Spenastofuhellir

Spenastofuhellir er um 100 metra langur hraunhellir í Tvíbollahrauni. Völundarhúsið er helmingi lengri sexmunnahellir í sama hrauni með mikilli litadýrð, fallegum hringleiðum með ýmsum storknunartilbrigðum, miklum flór og öðrum myndarlegheitum.
SpenastofuhellirHraunið er einna merkilegast fyrir að hafa runnið um svipað leyti og fyrstu landnámsmennirnir voru að koma sér fyrir á Reykjanesskaganum. Aldur þess er því svipaður og elstu minjar á Skaganum. Upptökin eru í Tvíbollum (Miðbollum) milli Grindarskarða og Kerlingarskarðs. Stærð hraunsins er um 18 km2. Vel má sjá hvernig elfurinn hefur runnið niður norðanverða hlíðina að Helgafelli og þaðan áfram suðvestan við það. Líklega er þarna um tvö hraun að ræða sem komið hafa upp með tiltölulega stuttu millibili, stundum nefnd Hellnahraun neðra. Erfitt er að greina skil þeirra, en þó má sjá hvernig úfnara hraunlag hefur lagst á og að því þynnra. Meginrás fyrra hraunsins sést vel norðvestan í Stórabolla og þess síðara norðvestan í Tvíbollum. Hún er fallin niður á nokkrum stöðum svo eftir standa rúmgóð jarðföll. Stærsta jarðfallið í rásinni er neðan fjallsrótanna. Af henni að merkja hefur þar verið um verulega fóðuræð að ræða.
Nokkrir hellar eru í Tvíbollahrauni. Má þar nefna Flóka í Dauðadölum, en hann er einn margflóknasti og sérkennilegasti hellir landsins. Heildarlengd hans er yfir einn kílómetri.
Hjartartröðin er nokkur vestar, en hann er hluti gróinnar hrauntraðar í eldra hrauninu. Heildarlengd hans er hátt í 500 m.
Þá má nefna Gashelli, Spenastofuhelli, Syðri lautarhelli, Spánverjahelli, Nyrðri lautarhelli, Elginn, Rósaloftshelli, Balahelli og nokkra stutta hella, sem jafnan hafa verið nefndir Selvogsgötuhellar.
Spenastofuhellir Spenastofuhellir dregur nafn sitt af sannkallaðri spenastofu í einni hliðarrásinni. Þar má líta augum spena í öllum stærðum og af öllum gerðum. Op lautarhellanna eru í grónum bölum. Spánverjahellir fékk nafn vegna þátttöku þarlendra við fyrstu skoðun hans. Elgurinn fékk nafn af hraunmynd líkri elgshaus sem kemur´”óvænt” út úr einum veggnum og Rósaloftshellir heitir eftir einstaklega fallegu rósamynstri í lofti hellisins, sem er líklega einsdæmi í hraunhelli hér á landi.
Og þá var stefnan tekin á Völundarhúsið. Neðsta opið horfir mót norðri. Fallegar storkumyndanir eru á gólfi svo og líkt og bátur á hvolfi. Annað op er skammt ofar. en ca. 10 m suðaustan við neðra niðurfallið er 1-2 m breitt op. Innan við það tekur við rúmgóður hellir með nokkrum opum. Út frá rásinni er ýmis göng og þverrásir í allar áttir, jafnvel í hálfhringi. Hliðarrásir eru víða þröngar, en litfagrar. Í einum ganginum eru mjó undirgöng sem óvíst er hvort fara má um. Hellirinn er líklega um 100 metra í heildina. Hann hefur þó ekki verið skoðaður til hlýtar. Að þessu sinni helltu veðurguðirnir úr skolfötum sínum, en þegar farið var eftir rásinni fór það alveg fyrir ofan garð og neðan. Svo margt bar fyrir augu á skammri leið að allt annað gleymdist.
Þótt Sepastofuhellir sé hluti af sömu rásaröngum út frá hinni fyrrnefndu meginrás Tvíbolla og beri þess litbrigðarmerki eru myndanir í honum ólíkar því sem annars staðar má sjá. Þegar komið er inn fyrir munnann, sem er bæði hár og breiður, tekur við hraun framan við fallega sepaumgjörð. Í fyrst mætti ætla að rásin væri ekki lengri en þessir 10 m, en þegar betur er að gáð má sjá gat inn í rásinni. Það er nægilega stórt til þess að hægt er að renna sér áfram á maganum sléttri hraunhellunni inn í rúmgóða rás. Hrun er á gólfi, en hægt er að fylgja rásinni spölkorn upp eftir.
Spenastofuhellir Annað op er inn úr norðaustanverðum framhellinum. Þegar þangað inn er komið tekur spenastofan við. Sama sagan var þarna og í Völdunarhúsinu; gólf og veggir þurrir þótt framhellirinn gréti í rigningunni. Í rauninni er þarna um ótrúlega fallega umgjörð brúnleitra jarðmyndana að ræða.
Þessir fallegu spenar hafa orðið til við mikinn hita í hraunrásinni. Bæði hefur bráðheitt hraunið í henni brætt veggi og þak rásarinnar og mikill hiti hefur haldist inni í henni eftir að hún lokaðist í báða enda með fyrrgreindum afleiðingum. Áhrifin urðu bergbráðnir spenar (separ).
Bergkvikan frá gígnum rennur yfirleitt úr honum ofanjarðar eða um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun oft mjög lagskipt. Ekki er að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Á Reykjaneskaganum eru þekktastir slíkra hella Raufarhólshellir í Þrengslum, en óþekktastur Búri í Búrfellshrauni. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum, auk framangreindra sepa og flóra.
Spenamyndanir sem þessar má víða sjá í hellum á Reykjanesskaganum, s.s. í efri hluta Rebba á Herdísarvíkurfjalli og í Kistuhellunum í Brennisteinsfjöllum. Litbrigðin í Rebba eru svipuð og í Spenastofuhelli, en þau eru rauðleitari í Brennisteinsfjöllum, sennilega vegna nálægðar við upprunann.
Frábært veður. Gangan að hellunum frá Bláfjallavegi tók 12 mín, enda ekki nema um 900 m leið að fara.

Spenastofuhellir