Færslur

Litluborgir

Ratleik Hafnarfjarðar barst í ágústmánuði (2023) skondin ábending frá Umhverfisstofun eftir athugasemdir hennar til Hafnarfjarðarbæjar varðandi staðsetningu merkis ratleiksins í gervigíg við Litluborgir ofan Helgafells:

Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun – merki.

“Sæll Guðni, okkur hefur borist ábending frá Umhverfisstofnun vegna ratleiks sem m.a. er í Litluborgum. Það er vinsamleg ábending að færa til stöð nr. 16, þar sem mosinn í kringum þann stað hefur látið á sjá. Jafnvel að færa stöðina þannig að menn þurfi ekki að ganga á mosa til þess að finna umrædda stöð. UST er að fara í gang með að stika þarna gönguleiðir til þess m.a. að vernda viðkvæman mosann. Það er nokkuð skemmtileg leið þarna norðan meginn á friðlýsta svæðinu, sem sést á kortinu, Réne kom með þá hugmynd að e.t.v. væri heppilegra að nota hana. Þaðan er fallegt útsýni yfir friðlýsta svæðið og Helgafellið.”

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Guðni svaraði: “Það hefur sýnt sig í leiknum að mosi hefur jafnað sig ótrúlega fljótt, þrátt fyrir það sem alltaf er haldið fram. Svo hefur gönguleiðir myndast í ratleiknum eins og gönguleiðin í Litluborgir. Áður var vaðið ómarkvisst yfir mosann, en nú eru allir að fara á sömu leið, ekki einungis þeir sem ekki eru í leiknum og koma þarna. Að auki eru það hraunmyndanirnar sem þarna er verið að vernda. Gott er að vita að loksins skuli einhver átta sig á að stika þurfi gönguleiðir um svæðið.”

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

Litluborgi

Litluborgir – friðlýsing.

Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði. Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Í auglýsingu um náttúruvættið Litluborgir í Hafnarfirði frá 3. apríl 2009 segir m.a.: “Markmiðið með friðlýsingu Litluborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar.

Litluborgir

Litluborgir – göngustígurinn frá Helgafelli.

Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað.”
Slík verndaráætlun hefur ekki verið gerð.

Litluborgir

Í Litluborgum – hraunmyndanir.

Í auglýsingunni segir jafnframt: “Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni… Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins. Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.”
Slík gönguleið hefur ekki verið gerð.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Umhverfisstofnun hefur engar forsendur til að gera athugasemdir við umferð fólks um Litluborgir því “almenningi er heimil för um náttúruvættið” skv. auglýsingu þar að lútandi – og jafnvel þrátt fyrir auglýsinguna með vísan til gildandi ákvæða Jónsbókar.  Ljóst hefur þótt að fólk færi ekki fljúgandi um svæðið. Mosi umlykur Litluborgir svo ekki verður hjá því komist að fólk þurfi að ganga um hann á leið sinni. Þá ætti Umhverfisstofnun að fagna því að athygli fólks skuli vera vakin á svæðinu, en hún hefur síst allra sýnt því nokkurn áhuga í gegnum tíðina. Nefnd fyrirhuguð stígaleið er slóði bifreiða, sem ekið var upp hraunið frá Helgafelli áleiðis að Strandartorfum þegar veiðimenn sóttu þangað í rjúpur á haustin, auk þess sem hún var farin af mönnum þeim er önnuðust uppsetningu sauðfjárveikigirðingar i upplandi Hafnarfjarðar. Sú eyðilegging ætti að hafa verið stofnuninni meira áhyggjuefni en umferð gangandi fólks um svæðið.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Umhverfisstofnun fer villu vega þegar markmið hennar er að gera athugasemdir við umferð gangandi fólks um einstök friðlýst svæði í stað þess að sinna hlutverki sínu með þeim hætti að gera fyrirbyggjandi ráðstafnir varðandi undirbúning og framkvæmdir á þeim svo ekki þurfi að koma til slíkra athugasemda.

Í skýringum ratleiksins v/fróðleik um Litluborgir er sérstaklega tekið fram að þær eru friðlýst náttúruvætti – sjá HÉR.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárbotnum áleiðis að Valabóli.

Valahnúkar

Gengið á Valhnúka.

