Færslur

Í skýrslu um “Skráningu stríðsminja á Suðurnesjum” eftir Eirík Hermannsson og Ragnheiði Traustadóttur frá árinu 2019 má t.d. lesa eftirfarandi um flugvöllinn á Garðaskagaflötum, miðunarstöðina á Fitjum og hverfið Howard, miðunar- eða ratsjárstöð á Langholti:

Garðaskagi

Garðaskagi – herforingjaráðskort.

“Markmið verkefnisins var skráning og mæling menningarminja sem tengjast veru varnarliðs Breta og Bandaríkjamanna á stríðsárunum á landsvæði sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis.
Hvergi á landinu voru umsvif erlendra herja meiri en á Suðurnesjum. Einn af fyrstu flugvöllum breska flughersins hér á landi var á Garðskagaflötum og þar höfðu Bretar aðstöðu um nokkurt skeið. Þar reistu Bretar bragga og loftnet eða miðunarstöð strax 1940 auk loftvarnarbirgja.

Garðskagi

Stríðsminjar.

Með komu Bandaríkjamanna 1941 jukust umsvifin enn og framkvæmdir urðu meiri og stórtækari. Eins og við er að búast er því mikill fjöldi herminja á Miðnesheiði þar sem varnarliðið hafði aðstöðu frá því á árum seinni heimsstyrjaldar.
Minjar af þessu tagi eru ekki sjálfkrafa verndaðar af þjóðminjalögum þar sem þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í lögunum er þó heimild til þess að friðlýsa yngri minjar, en um þau efni hefur hvorki skapast hefð né opinber stefna verið mörkuð. Það gefur engu að síður auga leið að ýmsar herminjar á Miðnesheiðinni eru þýðingarmikil heimild um hlutdeild Íslands í einhverjum mestu stríðsátökum mannkynssögunnar og kalda stríðinu sem á eftir kom.

Garðskagi

Hermenn í skotgröf.

Fullyrða má að varnarminjar frá stríðsárunum og fram til þessa tíma hafi alþjóðlegt minjagildi. Því er mikilvægt að fram fari nákvæm skráning á því sem er enn sjáanlegt og það mælt upp samkvæmt stöðlum Minjastofnunar Íslands um skráningu fornminja. Þær upplýsingar þarf að færa á kortagrunn deiliskipulags sveitarfélaganna og leggja mat á hvað af því er þess virði að varðveita og segja frá í máli og myndum. Ekki leikur nokkur vafi á að margir vegfarendur um t.d. Garðskaga hefðu gaman af að vita af þeirri sögu sem liggur að baki Garðskagaflata í flugsögu og varnarsögu landsins. Sú saga er flestum ókunn.
Margir núlifandi heimamenn eru fróðir um þessa staði og geta lýst þeirri starfsemi sem þarna fór fram, jafnvel þótt ummerkin séu orðin óljós. Mikilvægt er að skrá þeirra frásagnir og safna myndefni því sem til er frá stríðstímanum.

Stríðsminjar frá veru hersins

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Á varnarsvæði Bandaríkjamanna á Miðnesheiði munu hafa verið reistir alls 2081 skálar og skemmur af ýmsum gerðum og stóðu í þyrpingum og hverfum sem til öryggis var dreift umhverfis flugvellina, sem voru tveir, þ.e. Patterson og Meeks.
Í bók Friðþórs Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, er að finna greinagóðar upplýsingar um mannvirkin ásamt yfirlitskorti yfir hverfin og nöfn þeirra. Segir þar um nöfnin á hverfunum: „Nafngift herskálahverfanna var af ýmsum toga. Bandaríkjamenn kenndu hverfi sín gjarnan við sögufræga hermenn, leiðtoga, staði eða bækistöðvar eða nefndu þau til heiðurs látnum liðsmönnum Bandaríkjahers líkt og var um nafngift flugvallanna. Voru flest skálahverfin á flugvallarsvæðinu kennd við hermenn sem fórust er þýskur kafbátur sökkti herflutningaskipi USS Henry R. Mallory í skipalest djúpt suð-suðvestur af landinu 7. febrúar 1942.“ Þau svæði sem voru til sérstakrar skoðunar hjá skýrsluhöfundum eru öll á útnesinu utan þessa korts.

