Færslur

Grindavík

Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um þróun byggðar í Grindavík í sögulegu samhengi:

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

Grindavík – yfirlit um sögu byggðar á svæðinu Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.
Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku. Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn. Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Rafnshús

Rafnshús – Járngerðarstaðir fjær.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909. Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar. Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver. Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka. Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Búri

Hraunhellir er skilgreindur sem „almyrkt holrúm í hrauni“

Hellar

Hraunhellar á Reykjanesskaga – yfirlit.

Hraunhellar geta verið hellar af náttúrulegum uppruna eins og hraunrásir (t.d. Búri), hellir í hraundrýlum (finnnst t.d. í Hnúkum ofan Selvogs, hraunbólur, sprunguhellar (sjá Hundraðmetrahellir í Helgadal), gervigígahellar og gígahellar líkt og Þríhnúkagígur í Bláfjöllum. “Hraunhellar geta einnig myndast við svokallaða troðhól, þá treðst kvikan úr eldfjalli undir heitt hraunyfirborðið sem þegar er farið að storkna og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins. Við þetta lyftist yfirborð þess og getur þykknað mikið á afmörkuðum svæðum.” Sjávarróf getur líka búið til hraunhella þegar hraunið er á sjávarsíðum, t.d. í Herdísarvíkurbergi og Krýsuvíkurbergi. En þeir geta líka verið manngerðir.

Til þess að teljast vera hellir er gjarnan við það miðað að holrýmið nái a.m.k. 20 metrum að lengd en annars talað um skúta eða hraunskúta. En í flestum tilfellum er talað um hraunrásir í þessum samhengjum.

Aðallega finnast hraunrásir í helluhraunum þar sem efsta lag þunnfljótandi basaltkviku hefur storknað en bráðið hraunið haldið áfram að streyma í afmörkuðum farvegum undir yfirborðinu. „Rásirnar eru ýmist í gígveggjum eða í efri hluta hins nýrunnað hrauns sem þegar hefur storknað að hluta. Einnig geta slíkar rásir eða hraungöng myndast mun framar í helluhraunum.“ Þegar eldgosið rénar sjatnar í þessum farvegum og eftir standa langir hellar. Stundum þó eru þeir ennþá hálffylltir af hrauni. Svo þarf líka hallinn í göngunum vera nægilegur, til að kvikan gætti runnið niður göngin eftir að ný hættir að berast.

Litadýrð í mörgum hraunhellum er til vegna efnasambanda sem leka úr veggjunum, sbr. hellirinn FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Margs konar myndir finnst í hraunhellum, þar á meðan dropasteina, dropsteina, kleprasteina, hraunfossar og -strá, stundum líka mannvistarleifar.

Efnið má flokkast í 3 hópa: 1) myndun í samhengi við rennsli hraunarinnar í hellinum, t.d. storkuborð; 2) myndun í samhengi við afgangsbráð sem lekur inn í hellinn, t.d. dropsteinar; 3) myndanir sem eru ekki úr hrauni eins og ísmyndanir, sandkastalar, dropasteinar (úr kálki) o.s.fv.

Mest áberandi eru dropsteinarnir og hraunstrá úr hraunbráð.  Þeir myndast þegar hraun er hálf-storknuð og „svokölluð afgangsbráð er á hreyfingu í æðum inni í hrauninu og þrýstist út í holrúm í hrauninu og þar með inn um veggi og loft hellanna. Afgangsbráð sem lekur niður úr hellisloftinu myndar hraunstrá” og spenar “en á gólfinu hlaða droparnir upp dropsteina.“ Dæmi um slíka hella á Íslandi eru Bálkahellir, Snorri, Búri, Raufarhólshellir og margir fleiri.

Dropsteinn

Dropsteinn í Snorra.

Þekktir hraunhellar og -skútar á Reykjanesskagnum eru í dag, árið 2022, a.m.k. 650 talsins. Árið 1975 var fjallað um fjölda hraunhella á Skaganum í Tímanum þar sem nokkrir slíkir voru nefndir til sögunnar. Þess var jafnframt getið að “eflaust ættu fleiri sambærilegir eftir að finnast á næstu árum”. Sú varð raunin. Með tilkomu áhugafólks um hellana fundust allnokkrir áður óþekktir, en finnendur voru oftar en ekki uppteknir við að nefna þá í höfuðið á sjálfum sér, sbr. Stefánshellir. Hellarannsóknarfélag Íslands (HERFÍ) var stofnað, skipað hugsjónarfólki í fyrstu, en breyttist síðar í hóp sérvitringa.

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

FERLIRsfélagar hafa á undanförnum áratugum fundið fjölda nýrra hella á Reykjanesskaga. Fram til 2010 upplýstu þeir HERFÍ um fundina, en eftir að einstrengisleg stefna HERFÍS um lokun hella á svæðinu fyrir öðrum en félagsmönnum varð ofan á, hafa FERLIRsfélagar ekki upplýst félagsmenn um hellafundi. Þeir hafa haldið þeim út af fyrir sig. Í millitíðinni var stofnaður hópur áhugafólks um hellarannsóknir (ÍSHERF), sem er miklu mun áhugaverðari samstarfskostur.

Bjargarhellir

Hraunrós í Bjargarhelli.

Í allnokkrum hraunhellum á Reykjanesskagnum er að finna mannvistarleifar, sem fornleifafræðingar hafa virt af vettugi. Án efa eiga fleiri slíkir eftir að finnast á svæðinu, enda má telja augljóst að fólk á því hafi nýtt sér hin náttúrulegu skilyrði á ýmsan máta við búsetu þess í gegnum árhundruðin.

Eftir að Holuhraun myndaðist norðan Vatnajökuls komu í ljós nýir hraunhellar. Reikna má með enn nokkrum slíkum eftir að áhugafólk fer að skoða hið nýja Geldingadalahraun í Fagradalsfjalli.

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hraunhellir

Maístjarnan

Nýfundnir dropsteinar í helli á Reykjanesskaga.

Grindavík

Grindavík og umhverfi bæjarins er hraun, mismunandi gömul. Flest hraunin mynduðust umleikis hraun frá ísaldarskeiðum fyrir 14000 – 8000 árum. Önnur eru yngri, þau yngstu frá því á 13. öld.

Grindavík

Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst og Þórkötlustaðanes fjærst.

Þorbjörn, bæjarfjallið, er úr móberg frá eldri jökulskeiðum Bruhnes. Þvert í gegnum það liggur misgengi.

Hagafell austan Þorbjarnar er einnig úr móberg frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs.

Húsafell og Fiskidalsfjall ofan Hrauns eru úr móberg frá seinni hluta síðasta jökulskeiðs. Grágrýishetta þekur efsta lag móbergsins.

Siglubergsháls, á milli Fiskidalsfjalls og Festarfjalls er úr grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Grágrýtishetta á móbergi.

Grindavík

Grindavík – Festarfjall.

Festarfjall er úr móbergi frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs. Á því er grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Sjávarmegin, neðst, má sjá ummyndað móberg frá fyrra jökulskeiði.

Fagradalsfjall norðan Festarfjalls er úr móberg frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs. Á því er stapagrágrýti.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

Slaga ofan Ísólfsskála er úr móbergi frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs, þakið grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Ísólfsskáli stendur á Borgarhrauni neðanverðu.

Höfði austan Fagradalsfjalls er úr móbergi frá eldri jökulskeiðum Bruhnes. Grágrýti er ofan þess.

Vatnsheiði er dyngja ofan Húsafells. Aldur: <14.500 >12.500. Bærinn Hraun stendur m.a. á Vatnsheiðahrauninu. Hraunið er Pikrít.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst.

Gerðavellir vestan Járngeðarstaða er hraun frá Sandfellshæð. Aldur: ~13.600 ára. Hæðin er dyngja.

Staðarhverfi er einnig úr hrauni frá Sandfellshæð. Berghraunið/Klofningahraunið er bæði vestan og austan við Stað, Eldvarpahraunið rann síðan yfir það að hluta.

Strýthólahraun

Strýthólahraun.

Hópsness- og Hópsheiðarhraun kemur úr heiðinni ofan Hóps. Hraunið myndaði m.a. Hópsnes- og Þórkötlustaðanes, auk núverandi bæjarstæði Grindavíkur. Á Þórkötlustaðanesu austanverðu er Strýthólahraun. Aldur: <11.500 >8000.

Eldra Beinavörðuhraun milli Sundhnúka og Fagradalsfjalls kom úr gígun undir Sundhnúkahrauni. Aldur: <11.500 >8000.

Yngra Beinavörðuhraun liggur aað hluta til ofan á Eldra Beinavörðuhrauni. Aldur: <11.500 > 8000 ára.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall. Merardalir.

Hraun austan við Einihlíðar milli Fagradalsfjalls og Höfða. Aldur: <11.500 >8000.

Klifhólar/Selháls/Svartsengisfell (Sílingarfell) sunnan og austan Þorbjarnar er hraun og kleprar. Aldur: ~4500 cal yrs B.P.

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

Hraun á Lágafelli og í Lágafellsheiði er dyngjuhraun. Aldur: <11.500 >8000.

Borgarhraun sunnan Fagradalsfjalls og Borgarfells. Aldur: <11.500 > 8000 ára.

Dalahraun austan Sundhnúka. Aldur: <8000 >>3000.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes fremst.

Skollahraun og yngra Afstapahraun (Katlahraun) austan Ísólfsskála. Aldur: ~2000.

Sundhnúkshraun/Háahraun/Blettahraun austan og vestan við Sílingarfell.  Sundhnúkahraun myndaði auk þess Slokahraunið til suðausturs. Aldur: <3000 >2000.

Eldvörp

Eldvarpahraun.

Berghraun/Klofningahraun austan Þorbjarnar. Aldur: ~2100 ára.

Arnarseturshraun/Illahraun/Eldvarpahraun norðan Sílingarfells og norðan og vestan Þorbjörns. Aldur: 1210-1240 AD.

Heimild:
-Ísor.is – jarðfræðikort.