Tröllin á austanverðum Valahnúkum teygðu sig upp í loftið svona til að gefa til kynna að ekki mætti ganga framhjá þeim í þetta skiptið. Þegar komið var á milli Valahnúkanna að vestanverðu mátti sjá hrafnslaup austan í vestanverðum hnúkunum. Laupurinn er á fallegum stað og aðgengilegum til skoðunar. Horft var yfir Valabólasvæðið og yfir að Búrfelli áður en gengið var uppá austanverða hnúkana, til móts við tröllin. Þau eru þarna ýmist þrjú eða fjögur, eftir hvernig á þau er litið. Um er að ræða berggang í gegnum hnúkana og mynda tröllinn efsta hluta þeirra, þ.e. þann er vindar, veður og regn hefur ekki tekist að vinna á, enn a.m.k.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Þegar komið var niður af hnúkunum að suðaustanverðu mátti sjá þar hluta misgengisins, sem liggur í gegnum sunnanverð Helgafellið. Haldið var suður fyrir fjallið og stefnan tekin á hraunsvæði Tvíbollahrauns þar sem fyrir eru nokkurs konar Minni-Dimmuborgir, hraunsúlur og þak yfir. Margir skútar og kytrur standa á súlum í hrauninu. Tveir hellar eru þarna, annar sæmilegur með fallegum hraunsúlum inni í, en auk þess fannst op á öðrum. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi komið þangað inn.
Eftir að hafa fjarlægt nokkra steina frá opinu sást hvar göng lágu niður á við og inn undir hraunið. Þar sem ekki var ljós meðferðist að þessu sinni bíða þessi göng nánari skoðunnar síðar. Gæti orðið áhugavert að kíkja þar inn. Opið er í jarðri svæðisins.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Þessar fallegu hraunmyndanir virðast hafa orðið til er hraunið rann þarna niður eftir og í vatns, sem þá hefur verið þarna aflokað sunnan Helgafells. Sömu myndanir má sjá í hrauninu skammt norðaustar, en bara í minna mæli. Þá eru þarna nokkrir gervigígar, sem einmitt hafa myndast við sömu aðstæður. Þetta er mjög fallegt hraunsvæði, sem ástæða er til að ganga varfærnislega um því mosinn þarna þolir varla mikinn umgang. Hann er órjúfanlegur hluti af heildarmynd svæðisins.

Burnirót

Burnirót.

Nokkrar blómtegundir eru að reyna að festa rætur nálægt opunum, s.s. burnirót, steinbrjótur, blágresi og fleiri tegundir. Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru t.d. í Katlahrauni við Selatanga og Hraunsnesi austan Ísólfsskála. Þar hefur hraunið runnið í sjó fram og þá myndast hraunstöplar og holrúm á milli uns þakið féll niður og lægðir og hraunbollar mynduðust.
Á svæðinu eru nokkur hraun og er þetta hluti af eldra helluhrauni, því sama og liggur að Helgafelli. Gæti verið Tvíbollahraun, sem fyrr er nefnt eða hluti af Hellnahrauninu. Skammt ofan við svæðið er úfið aðpalhraun, Húsfellsbruni.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Gengið var vestur með Helgafelli, hlustað á smyril smella í hlíðum þess, sjá steinbogann efst í fjallinu og síðan gegnið áleiðis yfir Riddarann. Þá var þar fyrir fallegur gráleitur spörfugl á stærð við skógarþröst með gula bringu. Varðaði hann nálæga fugla við af ákafa. Ágætt útsýni er af Riddaranum yfir að Gvendarselsgígum undir Gvendarselshæðum.
Gengið var eftir sléttu helluhrauninu neðan Helgafells að austustu gígunum í gígaröðinni og þeir skoðaðir.
Fallegt veður – stilla og hlýindi. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárseli upp með Kaldárhnjúkum vestari og inn með gígaröðinni sunnan Gvendarselshæða og stefnan síðan tekin á Skúlatún, gróðurvin í hrauninu vestan Dauðadala. Engin sýnileg ummerki eru eftir minjar á Skúlatúni. Þaðan var gengið til baka að Gullkistugjá og gjánni fylgt til austurs að suðurhorni Helgafells.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Komið var við í “Minni Dimmuborgum” (stundum nefnt Hraungerði eða Litluborgir) í hrauninu sunnan vegarins og gengið þaðan í vesturenda Neðri-Strandartorfa. Borgirnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og erfitt að finna þær. Hraunið virðist hafa storknað þarna í vatni eða vatnskenndum jarðvegi með þeim áhrifum að hellar og hraunsúlur hafa myndast hingað og þangað. Hægt er að þræða hellana, sem eru opnir og með mjög fallegum hraunmyndunum. Mosinn þarna er mjög viðkvæmur fyrir átroðningi, en hingað til hefur svæðið fengið að vera að mestu í friði fyrir forvitningum og því fengið að vera ósnortið. Hins vegar munaði litlu að línuvegurinn væri lagður yfir svæðið á sínum tíma, en góðum mönnum tókst að afstýra því í tíma, þökk sé þeim Magnúsi og Ingvari.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru í Dimmuborgum í Mývatnssveit, Katlahrauni við Selatanga og víðar.
Gengið var upp klapparhæðina og síðan austur yfir að Efri-Strandartorfum. Leitað var fjárhelli í Kaplatór þar norður af, en hann fannst ekki. Eftir að hafa gengið yfir hraunið í norður var komið við í Mygludölum og síðan gengið áfram niður að Valabóli þar sem komið var við í Músarhelli.
Veður var frábært, sól og hiti. Haldið var yfir skarðið á Valahnjúkum og síðan veginn niður að Kaldárseli.
Gangan tók um 2 og ½ klst.
Frábært veður.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Helgafell

