli nógur þegar fyrstu skipin voru lent. Þetta gerðist á fjórða tímanum. Tvö skip til, sem ætluðu að ná Háleyjum, en höfðu fatlast, urðu að lenda upp á von og óvon þar sem heitir á Krossvíkum og undir Hrafnkelsstaðabergi, austan á Reykjanestá, og brotnuðu í spón, af því að þar er stórgrýtt mjög og súgur var nokkur orðinn þar við land, en enginn maður meiddist.
krossavikur-28Eitt skip enn af þeim, sem ætluðu að ná Háleyjum, en braut eina ár, náði ekki lendingu austan við Skarfasetur (Reykjanestána eystri), en hleypti upp á líf og dauða upp í urðarbás einn vestan við Skarfasetur. Í sama bili og skipið steytti, skall yflr ólag, sem kastaði því flötu og skolaði 8 mönnum útbyrðis, en formaðurinn og annar maður til gátu haldið sér föstum og gengið þurrum fótum á land þegar út sogaði, en hinum öllum hafði sjórinn skolað upp ómeiddum, og mátti það heita furðulegt, en skipið brotnaði í spón. — Ef til vill hafa menn sloppið svo vel hjá öllum meiðslum og slysum undir þessum erfiðu kringumstæðum, af því að Grindvikingar eru
alvanir að bjarga sér í brotalá og illum lendingum.”

Í framangreindri lýsingu er getið um “gamla verstöð?” með spurningarmerki, sem virðist mjög eðlilegt því þá höfðu menn ekki annað fyrir sér um slíka en þjóðsöguna um “Jón bónda” á Vatnsfelli. Hins vegar er gaman að geta þess að vitavarðahúsið við Reykjanesvita er jafnan í heimildum sagt verða á Bæjarfelli, sem er ekki rétt. Það er á Vatnsfelli, en hóllinn sunnan þess (vegarins) heitir Bæjarfell. Undir því er niðurgengur brunnur (gerður 1878) og útihús vitavarðarins sem og túngarðar.

haleyjar-toft-2014-2

Í svonefndum Básum eru nokkrir rekabásar; austast eru Sölvabásar á Staðarbergi, Hrófabásar ofan við Brimketilinn, tvær ónefndar ofan við Sandvík, ein ofan við Háleyjar og ein, sú vestasta, ofan Krossavíkur (austan Krossavíkurbjargs). Auk búðarinnar/- nytjastaðarins utan í Háleyjarbungu má sjá leifar af föllnu húsi ofan rekabássins í Krossavíkum. Telja má líklegt að þar hafi verið nytjaaðstaða fyrrum. Það er staðurinn, sem Helgi Gam. telur líklegast að svonefndur Garðabás gæti hafa verið forðum.

Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir m.a. um þetta svæði:
“Vestan við Klettinn er Sandvík. Niður í báðar víkurnar, Mölvík og Sandvík, er hægt að aka á bíl.- Skálholtsstaður átti fyrrum allan reka í Sandvík.
Gísli Brynjólfsson segir, að í Sandvík sé “talið, að hafi verið verbúð, jafnvel tvær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum “byggilegum” stöðum á þessum auðnarslóðum.”
Sandvik-hledslurHvorki S.V.G né Á.V. kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.
Vestur af Sandvíkinni liggur lágur klettarani þar sem sjórinn hefur sorfið hvilftir og skot inn í bergið. Þar heita Sandvíkurbásar. Utan við þá hækkar bergið og heitir nú Háleyjaberg. Frammi við sjóinn er bergið 20-30 metra hátt og undir því stórgrýtt fjaran, Háleyjakampur. Út með honum, skáhallt frá landi, í suðvestur, gengur Háleyjahlein fram í sjó. Er hún um 400 metra langur klettahryggur. Dýpst er rétt innan við hleinina og ef farið er nógu nærri henni eru þarna góð lendingarskilyrði í sæmilega kyrrum sjó. Bungubreið dyngja skammt norður frá berginu nefnist Háleyjahæð. Er hún kúpumyndað eldfjall með stórum gíg í toppnum. -Allt svæðið, Háleyjahæð, Háleyjaberg, Háleyjakampur og Háleyjahlein, er einu nafni nefnt Háleyjar. Talið er, að á Háleyjum hafi fyrrum verið útræði. Til þess benda m.a. kofarústir framarlega á Háleyjabungu”.

Vestan við Háleyjahæð er smálægð. Framan við hana er Krossvíkin, en utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg. (Ath.: í frb. var það oft haft Hrakkelsstaðaberg). Bendir nafnið til að þarna hafi einhvern tímann verið bær”.