Jarðfræðikort

Grindavík – jarðfræðikort; ÍSOR.

Tobba

Á Vísindavef HÍ er fjallað um myndun kviku og mótun hrauns:
“Bergkvika (kvika, bergbráð, bráð – e. magma) er blanda af bráðnu bergi og gufum, sem ættuð er úr iðrum jarðar. Við storknun kvikunnar skiljast gosgufurnar úr henni, en við storknun bráðarinnar verður til storkuberg. (Þorleifur Einarsson: Jarðfræði).

Kvika

Kvika.

Í einfölduðu máli þá notum við orðið kvika (eða samheiti þess) um efnið niðri í jörðinni. Þegar efnið (mínus gosgufur) fer að renna á yfirborði, og eins þegar það er storkið, þá köllum við það hraun.
Bergkvika myndast við bráðnun bergs í möttli (basalt) og skorpu (ríólít) jarðar. Efnasamsetning hennar er mjög mismunandi eftir myndunarstað, en algengustu tegundir bráða innihalda 45-75% SiO2 og myndast við 1200-700°C á 100-3ja km dýpi í jörðinni.
Hraun (e. lava flow) merkir einkum breiðu eða lag af storknu bergi, en einnig ó- eða hálfstorknuð hraunbráð. Orðið höfðu landnámsmenn með sér frá Noregi þar sem það mun merkja grjóturð eða berghlaup, samanber Hraun í Öxnadal. Í Noregi eru engar eldstöðvar og Íslendingar yfirfærðu orðið til nýrrar merkingar eins og sést af frægum orðum Snorra goða frá Helgafelli á Þingvöllum árið 1000: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Setningin sýnir að Íslendingar skildu snemma tilurð hrauna í eldgosum.”

Á Wikipedia er fjallað um tegundir hrauna, storkun og myndanir:

Eldvarpahraun

Eldvarpahraun – Blettahraun.

“Hraun er bráðið berg eða möttulefni sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200 °C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum. Hraunið sem rennur þá inniheldur minna af uppleystum efnum (gösum) en kvikan.

Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.

Eldvarpahraun

Eldvarpahraun – Blettahraun.

Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.

Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru “Aa-lava” (apalhraun) og “Pahoehoe” (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii-eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.”

Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63785
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hraun

Katlahraun

Katlahraun.

Jarðfræðikort

Í Morgunblaðinu 1978 er viðtal við Jón Jónsson jarðfræðing um aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga (niðurstöðurnar þarf að taka með fyrirvara því ýmiss þróun við áldursákvarðanir hefur orðið síðan viðtalið var birt):

Jón JónssonJón Jónsson jarðfræðingur fékk í júní s.l. 200 þúsund króna styrk úr Vísindasjóði vegna kostnaðar við aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga. Til þess að forvítnast nánar um störf Jóns og rannsóknir átti Mbl. viðtal við hann á skrifstofu hans hjá Orkustofnun í vikunni.
Í byrjun kvaðst Jón hafa átt við rannsóknir sínar á Reykjanesskaga að meira eða minna leyti frá árinu 1960, en þó hafi þær fyrstu 5—6 árin verið hrein ígripavinna hjá sér. Ennfremur hefði hann í tvö ár af þessum tíma verið staddur í Mið-Ameríku á vegum Sameinuðu þjóðanna við jarðhitarannsóknir, fyrst í El Salvador og síðan í Nicaragúa. og í þann tíma ekki hafa getað sinnt þessu starfi.
Á vegg í skrifstofu hans er geysistórt kort af Reykjanesskaganum og aðspurður sagði Jón að hann hefði unnið það eftir loftmyndum, en hreinteikningu þess hefðu jarðfræöingarnir Jón Eiríksson og Sigmundur Einarsson unnið. Slíkt kort hefur ekki áður verið gert af Reykjanesskaga né öðru svæði á Íslandi. En núna næstu daga lýkur prentun á skýrslu Jóns um rannsóknir hans, en skýrslan er kostuð og gefin út af Orkustofnun og er í tveimur heftum.
Gígaröð„Ég hef merkt inn á loftmyndir hvern einasta hraunstraum og hverja eldstöð vestan frá Reykjanestá og austur undir Hellisheiði og þá kortlagt bæði eldri hraunmyndanir og yngri, og hef þá sérstaklega lagt áherzlu á eldstöðvar og hraun sem orðið hafa til eftir að ísöld lauk, þ.e. á síðast liðnum 10—12 þúsund árum. Og það kemur í ljós að ef talið er utan af Reykjanestá og að Hellisheiði þá nálgast eldstöðvarnar töluna 200. Hugsanlega hefur mér einhversstaðar yfirsézt, en ég á orðið mörg sporin á Reykjanesskaganum og held að það geti ekki verið mikið ef eitthvað er. Á þessum tíma, sem ég nefndi áðan, hefur um 42 rúmkílómetrar af hrauni komið upp.”
— Nei, hrauntegundirnar eru ekki þær sömu á þessu svæði. Þeim er skipt í þrjá meginflokka, þ.e. litlar dyngjur, sem gosið hafa því sem við köllum pikrít-basalt og þær virðast vera elztar eldstöðvanna á skaganum eftir að ísöld lauk.

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Sem dæmi um litlar dyngjur get ég nefnt Háleygjabungu, vestast á Reykjanesinu, Lágafell, Vatnsheiði hjá Grindavík, Búrfell í Ölfusi og Dimmadalshæð rétt fyrir ofan Hlíðardal.
— Næst koma svo stórar dyngjur í aldursröð og stærst þeirra er Heiðin há suð-vestur undir Bláfjöllum og er hún nokkuð yfir 60 tengiskílómetra. Önnur stór dyngja er Þráinsskjöldur, sem er gamalt nafn sem ég hef vakið upp á ný og er úr Ferðabók Eggerts og Bjarna, en Þráinsskjaldarhraun þekur alla Vatnsleysuströndina.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Stóru dyngjurnar á Reykjanesskaga hafa lagt til um 70% af hraununum og hafa gosið hrauni sem við köllum olivin þoleít.
— Þriðji og síðasti meginflokkurinn er sprungugosin og má þar nefna sem dæmi gígaraðirnar sitt hvoru megin við VesturHáls.
— Samanlagt er hraunflöturinn 1064 ferkílómetrar og rúmtakið 42 km. Ef þessari framleiðslu er jafnað niður á 10 þúsund ár, þá gerir það 4.2 rúmkílómetra á hverjum þúsund árum.
— Eftir að landnám hófst, þá virðast hafa komið upp hraun sem ná yfir 94 ferkílómetra svæði, að rúmmáli um 1.8 rúmkílómetra. — Í þessum tölum eru reiknuð hraun sem örugglega hafa runnið mjög stuttu fyrir landnám.

Allmörg hraun runnið eftir landnám

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

— Það getum við ráðið af einu ljósu öskulagi, sem kallað hefur verið landnámslagið og hefur fallið um árið 900, en það fann Sigurður Þórarinsson fyrst austur í Þjórsárdal og reiknar hann aldur þess út frá rústunum sem þar finnast. Þetta lag er að finna víðsvegar á Reykjanesskaga en í því fann ég kolaðar viðarleifar og við aldursákvörðun þeirra fékkst árið 910 og þá eru skekkjumöguleikar ekki teknir með. Það sýnir að hraun, sem yfir lagið hefur runnið, hlýtur að vera yngra.
— Í ljós hefur komið, að allmörg hraun hafa runnið eftir að landnám hófst og má þá telja Tvíbollahraun um 875, Rjúpnadyngnahraun um 900, Breiðdalshraun um 910, Nýjahraun eða Kapelluhraun um 1010, Ögmundarhraun um 1340 og Selvogshraun um 1340, en fasta aldursákvörðun hef ég ekki á því. Ögmundarhraun er því yngst og virðist ekki hafa gosið frá því að það kom upp.
Af eldri hraunum má telja Leitahraun sem upp hefur komið fyrir um 4600 árum, og er sú aldursákvörðun fengin með geislakolsrannsóknum eða C14 ákvörðun. Sandfellsklofahraun er um 3000 ára, en það er við vesturenda Sveifluháls, Sundhnjúkahraun við Grindavík um 2400 ára og Óbrynnishólar yngri sem eru um 2100 ára.
— Reykjafellshraun, sem ég leyfi mér að kalla svo en sumir kalla Kristnitökuhraun, reynist vera um 1800 ára, en í þessum tölum tek ég skekkjumöguleika ekki með.

Styrkurinn hrekkur ekki til

Strompahraun

Strompahraun.

— Ég veit um kolaðar gróðurleifar undir nokkrum hraunum og það er til aldursákvörðunar á þeim sem ég ætla styrkinn ur Vísindasjóði. Það er hraun úr Stóru-Eldborg undir Geitarhlíð austan við Krýsuvík og Litlu-Eldborg á sama stað. Þ.e. Ögmundarhraun og eldra hraun undir Ögmundarhrauni og svo hraun sem ég kalla Strompahraun, og það nafn hefur Örnefnanefnd samþykkt svo að það er löglegt að setja það á kort.
— Nei, það er sýnilegt að styrkurinn hrekkur ekki til þessara rannsókna og því til stuðnings get ég talið til að hver aldursákvörðun kostar um 800 sænskar krónur, sem er þó nokkur fjárhæð. Við sendum sýnin út til aldursákvörðunar, en til þess þarf í raun heila rannsóknarstofu.
Tækjakosturinn minn? Ég nota aðeins smásjá, en til ákvörðunar á bergtegundum geri ég þunnsneiðar af berginu og í smásjánni má greina flest alla kristallana í því, nema málma sem eru um 10% af því.

Leiti

Leiti.