Gengið var frá Kaldárseli um Gvendarselsgíga, upp með Kastala og þaðan í Kaplatór (Minni-Dimmuborgir/Litluborgir), sem eru einstakt náttúrufyrirbæri.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í bakaleiðinni var komið við hjá Tröllunum á Valahnjúkum, í Músarhelli í Valabóli og í Kaldárbotnum.

Þetta svæði er einstaklega hentugt til gönguferða að vetrarlagi, tiltölulega greiðfært og fögur fjallasýn. Stutt er í áhugaverða skoðunarstaði og auðvelt að snúa við eða hagræða göngunni m.t.t. getu og tíma hvers og eins. Nægilegt er að kynna sér svæðið áður og stefna síðan á það sem áhugavert kann að þykja.

Valaból

Valaból að vetrarlagi.

Þessi ferð var gengin nálægt áramótum, skömmu eftir að sólin tekur að feta sig upp á við, en birtan við slík skilyrði er í rauninni engu lík. Því ætti áhugasamt fólk um útivist að nýta sér þessa miklu nálægð. Tilvalið er t.d. að leggja af stað síðdegis eftir vinnu, ganga frá Kadárseli og umhverfis Helgafell. Á leiðinni er fjölmargt að sjá. Þessi ganga þarf ekki að taka lengri tíma en t.d. 2 klst.

Í bakaleiðinni var komið við í Gvendarseli í Gvendarselshæð, kíkt á Gvendarselsgígaröðina og nyrsta gíg gígaraðar Ögmundarhrauns frá árinu 1151.

Þá er alltaf áhugavert að staldra við jarðmyndanir Kaldárhnúkanna í Kaldárbotnum.

Valahnúkar

Tröllin á Valanúk.

Litluborgir

Haldið var í Litluborgir, stundum einnig nefndar Hraungerði og Minni-Dimmuborgir, með viðkomu í Helgadal og Valabóli.
Litluborgir-3Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar skammt fyrir sunnan Helgafell ofan Hafnarfjarðar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr. Hið friðlýsta svæði er 10,6 hektarar að stærð.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði.
Litluborgir í Hafnarfirði, friðlýst sem náttúruvætti í stjórnartíðindum B. nr. 395/2009. Þar segir m.a: “Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Litluborgir við Helgafell í Hafnarfirði sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Litluborgr-2

Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað. Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Umferð vélknúinna farartækja, þ.m.t. vélsleða, er óheimil í náttúruvættinu. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu Litlu­borgum. Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins.

Litluborgr-3

Ræktun og dreifing framandi tegunda er jafnframt óheimil innan marka þess. Skotveiðar eru óheimilar á svæðinu. Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar. Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.”
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Litluborgir í Hafnarfirði, friðlýst sem náttúruvætti í stjórnartíðindum B. nr. 395/2009.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Litluborgir

Haldið var upp í Minni-Dimmuborgir, eða Litluborgir, eins og Jón Jónsson, og sonur hans, Dagur, nefndu lítið hraunssvæði sunnan Helgafells, hraunborgir, sem þar mynduðust, líkt og Dimmuborgir við Mývatn, Hraunsnesið í Skollahrauni og Borgin (Ketillinn) í Katlahrauni. Þar eru og gervigígar, sem mynduðust þegar heitur hraunstraumur rann út í vatn er þá hefur verið þarna austan Helgafells. Hraunið stendur víða á súlum og er “þakið” víðast hvar nokkuð heillegt. Hægt er að ganga í gegnum hraunið undir “þakinu”.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í fyrri FERLIRsferð kom í ljós fallegur hellir, sem ætlunin var að skoða betur. Inni í honum eru myndarlegar hraunssúlur líkt og umleikis. Lítil umferð fólk hefur verið um svæðið (sem betur fer) þrátt fyrir nýlega friðun þess og mikinn áhuga margra að berja það augum. Hafa ber í huga að svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.
Dimmuborgir í Mývatnssveit eru sundurtættar hraunmyndanir sem vart eiga sinn líka. Talið er að þær hafi myndast í hrauntjörn sem tæmst hefur eftir að storknun hraunsins var nokkuð á veg komin. Eftir standa háir hraundrangar sem taka á sig ótrúlegustu kynjamyndir. Gatklettar og smáhellar einkenna borgirnar. Sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing, opin í báða enda. Í Minni-Dimmuborgum má sjá sömu jarðfræðifyrirbærin, en í smækkaðri og nærtækari mynd.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Í Litluborgum

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.
Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).
Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.