Garðskagaflatir – flugvöllur

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Breski herinn hernam Ísland þann 10. maí 1940 til að koma í veg fyrir mögulega innrás Þjóðverja. Herinn var að flestu leyti vanbúinn og efnalítill og þurfti að koma sér upp aðstöðu og þjónustu með litlum fyrirvara og sem minnstum tilkostnaði. Bretar hófu strax leit að heppilegu flugvallarstæðum víða um landið. Fengu þeir snemma augastað á Reykjavík, Kaldaðarnesi í Flóa, Odda á Rangárvöllum, á Snæfellsnesi og Garðskaga og ef til vill fleiri stöðum. Fáir staðir voru jafn ákjósanlegir fyrir bráðabirgðaflugvöll og Garðskaginn. Þarna var slétt og ræktað land, fyrrum kornakrar um aldir.

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Jarðvegur á Garðskagaflötum er harður, þéttur og sendinn þannig að vatn sest sjaldan lengi á sléttlendið. Bretar sömdu við bændur á þeim fimm bæjum sem höfðu notað þetta svæði sem tún og beitiland en það voru Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Ásgarður, Hólabrekka og Útskálar.

Flugvallargerð á Garðskaga var ákveðin og var hafist handa snemma um sumarið 1940, og flugvöllurinn tekinn í notkun sumarið 1941.

Garðaskagi

Flugvallastæðið á Garðskagaflötum.

Þetta var fyrsti flugvöllur á Reykjanesskaganum og líklega einn fyrsti flugvöllur sem Bretar gátu nýtt sér hér á landi. Túnum bænda á Garðskaga var með auðveldum hætti breytt í 1050 m langa flugbraut sem var 90 m breið og lá frá Garðskagavegi suður undir Hafurbjarnarstaði. Flötin var sléttuð og tyrfð að nýju eftir því sem þurfti og sáu heimamenn um verkið. Þetta var fyrsta reynsla þeirra af Bretavinnu og áttu margir þeirra eftir að helga setuliðinu störf sín næstu áratugina. Notaðir voru þeir vörubílar sem Garðmenn og Sandgerðingar áttu á þeim tíma auk hestvagna. Verkamennirnir sjálfir lögðu til handverkfæri s.s. skóflur, haka og sleggjur.

Garðskagi

Grunnur undan bragga.

Þegar flugvallarstæðið hafði verið sléttað voru ræmur ristar í torfið svo skeljasandurinn kæmi vel í ljós við báða enda brautarinnar og með langhliðunum. Þannig var flugvöllurinn vel sýnilegur úr lofti.
Við bæinn Hlíð í Garði var hverfið Útskálar en það var kallað Hlíðarkampur af heimamönnum. Bærinn Hlíð stóð þar sem nú eru gatnamót Skagabrautar og gamla Sandgerðisveg. Bærinn stendur ekki lengur en bæjarhóllinn er við innkeyrsluna að Hótel Lighthouse Inn, sem hóf rekstur í mars 2017.

Garðskagi

Jarðhýsi – neðanjarðarbyrgi.

Nokkrir hermenn höfðu aðsetur í risinu á húsinu. Þar var einnig nokkur braggabyggð í námunda við íbúðarhúsið, en megin verkefni herflokksins sem þar dvaldi mun hafa verið eftirlit með kafbátaferðum. Þar voru reistir 14 braggar. Nú er þar aðeins ein braggatóft vel sjáanleg ofan við Sandgerðisveg og eitt steinsteypt jarðhýsi sem hugsanlega hefur verið skotfærageymsla undir varðstöð sem stóð á þessum slóðum. Jarðhýsið er um 3,4 m x 2,5 m. Gengið er niður í það sunnan megin.

