Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: “Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.”

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: “Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.” Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

“En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: “Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.”

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: “Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn “Neðri-Fitjar” hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, “Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998“, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.” Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í “Fornleifaskráning í Grindavík, 2004” segir um minjar á Fitjum: “Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.” segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.”

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: “Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi”, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: “[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.” Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.” Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. “Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.”

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”, en vestan hans heitir bjargið “Krýsuvíkurberg”.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita “Skiptifoss” eða “”Skiftifoss”.