Færslur

Þórkötlusdys

Eins og fram kom í lýsingu í FERLIR-822 (Klöpp) var gengið fram á slökkviliðsstjórann í Grindavík á Klappartúninu með fornleifaskrá fyrir Þórkötlustaðahverfi undir höndum. Þegar að var gáð stóð þar á einum stað um dys Þórkötlu; “Á túninu austan við bæinn [Klöpp] er hóll; Þórkötludys. Ekki er nákvæmlega vitað hvar hún er”.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Kunnugt er að fornleifaskráningar eru ekki alltaf réttar (nokkur sárgrætileg dæmi sanna það), en þó er jafnan gengið út frá því að svo sé. Fram að þessu hefur jafnan verið horft á dys Þórkötlu í óslegnum hól í túninu austan við Hof. Þar hafa hinir elstu menn, sem vel þekkja til, talið hana hafa legið fram að þessu. Staðsetningin passar og við lýsinguna í sögunni þar sem segir að sú gamla hafi viljað láta grafa sig þar “sem hún sæi yfir Þórkötlustaðabótina.” Frá þeim stað sést vel yfir Bótina. Sambærileg sögn er um gröf Járngerðar sunnan við Járngerðarstaði. Slökkviliðsstjórinn hafði einmitt nýlega fjárfest í landsspildu þar sem nefnd dys á jafnan að vera. Þar ætlar hann að byggja sér hús, en skv. Þjóðminjalögum er svæðið friðað í a.m.k. 20 m fjarlægð frá fornleifinni.
Gengið var um Þórkötlustaðahverfið með framangreint í huga. Áður fyrr voru landshagir og staðsetning einstakra býla önnur en nú er. Hraunkot, sem var þurrabúð frá Klöpp, var t.d. í austurjarðri jarðarinnar. Nú eru rústir Hraunkots austan við Bjarmaland og Þórkötlustaði, en norðaustan við gamla Klapparbæinn. Þurrabúðamenn keyptur ekki jarðskikana, þeir áunnu sér þá með “hefðarrétti”.
Þjóðsaga Jóns Árnasonar segir að “Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Þórkötludys

Sigurður Gíslason við dys Þórkötlu í Þórkötlustaðahverfi.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.”
Í austur frá Þórkötlustöðum eru nú slétt tún að hraunjaðri Slokahrauns. Þar í túninu eru a.m.k. tveir hólar, óslegnir. Þeir voru gaumgæfðir, en komu varla til álita.
Í túninu á Klöpp er gróinn rúnaður klapparhóll. Hann virðist jafnan hafa verið nýttur. Er hann ílangur til suðurs og norðurs. Sjávarkamburinn er kominn svo til alveg að suðurenda hans. Hafa ber í huga að kamburinn hefur gengið a.m.k. 30 metra á land s.l. 30 árin. Fyrrum hefur kamburinn verið lægri því utan hans var löng sandfjara er náði a.m.k. 50 metra út frá ströndinni í lágfjöru. Um hana lá t.d. gamla sjávargatan, Eyrargata, frá Hrauni út á Þórkötlustaðanes.
Rætt var við Ísleif og Guðnýju Erlu Jónsbörn frá Einlandi, Benóný Benediktsson frá Þórkötlustöðum (sem seldi slökkviliðsstjóranum landsspilduna) og fleiri um hugsanlega staðsetningu Þórkötludysjar, en ekkert þeirra virtist hennar minnug.
Þá var rætt við Óskar í Hofi og loks Sigurð Gíslason frá Hrauni, þann núlifandi sem manna best veit um sögu og staðhætti í austanverðri Grindavík. Sigurður, sem nú er nær blindur, var ekki í neinum vafa, sagðist alltaf hafa heyrt af Þórkötlu undir stórri þúfu í túninu neðan við gamla Lambúskotið. Hann lýsti staðsetningu Þórköltudysjar þannig: “Hún er upp af Sólbakka, vestan við girðingu sem liggur í norður frá húsinu, austan og ofan við Hof. Þetta er stór þúfa í túninu, neðan við gamla Lambhúskotið í suðaustur – í neðra túninu. Óskar í Hofi slær blett frá Austurbænum, en þúfan tilheyrði Vesturbænum, talsvert neðan við Garðbæ, neðan og austar þar sem Lambhúskotið var.”

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Í framhaldi af þessu var Sigurður sóttur og gekk hann af öryggi að því búnu að dysinni. Þúfurnar eru tvær í túninu. Sigurður gekk að þeirri eystri. Áður hafði FERLIR verið bent á hina þúfuna ( Ól. Gamalíasson) sem hina meintu dys. Skýringin á henni er sögð vera sú að undir austari þúfunni hafi hundur Þórkötlu verið grafinn. Stutt er á milli þúfnanna.
Þar sem staðið var við dysina lýsti Sigurður staðháttum fyrrum: “Fjórar jarðir voru á Þórkötlustöðum; Tveir bæir voru í Vesturbæ, einn í miðbæ og tveir í Austurbæ. Þá voru Klöpp, Buðlunga og Einland á fjórðu jörðinni. Túnin náðu rétt upp fyrir dysina. Ofan við þau, í móunum, voru tómthúskotin, s.s. Lambhúskot og Hraunkot austast. Vestan við Sólbakka var kot sem hét Skarð. Þar kom Eyrargatan, sem nú er gleymd, upp úr fjörunni neðan við Buðlungu og Klöpp.

Klöpp

Klöpp – tóftir.

Gamli bærinn í Buðlungu var rétt vestan við Klapparbæinn. Nú má sjá í austurvegg hans sunnan við skemmuna. Skammt austar var Klöpp. Sjá má tættur bæjarins. Garður var milli bæjanna og sést hluti hans enn. Með honum að austanverðu lá sjávargatan. “Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa. Eyvindarkot hafi þá verið skammt frá Klöpp, en var fært undir Leitið þar sem nú er skólahúsið. Sjá má hleðslur af hænsnakofanum við götuna. Vestan við leiði Þórkötlu lá gatan á milli bæjanna. Landnámstóft, að því er talið var, hafi sést þegar grafið var fyrir hlöðu milli Miðbæjar og Vesturbæjar. Hlaðan er hofinn sem og Vesturbærinn. (Sigurður vísaði á staðinn). Þar undir eru hinar fornu minjar. Brynjúlfur Jónsson segir m.a. frá athugun á þessari tóft í fornleifalýsingum sínum.