Garðskagi

Skotbyrgi á túninu á Hlíð.

Í braggatóftinni henni er skilti sem stendur á Herkampur og er tún allt í kring. Liggur malarvegur framhjá í átt að Sandgerði. Grunnurinn er 25 x 10 m og snýr austur-vestur. Utanum hann er hleðsla og eru veggir um það bil 1,2 m á breidd og 0,4 á hæð. Þeir eru grónir en greinilega sést grjót í hleðslu. Innan hleðslunnar má sjá ummerki um steypuleifar.

Tvö eða þrjú hlaðin skotbyrgi fyrir vélbyssu voru á túninu ofan við gamla flugvöllinn. Ummerki um eitt slíkt byrgi eru vel sýnileg á túninu vestan við hótelið. Byrgið er hlaðið utan í gamlan túngarð.

Durham

Merki Durham Light Infantry liðsveitarinnar.

Í þessum vélbyssuvígjum var komið fyrir Bren-byssum og mun fyrsta sveitin sem þær mannaði hafa verið breskir hermenn úr Durham Light Infantry og Tyneside Scottish svokölluð „The Black Watch“ sem höfðu aðsetur á Skaganum. Síðla árs 1941 tóku Ameríkanar við vellinum. Þeir notuðu Browning vélbyssur samkvæmt því sem bók Friðþórs Eydal greinir frá. Braggi var einnig reistur við suðurendann í landi Kolbeinsstaða. Nú er ekki nein auðsjáanleg ummerki um þann bragga. Miðað við umsvif hersins í landi Hlíðar þá eru ummerkin hans orðin lítill en það sem er ennþá varðveitt eru nokkuð heillegar minjar, braggagrunnur, skotgröf og neðanjarðarbyrgi.

Garðskagi

Garðskagi 2022.

Aðgengi að sjáanlegum minjum er sæmilegt enda eru þær skammt frá nýbyggðu hóteli en helst þyrfti að færa til girðingu í samráði við landeiganda þannig að minjarnar yrðu enn aðgengilegri sem og merkja minjarnar.
Skagavöllur var í reynd aldrei notaður neitt að ráði en þjónaði hlutverki neyðarflugvallar. Upplýsingaskilti mætti setja niður annað hvort við hótelið eða við enda flugbrautarinnar nálægt bílastæðinu við sjóvarnargarðinn.

Miðunarstöðin á Fitjum

Fitjar

Fitjar – bragga- og húsgrunnar.

Breski herinn reisti miðunarstöð á Fitjum í október 1941 og kom þar upp aðstöðu. Þar reistu Bretar 13 bragga og 5 steinhús. Þá áttu Bandaríkjamenn tvo bragga að Fitjum í stríðslok. Bærinn var farinn í eyði og stóðu íbúðarhúsin enn uppi. Það var þá í eigu Ingibjörns Þ. Jónssonar bónda á Efri-Flankastöðum sem leigði það Bretunum. Þarna var einnig loftnet sett upp, um 20 m stálmöstur. Stöðin var allstór og er áætlað að þarna hafi verið um 100 hermenn þegar mest var, allt til ársins 1945. Stöðin var lögð niður árið1946 og keypti Ingibjörn bóndi á Flankastöðum þá 13 bragga og 5 lítil steinhús af Sölunefnd varnarliðseigna.

Fitjar

Fitjar 2023.

Miðunarstöðvarnar hér og á Langholti, áttu að fylgjast aðallega með skipaumferð en einnig auðvelda staðsetningu á kafbátum og flugumferð en árangur mun ekki hafa verið mikill.

Greinileg ummerki eru um braggabyggðina rétt suðaustan við gamla Sandgerðisveginn, skammt frá gamla bæjarstæði Fitja. Þarna eru enn sýnilegir allmargir grunnar, hleðslur, veggjabrot og sökklar undan möstrum.

