Færslur

Selalda

Í Gráskinnu segir af “Tyrkjum á leið vestur með landi, utarlega á móts við Krýsuvíkurberg, í svonefndri Hælsvík. Þar upp af er stígur, nefndur Ræningjastígur, en nokkru vestar eru seltættur gamlar”.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Tyrkir lágu í logni á víkinni. Þrír af þeim drápu tvo kvenmenn, er þeir gengu á land, en þær voru í selinu. En á meðan þetta gerðist kom smali frá Krýsuvík með féð og tóku þá þrír af Tyrkjunum á rás á eftir honum og eltu hann heim á tún í Krýsuvík, en þegar þangað kom, komu heimamenn á móts við smalann og drápu Tyrkjana þrjá við svonefndan Ræningjahól í Krýsuvíkurtúni, sem hefur nafn sitt af þessu. Þrjár þúfur austanvert við hólinn í túninu er kallaður Ræningjaleiði og eru Tyrkir þar heygðir. Af Hælisvík fóru Tyrkir til Grindavíkur, samanber Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá. Öll sjást örnefnin enn í dag”. Frásögn þessari tengjast síðan frásagnir af Séra Eiríki og viðureign hans við Tyrkina umrætt sinn þar sem hann atti þeim hverjum gegn öðrum uns þeir lágu dauðir eftir.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

Byrjað var á því að skoða selið ofan við Krýsuvíkurbjarg austast í Selöldu, skammt frá tóftum bæjarins Eyri. Enn má sjá tóftir þess norðan og austan við bæjartóftirnar. Ræningjastígurinn upp bergið var fær þangað til fyrir skömmu að brotnaði neðst úr honum. Gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsréttinni. Dysjarnar sjást utan í nefndum hól sunnan Krýsuvíkurkirkju. Sunnan við hann eru tóftir Suðurkots.
Gangan tók 2 klst og 12 mín í frábæru veðri.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Selalda

Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Eyri

Eyri – tóftir.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Eyri fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur og jafnvel hús. Litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var á Selsvöllum um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni og í Húshólma.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Af því segir þjóðsagan af ræningjunum, selsstúlkunum og smalanum er flúði upp að Krýsuvíkurbæjunum, kom að kirkjunni þar sem séra Eiríkur var við messu og móttökum hans við ræningjana. Enduðu þau með því að ræningjarnir drápu hvern annan að áeggjan séra Eiríks, sem sagði það guðsmildi að ekki væri sunnudagur því annars hefði hann mælt svo um að þeir ekki bara dræpu hvern annan, heldur og ætu. Ræningjadys sunnan Krýsuvíkurkirju er til marks um atburðinn.

Selalda

Selalda – fjárhús.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir tveggja fjárhúsa og vestan þeirra er enn heilleg steinbrú yfir Vestarilæk.
Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.

Fitjar-21

Fitjar.

Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt.

-ÓSÁ tók saman.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu. Uppdráttur ÓSÁ.

Selalda

Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurbergi og gengu upp, þar sem heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu, og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.

Arnarfell

Eiríksvarða á Arnarfelli.

Þá var sunnudagur, og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir, að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara, að hann væri í ræðustól, er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti: “Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað”.
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar, góðir menn?” Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja kom á túninu. Hann mælti til þeirra: “Farið nú ekki lengra, drepið þarna hver annan. Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, munduð þið éta hvern annan”. Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll, en Ræningjaþúfur, þar sem þeir eru dysjaðir.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Eftir það hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni (á Svörtubjörgum), að meðan hún stæði, skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn (1859).

-Tillag til alþýðlegra fornfræða – Brynjúlfur Jónsson – 1953.

 Heiðnaberg

Heiðnaberg og Ræningjastígur.

Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: “Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.”

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: “Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.” Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

“En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: “Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.”

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: “Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn “Neðri-Fitjar” hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, “Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998“, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.” Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í “Fornleifaskráning í Grindavík, 2004” segir um minjar á Fitjum: “Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.” segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.”

