Litluborgir

Haldið var upp í Minni-Dimmuborgir, eða Litluborgir, eins og Jón Jónsson, og sonur hans, Dagur, nefndu lítið hraunssvæði sunnan Helgafells, hraunborgir, sem þar mynduðust, líkt og Dimmuborgir við Mývatn, Hraunsnesið í Skollahrauni og Borgin (Ketillinn) í Katlahrauni. Þar eru og gervigígar, sem mynduðust þegar heitur hraunstraumur rann út í vatn er þá hefur verið þarna austan Helgafells. Hraunið stendur víða á súlum og er “þakið” víðast hvar nokkuð heillegt. Hægt er að ganga í gegnum hraunið undir “þakinu”.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í fyrri FERLIRsferð kom í ljós fallegur hellir, sem ætlunin var að skoða betur. Inni í honum eru myndarlegar hraunssúlur líkt og umleikis. Lítil umferð fólk hefur verið um svæðið (sem betur fer) þrátt fyrir nýlega friðun þess og mikinn áhuga margra að berja það augum. Hafa ber í huga að svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.
Dimmuborgir í Mývatnssveit eru sundurtættar hraunmyndanir sem vart eiga sinn líka. Talið er að þær hafi myndast í hrauntjörn sem tæmst hefur eftir að storknun hraunsins var nokkuð á veg komin. Eftir standa háir hraundrangar sem taka á sig ótrúlegustu kynjamyndir. Gatklettar og smáhellar einkenna borgirnar. Sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing, opin í báða enda. Í Minni-Dimmuborgum má sjá sömu jarðfræðifyrirbærin, en í smækkaðri og nærtækari mynd.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Í Litluborgum

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.
Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).
Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.

Í Litluborgum

Ef skoðað er snið í gegnum gervigíga kemur í ljós að fyrsta efnið sem kemur upp í gosinu er yfirleitt mjög ríkt af jarðvegi og undirlagsefnum. Er líða tekur á gosið verða hraunflyksur og gjallmolar hins vegar meira áberandi.
Gervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum. Því eru þeir oftast nefndir á ensku „rootless cones“.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Minni-Dimmuborgir eru nokkurs konar lagskipt hraunlög, haldið uppi af þunnum hraunsúlum. Hraunbólan er næstum hringlaga og um 100 m í þvermál. Miðsvæðis í bólunni hefur verið hrauntjörn og runnið þunnar hraunskvettur út til hliðanna. Þannig hefur bólan smám saman byggst upp. Aðfærslan að henni hefur verið frá hliðunum. Mikill hiti hefur verið í hrauninu því víða má sjá glerjung og seiglulíka hrauntauma á veggjum.
Í Dimmuborgum, Katlahrauni (sjá HÉR) og Hraunsnesi (sjá HÉR) standa eftir hraunsúlurnar, en í Minni-Dimmuborgum (Litluborgum) hefur þakið haldist vegna smæðarinnar. Súlurnar hafa líklega myndast í hrauntjörninni þar sem gufa hefur leitað upp í gegnum bráðið hraunið og kælt það.
Hellisskútinn reyndist vera þriggja sala. Þakinu er haldið uppi af súlum, hann er rúmgóður og einstaklega fallegur.
Svæðið er mjög viðkvæmt og þolir illa ágang, sem fyrr sagði. Því er mikilvægt að reyna að varðveita þessar jarðfræði- og náttúruminjar sem mest óraskaðar þangað til gerðar hafa verið ráðstafanir til að stýra umferð
fólks um það. (Sjá meira um það HÉR.)

Í bakaleiðinni var litið til með tröllunum á Valahnúk og kíkt á hinar meintu landnámsrústir í Helgadal (sjá meira HÉR). Rústirnar eru á hæðardragi suðaustan í dalnum ofan við vatnið er safnast saman ofan við misgengið. Þær eru orðnar að mestu jarðlægar og erfitt er að segja til um húsaskipan. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skoðaði rústirnar um aldarmótin 1900 og þá var hægt að sjá móta fyrir veggjum og útlínum einstaka tófta, með erfiðismunum þó. Lengi hefur verið talið að landnámsbærinn Skúlastaðir (sjá HÉR) gæti hafa verið á Görðum, Bessastöðum eða jafnvel í Tvíbollahrauni þar sem nú er Skúlatún. Líklegast og ákjósanlegast væri að beina athyglinni að þessum rústum áður en lengra væri haldið í getgátum um það efni, enda bendir nafnið Helgadalur til þess að þar hafi byggð verið um alllanga tíð.
Sjá meira um Litluborgir HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Jónsson jarðfræðingur og Dagur, sonur hans, í Náttúrufræðingnum 62. árg., 3.-4. h. 1993 í greininni Hraunborgir og gervigígar.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4351
-http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi//nr/1295
-http://www.hi.is/HI/Stofn/Myvatn/isl/homframe.htm

Í Litluborgum