Fitjar

Fitjar – húsgrunnur.

Vel má sjá að braggarnir hafa ekki allir verið reistir á sama tíma. Þannig eru þeir eldri með hlöðnum grunni og hafa líklega verið með timburgólfi sem stóð á nokkrum steyptum staurum eða sökklum. Nýrri braggarnir hafa verið með steyptu gólfi og eru þeir grunnar sýnilegri. Einnig var heilleg múrsteinshlaðin kamína eða arinn sem stendur ennþá vel sýnileg.

Þetta hverfi er ágætlega varðveitt og minjarnar vel sýnilegar. Ástæða er til að hreinsa burt lauslegt járnarusl og víra og setja upp skilti með upplýsingum. Aðgengi er gott.

Hverfið Howard á Langholti

Langholt

Ratsjárstöð á Langholti.

Bretar og Bandaríkjamenn settu upp miðunar- eða ratsjárstöð á Langholti við Litla-Hólm í Leiru. Sautján braggar munu hafa staðið undir Langholtinu austanverðu og ratsjárloftnet uppi á holtinu. Hverfið hét eftir fyrrum yfirmanni merkjasveita Bandaríkjahers í Tennesseeríki í bandaríska þrælastríðinu. Steinsteyptir sökklar og steypt plata fyrir mastur loftnets á norðanverðu holtinu eru enn vel sýnilegir en lítil ummerki eru um braggabyggðina. Talsvert umrót hefur orðið á svæðinu austan holtsins vegna starfsemi fiskvinnslufyrirtækja sem þarna hafa haft fiskþurrkunartrönur um áraraðir. Grunnar undan húsi og einum bragga sem voru nokkuð greinilegir voru mældir upp. Grunnurinn var með steinsteypu og bragginn var 21 x 8 m. Síðan mátti sjá ummerki um sennilega þrjá bragga en þessar minjar voru mjög ógreinilegar sem og steinsteyptan vegg.

Camp Howard

Undirstöður undir fjarskiptamöstur við Camp Howard.

Steinsteyptir sökklar og steypubrot er að finna nyrst í bland við rusl frá seinni tíma. Þá má greina ummerki um hlaðna gröf úr torfi og grjóti utan í og uppi hól vestan við Langholtið. Gröfin virðist hafa vísað inn að heiðinni. Líklegt má telja að þetta sé skotbyrgi frá hernum en þó ekki óhugsandi fyrir veiðimenn.
Fremur ógreiðfær vegarslóði liggur að Langholtinu að fiskþurrkunartrönum sem þarna eru og upp í grjótnámuna. Með dálitlum ofaníburði mætti gera hann færan flestum bílum og setja upp upplýsingaskilti við vegarslóðann.”

Heimildir:
-Magnús Gíslason, „Flugvöllur hans hátignar. Af setuliðinu í Garði og gerð flugvallar á Garðskaga 1940-1944“, Árbók Suðurnesja , VI., árgangur, Sögufélag Suðurnesja, Keflavík 1993, bls. 98.
-Skráning stríðsminja á Suðurnesjum, Eiríkur Hermannsson og Ragnheiður Traustadóttir – 2019.
-W.H. Harrisson, „ Gaman að hitta gamla vini eftir hálfa öld“, Árbók Suðurnesja, 1993, bls. 88.
-Friðþór Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, bls. 26-27.
-Friðþór Eydal, Frá heimsstyrjöld til herverndar, bls. 77.
-Skráning stríðsminja á Suðurnesjum, Eiríkur Hermannsson og Ragnheiður Traustadóttir – 2019.

Garðskagi

Hlíðarkampur við Hlíð á Garðskaga.

Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: “Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.”

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: “Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.” Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

“En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: “Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.”

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: “Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn “Neðri-Fitjar” hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, “Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998“, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.” Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í “Fornleifaskráning í Grindavík, 2004” segir um minjar á Fitjum: “Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.” segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.”