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: “Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi”, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: “[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.” Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.” Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. “Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.”

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”, en vestan hans heitir bjargið “Krýsuvíkurberg”.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita “Skiptifoss” eða “”Skiftifoss”.

Arnarfell

Gengið var að Arnarfellsréttinni, sem er í hvarfi í lægðarrana skammt austan við veginn niður að Selöldu. Hlaðin varða er vestan við réttina. Hún er í línu við vörðu á hæð allnokkru austar og aðra á hæð allnokkru vestar.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Þarna gæti hafa verið gömul leið yfir Krýsuvíkurheiðina sunnan Krýsuvíkurbæjanna, framhjá Arnarfellsvatni og með stefnu á Stóru-Eldborg. Ofan við Arnarfellsréttina sést yfir að Krýsuvíkurréttinni sunnan undir Bæjarfelli. Sú fyrrnefnda hefur verið allstór, með mörgum dilkum og almenningi. Réttin er vel hlaðin og hefur staðist tímans tönn, sennilega vegna þess að hún hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði fyrir ágangi.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var upp með Vestari-læk, áleiðis að Arnarfelli. Tóft bæjarins sést í gróinni hlíðinni sunnan í fjallinu, innan vörslugarðsins, er umlukti Krýsuvíkurtorfuna. Garðurinn liggur til austurs og vesturs neðan við bæjarstæðið og síðan þvert upp í fjallið austan þess. Þegar komið er inn á túnið vestan við bæjarstæðið má sjá móta fyrir allnokkrum eldri tóftum í hlíðinni. Þarna virðist vera um allnokkurt minjasvæði að ræða, sem fróðlegt væri t.d. að skoða með jarðsjá (viðnámsmælingu).

Arnarfell

Brunnur við Arnarfell.

Sagan segir að Þórir haustmyrkur hafi byggt Selvog og Krýsuvík. Jafnframt að hann hafi búið í Hlíð við Hlíðarvatn. Ekki er þó með öllu útilokað að þarna kunni að leynast bæjarstæði eða tóftir frá löngu fyrrum tíma. Bæjartóft Beinteins undir Arnarfelli, sú “nýjasta” er vel gróin. Beinteinn Stefánsson var hagur maður sem byggði Krýsuvíkurkirkju 1857. Af honum segir og í umfjöllun um viðureign hans og Tanga-Tómasar á Selatöngum. Átökin enduðu með því að Beinteinn þurfti að fara fótgangandi berfættur frá Töngunum og heim að Arnarfelli. Þurfti hann að liggja fyrir næstu daga á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

Fimm rými hafa verið í bænum. Burstir virðast hafa verið tvær stærri og tvær minni að framan og baðstofa fyrir innan. Gerði hefur verið bakatil við bæinn. Hola er í jörðinni sunnan undir tóftunum. Ekki er gott að segja til um hvort þar gæti hafa verið brunnur. Stutt er í Vestari-læk frá bænum.
Uppi á vestruöxl Arnerfells eru tvær tóftir, önnur undir klettum. Hún virðist hafa verið sauðakofi með gerði fyrir framan, en ofan við hann er heilleg tóft af útihúsi.
Efst á Arnarfelli er Eiríksvarða, kennd við séra Eirík Magnússon (1638-1716) frá Vogsósum, en fræg er sagan af viðureign hans og Tyrkjanna er komu áleiðis upp að Krýsuvíkurkirkju frá Selöldu á sunnudegi þegar Eiríkur var að messa þar. Eiríkur brá skjótt við og atti þeim saman svo þeir drápu hvorir annan. Eru þeir dysjaðir í Ræningjadys utan í Ræningjahól. Mótar enn fyrir dysinni sunnan við veginn sunnan kirkjunnar. Nýdautt lamb lá skammt vestan við Arnarnesbæinn.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Gengið var yfir að Arnarfellsvatni. Mikið var í vatninu, en það er allstórt og háir bakkar sumstaðar umhverfis það. Gömul gróin gata liggur niður að því að vestanverðu. Skammt sunnar, vestan við vatnið, mótar fyrir tóft ofan við bakkann og jarðlægri hleðlsu. Þegar staðið er sunnanvert við vatnið er auðvelt að hugsa til vermanna á langri göngu, sem margir máttu gera sér það að góðu að tjalda í mýrinni eða við hana á leið sinni til og frá veri þegar ekki var hægt að hýsa fleiri ferðalanga í Krýsuvíkurkotunum. Enn er vel gróið sunnan við vatnið og vel má sjá hversu gróðuþekjan hefur verið þykk áður en hið mikla jarðvegsrof varð.