— Ég hef hlerað það að þeir í Háskólanum hafi áhuga á að koma upp rannsóknastofu þar sem m.a. mætti aldursgreina bergmyndanir og nota til rannsókna varðandi fornfræði og fleira, en slíkt fyrirtæki er mjög kostnaðarsamt og landið okkar er lítið.
— Nei, það er rétt að ekkert annað svæði á Íslandi hefur verið tekið fyrir á þennan hátt. Það sem er áhugavert við Reykjanesskagann er að hann er hluti af Reykjaneshryggnum eða Mið-Atlantshafshryggnum sem nær eftir Atlantshafinu endilöngu. — Og á þessum hrygg eiga nær allir jarðskjálftar upptök sín, en þessi hryggur liggur um Ísland þvert og það er raunar þetta sem við köllum gosbeltið. Á því eru allar eldstöðvar sem virkar hafa verið eftir að ísöld lauk og öll hájarðhitasvæðin. Atlantshafshryggurinn hefur vakið athygli jarðvísindamanna á síðustu áratugum og Reykjanesskaginn er eitt af þeim fáu svæðum sem er ofan sjávar og sá eini sem hefur í heild verið kortlagður eins nákvæmlega og nú hefur verið gert.
— Ég tel að með þessari vinnu minni sé lagður grundvöllur fyrir jarðfræðinga, efnafræðinga og jarðeðlisfræðinga til frekari rannsókna og fjölþættari en ég hef þegar gert. Ég vonast sem sagt til þess að þetta verði sæmilega traustur grundvöllur fyrir aðra að byggja á og ef sú verður raunin þá er ég ánægður. – ÁJR

Heimild:
-Morgunblaðið, 184. tbl. 26.08.1978, “Litlar dyngjur virðast elstar eldstöðvanna á Reykjanesskaga” – Rœtt við Jón Jónsson jarðfrœðing um aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga, bls. 8-9.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Hólahjalli

Eftirfarandi spurning var send til FERLIRs þann 1. ágúst 2021. Sendandinn nefndi sig Björgvin.

“Góðan daginn.

Hólahjalli

Hólahjalli – göngustígur og skúr framundan.

Vitið þið söguna á geymslunni hjá rólóvellinum fyrir neðan Hólahjalla? – hnit: 64°06’31.3″N – 21°52’57.4″W.
Bestu kveðjur og takk fyrir fróðleikinn hérna inn á.”

FERLIRsfélagar fóru á vettvang og skoðuðu aðstæður. Þarna, neðan Hólahjalla og ofan Heiðarhjalla í Digraneshæð (-hlíð) í Kópavogi, er trjágróið svæði á milli. Lítill róluvöllur er á því vestanverðu. Göngustígur gengur langsum eftir því neðan og ofan húsaraðanna. Skammt austan og ofan við róluvöllinn eru læsta dyr á steyptum skúr þöktum torfi. Svo virtist sem skúrinn væru leifar af eldri byggð í hæðinni, en þarna voru á frumbýlisárum Kópavogs u.þ.b. 15 smábýli eða “blettir”.

Send var fyrirspurn til skipulags Kópavogsbæjar.
“Sæl, getið þið upplýst hvað mannvirki er hérna um að ræða – á grónu svæði neðan Hólahjalla (gulur hringur) – sjá meðfylgjandi mynd. Á það sér einhverja sögu?”
Ólíkt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þegar sambærilegar fyrirspurnir eru sendar á vefföng þeirra, barst fljótlega svar frá Karlottu.

“Sæll FERLIR.
Skúrinn er á bæjarlandi og er læstur, það eru í raun einu upplýsingarnar sem ég hef fyrir þig núna en ég ætla að áframsenda fyrirspurn þína til garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar sem kemur úr sumarfríi eftir helgi. Mér þykir líklegast að hann hafi upplýsingar um mannvirkið.”

“Sæl Karlotta,
og þakka viðbrögðin. Líklega er þarna um að ræða hluta af einu smáhýsanna 15 sem voru þarna í hlíðinni fyrrum, en voru látin víkja fyrir nýrri byggð. Spurningin er um hvort vitað sé hvaða smábýli það tilheyrði og á það sér einhverja skráða sögu fyrst þessi hluti fékk að standa óhreyfður?”

Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri, brást vel við:

Hólahjalli

Hólahjalli – skúrinn.

“Sæl verið þið.
Skemmtilega útgáfan er að þetta sé inngangur í neðanjarðabyrgi frá kaldastríðsárunum en raunveruleikinn er sá að þetta var víst byggt sem kartöflugeymsla af þeim sem þarna fengu úthlutað sk. ræktunarreit á fimmta áratug síðustu aldar, þar sem nú er Hólahjalli og Heiðarhjalli.”

“Sæll,
þakka kærlega fyrir upplýsingarnar. Getur þú nokkuð frætt okkur hverjum ræktunarbletturinn tilheyrði á meðan var?”

“Sæl aftur.

Hólahjalli

Uppdráttur frá 1990. Hús nr. 2 er Digranesblettur 73.

Sjá meðfylgjandi uppdrátt frá 1988 sem ég skannaði. Grunnurinn gæti samt verið eitthvað eldri því sum þessara húsa voru horfin 1988.
Þarna var Digranesblettur 73, kallaður Hraun, sem var 0,71 ha að stærð. Erfðafestusamningur var gerður um landið við Axel H. Sölvason 9. ágúst 1938.
Skv. grófmælingu stóð húsið þar sem rólan er núna og kartöflugeymslan hefur þá verið aftan við húsið.
Hér að neðan er svo annar uppdráttur gerður 1990, áður en gatnagerð hófst á svæðinu, þar sem gróður er innmældur. Hús merkt nr. 2 er Digranesblettur 73 og nr. 1 er Digranesblettur 61A.”

Kveðja,
Friðrik Baldursson.

FERLIR þakkar framangreindu fólki sérstaklega góð viðbrögð og fróðleikinn.
Skúrinn, sem spurt var um, er sem sagt hluti leifa af Digranesbletti 73, nefndur Hraun. Ef einhver lesandinn kann nánari skil á smábýlinu og því fólki, sem þar bjó, væri gaman að geta þess í framhaldinu. Veffangið er ferlir@ferlir.is.

Hólahjalli

Digranesblettir 73 – uppdráttur frá 1988.

Festarfjall

Í Faxa 1985 fjallar Ingvar Agnarsson um Festarfjall:

I
Útlit og myndun
FestarfjallLóðrétt rís Festarfjall upp frá flæðarmáli, þar sem öldur úthafsins brotna á ströndinni og skella á klettum fjallsins í fjöruborði og mynda sumstaðar hella og skúta.
Þetta sífellda gnauð hafsins við rætur fjallsins veldur því, að stöðugt hrynur úr því, og allt það efni sem niður hrynur, hreinsar hafið burt úr fjörunni og ber með sér út í djúpið, þar sem lygnara er. Skemmtilegt er að virða fyrir sér þetta stórbrotna fjall, skoða lögun þess og línur og reyna að gera sér nokkra grein fyrir myndunarsögu þess. Við sjáum í raun inn í miðju þessa fjalls, því eitt sinn var það miklu meira um sig. En sjórinn hefur mulið niður allan suðurhelming þess svo nú sjáum við þversnið af fjallinu allt frá tindi þess, sem er 193 m hár og niður að sjó. Og hér gefur á að líta: Fjallið er að mestu leyti móbergsfjall, og þá sennilega myndað við eldgos undir jökli. En ekki er hér um eindregna móbergsmyndun að ræða. Sýnist mér, að skipta megi myndun fjallsins í nokkra hluta eða þætti.
FestarfjallFyrst er þykkur móbergsstabbi frá sjó og upp undir þriðjung af hæð fjallsins, en þar gengur blágrýtislag lárétt frá austri og næstum þvert í gegnum fjallið, en endar þar snögglega við breiða gjá er gengur upp fjallið. Vantar aðeins spölkorn á, að það nái út úr því að vestanverðu. Undir þessu blágrýtislagi er lag af rauðri eldfjallaösku eða gjalli. Þetta hraunlag hlýtur að hafa runnið á hlýskeiði, og sennilega eftir að jökull hefur sorfið ofan af upphaflegri móbergsmyndun fjallsins, svo að það hefur verið orðið allt að því lárétt, a.m.k. á þessum kafla sem hraunlagið hefur runnið yfir. En þessi hluti móbergsins undir blágrýtislaginu er hluti af miklu víðáttumeira móbergssvæði, bæði austan og vestan við Festarfjall. Á einum stað gengur berggangur sem kallast Festi lóðrétt upp í gegnum móbergsstabbann frá fjöru og endar uppi við blágrýtislagið. Þessi gangur er um 1—1,5 m þykkur og er myndaður úr þunnum lóðréttum flögum, en ystu flögurnar, þær er snerta móbergsveggina beggja vegna eru þó dálítið stuðlaðar lárétt.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur Íslands, í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli. Uppgötvaði m.a. berggang Lyngfells í ferðinni.

Eftir myndun þessa hraunlags í neðri hluta fjallsins hafa jöklar aftur fært hér allt í kaf og á því ísaldarskeiði, líklega því síðasta, hefur svo aftur farið að gjósa á svipuðum slóðum og fyrra skiptið, og nú undir þessum nýja jökulskildi. Og hér hefur hlaðist upp móbergsfjall ofan á blágrýtislaginu og eldra móberginu, sem undir því liggur. Nú verður þessi nýi móbergsstabbi svo hár að hann nær alla leið upp úr jöklinum. Og eftir það getur hraunið, sem vellur upp úr gígnum, runnið óhindrað án þess að breytast í móberg í köldu jökulvatninu. Hin hraða kólnun gosefnanna á sér ekki lengur stað. Og blágrýtishetta myndast efst á þessu fjalli, sem nú hefur skotið kryppunni upp úr hinum mikla frera, tindur Festarfjalls ber þessu vitni enn í dag. Því efsti hluti fjallsins, sem reyndar er lítill um sig, er þakinn blágrýtishellu í nokkrum goslögum þó og undir henni er allþykkt lag af rauðu gjalli eða eldfjallaösku. Hér mun vera um svokallaða stapamyndun að ræða, en skv. kenningum Guðmundar Kjartanssonar, jarðfræðings, eru slík fjöll mynduð undir jökli (eða í vatni), nema efsti hlutinn, sem upp úr hefur komið.

