Færslur

Slok

Slokahraun er angi af Sundhnúkahrauni sem rann úr gígaröð ofan Grindavíkur . Önnur nafngreind hraun í sama gosi eru Blettahraun og Klifhólahraun. Slokanafninu hefur jafnan verið gefinn sá hluti hraunsins, sem rann Slokitil suðausturs niður sunnanverða Hópsheiðina og í sjó fram austan Þórkötlustaða.  Sundvörðugígagosið er talið hafa myndast fyrir um 2400 árum, eða hálfu fyrr en fyrstu lndnámsmennirnir voru að tygja sig til landsins. Þá myndaðist Þórkötlustaðaneið sem og hafnarlagið umhverfis Hópið. Í dag er Slokahraunið mosavaxið með graslænum á millum. Neðst í því eru miklir fiskgarðar frá útgerðinni fyrr á öldum, svonefndir Hraungarðar frá Hrauni og Slokagarðar frá Þórkötlustöðum. Þessara garða er ekki getið í örnefnaskrám.

Slokahraun

Slokahraun – fiskgarðar.

Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir svæðið segir m.a.: “Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás. Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun. Upp af Markabás er hóll milli bæjanna, Markhóll. Er hann upphlaðinn þar á hryggnum, sem nefndur er Leiti.” Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Sunnan þessara boða og víkin öll er nefnd Þorkötlustaðabót, en Þorkötlustaðasund er sunnan boðanna.
SlokiKlofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

SlokiAustur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.
Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.
SlokiRandeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna. Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.
Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Slokahraun rann í mjórri ræmu til suðsuðausturs frá gígunum sunnan Sundhnúks, milli Vatnsheiðar og Hópsheiðar. Getið er um Slok í tveimur örnefnaskrám Þórkötlustaða í Grindavík:  “Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun” og “síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.” Innfæddir Grindvíkingar austanverðir þekkja hljóðið. Þegar aldan skellur undir hraunhellunni slokrar í henni svo um munar.

Slokahraun

Slokahraun – minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Að austanverðu eru mörk hraunsins við ströndina við vesturtúngarðinn á Hrauni. Garðurinn liggur uppi á hraunbrúninni, sem nú er gróin að innanverðu. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagði hraunið, séð frá bænum, jafnan hafa verið nefnt Hraunið. Um það hefðu legið þrjár götur fyrrum, áður en akvegirnir voru lagðir yfir það, fyrst með ströndinni og síðar um Tíðarhliðið á norðvestanverðum túngarðinum. Enn mótar fyrir síðarnefnda veginum, bæði innan garðs og utan. Hann lá yfir að Hvammi og þar áfram til vesturs. Sjást leifar hans bæði austan við Hvamm og vestan við Efra-Land. Um hinar göturnar þrjár verður nánar fjallað um hér á eftir. Þeirra er hvorki getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningarskýrslum.

Í Sögu Grindavíkur segir að Slokin séu “austan við Buðlungavör; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól [á Þórkötlustaðanesi].

Sloki

Slokahraun – örnefni.

Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu… að annan vélbát frá Vestamannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farizt með allri áhöfn.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi. Slokahraun er h.m. fyrir miðri mynd.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafi laskazt svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land…
Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaðamenn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hafði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því er gizkað á, að togarinn hafi lent annaðhvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavíkina.”

Þórkötlustaðagata

Þórkötlustaðagata.

Vertíðir settu löngum svip á atvinnulífið í Grindavík. Tvær verbúðir voru um tíma í Þórkötlustaðalandi, ein á Ísólfsskála og fleiri í Járngerðarstaðalandi. Hraunsmenn gerðu út á Þórkötlustaðanesi og gengu á milli. Þá var Eyrargatan jafnan farin, en hún lá með ströndinni, í gegnum Slokahraun framhjá Sögunarhól og eftir fjörunni neðan við Klöpp, Buðlungu og Þórkötlustaði. Ströndin var þá sandfjara líkt og enn má sjá að hluta innst í Bótinni. Sandurinn náði dágóðan spöl út. Þar voru góðar lendingar fyrrnefndra bæja. Vestan Þórkötlustaða, þar sem nú er Sólbakki, kom gatan upp á bakkann við bæ, sem hét Skarð og þar var. Síðan liðaðist hún ofan strandarinnar, yfir Kónga og að naustunum vestan þeirra. Eyrargatan sést enn í hrauninu innan landamerkja Þórkötlustaðahverfis. Austar hefur sjórinn kastað grjóti yfir hana, auk þess sem vegur var lagður að hluta til yfir hana. Nánar er sagt frá Eyrargötunni annars staðar á vefsíðunni.

Hrauntúnsgata

Hrauntúnsgata.

Önnur gatan hét Hrauntúnsgata. Hún lá upp frá austanverðri hraunbrúninni, í gegnum túngarðinn á Hrauni og svo til beina stefnu yfir það til vesturs, að Hraunkoti, sem var austast bæja (kota) í Þórkötlustaðahverfi. Stór gróinn hraunklettur er norðan götunnar skammt frá Hraunstúngarðinum. Þessi gata sést enn mjög vel, enda gróin. Sigurður sagði það varla geta talist undarlegt því þessa götu hefðu vermennirnir gengið til baka með fiskinn á bakinu. Áburðurinn hafi því verið ágætur og nyti gatan góðs af því enn í dag.
Þriðja gatan, sem enn sést, er Þórkötlustaðagata. Hún liggur, líkt og Hrauntúnsgatan, í gegnum hlaðinn túngarðinn á Hrauni, um hlið þar sem sem garðurinn myndar 90° horn. Gatan, sem er sú nyrsta þeirra þriggja, liggur nú um gróið hraunið, en hinar fyrrnefndu liggja enn um úfið mosavaxið apalhraunið. Lítill hraunhóll er norðan götunnar.
Frá Slokahraunhonum beygir gatan lítillega í átt að norðurtúngarðshorni Hraunkots. Þar lá hún samhliða garðinum með svo til beina stefnu á Þórkötlustaði. Enn sést móta fyrir honum á sléttuðu túninu sem þar tekur nú við.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan má enn sjá neðan við Klöpp]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun víðast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.

Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum.

Garðar

Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá Markhóll17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar Gíslasonar eru greinast Leitin í Fremra-Leiti og Efra-Leiti. Hið síðarnefnda er þar sem akvegurinn fer yfir milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis, en hið fyrrnefnda er þar
sem Þórkötlustaðagatan fer yfir Slokahraunið.

Sloki

Slokahraun – Randeiðarstígur.

Garðanna í Slokahrauni er getið í “Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi” frá árinu 2002. Þar segir: “”Herslugarður” – Slokahraun er á merkjum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns, þar eru leifar fiskgarða. Ef gengið er austur með sjávarkampinum frá Þórkötlustöðum í átt að Hrauni er komið í Slokahraun fast austan við túngarðinn. Slokahraun er mosagróið apalhraun og liggja
landamerkin um mitt hraunið. Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir en misvel standandi, hleðsluhæðin er milli 0,5-1 m. Umför eru allt að tíu. Garðarnir teygja sig allt austur fyrir Markhól, en eru þá í Hraunslandi. Svæðið er um 100×100 m.”
Fornleifanna í Slokahrauni er hnins vegar ekki getið í skráningunni “Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð” frá árinu 2018.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi, Þóra Pétursdóttir, Reykjavík 2002.
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka – Hraungarðar.

Grindavík

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallaði í Náttúrufræðingnum 1974 um “Sundhnúkahraun við Grindavík”:

Eldgos

Litli-Hrútur við Fagradalsfjall; eldgos 2023.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka. Hraunin hafa orðið til á alllöngum tíma. Elst eru dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði, Lyngfell og Fagradalsfjall. Yngri eru úr stökum gígum, s.s. sunnan Þórðafells og Kálffell og loks eru þau yngstu úr gígaröðunum, s.s. Eldvarparhraunin, Illahraun og Sundhnúkahraun, sem margar hafa kaffært þau eldri. Hraunmyndanir þessar hafa orðið til í áralöngum goshrinatímabilum í gegnum aldirnar. T.d. er saga Grindavíkur gloppótt á 12. og 13. öld þegar ein goshrinan réð þar ríkjum.
Enn, nú á 21. öld, er ummyndun hraunanna í gangi ofan Grindavíkur, í og við Fagradalsfjall, sbr. rangnefnið Fagradalshraun.

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkahraun

Grindavík ofanverð.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Skúti við Sundhnúk.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð.

Kálffell

Í Kálffelli.

Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun.

Eldri gígaröð

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan.

Rauðhóll

Rauðhóll í Sundhnúkahrauni.

Gígur [Rauðhóll] þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er
getið.

Hvenœr rann hraunið?

Melhóll

Hrauntröð suðvestan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti

Svartsengi

Svartsengi.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Grindavík

Gengið um Grindavík og nágrenni – í Sundvörðuhrauni.

Hraun

FERLIR grennslaðist fyrir um nýlegt niðurif gamla íbúðarhússins að Hrauni í Grindavík og sendi því byggingarfulltrúa bæjarins eftirfarandi fyrirspurn:

Hraun

Hraun í Grindavík. Gamla íbúðarhúsið handan “Sigurðarhúss”.

“Sæll, áttu afrit af nýlegu bréfi Minjastofnunar um íbúðarhúsið (1929) að Hrauni, sem nú hefur verið rifið. Kannski leynist þar gagnlegur fróðleikur um byggingarsögu hússins? sbr.

„Fundur 74.
Hraun 129179 – Umsókn um byggingarheimild Niðurrif – Flokkur 1, – 2304054.
Tekið er fyrir mál Harðar Sigurðssonar vegna einbýlishúss (N2092758) á jörðinni Hraun (L129179) meðumsækjendur eru Gísli Grétar Sigurðsson og Margrét Sigurðardóttir.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Máli var frestað á síðasta fundi þar til niðurstaða minjastofnunar lægi fyrir.
Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verði rifið.
Niðurrifsheimild er því veitt.“

Hverjir voru skráðir eigendur hússins (sem var tvískipt) áður en það var rifið?”
Svar barst um hæl;
“Sæll.
Sjálfsagt mál (sjá meðfylgjandi viðhengi).

Hraun

Hraun – svar Minjastofnunar v/ niðurrif íbúðarhússins að Hrauni.

Í bréfi Minjastofnunar má lesa eftirfarandi (leitt er þess að vita að ekki er hægt að nálgast bréf og erindi í opinberum fundargerðum bæjarfélagsins án þess að biðja um það sérstaklega. Það ætti það þykja sjálfsögð kurteisi að birta meðfylgjandi fylgiskjöl við tilfallandi erindum.

Svar: “Eigendur voru Hörður Sigurðsson, Gísli Grétar Sigurðsson, Margrét Sigurðardóttir”.

Innihald bréfs Minjastofnunar:

“Í tölvupósti dags 11. maí 2023 leitar Hörður Sigurðsson eftir áliti Minjastofnunar Íslands vegna íbúarhúss á Hrauni í Grindavík. Húsið hefur orðið fyrir vatnstjóni og nú er sótt um leyfi til að rífa húsið.
Gamla íbúðarhúsið á Hrauni er tvílyft bárujárnsklætt timburhús, kjallari og ris. Skv. Fasteignaskrá er það byggt árið 1929. Í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 er eigendum húsa sem byggð voru 1940 eða fyrr skylt að leita álits Minjastofnunar ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja eða rífa.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. Gamla húsið v.m. og “Sigurðarhús” h.m.

Áfast húsinu er svonefnt Sigurðarhús, reist 1956. Eigendur búa í því og það mun standa áfram.
Húsið Hraun er stórt og reisulegt, greinilega byggt af metnaði. Það var reist af bræðrum og samanstendur af tveimur sambyggðum íbúðum undir einu þaki, austur- og vesturhluta. Húsið hefur varðveislugildi og ánægjulegt hefði verið að sjá það gert upp með vönduðum hætti.
Undirrituð skoðuðu húsið ásamt eigendum þann 13. júní s.l. Ljóst er að það er illa farið eftir að hafa staðið autt í nokkur ár og ekki síst eftir vatnstjórn þegar hitaveituofnar á fyrstu hæð þess sprungu árið 2021 en það uppgötvaðist ekki fyrr en eftir nokkurn tíma. Víða eru augljósar rakaskemmdir, stórir myglublettir og sterk saggalykt í húsinu.

