Kristjánsdalir

Kofatóft úr torfi og grjóti undir Bollum, utan í Kristjánsdölum, við hraunkantinn milli Kerlingaskarðsvegar og Grindaskarðsvegar, hefur löngum vakið forvitni göngufólks, en fátt er vitað um tilurð hans og tilgang. Þorvaldur Thoroddsen getur kofans í skrifum sínum í Andvara árið 1884 í lýsingu sinni um “Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883“:

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

“Frá Kaldárseli fórum við fyrst Grindaskarðsveg upp að fjöllunum og síðan austur á við milli hrauns og hlíða um svo kallaða Kristjánsdali; þar er mjög grasgefið land, en ekkert vatn neinstaðar; þar höfðu lestamenn hesta sína, þeir er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og er þar dálítill kofi síðan. Dólerít er hjer ofan til í fjöllum, en móberg undir. Mjög illt var að klöngrast yfir hraunfossana, sem fallið hafa niður hjá Kóngsfelli, því bæði eru þeir breiðir og hraunið mjög umsnúið og erfitt yfirferðar.”

Kristjánsdalir

Tóft við vatnsstæði í Kristjánsdölum.

Þrátt fyrir framangreind orð Þorvaldar er ágætt vatnsstæði í Kristjánsdölum, skammt norðan Grindaskarðsvegar. Við það er nánast jarðlæg tóft, sem væntanlega hefur verið afdrep Selvogsmanna á leið þeirra millum Vogs og Fjarðar fyrrum. Þar höfðu rjúpnaskyttur úr Hafnarfirði afdrep undir það síðasta. Enn önnur tóftin, grunnur undir timburhús, tengd brennisteinsnáminu í Fjöllunum, er ofar og austar, upp undir Kerlingarskarði.

Heimild:
-Andvari – 1. tölublað 01.01.1884, “Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883”; Þorvaldur Thoroddsen, bls. 30.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.