Eftirfarandi lýsing á Grindarskarðsvegi (Selvogsleið) eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943-1948:
“Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.
Þegar upp að fjalli er komið, eru til norðurs með fjallinu grasflatir allstórar, sem heita Kristjánsdalir. Norðan þeirra gengur hæðarskagi fram úr fjallinu: Kristjánsdalahorn.
Upp af Kristjánsdölum rís landið sem í öldum, og heitir þar Kristjánsdalabrúnir. Norðaustur af þeim eru Þríhnjúkar. Til suðurs sér alllangt með Lönguhlíð og til Dauðadala. Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, unz upp er komið á Kerlingarskarð. Allbratt er upp að fara, einkum neðst og efst. Þegar komið er undir efstu brekkuna, er dalverpi litið í fjallið norðan götu. Þar sést enn kofarúst, leifar af skýli, sem byggt var í tíð brennisteins-vinnslunnar í Brennisteinsfjöllum, og var „sæluhús” þeirra, sem fluttu brennisteininn á hestum til Hafnarfjarðar. Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðavegur. Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helzt lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingarskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni. Þegar upp á brún er komið, eru þrír hnjúkar til hægri handar, skammt frá vegi, kúlumyndaðir og allir svipaðir að stærð. Hnjúkar þessir eru á uppdrætti herforingjaráðsins nefndir Grindaskarðahnjúkar, aðrir nefna þá Bolla einu nafni, sennilega eftir lagi bolla á hvolfi. Nokkurn spöl norðan gamla Grindaskarðavegar er allstór hnjúkur, sem á korti frá 1908 er nefndur Kóngsfell, en á korti frá 1932 Bolli.
Alþekkt fiskimið frá tíð áraskipanna við Faxaflóa er Bollasvið eða Bollaslóð. Þá voru Bollarnir, syðsti, mið- og nyrzti, yfirmið, en Helgafell undirmið. Vitneskju hef ég reynt að afla mér frá gömlum sjó- og formönnum, sem sóttu mikið á þessar slóðir, en ekki ber þeim að öllu leyti saman um Bollana. Nokkrir þeirra telja þá alla sunnan Kerlingarskarðs, en aðrir beggja megin, og er ekki óhugsandi, að þessi sagnamunur stafi af því, að margir af þessum mönnum eru algjörlega ókunnugir á landi þar um slóðir. Allir þessir menn þekkja eflaust Bollana af sjó, en ef til vill gera þeir sér ekki grein fyrir þeim af landi eða þegar nær er komið, þar sem ýmis kennileiti taka breytingum í augum manna, eftir því hvaðan horft er og úr hvaða fjarlægð. Hæsti hryggur fjallsins er mjór, og fer rétt strax að halla austur af, en ekki er það undanhald langt, svo sem hálfrar stundar gangur, þar til landið liggur jafnhátt, og nær það að Hvalhnjúk og Ásum. Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá.
Er það hraungjá mikil, sem hraun hefur runnið eftir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er Kóngsfell. Þar koma saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu. Þegar komið er austur af fjallshryggnum, er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriðja, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. Var það leið þeirra manna, sem brennisteinsnám stunduðu í Brennisteinsfjöllum, þegar þeir fóru um helgar til Hafnarfjarðar, því að flestir af þeim áttu þar heima, en mest var þessi leið farin af þeim, sem fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar, og var hann fluttur á klökkum. Hafnfirðingum, sem hesta áttu, svo og bændum þar í grennd, var að einhverju leyti gefinn kostur á þessum flutningum, og skyldu þeir fá eina krónu á hestburðinn í flutningsgjald. Ferðin mun hafa tekið 12-14 klst. Eitthvað mun þessu hafa verið sinnt, þrátt fyrir þetta lága gjald, sem að lokum reyndist samt félaginu ofvaxið. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar.
Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar. Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar heíur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð.
Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú.
Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja. Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar. Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík.
Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík. Hefur nú verið lýst leið hinna svonefndu útbæja í Selvogi, og hverfum við nú aftur norður undir „Skarð”, að vörðunum tveim, og förum þaðan austustu leiðina, sem liggur til Vogsósa og Selvogshverfis.
Vegurinn til Selvogs liggur frá vörðunum austur milli hrauns og hlíða. Er lág heiði með giljum og skorningum á vinstri hönd, en braunið á hægri, og nær það alveg upp að þessum heiðadrögum, og er þessi kafli vegarins nefndur Grafningur. Þegar austur úr honum kemur, er komið í Stóra-Leirdal, það er allstór sléttur grasdalur. Í Stóra-Leirdal var ófrávíkjanleg regla að æja, taka ofan af hestum, ef undir áburði voru, hvort heldur var verið á austur- eða vesturleið.
Þarna tóku menn til nestis síns, bæði matar og drykkjar, ef eitthvað var fljótandi í ferðinni, og var þá ekki ósjaldan, ef verið var að koma úr kaupstað, stundum í misjöfnu veðri, þegar menn voru búnir að hressa sig á mat, hver við sinn farangur, að menn færðu sig þá saman, og einhver þá ef til vill með ábæti, aðallega af farangri fararstjórans, því að venjulega hafði einhver einn forystu í ferðinni. En oftast var þetta þegjandi samkomulag, og sungu menn nokkur lög, áður farið var að hafa saman hesta til áframhalds ferðinni. Söngurinn, ásamt yljandi hressingu, færði fjör og hita í menn, sem þeir svo bjuggu að næsta áfanga.
Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur.
Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið. Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum. Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 626 m hár.
Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t. d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt. Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll.
Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum. Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði.
Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir. Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.
Ég get ekki gengið fram hjá án þess að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða.
Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eítir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.
Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar. Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ.
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn. Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.”
Suðurferðavegur næst Selvogi.
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49, árg.1943-1948, Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 96-104.