Í bókinni “Blárra tinda blessað land” segir Árni Óla frá Grindaskarðavegi: “Rétt fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur.
Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri áður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmiss merki við hann, svo sem smávörður, tréstaurar eða járnhælar, sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hér í óbyggðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist gangstétt. Liggur hún þvert yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast framhjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sín hvoru megin við jarðfallið. Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan, beygir vegurinn vestur að Kaldárseli.”
Þarna er væntanlega átt við götu þá, sem enn sést klöppuð í berghelluna vestan við Borgarstand utan við Kaldársel. Þar hefur eininungis á einum stað verið hægt að komast yfir gjána með hesta. Gatan sunnan Kaldársels bendir til þess að sú leið hafi síðan verið farin að Kýrgili og áfram með stefnu sunnan Helgafells. Þá hefur línan verið tekin undir hraunbrúninni að Dauðadölum, síðan beygt inn á slétt hraunið við Dauðadalahella og upp á gatnamótin þar sem Selvogsgata/Grindaskarðsvegur greindust um Grindaskörð annars vegar og Kerlingaskarð hins vegar.
Dauðadalaleiðin gæti skv. þessu hafa verið nefnd Grindaskarðavegur, en Selvogsgata að austanverðu, um Helgadal. Selvogsbúar nefndu þá leið Suðurferðaveg. Hafa ber í huga að jafnan var afdrep í Kaldárseli því það fór ekki í eyði fyrr en um aldamótin 1900 og stóðu þó húsin enn um nokkurt skeið eftir það. Að vísu var afdrep í Setbergsseli á hinni leiðinni, en það fór sennilega í eyði í byrjun 19. aldar.
Í bókinni segir Árni Óla jafnframt: “Einu sinni var byggð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að enginn vissi fyrr en nokkru seinna, að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum byggði K.F.U.M. í Hafnarfirpi þarna skála og hafði þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. .
Um Kaldá er og fjallað. Sagt er frá hugmynd Eggerts Ólafssonar þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, “eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi”. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. “Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni”. “En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.”
Heimild:
-Árni Óla, Blárra tinda blessað land”, 1945, bls. 33-34.