Sigurður Gíslason á Hrauni er manna kunnugastur um örnefni og staðhætti á jörðinni Hrauni skammt austan við Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.
Rætt var við Sigga þar sem hann dvelur um þessar mundir á Hjúkrunarheimilinu að Víðihlíð við góða umönnun. Sigurður fæddist á Hrauni 5. maí árið 1923 og hefur búið þar fram til þessa.
“Ég veit sjálfsagt eitthvað um örnefnin á Hrauni, en þekki þau ekki endilega öll”, segir Siggi. “Krókur hét t.d. krikinn vestast í túninu, norðan Vatnagarða. Þar eru tóftir. Draugagerði eru leifar garða eða gerðis austan við Tíðarhliðið, innan garðs. Bakki eða Bakkar voru norðan við Gamla bæinn. Bóndinn þar vildi nefna það Litlahraun, en fékk ekki. Hrauntún var vestan við Gamla bæinn. Sunnuhvoll var norðan við Hrauntún og Gamla bæinn. Sauðagerði var austast í túninu og sjást tóftir þess enn. Vatnagarður (-ar) lýsti ég áður, en Gamli bærinn var vestan og sunnan við núverandi hús; tvíbýlið.
Hraun um 1940 – hér sést gamli bærinn og sjóbúðin.
Fjárhús tóftir eru á a.m.k. tveimur stöðum er enn sjást. Gamlibrunnur er ofan við Hrólfsvík. Krókshellir er í Krókstúninu. Suðvestan þess lá Eyrargatan út á Nes. Hraunkotsgatan lá upp úr Króknum yfir að Haunkoti og Þórkötlustaðagatan lá upp um Fremra-Leiti út í Þórkötlustaðahverfi. Allar þessar götur sjást enn, nema kannski Eyrargatan. Á götum þessum voru hlið í túngarðinum. Hraunsvegur var nýjasta gatan áður en núverandi þjóðvegur kom. Hann lá um Efra-Leiti, framhjá Hvammi og um Tíðarhliðið á Hrauni. Markhóll er upp á Efra-Leiti, hlaðinn. Hraunsleynir er austar.
Vatnagarðar – tóftir.
Ofan hans er hlaðin refagildra og leifar af fleirum í Leyninum sjálfum. Hraunsvörin var þrískipt; Suðurvör (Hraunsvör), Norðurvör og Bótin. Þú þekkir svo Hraunsbrunninn og hvar líklegt er að kirkjan til forna gæti hafa staðið austan við Gamla bæinn.
Ekki má gleyma Dysinni ofan við bæinn þar sem karlsson er sagður hafa verið grafinn eftir Tyrkjaránið og Ræningjadysinni, eða Kapellunni, á Hraunssandi, sem Kristján Eldjárn gróf í og fann þar eitthvað að gripum. Tyrkjahellirinn er svo uppi á Efri-Hellum, en þar var alltaf gott vatn fyrir kýrnar. Og ekki má gleyma Guðbjargarhelli, en hann var löngum athvarf ömmu minnar fyrst eftir að hún kom að Hraunu, vildi hún vera í næði.”
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar, sem Gísli Hafliðason, bóndi, Hrauni (Vestur-Hrauni) og Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Ísólfsskála (fyrrum bóndi á Austur-Hrauni (Manntal 1910)), gáfu kemur eftirfarandi fram: “Fram af túninu gengur þangivaxinn tangi fram í sjó, sem fer í kaf um flóð.
Þegar Jón Jónsson, afi Gísla Hafliðasonar, var hér, var á tanganum grasflöt. Sunnan við Skarfatanga í bás, sem þar er, strandaði franskur togari. Einnig strandaði kútter Hákon hér 1926 milli 8. og 9. maí.
Næst austan við Skarfatangann er Markabás, sem fyrr getur. Hann gengur þannig inn í bergið og fer alveg í kaf um flóð. Þar flæðir allt, sem þar kann að vera. Í túninu eru engin nöfn, en gerðið austur af túninu er nefnt Sauðagerði. Túnið sjálft er nafnalaust.
