Færslur

Húsfell

Á Vísindavefnum má lesa eftirfarandi fróðleik Sigurðar Steinþórssonar, prófessor emeritusum, “Virkar eldstöðvar í kringum höfuðborgarsvæðið“:

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

“Þegar spurt er hversu margar eldstöðvar séu á Íslandi kann jarðfræðingum að vefjast tunga um tönn — á til dæmis að telja einstakan gíg sérstaka eldstöð eða goshrinur eins og Kröfluelda 1974-85 eitt eða mörg eldgos. Þess vegna var kringum 1970 tekið upp hugtakið eldstöðvakerfi sem tekur til allra þeirra eldstöðva sem teljast vera samstofna; yfirleitt tengjast þær einni megineldstöð. Á Íslandi eru um 30 slík eldstöðvakerfi, þar af fimm á Reykjanesskaga.
Á Suðvesturlandi liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, eins og þau koma fram í jarðskjálftaupptökum neðan þriggja km dýpis, frá Reykjanestá austur um Suðurland í átt að Heklu. Eftir flekamótunum raðast sprungur á yfirborði í fimm sprungusveima (sprungureinar) með NA-SV-stefnu (sjá mynd hér fyrir neðan).

Húsfell

Húsfell og Húsfellsbruni.

Þar sem sprungusveimur og flekamótin skerast eru merki um mesta eldvirkni á sprungusveimnum — þar er megineldstöð þess sprungusveims, og til samans mynda megineldstöðin og sprungusveimurinn sem hana sker eldstöðvakerfið. Virkum megineldstöðvum tengjast gjarnan háhitakerfi, og eftir þeim eru eldstöðvakerfin fimm nefnd, talið frá vestri til austurs, Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Fyrstnefndu kerfin tvö eru gjarnan talin sem eitt, enda sameinast norðurhlutar sprungusveima þeirra sunnan við Voga á Vatnsleysuströnd. Tvö eldstöðvakerfi, Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfi, hafa lagt til hraun í námunda við Reykjavík.

Á höfuðborgarsvæðinu eru einkum áberandi tvö nútímahraun (það er sem runnið hafa eftir ísöld) og kallast annað þeirra Búrfellshraun einu nafni en hitt Leitahraun. Hið fyrrnefnda rann úr gígnum Búrfelli sunnan við Heiðmörk fyrir um 7300 árum. Ýmsir hlutar þess bera sérstök nöfn, Gálgahraun, Garðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun. Búrfell er í Krýsuvíkurkerfi.

Hraunflæði

Leitarhraun.

Leitahraunið mun vera meðal rúmmálsmestu hrauna sem runnið hafa frá Brennisteinsfjallakerfinu eftir ísöld. Það rann fyrir um 5200 árum frá eldstöð þar sem heita Leitin á Hellisheiði, suðvestan við Eldborgir sem gusu Svínahraunsbruna (Kristnitökuhraun) árið 1000. Frá Leitum rann hraunið annars vegar til suðurs langleiðina til sjávar við Þorlákshöfn; í því hrauni er Raufarhólshellir. Hins vegar rann álma til norðvesturs til sjávar í Elliðavogi. Á þeirri leið myndaði hraunrennslið gervigígaþyrpinguna Rauðhóla og hraunstrompana (hornito) Tröllabörn hjá Lækjarbotnum. Meðal kunnra sérnafna hluta Leitahrauns eru Elliðavogshraun, neðsti hluti Hólmshrauna, Svínahraun (að hluta undir Kristnitökuhrauni), Lambafellshraun, og niðri í Ölfusi Hraunsheiði og Grímslækjarhraun.

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

Frá eldstöð nærri Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum (Brennisteinsfjallakerfi) hafa runnið fimm hraun sem nefnast Húsfellsbruni hið efra en Hólmshraun neðar—Heiðmörk er á þeim hraunum. Hið elsta þeirra er eldra en Leitahraun en hin fjögur þó öll forsöguleg.
Einu hraunin sem segja mætti að nálgast hafi höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma eru sunnan við Hafnarfjörð og komu úr Krýsuvíkurkerfi: Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun kringum 1000 og Kapelluhraun árið 1151. Hengilskerfi hefur ekki látið á sér kræla í 2000 ár en á hinum fjórum hafa mislangar goshrinur hafist á um það bil 1000 ára fresti, fyrst austast (Brennisteinsfjöll) og færst síðan vestur skagann. Hin síðasta hófst fyrir um 1100 árum. Grindavík mun vera sú byggð, sem helst væri ógnað af næstu hrinu.