Festarfjall

Festarfjall og nágrenni – loftmynd.

Nefna mætti ýmis stapafjöll, eins og t.d. Hrútfell, Herðubreið, Hrafnbjörg, Eiríksjökul og m.fl. sem talin eru mynduð undir jökli og Surtsey sem nýlega myndaðist í sjó.
Ef þessi tilgáta mín er rétt, um myndun Festarfjalls, þá er hér um að ræða eitt af þessum merkilegu fjöllum, sem myndast hafa á þennan sérstaka hátt, og sem svo mjög einkenna landslag á Íslandi.
Og ef Festarfjall hefur hlaðist upp í tveim aðaláföngum á tveim ísaldarskeiðum eins og hér var gert ráð fyrir þá mun hér vera um nokkra sérstöðu að ræða meðal íslenskra stapafjalla.

II.
Fjara og brim undir Festarfjalli

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Skemmtilegt er að koma í fjöruna undir Festarfjalli, þegar sól skín í heiði, enda eru margir farnir að leggja þangað leið sína á góðviðrisdögum á sumrum. Hjón koma þarna með börn sín, sem hlaupa glöð um sandinn. Og séð hef ég fólk steikja kjöt á grilltækjum sínum og nokkrar fjölskyldur safnast saman og halda einskonar útihátíð þarna undir gnæfandi björgunum, sem enduróma af undirleik öldunnar, þar sem hún freyðir við sandinn og leikur sér við að væta litla fætur, sem fara í eltingarleik við hana. En sá leikur er auðvitað ekki hættulaus og betra að gæta varúðar; í norðanátt er þarna ávallt logn, en nær aldrei mun vera bárulaust með öllu, og stundum duna öldurnar við ströndina með miklum gný, þótt logn sé um allan sjó. Þarna mætist hrikalegt landslag og stórbrotnar haföldur, og hefur landið orðið að láta undan síga í þeim átökum. Staðhættir allir bera þess ljós merki.

Festarfjall

Festarfjall – brim.

Ekki er hættulaust að ganga undir þessum hrikabjörgum. Varð ég vitni að því eitt sinn, er ég var þarna staddur, ásamt mörgu öðru fólki, að stórgrýtisskriða hrundi úr björgunum nálægt Festi, ganginum sem áður var lýst, og dreifðist um allstórt svæði í fjörunni með miklum gný. Rétt áður var þarna fólk á ferli, hjón frá Keflavík. Þau heyrðu drunur rétt fyrir aftan sig og varð heldur en ekki hverft við. Þarna munaði litlu að stórslys yrði.
Ekki veit ég hvort svona skriðuföll gerast oft. Helst mundi það vera í rigningu, því bergið er nokkuð laust í sér. En einnig er hér talsvert af sjófugli í klettunum og kunna þeir að koma grjóthruni af stað.

III.
Nauðsyn undirstöðuþekkingar í jarðfræði

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Þegar ferðast er um byggðir og óbyggðir landsins, er nauðsynlegt að þekkja helstu örnefni og setja á sig helstu útlitseinkenni og legu hins fjölbreytta landslags á hverjum stað. Þar er um að ræða aðalatriði landafræðinnar. Ekki er síður áhugavert, að kynna sér þá þætti landsins, sem tilheyra jarðfræðinni, myndun og þróunarsögu landslagsins á hverjum stað.
Í barnaskólum er snemma byrjað á að kenna landafræði, og er það vel. En ekki er síður mikilvægt að kunna nokkur skil á jarðfræðilegum atriðum. Þegar ferðast er um landið, mundi það mjög auka á ánægju hvers og eins að geta skoðað og hugleitt það sem fyrir augu ber, út frá jarðfræðilegum skilningi, og þeirri þekkingu sem þegar er fyrir hendi í þeirri grein, en þar hefur orðið um miklar framfarir að ræða, allt frá síðustu aldamótum. Kennslu um helstu atriði jarðfræðinnar þyrfti að taka upp í öllum skólum, miklu fyrr en nú er gert.” – IA

Í Lesbók Morgunblaðsins 06.11.1949 er í “Fjaðrafoki” vitnað í lýsingu Jóns Trausta á Fagradalsfjalli:

Festarfjall – nafnið

Festarfjall

Festarfjall – málverk.

“Eitt örnefni lærði jeg að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur.
Það er Festarfjall, rjett innan við Grindavíkurbygðina. Mjer var sagt, að það drægi nafn af því, að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum.
Frá þeim tíma hengi festar miklar framan í fjallinu ofan bjargið og væri ein þeirra úr gulli. Þegar jeg nálgaðist Festarfjall sá jeg undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefur sprungið sundur við jarðrask einhvern tíma fyrir langa löngu og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að þessar sprungur hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefur verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar.” – (Jón Trausti).

Í Rauðskinnu er sagan af festinni í Festarfjalli:

Festarfjall – þjóðsagan

Festarfjall

Festarfjall – berggangur.

“Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.” – Rauðskinna I 45

Heimildir:
-Faxi, 6. tbl. 01.08.1985, Festarfjall – Ingvar Agnarsson, bls. 260 og 276.
-Lesbók Morgunblaðsins, 41. tbl. 06.11.1949, Fjarðrafok, bls. 508.
-Rauðskinna I 45.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellar.

Hraun

Meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu 22. des. 1963 undir fyrirsögninni “Í stríði á Fagradalsfjalli”:

„Þarna í víkinni við kambinn er hrönn af vikri,” sagði Magnús. „Allt kemur þetta úr Surtsey. Það eru meiri ósköpin sem hún gýs frá sér. Það er eins og það sé dálítið móberg i vikrinum.”„