Þórkötlustaðir

Garður ofan Þórkötlustaðahverfis.

Ofar má sjá mikla steingarða, ofan við Heimaland, Efraland og Þórsmörk (Hvamm). Þá hlóð Þorsteinn Þorsteinsson frá Einlandi um 1930. Þeir hafa haldist nokkuð vel, en verið haldið við. Þeir voru á á mörkum Einlands. Fyrir aldarmótin 1900 voru Þórkötlustaðir hjáleiga frá Hrauni, sem og Buðlunga. Afi hans, frá Járngerðarstöðum, átti jarðirnar áður en hann fluttist að Hrauni. Hraun væri allt að því landnámsjörð því sagan segir að þar hafi búið Iðunn, dóttir Molda-Gnúps, þess er fyrstur byggði í Grindavík, sem síðar bjó á Þjósti. Líklegra væri að bær hans hefði verið á Járngerðarstöðum en á Hópi. Iðunn átti fóstursson er Svertingur hét og Svartsengi er nefnt eftir. Hann hafi tekið bú að Hrauni að Steinunni genginni. (Í Landnámu segir m.a. að “Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur”).
Austan við Hraun voru miklar tættur. Þær voru allar sléttaðar út eftir miðja öldina. Kristján Eldjárn hafði mikinn áhuga á þessum tættum, en ekki síst hafði hann áhuga á manngerðum hól að hluta vestan við Hraun, sem hann taldi vera heiðna dys. Þær væru fáar á Reykjanesi og þessi hafi því verið sérstaklega áhugaverð. Ekkert varð þó úr að hann rannsakaði hólinn.”
Sigurður lýsti því er hann var við smölun austan við Krýsuvík, dvaldi í köldum og vindasömum hellisskúta við réttina norðan við Kleifarvatn (Lambhagaskúta), gisti í tjaldi á Blesaflöt, hvernig Grindavíkurbændur nýttu Arnarfellsréttina sem vorrétt og Krýsuvíkurréttina undir Bæjarfelli sem rúningsrétt, útigöngu og innitöku fjárins um áramót þegar illa áraði, ferðum fólks um Skógfellastíginn o.fl., en þær lýsingar munu bíða annarra ferða.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Festisfjall

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1955-1956 er m.a. fjallað um kapelluna í Kapellulág ofan Hrauns við Grindavík: “Austur frá Hrauni í Grindavík og allt til Festarfjalls heitir Hraunssandur, enda er þar mjög blásið og sér lítinn sem engan gróður á heilum flákum.
Kapellulag-1Þó sagði Gísli Hafliðason, gamall bóndi á Hrauni og átti þar heima alla ævi (d. 1956), að allt sé þarna heldur að gróa upp, sandurinn sé að festast, og mun það eflaust rétt athugað. Um Hraunssand hefur frá fornu fari legið vegur, og var um hann áður fyrri mikil umferð af mönnum austan úr sýslum, lestamönnum haust og vor og vermönnum um vetur. Frumstæður bílvegur liggur nú mjög þar sem gamli vegurinn var áður. Um það bil 1 km fyrir austan bæinn á Hrauni er lægðardrag allmikið í sandinum, hefst í hæðunum hið efra og nær niður að sjó, víkkar niður eftir og virðist myndað af rennandi vatni, þó að nú sé hvergi vatn á þessum slóðum. Lægð þessi heitir Kapellulág. Rétt neðan við bílveginn, sem nú liggur þvert yfir lægðina á sama stað og gamli vegurinn lá fyrrum, er töluvert áberandi þúst eða grjóthrúga, auðþekkt mannaverk í sandauðninni. 

kapellulag-2

Þessi grjóthrúga er í daglegu tali kölluð Dysin, og hermir Brynjúlfur Jónsson um hana eftirfarandi sögu: ,,Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjum elti hann og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þar dysjaður, og á rústin að vera dys hans”. Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið Húsið. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni. Fleira er eftirtektarvert í umhverfi dysjarinnar. Fyrir austan hana er allmikil hæð, og af henni er skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnknhellir.
kapellulag-3Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til þess að festa skip, og hafi írar fest þar skip sín. Þessir járnhringar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir yíst, að þessir hringar hefðu verið þarna. (Sbr. og Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli, Reykjavík 1899, bls. 1.)
Dysin í Kapellulág var rannsökuð dagana 13. og 14. maí 1954. Auk mín unnu við rannsóknina Gísli Gestsson safnvörður og Jóhann Briem listmálari fyrri daginn, en Gísli og Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi seinni daginn. Báða dagana nutum við gestrisni Gísla Hafliðasonar á Hrauni og konu hans. Veður var gott báða dagana, skúrir þó seinni daginn, en vinnufriður sæmilegur. Brynjúlfur Jónsson lýsir dysinni svo árið 1903, að hún sé „dálítil grjótrúst, nokkuð grasgróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðist vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir 1 al. á hæð”. Þessi lýsing á sæmilega við dysina, eins og hún leit út, áður en við byrjuðum að grafa í hana. Hún var að sjá eins og hver annar blásinn hóll, steinar oltnir út úr á allar hliðar, en nokkuð gróið á milli. Einkum var kollurinn vel gróinn, og vottaði þar ekki fyrir neinni laut eða lægð. Að ógröfnu mátti þó aðeins greina steinaraðir, sem stóðu upp úr þessum gróna kolli og virtust sýna innri brúnir veggja í litlu húsi.
Kapella-201Þegar við vorum búnir að mynda dysina, fórum við að grafa innan úr henni, eftir því sem þessar steinaraðir eða veggbrúnir sögðu til. Mold létum við sér og grashnausa sér til þess að geta komið öllu í sama fallega lagið aftur, þegar rannsókninni væri lokið. Efsta rekustungan eða vel það var eingöngu foksandur moldarblandinn. Í honum voru nokkur stórgripabein og fuglabein nýleg. Á hér um bil 50 sm dýpi varð vart við fyrstu mannvistarleifar, koladrefjar, sem ekki voru tilkomumeiri en það, að þær héngu ekki saman svo að lag myndaðist. Við hreinsuðum upp alla tóftina við þetta lag, gerðum uppdrátt og tókum myndir. Niðri við lagið eða um 45 sm frá yfirborði, inni undir húsgafli (þ. e. austurgafli), fundum við eina stappaða látúnsþynnu. Rétt fyrir neðan efstu mannvistarleifarnar, einkum við suðurhlið, en þó nokkuð um alla tóftina, var 1—2 sm þykkt lag af hreinlegum sjávarsandi með skeljamulningi í, en annars var allt hér fyrir neðan og niður á gólf tóftarinnar meira og minna blandað mannvistarleifum, þótt mest væri af leirlituðum foksandi með stærri og smærri steinum í.
Kapella-202Hér og hvar voru örlitlir öskublettir og viðarkolamolar, en eldstæði ekkert, og yfirleitt voru þessi eldsmerki smávægileg. Neðst var gul, leirkennd moldarskán, sem í vottaði fyrir morknum beinum og fúnum spýtum, og mun þetta eflaust vera gólf hússins, en í því voru engar eldsleifar, sem þó eru algengastar á gólfum. Neðan við þetta lag var hrein ísaldarmöl og engar mannvistarleifar.
Nú skal lýsa húskofa þessum, eins og hann kemur fyrir sjónir uppgrafinn. Það varð þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. 1 miðhafninu.