Hraun

Hraun 2020.

Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verið rifið. Til fyrirmyndar væri að endurnýta húshluti, innréttingar, glugga, hurðir, snerla, ljósrofa o.fl. og styðja þannig við hringrásarkerfið. Ef ekki reynist unnt að nýta hlutina á staðnum mætti auglýsa þá á samfélagsmiðlum eða koma þeim til Efnismiðlunar Sorpu eða Húsverndarstofu.”

Undir bréfið skrifa Þór Hjaltalín og María Gísladóttir.

Hraun

Hraun í Grindavík 2019.

Efnisinnihald bréfs Minjastofnunar verður að teljast rýrt, svo ekki sé meira sagt. Hvorki er getið um byggingasögu hússins, fyrrum eigenda þess, hönnuðar eða skýrskotun til byggingahefðar þess tíma.

Hraun er skammt austan við meginbyggðina í Grindavík. Alls eru eigendur Hraunsjarðanna, og þar með gamla íbúðarhússins að Hrauni, sem eru í svonefndu Þórkötlustaðahverfi, um 20 talsins. Lönd þeirra ná talsvert til norðurs inn á hásléttuna og þeim tilheyrir meðal annars Fagradalsfjall og Geldingadalir, þar sem eldgos hefur gert sig heimankomið undanfarin ár.

Hraun

Hraun – eftir niðurrifið.

Í Fasteignaskrá ríkisins eru engir eigendur tilgreindir að fasteigninni Hrauni. Þar er einungis getið um svonefnt “Sigurðarhús”, sem byggt var vestan við gamla íbúðarhúsið frá 1929 árið 1956. Gamla húsið var tvískipt og tilheyrði a.m.k. tveimur fjölskyldum, sem á síðustu árum töluðust ekki við vegna álitamála.
Skv. upplýsingum Þinglýsingardeildar Sýslumannsins á Suðurnesjum voru Hörður Sigurðsson og Valgerður Söring Valmundsdóttir skráðir eigendur að íbúðarhúsinu að Hrauni í júní 2023.

Árni Konráð Jónsson

Árni Konráð Jónsson.

Árni Jón Konráðsson var fæddur 16. september 1926 að Móum Grindavík. Hann lést á Hrafnistu 7. mars 2017. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir, f. 1 september 1895 að Hrauni Grindavík, d. 27. júní 1957, og Konráð Árnason, f. 22. Árni átti austurhluta íbúðarhússins að Hrauni, þegar síðast var vitað, og afkomendur hans eftir hans dag.

Skv. Lögbýlaskrá 2018 voru 15 skráðir eigendur að landareigninni Hrauni. Þeir hafa þá án efa verið fleiri því eiginkvenna eigenda er þar ekki getið.

Hraun

Hraun – lögbýlaskrá 2018.

Kirkja var á Hrauni frá 1226. Að sögn Sigurðar Gíslasonar var hún á hólnum austan við íbúðarhúsið þar sem síðar var byggt fjós. Vestan við kirkjuna var kirkjugarður. Bein fundust við umrótið. Sigurður fann þarna handunninn signingarstein þegar grafið var í hólinn og færði hann vestur fyrir íbúðarhúsið þar sem hann er enn. Sigurði var umhugað um að steinninn færi ekki á flakk vegna tengsla hans við kirkjusöguna að Hrauni fyrrum.

Heimild m.a.:
-Bréf Minjastofnunar 19. júni 2023 (MÍ202306-0021/ 6.06/ 6673.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Herstöð

Bandaríkjaher rak á árunum 1953-1968 herstöð (sendistöð) í dalverpi milli Fiskidalsfjalls og Húsafjalla ofan Hrauns í Grindavík. Herstöðinni tilheyrðu tvö hús; sendistöðin, sem og íverustaður starfsmanna og birgðageymsla, auk mannvirkis milli fjallanna skammt ofar. Allnokkur járnmöstur (29) voru umleikis stöðina, en þau sem og byggingarnar eru nú horfnar. Einungis grunnar húsanna og steinstöplafestingar eru til vitnis um tilvist herstöðvarinnar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns um 1960. FE

Í Morgunblaðið 28. des. 1995 er grein eftir Skarphéðinn Hinrik Einarsson undir fyrirsögninni “Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt”. Þar lýsir hann viðskilnaði Bandaríkjahers við fyrrum aðstöðu hans á Suðurnesjum og nágrenni, þ.á.m. í herstöðinni ofan Hrauns: “Umhverfismál hafa aldrei verið ofarlega á blaði hér á landi þegar Bandaríkjamenn hafa átt hlut að máli.
Það þarf að athuga mál í herstöðinni í Grindavík. Bandaríkjaher rak herstöð skammt frá Grindavík, austan Grindavíkur, í landi Hrauns. Þar hefur ekki verið hreinsað, og liggja þar ýmsir hlutir sem minna á þá stöð. Það eina sem hefur verið fjarlægt em möstur. Annað liggur þar.

Herstöð

Svæði herstöðvarinnar 2022. Leifar húsanna sjást efst á myndinni.

Landeigendurnir hafa verið friðaðir með peningum. Samningur hefur verið gerður við þá fram yfir aldamót, til ársins 2002 hef ég heyrt, og þeir fá fulla leigu fyrir það land, þó svo að starfrækslu mastranna hafí verið hætt 1968. Herinn og íslenska ríkisstjómin einfaldlega vilja ekki hreinsa það svæði af ótta við að þar gæti komi fram kröfur um háar bætur sökum hugsanlegrar mengunar, því að hvar sem Bandaríkjaher hefur verið í heiminum virðist hann hafa skilið eftir sig mengun.”…

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal.

