Hraun

Gengið var frá Hrauni austan Þórkötlustaðahverfis í Grindavík í fylgd Péturs Guðjónssonar, fyrrverandi skipstjóra, uppalinn í Höfn á Þórkötlustaðanesi.

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).

Byrjað var þó á því að kasta kveðju á Sigga á Hrauni. Hann benti m.a. á að skírnarfontur sá, sem fannst við gröft utan í hól austan við bæinn fyrir u.þ.b. ári síðan, hafi verið færður norður fyrir bæinn. Gat hann þess að Árni Magnússon hafi á sínum tíma sagt frá því í dönsku blaði að kirkja hafi verið á Hrauni frá 1226. Kapellan skammt austan við Hraun, ofan við Hrólfsvíkina, mun vera frá því á 15. öld. Kristján Eldjárn og fleiri grófu í hana um miðja 20. öld og fundu í henni nokkuð af munum, en síðan var hún orpin sandi að nýju.

Hraun

Hraun – signingarfontur (skírnarfontur).

Skírnarfonturinn er ekki ólíkur þeim sem er við Kálfatjarnarkirkju og er sagður vera úr kaþólskum sið. Einnig kemur til greina að þarna hafi verið um “stoðholustein” að ræða líkt og sjá má í gamla Herdísarvíkurbænum. Þá hefur komið fram tillaga að um steinninn gæti hafa verið drykkjarsteinn fyrir hesta, líkt og er við Glaumbæ í Skagafirði.*
Gengið var vestur með norðurgarðinum og staðnæmst við við gamla túnhliðið þar sem gatan út í hverfi og áfram út á Þórkötlustaðanes lá. Pétur sagði að áður hafi brekkan þar norðvestan við verið sandorpin og því stundum erfið yfirferðar, en nú er hún að mestu gróin, sennilega mest eftir kríuna.
Gengið var áleiðis út á Slokahraun. Fylgt var gamla grjótgarðinum. Pétur benti á fyrrum áningarstað hestamanna á leið þarna um, en síðan voru fiskbyrgin og garðarnir skoðaðir þarna í hrauninu. Þeir eru Hraunsmegin og hafa að mestu fengið að vera óáreittir. Minna á hina gömlu fiskverkunaraðferð.

Slokahraun

Sögunarhóll.

Vestan við Sögurnarhól mátti enn sjá brennivínsflöskuna frá fyrri ferðum. Hún er nú rúmlega hálffull. Gengið var um þurrkgarðana sunnan við Hraunkot og inn á Klappartúnið, því fylgt framhjá tóftum gamla Klapparbæjarins og yfir að Buðlungu. Þar var Ólafur Gamalíasson að bjástra við spýtur. Tekið var tal af honum. Fræddi hann viðstadda m.a. um hvaða stefnu Suðurstrandarvegsmálið hefði nú tekið með tilkomu orkuvers á Reyjanesi.

Klöpp

Klöpp.

Gamli bærinn í Klöpp lagðist af á fyrri hluta 20. aldar. Þar gistu áður margir mektarmenn, s.s. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi. Timburhús, sem þá var byggt, flaut upp í óveðrinu 1925. Um 1930 var húsið Klöpp og Teigur sambyggð í brekkunni ofan við réttina.

Hóp

Hóp – kort ÓSÁ.

Gengið var niður að Buðlunguvör. Pétur sagði að áður hafi verið stór varða neðst í Buðlungutúninu og hefði hún borið í vörðu uppi á heiði. Það hafi verið stefnan inn á Bótina, en síðan hafi vörðurnar ofan við bryggjuna á Nesinu tekið við. Skoðaðar voru svonefndar Þvottaklappir þar sem ferskt vatn kemur undan klöppunum, litið á æðaregg, brúnleit hraunreipi, gæsarhreiður o.fl. á leiðinni neðan við fiskverkunarhúsin.
Eftir að hafa gengið yfir Kónga var stefnan tekin þvert á Þórkötlustaðanesið áleiðis yfir að Nesi Hópsnesmegin. Á leiðinni mátti sjá æðaregg, hrauntröðina miklu um þvert Nesið, en hún er í hrauninu er kom úr gígunum Vatnsheiðinni ofan við Húsfell (Húsafell).

Hópsnes

Hópsnes – þurrkgarðar.

Miklir þurrkgarðar eru Hópsnesmegin, sjóbúðartóft á grónum hól o.fl. Gengið var að Goðatóftinni neðan við Hóp og litið á hugsanleg ummerki eftir landsnámsbæ þar í túninu. Fróðlegt væri að fara með jarðsjá yfir túnin á þessum stað og kanna undirlagið. Mótar fyrir stórri tóft og hringlaga garði, auk fleiri tófta utar í túninu.
Loks var litið á blóðþyrnirinn á Tyrkjaflöt, en hann er sagður hafa vaxið upp af blóði kristinna manna og heiðinna þar sem mættust heimamenn og Tyrkir 1627. Talið er að þyrnir (þystill) þessi vaxi á tveimur stöðum á landinu.
Frábært veður – sól og hlýtt. (2 klst og 2 mín).

*Guðbjartur Kristófersson

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.