Færslur

Hraun

Gengið var frá Hrauni austan Þórkötlustaðahverfis í Grindavík í fylgd Péturs Guðjónssonar, fyrrverandi skipstjóra, uppalinn í Höfn á Þórkötlustaðanesi.

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).

Byrjað var þó á því að kasta kveðju á Sigga á Hrauni. Hann benti m.a. á að skírnarfontur sá, sem fannst við gröft utan í hól austan við bæinn fyrir u.þ.b. ári síðan, hafi verið færður norður fyrir bæinn. Gat hann þess að Árni Magnússon hafi á sínum tíma sagt frá því í dönsku blaði að kirkja hafi verið á Hrauni frá 1226. Kapellan skammt austan við Hraun, ofan við Hrólfsvíkina, mun vera frá því á 15. öld. Kristján Eldjárn og fleiri grófu í hana um miðja 20. öld og fundu í henni nokkuð af munum, en síðan var hún orpin sandi að nýju.

Hraun

Hraun – signingarfontur (skírnarfontur).

Skírnarfonturinn er ekki ólíkur þeim sem er við Kálfatjarnarkirkju og er sagður vera úr kaþólskum sið. Einnig kemur til greina að þarna hafi verið um “stoðholustein” að ræða líkt og sjá má í gamla Herdísarvíkurbænum. Þá hefur komið fram tillaga að um steinninn gæti hafa verið drykkjarsteinn fyrir hesta, líkt og er við Glaumbæ í Skagafirði.*
Gengið var vestur með norðurgarðinum og staðnæmst við við gamla túnhliðið þar sem gatan út í hverfi og áfram út á Þórkötlustaðanes lá. Pétur sagði að áður hafi brekkan þar norðvestan við verið sandorpin og því stundum erfið yfirferðar, en nú er hún að mestu gróin, sennilega mest eftir kríuna.
Gengið var áleiðis út á Slokahraun. Fylgt var gamla grjótgarðinum. Pétur benti á fyrrum áningarstað hestamanna á leið þarna um, en síðan voru fiskbyrgin og garðarnir skoðaðir þarna í hrauninu. Þeir eru Hraunsmegin og hafa að mestu fengið að vera óáreittir. Minna á hina gömlu fiskverkunaraðferð.

Slokahraun

Sögunarhóll.

Vestan við Sögurnarhól mátti enn sjá brennivínsflöskuna frá fyrri ferðum. Hún er nú rúmlega hálffull. Gengið var um þurrkgarðana sunnan við Hraunkot og inn á Klappartúnið, því fylgt framhjá tóftum gamla Klapparbæjarins og yfir að Buðlungu. Þar var Ólafur Gamalíasson að bjástra við spýtur. Tekið var tal af honum. Fræddi hann viðstadda m.a. um hvaða stefnu Suðurstrandarvegsmálið hefði nú tekið með tilkomu orkuvers á Reyjanesi.

Klöpp

Klöpp.

Gamli bærinn í Klöpp lagðist af á fyrri hluta 20. aldar. Þar gistu áður margir mektarmenn, s.s. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi. Timburhús, sem þá var byggt, flaut upp í óveðrinu 1925. Um 1930 var húsið Klöpp og Teigur sambyggð í brekkunni ofan við réttina.

Hóp

Hóp – kort ÓSÁ.

Gengið var niður að Buðlunguvör. Pétur sagði að áður hafi verið stór varða neðst í Buðlungutúninu og hefði hún borið í vörðu uppi á heiði. Það hafi verið stefnan inn á Bótina, en síðan hafi vörðurnar ofan við bryggjuna á Nesinu tekið við. Skoðaðar voru svonefndar Þvottaklappir þar sem ferskt vatn kemur undan klöppunum, litið á æðaregg, brúnleit hraunreipi, gæsarhreiður o.fl. á leiðinni neðan við fiskverkunarhúsin.
Eftir að hafa gengið yfir Kónga var stefnan tekin þvert á Þórkötlustaðanesið áleiðis yfir að Nesi Hópsnesmegin. Á leiðinni mátti sjá æðaregg, hrauntröðina miklu um þvert Nesið, en hún er í hrauninu er kom úr gígunum Vatnsheiðinni ofan við Húsfell (Húsafell).

Hópsnes

Hópsnes – þurrkgarðar.