Langholl-221

En hvað er þetta?” spurði ég og benti á stóra, rauða belgi, sem lágu í fjörunni.
„Þetta eru rússablöðrur,” svaraði hann. „Þeir nota þær á reknetin.”
„Ætlarðu ekki að hirða þær?”
„Nei, það fæst ekkert fyrir þær.”
„Eigum við þá ekki að stinga á þeim og hleypa loftinu út?”
„Nei, það fer allt vestur í þessari átt. Það er nóg samt.”
Við stóðum í fjörunni fyrir neðan túnið og töluðum við Magnús Hafliðason á Hrauni, þann garp. Ég hafði komið hingað áður fyrir tveimur árum og átt samtal við Magnús sjötugan, en ætlaði nú að ganga með honum á Fagradalsfjall og skjóta rjúpur í jólamatinn; ætlaði þó að vísu ekki að skjóta sjálfur því eg er í Rjúpnafélagi Jónasar Lois-221Hallgrímssonar, en langaði að sjá hvernig þessi nafntogaða skytta gengi til verks. Og svo voru fjöllin eins og segull í desemberskuggunum; veðrið eins og á vordegi, hlýr andvari af austri, þurrt en skýjað. Þar sem við stóðum í fjörunni og horfðum út á hafið fundum við glöggt, að við þurftum ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því að hann mundi skella saman á fjallinu, öldurnar teygðu sig upp í vikurinn, engin þeirra hvít í föll, þetta var hroði. Ég rifjaði upp fyrir mér það sem Magnús hafði sagt mér um franska togarann sem hér straedaði 1931 ag spurði hann nú, hvar togarinn hefði lent. Það vatnaði yfir Skarfatanga beint út af Víkurkambinum:
„Þarna var það,” sagði hann og benti.
“Í túnfætinum?” spurði ég undrandi.
magnus Haflidason-21„Já. Það var engu líkara en þeir ætluðu að leggja honum hér í hlaðinu,” sagði Magnús og brosti í skeggið. Svo benti hann austur fjöruna, þar sem reis allmikið fjall og gekk í sjó fram. „Þetta er Festi,” sagði hann. „Bjarni Sæmundsson sagði að hún væri eitt sérkennilegasta fjall á landinu. Hún er laus í sér og kolbrunnin, það hrynur stanzlaust úr henni” — benti síðan í fjöruna nær túninu:  “Og þarna strandaði brezki togarinn Lois í ársbyrjun 1945, ef ég man rétt. Ég hef aldrei sagt þér frá því. í hitteð fyrra töluðum við bara um fransmanninn. Þegar hann strandaði var bræluvindur af landsunnan, en þegar Englendingurinn sigldi upp var logn þó brimið væri óskaplegt, eitt hið mesta sem ég man eftir. Hann sleit úr sér snjó, en samt virtist engin sérstök ástæða til að sigla upp í fjöru. En brimið var aftök. Það var frekar smástreymt, en sjórinn samt tekinn að falla uþp á tún með hálfföllnum sjó að, svo mikið var brimið. Kvöldið áður var ég einn heima, því dæturnar voru á barnaballi. Ég háttaði snemma og las í bók, en húsið skalf svo og nötraði að ég gat ekki lesið í köflum. Ég óttaðist um telpurnar, en þær komu heim um nóttina og einhvern veginn gátum við sofnað, þrátt fyrir veðrið. En svo blálygndi hann um hádegi næsta dag. Um níuleytið þá um kvöldið strandaði togarinn. Skömmu áður sagði ég við telpurnar: „Þið skuluð fara að hátta, þið vöktuð svo lengi fram eftir í nótt.” Stuttu síðar kemur Ingi björg dóttir mín upp með óvanalega miklu fasi má segja, því hún er heldur róleg, og segir: „Það er eitthvert ljós að sjá í Festi, og eins og verið sé að vagga því til.” Mér datt strax í hug að skip væri komið upp í fjöruna, gekk út og horfði austur með landi. Þá sá ég ljós og ekki um að villast að það var á skipi. Ég flýtti mér upp eftir að athuga hvað hafði gerzt og þegar ég kom á strandstaðinn heyrði ég köllin í körlunum.
Langihryggur-221Og þú hefðir átt að heyra skröltið í togaranum, þegar hann veltist á klöppinni. Áður en ég fór á strandstaðinn hafði ég gert björgunarmönnum í Grindavík aðvart, og komu þeir von bráðar. En þó logn væri, var brimið svo mikið að mér datt sem snöggvast í hug að enginn maður mundi komast heilu og höldnu gegnum rótið. Svo mikið var brimið að mannskapurinn varð að halda í tóið, því ekki var viðlit að binda það. En samt var öllum bjargað nema skipstjóranum, og voru þeir komnir heim í hús um miðnætti. Ég tel að skipstjórinn hefði átt að komast af eins og hinir, en það var eins og hann kærði sig ekki um það.
Sjórinn var mörg ár að vinna á togaranum. Við höfðum svolítið upp úr þessu strandi, gátum sótt okkur kol fram eftir vetri og kynt. Flestum finnst hlýjan góð, sama hvaðan hún kemur, en þó verð ég að segja að ég hef alltaf kunnað bezt við mig að vera dálítið þvalur.”
Langihryggur-222En ferðin að Hrauni var ekki farin í þeim tilgangi að standa í fjörunni og láta tímann ganga sér úr greipum. Við kvöddum nú frú Önnu, konu Magnúsar, sem alltaf er opinn faðmur hlýju og gestrisni þegar maður kemur í heimsókn, og lögðum af stað að Borgarhrauni. Magnús sagði okkur á leiðinni nokkur örnefni og væri tómt mál að rifja þau hér upp: Húsafell, Fiskidalsfjall, Tryppalágar, Þorbjörn — nei, ég hefði annars átt að nefna hann fyrstan, því hann heyrir frekar til leiðinni frá Keflavíkurvegi að Grindavík en þeirri sem við nú fórum. Þorbjörn er sterkt nafn, en óvanalegt á fjalli. Mér finnst fjall með því nafni hljóti að vera traust og innhverft.
Og áfram var haldið. Við skildum bílinn eftir við þjóðveginn, gengum yfir Borgarhraunið í átt til Fagradalsfjalls og fórum heldur hægt, því Magnús sagðist vera orðinn þessi veraldarinnar ræfill. Samt þótti okkur hann ganga nógu hratt, með byssu um öxl og prik í hendi, og áttum við fullt í fangi með að halda í við hann. Leiðin yfir hraunið er sæmilega greiðfær — og þó. Magnús stanzar, litast um og segir: „Þetta er nú heldur tuðrótt leið, hér hafa goðin einhvern tima reiðzt.” Pikkaði svo með prikinu í grænan mosann og leitaði að sprungu.
Kastid-221„Þær liggja allar frá útsuðri í landnorður,” sagði hann, „það eru meiri katlarnir, sem hér eru á hverju strái. Allt hefur þetta land logað á sinni tíð. Sagnir eru meira að segja til urri eldsumbrot á þessum slóðum eftir landnámsóld. Þegar snjór liggur yfir hrauninu, er víðast hvar autt yfir holunum af trekki og hlýju sem kemur neðan frá. Undir Reykjanesinu er ekkert nema holrúm og eldur, og þar hafa kyndararnir líklega nóg að gera. Þið ættuð að sjá eldgígina við Tófubrunna og Latshóla, ef þar er ekki eitthvað óhreint undir veit ég ekki hvar það ætti að vera. Og ég hef oft séð hvernig húðar yfir holurnar hér í hrauninu af þunnum vatnsklaka. Fyrir norðan Þorbjörn rýkur úr jörð, þar eru hverir. Hér rýkur þó ekki. Bezt gæti ég trúað því, að Surtur kæmi ekki að sunnan, heldur héðan að ofan. Hann hefur bara haft sig upp þarna suður frá í þetta sinn.” Hann leit norður um og benti með prikinu á Fagradalsfjall: „Hér var þoka í gær,” sagði hann, „og sá ekki í loft. En nú er veðrið eins og bezt verður á kosið. Þetta má kalla heppni. Kastid-223Það fer fínasti farðinn af svona ferðalagi þegar veðrið er vont.”
Síðan héldum við áfram og gengum fram hjá álitlegum grasflötum, sem Magnús nefndi Tryppalágar.
„Hvað hefurðu skotið flestar rjúpur á dag?” spurði ég.
„Sextíu,” svaraði hann.
„En á hausti?”
„O, ég hef komizt upp í fjögur hundruð. Það er svolítið starf að bera sextíu rjúpur þessa leið,” bætti hann við og benti á nyrztu brún Fagradalsfjalls: „Þarna er aftökustaður rjúpunnar,” sagði hann.
„Þú étur auðvitað oft rjúpur ?” spurði ég.
„Nei, mér þykir hún ekki góð. Það er of mikið grasbragð af henni. Svið eru betri. En beztir eru mávsungar. Þeir eru lostæti. En nú vantar líklega snjóinn. Hérna skeljaði um daginn, þegar fönn lá yfir hrauninu. Þá fórum við fimm saman og fengum tuttugu rjúpur, ég rakst af tilviljun á smáhóp og náði þeim öllum, þær voru tíu. Kristinn Stefánsson var óheppinn, hann fékk aðeins eina, þó er hann góð skytta. En Snorri læknir gat ekki komið, hann þurfti að fara utan á kongress. Mér líkar vel við þá báða, þeir eru prúðir og kurteisir eins og allir menntamenn eru nú á dögum, það er eitthvað annað en kaup mennirnir í gamla daga. Já, og svo þykir mér hangikjöt ágætt og miklu betra en rjúpur. En eigum við ekki að slá í, okkur miðar ekkert áfram með þessu móti. Áðúr var hún í stórum breiðum eins og fugl í bjargi. Þá kom hún á kvöldin niður í hraun, ef norðanátt var, en nú er eins og hún staldri ekkert við.”
Rjupa-221Hann tók nú á rás og engu líkara en hann hlypi, ég heyrði að hann muldraði í barm sér: „Þetta er meiri gangurinn, hálftuðrótt fyrir lassa eins og mig.”
Við litum til baka. Bíllinn var horfinn úr augsýn og fram undan blasti við fjallið og hækkaði eftir því sem nær dró. Magnús hafði þungar áhyggjur af landsmálum og talaði um pólitík meðan við gengum síðasta spölihn að fjallinu. Hann sagðist strax hafa gert sér grein fyrir því að uppbótakerfið mundi steypa landinu. „En maður skilur þetta víst ekki,” sagði hann mæðulega, „það er ljóti atvinnuvegurinn þessi stjórnmál. Þeir standa upp, kreppa hnefana, rífast, bera þungar sakir hver á annan, setjast aftur, ganga út í horn, takast í hendur, klappast á, og þá syngur hún annað bjallan hjá þeim. Og svo borgar landið brúsann.”
Fagradalsfjall-225Nú vorum við komnir í Selskál, sem er kriki við fjallsræturnar. Þaðan er gengið upp Görnina, sem svo er kölluð. Hún sker fjallið eins og renna, og þegar upp er komið liggur hún eftir því endilöngu, slétt og greiðfær með grösum og lyngi, en vestur úr henni rís Kast, allhátt fjall og bratt í rætur.
„Það var þægilegra að komast á Skálafell,” sagði ég á leiðinni upp Görnina.
„Jæja-já,” sagði Magnús.
„Ég fór í jeppa.”
„Það eru ófá jeppaförin í landinu,” svaraði hann. „Þú hefur auðvitað verið að leita að veiðibjöllueggjum?” bætti hann við.
„Nei, ég var að horfa yfir landið.”
„Það er mörg matarholan í landinu,” sagði hann. „En fyrst þú ert að hugsa um landið, þá er bjart í dag, og við verðum komnir upp áður en mistrið læðist yfir hraunið.” Ég var hættur að spyrja um rjúpuna, hún skipti ekki lengur máli. „Þessi fjöll eru banaþúfa margra vaskra drengja,” sagði hann þegar upp var komið.
„Nú hvers vegna?” spurði ég.
Magnus Haflidason-22Í vesturslakka Kastsins fórst flugvél Andrews, yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu. Ég kom ekki að flakinu fyrr en nokkru síðar. Í norðausturhorni Fagradalsfjalls, þar sem heitir Langhóll, fórst enskur flugbátur í stríðinu. Þangað hef ég síðar komið og skotið rjúpur í flakinu. Ekki hef ég orðið var við annað kvikt á þessum slysastöðum. Og hérna suðuraf heitir Langihryggur og gengur út úr Borgarfjalli, þar fórst enn ein flugvélin í stríðinu. Ég var með þeim fyrstu sem komu á staðinn. Það var ljót aðkoma. Það var eins og fjöllin hefðu gengið í lið með Þjóðverjunum og líkast því að þau hafi gert gyllingar til að ná sem flestum flugvélum bandamanna. En nú er farið að fyrnast yfir þessa atburði. Og sem betur fer ætti fáum að standa ógn af hálendinu, eins og tæknin er orðin, ja nema auðvitað blessaðri rjúpunni. Hún nýtur ekki góðs af tækninni, nema síður sé.”