Trygghólar

Varða á Trygghólum.

Haldið var áleiðis niður heiðina með stefnu á Trygghóla. Um miðja vegu var komið að mannvistarleifum á hól. Mikil jarðvegseyðing er þarna svo erfitt er að álykta hvað þetta getur hafa verið.
Gömul og heilleg varða er á Mið-Trygghól. Gengið var niður með austurenda Selöldu og síðan til vesturs sunnan hennar. Þá var komið að tóftum er taldar eu hafa verið hið gamla Krýsuvíkursel. Tóftin er mjög gróin. Einungis sést móta fyrir einu húsi, en annað virðist vera sunnar og eitthvert mannvirki, jarðlægt, virðist hafa verið á gróinni hæð skammt austar. Á milli þeirra liggur gömul gata niður að tófum bæjarins Eyri, sem er skammt sunnan við selið. Sagan segir að ræningjarnir hafi komið upp svonefndan Ræningjastíg í Heiðnabergi og gengið upp í selið þar sem tvær selmatsstúlkur hafi verið fyrir. Drápu þeir stúlkurnar, en smali, sem sá til þeirra, hljóp allt hvað af tók upp að Krýsuvíkurbænum þar sem fólkið var við fyrrnefnda messu, og sagði frá. Lok sögunnar er rakin hér að framan þegar ræningjarnir mættu galdraprestinum.

Eyri

Eyri – tóftir.

Eyri er nú á gömlum lækjarbakka, allnokkrar tóftir. Vatnið hefur grafið þarna allnokkurn farveg, en er nú horfið með öllu. Þær líkjast 17. og 18. aldar bæ. Líklegt má telja að bærinn hafi byggst upp úr selstöðunni. Sunnan lækjarfarvegarins eru tvær borgir á hólum. Utan í þeirri vestari er löng tóft, lambakró að því er virðist. Austast í henni hefur verið lítið hús. Utan í borginni að sunnanverðu er hlaðinn garður.

Eyri

Eyri og Krýsuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var niður að Heiðnabergi. Sjór var ládauður og lygnt svo fuglinn hafði tyllt sér á steinana undir bjarginu og þingaði. Enn sést móta fyrir efri hluta Ræningjastígsins í bjarginu, en sjórinn hefur brotið niðri hluta hans svo nú er ekki lengur hægt að komast hann ala leið niður undir bjargið.
Annað nýdautt lamb lá ofan við bjargið. Gengið var að Strákum á Selöldu. Hlaðið fjárhús er þar undir reisilegum kletti og eru veggir þess nokkuð heillegir. Undir hið síðasta mun það hafa verið nýtt sem fjárhús frá Krýsuvík. Fígúrunar á móbergshryggnum á vestanverðri Selöldu gefa ímyndunaraflinu byr undir báða vængi, auk þess sem litadýrðin þar í björtu veðri, eins og nú var, er fáu lík.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Skoðaðar voru tóftir bæjarins Fitja sunnan og vestast undir Selöldu. Vestan bæjarhúsanna eru tóftir tveggja útihúsa. Garður er aftan við bæinn og túnin hafa verið þarna allnokkur. Vestan við útihúsin rennur Vestari-lækur. Á gömlum farvegi hans er hlaðin gömul brú. Farvegi lækjarins var fylgt frá brúnni til norðurs. Þá sást vel hversu oft hann hefur skipt um stöðu frá einum tíma til annars. Eystri-lækur rennur nú niður svo til miðja Krýsuvíkurheiði og steypist þar fram af bjargbrúninni, en ekki er ólíklegt að hann hafi áður runnið niður gil það er lækurinn við Eyri hefur myndað á löngum tíma. Vestari-lækur er margbreytilegur og mjög litskrúðugur á köflum.