Í Litluborgum

Ef skoðað er snið í gegnum gervigíga kemur í ljós að fyrsta efnið sem kemur upp í gosinu er yfirleitt mjög ríkt af jarðvegi og undirlagsefnum. Er líða tekur á gosið verða hraunflyksur og gjallmolar hins vegar meira áberandi.
Gervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum. Því eru þeir oftast nefndir á ensku „rootless cones“.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Minni-Dimmuborgir eru nokkurs konar lagskipt hraunlög, haldið uppi af þunnum hraunsúlum. Hraunbólan er næstum hringlaga og um 100 m í þvermál. Miðsvæðis í bólunni hefur verið hrauntjörn og runnið þunnar hraunskvettur út til hliðanna. Þannig hefur bólan smám saman byggst upp. Aðfærslan að henni hefur verið frá hliðunum. Mikill hiti hefur verið í hrauninu því víða má sjá glerjung og seiglulíka hrauntauma á veggjum.
Í Dimmuborgum, Katlahrauni (sjá HÉR) og Hraunsnesi (sjá HÉR) standa eftir hraunsúlurnar, en í Minni-Dimmuborgum (Litluborgum) hefur þakið haldist vegna smæðarinnar. Súlurnar hafa líklega myndast í hrauntjörninni þar sem gufa hefur leitað upp í gegnum bráðið hraunið og kælt það.
Hellisskútinn reyndist vera þriggja sala. Þakinu er haldið uppi af súlum, hann er rúmgóður og einstaklega fallegur.
Svæðið er mjög viðkvæmt og þolir illa ágang, sem fyrr sagði. Því er mikilvægt að reyna að varðveita þessar jarðfræði- og náttúruminjar sem mest óraskaðar þangað til gerðar hafa verið ráðstafanir til að stýra umferð
fólks um það. (Sjá meira um það HÉR.)

Í bakaleiðinni var litið til með tröllunum á Valahnúk og kíkt á hinar meintu landnámsrústir í Helgadal (sjá meira HÉR). Rústirnar eru á hæðardragi suðaustan í dalnum ofan við vatnið er safnast saman ofan við misgengið. Þær eru orðnar að mestu jarðlægar og erfitt er að segja til um húsaskipan. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skoðaði rústirnar um aldarmótin 1900 og þá var hægt að sjá móta fyrir veggjum og útlínum einstaka tófta, með erfiðismunum þó. Lengi hefur verið talið að landnámsbærinn Skúlastaðir (sjá HÉR) gæti hafa verið á Görðum, Bessastöðum eða jafnvel í Tvíbollahrauni þar sem nú er Skúlatún. Líklegast og ákjósanlegast væri að beina athyglinni að þessum rústum áður en lengra væri haldið í getgátum um það efni, enda bendir nafnið Helgadalur til þess að þar hafi byggð verið um alllanga tíð.
Sjá meira um Litluborgir HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Jónsson jarðfræðingur og Dagur, sonur hans, í Náttúrufræðingnum 62. árg., 3.-4. h. 1993 í greininni Hraunborgir og gervigígar.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4351
-http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi//nr/1295
-http://www.hi.is/HI/Stofn/Myvatn/isl/homframe.htm

Í Litluborgum

Náttúrufræðingurinn

Í Náttúrufræðingnum 1993 fjalla feðgarnir Jón Jónsson og Dagur Jónsson um “Hraunborgir og gervigíga“.

Inngangur

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir. Flestum Íslendingum mun aftur á móti ljóst við hvað er átt þegar talað er um gervigígi og að það eru ýmislega lagaðar myndanir á hraunum, stundum með en stundum án reglulegra gígmyndana, og sem ekki eru í beinu sambandi við eldstöðina sjálfa.
Vart verður það sagt að háspennulínur og slóðir sem þeim fylgja prýði landslagið og allra síst þar sem grámosinn má heita eini gróðurinn á hraunkarga. Slík mannvirki eru þó nauðsynleg og hafa þann kost að auðvelda leið að stöðum sem kunna að vera áhugaverðir fyrir náttúrufræðinga.