Eftirfarandi útdráttur er úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn.
Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð
í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Herstöð

Leifar húsanna 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík. Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli. Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns – loftmynd 1957.

Bandaríkjamenn unnu um þessar mundir að þróun loftskeytakerfa sem byggðu á svonefndri háloftabylgjuspeglun (e. inonospheric forward scatter) og veðrahvolfsbylgjuspeglun (e.
tropospheric scatter) sem annars vegar nýttu stefnuvirkt endurvarp af frjálsum rafeindum í 70–90 km hæð í jónahvolfinu, og hins vegar hita- eða rakaskilum í 2–5 km hæð í
veðrahvolfinu. Þótti ljóst að beiting háloftabylgjuspeglunar á VHF-tíðni hentaði vel til stuðnings við önnur tíðnisvið á norðurslóðum, t.d. milli herstöðva á Grænlandi, Íslandi og Bretlandseyjum, þar sem truflanir á stuttbylgjusendingum voru algengar.

Fjarskiptatæki

Fjarskiptatæki hersins.

Tæknin byggði á sendingu mjórra geisla sem tvístruðust við árekstur við frjálsar rafeindir í jónahvolfinu og spegluðust m.a. í litlum mæli til jarðar í sömu stefnu og hittu fyrir móttökuloftnet. Var slíkri sendistöð valinn staður við rætur Húsafells og Fiskidalsfjalls við Hraunsvík austan Grindavíkur undir heitinu Grindavik Extension, og móttökustöð skammt sunnan flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli sem hlaut nafnið Picnic.
Tækjabúnaður samanstóð af 30 kW sendi og rafstöð ásamt tveimur stórum hornlaga netspeglum (e. corner reflector) sem héngu á níu stálmöstrum í þremur misháum röðum.

Herstöð

Leifar stöðvarinnar ofan Hrauns.

Skammt frá stóðu lítil vélarhús og íbúðarhús stöðvarinnar og hátt mastur með örbylgjuloftneti til samskipta við fjarskiptamiðstöðina á Keflavíkurflugvelli. Mun það hafa verið fyrsta örbylgjusambandið sem komið var á hérlendis. Tæknimenn bjuggu í stöðinni og önnuðust viðhald og stillingu tækjabúnaðarins en samskonar búnaður var í móttökustöðinni á Keflavíkurflugvelli.
Í árslok 1955 var háloftabylgjuspeglunarsambandi einnig komið á við flugbækistöðina BW-8 í Syðra-Straumfirði á Grænlandi og frá stöðinni austan við Grindavík til Bretlands.

Herstöð

Jarðstrengur við herstöðina.

Langbylgju- og stuttbylgjusendarnir í Globecom-fjarskiptastöðinni í Grindavík voru þá nærri fullbúnir til notkunar en langbylgjustöðin sendi út með 50 þúsund watta styrk.
Fjarskiptakerfi flughersins var tekið til endurskoðunar á árunum 1956–1957. Tæknibreytingar með tilkomu stefnuvirkrar háloftabylgjuspeglunar gerðu það að verkum að minni þörf var á langbylgjusendingum, t.d. fyrir skeytasendingar loftvarnakerfisins. Var móttökustöðin Broadstreet á Vogastapa lögð niður og móttökustöðinni í Camp Garrity á Keflavíkurflugvelli breytt með litlum tilkostnaði til þess að geta einnig þjónað hlutverki hennar. Sendistöð fyrir fjarskipti við flugvélar og milli landa var áfram í stöðvunum við Grindavík og Hraunsvík og móttökustöðvunum Garrity og Picnic á flugvallarsvæðinu.

Stafnes

Ratsjárskermar utan við Stafnes. Tóftir bæjarins á Básendum t.h.

Þegar ráðist var í uppsetningu öflugs trópó-kerfis um Grænland til Íslands, sem fjármagnað var af Bandaríkjunum, og þaðan um Færeyjar til Bretlandseyja. Stóð NATO straum af kostnaði við þann hluta leiðarinnar og nefndi North Atlantic Radio System (NARS). Risu tvær fjarskiptastöðvar með gríðarstórum íhvolfum loftnetsskermum ásamt stöðvarhúsum skammt neðan við Gálgaklett nærri Básendum á Reykjanesi og í ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Skermarnir risu veturinn 1961–1962 og var stöðin á Reykjanesi tekin í notkun í júní 1962.

Herstöð

Undistöður eldsneytistanks við herstöðina.

Rekstur fjarskiptakerfis varnarliðsins var á hendi 1971th Airways and Air Communications Service Squadron (1971 AACS) bandaríska flughersins til ársins 1961. Árið 1961 tók Bandaríkjafloti við rekstrinum undir heitinu U.S. Naval Communication Station, Iceland (NAVCOMMSTA Iceland). Verkefni liðsveita varnarliðsins voru þá nokkuð breytt og aukin áhersla á stuðning við vaxandi starfsemi flotans í stað sprengjuflugvéla flughersins. Þjónustan sem flotinn tók við fól í sér rekstur almennra og sértækra fjarskiptaviðskipta og viðhald tækja á fjölbreyttu sviði vegna flugumferðar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Háloftabylgjukerfinu var lokað fljótlega eftir að trópó-kerfinu var komið á og starfsemi Grindavik Extension lögð niður. Voru loftnetin tekin niður árið 1966 og landinu skilað tveimur árum síðar.”
Sjá meira um herstöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið 28. des. 1995, bls. 43, “Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt”, Skarphéðinn Hinrik Einarsson.
-Útdráttur er úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Herstöð

Leifar herstöðvarinnar ofan Hrauns 2023.

Hraun

Ari Gíslason skráði örnefni á Hrauni við Grindavík.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun.

Heimildarmenn hans voru Gísli Hafliðason, bóndi, Hrauni og ennfremur um hluta af landinu, Guðmundur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála.
Auk þess skráði Loftur Jónsson örnefni á jörðinni Hrauni. Haun í Grindavík á land að Ísólfsskála og Krýsuvík að austan, Vatnsleysuströnd að norðan og Þórkötlustöðum að vestan. Bærinn stendur við sjó utarlega við Hraunsvík að vestanverðu.
Hér eru einungis sett inn örnefni  með ströndinni m.v. örnefnalýsingarnar, en land Hrauns nær m.a. upp að Núpshlíðarhálsi…

Hraun

Hraun – örnefni.

