Járngerðarstaðir

“Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir Grindavíkursjórofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Hraun

Dys við Hraun.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. (Grafið var í hólinn á fimmta áratug 20. aldra. Í ljós kom kapella frá 15. öld. Nefnd dys mun vera á hól vestan Hrauns).

Þyrnir

Þyrnir hjá Járngerðarstöðum.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”

Jón Árnason IV 161 – Brynjúlfur Jónsson skráði – Tillaga til alþýðlegra fornfræða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.