Miklir þurrkgarðar eru Hópsnesmegin, sjóbúðartóft á grónum hól o.fl. Gengið var að Goðatóftinni neðan við Hóp og litið á hugsanleg ummerki eftir landsnámsbæ þar í túninu. Fróðlegt væri að fara með jarðsjá yfir túnin á þessum stað og kanna undirlagið. Mótar fyrir stórri tóft og hringlaga garði, auk fleiri tófta utar í túninu.
Loks var litið á blóðþyrnirinn á Tyrkjaflöt, en hann er sagður hafa vaxið upp af blóði kristinna manna og heiðinna þar sem mættust heimamenn og Tyrkir 1627. Talið er að þyrnir (þystill) þessi vaxi á tveimur stöðum á landinu.
Frábært veður – sól og hlýtt. (2 klst og 2 mín).

*Guðbjartur Kristófersson

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Hraun

Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Hraun

Dysin við Hraun.

Sagan segir að bóndasonur á Hrauni (aðrir segja Ísólfsskála) hafi séð skip koma í Hraunsvíkina og ætlað að fagna komumönnum. Hafi hann lagt af stað á rauðri meri, en þegar hann sá hversu óvinveittir aðkomumenn voru, sneri hann þegar við hófum merinnar. Hún var hins vegar svo svifasein að Tyrkinn, sem fremstur fór, en svo munu þeir aðkomumenn hafa verið, hefði náð í taglið. En við það sama hafi merin sparkað aftur fyrir sig og kom höggið í Tyrkjann, sem drapst samstundis. Önnur saga segir að Tyrkirnir hafi verið tveir og merin sparkað þá báða til dauðs (Brynjúlfur Jónsson). Félagar Tyrkjans komu þá þar að, náðu bóndasyni og drápu. Hann var síðan dysjaður á hólnum. Brynjúlfur nefnir þó Dysina á Hraunssandi, sem staðinn þar sem þeim var komið fyrir, en við uppgröft þar á sjötta áratug 20. aldar kom í ljós kapellutóft.
Segja má að sagan sé alls staðar sýnileg – hvert sem litið er.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Sigurður Gíslason

Eftirfarandi er upprifjun, að gefnu tilefni, úr fyrrum FERLIRsferð frá Hrauni í Grindavík og nágrenni:

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

FERLIR gekk um sunnanverð Suðurnes s.l. laugardag. Tekið var hús á fjölfróðum merkismanni, Sigurði Gíslasyni, bónda á Hrauni austan Grindavíkur. Leiddi hann hópinn og sýndi honum m.a. fallega tilhöggvin stein, sem gæti verið forn skírnarfontur úr gömlu bænahúsi eða kirkju, sem hafði staðið þar skammt frá og getið er um í gömlum heimildum.

Hraun

Hraun – fontur.

Fonturinn er hinn merkilegasti gripur. Hann kom upp þegar verið var að grafa utan í fjárhús fyrir nokkrum misserum, en aftan þeirra átti bænahúsið að hafa staðið fyrrum. Fyrir stuttu var fonturinn síðan sóttur í gröftinn og komið á tryggari stað. Sigurður sýndi hópnum auk þess fallega hlaðinn brunn, Gamlabrunn, á söndunum ofan Hrólfsvíkur, en þangað sóttu íbúar Þórkötlustaða vatn á 19. og á framanverðri 20. öld. Brunnurinn hefur fallið í gleymsku og virðast fáir vita af tilvist hans nú orðið. Skammt austar er Kapellulág, en þar undir sandinum er kapella frá því á 15. öld, ein af gersemum svæðisins. Þá benti Sigurður á forna dys á hól vestan Hrauns, en í hana hafði Kristján Eldjárn áhuga að grafa, en entist ekki aldur til.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Loks var skoðuð gömlu hlaðin krossrefagildra, líklega sú eina á landinu, svo vitað sé.
Sigurður sýndi hleðslur ofan Húsfells, sem og opin á “Tyrkjahellinum” á Efri-Hjalla.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs.

Þá var gengið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal, en hann stendur við gamla Sandakraveginn (Krýsuvíkurleiðina) þar sem hann liggur á bak við Slögu að Méltunnuklifi og áfram austur úr til Krýsuvíkur.

Krýsuvíkurleið

Krýsuvíkurleið.

