Haldið var í Maístjörnuna norðan við Hrútagjárdyngju.
Í stórvirkinu “Íslenskir hellar” segir Björn Hróarsson m.a. um Maístjörnuna.
“Maístjörnuna fundur þeir Júlíus Guðmundsson og einar Júlíusson 1. maí 1991. Hellirinn sem er um 480 metra langur er mjög margskiptur og teygir arma sína víða. Nokkuð er um dropsteina og hraunstrá. Skraut þetta er ekki stórvaxið ern er á víð og dreif um hellinn. Illa er innangengt í efri hluta hellisins en þangað liggja þröng göng inn úr hrauntröð. Þar er nokkuð um skraut en hellirinn margskiptur og þar kvíslast fjölmargar minni rásir sem ævintýranlegt er að fara um. Erfitt er að lýsa Maístjörnunni með orðum… Um er að ræða einn af skemmtilegri hellum á Íslandi.”
Í rauninni eru þrjú op á Maístjörnunni; meginopið með “Auganu” innanvert, lítið op skammt austar og það þriðja skammt suðaustar (sunnan við litla opið). Innan við litla opið er rás. Úr henni er hægt að komast í greinótta þverrás, sem síðan greinist á nokkra vegu líkt og stjarna.
Hér kemur lýsing á því sem er innan við stærsta opið (augað).
“Skriðið var inn um “augað”. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir. Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”.
Ekki var að sjá að hellirinn hafi látið á sjá eftir jarðskjálftana undanfarið (2008). Þrátt fyrir að hellinum hafi verið haldið sæmilega vel leyndum hafa hraunstrá í loftum verið brotin á nokkrum stöðum.
Heimild:
Björn Hróarsson, Íslenkir hellar – 2006.