Hraun

Gengið var frá Hrauni austan Þórkötlustaðahverfis í Grindavík í fylgd Péturs Guðjónssonar, fyrrverandi skipstjóra, uppalinn í Höfn á Þórkötlustaðanesi.

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).

Byrjað var þó á því að kasta kveðju á Sigga á Hrauni. Hann benti m.a. á að skírnarfontur sá, sem fannst við gröft utan í hól austan við bæinn fyrir u.þ.b. ári síðan, hafi verið færður norður fyrir bæinn. Gat hann þess að Árni Magnússon hafi á sínum tíma sagt frá því í dönsku blaði að kirkja hafi verið á Hrauni frá 1226. Kapellan skammt austan við Hraun, ofan við Hrólfsvíkina, mun vera frá því á 15. öld. Kristján Eldjárn og fleiri grófu í hana um miðja 20. öld og fundu í henni nokkuð af munum, en síðan var hún orpin sandi að nýju.

Hraun

Hraun – signingarfontur (skírnarfontur).

Skírnarfonturinn er ekki ólíkur þeim sem er við Kálfatjarnarkirkju og er sagður vera úr kaþólskum sið. Einnig kemur til greina að þarna hafi verið um “stoðholustein” að ræða líkt og sjá má í gamla Herdísarvíkurbænum. Þá hefur komið fram tillaga að um steinninn gæti hafa verið drykkjarsteinn fyrir hesta, líkt og er við Glaumbæ í Skagafirði.*
Gengið var vestur með norðurgarðinum og staðnæmst við við gamla túnhliðið þar sem gatan út í hverfi og áfram út á Þórkötlustaðanes lá. Pétur sagði að áður hafi brekkan þar norðvestan við verið sandorpin og því stundum erfið yfirferðar, en nú er hún að mestu gróin, sennilega mest eftir kríuna.
Gengið var áleiðis út á Slokahraun. Fylgt var gamla grjótgarðinum. Pétur benti á fyrrum áningarstað hestamanna á leið þarna um, en síðan voru fiskbyrgin og garðarnir skoðaðir þarna í hrauninu. Þeir eru Hraunsmegin og hafa að mestu fengið að vera óáreittir. Minna á hina gömlu fiskverkunaraðferð.

Slokahraun

Sögunarhóll.

Vestan við Sögurnarhól mátti enn sjá brennivínsflöskuna frá fyrri ferðum. Hún er nú rúmlega hálffull. Gengið var um þurrkgarðana sunnan við Hraunkot og inn á Klappartúnið, því fylgt framhjá tóftum gamla Klapparbæjarins og yfir að Buðlungu. Þar var Ólafur Gamalíasson að bjástra við spýtur. Tekið var tal af honum. Fræddi hann viðstadda m.a. um hvaða stefnu Suðurstrandarvegsmálið hefði nú tekið með tilkomu orkuvers á Reyjanesi.

Klöpp

Klöpp.

Gamli bærinn í Klöpp lagðist af á fyrri hluta 20. aldar. Þar gistu áður margir mektarmenn, s.s. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi. Timburhús, sem þá var byggt, flaut upp í óveðrinu 1925. Um 1930 var húsið Klöpp og Teigur sambyggð í brekkunni ofan við réttina.

Hóp

Hóp – kort ÓSÁ.

Gengið var niður að Buðlunguvör. Pétur sagði að áður hafi verið stór varða neðst í Buðlungutúninu og hefði hún borið í vörðu uppi á heiði. Það hafi verið stefnan inn á Bótina, en síðan hafi vörðurnar ofan við bryggjuna á Nesinu tekið við. Skoðaðar voru svonefndar Þvottaklappir þar sem ferskt vatn kemur undan klöppunum, litið á æðaregg, brúnleit hraunreipi, gæsarhreiður o.fl. á leiðinni neðan við fiskverkunarhúsin.
Eftir að hafa gengið yfir Kónga var stefnan tekin þvert á Þórkötlustaðanesið áleiðis yfir að Nesi Hópsnesmegin. Á leiðinni mátti sjá æðaregg, hrauntröðina miklu um þvert Nesið, en hún er í hrauninu er kom úr gígunum Vatnsheiðinni ofan við Húsfell (Húsafell).

Hópsnes

Hópsnes – þurrkgarðar.

Miklir þurrkgarðar eru Hópsnesmegin, sjóbúðartóft á grónum hól o.fl. Gengið var að Goðatóftinni neðan við Hóp og litið á hugsanleg ummerki eftir landsnámsbæ þar í túninu. Fróðlegt væri að fara með jarðsjá yfir túnin á þessum stað og kanna undirlagið. Mótar fyrir stórri tóft og hringlaga garði, auk fleiri tófta utar í túninu.
Loks var litið á blóðþyrnirinn á Tyrkjaflöt, en hann er sagður hafa vaxið upp af blóði kristinna manna og heiðinna þar sem mættust heimamenn og Tyrkir 1627. Talið er að þyrnir (þystill) þessi vaxi á tveimur stöðum á landinu.
Frábært veður – sól og hlýtt. (2 klst og 2 mín).