Gervigígar við Helgafell

Dagur Jónsson

Dagur Jónsson.

Í sambandi við val á línustæði fyrir Búrfellslínu III 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.

Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen”). Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns. Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

Hraunborgir
Litluborgir

Myndin hér hjá sýnir hraunþak sem hvílir á súlum. Þær afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum.

Litluborgir

Litluborgir.

Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti.
Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinar
Litluborgir

Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. Hraunið er þóleít, þétt feldspatdílótt, með allt að 12-J4 díla á cm2, 2-6 mm í þvermál. Samsetning reyndist: Plagíóklas 41,1%, pýroxen 40,0%, ólivín 1,5%, málmur 12,4%. Dílar alls 11,1%.

Katlahraun

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar. Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.

Dimmuborgir

Dimmuborgir

Dimmuborgir.

Hvorugur okkar hefur skoðað Dimmuborgir að ráði og leiti maður að lýsingum á þeim eða hugmyndum um myndun þeirra verður árangurinn mjög á eina leið. Norski jarðfræðingurinn Tom F.W. Barth (1942) er líklega einn sá fyrsti sem slær því föstu að þar hafi verið um „lava lake” að ræða. Sigurður Þórarinsson (1951) tekur upp kafla lír ritgerð Barths óbreyttan en bendir jafnframt á að hinir alþekktu Strípar við Kálfaströnd séu sams konar myndanir. Á milli þessara tveggja kemur svo Rittmann (1944) með harla frumlega en naumast raunsæja hugmynd um uppruna borganna. R.W. van Bemmelen og M.G. Rutten (1955) fjalla svo um málið og virðast vera þeir fyrstu sem fjalla sérstaklega um hvernig súlurnar hafi orðið til. Þeir telja þær vera „the result of eddies in turbulent flow of the molden lava” (hringiður í rennandi hrauni). Síðastur til að lýsa Dimmuborgum nokkuð er svo Kristján Sæmundsson (1991). Hann telur, eins og áðurnefndir höfundar, að þarna hafi hrauntjörn verið en tekur fram að „hemað hefur verið yfir hana”, en það er þýðingarmikil ábending í þessu sambandi. Ennfremur minnist hann á gas- og gufustrompa sem í tjörninni hafi verið og er þá komið nærri skýringu okkar á því hvers vegna súlurnar standa eftir þegar tjörnin tæmist. Ennfremur bendir Kristján á að Dimmuborgir séu „í ætt við gervigíga”.

Dimmuborgir

Dimmuborgir.

Á öðrum stað í sama riti kemur Árni Einarsson inn á kísilgúrleifar sem ættaðar eru úr hinu forna vatni. Með því virðist því fyrst slegið föstu að hraunið hafi runnið út í vatn. Það er nú komið nokkuð á fjórða áratug frá því að bent var á að kísilgúr innan um gjall eða í bombum gervigíga sannaði að hraunið hafi runnið í vatn (Jón Jónsson 1958) og að nokkuð mætti af þörungaflóru ráða hvers konar vatn. Síðar hefur svo verið sýnt hvernig þetta kann að gerast í gervigígum (Jón Jónsson 1990).

Sappar
Katlahraun

Í Árbók Ferðafélags íslands 1983, bls. 128, er nokkuð lýst myndunum sem gefið var þetta nafn (Jón Jónsson 1983). Það var gert til heiðurs Karli Sapper (1866-1945), en hann varð fyrstur til, svo vitað sé, að lýsa þessum sérstæðu myndunum og einmitt við austurgjá Eldborgaraða (Sapper 1908). Þetta má sem best nota sem fræðiheiti (term) fyrir þessar myndanir. Það tengist manninum sem fyrstur lýsti þeim og það fellur algerlega að íslensku beygingarmunstri. Sjáfur nefnir Sapper þessar myndanir „Lavapilze” (hraunsveppi), gefur lauslega upp stærð þeirra, hæð 4-5 m og þvermál 3-4 m, en lýsir þeim annars ekki ítarlega. Hann nefnir þó að þeir muni „sekundares Gehilde” og að þeir „urspriinglich hohl gewesen wáre”.
Hans Reck (1910), sem næstur er til að skoða þennan stað, er að mestu á sama máli og Sapper, kallar þetta „Lavapropfen” og „sekundares Gebilde”. Þetta tvennt, og áðurnefnd grein í Árbók Ferðafélagsins, er það eina sem kunnugt er að ritað hafi verið um þessar myndanir. Hvaðvarðar síðastnefnda grein, þá er sú lýsing sem þar er að nokkru leyti röng og að öðru óljós og líkleg til að valda misskilningi.
Það var fyrst sumarið 1991 að í ljós kom að vatn hefur verið þar undir sem sapparnir eru. Það sést af leirkenndu seti sem borist hefur upp á yfirborð með hrauninu og að því er virðist upp gegnum sappann. Í þessu seti eru kísilþörungaskeljar. Ekki verður sagt að um kísilgúr sé að ræða. Flóran er fátækleg að tegundum en fjöldi einstaklinga er umtalsverður og þykir benda til þess að vatnið hafi verið kalt, og setið gæti bent til áhrifa frá jökulvatni. Meira verður ekki um það sagt.
Katlahraun