Kapella-203

Húsið hefur hins vegar geymzt sem minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið. 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð ogstanda vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ. e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt tifl norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan. Í þeim hefur verið eins konar stétt af smásteinum. Við syðri langvegginn lágu tvær stórar og myndarlegar hellur, og hefur hin fremri náð alveg fram undan þilstafninum, sem beinlínis virðist hafa hvílt á henni. Eitthvað virðist hafa hvílt á þessum hellum við suðurvegginn, t. d. borð eða bekkur. Fremri hellan er 15 sm þykk, og álíka hátt þrep er í dyrunum við hliðina á henni, enda er gólfið þetta lægra en hlaðið fyrir framan.
Fleira er varla nauðsynlegt að taka fram í lýsingu þessa húskrílis. Eftir rannsóknina fylltum við tóftina og færðum allt í samt lag aftur. Ég kom þar aftur í nóvember 1955, og var þá varla hægt að sjá, að nokkurn tíma hefði verið við henni rótað.”
Í “Skrá um friðlýstar fornleifar 1990” má lesa eftirfarandi um Kapellulág: “
Hraun – undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938. Lítil rúst í Kapellulág, við veginn upp á Siglubergsháls, sbr. Árb. 1903; 46-47.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 54. árg. 1955-1956, bls. 16-20.
-Skrá um friðýstar fornleifar 1990.

Kapella

Kapellan við Hraun.

Hraun

Þann 24. mars 2006 voru 75 ár síðan björgunarsveitin Þorbjörn bjargaði 38 manna áhöfn togarans Cap Fagnets undan Hraunsfjöru. Þá var fluglínutæki fyrst notuð til björgunar hér á landi.

Cap Fagnet

Cap Fagnet.

Fljótlega eftir stofnun Slysavarnafélags Íslands árið 1928 var hafist handa við stofnun slysavarnadeilda og björgunarsveita víða um land og voru fluglínutækin fyrstu eiginlegu björgunartæki margra þeirra. Fluglínutæki er búnaður til bjargar mönnum úr strönduðum skipum og kom fyrst fram á sjónarsviðið í Bretlandi í kringum 1850 í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.
Aðfaranótt 24. mars 1931 strandaði franski síðutogarinn Cap Fagnet á Hraunsfjörum austan Grindavíkur. Um borð var 38 manna áhöfn. Slæmt veður var þegar togarinn strandaði og ljóst að ekki væri unnt að yfirgefa skipið á björgunarbátum togarans.

Cap Fagnet

Björgun við Cap Fagnet.

Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík, sem stofnuð hafði verið tæpum fimm mánuðum áður, brást skjótt við og tókst að bjarga allri áhöfn togarans með hinum nýja björgunarbúnaði. Björgunin markaði ákveðin tímamót og færði mönnum heim sannindi þess hversu öflug björgunartæki fluglínutækin voru og flýtti mjög fyrir útbreiðslu þeirra. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjunum og björgunarsveitum á Íslandi líf sitt að launa.
Síðast voru fluglínutæki notuð við björgun þegar línuskipið Núpur BA strandaði við Patreksfjörð í nóvember 2001. Björgunarsveitirnar Blakkur og Tálkni björguðu þá 14 manna áhöfn skipsins. Á síðustu árum hefur skipsströndum fækkað mikið, sem betur fer, og fluglínutækin því sjaldnar notuð við björgun. Þá hafa þyrlur og björgunarskip komið oftar að björgun úr strönduðum skipum og bátum, enda öflug björgunartæki.
Þrátt fyrir þetta eru fluglínutækin mikilvægur björgunarbúnaður og langt því frá að vera úrelt. Slæm veður geta gert þyrlur ónothæfar við björgun og þá geta fluglínutækin skipt sköpum.

Heimild:
www.grindavik.is

Áhöfnin

Áhöfnin á Cap Fagnet sem bjargað var.

Hans Hedtoft

Í Morgunblaðinu árið 1959 er sagt frá bjarghring úr Hans Hedtoft er rak í Grindavík, en farið hafði farist við Grænland fyrr á árinu:
Hans Hedtoft“Aðfaranótt miðvikudags rak bjarghring úr danska Grænlandsfarinu Hans Hedtoft á land í Grindavík. Mun ekkert annað hafa fundizt svo öruggt sé úr Grænlandsfarinu, sem fórst með farþegum og allri áhöfn [95 manns] SA af Hvarfi á Grænlandi 31. janúar sl. vetur. Er bjarghringurinn óskemmdur og greinilega merktur Hans Hedtoft, Köbenhavn. Er Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni, sem er austasti bær í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, kom út á miðvikudagsmorgun og niður á tún, sá hann hvar glampaði á eitthvað hvítt úti í fjörunni. Um nóttina hafði verið mikið rok á suðaustan og brim, en um morguninn var komið logn. Gekk hann út með fjörunni og fann óskemmdan bjarghring uppi í malarkambinum.

