Á Vísindavefnum má lesa eftirfarandi fróðleik Sigurðar Steinþórssonar, prófessor emeritusum, “Virkar eldstöðvar í kringum höfuðborgarsvæðið“:
“Þegar spurt er hversu margar eldstöðvar séu á Íslandi kann jarðfræðingum að vefjast tunga um tönn — á til dæmis að telja einstakan gíg sérstaka eldstöð eða goshrinur eins og Kröfluelda 1974-85 eitt eða mörg eldgos. Þess vegna var kringum 1970 tekið upp hugtakið eldstöðvakerfi sem tekur til allra þeirra eldstöðva sem teljast vera samstofna; yfirleitt tengjast þær einni megineldstöð. Á Íslandi eru um 30 slík eldstöðvakerfi, þar af fimm á Reykjanesskaga.
Á Suðvesturlandi liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, eins og þau koma fram í jarðskjálftaupptökum neðan þriggja km dýpis, frá Reykjanestá austur um Suðurland í átt að Heklu. Eftir flekamótunum raðast sprungur á yfirborði í fimm sprungusveima (sprungureinar) með NA-SV-stefnu (sjá mynd hér fyrir neðan).
Þar sem sprungusveimur og flekamótin skerast eru merki um mesta eldvirkni á sprungusveimnum — þar er megineldstöð þess sprungusveims, og til samans mynda megineldstöðin og sprungusveimurinn sem hana sker eldstöðvakerfið. Virkum megineldstöðvum tengjast gjarnan háhitakerfi, og eftir þeim eru eldstöðvakerfin fimm nefnd, talið frá vestri til austurs, Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Fyrstnefndu kerfin tvö eru gjarnan talin sem eitt, enda sameinast norðurhlutar sprungusveima þeirra sunnan við Voga á Vatnsleysuströnd. Tvö eldstöðvakerfi, Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfi, hafa lagt til hraun í námunda við Reykjavík.
Á höfuðborgarsvæðinu eru einkum áberandi tvö nútímahraun (það er sem runnið hafa eftir ísöld) og kallast annað þeirra Búrfellshraun einu nafni en hitt Leitahraun. Hið fyrrnefnda rann úr gígnum Búrfelli sunnan við Heiðmörk fyrir um 7300 árum. Ýmsir hlutar þess bera sérstök nöfn, Gálgahraun, Garðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun. Búrfell er í Krýsuvíkurkerfi.
Leitahraunið mun vera meðal rúmmálsmestu hrauna sem runnið hafa frá Brennisteinsfjallakerfinu eftir ísöld. Það rann fyrir um 5200 árum frá eldstöð þar sem heita Leitin á Hellisheiði, suðvestan við Eldborgir sem gusu Svínahraunsbruna (Kristnitökuhraun) árið 1000. Frá Leitum rann hraunið annars vegar til suðurs langleiðina til sjávar við Þorlákshöfn; í því hrauni er Raufarhólshellir. Hins vegar rann álma til norðvesturs til sjávar í Elliðavogi. Á þeirri leið myndaði hraunrennslið gervigígaþyrpinguna Rauðhóla og hraunstrompana (hornito) Tröllabörn hjá Lækjarbotnum. Meðal kunnra sérnafna hluta Leitahrauns eru Elliðavogshraun, neðsti hluti Hólmshrauna, Svínahraun (að hluta undir Kristnitökuhrauni), Lambafellshraun, og niðri í Ölfusi Hraunsheiði og Grímslækjarhraun.
Frá eldstöð nærri Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum (Brennisteinsfjallakerfi) hafa runnið fimm hraun sem nefnast Húsfellsbruni hið efra en Hólmshraun neðar—Heiðmörk er á þeim hraunum. Hið elsta þeirra er eldra en Leitahraun en hin fjögur þó öll forsöguleg.
Einu hraunin sem segja mætti að nálgast hafi höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma eru sunnan við Hafnarfjörð og komu úr Krýsuvíkurkerfi: Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun kringum 1000 og Kapelluhraun árið 1151. Hengilskerfi hefur ekki látið á sér kræla í 2000 ár en á hinum fjórum hafa mislangar goshrinur hafist á um það bil 1000 ára fresti, fyrst austast (Brennisteinsfjöll) og færst síðan vestur skagann. Hin síðasta hófst fyrir um 1100 árum. Grindavík mun vera sú byggð, sem helst væri ógnað af næstu hrinu.
Yfirleitt eru þær eldstöðvar kallaðar „virkar“ sem gosið hafa eftir ísöld, það er síðastliðin 10.000 ár eða svo. Á þeim tíma hafa aðeins þrjár sent hraun í námunda við Reykjavík, Búrfell austan við Hafnarfjörð, eldstöð hjá Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum og Leitin á Hellisheiði.”
Húsfellsbruni er að mestu Klambrahraun. Þau myndast þegar efri skorpa helluhrauna brotnar upp og myndar yfirborðsbreksíu við skyndilega aukinn straumþunga hraunsins eða þegar það flæðir upp að fyrirstöðu sem aftrar framrás þess um tíma. Þótt ásýnd klumpahrauna sé talsvert frábrugðin dæmigerðum helluhraunum, er flutningur kviku eftir lokuðum rásum, myndun hraunsepa og hraunbelging lykilþáttur í myndun þeirra. Vegna yfirborðsbreksíunnar hafa þau oftar en ekki verið flokkuð sem apalhraun, sem hefur leitt til mistúlkunar á flæðiferlum og eðli þessara hrauna.
Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=62126