Gatan (leiðin) er mjög greinileg. Hún var gerð ofan í vagnveginn, sem lagður var millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur 1923 um  hinn forna Ögmundarstíg.
Þaðan var gengið um Nátthaga, upp skarðið og yfir að Stórahrút og að ofanverðum Merardölum. Þar var beygt yfir í Geldingadal og litið á dys Ísólfs gamla á Skála, en sagan segir að hann hafi látið dysja sig í dalnum þar sem sauðir hans undur hags sínum svo vel.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Gengið var auðveldlega upp úr dalnum að vestanverðu og þá komið niður í Selskál norðan Borgarfjalls, en í skálinni er talið að Ísólfsskálasel hafi verið. Engar tættur er þó þar, enda landeyðing þarna mikil í seinni tíð. Skammt vestar er stekkur í hraunkanti Borgarhrauns. Líklegt er að selstaðan hafi þar verið og þá heimasel.

Neðan Einbúa var komið að gömlu leiðinni norður að Stóra-Skógfelli, en við hana er gamalt hlaðið aðhald. Við það er hlaðið lítið skjól. Skammt vestan þess má sjá gamalt fallega staðsett refabyrgi og enn vestar, undir hraunhrygg, er forn stekkur. Þar við gæti hafa verið heimaselstaða til einhvers tíma.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Sunnar er hlaðna Ísólfsskálaréttin (Borgarhraunsréttin) og Borgin forna (Viðeyjarborg) í Borgarhrauni, en hún gæti jafnvel verið frá þeim tíma er Viðeyjarklaustur nýtti staðinn því til handa.
Eins og sjá má er Reykjanesskaginn fjölbreytileg útivistarparadís – og það við hver fótmál. Stutt er í alla áhugaverða og fallegu staðina, hvort sem þeir tengjast merkilegum náttúrufyrirbrigðum, minjum eða sögu.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Hraun

Sigurður Gíslason á Hrauni er manna kunnugastur um örnefni og staðhætti á jörðinni Hrauni skammt austan við Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Sigurður

Rætt var við Sigga þar sem hann dvelur um þessar mundir á Hjúkrunarheimilinu að Víðihlíð við góða umönnun. Sigurður fæddist á Hrauni 5. maí árið 1923 og hefur búið þar fram til þessa.
“Ég veit sjálfsagt eitthvað um örnefnin á Hrauni, en þekki þau ekki endilega öll”, segir Siggi. “Krókur hét t.d. krikinn vestast í túninu, norðan Vatnagarða. Þar eru tóftir. Draugagerði eru leifar garða eða gerðis austan við Tíðarhliðið, innan garðs. Bakki eða Bakkar voru norðan við Gamla bæinn. Bóndinn þar vildi nefna það Litlahraun, en fékk ekki. Hrauntún var vestan við Gamla bæinn. Sunnuhvoll var norðan við Hrauntún og Gamla bæinn. Sauðagerði var austast í túninu og sjást tóftir þess enn. Vatnagarður (-ar) lýsti ég áður, en Gamli bærinn var vestan og sunnan við núverandi hús; tvíbýlið.

Hraun

Hraun um 1940 – hér sést gamli bærinn og sjóbúðin.

Hraun

Vatnagarðar – tóftir.

Fjárhús tóftir eru á a.m.k. tveimur stöðum er enn sjást. Gamlibrunnur er ofan við Hrólfsvík. Krókshellir er í Krókstúninu. Suðvestan þess lá Eyrargatan út á Nes. Hraunkotsgatan lá upp úr Króknum yfir að Haunkoti og Þórkötlustaðagatan lá upp um Fremra-Leiti út í Þórkötlustaðahverfi. Allar þessar götur sjást enn, nema kannski Eyrargatan. Á götum þessum voru hlið í túngarðinum. Hraunsvegur var nýjasta gatan áður en núverandi þjóðvegur kom. Hann lá um Efra-Leiti, framhjá Hvammi og um Tíðarhliðið á Hrauni. Markhóll er upp á Efra-Leiti, hlaðinn. Hraunsleynir er austar. Ofan hans er hlaðin refagildra og leifar af fleirum í Leyninum sjálfum. Hraunsvörin var þrískipt; Suðurvör (Hraunsvör), Norðurvör og Bótin. Þú þekkir svo Hraunsbrunninn og hvar líklegt er að kirkjan til forna gæti hafa staðið austan við Gamla bæinn.
Ekki má gleyma Dysinni ofan við bæinn þar sem karlsson er sagður hafa verið grafinn eftir Tyrkjaránið  og Ræningjadysinni, eða Kapellunni, á Hraunssandi, sem Kristján Eldjárn gróf í og fann þar eitthvað að gripum. Tyrkjahellirinn er svo uppi á Efri-Hellum, en þar var alltaf gott vatn fyrir kýrnar. Og ekki má gleyma Guðbjargarhelli, en hann var löngum athvarf öm
mu minnar fyrst eftir að hún kom að Hraunu, vildi hún vera í næði.” 

