Bláa lónið

Lagt var af stað frá bílastæði Bláa Lónsins – þar sem gestum Lónsins er þakkað fyrir komuna og boðnir velkomnir aftur.

Bláa lónið

Bláa lónið – upphaf göngu.

Á leiðinni var m.a. gengið um þau óteljandi hraunafbrigði er Illahraun hefur að geyma, en Bláa Lónið er einmitt í því hrauni, sem rann árið 1226 (að því er talið er). Auk þess var kynnt til sögunnar annað það, sem fyrir augu bar á leiðinni; gígar, fjöll og tröll. Loks var farið yfir sögu Hitaveitu Suðurnesja og saga Bláa Lónsins rakin í grófum dráttum. Ljóst er að svæðið býður upp á óteljandi útivistarmöguleika og er hér einungis lýst einum þeirra.

Kenningin sem Alfred Wegener setti fram var að meginlöndin hefðu fyrir um 200 milljónum ár legið saman í einu stóru meginlandi sem nefnd var Pangea er óvíða áþreifanlegri en á Reykjanesskaganum.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Kenningunni var reyndar hafnað á þeim tíma en ný rök komu fram á 7. áratug 20. aldar sem vöktu kenninguna til lífsins og er hún megin kenning jarðfræðinnar í dag.
Talið er að jarðskorpan skiptist í nokkra fleka eða plötur sem rekur afar hægt. Fyrir um 60 milljónum ára voru flekarnir í Norður-Atlandshafi einn fleki, en hann brotnaði síðan. Skilin milli flekanna eru af tveimur gerðum, annars vegar úthafshryggir þar sem bráðið berg streymir upp úr iðrum jarðar og myndar nýja skorpu og aðliggjandi fleka rekur frá. Þetta á einmitt við um Ísland. Á öðrum stöðum rekast tveir flekar hins vegar saman. Þá er úthafsflekinn þyngri og gengur innundir meginlandsflekann sem er léttari. Dæmi um slík skil eru Klettafjöllin í Norður-Ameríku.
Jörðin er gerð úr kjarna, möttli og skorpu. Talið er að hringstreymi sé í möttlinum þar sem heitt möttulefni stígur upp frá kjarnanum í átt að skorpunni, kólnar og sígur síðan aftur niður. Þar sem er uppstreymi togast plöturnar frá hvor annarri. Þær togast sundur í rykkjum sem kallast jarðskjálftar. Við það myndast sprungur sem fyllast af kviku að neðan. Ef kvikan nær til yfirborðs verður eldgos. Plötuskil eru allstaðar staðsett á hafsbotni nema í Eþíópíu og á Íslandi.

Bláa lónið

Bláa lónið – ganga.

Land myndast þegar eldvirkni er mun meiri en á venjulegu hryggjarstykki. Talið er að þessi landmyndun orsakist af möttulstróknum, en það er strokklaga uppstreymi af heitu efni djúpt í iðrum jarðar. Tveir þekktustu möttulstrókarnir eru undir Íslandi og Hawaii. Ef ekki væri möttulstrókur undir Íslandi væri hér ekki land heldur um 3000 m sjávardýpi. Möttulstrókurinn er staðsettur undir norðvestanverðum Vatnajökli.
Ísland hefur myndast á mið-Atlandshafshryggnum sem liggur á milli tveggja fleka. Þá rekur í gagnstæða átt (plötuskil), um 2 cm á ári. Úthafshrygghakerfið er í heild um 80.000 km langt og sést ekki á landi nema á Íslandi og austur-Afríku.

Bláa lónið

Bláa lónið – hraunsprunga.

Hraun, sem eru svo áberandi umhverfis Bláa Lónið, er glóandi kvika er rennur frá eldstöð eftir yfirborði jarðar og storknar þar nefnist hraun. Þau hlaðast hvert yfir annað þannig að yngsta hraunið er ávallt efst. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun [aa] kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.

Apalhraun

Apalhraun.

Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Laugahraun í Landmannalaugum og Hekluhraunin. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum.
Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. við Lakagíga, Þrengslaborgir og Búrfell ofan Hafnarfjarðar.
Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða.

Helluhraun

Helluhraun.

Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins.

Bláa lónið

Illahraun – gígur (Rauðhóll).

Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun, einkum ættuð frá dyngjum, mjög lagskipt og er ekki að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Þekktastir slíkra hella eru Surtshellir í Hallmundarhrauni og Raufarhólshellir í Þrengslum. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum.

Illahraun

Illahraun – gígur (Rauðhóll).