Sapparnir koma fyrir í óreglulegum hópi um 1,5 km norðaustan við Laka. Hraunið hefur þar lagst upp að eldrigígum og myndað lítið eitt bungulaga hraunsléttu og upp úr henni standasapparnir, sem næst 100-150 m austan við gosstöðvarnar miklu frá 1783, enþá varð þriðja og síðasta stórgosið á þessari sömu línu. Eftir að komin var um 50-70 cm þykk skorpa á hraunið hefur kvika haldið áfram að streyma inn undir hraunþakið, en vatn lokaðist undir því. Þar safnaðist fyrir gas úr hrauninu og vatnsgufa, sem að lokum náði að sprengja göt á þakið. Um þau hefur svo seigfljótandi hraunkvika stigið upp, myndað lóðrétta veggi í hring í opinu en í miðju hefur gas og vatnsgufa streymt upp, sennilega með allmiklum krafti, og rifið með sér brot úr hálf- eða alstorknuðu hrauni, sem síðan fyllir strompinn að innanverðu. Sú skoðun Recks að gas hafi hér ekki átt hlut að máli stenst því ekki. Fullkomin sönnun fyrir þessu blasir við á öðrum stað á svæðinu, en þar hefur orðið sprenging sem brotið hefur gat á hraunskorpuna, en brot úr henni liggja í hring kringum opið. Má þar skoða og mæla þykkt hraunþaksins.

Katlahraun

Sappi í Katlahrauni.

Á öðrum stað má sjá gjall- og kleprahring kringum einn sappann og má af því ráða að venjulegur gervigígur hefur þar verið undanfari þess að sappinn varð til. Urðin sem er víðast hvar kringum sappana hefur verið túlkuð, m.a. af Sapper sjálfum, sem „Lavatrummer” (grjóturð) utan af sappanum. Svo er og vissulega að hluta, en engan veginn alls staðar. Vera má að hraunþekjan kringum sappana hafi sigið jafnframt því sem þeir mynduðust og að það hafi þannig átt þátt í myndun þeirra.
Hér þarf nánari athugana við. Ekki verður annað séð en að lausagrjótið ofan á söppunum sé hluti af þakinu. Veggir sappanna eru 60-80 cm þykkir, þéttastir í miðju en hvergi glerjaðir, stundum með skriðrákum að utan. Sumir sappanna hallast mjög og nokkrir hafa næstum lagst á hliðina. Þetta þykir benda til þess að þeir séu meira sjálfstæð myndun og ekki svo mjög háðir hreyfingum þaksins. Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að hér er um gervimyndanir að ræða þótt ekki verði gígir kallaðir. Ennfremur að vatn hefur líka hér verið til staðar og gegnt öðru meginhlutverki.
Sapper tekur fram að sams konar myndanir hafi hann séð í hrauni við Eldgjársprunguna við Brytalæki (Sapper 1908, bls. 27) og vel má vera að þessar myndanir séu ekki jafn sjaldséðar og ætla mætti; a.m.k. fundum við einn gerðarlegan sappa sumarið 1991 í rönd Skaftáreldahrauns norðan við Galta.

Rabb og niðurstöður

Katlahraun

Katlahraun og möguleg upptök; Höfðagígar eða Moshóll.

Af þeirri upptalningu sem hér hefur verið gerð verður niðurstaðan sú að gervigígir, hraunborgir og sappar séu greinar á sama meiði. En hver er meginorsök svo mismunandi útlits þótt skilyrði sýnist hin sömu? Ekki verður hér reynt að svara því. Mesta gervígígasvæði landsins, Landbrotshólar, virðist myndað þar sem hraun rann yfir votlendi, væntanlega með árkvíslum og lónum (Jón Jónsson 1958, 1990). í gjallinu í Rauðhólum við Reykjavík hafa fundist stykki af kísilgúr. Borun þar sýnir að vatnið sem Leitahraun þar rann út í var ekki djúpt. Mývatn virðist aldrei hafa verið djúpt. Austan við Herdísarvík hefur hraun runnið út í sjó og þannig endar Ögmundarhraun. Á hvorugum staðnum hafa gervigígir myndast heldur hefur hraunið runnið í lokuðum rásum eftir að í sjóinn kom. Hvernig svo rásirnar enda sést ekki. Í Litluborgum eru gjall-gervigígir og hraunborgir hlið við hlið. Næsta ljóst er að það sem veldur því að hraunborgir, súlurnar, stromparnir, eða hvað sem maður vill nefna það, standa eftir þegar hrauntjörn tæmist eða í henni lækkar er að hraunið hefur náð að kólna nægilega mikið kringum lóðréttar gufurásir gegnum hraunmassann til þess að þær stóðu eftir þegar tjörnin tæmdist.”

