Hraun

Í mars 1931, tæpum 5 mánuðum eftir að slysavarnardeildin Þorbjörn í Grindavík var stofnuð, og aðeins viku eftir að heimamenn höfðu fengið tilsögn í meðferð fluglínutækja, strandaði skip skammt austan við Grindavík.
Cap Fagnet á strandstað 1931Aðfaranótt 14. mars 1931 varð heimilsfólk á Hrauni þess vart að togari hefði strandað þar framundan bænum. Skipið, sem hét Cap Fagnet og var frá Frakklandi, tók niðri alllangt frá landi en barst síðan yfir skerjagarðinn og festist skammt frá ströndinni. Skipverjar þeyttu eimpípu skipsins og gáfu þannig til kynna að þeir væru í nauðum staddir. Stormur var og mikið brim, sem gerði það að verkum að hvorki var hægt að koma báti frá skipinu né sigla að því. Það lá því ekki annað fyrir en að nota fluglínutæki hinnar nýstofnuðu deildar.
Maður var strax sendur frá Hrauni til Grindavíkur og slysavarnardeildin var kölluð út. Formaðurinn, Einar Einarsson í Krosshúsum, brá strax við og kvaddi sér menn til fylgdar, þá Eirík Tómasson, Járngerðarstöðum, og Guðmund Erlendsson, Grund. Fluglínutækin voru sett á flutningabifreið, sem sendiboðinn kom á, ásamt ljósum því dimmt var af nóttu, og haldið áleiðis að Hrauni. Ekki var bílfært alla leiðina á strandstað og varð því að bera tækin síðasta spölin.
Fluglínubyssan, sem notuð varÞegar var hafist handa við að taka upp bjargtækin og festa byssuna. Á meðan beðið var björgunar freistuðu skipverjar á Cap Fagnet þess að láta línu reka í land. en þær tilraunir mistókust og þótti skipverjum tvísýnt að takast mætti að koma sambandi milli skips og lands.
Um fimmleytið var undirbúningsstarfi lokið. Þá voru allmargir björgunarmenn komnir á vettvang er hjálpuðu við það sem þurfti. Nú var línunni skotið úr byssunni og tókst skotið mjög vel. Því hefur verið lýst svo: “Einar og Guðmundur verða sammála um miðunina. Allt er tilbúið fyrir skotið. Guðmundur …tekur í gikkinn. Hamarinn smellur fram og sprengir púðurskotið í byssunni. Á sama andartaki kveikir það í eldflauginni og hún þýtur af stað með háværu hvisshljóði. Í fyrsta skipti hefur verið skotið úr línubyssu til björgunar á Íslandi. Mennirnir fylgjast spenntir með eldflauginni þar sem hún klýfur loftið. Skotið heppnast prýðilega. Línan kemur yfir skipið, rétt fyrir framanstjórnpallinn. Það er auðvelt fyrir skipsmenn að ná til hennar. Þeir verða reyndar að sæta lagi að ná henni, en skjótt er hún í þeirra höndum. Samband er fengið við land.”
Björgun skipbrotsmannanna 38 af Cap Fagnet í björgunarstól í land gekk að óskum og var henni lokið um kl. 7. Allir voru þeir ómeiddir en gegnblautir. Vegna þess hve skipið ruggaði mikið í briminu þótti ekki ráðlegt að strengja björgunarlínuna eins og æskilegt hefði verið af ótta við að lína kynni að slitna. Skipsmenn drógusr því örðu hverju niður í sjóinn þegar skipið valt að landi. Blotnuðu þeir við það en sakaði ekki að öðru leyti.
Vegna brims og aðfalls, svo og vegna þess að skipið færðist nokkuð úr stað, varð að færa björgunartaugina meðan á björgun stóð og tafði það nokkuð.
Ekki mátti tæpara standa með björgun skipverja, því aðeins örfáum mínútum eftir að sá síðasti var kominn í land valt skipið enn meira á skerinu. Þá braut stöðugt á því og brátt fór yfirbyggingin að  brotna. Síðar um faginn skrikaði það út af skerinu og sökk og brotnaði brátt í spón. Ekki hefði þuft að spyrja að leikslokum ef hinna nýju fluglínutækja hefði ekki notið við.

Heimild:
-Einar S. Arnarlds – Mannslíf í húfi.

Cap Fagnet

Björgun áhafnar Cap Fagnet.