Gengið var að Brimkatli austan við Mölvík. Brimið lék við ketilinn sem og hamraða ströndina. Ægir skellti sér af og til upp í skálina og lék sér þar um stund eða þangað til hann renndi sér úr henni aftur.
Haldið var út með ströndinni til vesturs. Um er að ræða þægilega sandfjöru með smá klappalabbi neðan við misheppnuðu laxeldisstöðina ofan Mölvíkur. Stór steyptur stokkur gengur þar niður í fjöruna, kjörinn myndatökustaður yfir víkina. Ofan við kambinn er fúlatjörn þar sem fuglar undur hag sínum vel. Krían, sandlóan, spóinn og fleiri fuglar gleymdu sér þar í sátt og samlyndi.
Uppi á nefinu milli Mölvíkur og Sandvíkur er stórbrotið útsýni yfir að Háleyjabungu, Krossavíkurbjargi og Hrafnkelsstaðabergi til vesturs og yfir Mölvík og Staðarberg til austurs. Utan við heitir Víkur.
Sandfjörur er með Sandvík, en auk reka er þar að finna mikinn fjölda plantna er setja sérstakan svip á umhverfið. Annars vegar er dökkur sandurinn og hins vegar litskrúðugar plöntur inni á milli steina og sandaldna.
Undir Háleyjabungu er forn tóft. Einhvers staðar segir að tóftin hafi verið útver, nýtt frá Skálholti, líklega sem rekavinnsla eða jafnvel lending undir bungunni. Nýlega hefur verið grafinn þverskurður í tóftina, líklega til að grennslast fyrir um aldur hennar. Neðan hennar er vik inn í ströndina, varin af hraunrana sjávarmegin, Háleyjahlein. Þarna rak m.a. lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði.
Á gígbarmi Háleyjabungu er gömul varða, nú orðin gróin. Skammt norðan hennar er önnur nýrri. Gígurinn sjálfur er hin fallegasta náttúrusmíð. Ef hann yrði gerður aðgengilegur hefði hann síður minna aðdráttarafl fyrir ferðamenn en t.d. Kerið í Grímsnesi. Háleyjabunga er í umdæmi Grindavíkur svo það hermir upp á þarlenda að gera hann sýnilegan áhugasömum og forvitnum vegfarendum á leið um svæðið.
Af Háleyjabungu er ágætt útsýni yfir að Sýrfelli og Hreiðrinu (Stampi) í norðri, Skálafelli í vestri og Grindavíkurfjöllunum í austri. Klofningahraun er áberandi þar á milli.
Með alla þessa síbreytilega náttúrufegurð þar sem lýsing og lyndisveður spila sjálfgefna möguleika ætti varla að verða erfitt fyrir ráðendur að nýta sér þá ótrúlega ódýru framkvæmdir er gera myndu svæðið aðgengilegra fyrir ferðalöngum. Annars væri vel þess virði að fara yfir þetta svæði með það fyrir augum að opna það túrhestum á leið um Reykjanesið. Vegagerð þarna er ótrúlega auðveld og kostnaðarlítil.
Á þessari leið eru a.m.k. þrír staðir sem ferðamenn hefðu sérstakan áhuga á að skoða og væru tilvaldir til að staðnæmast við á ferð um Reykjanesið. Tiltölulega auðvelt væri að gera sæmilegan slóða upp að brún Háleyjabungu og upp á nefið milli Mölvíkur og Sandvíkur. Slóði liggur nú þegar að Brimkatlinum.
Veður var frábært – hiti og stilla. Gangan tók 3 klst og 33 mín.