Gerðavellir

Haldið var inn á Gerðavelli ofan við Stóru-Bót í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Ætluninn var m.a. að skoða betur hið þjóðsagnakennda Junkaragerði. Garðarnir um gerðið sjást enn vel. Liggja þeir milli strandar og Brunnanna á Gerðavöllum. Einar Ól. Sveinsson segir svo frá því í útgáfu sinni á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum:

Gerðavellir

Gerðavellir – flugmynd.

“Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn – tólf eða átján – hafst við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma í skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé og vindur standi af landi. En Junkarar reru heldur aldrei nema þar, sem vindur stóð af landi og þá er svo var hvasst, að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir á landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.

Gerðavellir

Gerðavellir – flugmynd.

Og þó að menn kæmust í gerði þeirra, þá er þeir voru eigi þar, þorðu menn eigi að láta Junkara sjá þess nein merki; þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmsra bragða til þess.
Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en Junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björgðust svo til lands.
Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu þá, er í land skyldi róa, því að þá var mótvindur. Þá reru Junkarar við hné sér til lands.
Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli.

Nú reru Junkarar, er vindur stóð af landi; en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig; Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi Junkarar verið af dögum ráðnir.”
Í upphafi sögunnar er getið um stað í “óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur”, sem Junkarar höfðust við í. Ekki er ólíklegt að hér geti verið átt við byrgin í Sundvörðuhrauni þar sem þeir hafi geymt byrgðir sínar. Hafa þeir getað flutt og falið þær þar og verið jafnlagt fyrir alla að sækja þangað aðdrætti þegar þurfa hefur þótt.

Heimild m.a.:
-Einar Ól. Sveinsson – Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – 1952.

Gerðavellir

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.