Í nágrenni við Bláa Lónið má víða sjá hella og skúta. Sumir þeirra tengjast sögum af útilegumönnum og ekki síst komu sjóræningja (Tyrkja) til Grindavíkur í júní 1627. Sagt var frá því að Grindvíkingar hafi þá falið sig um tíma í skjólunum og síðan haft þau til að flýja í ef ræningjarnir skyldu koma aftur. Í hraununum ofan Grindavíkur má einnig finna hlaðin (nú mosavaxin) skjól, sem talið er að íbúarnir ætluðu að leita skjóls í af sömu ástæðu.
Rauðhóll er áberandi gjallgígur suðvestan Bláa Lónsins. Sunnan hans er tveir aðrir myndarlegir klepragígar. Þarna var uppkoma hinnar glóandi hraunkviku á fyrri hluta 13. aldar og myndaði Illahraun. Í suðvestri sést vel til Eldvarpagígaraðarinnar, sem einmitt er dæmigerð sprungurein á Reykjanesskagagnum.

Bláa lónið

Bláa lónið – skreið í skúta.

Algengustu gos á Reykjanesskaganum eru gos á sprungureinum, allt a- 10-15 km löngum. Þær eru jafnan virkar í u.þ.b. 300 ár en hvíla sig síðan á milli á u.þ.b. 1000 ár. Sprungureinarnar færasr til sem nemur landrekinu (2 cm að jafnaði á ári).
Gjall- og klepragígaraðir eru víða þar sem gosið hefur apalhrauni á sprungum. Sprungugos af þessari gerð eru mjög algeng hér á landi og einkennandi fyrir eldvirkni landsins og virðist svo hafa verið frá upphafi jarðsögu Íslands.
U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Á Reykjanesi eru jarðskjálftar tíðir.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – eldgos á nútíma.

Fjögur til fimm söguleg gos á Reykjanesi á tímabilinu 875 – 1340 og hraun u.þ.b. 16 talsins. Hraun við Hlíðarvatn frá 1340. Ögmundarhraun frá 1150. Hraun efst í Heiðmörk og Í Bláfjöllum u.þ.b. 1000 ára. Svínahraun gæti verið kristintökuhraunið frá 1000. Svartahraun við Bláa lónið frá 1226. Kapelluhraun frá 1150. Afstapahraun frá sögulegum tíma. Stampahraun og Arnarseturshraun eru einnig frá árinu 1226.
Blandgos nefnast gos sem bæði mynda hraun og gjósku. Kvikan er þá seigari en í hraungosunum. Þegar gasið brýtur sér leið úr kvikunni veldur það kvikustrókavirkni og smásprengingum.

Eldvörp

Eldvörp – gjallgígaröð.

Gjall- og klepragígar geta ýmist verið á sívalri eða aflangri eldrás. Þeir myndast einkum í byrjun goss þegar kvikustrókar þeytast upp úr gígnum. Nái kvikusletturnar, sem þeytast upp úr gígnum, ekki að storkna áður en þær lenda á gígbarminum hleðst upp klepragígur úr seigfljótandi kvikuslettum. Storkni sletturnar hins vegar á flugi sínu úr gígskálinni lenda þær þyngstu sem gjall á gígbarminum og mynda gjallgíg umhverfis gosrásina. Kvikan frá blandgígum myndar yfirleitt apalhraun.

Bláa lónið

Bláa lónið – ganga.

Þegar staðið er við Rauðhól má vel virða fyrir sér fjallahringinn; Þorbjarnarfell næst (sólarganginn) með Þorbjörn Gamla vestast í hlíð þess – Lágafell – Eldvörp – Sandfellshæð – Sandfell – Lágafell – Gígur – Súlur – Þórðarfell – Stapafell (horfið að mestu) – Litla-Skófell – Fagradalsfjall – Stóra-Skógfell – Svartsengisfell (Sýlingarfell) – og loks Hagafell (Gálgaklettar).
Í Þorbjarnarfelli er m.a. Þjófagjá og undir því að norðanverðu eru Baðsvellir.
Þorbjörn eins og fjallið er oftast kallað er um 243m hátt og að mestu úr bólstrabergi og bólstrabrotabergi, hefur orðið til við gos undir jökli.