Klambrahraun

Klambrahraun.

Yfirleitt eru þær eldstöðvar kallaðar „virkar“ sem gosið hafa eftir ísöld, það er síðastliðin 10.000 ár eða svo. Á þeim tíma hafa aðeins þrjár sent hraun í námunda við Reykjavík, Búrfell austan við Hafnarfjörð, eldstöð hjá Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum og Leitin á Hellisheiði.”
Húsfellsbruni er að mestu Klambrahraun. Þau myndast þegar efri skorpa helluhrauna brotnar upp og myndar yfirborðsbreksíu við skyndilega aukinn straumþunga hraunsins eða þegar það flæðir upp að fyrirstöðu sem aftrar framrás þess um tíma. Þótt ásýnd klumpahrauna sé talsvert frábrugðin dæmigerðum helluhraunum, er flutningur kviku eftir lokuðum rásum, myndun hraunsepa og hraunbelging lykilþáttur í myndun þeirra. Vegna yfirborðsbreksíunnar hafa þau oftar en ekki verið flokkuð sem apalhraun, sem hefur leitt til mistúlkunar á flæðiferlum og eðli þessara hrauna.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=62126

Hraunflæði

Geldingadalir

Á vefnum Eldey.is má lesa eftirfarandi um eldstöðvar og jarðsögu Reykjanesskagans, auk annars:

Eldvörp

Eldvörp.

“Á Reykjanesskaga má finna allar tegundir eldstöðva sem gosið hafa á Íslandi. Talið er að um tólf hraun hafi runnið þar frá því að land byggðist eða að meðaltali eitt hraun á öld.
Á Reykjanesskaganum eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku. Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi þar sem jarðsjórinn er notaður til að hita upp kalt vatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Reykjanesskaginn er um 1.700 ferkílómetrar að flatarmáli og er þar að finna margvíslegar menjar um eldvirkni undanfarinna 200.000 ára. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.
Reykjanesskagi dregur nafn sitt af Reykjanesi á suðvesturhorni skagans. Mest af skaganum er innan gosbeltis Íslands og yst á skaganum skríður Mið-Atlantshafshryggurinn á land. Gosbeltið liggur eftir miðjum skaganum frá vestri til austurs þar sem það tengist svo aðalgosbeltum landsins.

Reykjanesskagi

Fjórar sprungureinar eru á skaganum: Reykjanes-, Krýsuvíkur-, Brennisteins-, fjalla og Hengilsreinar. Hver þeirra samanstendur af hundruðum opinna spungna. Þá er þar einnig fjöldi gíga og gígaraða. Önnur gerð af eldfjöllum á Reykjanesskaga eru dyngjur, skjaldarlaga bungur sem eru svipaðar og eldfjöllin á Hawaii nema mun minni.
Gosbergið er að mestu af tveimur gerðum. Annars vegar er móberg sem er samanþjöppuð gosaska sem myndaðist við eldgos þegar landið var að mestu hulið jöklum. Hins vegar eru hraun; apalhraun með úfnum karga á yfirborði og helluhraun sem eru slétt og oft með hraunreipum. Eldri hraun hafa verið slípuð af jöklum, og er yfirborð þeirra því jökulrákað.
Jarðskjálftar eru tíðir á svæðinu vegna eldvirkninnar og stöku sinnum valda þeir tjóni. Flestir eru þó minni háttar og finnast sem titringur.

Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Elsta bergið á skaganum er í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.
Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

Ísöld

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.
Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.
Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

Eldgos á Reykjanesskaga

Stampahraunið

Stampahraunið.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Eldgos á sögulegum tíma

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.”

Meira HÉR á Wikipedia.

Sogin

Sogin.