magnus haflida-221

Tók hann hring inn heim með sér og um kvöldið hafði hann orð á því við Árna Eiríksson, bílstjóra á áætlunarbíl Grindvíkinga, að hann hefði fundið hring merktan Köbenhavn. Árni athugaði hringinn nánar og sá að hann var af Hans Hedtofi. Er hann kom til Reykjavíkur í gær, gerði hann Henry Hálfdánarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags-ins aðvart. Hringdi Henry til Magnúsar bónda og bað hann um að halda á hringnum með sér er hann kæmi næst í bæinn. Sennilega leystur frá skipinu eins og áður er getið, sér nær ekkert á bjarghringnum þó hann hafi hrakizt i sjó í 9 mánuði. Svolitlar skellur eru komnar í rauða litinn, en áletrunin er alveg óskemmd og greinileg. Á tveimur stöðum er eins og eitthvað hafi höggvizt í hringinn og aðeins er að byrja að koma skeljungur á kaðalinn, sem er alveg heill. Enginn spotti er i hringnum og tóið hvergi slitið, svo engu er líkara en að hringurinn hafi verið leystur af skipinu, en ekki slitnað frá því.
Fréttamaður Mbl. átti í gær tal við Magnús bónda á Hrauni. Hann er 68 ára gamall, fæddur og uppalinn á Hrauni og því oft búinn að ganga f jöruna neðan við bæinn. Sagði hann að þar ræki oft ýmislegt, einkum hefði borizt mikið dót á land þar á stríðsárunum, enda væri þetta fyrir opnu hafi. Sagði Magnús að þarna ræki oft brot úr bjarghringum, en þeir ‘væru oftast of illa farnir til að þekkjast.

hans hedtoft - hringur

Við hliðina á hringnum af Hans Hedtoft lá einmitt eitt slíkt brot.
Bjarghringir eru ákaflega léttir og telur Magnús líklegt að hringurinn af Hans Hedtoft hafi borizt fyrir vindi, fyrst suðurum undan norðanáttinni í vetur. þá upp undir Suðurlandið í vestanáttinni og loks hafi honum skolað upp í Grindavík undan suðaustanrokinu, sem staðið hefur nú um langan tíma. Annars er ómögulegt að segja hvað svona léttir, fljótandi hlutir geta flækst, sagði Magnús að lokum.”
Bjarghringurinn nú er varðveittur í kapellunni í Qaqortog eða Julianehåb á Grænlandi.

Heimild:
-Morgunblaðið 9. október 1959, bls. 24.

Hans Hedtoft

Hans Hedtoft.

Búri

Hraunhellir er skilgreindur sem „almyrkt holrúm í hrauni“

Hellar

Hraunhellar á Reykjanesskaga – yfirlit.

Hraunhellar geta verið hellar af náttúrulegum uppruna eins og hraunrásir (t.d. Búri), hellir í hraundrýlum (finnnst t.d. í Hnúkum ofan Selvogs, hraunbólur, sprunguhellar (sjá Hundraðmetrahellir í Helgadal), gervigígahellar og gígahellar líkt og Þríhnúkagígur í Bláfjöllum. “Hraunhellar geta einnig myndast við svokallaða troðhól, þá treðst kvikan úr eldfjalli undir heitt hraunyfirborðið sem þegar er farið að storkna og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins. Við þetta lyftist yfirborð þess og getur þykknað mikið á afmörkuðum svæðum.” Sjávarróf getur líka búið til hraunhella þegar hraunið er á sjávarsíðum, t.d. í Herdísarvíkurbergi og Krýsuvíkurbergi. En þeir geta líka verið manngerðir.

Til þess að teljast vera hellir er gjarnan við það miðað að holrýmið nái a.m.k. 20 metrum að lengd en annars talað um skúta eða hraunskúta. En í flestum tilfellum er talað um hraunrásir í þessum samhengjum.

Aðallega finnast hraunrásir í helluhraunum þar sem efsta lag þunnfljótandi basaltkviku hefur storknað en bráðið hraunið haldið áfram að streyma í afmörkuðum farvegum undir yfirborðinu. „Rásirnar eru ýmist í gígveggjum eða í efri hluta hins nýrunnað hrauns sem þegar hefur storknað að hluta. Einnig geta slíkar rásir eða hraungöng myndast mun framar í helluhraunum.“ Þegar eldgosið rénar sjatnar í þessum farvegum og eftir standa langir hellar. Stundum þó eru þeir ennþá hálffylltir af hrauni. Svo þarf líka hallinn í göngunum vera nægilegur, til að kvikan gætti runnið niður göngin eftir að ný hættir að berast.

Litadýrð í mörgum hraunhellum er til vegna efnasambanda sem leka úr veggjunum, sbr. hellirinn FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Margs konar myndir finnst í hraunhellum, þar á meðan dropasteina, dropsteina, kleprasteina, hraunfossar og -strá, stundum líka mannvistarleifar.

Efnið má flokkast í 3 hópa: 1) myndun í samhengi við rennsli hraunarinnar í hellinum, t.d. storkuborð; 2) myndun í samhengi við afgangsbráð sem lekur inn í hellinn, t.d. dropsteinar; 3) myndanir sem eru ekki úr hrauni eins og ísmyndanir, sandkastalar, dropasteinar (úr kálki) o.s.fv.

Mest áberandi eru dropsteinarnir og hraunstrá úr hraunbráð.  Þeir myndast þegar hraun er hálf-storknuð og „svokölluð afgangsbráð er á hreyfingu í æðum inni í hrauninu og þrýstist út í holrúm í hrauninu og þar með inn um veggi og loft hellanna. Afgangsbráð sem lekur niður úr hellisloftinu myndar hraunstrá” og spenar “en á gólfinu hlaða droparnir upp dropsteina.“ Dæmi um slíka hella á Íslandi eru Bálkahellir, Snorri, Búri, Raufarhólshellir og margir fleiri.

Dropsteinn

Dropsteinn í Snorra.

Þekktir hraunhellar og -skútar á Reykjanesskagnum eru í dag, árið 2022, a.m.k. 650 talsins. Árið 1975 var fjallað um fjölda hraunhella á Skaganum í Tímanum þar sem nokkrir slíkir voru nefndir til sögunnar. Þess var jafnframt getið að “eflaust ættu fleiri sambærilegir eftir að finnast á næstu árum”. Sú varð raunin. Með tilkomu áhugafólks um hellana fundust allnokkrir áður óþekktir, en finnendur voru oftar en ekki uppteknir við að nefna þá í höfuðið á sjálfum sér, sbr. Stefánshellir. Hellarannsóknarfélag Íslands (HERFÍ) var stofnað, skipað hugsjónarfólki í fyrstu, en breyttist síðar í hóp sérvitringa.