Grindavík

Bólstraberg Í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

Slíkt berg er myndað úr bólstrabrotum eins og nafnið gefur til kynna. Það einkennist af kubbum sem á einn kant hafa svarta glerhúð en eru að öðru leyti ekki frábrugðnir basaltmolum sem koma fyrir í þursabergi. Það er smáholótt og brotnar auðveldlega í eins konar stuðla sem mynda, sem næst rétt horn við glerkennt og þétt yfirborðið. Innan um eru reglulegir, heilir bólstrar. Það sem er sérstakt við þetta fjall er að það er klofið að endilöngu af sprungum og í því er sigdalur.
Þjóðsaga er til af þjófunum er héldu til í Þjófagjá og á Baðsvöllum. Til að gera langa sögu stutta voru þeir handteknir eftir brellur í laug á Baðsvöllum og síðan hengdir skýrslulaust í Gálgaklettum í Hagafelli – þarna skammt austar. Einar Bárðar (Idol-formaður) hefði nú einhvern tímann talið það lögreglumál, en hreppstjórinn í Grindavík var á öðru máli – á þeim tíma. Enda mætti stundum halda að önnur lög giltu á því svæði en á öðrum svæðum landsins.

Baðsvallasel

Baðsvallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Grindvíkingar höfðu um alllangan tíma selstöður á Baðsvöllum. Vel má sjá tóftir seljanna þar enn. Þegar beit varð að skornum skammti á Baðsvöllum færðu þeir sig inn á Selsvelli undir Núpshlíðarhálsi (Selsvallafjalli). Þar eru einnig greinilegar minjar eftir veru þeirra, s.s. sel, stekkir, vatnsstæði og grópmarkaðar selsgötur.
Efst í vestanverðu Þorbjarnarfelli er tröll. Sagt er að það hafi verið á leið að finna frænku sína í Festarfjalli. Eins og vitað er fóru tröll ávallt beint að augum. Tröllið var heldur seint fyrir. Þegar það kom upp á brún Þorbjarnarfells kom sólin við það sama upp við sjóndeildarhringinn í austri. Tröllið varð samstundis að steini – og er þar enn.

Ef vel er að gáð má sjá andlit Þorbjörns Gamla í vesturhlíð fellsins. Hakan og skeggið er neðst, en ofar nef og enni. Handans hans að sunnanverðu er Gyltustígur (fjallað er um hann á annarri FERLIRssíðu), auðveldasta gönguleiðin á fellið.

Blá lónið

Bláa lónið – ganga.

Þá var komið að hinu eiginlega athafnasvæði “fornvirkjunar” Hitaveitu Suðurnesja. Það var reyndar aðstoðarforstjóri Hitaveitunar er nefndi hana þessu nafni í erindi er hann hélt fyrir verðandi svæðaðleiðsögumenn á Reykjanesi, enda virkjunun þegar orðin u.þ.b. 30 ára gömul – sem þykir gamalt aldur af virkjun að vera. Á athafnasvæðinu er Gjáin þar sem kynnast má jarðfræði svæðisins með mynd- og textarfræðilegum hætti – jafnvel áþreifanlegum.

Bláa lónið

Svartsengi.

Saga Hitaveitu Suðurnesja mun, af þeim sem þekkja til, vera þessi:
“Eftir fund hjá Lionsmönnum í Grindavik 1969 var ákveðið að athuga meira með þennan hita sem var í hrauninu fyrir norðan Grindavík. Grindvíkingar voru búnir að velta þessu fyrir sér gegnum árin því þarna í hrauninu var alltaf auður blettur þegar snjór var yfir öllu og rauk of úr.
Talað var við Ísleif nokkurn Jónsson frá Einlandi sem sem gerði meira en aðrir Grindavíkingar hann lærði verkfræði, og fór að vinna hjá jarðborun ríkisins.
Ísleifur tók vel í þetta og pældi mikið með þessum áhugasömu Grindvíkingum, sagði hann að annað hvort væri þetta há eða lág hitasvæði. Lághita svæði væri 100 gráður eða minna en há hita svæði 200-300 gr, eða meira.

Bláa lónið

Bláa lónið – aðfall.

Ákvað þáverandi hreppsnefnd að leggja í þetta mál eina milljón, sem sagt að bora. Var tekin jarðbor á leigu frá jarðborun ríkisinns og beið hann næstu tvö árin. Svo var það í janúar 1973 að hreppsnefnd fór í þær framkvæmdir að bora og þeim til mikillar skelfingar kom upp allt of heitt vatn og mikil gufa vatnið var stór mengað af allskonar efnum sem menn höfðu ekki séð fyrr og með 1/3 af seltu sjávar.
Hugmyndafræðin var að fá upp lághitavatn og senda það beint í húsin eins og gert hafði verið í Reykjavík og víðar.
Fór þá Grindavíkurhreppur og orkustofnun í tveggja ára tilraunastarfsemi við að finna lausn á þessu máli, og lausnin sem fékkst var að bora eftir fersku vatni sem nóg var af og hita það upp með gufu sem upp kom, var þetta dýrt vegna þeirrar tækni, þekkingu, tækja og tóla sem til voru á þeim tíma.