*Guðbjartur Kristófersson

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Jökull Jakobsson gengur hér með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga, Hraun og Þórkötlustaðanes í Grindavík. Viðtalið var tekið 1973. Um er að ræða úrdrátt.
Magnús Hafliðason“Við erum nú á Selatöngum með Magnúsi Hafliðasyni frá Hrauni. Hér var útræði mikið í gamla daga. Nú sést ekki mikið eftir af því nema búðarrústir, haglega hlaðnar. Það er ákaflega eyðilegt þar sem við erum staddir, en þó fallegt. Við höfum ferðast langan veg um úfið og svart apalhraun og niður að ströndinni þar sem úthafsaldan lemur sandinn. Við erum staddir við Tangarsund.
Þú rerir nú ekki héðan sjálfur Magnús, en þú þekktir menn, sem reru héðan.”
“Ég þekkti aðallega hann Einar Einarsson. Hann var aðkomumaður úr Krýsuvíkurhverfinu. Vermennirnir voru víðs vegar frá en aðallega úr Krýsuvíkurhverfinu. Ég heyrði að hér hafi verið yfir 70 manns mest, þ.a. 26 Jónar og 16 Guðmundar. A.m.k. 14 eða 16 skip gengu héðan, sennilega mest áttæringar. Útgerð lagðist af eftir Básendaflóðið [1799]. Húsin hafa verið vel hlaðin. Menn bjuggu hér á vertíðinni, frá því í febrúar til 11. maí, vetrarvertíðin.
Sennilega hafa verið um 8 menn í hverju húsi og eldhús. Matur hefur mest verið fiskur og skrínukostur. Ekki var mikið skemmtanalíf í þá daga. Fólkið hefur þó ekki þótt leiðinlegt því það þekkti ekkert annað.
Alls staðar átti að vera reimt. Það sagði mér maður, þessi Einar, að vatnskútur hafi verið framan við dyrnar. Guðmundur hafi sofið nær dyrum með höfuð í átt að þeim. Hann rumskaði og snéri sér við. Í því hafi kúturinn tekist á loft og lenti akkúrat þar sem höfuðið hafði verið áður en hann snéri sér við. Hann sagði okkur þetta svona.

Nesið

Þetta var afskaplega meinlaus draugur, hafi það verið einhvör. Þetta átti að hafa verið unglingur sem illa var farið með og menn höfðu verið beðnir fyrir. Einhver maður, sem þóttist vera skyggn, átti að hafa séð hann, hlaðið byssu sína og skorið silfurhnappa af treyju sinni, miðað og skotið í átt að honum. Þá hafi hann séð eldglæringar niður alla heiði og þá á hann að hafa farið hingað.
Einar var formaður hérna, en ég var svo ungur þegar hann var hjá okkur og var að segja okkur þetta. Vermennirnir létu vel yfir sér hér, smíðuðu ausur og klifbera í frístundum sínum.
Misjafnt var hversu róðrar voru langir, fór eftir veðri. Fóru í rökkrinu og komu að landi í myrkri. Allir voru þeir á handfærum. Alltaf var seilað, ef einhver fiskur var. Beinnálar voru á endanum. Ef vel fiskaðist var farið að landi og síðan róið út aftur, kannski einn maður skilinn eftir og hann bar fiskinn á bakinu upp. Fiskurinn var hertur á þessum görðum, sneri upp á morgnana og hvolft á kvöldin. Þeir dysjuðu hann í óþurrkatíð og sneru honum síðan upp þegar þornaði í veðri.
Stundum var seilaBryggjanð útá í vondum veðrum meðan andæft var og síðan sætt lagi til að lenda. Þá var skipið dregið upp á augabragði. Það var ekkert erfitt að seila.
Hér var aldrei saltað, bara hert og allt flutt á hestum. Ég tel ekki ráð að þeir hafi borið fiskinn, ekki að ráði. Vermenn komu allstaðar frá gangandi. Ég man eftir lestarmönnunum þegar þeir komu að sækja hausana í kringum jónsmessuna. Það var aðallega farið að salta þegar ég man eftir. Menn fengu sitt kaup, en það var lítið.”
“Nú erum við komnir heim til Magnúsar Hafliðasonar, heim að Hrauni. Okkur verður starsýnt á myndirnar á veggjunum í stofunni. Á einni myndinni er Magnús og einhverjir fleiri.”
Hraun í Grindavík“Þessi mynd er tekin eftir björgunina á Cap Fagnet. 38 mönnum var bjargað. Ég vaknaði um morgunin um kl. 03:00 við feiknarmikið píp. [Siggi Nonni (Sigurður Gíslason, f: 1923) á Hrauni sagði FERLIR að hann hefði vaknað um nóttina, heyrt flaut og vakið föður sinn, sem hafi barið í þilið hjá Magnúsi. Við það hafi Magnús vaknað og litið út um gluggann.]Þá hafði strandað togari hér úti. Það var látið vita. Þá var komið með björgunartækin og mönnum bjargað með línu. Þetta var í fyrsta skipti sem skotið var af línubyssu á Íslandi. Fyrir það fengum við medalíur.
Þegar bjargað var í Vondufjöru enskur togari fengum við líka medalíur. Þá var aftakabrim. Ég hringdi úti á stöð. Þá var slydduél. Svo fór ég upp eftir og það var ekki neinum blöðum að fletta að þetta var strand. Menn komu í einum hvelli. Allir björguðust nema skipstjórinn, hann drukknaði. [Togarinn Lois, 6. janúar 1947].
Dóttir mín fór út í fjós um kvöldið. Hún kom aftur inn með óvarlega miklu fasi þótt hún væri að jöfnu hæglát. Hún sagðist ekki skilja í ljósi úti á sjó. Ég fór út og sá strax hvers kyns var. Þetta var strand. Ég fór uppeftir með ljós og þá skutu þeir smáragettum í land. Glamrið í skipinu þegar sjórinn var að færa það til á klöppunum, það var mikið. Þegar ég kom heim á tún aftur drapst á ljósavélinni. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef dóttir mín hefði ekki séð ljósið akkúrat þarna.
CapÉg fór fyrst á sjó á sjötta ári. Þá fór pabbi með okkur bræður stutt út. Ég réri alltaf með færi á sumrin þegar róið var. Nú er ég 81 árs og reyni að róa enn. Áraskipin voru tíróin fyrst og síðan áttróin, stundum sexróin. Á Hrauni var um 60 manns, margt sveitarmenn úr öllum sveitum. Þá var gaman að lifa. Nú er af sem áður var.
Eftirminnilegur maður að norðan, Jón Bergmann, var hérna. Hann var lögregluþjónn í Hafnarfirði um tíma. Hann var vel hagmæltur. Haldið var uppi glímum í landlegum. Jón lagði þá alla.
Ég man ekki eftir að hér hafi verið sukksamt. Fólkið bjó í búðum, sjóbúðum svona. Vonda veðrið var 1916. Búið var að róa lengi í blíðuveðri. Svo kom þetta veður, eins og skot. Ekki var um annað að gera en grípa árarnar. Þetta var þegar Ester bjargaði fjórum skipshöfnum. Margir misstu skip. Þetta var voðaveður. Enginn maður fórst.
Haldið var út smávegis búskap samhliða útvegi. Svo komu opnu trillurnar, en mér fannst mest gaman af áraskipunum. Það voru góð skip. En það var öðruvísi að geta látið vélarnar koma sér í land. Og verkaskiptingin var önnur. Félagsskapurinn á áraskipunu var betri og allt miklu skemmilegra. Fiskverðið var svo lágt að ekkert hafðist upp í kostnað, á áraskipunum og trillunum lengi framan af.
Fyrir okkur krakkana var ekkert fyrir okkur að gera. Börnin hjálpuðu til við að snúa heyinu. Ég gekk einn vetur að nafninu til í skóla, 29 börn voru í skólanum og einn kennari. Það var úti í Járngerðarstaðahverfi. Svo gengum við til prestsins úti í Staðarhverfi. Ég lærði nú lítið í skóla, heldur smátt. Kennarinn hét Erlendur.
Á jólunum var lítið um að vera, það var kerti og unglingunum þótti gaman að spila þá. Fólk kom hvað til annars og krakkar ólust allir upp á heimilunum. Pabbi og Sæmundur Tómasson á HrauniðJárngerðarstöðum skiptust á heimsóknum um hátíðarnar sitthvort árið. Mikill kunningjaskapur var þarna á millum.”
“Þá erum við komnir út á Þórkötlustaðarnes. Hér hefur líka verið útræði eins og á Selatöngum. Og hér hefur verið bryggja og hér standa tóftir íbúðarhúsa og sitthvað fleira.”
“Hér reri ég alla mína tíð á vertíð. Þá var engin bryggja, bara lendingin þarna. Fiskurinn var borinn upp á þessa velli, hvör upp að sínum skúr og allur fiskur saltaður. Allir höfðu salthús hér.
Seinna kom hér bryggja og vélarnar komu í bátana. Þá var alltaf lent hér og allur fiskur saltaður. Hér í Þórkötlustaðahverfinu var fleira fólk, 6 eða 7 bátar, aðallega áttæringar og teinæringar. Allt gekk ágætlega. Þegar mótorbátarnir komu var ekki tiltækt að vera með bátana hér. Þeir voru fluttir út í Járngerðarstaðahverfi.
Ég var ekki formaður lengi. Pabbi var hér formaður og mikill fiskimaður, Benóný Benónýsson á Þórkötlustöðum, Hjálmar Guðmundsson sem síðar fluttist af Ísólfsskála, Jón Þórarinsson frá Einlandi, Guðmundur Benónýsson, einn af þeim yngri, og Kristinn Jónsson á Brekku og Árni Guðmundsson í Teigi tóku við af þeim eldri. Þetta voru feiknamiklir sjósóknarar og duglegir menn, stórir og hver með sínu móti, allt almennileika menn. Þeir ólust allir uppi við þessa harðneskju. Það þætti víst skrýtið núna, aðbúnaðurinn sem þá var.
Við beittum línuna austur á hrauni og urðum að bera bjóðin út á Nes á morgnana. Það var beitt hrognum og þau þoldu lítið frostið. Þau rifnuðu þá af krókunum þegar farið var að leggja. Þetta gengum við suðureftir á morgnana og heim á kvöldin.