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

FERLIRsfélagar hafa á undanförnum áratugum fundið fjölda nýrra hella á Reykjanesskaga. Fram til 2010 upplýstu þeir HERFÍ um fundina, en eftir að einstrengisleg stefna HERFÍS um lokun hella á svæðinu fyrir öðrum en félagsmönnum varð ofan á, hafa FERLIRsfélagar ekki upplýst félagsmenn um hellafundi. Þeir hafa haldið þeim út af fyrir sig. Í millitíðinni var stofnaður hópur áhugafólks um hellarannsóknir (ÍSHERF), sem er miklu mun áhugaverðari samstarfskostur.

Bjargarhellir

Hraunrós í Bjargarhelli.

Í allnokkrum hraunhellum á Reykjanesskagnum er að finna mannvistarleifar, sem fornleifafræðingar hafa virt af vettugi. Án efa eiga fleiri slíkir eftir að finnast á svæðinu, enda má telja augljóst að fólk á því hafi nýtt sér hin náttúrulegu skilyrði á ýmsan máta við búsetu þess í gegnum árhundruðin.

Eftir að Holuhraun myndaðist norðan Vatnajökuls komu í ljós nýir hraunhellar. Reikna má með enn nokkrum slíkum eftir að áhugafólk fer að skoða hið nýja Geldingadalahraun í Fagradalsfjalli.

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hraunhellir

Maístjarnan

Nýfundnir dropsteinar í helli á Reykjanesskaga.

Ölfusvegir

Ætlunin var að rekja gamla þjóðleið frá mótum Ölfusár (ferjustað við Hraun) yfir Hraunsheiði og áfram áleiðis að Litlalandi þar sem hún tengist Ólafsskarðsvegi. Að öllum líkindum tengist hún þjóðsögunni um Draugshelli, sem var áningarstaður ferðamanna á þessari leið fyrr á öldum, auk þess sem hún kemur við sögu lykla bryta í Skálholti. Gatan er ekki merkt inn á kort. En þrátt fyrir sandfok á heiðinni mun gatan enn augljós, ef vel er að gáð.
Draugs-2Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. “Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri.

olfusvegir-2

Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. “Bessaleyfi hér á híbýlum,” segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.
Olfusvegir-3Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, “en ég mun,” segir hann, “fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.”
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: “Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.” 

Olfusvegir-4

Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: “Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.”. “Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,” segir Björn. “Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.” Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.”
Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-

Olfusvegir-5

Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.
Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal, Ólafsskarðveg, og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Mælifellssand syðri. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.
Olfusvegir-7Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Fleiri sagnir eru af tilurð nafngiftar Lyklafells. Hér verður nefnd ein til viðbótar. Sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat.
Olfusvegir-8

Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu. Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.

Olfusvegir-9

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um þetta svæði: “Norðvestur frá Stekkatúni er varða sem heitir Beinteinsvarða. Stendur hún við götuna þar sem skiptast leiðir, upp á eystri Hlíðarbæina, og syðri gatan, á ytri Hlíðarbæi. Á klöppina sem Beinteinsvarða stendur á er klappað M. Norðaustur frá Beinteinsvörðu er hólaþyrping sem heitir Miðþúfur, eða í eintölu Miðþúfa. Fyrir framan Sandamót er áberandi varða suðvestur frá bænum, hún heitir Nónvarða.”
Örnefnalýsing fyrir Litlaland: “Niðri á Sandi, niður undir Leirum, er varða í mörkum Litlalands, Breiðabólsstaðar og Þorlákshafnar. Hún heitir Varða í Hálfförum. Um 50 m austan við Þorlákshafnarveg, álíka sunnarlega á Sandinum og nýnefnd varða, er lágur klapparhóll, sem Guðmundur Jónsson frá Læk, lengi vinnumaður í Þorlákshöfn og Vindheimum, síðar bóndi í Þorlákshöfn segir að heiti Hálffarahóll .”
Örnefnalýsing Vindheima og Breiðabólsstaðar: “Vestan-suðvestan við Dagmálahæð er önnur klöpp, lægri og minni. Hún heitir Litla-Dagmála-hæð. Á milli Dagmálahæðanna er gata, engjavegur frá Austur-Hlíðarbæjunum í Naut-eyrar, og að Hrauni.
Suðvestur frá Dagmálahæð er lægð sem hOlfusvegir-6eitir Siggulág. Suðvestan við hana eru Þrívörður, og í norður frá Þrívörðum er Stekkjartún, ekki langt fyrir sunnan þjóðveginn, suður frá Langamóa. Í vestur frá Stekkjartúni eru enn klappir skammt fyrir sunnan þjóðveg.  Þeir heita Klapparhólar. Vestastur þeirra er stakur hóll, kross-sprunginn. Hann heitir Hádegishóll.
Fyrir austan Grænuflöt og Harðavöll liggur gata beinustu leið til Þorlákshafnar. Heitir hún Hafnarvegur. Vestan við götuna, rétt fyrir sunnan þjóðveginn er Músarhóll, lítill hóll með hundaþúfu á kolli, ofan við Sandamótin. Niðri á Sandi, ofan við Leirur, er varða sem heitir Hálffaravarða eða Varða í Hálfförum.”

Ólafsskarðsvegur er merktur til suðurs austan Geitafells og suður með vestanverðu Búrfelli. Þessi gamla gata liggur hins vegar til suðausturs austan Geitafells og niður heiðina vestan Litlalandsels (nokkru austan Búrfells) og sameinast framangreindri götu yfir Hraunsheiði að Ölfusá. Gatan er áberandi frá Litlalandi að Hrauni (með stefnu á “Vörðu í Hálfförum”), en hverfur í túninu ofan við bæinn. Á austari kafla götunnar hefur vagnvegur verið lagður ofan í gömlu reiðleiðina.
Skammt austan við Þorlákshafnarveg eru gatnamót vegar (Engjavegarins) að Breiðabólastað (Vindheimum), við svonefnda Beinsteinsvörðu. Skammt norðar er mest áberandi varðan í heiðinni, Nónvarðan. Gatnamótin eru á tveimur stöðum með skömmu millibili, en gatan sameinast á móts við núverandi þjóðveg að Þorlákshöfn. Mjög auðvelt er að fylgja götunni. Efst á Hraunsheiði er fallin varða við götuna, sem hefur verið kennileiti ef farið hefur verið frá Breiðabólsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.
-Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi.
-Herforningjaráðskort frá 1909.