Næsta vík við Skarfaklett er Hvalvík, svo er Hrólfsvíkin fyrrnefnda. Síðan er Vondafjara eða Vindfjara. Utan hennar gengur fram Skeljabótarklöpp. Er þá komið heim undir bæ, og er þar vík, sem heitir Skeljabót. Út af Skeljabót heitir Barnaklettur. Vestan við Barnaklett er Hraunsbót og fjaran þar heitir Hraunsvör. Þá taka við, niðri á túninu, Vatnagarðar. Þar var eitt sinn býli.
Húsafell er vestan við Fiskidalsfjall. Skarð á milli fellanna er einungis nefnt Skarð. Grasbrekkur framan í Húsafelli heita: Langigeiri og er austast; Djúpigeiri, Litli-Skotti og Stóri-Skotti er vestast. Kvos upp á Húsafelli fyrir ofan Stóra-Skotta heitir Húsafellsdalur. Austur af hrauninu framan við Húsafell er hellisskúti sem nefndur er Guðbjargarhellir. Hann er kenndur við Guðbjörgu ömmu Magnúsar Hafliðasonar en hún hafði þarna afdrep í leiðindum sínum fyrst eftir að hún kom að Hrauni.
Húsafell ofan Hrauns.
Landamerki Hrauns og Þórkötlustaða eru um hæstu bungu Innstuhæðar frá hól á Hraunsleiti framan við Hraunsleyni. Úr Innstuhæð eru landamerkin í norðaustur í svonefnda Vatnskatla í Fagradals-Vatnsfelli.”
Loftur Jónsson skráði örnefni í Hraunslandi:
“Jörðin Hraun í Grindavík á land að Ísólfsskála og Krýsuvík að austan, Vatnsleysuströnd að norðan og Þórkötlustöðum að vestan. Bærinn stendur við sjó utarlega við Hraunsvík að vestanverðu.
Eftirfarandi hjáleigur voru í Hraunslandi: Vatnagarður syðst í túninu. Þar bjó eitt sinn ekkja á 17. öld og hafði allt upp í 8 kýr þegar flest var. Bakkar (eða Litla-Hraun) norðan núverandi túns. Sunnuhvoll norðvestan við Hraun og Hrauntún þar vestur af. Óljósar sagnir eru um hjáleiguna Draugagerði vestur við túnhlið. Þar stóðu fjárhús sem elstu menn muna. [Á túnakorti frá 1918 eru merktar þar “gamlar rústir”.]
Hraunsgarðar í Slokahrauni.
Örnefni sem mér eru kunn í landi Hrauns eru eftirfarandi: Með sjó er Markabás vestast. Hann er austan við svonefnd Slok og skiptir löndum á milli Þórkötlustaða og Hrauns. Austan við Markabás er Hádegistangi. Hádegisklettur er þar ofan og sunnan við. Hann hét öðru nafni Klofaklettur, tvær strýtur voru upp úr honum en önnur er nú brotin af fyrir mörgum áratugum.
Þetta var hádegismark frá gamla bænum á Hrauni. Þar norðan við er Skarfatangi. Það er smátá sem skagar út í sjóinn en fer í kaf á flóði. Magnús Hafliðason segist muna eftir grasi á Skarfatanga og þegar hann var ungur hafi gamlir menn sagt sér að grasbakki hafi verið á Skarfatanga. Skip hafa strandað sitt hvoru megin við Skarfatanga. Franski togarinn Cap Fagnet að sunnan og kútterinn Hákon að norðanverðu. Vikið norðan við Skarfatanga heitir Vatnagarður og sama nafn ber syðsti hluti túnsins þar upp af. Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstreymisfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er að það hafi komið upp þegar bænahús var aflagt á Hrauni (sennil. Á 17. öld). Gamla sundið lagðist þá einnig af. Vatnstangi er norðan við Vatnagarð. Þar rennur fram ferskt vatn.