Hvernig myndast Gervigígar?

Litluborgir

Hraunsúlur í Litluborgum.

“Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig:
Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).

Litluborgir

Litluborgir og gervigígarnir.

Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.
Gervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. En verði bara nokkrar sprengingar í þeim mynda þeir gjarnan hóla án gígskála. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum. Því eru þeir oftast nefndir á ensku „rootless cones“.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn. 3.-4. tbl. 01.06.1993, Hraunborgir og gervigígar, Jón Jónsson og Dagur Jónsson, bls. 145-154.
-https://skrif.hi.is/hsh12014/17-2/

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Litluborgir

Í nágrenni Helgafells, sem í dag er orðið aðdráttarafl fyrir göngufólk í auknum mæli, er fjölmargt að skoða, s.s. Kaldárbotna, Helgadal, Valaból, Valahnúka, Húsfell, Litluborgir og Gvendarselshæðargígaröðina, svo eitthvað sé nefnt. Flest göngufólkið virðist þó hafa það að markmiði að ganga á fellið, njóta útsýnisins og þramma síðan umhugsunarlaust til baka. Þó eru þeir/þau til er vilja gefa sér tíma og njóta njóta allra dásemdanna, sem fellið hefur upp á bjóða, allt umleikis…

-Kaldárbotnar

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins.

Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar.

Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Síðar var farið að leiða vatn í hús.

KaldárbotnarNeysluvatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950 og fullnægir hún enn vatnsþörf bæjarins.

Rétt vestan við Búrfellsgíginn, í hrauntröðunum, sem frá honum liggja, er misgengi er nemur um 2 m og snýr eins og hin tvö þ. e. að vesturbarmur sprungunnar er lægri.
Búrfell sjálft er brotið um þvert af misgengissprungu, sem liggur um Helgadal, Kaldárbotna, Gvendarselshæð og Undirhlíðar.

Misgengi þetta er víða (1—8 m og sums staðar 10 m eða þar yfir. Austurhlíð sprungunnar er hér aítur lægri. Það er þessi sprunga, sem Kaldá raunverulega kemur úr. Þetta misgengi er augljóslega yngra en Búrfell og Búrfellshraunið eins og aðalmisgengið um Hjalla.
Það er athyglisvert að um 1,5—2 km sunnan við Kaldárbotna, en þar er vatnsból Hafnarfjarðar, heldur þessi sama sprunga gosið hrauni. Það hraun er hið yngsta þar í grennd.

Sjá meira um Kaldárbotna HÉR  og HÉR.

-Vatnsveitan

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Misgengið í Helgadal – Búrfell fjærGráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þótt leiðslan sé löngu aflögð og að mestu horfin má enn sjá undirhleðsluna frá Lækjarbotnum yfir að ofanverðri Sléttuhlíð.
„Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja Op Níutíumetrahellisinsvatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan sleppt við suðurenda Setbergshlíðar [Setbergshlíð endar við Þverhlíð, hér á því að standa „Sléttuhlíðar“] þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.“

Sjá meira um Vatnsveituna úr Kaldárbotnum HÉR og HÉR.

-Helgadalur

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Helgadalur ofan við Kaldársel var lengi vinsæll staður fyrir skátamót. Strax árið 1938 héldu Hraunbúar Vormót sitt þar en fyrsta Vormótið var haldið í Kaldárseli árið áður.

Kaldársel var einnig vinsæll útilegustaðir og komu skátar t.d. úr Reykjavík oft þangað, ekki síst skátar sr. Friðriks Friðrikssonar í Væringjum.

Síðasta Vormót Hraunbúa var haldið í Helgadal árið 1963. Var svæðið þá skilgreint sem vatnsverndarsvæði og síðar lokað af. Bæjaryfirvöld virðast, í seinni tíð, vera meira annt um að loka af svæðinu en að bæta aðgengi að því.