Aldan

Byggðin lagðist af hér þegar mótorar komust í bátana. Þá fluttist útgerðin út í hverfi. Hér var allt fyrir opnu hafi. Allir vildu heldur vera á góðu bátunum.
Hann var voðalaga leiður hérna í vörinni [neðan við Hraun] ef var norðanrok og hátt í, ef var kvika, stóð upp á. Utan við nesið var Einlandssund, sem kallað var.
Ég man aldrei eftir að hafa verið hræddur á sjónum. Oft hefur kvenfólkið heima verið hræddara en þeir sem á sjónum voru. Það kom aldrei neitt fyrir hérna, nema í eitt skiptið. Þá fórust þrír menn í góðu veðri. Báturinn var lítill og þeir voru fimm á. Það sló í baksegl og bátinn hvolfdi, þrír drukknuðu. Það þótti mikið að missa þrjá bændur héðan.
Ekki verður lengur ýtt bát úr vör héðan.”

Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga og Þórkötlustaðanes í Grindavík frá 1973.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.

Hraun

Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Hraun

Dysin við Hraun.

Sagan segir að bóndasonur á Hrauni (aðrir segja Ísólfsskála) hafi séð skip koma í Hraunsvíkina og ætlað að fagna komumönnum. Hafi hann lagt af stað á rauðri meri, en þegar hann sá hversu óvinveittir aðkomumenn voru, sneri hann þegar við hófum merinnar. Hún var hins vegar svo svifasein að Tyrkinn, sem fremstur fór, en svo munu þeir aðkomumenn hafa verið, hefði náð í taglið. En við það sama hafi merin sparkað aftur fyrir sig og kom höggið í Tyrkjann, sem drapst samstundis. Önnur saga segir að Tyrkirnir hafi verið tveir og merin sparkað þá báða til dauðs (Brynjúlfur Jónsson). Félagar Tyrkjans komu þá þar að, náðu bóndasyni og drápu. Hann var síðan dysjaður á hólnum. Brynjúlfur nefnir þó Dysina á Hraunssandi, sem staðinn þar sem þeim var komið fyrir, en við uppgröft þar á sjötta áratug 20. aldar kom í ljós kapellutóft.
Segja má að sagan sé alls staðar sýnileg – hvert sem litið er.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Efri-Hellir

Gengið var yfir Beinvörðuhraun að Húsafelli og leitað tveggja hella, sem þar áttu að vera þar skv. gömlum heimildum.

