Litluborgir

Gengið var frá Kaldárseli upp með Kaldárhnjúkum vestari og inn með gígaröðinni sunnan Gvendarselshæða og stefnan síðan tekin á Skúlatún, gróðurvin í hrauninu vestan Dauðadala. Engin sýnileg ummerki eru eftir minjar á Skúlatúni. Þaðan var gengið til baka að Gullkistugjá og gjánni fylgt til austurs að suðurhorni Helgafells.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Komið var við í “Minni Dimmuborgum” (stundum nefnt Hraungerði eða Litluborgir) í hrauninu sunnan vegarins og gengið þaðan í vesturenda Neðri-Strandartorfa. Borgirnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og erfitt að finna þær. Hraunið virðist hafa storknað þarna í vatni eða vatnskenndum jarðvegi með þeim áhrifum að hellar og hraunsúlur hafa myndast hingað og þangað. Hægt er að þræða hellana, sem eru opnir og með mjög fallegum hraunmyndunum. Mosinn þarna er mjög viðkvæmur fyrir átroðningi, en hingað til hefur svæðið fengið að vera að mestu í friði fyrir forvitningum og því fengið að vera ósnortið. Hins vegar munaði litlu að línuvegurinn væri lagður yfir svæðið á sínum tíma, en góðum mönnum tókst að afstýra því í tíma, þökk sé þeim Magnúsi og Ingvari.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru í Dimmuborgum í Mývatnssveit, Katlahrauni við Selatanga og víðar.
Gengið var upp klapparhæðina og síðan austur yfir að Efri-Strandartorfum. Leitað var fjárhelli í Kaplatór þar norður af, en hann fannst ekki. Eftir að hafa gengið yfir hraunið í norður var komið við í Mygludölum og síðan gengið áfram niður að Valabóli þar sem komið var við í Músarhelli.
Veður var frábært, sól og hiti. Haldið var yfir skarðið á Valahnjúkum og síðan veginn niður að Kaldárseli.
Gangan tók um 2 og ½ klst.
Frábært veður.

Litluborgir

Í Litluborgum.