Bláa lónið

Bláa lónið – aðfall.

Bauð þá Grindavík hinum sveitarfélögunum á Suðurnesjum að vera með í þessu verkefni, var það svo í des 1974 að ríkið kom inn í dæmið m.a. fyrir hönd flugvallarinns og áttu þeir 40%. Á móti sveitarfélugunum.
Úr varð að ferskvatn var hitað upp í 70-80 gráður en mengaða vatnið var látið renna út í hraun , átti síðar að búa læk þar sem vatn þetta átti að renna út í sjó niður í Bótina í Grindavík.
Fyllti þessi mengun eða kísill upp í allar holur í hrauninu og í framhaldi af því varð Bláa lónið til, umhverfisslys, eða algjör Paradís sem það er í dag.

Bláa lónið

Bláa lónið – gamla.

En það má í raun segja að Keflvíkingur, hann Valur Margeirsson, hafi fundið upp áhrif og og átt upphaf að vinsældum Bláalónsinns því hann fór fljótlega þess á leit við stjórn hitaveitunnar að fá að baða sig í þessu en hann var með phoriassis, var það fúslega veitt og settu þeir upp smá skúr fyrir hann til að skipta um föt í, en fljótlega var hann ekki nógu stór því vinsældirnar spunnust hratt út, var þá settur upp annar skúr og svo annar og á endanum var stofnað annað fyrirtæki utan um Bláa lónið eins og það er í dag.

Má einnig geta þess að árið 1942 hafði hreppsnefnd Grindavíkur með Guðstein Einarsson í fararbroddi látið bora annarsstaðar eða við Selhálsinn sem gaf ekki góða raun. Líka að milljónin sem hreppurinn lagði í tilraunaborun 1971 var engvan veginn nóg og þurfti að bæta annarri við og meira en það.

Bláa lónið

Bláa lónið – gamla.

Fyrstu tvær holurnar sem boraðar voru, voru á bilinu 200-500 m djúpar og er löngu búið að loka þeim. En 1974 voru boraðar tvær holur í viðbót og voru þær 1713 m og 1519 m djúpar.
1978-81 voru 7 holur til viðbótar boraðar allt frá 425 m til 1998 m djúpar.
Árið 1985, þegar rafveiturnar sameinast, breytist hlutur ríkisins úr 40% í 20 %.á móti sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Við þetta má bæta að 9-11 borholur hafa verið gerðar á svæðinu. Starfsemin hófst árið 1975 eftir að lög um Hitaveitu Suðurnesja voru samþykkt á Alþingi árið áður. Í dag framleiðir Hitaveitan hitaorku og raforku, auk þess sem hún er hluthafi í Bláa Lóninu og hefur unnið með ýmiskonar nýbreyttni í jarðgufurannsóknum.”

Bláa lónið

Bláa lónið – ganga.

Keflvíkingar í Hitaveitunni vilja hafa söguna öðruvísi þar sem byrjað er á áhuga Keflavíkurbæjar og síðan Njarðvíkinga að leita að heitu vatni á svæðinu, en hvernig sem menn reyna, verða ártölin ávallt yngri í þeirri sögu en að framan greinir.
Fræðslusetrið Gjáin er á svæði Hitaveitunnar. Í henni má fræðast um jarfræði svæðisins, eldgosin, hraunin, jarðskjálftana, jarðvarðmann og annað það er merkilegast getur talist. M.a. er líkt þar eftir jarðskjálfta.
Ekki, og reyndar aldrei, má gleymast að fara þarf varlega um verðmæti sem hraunsvæðin á Reykjanesskaganum eru. Hitaveitan hefur haft það að opinberu kenniorði að “búa í sátt við umhverfið”, en nauðsynlegt er jafnan að samhæfa orð, vilja og verk.

Bláa lónið

Bláa lónið nýja – opnað 1999.

Bláa Lónið er í Illahrauni er stundum sagt vera komið úr Eldvörpum. Það er reyndar að hluta til rétt því undirhraunið, eins og víðast annars staðar á Reykjanesskaganum, er nokkru eldra, eða um 2000 ára gamalt.