Við báðum Magnús að segja okkur frá aðkomunni á Langahrygg. Hann sagði:
Langihryggur-228„Við Ísólfur í Ísólfsskála höfðum séð flakið tilsýndar, þar sem það lá norðaustan í hryggnum. Englendingar báðu okkur að koma með sér og við fórum í skriðdreka yfir hraunið, það var heldur svona tuðrótt. Þegar við komum að flakinu lágu tólf flugmenn, Bretar og Bandaríkjamenn, dauðir til og frá í brekkunni, brunnir eða limlestir.
Brezku hermennirnir höfðu ekki leyfi til að ganga að flakinu og biðu átekta eftir foringja sínum. En fyrst ég var kominn á staðinn vildi ég skoða brakið og vegsummerki. Ég sagði við sjálfan mig: Ef þeir reka mig burt, þá er ég farinn og læt þá um þetta. En þeir hreyfðu hvorki legg né lið til að koma í veg fyrir að ég gengi inn í brakið og virti fyrir mér þessa hörmulegu sjón. En það er bezt ég fari ekki út í að lýsa þessu nánar fyrir þér. Þú getur hvort eð er ekki birt það á prenti. Það er yfirþyrmandi. Alúminíum hafði runnið um brekkuna eins og lýsi og var nú storknað að sjá, fallhlífar lágu á víð og dreif, skór, Kastid-229fótur. Líkin voru vafin inn í fallhlífarnar og flutt til byggða. Það voru þung spor. Nú er flakið horfið, fjallið byrjað að gróa upp og tíminn hefur grætt sárin. Og nú glottir aftur til.”
Þegar við gengum norður Görnina gerði hann svolitla kælu af austri. Engin rjúpa sjáanleg, enda höfðum við meiri áhuga á fjallinu, þar sem Andrews fórst með fylgdarliði sínu, og punktur var settur fyrir aftan einn kapítula styrjaldarsögunnar. Ekki vildi Magnús ganga á slysstaðinn. „Það er óartarkrókur,” sagði hann. Við stóðum nokkra stund og blíndum á fjallið, horfðum svo niður á hraunbreiðuna fyrir neðan okkur og undruðumst hvað flugvél hershöfðingjans hefur flogið lágt, þegar slysið varð. Engir þeirra höfðu komið áður til Íslands, þeir voru ókunnugir feigð þess og fjöllum. Í sumar voru liðin 20 ár frá því slysið varð. Ég rifjaði það upp með sjálfum mér. Ég hafði alltaf haldið að flugvél Andrews hefði lent á Keili. Þess vegna hef ég oft litið hann hornauga, en nú varð mér ljóst að ég hafði haft hann fyrir rangri sök. Þannig leiðir tíminn staðreyndirnar í ljós, og nú finnst mér Andrews-221Keilir fallegri og tignarlegri en nokkru sinni fyrr. Ég mundi eftir jarðarför hershöfðingjans og manna hans, við drengirnir stóðum niður við Austurvöll, ef ég man rétt, og horfðum á líkkisturnar fjórtán, þar sem þær voru bornar út úr Dómkirkjunni, hlustuðum á sorgarlögin, virtum fyrir okkur heiðursvörðinn. Þannig eltum við stríðið, það er partur af lífi okkar, óljós minning, skuggi þeirrar sólar sem nefnd er æska.
Slysið varð mánudaginn 3. maí 1943, en vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá því í íslenzkum blöðum fyrr en þremur dögum síðar. Þá hafði Morgunblaðið fengið fréttina frá Washington. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjamanna um allan heim. Skömmu áður hafði Spellmann, þáverandi Andrews-memorialbiskup en nú verandi kardináli, farið svipaða för á vegum kaþólsku kirkjunnar. Augljóst er af fyrirsögn fréttarinnar í Morgunblaðinu, að hún hefur verið öllum kunn, þegar hún loks var birt. Þar stendur: „Fjórtán (svo) manns voru í flugvjel Andrews hershöfðingja.” Hvorki í þessari fyrstu frétt af slysinu né nánari frásögn daginn eftir er sagt frá því, hvar flugvél hershöfðingjans hafi farizt og margt annað þykir manni nú vanta í frásögnina. Sá sem komst af hét George Eisel frá Colombia. Hann var afturskytta í Liberator-flugvél hershöfðingjans og sat fastur í stélinu í 26 klukkustundir. Hann hafði oft áður komizt í hann krappan, hafði t. d. bjargazt þegar flugvél hans var skotin niður yfir Túnis og þrír félagar hans farizt. Flugvélar hans höfðu gert loftárásir á borgir í Norður-Afríku, Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu. í stuttu samtali sem Ívar Guðmundsson átti við hann segir hann m. a. um slysið:
„Við flugum meðfram ströndinni og yfir marga tanga, en svo kom að því að einn þeirra skagaði of langt upp í loftið og við rákumst á.” Hann telur að allir mennirnir hafi dáið um leið og vélin Kastid-331rakst á fjallið. Hann heyrði ekki til ‘Uokkurs manns og þó missti hann aldrei meðvitund þann tíma sem hann var í flakinu. Hann segir að skyggni hafi ekki verið nema um 12 metrar. Hann segir að eldur hafi komið upp í flugvélinni og hafi honum ekki dottið annað að í hug en hann mundi  brenna inni, „en þá kom hellirigning og kæfði eldinn í flugvélarflakinu.” Einhvern tíma hefði nú sú rigning verið talin til jartegna. Það tók leitarmennina klukkustund að ná Eisel úr stélinu, þar beið hann þyrstur og svangur. Magnús sagði okkur frá því að hann hefði heyrt, að Eisel hefði farizt nokkru síðar í flug slysi. Við gutum augum í síðasta sinn til slysabrekkunnar í Kasti, þá bætti Magnús við: „Það eru meiri vinnubrögðin þessi stríð.”
Við gengum nú upp úr Görninni, fylgdum bröttum skorningum og fikruðum okkur upp á nyrzta og hæsta hluta Fagradalsfjalls. „Ef hún er ekki við skaflana hér,” sagði Magnús, „þá er hún hvergi.”
„Er ekki vissara að hvísla?” spurði ég.
Hann hló. „Nei,” sagði hann og gekk enn hraðar upp hlíðina. Ég var einnig farinn að skimast um eftir rjúpu. Og mér fannst ég sjá hana alls staðar, í mosanum, við steinana, þeir voru margir með hvítum skellum. Mér fannst þeir hía á okkur. Eins og straumkast árinnar verður að narti fisks í eftirvæntingargómum laxveiðimannsins, þannig verða hvítskellóttir steinar að rjúpum í skimandi augum skyttunnar.
„Hefurðu nokkurn tíma séð fálka hér á fjallinu?” spurði ég.
„Já,” sagði Magnús, „ég hef séð fálka slá rjúpu hér á fjallinu, en það er sjaldgæft.” „Finnst þér þú ekki stundum vera í hlutverki fálkans?” „Það getur svo sem verið. Þegar fálkinn kemur sópast rjúpan í burtu, en það hefur engin áhrif á rjúpuna, þó ég komi. Hún heldur sig bara við skaflana og….” Prikið festist við grjóthnullung.
„Og hvað?” spurði ég.
„Og bíður, bíður. Er það ekki það sem við gerum öll.” Losaði prikið, hélt áfram og þagði.
„Við Ísólfur í Ísólfsskála sáum tvær arnir í haust, þegar verið var að leggja Krýsuvíkurveginn,” sagði hann svo upp úr þurru, eins og til að breyta um umræðuefni. „Önilur hafði komið á hverjum morgni og stefnt á Krýsuvíkurberg, og einn morguninn sáum við tvær saman. Líklega hafa þær verið að leita sér að æti.”
Kastid-frett-229Nú færðist brimmóða yfir landið og það fékk einhvern óræðan blámisturssvip, sem gerði það fjarlægara en áður. Það var ekki lengur fjallabjart yfir auðninni. Morguninn hafði verið rauður í skýjum, þetta var yndislegur dagur, magnaður af dul lands og sagna. Hamrabelti blöstu við norðan Kasts, þar eru Gálgaklettar. Þar voru hengdir ræningjar sem héldu til við Þorbjörn gamla.
Og enn fjölgaði hvítu skellunum á steinunum og ég fór að velta því fyrir mér hvort guð hefði svona fínan húmor eða hvort þetta grín væri bara tilviljun.
Magnús ymti að gömlum dögum. „Ég hef alltaf séð eftir árabátunum,” sagði hann, „og veiztu af hverju? Ég komst einu sinni yfir hundrað kíló. Þá brá mér kynju við. Ég fór að hugleiða hvað hefði valdið þessum ofvexti — jú. Við höfðum fengið vélbáta og lagt niður árarnar. Það var oft glatt á hjalla á gömlu árabátunum og gaman að sigla í góðu leiði. Fiskurinn var borinn upp klappirnar fyrir neðan bæinn, þeir voru í brókum upp undir hendur og skinnstökkum og bundið yfir um mittið til þess þeir yrðu ekki brókarfullir. Þeir báru tólf þorska í einu og enginn taldi eftir sér að bera upp fiskinn. Nú bykir allt erfitt. Skiptivöll ur heitir pa.rtur af túninu fyrir neðan Hraun. Þar deildu þeir út hlutunum. En það var ekkert upp úr þessu að hafa, þó við fiskuðum 500 skippund yfir vertiðina og gerðum að öllu Sjálfir. Þetta fór bara í kaupmennina og þeir voru eins og sjórinn. Lengi tekur sjórinn við.
En nú held ég að þorskurinn sé að ganga til þurrðar, það er ekki annað að formerkja. Áður fylltist allt af fiski, þegar sílin komu. Fyrst þegar ég byrjaði að róa fengum við oft á annað hundrað fiska í 15 möskva djúp net, en nú eru þeir með þetta 30—36 möskva djúp nælonnet og fá einhverja glefsu í eitt og eitt net. Nú sést ekki fiskur á þeim slóðum þar sem við veiddum mest. En fiskifræðingarnir trúa ekki að fiskurinn sé að ganga til þurrðar, það er aðalatriðið. Kannski við getum lifað á bjartsýni þeirra.”
„Var þetta ekki sæmilegt upp úr fyrri heimsstyrjöldinni?” spurði ég.
„Jú, það var miklu betra en síðar varð. Um 1930 súnkaði fiskurinn í verði og þá byrjaði kreppan.”
Við vorum varla komnir upp á fjallsbrúnina þegar Magnús stanzaði, bandaði til min hendi og sagði: „Þarna er ein —,” hlóð byssuna, miðaði og — bang.
Þegar Magnús kallaði sá ég dýrið dauðamóða teygja úr skaflhvítum hálsinum, tvö augu sem störðu á okkur í 30—40 metra fjarlægð. Þau báðu ekki um líf, þessi augu, nei horfðu Kastid-frett-3bara á okkur, spurðu. Og svarið kom. Þegar við komum að rjúpunni þar sem hún lá dauð í grænum mosa milli hraungrjóts, beygði Magnús sig niður og sagði: „Þetta er einhver síðgotungur, hún er enn með svartar fjaðrir.” Svo leit hann á mig og spurði glottaralega:
„Ekki sást þú hana á undan mér?”
Það var nú lítill munur orðinn á rjúpunni og hvítskellóttum steinunum. En blóðið golpaðist ekki upp úr þeim.
Við gengum skimandi vestur fjallið, en sáum ekki fleiri rjúpur. Þessari styrjöld lyktaði með ósigri þeirrar einu rjúpu, sem á fjallinu var þennan dag. Þegar við komum á móts við Kast á heimleið fórum við aftur að tala um flugslysin, enda voru þau ofarlega í hugum okkar. Og þá sagði Magnús: „Það er eins og allt sé fyrirfram ákveðið og hnitmiðað niður. Amma mín, Guðbjörg Gísladóttir frá Lambafelli undir Austur-Eyjafjöllum, sagði mér einhverju sinni frá harðduglegum fiskiformanni, sem alltaf gat sagt hásetum sínum fyrir um, hvað þeir mundu fá til hlutar. En svo einn vetur segist hann ekkert geta sagt þeim. Hann segir að sig hafi dreymt, að hann væri í úlpu með fjórtán hnepslum, en hnapparnir allir skornir af. Annað gæti hann ekki sagt þeim. Skip hans fórst í fyrsta eða öðrum róðri með allri áhöfn, fjórtán mönnum.
Með þetta dularfulla veganesti héldum við til byggða.” –
M.