Selalda

Haliðin brú á Vestari-læk við Fitjar.

Þegar gengið var um Selölduveginn var komið að rústum og undirstöðum bragga eða byggingar, sem þar hefur verið á síðustu öld. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um hvaða tilgangi hann hefur þjónað á þessu svæði.
Frábært veður – bjart, hlýtt og stillt. Gangan tók 4 klst og 12 mín.
Tækifærið var notað og Arnarfellstóftirnar rissaðar upp.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurheiði

Við vegamót Ísólfsskálavegar og Selölduvegar slógust nokkrir áhugasamir Grindvíkingar í hópinn.

Eyri

Eyri.

Gengið var niður að Selöldu. Við slóðann mótar fyrir undirstöðum bragga. Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þar á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.

Selalda

Steinbrú ofan Fitja.

Staðnæmst var við gamla steinbrú yfir Vestari-læk, við tóttir bæjarins Fitja og við fallega hlaðið fjárhús undir Strákum. Þá var gengið niður að Hælsvík og rifjuð upp sagan af komu Tyrkjanna upp Ræningjastíg. Í framhaldi af því var gengið í slóð Tyrkjanna upp að Krýsuvíkurseli þar sem þeir áttu að hafa ráðist að selsstúlkum. Smali var þess var og hljóp upp að Krýsuvíkurbæjunum, með Tyrkina á hælunum. Séra Eiríkur á Vogsósum var þá við messu í kirkjunni. Hann lagði þegar á Tyrkina að þeir myndu snúast gegn sjálfum sér, sem og þeir gerðu. Eru þeir dysjaður í Ræningjadys á Ræningjahól, sem er við Suðurkot. Litið var á tvær fjárborgir og tóttir bæjarsins Eyri áður en komi var í selið. Selstóttirnar, sem eru þar skammt austar, eru greinilega mjög gamlar.

Selalda

Fitjar.

Eftir skoðunina undir Selöldu var haldið að Trygghólum, sem eru þarna nokkru austar. Frá þeim er víðsýnt um Krýsuvíkurheiðina. Sést þaðan vel yfir Grindavíkurlandið austan Hafnarfjarðarlandsins ofan við Hælsvík. Sást meira að segja alla leið til hellamanna vera að snuðra í kringum Litlu-Eldborg í fjarska. Samviskan hefur nagað Grindvíkinga eftir langa áþján landsins og hafa þeir verið að reyna að græða upp landið að hluta fyrir Hafnfirðingana. Ef einhver töggur væri í Grindvíkingum myndu þeir ná þessum hluta Krýsuvíkurlandsins til sín aftur með hurðum og gluggum, enda Hafnfirðingar lítt hafa kunnað að meta þetta landssvæði hingað til. En þetta var nú smá útidúr.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Frá Trygghólum var gengið í átt að Arnarfelli og komið við í Arnarfellsréttinni, heillegri hlaðinni fjárrétt í lægð nokkru sunnan við fellið. Þetta var nú smá útidúr.
Vegna þess hversu veðrið var gott var ákveðið að kíkja á Ögmundardys við Ögmundarstíg og Smíðahellinn í Katlahrauni áður en göngunni lyki. Í leiðinni var Lestargatan vestari (Skeiðargatan) gengin, litið á hlaðnar refagildrur og Sögunarkórinn.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Selalda

Farið var að Selöldu. Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Strákar