Hraun

Garðbjargarhellir.

Annar þeirra átti að geta hýst Grindvíkinga ef Tyrkirnir kæmu aftur, en hinn átti að hafa verið athvarf konu, Guðbjargar, frá Hrauni.

Mjög erfitt var að leita þeirra vegna víðfemrar lýsingar í annars erfiðu landslagi. Brugðið var því á það ráð að ganga að Hrauni og heimsækja Sigurð gamla, bónda, Gíslason. Hann tók FERLIRsfélögum vel og fylgdi þeim að Guðbjargarhelli, spottkorn ofan við veg gegnt heimkeyrslunni að bænum. Skútinn var ekki áfrýnilegur inngöngu, en þarna átti konuhróið að hafa leitað er hún vildi fá næði eða vera út af fyrir sig í friði og ró.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (á Efri-hellu).

Þá fylgdi Sigurður hópnum upp að Efri-helli, eins og hann nefndi hellinn. Hann er í framjaðri suðuraxlarinnar á Húsafelli þegar fer að halla niður að hraunkantinum á Hópsheiði. Hellirinn hefur tvö op og er hægt að ganga í gegnum hann. Talið var að hann hefði áður getað hýst alla Grindvíkinga ef til ófriðar hefði komið að nýju.
Til marks um hversu erfitt er að finna opin má segja frá því að þegar umhverfi þeirra var skoðað kom í ljós að spor leitarmanna voru einungis í u.þ.b. tveggja metra fjarlægð frá öðru þeirra, en sá sem þau átti kom ekki auga á opið.
Sigurði var þökkuð aðstoðin, en hann er ágætt dæmi um þau dýrmæti, sem felast í hagvönum heimamönnum á vettvangi.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (Efra-Helli) ofan Hrauns.

Hraun

Í mars 1931, tæpum 5 mánuðum eftir að slysavarnardeildin Þorbjörn í Grindavík var stofnuð, og aðeins viku eftir að heimamenn höfðu fengið tilsögn í meðferð fluglínutækja, strandaði skip skammt austan við Grindavík.
Cap Fagnet á strandstað 1931Aðfaranótt 14. mars 1931 varð heimilsfólk á Hrauni þess vart að togari hefði strandað þar framundan bænum. Skipið, sem hét Cap Fagnet og var frá Frakklandi, tók niðri alllangt frá landi en barst síðan yfir skerjagarðinn og festist skammt frá ströndinni. Skipverjar þeyttu eimpípu skipsins og gáfu þannig til kynna að þeir væru í nauðum staddir. Stormur var og mikið brim, sem gerði það að verkum að hvorki var hægt að koma báti frá skipinu né sigla að því. Það lá því ekki annað fyrir en að nota fluglínutæki hinnar nýstofnuðu deildar.
Maður var strax sendur frá Hrauni til Grindavíkur og slysavarnardeildin var kölluð út. Formaðurinn, Einar Einarsson í Krosshúsum, brá strax við og kvaddi sér menn til fylgdar, þá Eirík Tómasson, Járngerðarstöðum, og Guðmund Erlendsson, Grund. Fluglínutækin voru sett á flutningabifreið, sem sendiboðinn kom á, ásamt ljósum því dimmt var af nóttu, og haldið áleiðis að Hrauni. Ekki var bílfært alla leiðina á strandstað og varð því að bera tækin síðasta spölin.
Fluglínubyssan, sem notuð varÞegar var hafist handa við að taka upp bjargtækin og festa byssuna. Á meðan beðið var björgunar freistuðu skipverjar á Cap Fagnet þess að láta línu reka í land. en þær tilraunir mistókust og þótti skipverjum tvísýnt að takast mætti að koma sambandi milli skips og lands.
Um fimmleytið var undirbúningsstarfi lokið. Þá voru allmargir björgunarmenn komnir á vettvang er hjálpuðu við það sem þurfti. Nú var línunni skotið úr byssunni og tókst skotið mjög vel. Því hefur verið lýst svo: “Einar og Guðmundur verða sammála um miðunina. Allt er tilbúið fyrir skotið. Guðmundur …tekur í gikkinn. Hamarinn smellur fram og sprengir púðurskotið í byssunni. Á sama andartaki kveikir það í eldflauginni og hún þýtur af stað með háværu hvisshljóði. Í fyrsta skipti hefur verið skotið úr línubyssu til björgunar á Íslandi. Mennirnir fylgjast spenntir með eldflauginni þar sem hún klýfur loftið. Skotið heppnast prýðilega. Línan kemur yfir skipið, rétt fyrir framanstjórnpallinn. Það er auðvelt fyrir skipsmenn að ná til hennar. Þeir verða reyndar að sæta lagi að ná henni, en skjótt er hún í þeirra höndum. Samband er fengið við land.”
Björgun skipbrotsmannanna 38 af Cap Fagnet í björgunarstól í land gekk að óskum og var henni lokið um kl. 7. Allir voru þeir ómeiddir en gegnblautir. Vegna þess hve skipið ruggaði mikið í briminu þótti ekki ráðlegt að strengja björgunarlínuna eins og æskilegt hefði verið af ótta við að lína kynni að slitna. Skipsmenn drógusr því örðu hverju niður í sjóinn þegar skipið valt að landi. Blotnuðu þeir við það en sakaði ekki að öðru leyti.
Vegna brims og aðfalls, svo og vegna þess að skipið færðist nokkuð úr stað, varð að færa björgunartaugina meðan á björgun stóð og tafði það nokkuð.
Ekki mátti tæpara standa með björgun skipverja, því aðeins örfáum mínútum eftir að sá síðasti var kominn í land valt skipið enn meira á skerinu. Þá braut stöðugt á því og brátt fór yfirbyggingin að  brotna. Síðar um faginn skrikaði það út af skerinu og sökk og brotnaði brátt í spón. Ekki hefði þuft að spyrja að leikslokum ef hinna nýju fluglínutækja hefði ekki notið við.

Heimild:
-Einar S. Arnarlds – Mannslíf í húfi.

Cap Fagnet

Björgun áhafnar Cap Fagnet.