Heimild:
-Morgunblaðið, 22. des. 1963, Í stríði á Fagradaldsfjalli, bls. 1, 3 og 5.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason – Fæddur 21. nóvember 1891, dáinn 17. desember 1983.

Hafnarfjörður

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar II árið 2021 segir eftirfarandi um Miðbæ og Hraun:

“Miðbær Hafnarfjarðar er gróflega innan þess landsvæðis sem áður var Akurgerði. Nafn jarðarinnar bendir til þess að einhverntímann hafi verið reynt við akuryrkju á henni en undir hraunbrúninni við fjörðinn var mikil veðursæld og skjól fyrir norðanátt. Engar heimildir eru þó til fyrir þessari akuryrkju fyrir utan nafn jarðarinnar.

Hanarfjörður 1882

Hafnarfjörður 1882.

Fram til 1677 var Akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi en það ár eignaðist Hans Nansen, Hafnarfjarðarkaupmaður, jörðina í makaskiptum fyrir hálfa Rauðakollsstaði í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Við eignaskiptin fluttist verslunarstaðurinn, sem hafði verið í Hvaleyrarlandi, til Akurgerðis og eftir þau voru þar einungis þurrabúðir og eignarráð landsins í höndum
Hafnarfjarðarkaupmanna og saga jarðarinnar er þá í raun saga verslunarstaðarins.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Akurgerði hafi verið eign Garðakirkju til forna og hjáleiga í Garðalandi. Hafnarfjarðarkaupmaður hafði þar eignarráð og að dýrleiki gömlu hjáleigunnar hafi verið óviss, þar sem hún stóð í óskiptu landi og tíundaðist ekki. Þar bjuggu Guðmundur Þórðarson og Þorleifur Sveinsson og greiddur þeir enga húsaleigu en voru í staðin skyldir til handarvika sem kaupmaðurinn þurfti á sumri og eftirliggjarinn á vetri. Þeir viðhéldu búðinni með styrk kaupmanna og héldu engan kvikfénað vegna þess að þar gat enginn kvikfénaður fóðrast, því túnstæðið var allt farið undir byggingar.
Í sýslu- og sóknalýsingum sagði séra Árni Helgason að „Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað sona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndulráðssetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets. Bæði Thomsen og Linnet betala þeim fyrstnefnda eiganda lóðatoll.
Auk þessara höfuðbýla eru á sömu lóð meir en 20 tómthús og fleiri en ein familie í sumum. Enginn sem býr í þessum höndlunarstað, hefir grasnyt. Tómthúsin fjölga og nöfnin breytast, þegar nýir íbúar koma.“

Hraunin

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Hraunahverfið í Hafnarfirði er á því svæði sem áður var í eigu Garða. Fyrstu heimildir um Garða eru frá árinu 1307 en það er skjal um rétt til rekafjöru í landi Garða:
1307 „ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allan vidreka og hvalreka fra Ranganiogre ig (i) Leitu kvenna bása ad kalftiorninga fiouru.“
1367 var staðurinn metinn á 16 hndr. og átti kirkjan þá allt heimalandið. Í skjali frá 1558 var sagt að kirkjujörðin Hlíð var lögð til Bessastaða, en Garðar fengu í staðinn Vífilstaði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Garðar væru kirkjustaður í eigu kirkjunnar. Þá var sagt að jarðadýrleiki hafi verið óviss allt til ársins 1697 en þá var staðarins getið og var hann metinn af sex mönnum sem valdir voru til matsins af prófastinum á Kjalarnesþingi og sýslumanninum í Gullbringusýslu eftir tilmælum frá amtmanninum.
Staðurinn var þá virtur að 60 hndr. að dýrleika. Ábúandinn var þá Sr. Ólafur Pétursson prófastur í Kjalarnesþingi, landskuld var engin og höfðu fyrrnefndir sexmenningar áætlað að leiga fyrir jörðina væri tveir hundruðustu. Kirkjan átti 20 kúgildi, þar af voru sum þeirra í leiguburði á kirkjunnar jörðum og líka á hjáleigum í kringum staðinn. Garðar voru með selstöðu í Kaldárseli, þar voru bæði hagar og vatnsból góð. Móskurður til eldiviðar var nægur en ef þurrt var fór hann og var erfiður. Heimræði var allt árið og lending góð. Róðrar voru fengsælir þegar fisk var að fá í Hafnarfirði.
Í Jarðabók Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 185 og var kirkjujörð. Dýrleikinn var 40, landskuld 2 og kúgildi 1.
Árið 1912 gaf Jens Pálsson, prófastur í Görðum, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi sem bærinn stóð á með beitarlandi fyrir 52.000 kr. og heimilaði Alþingi þessi landakaup með lögum þann 22. október sama ár. Landsstjórninni veittist heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstaði land Garðakirkju sunnan og vestan þessara marka:
1. Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veg inn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunholti, nálægt í hásuður frá bænum spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól sem er gamalt miðaftansmark miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við:
4. Urriðakotsland; þá
5. Setbergsland allt til Lækjarbotna og loks
6. Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegur.
Hamarskot var innifalið í þessum kaupum en Hamarskotstún innan girðingar og Undirhamarstúnsblettur voru undanskilin. Átti presturinn að hafa þar grasnytjar ef hann flyttist til Hafnarfjarðar.
Árið 1927 skoraði bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þingmenn Gullbringu- og Kjósarsýslu að flytja frumvarp á næsta Alþingi um að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi það land sem Garðakirkja ætti í miðjum bænum. Alþingi samþykkti frumvarp um söluna 1928 og bærinn keypti landið árið 1930 fyrir 12.000 kr.

Einarsreitur

Einarsreitur,

Einnig er vert að minnast á Einarssreit, saltfiskreit sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét útbúa árið 1913 og var hann stækkaður árið 1929, en þetta er líklega eini fiskreiturinn á landinu sem hefur verið metinn til fjár. Í dómi frá 1994, í eignarnáms máli Hafnarfjarðarbæjar og Einar Þorgilsson & Co. HF., er reiturinn metinn á 9,4 milljónir króna.”

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar II; miðbær og Hraun, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-II-Midbaer-og-Hraun-2021.pdf (byggdasafnid.is)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd.

Kapelluhraun

Jónatan Garðason skrifaði grein í Morgunblaðið 1995 undir fyrirsögninni “Lýst er eftir hrauni – Finnandi vinsamlegast skili því til Hafnarfjarðar”:

Auðvinnanlegasta efnið er skafið ofan af, segir Jónatan Garðarsson, og landið skilið eftir í sárum.

Jónatan garðarson“Umhverfismál eru í brennidepli, landeyðing hér á landi er með því mesta sem þekkist í heiminum og stöðvun gróðureyðingar er afar brýnt verkefni. Þjóðin er að vakna til vitundar um ástandið, það sýnir áhugi almennings á hverskyns ræktun og uppgræðslu.
Mörg fyrirtæki hafa lagt lóð á vogarskálarnar, sala áburðarpökum gerir sitt gagn og ekki má gleyma fjölda félagasamtaka sem vinna þrotlaust starf á þessu sviði. í okkar harðbýla landi þarf lítið að fara úrskeiðis til að röskun verði á lögmálum náttúrunnar. Um aldir gekk þjóðin ótæpilega á gæði landsins eins og óþrjótandi nægtarbrunn. Það var því mikið gæfuspor þegar Skógrækt ríkisins var stofnuð samkvæmt lögum árið 1907. Hlutverk hennar er m.a. að vernda, friða og rækta skóga og skógarleifar, græða upp skóga þar sem henta þykir og leiðbeina um meðferð skóga og kjarrs svo nokkuð sé nefnt. Starfsemi skógræktarfólks hefur leitt til mikilla framfara í ræktunar- og uppgræðslumálum þjóðarinnar og víða hefur útliti landsins verið breytt úr auðn í græna reiti. Það skýtur því skökku við að í landi Skógræktar ríkisins í Kapelluhrauni á sér nú stað gríðarleg landeyðing. Fyrir nokkrum áratugum fékk skógræktin um 2.000 ha lands úr Kapelluhrauni að gjöf til ræktunar. Svæðið telst hluti af Almenningi og utan skipulags. Þar hefur ræktunarstarf skapað myndarlega lundi á fallegum reit sem á eftir að gleðja komandi kynslóðir. Í hluta gamallar hraunnámu á sömu slóðum var rallykross-braut komið fyrir uppúr 1990, með leyfi skógræktarinnar og bæjaryfirvalda í Hafnarfirði.
Náman átti að vera aflögð, en 6. febrúar 1992 gerði Skógrækt ríkisins samning við Borgartak og seldi fyrirtækinu 1.000.000 m3 (eina milljón rúmmetra) af hraunfyllingu í Kapelluhrauni. Vinnslusvæðið er í miðju hrauninu, sem er mosagróið apalhraun með stökum birkihríslum, burknum, lyngi og öðrum hraungróðri á stangli í skjólgóðum gjótum. Hraunið rann á sögulegum tíma, árið 1151, úr eldstöð í Undirhlíðum, yfir eldra hraun og er því stundum nefnt Nýjahraun. Þarna má lesa jarð- og gróðursögu á mjög glöggan og skýran máta.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – námusvæðið.