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar, sem Gísli Hafliðason, bóndi, Hrauni (Vestur-Hrauni) og Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Ísólfsskála (fyrrum bóndi á Austur-Hrauni (Manntal 1910)), gáfu kemur eftirfarandi fram: “Fram af túninu gengur þangivaxinn tangi fram í sjó, sem fer í kaf um flóð.
SunnuhvollÞegar Jón Jónsson, afi Gísla Hafliðasonar, var hér, var á tanganum grasflöt. Sunnan við Skarfatanga í bás, sem þar er, strandaði franskur togari. Einnig strandaði kútter Hákon hér 1926 milli 8. og 9. maí.
Næst austan við Skarfatangann er Markabás, sem fyrr getur. Hann gengur þannig inn í bergið og fer alveg í kaf um flóð. Þar flæðir allt, sem þar kann að vera. Í túninu eru engin nöfn, en gerðið austur af túninu er nefnt Sauðagerði. Túnið sjálft er nafnalaust.
Næsta vík við Skarfaklett er Hvalvík, svo er Hrólfsvíkin fyrrnefnda. Síðan er Vondafjara eða Vindfjara. Utan hennar gengur fram Skeljabótarklöpp. Er þá komið heim undir bæ, og er þar vík, sem heitir Skeljabót. Út af Skeljabót heitir Barnaklettur. Vestan við Barnaklett er Hraunsbót og fjaran þar heitir Hraunsvör. Þá taka við, niðri á túninu, Vatnagarðar. Þar var eitt sinn býli.
SunnuhvollHúsafell er vestan við Fiskidalsfjall. Skarð á milli fellanna er einungis nefnt Skarð. Grasbrekkur framan í Húsafelli heita: Langigeiri og er austast; Djúpigeiri, Litli-Skotti og Stóri-Skotti er vestast. Kvos upp á Húsafelli fyrir ofan Stóra-Skotta heitir Húsafellsdalur. Austur af hrauninu framan við Húsafell er hellisskúti sem nefndur er Guðbjargarhellir. Hann er kenndur við Guðbjörgu ömmu Magnúsar Hafliðasonar en hún hafði þarna afdrep í leiðindum sínum fyrst eftir að hún kom að Hrauni.
Landamerki Hrauns og Þórkötlustaða eru um hæstu bungu Innstuhæðar frá hól á Hraunsleiti framan við Hraunsleyni. Úr Innstuhæð eru landamerkin í norðaustur í svonefnda Vatnskatla í Fagradalsvatnsfelli.”

Loftur Jónsson skráði örnefni í Hraunslandi:

Guðbjargarhellir

“Jörðin Hraun í Grindavík á land að Ísólfsskála og Krýsuvík að austan, Vatnsleysuströnd að norðan og Þórkötlustöðum að vestan. Bærinn stendur við sjó utarlega við Hraunsvík að vestanverðu.
Eftirfarandi hjáleigur voru í Hraunslandi: Vatnagarður syðst í túninu. Þar bjó eitt sinn ekkja á 17. öld og hafði allt upp í 8 kýr þegar flest var. Bakkar (eða Litla-Hraun) norðan núverandi túns. Sunnuhvoll norðvestan við Hraun og Hrauntún þar vestur af. Óljósar sagnir eru um hjáleiguna Draugagerði vestur við túnhlið. Þar stóðu fjárhús sem elstu menn muna. [Á túnakorti frá 1918 eru merktar þar “gamlar rústir”.]

Slok

Hraunsgarðar í Slokahrauni.