Fast norðan Vatnstanga er Suðurvör og var þar aðallending á Hrauni. Norðan við Suðurvör er sker og var farið fast með því þegar lent var og var það nefnt Rolla. Norðurvör er í þröngum klöppum þar norður af og þar var aðeins hægt að lenda í mátulega sjávuðu. Baðstofa er stór klöpp fast fyrir norðan Norðurvör. Þar norður af er Bótin og þar var nyrsta lendingin. Þaðan var hægast að fara út í vondu. Efst í Bótinni er klettur sem fer í kaf á flóði og heitir Barnaklettur. Þar áttu að hafa flætt og síðan drukknað tvö börn.
Túnið upp af Bótinni er nefnt Sauðagerði. Bóndagerði var líka til í túninu en er komið undir kamp fyrir löngu síðan. Önnur örnefni eru ekki kunn í túninu.
Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina. Þar eru klappir sem nefndar eru Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri- og Fremri- með skeri á milli. Í Hrólfsvík strandaði breskur togari (Luis). Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn þegar hann var þjóðminjavörður og taldi hann að þetta hafi verið enskur verslunarstaður.
Hvalvík er norðan við Hrólfsvík. Hvalhóll er á kampinum milli þeirra. Fram undan hamrabelti ofan Hvalvíkur er stór klettur laus við landið og heitir Skarfaklettur. Hellir í hamrabeltinu rétt ofan Skarfakletts heitir Dunkhellir. Hann er nú að mestu fullur af grjóti.
Festarfjall – Hraunssandur nær.
Fjaran undir Festarfjalli heitir Hraunssandur. Skora hét rauf í bergið fyrir norðan Dunkhelli en er nú horfin. Stígurinn var gata niður á sand og var hún upp við fjallsræturnar. Þar er nú bílfært niður. Klettarani skagar fram á sandinn og heitir Vestrinípa. Eystrinípa er töluvert austar og skilur hún á milli Hraunsands og Skálasands og þar af landamerki. Ekki er hægt að komast fram hjá þessum klettum nema þegar lágsjávað er. Við Eystrinípu er áberandi lóðrétt blágrýtisstuðlabergslag í berginu kallað Festin. Þjóðsaga segir þetta vera gullhálsfesti tröllkonu sem bjó í fjallinu.
Hún lét svo um mælt að þegar ábúendum á Hrauni tækist að láta dóttur heita í höfuð sér og stúlkan gengi á sandinum þarna fyrir neðan mundi festin falla um háls henni. Þetta virðist ekki hafa tekist enn.
Festarfjall er fyrir botni Hraunsvíkur. Í daglegu tali er það kallað Festi. Norðan við Festi og á milli fjallsins Hrafnshlíðar er Siglubergsháls. Skökugil heitir gil með grasgeira í suðvestan í Hrafnshlíð. Þar ofar í hlíðinni heitir Vondaklif. Djúpidalur er norðaustan í Hrafnshlíð.
Vestan við Hrafnshlíð er Fiskidalsfjall. Þar sem fjöllin mætast er Skökugil að framan en að norðan er djúpt gil eða geil inn á milli fjallanna og heitir Svartikrókur. Við rætur
Útsýni af Fiskidalsfjalli yfir Lyngfell. Lambastapi t.h.
Fiskidalsfjalls að norðan var mikið af stórum björgum sem hrunið höfðu úr fjallinu en eru nú farin, voru notuð við byggingu hafnargarðs í Grindavíkurhöfn. Þetta var kallað Stórusteinar. Framan í fjallinu að austanverðu eru grasbrekkur sem kallaðar eru Hálsgeirar og grasbrekka að vestanverðu heitir Berjageiri.”
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Lofts Jónssonar.
-Sigurður Gíslason, Hrauni.