Bláa Lónið myndast af afrennsli orkuverinu í Svartsengi og er nú einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Hundruð þúsunda gesta heimsækja lónið árlega og vegna sérstöðu sinnar nýtur það mikillar hylli fjölmiðlafólks um allan heim. Fljótlega eftir að fólk fór að sækja í Bláa Lónið kom í ljós að vatnið í því virkar mjög vel til að lina þjáningar psoriasis sjúklinga og þar er nú sérstök, fjölsótt aðstaða fyrir þá og sjúklingarnir koma víða að úr heiminum til að njóta lækningarmáttar lónsins.

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Bláa Lónið hf var stofnað árið 1992 og er meginmarkmið félagsins að vera í forystu um uppbyggingu heilsu- og ferðaþjónustu á Íslandi. Á vefsíðu Bláa Lónsins kemur m.a. fram að öll starfsemi félagsins byggi á einstakleika og eiginleikum BLUE LAGOON jarðsjávarins sem inniheldur steinefni, sölt, kísil og þörunga eða nálægð við jarðsjóinn og einstakt umhverfi hans.
Starfsemi félagsins er á þremur sviðum: rekstur Bláa Lónsins – heilsulindar, þróun og markaðssetning á BLUE LAGOON húðvörum byggðum á virkum efnum BLUE LAGOON jarðsjávarins og rekstur lækningalindar þar sem veitt er meðferð við húðsjúkdómnum psoriasis. Hjá fyrirtækinu starfa 90 manns.
Bláa Lónið – heilsulind er fullkomið dekur fyrir líkama og sál. Heilsulindin er vel þekkt víðsvegar um heiminn og hefur meðal annars fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi.

Bláa lónið

Bláa lónið – Þorbjarnarfell fjær.

Það er einstök upplifun að slaka á í hlýju lóninu (37 – 39°C) á meðan virku efni BLUE LAGOON jarðsjávarins, steinefni, kísill og þörungar leika um húðina. Steinefnin veita slökun og koma jafnvægi á húðina, þörungarnir næra hana og mýkja og kísillinn hreinsar og gefur húðinni slétta og fallega áferð.
Í heilsulindinni er einnig að finna veitingastað sem býður upp á spennandi a la carte matseðil. Gestir njóta þess að snæða góðan mat í einstöku umhverfi og háir glerveggir veita stórkostlegt útsýni yfir blátt lónið.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Í Bláa Lóninu – lækningalind – er veitt náttúruleg meðferð við húðsjúkdómnum psoriasis. Lækningalindin er starfrækt í samvinnu við íslensk heilbrigðisyfirvöld og greiðir Tryggingastofnun Ríkisins hlut innlendra sjúklinga.
Bláa Lónið tók nýlega í notkun þessa nýju og glæsilegu lækningalind, sem er staðsett á miðri hraunbreiðunni, þar sem “kraftmikið náttúrulegt umhverfi hefur endurnærandi áhrif á líkama og hug. Böðun í “Bláa Lóninu jarðsjó” sem þekktur er fyrir lækningamátt og einstök virk efni: steinefni, kísil og þörungar er mikilvægasti þáttur meðferðarinnar og er lón lækningalindarinnar sérhannað með þarfir meðferðargesta í huga.

Bláa lónið

Bláa lónið – lækningalind.

Rúmgóð innilaug fyllt “Bláa Lóninu jarðsjó” er einnig í lækningalindinni. Lækningalindin er eina húðlækningastöðin í heiminum, sem einbeitir sér eingöngu að rannsóknum og meðferð á psoriasis.”
Frá lækningalindinni norðaustan við Bláa Lónið er fallegur göngustígur í gegnum hraunið, yfir að Bláa Lóninu – heilsulind.
Kunnugir vita að umhverfi Bláa Lónsins býður upp á óteljandi möguleika til útivista, hvort sem um er að ræða styttri eða lengri göngu- eða skoðunarferðir, þar sem hægt er að skoða einstakt umhverfi sem á sér fáa sína líka á jarðkringlunni – líkt og Bláa Lónið sjálft.

Bláa lónið

Bláa lónið – þátttakendur að göngu lokinni.

Nú starfa yfir 90 manns við Bláa Lónið og þegar er byrjað á enn frekari framkvæmdum – hóteli.
Gangan tók 1 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-www.ismennt.is
-www.hs.is
-www.blaalonid.is
-Dagbjört Óskarsdóttir.

Bláa lónið

Bláa lónið.