Litluborgir

Ratleik Hafnarfjarðar barst í ágústmánuði (2023) skondin ábending frá Umhverfisstofun eftir athugasemdir hennar til Hafnarfjarðarbæjar varðandi staðsetningu merkis ratleiksins í gervigíg við Litluborgir ofan Helgafells:

Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun – merki.

“Sæll Guðni, okkur hefur borist ábending frá Umhverfisstofnun vegna ratleiks sem m.a. er í Litluborgum. Það er vinsamleg ábending að færa til stöð nr. 16, þar sem mosinn í kringum þann stað hefur látið á sjá. Jafnvel að færa stöðina þannig að menn þurfi ekki að ganga á mosa til þess að finna umrædda stöð. UST er að fara í gang með að stika þarna gönguleiðir til þess m.a. að vernda viðkvæman mosann. Það er nokkuð skemmtileg leið þarna norðan meginn á friðlýsta svæðinu, sem sést á kortinu, Réne kom með þá hugmynd að e.t.v. væri heppilegra að nota hana. Þaðan er fallegt útsýni yfir friðlýsta svæðið og Helgafellið.”

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Guðni svaraði: “Það hefur sýnt sig í leiknum að mosi hefur jafnað sig ótrúlega fljótt, þrátt fyrir það sem alltaf er haldið fram. Svo hefur gönguleiðir myndast í ratleiknum eins og gönguleiðin í Litluborgir. Áður var vaðið ómarkvisst yfir mosann, en nú eru allir að fara á sömu leið, ekki einungis þeir sem ekki eru í leiknum og koma þarna. Að auki eru það hraunmyndanirnar sem þarna er verið að vernda. Gott er að vita að loksins skuli einhver átta sig á að stika þurfi gönguleiðir um svæðið.”

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

Litluborgi

Litluborgir – friðlýsing.

Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði. Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Í auglýsingu um náttúruvættið Litluborgir í Hafnarfirði frá 3. apríl 2009 segir m.a.: “Markmiðið með friðlýsingu Litluborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar.

Litluborgir

Litluborgir – göngustígurinn frá Helgafelli.

Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað.”
Slík verndaráætlun hefur ekki verið gerð.

Litluborgir

Í Litluborgum – hraunmyndanir.

Í auglýsingunni segir jafnframt: “Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni… Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins. Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.”
Slík gönguleið hefur ekki verið gerð.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Umhverfisstofnun hefur engar forsendur til að gera athugasemdir við umferð fólks um Litluborgir því “almenningi er heimil för um náttúruvættið” skv. auglýsingu þar að lútandi – og jafnvel þrátt fyrir auglýsinguna með vísan til gildandi ákvæða Jónsbókar.  Ljóst hefur þótt að fólk færi ekki fljúgandi um svæðið. Mosi umlykur Litluborgir svo ekki verður hjá því komist að fólk þurfi að ganga um hann á leið sinni. Þá ætti Umhverfisstofnun að fagna því að athygli fólks skuli vera vakin á svæðinu, en hún hefur síst allra sýnt því nokkurn áhuga í gegnum tíðina. Nefnd fyrirhuguð stígaleið er slóði bifreiða, sem ekið var upp hraunið frá Helgafelli áleiðis að Strandartorfum þegar veiðimenn sóttu þangað í rjúpur á haustin, auk þess sem hún var farin af mönnum þeim er önnuðust uppsetningu sauðfjárveikigirðingar i upplandi Hafnarfjarðar. Sú eyðilegging ætti að hafa verið stofnuninni meira áhyggjuefni en umferð gangandi fólks um svæðið.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Umhverfisstofnun fer villu vega þegar markmið hennar er að gera athugasemdir við umferð gangandi fólks um einstök friðlýst svæði í stað þess að sinna hlutverki sínu með þeim hætti að gera fyrirbyggjandi ráðstafnir varðandi undirbúning og framkvæmdir á þeim svo ekki þurfi að koma til slíkra athugasemda.

Í skýringum ratleiksins v/fróðleik um Litluborgir er sérstaklega tekið fram að þær eru friðlýst náttúruvætti – sjá HÉR.

Litluborgir

Í Litluborgum.