Göngufólk gengur gjarnan um Helgadal á leið í Valaból – eftir gömlu Selvogsgötunni. Þegar komið er niður í dalinn, þar sem vatnsverndargirðingunni sleppir, má sjá inn í dalinn til hægri; fallega tjörn umlukta runnagróðri og misgengisvegg með mosavaxna Kaldárhnúka í bakgrunni.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið er í Helgadal sést vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, í ofanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Í Árbókinni 1908 fjallar Brynjúlfur Jónsson um „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“; annars vegar í Gullbringusýslu og hins vegar í Skúlatúni. Þar fjallar hann bæði um tóftir í Skúlatúni og í Helgadal.
„Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Sculastatun; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þenna stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið.
Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þennan stað, og fór eg þangað í sumar…

Sjá meira um Helgadal og Helgardalshella HÉR, HÉR og HÉR.

-Valaból

Valaból

Valaból.

Þegar við erum vel hálfnuð með gönguna komum við að trjálundi nokkrum, þokkalega stórum. Er það Valaból. Hefur það stundum verið nefnt fyrsta farfuglaheimili okkar Íslendingar. Farfuglar hófu þarna uppbyggingu fyrir miðja síðustu öld. Fyrst var reyndar staðurinn kallaður Músarhellir. Þar var hellisskúti sem Farfuglar mokuðu út úr. Þeir girtu svo af svæðið og hófu þar ræktun með þessum líka góða árangri. Í dag er bólið orðið af fallegum gróðurreit í annars gróðursnauðu umhverfi.

Sjá meira um Valaból HÉR.

-Valahnúkar

Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér. Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.“

Sjá meira um tröllin á Valahnúkum HÉR

-Litluborgir

Litluborgir

Litluborgir.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Litluborgir

Litluborgir – Gervigígur.

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.

Sjá meira um Litluborgir HÉR.

-Helgafell

Helgafell

Helgafell.

Helgafell ofanvið Hafnarfjörð er 340 m hátt. Ein sjö samnefnd fell eru til í landinu; þetta suðaustur af Hafnarfirði, ofan Kaldárbotna, klettótt og bratt á flesta vegu, í Mosfellssveit, fjall og bær sem sama nafni, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan (einnig samnefndur kirkjustaður), hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar, fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.
Ýmsar leiðir liggja um Helgafell. Auðveldasta uppgangan er að norðvestanverðu. Efst á vestanverðu fellinu er móbergskletturinn “Riddari” og neðan hans til suðvesturs er klettaborg; “Kastali”.
Hugsanlega er nafnið “Riddarinn” tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Nú er og helgiblær á Helgafellinu ofan við Hafnarfjörð eftir að fólk frá KFUMogK í Kaldárseli reisti trékross á Kaldárhnúkum vestari.

Helgafell

Helgafell – krossinn.

„Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Nafnið Helgafell gæti vísað til helgi á fjallinu til forna. Þar uppi er varða. Vísir menn á borð við Þórarinn Þórarinsson arkitekt hafa tengt saman vörður á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur á kort, t.d. á Helgafelli, Ásfelli og Sandfelli, og fundið líkindi til þessa að þær hafi markað tímatal eftir gangi sólar. Gæti því verið að fjall eins og Helgafell hafi notið sérstaks álits í heiðnum sið? Enn aðrir segja að á Helgafelli kunni að vera grafinn Hinn heilagi bikar.

Sjá meira um Helgafell HÉR.

-Gvendaselshæðargígar

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs. Gvendarsel er í ofanverðum Bakhlíðum.
Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.
Gatið svonefnda í suðvestanverðu Helgafelli er til komið vegna ágangs vatns og vinda í kjölfar yfirgangs ísaldarjökulsins. Þar er niðurgönguleið, ef varlega er farið.

Sjá meira um Gvendarselshæðargíga HÉR.

-Kaldársel

Kaldársel

Kaldársel.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir Garðapresta við Kaldá. Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

-Kaldárhraun

Helgafellshraun

Hraunin ofan Helgafells – Jón Jónsson.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 ha.

Sjá meira um hraunin í kringum Helgafell HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://vatnsidnadur.net/2019/09/13/kaldarbotnar-vatnsbol-hafnarfjardar/
-https://www.hafnarfjordur.is/media/uppland/GreinargerdKaldarselKaldarbotnarGjarnar.pdf
-https://timarit.is/page/4262872?iabr=on#page/n33/mode/2up/search/kald%C3%A1rbotnar
-https://www.fjardarfrettir.is/ljosmyndir/thegar-skatamot-voru-haldin-helgadal
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/13-valahnukar-troll/

Litluborgir

Hraunmyndanir í Litluborgum.