Tóftin á Háleyjum er og hefur verið tilefni til vangaveltna um nokkurt skeið, bæði um tilefni hennar og notkun, en ekki síst um tilefni og niðurstöðu þeirrar rannsóknar, sem þar mun hafa átt sér stað nýlega.
Gunnar S. Valdimarsson vakti athygli FERLIRs á eftirfarandi: “Þar má benda á, þar sem þið haldið fram að engar heimildir séu til um neinn “Jón á Vatnsfelli”, að í inngangi Jóns Eiríkssonar að ferðabók Ólafs Ólavíusar (1. bindi, Rvk 1964) er getið um nýbýli á “eyðibýlinu Vatnsfelli í Gullbringusýslu” á bls. 14. Þar kemur einnig fram að byggjendurnir hafi fengið verðlaun fyrir verkið, þar sem það var í samræmi við nýbýlatilskipunina frá 1776. Verðlaunin voru veitt árið 1778 og skv. Jóni Eiríkssyni birtist tilkynning um það í alþingisbókum en í tilvísuninni í ferðabókinni eru byggjendur reyndar ekki nafngreindir. Sé gert ráð fyrir að hér sé um Vatnsfell við Reykjanesvita að ræða kynni að vera meira til í sögu Brynjúlfs Jónssonar um Jón á Vatnsfelli en þið gefið í skyn. Ef annað býli með því nafni er í Gullbringusýslu er mér ókunnugt um það og bið þá forláts.”

Heimildir:
-Ægir, 9. árg. 1916, bls. 97-98
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið eftir Brynjúlf Jónsson – 18. árg. 1903, bls. 44.
-Örnefnalýsing fyrir Stað – Stofn lýsingar þessarar er í “Örnefni í Staðarlandi”, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Einnig eru fleiri upplýsingar fengnar úr þeirri bók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.
-Helgi Gamalíelsson frá Stað – fæddur 1947.

Háleyjar

Háleyjar – loftmynd.

 

Háleyjar

Gerð var þriðja tilraunin til að ná “Íslandsklukku” þeirri er Helgi Gamalíasson frá Stað hafði sagst hafa séð í fjörunni neðan við Háleyjabungu fyrir alllöngu síðan er hann var þar við minkaveiðar. Helgi vissi sjálfur til þess að gripurinn hafi verið þarna í fjörunni í tugi ára.

Háleyjar

Háleyjar – spilakoppur.

Nú voru þátttakendur orðnir betur undirbúnir en áður, höfðu reynslu af svæðinu, voru vel gallaðir og tilbúnir að bjóða náttúruöflunum byrginn, en í fyrri tilraunum höfðu þau látið öllum illum látum á meðan á leitum stóð.
Þrátt fyrir stilltan sjó með ströndinni brimaði talsvert neðan við Bunguna. Sjór gekk þó ekki yfir hleinina. Á meðan aðrir leituðu af sér allan grun beggja vegna sjávarmarka fór einn þátttakenda út á Háleyjahleinina svona til að draga athygli aflanna að sér, ef á þyrfti að halda. Enda kom það síðar á daginn að honum tókst það með ágætum.

Háleyjar

Háleyjahlein – brimið.

Leitað var í klofstígvélum eins langt frá landi og mögulegt var og skoðað var undir hvern stein ofan sjávarmarka. Eftir allnokkra leit fram og til baka, án þess að nokkrum kæmi til hugar að gefast upp, var eins og kippt hefði verið í einn þátttakandann í fjörunni. Hann féll við og viti menn; þarna var “klukkan” skorðuð á milli stórra steina. Gengið hafði verið nokkrum sinnum framhjá henni, án þess að hún gæfi kost á sýnileika.
Skyndilega gekk sjórinn yfir hleinina með miklum látum. Það var sem Ægir hafi verið vakinn og hann risið upp til að fylgjast með hvað væri nú um að vera. Ofurhuginn hvarf í holskefluna, en barðist við Ægi og ekki síst fyrir því að halda sér við hleinina. Hefði sjórinn náð að skola honum yfir hana og yfir í víkina milli hennar og lands hefði mátt spyrja að leikslokum.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Útsogið úr víkinni var mikið og ofurhuginn hefði sennilega skolast á haf út án þess að geta haft nokkuð um það ráðið. Önnur holskefla gekk ufir hleinina, en maðurinn gat þokað sér nær landi með því að halda sér föstum í FERLIRshúfuderið með annarri hendi og þreifa sig áfram með hinni.

Á meðan var grafið hratt frá gripnum með járnkarli og hann losaður. Einn FERLIRsfélaganna, tók hann síðan í fangið og bar áleiðis á land. Í þá mund komst ofurhuginn heill og höldnu til lands, blautur og hrakinn. Ef hann hefði ekki haft húfuna er ekki að vita hvert hann hefði farið eða endað.

Saltfiskssetur Íslands

Saltfiskssetur Íslands.

“Klukkunni” var komið fyrir utan við aðaldyr Saltfiskseturs Íslands í Grindavík, eins og um var talað. Að því búnu var þátttakendum boðið í kaffi þar innan dyra.
Sú sögn er um Háleyjahlein að þar hafi brak úr þilfarsbát (Helga) frá Vestmannaeyjum rekið á land eftir að eldur kom upp í honum utan við ströndina. Ekki er ólíklegt að gripurinn gæti hafa verið úr þeim bát.
Þeir, sem eiga leið um Saltfisksetrið, geta barið klukkulaga ryðgaðan gripinn augum, þar sem hann stendur á stéttinni við aðaldyrnar að safninu.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.