Samningurinn við Borgartak færði skógræktinni 12.000.000,- krónur í nettó tekjur eða kr. 12 án vsk. á rúmmetra. Borgartak selur síðan hvern m3 af unnu efni á 104 krónur án vsk. í ársbyrjun 1995 komu fram upplýsingar um að búið væri að vinna 1/4 efnisins eða 250.000 m3, en í maílok, aðeins 5 mánuðum síðar, kemur í ljós að Borgartak hefur nú þegar unnið helming umsamins efnis, 500.000 rúmmetra. Verktakinn hefur líkast til fjórfaldað kaupverðið og hagnast um tugi milljóna, enda gerði hann einkar hagstæðan samning við skógræktina. Ef eingöngu hefði verið unnið frekara efni úr gömlu námunni, hún t.d. dýpkuð og jarðefni unnin nokkra metra niður í hraunæðina hefði mátt réttlæta vinnsluna. En verktakinn er fyrst og fremst að yfirborðsvinna mosagróið hraun upp á eina milljón fermetra. Það er unnið hörðum höndum við að ryðja burt gróðurþekjunni á sem skjótastan hátt. Efsta laginu af grónu landi er rutt burt, en samkvæmt stefnumörkun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði er alfarið lagst gegn slíkri yfirborðsvinnslu á óröskuðu hrauni. Þessu mikla jarðraski virðist ætlað að tryggja frekari námavinnslu þarna í framtíðinni. Aðeins er farið einn til tvo metra niður þar sem dýpst er unnið ofan í hraunæðina, auðvinnanlegasta efnið skafið ofan af og landið skilið eftir í sárum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – námusvæðið sunnan Hafnarfjarðar.

Það kom íbúum Hafnarfjarðar í opna skjöldu að verið væri að aka tugþúsundum tonna úr. Kapelluhrauni á sama tíma og Umhverfisnefnd og bæjarverkfræðingur voru að móta stefnu um efnistökumál í bæjarlandinu. Samningurinn virðist hafa verið gerður án vitundar bæjaryfirvalda og komst málið nýverið í hámæli. Náttúruverndarráði Íslands var heldur ekki tilkynnt um þessar fyrirætlanir skógræktarinnar. Nú hefur ráðið blandað sér í málið og reynir að leita samninga, en tíminn vinnur með verktakanum. Á meðan heldur gegndarlaus efnistaka áfram af fullum krafti. Flest bendir til að reynt hafi verið að láta samningsgerðina fara hljótt.
Almennt var álitið að landspjöll vegna yfirborðsvinnslu hrauns heyrðu sögunni til. Í greinargerð sem Þóroddur F. Þóroddson jarðfræðingur vann fyrir bæjaryfirvöld 27. október 1986 um „Hagnýt jarðefni í landi Hafnarfjarðar” mælir hann eindregið gegn slíkri vinnslu í Kapelluhrauni og víðar: „Efnistaka úr apalhrauni er yfirleitt til mikilla lýta í landinu,” segir í greinargerðinni. Þá segir Þóroddur einnig: „Efnistaka eins og tíðkast hefur t.d. meðfram Krýsuvíkurvegi og Bláfjallavegi er óverjandi frá sjónarmiði umhverfisverndar. Mikið efni má fá af svæðum sem „búið” er að vinna með því að hirða upp hrúgöld og ganga betur frá námusvæðum.” Hraunvinnslu í bæjarlandinu var að mestu hætt þegar skýrslan kom fram, en um langt árabil hafði Landgræðslusjóður leyft umfangsmikla vinnslu í landi sínu sunnan Straumsvíkur og haft um 50 milljónir á núvirði í tekjur af efnissölunni. Hraunvinnsla á vegum Hafnarfjarðarbæjar var einnig að mestu aflögð á þessum tíma, en sú vinnsla var þó margfalt minni í sniðum en í landi Landgræðslusjóðs. Á þessum tíma var einhugur að skapast um að opna ekki nýjar námur til vinnslu, heldur nýta betur „gamlar námur” að undangenginni skipulegri úttekt á efnisgæðum námanna.

Kaspelluhraun

Kapelluhraun – gróðurvin í hrauninu.

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með viðbrögðum Jóns Loftssonar skógræktarstjóra við málinu. í frétt sem birtist í DV 22. apríl sl. vegna mótmæla skotveiðimanna á malarnáminu í Kapelluhrauni er haft eftir Jóni: „Ég átta mig ekki á því hvað mennirnir eru að fara. Þarna var náma sem ekki var nógu vel gengið frá. Þá er gert ráð fyrir samkvæmt skipulagi að þarna rísi iðnaðarbyggð. Þess vegna var gengið til þessara samninga og gerðar strangar kröfur um frágang. Þegar þetta verður búið verða tilbúnar þarna lóðir og þá geta Hafnfirðingar tekið til við að byggja þarna einhverjar ljótar verksmiðjur.” Skógræktarstjóri heldur í það haldreipi að svæðið sé skipulagt fyrir iðnað og því þarft að ryðja það. Þetta er alrangt. Hið sanna í málinu er að árið 1990 var lögð fram tillaga að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1988-2008. Þar var m.a. sýnt iðnaðarsvæði sem gæti komið til álita eftir 40-50 ár. Tillögunni var hafnað hjá skipulagsstjórn ríkisins og fór aldrei í kynningu og auglýsingu í samræmi við skipulagslög. Hún hefur því ekkert lagalegt gildi. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1980-2000 er gert ráð fyrir framtíðariðnaðarbyggð einum kílómetra suður af núverandi iðnaðarsvæði eða um tvo kílómetra frá umræddu hrauntökusvæði. Það er því ljóst að ætlunin var alls ekki að hreyfa neitt við hrauninu í landi skógræktarinnar.
Í ársbyrjun 1992 sótti Skógrækt ríkisins til bæjaryfirvalda um leyfi til að skipuleggja iðnaðarbyggð á þessu svæði, en málið var ekki samþykkt. Þrátt fyrir það fór stórfelld jarðvinnsla í gang. Stærð vinnslusvæðisins sem skógræktin seldi er milljón rúmmetrar og jafnast það á við 150-200 fótboltavelli á stærð við Laugardalsvöllinn. Ef mið er tekið af íbúðarbyggð má reisa 15 einbýlishús á ha, en svæðið er 100 ha og gætu 1.500 einbýlishús rúmast á því. Samkvæmt núgildandi staðli búa 3,5 íbúar í hverju einbýlishúsi sem þýðir 5.200 íbúa byggð og mun það teljast eitt og hálft skólahverfi. Námaréttindi á þessu svæði seldi skógræktin fyrir 12 milljónir króna, sem er u.þ.b. verðgildi eins einbýlishúss.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Skógræktin og Landgræðslusjóður hafa unnið mikið gagn við erfiðar aðstæður þrátt fyrir rýra sjóði. Það réttlætir samt ekki allar gerðir þeirra. Þeim hafa einfaldlega verið mislagðar hendur hin síðari ár í þessum efnissölumálum. Sjónarmiðin voru vissulega önnur á árum áður, þegar augu fólks voru lokuð fyrir málefninu. En svona vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í dag.
Það er ekki óraunhæf krafa, að stjórnendur Skógræktar ríkisins og Landgræðslusjóðs ígrundi málin vel og leiti utanaðkomandi álitsgerða áður en ákvarðanir af þessu tagi eru teknar. Að sjálfsögðu verða þeim á mistök eins og öðrum, það er mannlegt. En tímarnir breytast stöðugt og kröfurnar með og þess vegna er nauðsynlegt að líta öðru hvoru yfir farinn veg og leiðrétta mistök sem kunna að hafa verið gerð. Þetta á jafnt við um menn og málefni, stofnanir og stjórnvöld.
Nú er Náttúruverndarár Evrópu og megináhersla er lögð á náttúruvernd utan friðlýstra svæða. „Tilgangur Náttúrverndarársins er að opna augu almennings, landeigenda, landnotenda, skipulagsyfirvalda og bæjar- og sveitarstjórna fyrir því að það er ekki nóg að vernda náttúruna á ákveðnum friðlýstum svæðum, svo sem þjóðgörðum, friðlöndum eða fólkvöngum. Eigi náttúruvernd að vera virk og árangursrík er jafnframt nauðsynlegt að hlúa að náttúrunni utan slíkra svæða,” segir Sigurðar Á. Þráinssonar, starfsmaður umhverfisráðuneytis, í grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. apríl s.l. Í ljósi þessa er óskiljanlegt að skógræktarstjóri skuli reyna að verja gerð samningsins við Borgartak. Hann yrði maður að meiri ef hann viðurkenndi einfaldlega að um mistök hafi veriðað ræða, rifti samningnum og stöðvaði efnistökuna áður en meiri spjöll verða unnin á svæðinu. Hraunið tilheyrir fornum Almenningi Álftneshrepps, sem nú er með réttu í lögsögu Hafnarfjarðar, og ég leyfi mér að efast um rétt skógræktarinnar eða annarra aðila, til að selja, gefa eða ráðstafa þessu landi með einum eða öðrum hætti.
Skógræktarstjóri hefur slæman málstað að verja og framganga hans í málinu hingað til hefur aðeins grafið undan því trausti sem fólk hefur borið til Skógræktar ríkisins um áratugaskeið. Skógræktinni ber að bæta land, ekki eyða því eins og nú er verið að gera í Kapelluhrauni.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Lýst er eftir hrauni – Finnandi vinsamlegast skili því til Hafnarfjarðar, Jónatan Garðarsson, bls. 34.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – Helgafell fjær.