Selalda

Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Eyri

Eyri – tóftir.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Eyri fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur og jafnvel hús. Litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var á Selsvöllum um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni og í Húshólma.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Af því segir þjóðsagan af ræningjunum, selsstúlkunum og smalanum er flúði upp að Krýsuvíkurbæjunum, kom að kirkjunni þar sem séra Eiríkur var við messu og móttökum hans við ræningjana. Enduðu þau með því að ræningjarnir drápu hvern annan að áeggjan séra Eiríks, sem sagði það guðsmildi að ekki væri sunnudagur því annars hefði hann mælt svo um að þeir ekki bara dræpu hvern annan, heldur og ætu. Ræningjadys sunnan Krýsuvíkurkirju er til marks um atburðinn.

Selalda

Selalda – fjárhús.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir tveggja fjárhúsa og vestan þeirra er enn heilleg steinbrú yfir Vestarilæk.
Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.

Fitjar-21

Fitjar.

Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt.

-ÓSÁ tók saman.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu. Uppdráttur ÓSÁ.