Fjárskjól undir Strák.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Fitjar fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Ofar og litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar, nú nánast jarðlægar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var í Sogagíg um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni, Kringlymýri, Selgili og í. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir og gróinn garður. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur eða útihús frá Eyri og au þess hliðsett hús. Allt er þetta búsetulandslag einstaklega áhugavert, ekki bara vegna þess að saga þess hefur ekki verið skráð, heldur má úr því lesa nýtingu svæðisins í gegnum aldrinar. Bæði eðlilegt og sjálfsagt væri að rannsaka svæðið sem heild.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir fjárhúss og sauðakofa og vestan þeirra er enn heilleg og falleg steinbrú yfir Vestarilæk, sem ástæða er að reyna að varðveita.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp ag hraunlögum, grágrýti, en gjalllög ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (vikri og ösku) og hraunlögum. Strákar er ung móbergsmyndun vestan í Selöldu. Bergið er um 45-45 h hátt. Hugsanlega eru hraunin komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Fitjar-221

Tóftir Fitja.

Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.
Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt. Ekki er því ólíklegt að í Krýsuvíkurselinu megi finna nytjastað frá fyrri tíð.

Fitjar

Fitjar – stekkur.

Neðan og austan við Fitjar má m.a. sjá leifar af a.k. tveimur hlöðnum refagildrum. Skammt ofan við þær, á eldri lækjarfarvegi Vestari-lækjar eru minjar stekks, gerðis og hugsanlegar kvíar.
Gengið var um Fitjar, upp að Strákum og yfir að Eyri þar sem minjarnar voru skoðaðar. Þá var haldið út á Heiðnaberg, en svo skemmtilega vildi til að björgunarsveitin Þorbjörn var þá einmitt með æfingu á og undir bjarginu. Fylgst var með æfingunni áður en gengið var til baka.
Frábært veður – sól og lygna.

Eyri

Tóftir Eyrar undir Selöldu.

 

Selalda

Gengið var frá Krýsuvíkurréttinni eftir vegslóðanum niður að Selöldu. Um er að ræða greiðfæra og ákjósanlega leið fyrir alla aldurshópa. Framundan horfið Selaldan við, móbergshryggur sem vatn og vindar hafa sorfið til að ofanverðu og myndað þar alls kyns fígúrur. Rjúpa situr efst á steini, steinrunnin, fálki steypir sér niður og tröll horfa hreyfingarlaus á.

Selalda

Selalda – berggangur.

Vestarilækur rennur þarna niður með vestanverðri Selöldu, liðast um tún bæjarins Fitja og steypist síðan fram af Krýsuvíkurbergi vestan Heiðnabergs. Vestan við túnkantinn, yfir lækinn, er gömul hlaðin brú. Garðar eru með túnunum að norðanverðu og tóftir bæjarins eru bæði miklar og heillagar. Saga Fitja er rakin í annarri FERLIRslýsingu.
Gengið var upp að Strákum, stórum klettum á vestanverðri Selöldu. Undir þeim er fallega hlaðið og heillegt fjárhús. Frá því er ágætt útsýni eftir Selöldunni til austurs og neðanmóa. Haldið var á ný niður á slóðann og hann rakin niður á bjargbrúnina. Heiðnabergið gefur Vestfjarðarbjörgunum lítið eftir í góðu veðri. Í því austanverðu sést enn hluti Ræningastígsins, en stutt er síðan að sjórinn braut af neðsta hluta hans.

Selalda

Selalda – Strákar.

Áður var hægt að ganga þarna niður og undir bjargið. Líklegt er að stígnum hafi að nokkru verið haldið við þegar búið var ofan við bjargið svo hægt væri að komast niður og sækja reka, sem þar lendir, og önnur hlunnindi.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Annars dregur stígurinn nafn sitt af Tyrkjunum, sem eiga að hafa komið að bjarginu, haldið upp stíginn og komið að selsmatsstúlkum í Krýsuvíkurseli þar fyrir ofan. Smali sá til þeirra og flúðu heim að Krýsuvíkurkirkju þar sem séra Eiríkur í Vogsósum á að hafa verið við messugjörð. Hann afgreiddi síðan ræningjana er þá bar að garði og eiga þeir að hafa verið dysjaðir í Ræningjadys í Ræningjahól vestan við kirkjuna.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp að tóftum bæjarins Eyri, þær skoðaðar sem og fjárborgirnar tvær sunnan þeirra og loks haldið upp að tóftum Krýsuvíkursels austast í Selöldunni, áður en gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Fitjar

Fitjar.