Litlaland

Litlaland.

Arnarseturshraun

Gengið var um Arnarseturshraun frá megingígnum og stærstu hrauntröðinni fylgt til vesturs. Við hana eru m.a. nokkur hús vegarvinnumanna frá því að Grindarvíkurvegurinn var gerður á árunum 1914-1918.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Arnarseturshraun, sem er apalhraun að mestu, er á leiðinni til Grindavíkur. Efsta bungan á veginum nefnist Gíghæð og er Arnarsetrið, gígurinn, austan við hana. Hraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík eru ca. 2400 ára, en Arnarseturshraun er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum árið 1226. Það er því eitt þeirra 12-15 hrauna á Reykjanesskaganum, sem runnu á sögulegum tíma.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur fyrrum – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunið hefur komið upp á sprungurein og bráðin bergkvika runnið frá eldstöðinni eftir yfirborði jarðar og storknað. Það hefur hlaðist upp á eldra hrauni, líklega frá Skógfelli. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður.

Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Afstapahraun, sem einnig rann á sögulegum tíma, líklega á 12. öld. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum. Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. í Arnarseturshrauni, í Gígnum sunnan Þórðarfell, frá Rauðhól undir Vatnsskarði og Búrfelli ofan Hafnarfjarðar.

Helluhraun

Helluhraun.

Helluhraun eru hins vegar slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Nokkrir slíkir hellar eru í Arnarseturshrauni. Þegar hafa fundist um 15 þeirra, misstórir.

Gíghæð

Gamli Grindavíkurvegurinn um Gíghæð – uppdráttur ÓSÁ.

Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem vænlegustu leið okkar til nýsköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að „gera út á“ íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.
Fjölbreytileiki íslenskra eldvarpa er eitt af einkennum landsins. Eldfjallaeyjan Ísland á engan sinn líka hvað varðar landslag, gosmyndanir og bergfræði. Þrátt fyrir ungan jarðfræðilegan aldur og tíða eldvirkni eru margar jarðmyndanir hérlendis mjög fágætar, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Og þótt Íslendingar telji sig vera ríka af þeim eldvörpum sem skópu landið í aldanna rás þá ber að minnast þess að margar þessar jarðmyndanir eru afar sjaldgæfar og jafnvel einstakar, svo sem hinar mörgu eldborgir á Reykjanesskaganum. Samkæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á Reykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200–300 ár. Síðasta goshrinan gekk yfir á árunum 950–1240 en síðast runnu hraun á Reykjanesskaga árið 1226, þar má nefna Arnarseturshraun, Leitahraun og Eldvarpahraun.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/

Arnarsetur

Hrauntjörn í Arnarsetri.

Sloki

Gengið var um Slokahraun eftir svonefndum Eyrarvegi er náði frá vesturtúngarðinum á Hrauni og með ströndinni út í Þórkötlustaðanes. Sigurður Gíslason á Hrauni, sem nú er orðinn blindur að mestu, lýsti leiðinni nákvæmlega áður en lagt var af stað. Með í för var sonur hans, Gísli Sigurðsson.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar lá Eyrarvegur austan við svonefndar Hrossbeinalágar. Ofan við þær er varða og hóll, Sögunarhóll. Þar undir lá gatan áfram inn á hraunið, yfir að Klöpp og síðan áfram suður í Nes. Bæirnir í Klöpp og Buðlunga stóðu framar í kampinum og var gatan skammt neðan við bæina sjávarmegin sem og Þorkötlustaði. Út frá ströndinni var um 500-600 m sandfjara, sem nú er horfin. Gatan fór síðan upp fyrir kampinn í Bótinni. Þar var nefnt Skarð, sem nú er fyrir neðan Sólbakka. Eftir flóðið 1925 flæddu bæirnir vestast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar á túnin. Fjörusandinum var síðar mokað í burtu (eftir 1930) og sjórinn hætti að fága steininn í Klapparfjörunni. Eftir það hafði hann einungis berar klappirnar til að leika sér að.
BuðlunguvörUndir kampinum neðan við Buðlungu eru Vötnin, en svo var sjá staður nefndur þar sem ferskt vatn flæðir undan klöppunum. Skiptivöllurinn var skammt austar, upp af Buðlunguvörinni. Næsta lón vestan við vörina hét Svalbarði. Hjálmar á Þórkötlustöðum lenti oft upp í Svalbarði á leið inn í vörina og braut þá skip sín þar meira og minna. Stórgrýti er undan klöppinni.

Byrgin og garðarnir vestan við Hraunstúnið eru minjar fiskverkunar frá Hrauni. Mannvirkin voru líka mikið notuð frá Skálholtsbiskupsstól. Garðarnir suður í Nesi voru einnig allir meira og minna byggðir frá Hrauni. Skálholt var jafnan með eitt eða tvö skip á Hrauni. Þau lentu einnig suður í Nesi eins og Hraunsskipin, en frá bænum voru einnig jafnan tvö skip úti Nesi.

Slok

Varða við Sögunarhól.

Sögunarhóll er þar sem varðan er. Rekaviðurinn úr fjörunni var sagaður þar úr rekanum. Voru menn stundum heilu dagana að saga og vinnan viðinn. Þeir geymdu sýru í vörðunni til að hafa eitthvað að drekka. Hún er hol á innan og þar var sýran geymd.
Þegar komið var að byrgjunum og görðunum austast í Slokahrauni mátti sjá að mannvirkin eru misheil. Hraunið er hins vegar mjög gróft og því hafa hleðslurnar haldið sér nokkuð vel. Þær eru á afmörkuðu svæði ofan við Markabás. Hann er landamerki Þórkötlustaða og Hrauns. Hádegisklettur er austan við Markabás og Hádegistangi fram af honum og út í sjóinn. Þá kemur Skarfaklettur, en hann er sennilega best sýnilega kennileitið í fjörunni. gengur talsvert langt út í sjó.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á strandsstað.

Við Skarfaklett hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust og komust inn í Blásíðubás um síðir. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði sunnan undir Skarfatanga aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki, og tókst notkun þeirra sem best varð á kosið. Þrjátíu og áta mönnu var bjargað í land. Nokkur eftirmáli urðu af strandinu, sum harla spaugileg.

Slok

Slokahraun – fiskbyrgi.