Örnefni sem mér eru kunn í landi Hrauns eru eftirfarandi: Með sjó er Markabás vestast. Hann er austan við svonefnd Slok og skiptir löndum á milli Þórkötlustaða og Hrauns. Austan við Markabás er Hádegistangi. Hádegisklettur er þar ofan og sunnan við. Hann hét öðru nafni Klofaklettur, tvær strýtur voru upp úr honum en önnur er nú brotin af fyrir mörgum áratugum.
Þetta var hádegismark frá gamla bænum á Hrauni. Þar Sauðagerðinorðan við er Skarfatangi. Það er smátá sem skagar út í sjóinn en fer í kaf á flóði. Magnús Hafliðason segist muna eftir grasi á Skarfatanga og þegar hann var ungur hafi gamlir menn sagt sér að grasbakki hafi verið á Skarfatanga. Skip hafa strandað sitt hvoru megin við Skarfatanga. Franski togarinn Cap Fagnet að sunnan og kútterinn Hákon að norðanverðu. Vikið norðan við Skarfatanga heitir Vatnagarður og sama nafn ber syðsti hluti túnsins þar upp af. Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstreymisfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er að það hafi komið upp þegar bænahús var aflagt á Hrauni (sennil. Á 17. öld). Gamla sundið lagðist þá einnig af. Vatnstangi er norðan við Vatnagarð. Þar rennur fram ferskt vatn.
Fast norðan Vatnstanga er Suðurvör Hraunog var þar aðallending á Hrauni. Norðan við Suðurvör er sker og var farið fa
st með því þegar lent var og var það nefnt Rolla. Norðurvör er í þröngum klöppum þar norður af og þar var aðeins hægt að lenda í mátulega sjávuðu. Baðstofa er stór klöpp fast fyrir norðan Norðurvör. Þar norður af er Bótin og þar var nyrsta lendingin. Þaðan var hægast að fara út í vondu. Efst í Bótinni er klettur sem fer í kaf á flóði og heitir Barnaklettur. Þar áttu að hafa flætt og síðan drukknað tvö börn.

Túnið upp af Bótinni er nefnt Sauðagerði. Bóndagerði var líka til í túninu en er komið undir kamp fyrir löngu síðan. Önnur örnefni eru ekki kunn í túninu.

Markhóll

Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina. Þar eru klappir sem nefndar eru Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri- og Fremri- með skeri á milli. Í Hrólfsvík strandaði breskur togari (Luis). Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn þegar hann var þjóðminjavörður og taldi hann að þetta hafi verið enskur verslunarstaður.
Hvalvík er norðan við Hrólfsvík. Hvalhóll er á kampinum milli þeirra. Fram undan hamrabelti ofan Hvalvíkur er stór klettur laus við landið og heitir Skarfaklettur. Hellir í hamrabeltinu rétt ofan Skarfakletts heitir Dunkhellir. Hann er nú að mestu fullur af grjóti.

Festarfjall

Festarfjall – Hraunssandur nær.

Fjaran undir Festarfjalli heitir Hraunssandur. Skora hét rauf í bergið fyrir norðan Dunkhelli en er nú horfin. Stígurinn var gata niður á sand og var hún upp við fjallsræturnar. Þar er nú bílfært niður. Klettarani skagar fram á sandinn og heitir Vestrinípa. Eystrinípa er töluvert austar og skilur hún á milli Hraunsands og Skálasands og þar af landamerki. Ekki er hægt að komast fram hjá þessum klettum nema þegar lágsjávað er. Við Eystrinípu er áberandi lóðrétt blágrýtisstuðlabergslag í berginu kallað Festin. Þjóðsaga segir þetta vera gullhálsfesti tröllkonu sem bjó í fjallinu.
Hún lét svo um mælt að þegar ábúendum á Hrauni tækist að Túnakortláta dóttur heita í höfuð sér og stúlkan gengi á sandinum þarna fyrir neðan mundi festin falla um háls henni. Þetta virðist ekki hafa tekist enn.
Festarfjall er fyrir botni Hraunsvíkur. Í daglegu tali er það kallað Festi. Norðan við Festi og á milli fjallsins Hrafnshlíðar er Siglubergsháls. Skökugil heitir gil með grasgeira í suðvestan í Hrafnshlíð. Þar ofar í hlíðinni heitir Vondaklif. Djúpidalur er norðaustan í Hrafnshlíð.
Vestan við Hrafnshlíð er Fiskidalsfjall. Þar sem fjöllin mætast er Skökugil að framan en að norðan er djúpt gil eða geil inn á milli fjallanna og heitir Svartikrókur. Við rætur Fiskidalsfjalls að norðan var mikið af stórum björgum sem hrunið höfðu úr fjallinu en eru nú farin, voru notuð við byggingu hafnargarðs í Grindavíkurhöfn. Þetta var kallað Stórusteinar. Framan í fjallinu að austanverðu eru grasbrekkur sem kallaðar eru Hálsgeirar og grasbrekka að vestanverðu heitir Berjageiri.”

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Lofts Jónssonar.
-Sigurður Gíslason, Hrauni.
Hraun 1924