Selalda
Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsinn blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur.
Selalda

Selalda – uppdráttur ÓSÁ.

Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni. Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er  að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóftirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess.
Skammt suðvestar við selið eru margar tóftir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775.

Eyri

Eyri.

Frá tóftunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Frábært veður.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík
Fyrst voru tóttir Litla-Nýjabæjar skoðaðar vestan við þjóðveginn og síðan haldið að bæjarhól Stóra-Nýjabæjar.
Í túnkantinum norðan við hólinn eru upptök Eystrilækjar, sem síðan liðast niður Krýsuvíkurheiðina og steypist fram af Krýsuvíkurbergi austan við vitann.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Norðar, utan í hæð sunnan Grænavatns eru tóttir. Talið er að þær geti verið leifar hjáleigu er nefndist Fell. Vestar eru tóttir elsta bæjar í Krýsuvík, að Kaldrana undanskildum, Gestsstaða. Þær eru undir hlíðinni skammt vestan Krýsuvíkurskóla.
Gengið var mógröfunum sunnan við vegamót þjóðvegarins og Ísólfsskálavegar og síðan yfir að Snorrakoti vestan Ísólfsskálavegar, en tóttir bæjarins eru vel greinilegar. Bæjargarðurinn snýr á móti suðri og sést enn vel. Suðvestar, inni á túninu undir Bæjarfelli, er Norðurkot, miklar tóttir og hefur sá bær einnig haft samfastan garð á móti suðri.

Krýsuvík

Lækur í Krýsuvík.

Handan vegarins, sunnan Vestarilækjar, er stórbýlið Lækur, miklar tóttir, garðar og falleg heimtröð. Gengið var frá bænum um hlaðna heimtröðina að Krýsuvíkurbænum, aftur yfir Vestarilæk, upp með tóttunum og að Krýsvíkurkirkju. Krýsvíkurbærinn, sá síðasti, stóð utan í og ofan við tóttirnar (sem munu vera af Hnausum). Hann var jafnaður við jörðu um 1960. Kirkjan, sögufræga, er opinn og öllum aðgengileg. Frá henni var gengið yfir veginn til suðurs og þá komið að Suðurkoti. Tóttir bæjarins er á og sunnan við grashólinn, sem hæst ber. Austan hans er Ræningadysin, sem sagt er frá í sögum af Eiríki á Vogsósum, auk tótta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Þegar komið var að vörslugarðinum, sem liggur á milli fellanna, Bæjarfells og Arnarfells, var beygt til austurs að Arnarfellsbænum. Tóttir bæjarins eru sunnan í grasigróinni hlíð Arnarfells. Þaðan sést til Arnarfellsréttar í suðaustri. Gengið var að henni og hún skoðuð. Um er að ræða hlaðna, stóra og myndarlega, rétt í lægð og er erfitt að koma auga á hana úr fjarlægð.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsin blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur. Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er talið að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. “Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóttirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess”. Stekkurinn er reyndar skammt austan við Seltúnið. Þar er og hringlaga nátthagi. Sjálft selið var í austanverðu túninu, en hefur nú verið jafnað við jörðu í þá fyrirhugaðrar ræktunar á svæðinu.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt suðvestar við selið eru margar tóttir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775. Frá tóttunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Það merkilega gerðist að þessu sinni, sem og svo oft áður, að þrátt fyrir rigningu allt um kring, lék veðrið við göngufólkið alla leiðina.

Selalda

Selalda – minjar – uppdráttur ÓSÁ.