Vestar í hrauninu eru aðrir garðar, sumir verulega háir. Þessir garðar voru notaðir af austurbæjunum í Þórkötlustaðahverfi, en auk Klappar, Buðlungu og Þórkötlustaðabæjanna þriggja má þarna telja Einland, Móa og nokkur kot, s.s. Hraunkot. Þessir garðar voru einnig notaðir til fiskverkunar.
Til er lýsing á flóðinu mikla árið 1925. Þá urðu bæirnir við ströndina umflotnir vatni, fiskur og þang flutu langt á land upp og hús brotnuðu í atganginum. Á einum bæjanna rifnaði fjósið frá og sjá mátti þarfanautið fljóta baulandi á brott út í iðuna á bás sínum. Eftir þetta voru bæjarhúsin færð lengra á land upp, sem fyrr segir í lýsingu Sigurðar.

Eyrargata

Eyrargata.

Út af Slokanum er talið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Þá fórst Þuríður formaður þar með allri áhöfn. Slokin draga nafn sitt af slokrhljóðinu er sjórinn skellur undir hraunhellunni, sem hann hefur safnað lábörðu grágrýtinu upp á í háan kamp.

Þegar Eyrarvegurinn var genginn til vesturs, í eins líkum farvegi og unt var, mátti vel gera sér í hugarlund hvernig sjómennirnir gengu þessa leið árla morguns fyrr á öldum, hljóðlega og án óþarfa skrafs, sem einkennir suman nútímanninn, í einfaldri röð og sá fremsti haldið á lukt með kolu í. Lagt hefur verið af stað um kl. 4 að morgni og gangan út í Þórkötlustaðanesið varaði í u.þ.b. klukkustund. Þegar staldrað var við á Slokatá, austast á Slokanum, og litið til baka mátti næstum því sjá sjómennina líða þar um veginn, hægt og hljóðlega.
Frábært veður. Birtan var ógleymanleg. Þetta var eitt af þeim augnablikum lífsins, sem aldrei gleymast.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunsfjara

Eftirfarandi frásögn af “síðasta strandinu í Grindavík” birtist í Faxa 1947:
“Á þrettándakvöld sl. barst hið alþjóðlega neyðarkall — S O S — á öldum ljósvakans að eyrum þeirra dyggu þjóna, sem hlusta nótt og nýtan dag eftir þörfum þeirra, er afskektastir eru allra og oft í lois-222bráðri hættu — sjómannanna, sem oft og og einatt eiga líf sitt undir því einu komið að hlustað sé í lítil og veikbyggð tæki annað hvort í landi eða á öðrum skipum, sem betur eru sett. Menn þeir, sem annast tæki þessi, eru venjulega sérmenntaðir loftskeytamenn. Oft hafa þeir verið litnir öfundar- og stundum jafnvel fyrirlitningaraugum utan af dekkinu, sökum þess að þeir geta starfsins vegna gjarna verið vel til fara jafnvel fínir, eru venjulega inni í dúnhita og geta skemmt sér að músik og ýmsu öðru, þó að aðrir þræli í náttmyrkri og vetrarhörkum við ömurlegustu skilyrði.
Stétt loftskeytamanna hefur þó getið sér frægðarorð og bjargað mörgum mannslífum. Í þetta sinn var það brezki botnvörpungurinn Lois, sem var í nauðum staddur. Hann var að koma frá Englandi og hefur sjálfsagt ætlað vestur fyrir land, á hin auðugu fiskimið, sem mjög eru sótt af erlendum fiskiskipum. En dimmviðri var á og hríð annað slagið. Auk þess kann að vera að áttavitinn hafi truflazt af segulmagni fjallanna í Reykjanessfjallgarðinum, en slíkt hefur oft komið fyrir áður. En hvernig sem á því stóð, þá stóð skipið allt í einu í stórgrýttri fjörunni. Brimið ólmaðist óskaplega og stormurinn stundi við Festarfjall. Í skeyti því, er skipstjórinn sendi Slysavarnarfélagi Íslands, hélt hann sig vera 15 mílum vestan við Selvogsvita. Þá hefðu þeir lent á Selatöngum, sem eru alllangt frá mannabyggðum og auk þess er landtaka þar mun verri, svo að hæpið hefði verið að nokkur skipsmannanna hefði haldið lífi, ef staðarákvörðunin hefði reynzt rétt. Reyndin var sú að skipið var 4 mílum vestar, eða vestanhallt í Hrólfsvík, sem er nokkur hundruð metrum austan við Hraun í Grindavík. Það reyndist þeirra lán í óláninu.
Um svipað leyti og skeytið barst til Slysavarnarfélags Íslands varð strandsins vart frá Hrauni. Var þegar í stað hringt til Sigurðar Þorleifssonar, formanns Slysavarnarfélagsins „Þorbjörn” í Grindavík, en það var um kl. 9,30 um kvöldið og honum tilkynnt strandið. Þegar var hafizt handa um að hóa mannskap saman og koma björgunartækjum á strandstaðinn. Gekk þetta hvorttveggja mjög greiðlega og um kl. 10 var komið á strandstaðinn og undirbúningur að björgunarstarfinu hafinn. Skipið lá þá þversum í brimgarðinum um 100 m. frá flæðarmáli. SSA-stormur var og mjög mikið brim, svo að skipið barðist harkalega við stórgrýti og flúðir. Fljótlega mun hafa laskazt sú hliðin, er að landi sneri, og daginn eftír er menn komust um borð var síðan sem sagt úr.

Hraun

Hraun.

Fljótlega tókst að koma á sambandi milli skips og björgunarsveitarinnar. Árni G. Magnússon, skytta sveitarinnar, hæfði með fyrsta skoti. „Rakettan” flaug gegnum loftið með granna línu í eftirdragi. Skyttan hæfði skipið miðskipa undir loftnetið, eða svo haganlega, sem á varð kosið. Skipverjar drógu nú til sín sverari línur, dráttartaugar og líflínu, sem þeir komu fyrir í framreiðanum. Síðan hófst hin vasklega björgun. Tugum saman stóðu Grindvíkingar á ströndinni og unnu sem einn maður með hröðum og vissum handtökum. Hver maður á sínum stað og sigurverkið var í fullum gangi. Björgunarstóllinn var dreginn út til skipsins og þaðan kom hann með hvern skipverjann á fætur öðrum. Sökum þess hve skipið valt mikið varð að hafa líftaugina fremur slaka, svo að strandmennirnir drógust í sjóinn á leið til lands. Flestir þeirra voru þó allbrattir er í land kom. Einn þeirra hafði þó fengið taugaáfall og nokkra fleiri varð að styðja að bíl, sem flutti þá heim að Hrauni, en þar var kominn Karl G. Magnússon héraðslæknir.
Klukkan 11,30 voru allir skipverjarnir komnir á land, nema skipstjórinn, sem var þá staddur í „brúnni”. Allt að 10 mínútur var beðið eftir honum. Þegar hann loks fór fram á þilfarið virtist hann hrasa en komst þó um síðir að vantinum Og upp á borðstokkinn og mun hafa ætlað að teygja sig eftir stólnum, en þá reið ólag undir skipið og stríkkaði við það á líflínunni, svo að skipstjórinn tapaði jafnvægi og féll í hafið — líkið rak að landi eftir tvo eða þrjá daga. Strandmennirnir 15, sem björguðust, dvöldu að Hrauni hjá bræðrunum Gísla og Magnúsi Hafliðasonum um einn sólarhring við góða aðhlynningu.
Allflestir karlmenn úr Grindavík voru komnir á strandstaðinn og telur Sigurður Þorleifsson, að þessi vel heppnaða björgun sé árangur ákaflega góðra samtaka og skipulags við framkvæmd þessa ábyrgðarmikla starfs — þar sem hvert handtak getur verið lífsábyrgð.
Slysavarnarsveitin „Þorbjörn” telur nú um 200 félagsmenn og konur. Sveitin er löngu landfræg fyrir frækilegar bjarganir úr sjávarháska. Grindvíkingar hafa vanizt hörðum fangbrögðum Ægis. Þrálátt og þróttmikið brimið hefur þjálfað þetta lið í einbeitingu mannlegs máttar til varnar og sóknar gegn hamslausri náttúrunni, þegar hún vill gerast ágeng við líf eða limi.
Það er sigurfögnuður hjá þjóðinni allri, þegar slík afreksverk eru unnin.
J.T.

Heimild:
-Faxi – 7. árg. 1947, bls. 1-2.

Hraun

Hraun.

Grindavík

Grindavík og umhverfi bæjarins er hraun, mismunandi gömul. Flest hraunin mynduðust umleikis hraun frá ísaldarskeiðum fyrir 14000 – 8000 árum. Önnur eru yngri, þau yngstu frá því á 13. öld.

Grindavík

Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst og Þórkötlustaðanes fjærst.

Þorbjörn, bæjarfjallið, er úr móberg frá eldri jökulskeiðum Bruhnes. Þvert í gegnum það liggur misgengi.

Hagafell austan Þorbjarnar er einnig úr móberg frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs.

Húsafell og Fiskidalsfjall ofan Hrauns eru úr móberg frá seinni hluta síðasta jökulskeiðs. Grágrýishetta þekur efsta lag móbergsins.

Siglubergsháls, á milli Fiskidalsfjalls og Festarfjalls er úr grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Grágrýtishetta á móbergi.

Grindavík

Grindavík – Festarfjall.

Festarfjall er úr móbergi frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs. Á því er grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Sjávarmegin, neðst, má sjá ummyndað móberg frá fyrra jökulskeiði.

Fagradalsfjall norðan Festarfjalls er úr móberg frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs. Á því er stapagrágrýti.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

Slaga ofan Ísólfsskála er úr móbergi frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs, þakið grágrýti á stöpum og móbergshryggjum. Ísólfsskáli stendur á Borgarhrauni neðanverðu.

Höfði austan Fagradalsfjalls er úr móbergi frá eldri jökulskeiðum Bruhnes. Grágrýti er ofan þess.

Vatnsheiði er dyngja ofan Húsafells. Aldur: <14.500 >12.500. Bærinn Hraun stendur m.a. á Vatnsheiðahrauninu. Hraunið er Pikrít.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst.

Gerðavellir vestan Járngeðarstaða er hraun frá Sandfellshæð. Aldur: ~13.600 ára. Hæðin er dyngja.

Staðarhverfi er einnig úr hrauni frá Sandfellshæð. Berghraunið/Klofningahraunið er bæði vestan og austan við Stað, Eldvarpahraunið rann síðan yfir það að hluta.

Strýthólahraun

Strýthólahraun.

Hópsness- og Hópsheiðarhraun kemur úr heiðinni ofan Hóps. Hraunið myndaði m.a. Hópsnes- og Þórkötlustaðanes, auk núverandi bæjarstæði Grindavíkur. Á Þórkötlustaðanesu austanverðu er Strýthólahraun. Aldur: <11.500 >8000.

Eldra Beinavörðuhraun milli Sundhnúka og Fagradalsfjalls kom úr gígun undir Sundhnúkahrauni. Aldur: <11.500 >8000.

Yngra Beinavörðuhraun liggur aað hluta til ofan á Eldra Beinavörðuhrauni. Aldur: <11.500 > 8000 ára.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall. Merardalir.

Hraun austan við Einihlíðar milli Fagradalsfjalls og Höfða. Aldur: <11.500 >8000.

Klifhólar/Selháls/Svartsengisfell (Sílingarfell) sunnan og austan Þorbjarnar er hraun og kleprar. Aldur: ~4500 cal yrs B.P.

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

Hraun á Lágafelli og í Lágafellsheiði er dyngjuhraun. Aldur: <11.500 >8000.

Borgarhraun sunnan Fagradalsfjalls og Borgarfells. Aldur: <11.500 > 8000 ára.

Dalahraun austan Sundhnúka. Aldur: <8000 >>3000.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes fremst.

Skollahraun og yngra Afstapahraun (Katlahraun) austan Ísólfsskála. Aldur: ~2000.

Sundhnúkshraun/Háahraun/Blettahraun austan og vestan við Sílingarfell.  Sundhnúkahraun myndaði auk þess Slokahraunið til suðausturs. Aldur: <3000 >2000.

Eldvörp

Eldvarpahraun.

Berghraun/Klofningahraun austan Þorbjarnar. Aldur: ~2100 ára.

Arnarseturshraun/Illahraun/Eldvarpahraun norðan Sílingarfells og norðan og vestan Þorbjörns. Aldur: 1210-1240 AD.

Heimild:
-Ísor.is – jarðfræðikort.

Jarðfræðikort

Grindavík – jarðfræðikort; ÍSOR.