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: “Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi”, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: “[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.” Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.” Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. “Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.”

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”, en vestan hans heitir bjargið “Krýsuvíkurberg”.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita “Skiptifoss” eða “”Skiftifoss”.

Krýsuvíkurheiði

Við vegamót Ísólfsskálavegar og Selölduvegar slógust nokkrir áhugasamir Grindvíkingar í hópinn.

Eyri

Eyri.

Gengið var niður að Selöldu. Við slóðann mótar fyrir undirstöðum bragga. Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þar á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.

Selalda

Steinbrú ofan Fitja.

Staðnæmst var við gamla steinbrú yfir Vestari-læk, við tóttir bæjarins Fitja og við fallega hlaðið fjárhús undir Strákum. Þá var gengið niður að Hælsvík og rifjuð upp sagan af komu Tyrkjanna upp Ræningjastíg. Í framhaldi af því var gengið í slóð Tyrkjanna upp að Krýsuvíkurseli þar sem þeir áttu að hafa ráðist að selsstúlkum. Smali var þess var og hljóp upp að Krýsuvíkurbæjunum, með Tyrkina á hælunum. Séra Eiríkur á Vogsósum var þá við messu í kirkjunni. Hann lagði þegar á Tyrkina að þeir myndu snúast gegn sjálfum sér, sem og þeir gerðu. Eru þeir dysjaður í Ræningjadys á Ræningjahól, sem er við Suðurkot. Litið var á tvær fjárborgir og tóttir bæjarsins Eyri áður en komi var í selið. Selstóttirnar, sem eru þar skammt austar, eru greinilega mjög gamlar.

Selalda

Fitjar.

Eftir skoðunina undir Selöldu var haldið að Trygghólum, sem eru þarna nokkru austar. Frá þeim er víðsýnt um Krýsuvíkurheiðina. Sést þaðan vel yfir Grindavíkurlandið austan Hafnarfjarðarlandsins ofan við Hælsvík. Sást meira að segja alla leið til hellamanna vera að snuðra í kringum Litlu-Eldborg í fjarska. Samviskan hefur nagað Grindvíkinga eftir langa áþján landsins og hafa þeir verið að reyna að græða upp landið að hluta fyrir Hafnfirðingana. Ef einhver töggur væri í Grindvíkingum myndu þeir ná þessum hluta Krýsuvíkurlandsins til sín aftur með hurðum og gluggum, enda Hafnfirðingar lítt hafa kunnað að meta þetta landssvæði hingað til. En þetta var nú smá útidúr.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Frá Trygghólum var gengið í átt að Arnarfelli og komið við í Arnarfellsréttinni, heillegri hlaðinni fjárrétt í lægð nokkru sunnan við fellið. Þetta var nú smá útidúr.
Vegna þess hversu veðrið var gott var ákveðið að kíkja á Ögmundardys við Ögmundarstíg og Smíðahellinn í Katlahrauni áður en göngunni lyki. Í leiðinni var Lestargatan vestari (Skeiðargatan) gengin, litið á hlaðnar refagildrur og Sögunarkórinn.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Selalda

Farið var að Selöldu. Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Strákar

Fjárskjól undir Strák.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Fitjar fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Ofar og litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar, nú nánast jarðlægar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var í Sogagíg um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni, Kringlymýri, Selgili og í. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir og gróinn garður. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur eða útihús frá Eyri og au þess hliðsett hús. Allt er þetta búsetulandslag einstaklega áhugavert, ekki bara vegna þess að saga þess hefur ekki verið skráð, heldur má úr því lesa nýtingu svæðisins í gegnum aldrinar. Bæði eðlilegt og sjálfsagt væri að rannsaka svæðið sem heild.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir fjárhúss og sauðakofa og vestan þeirra er enn heilleg og falleg steinbrú yfir Vestarilæk, sem ástæða er að reyna að varðveita.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp ag hraunlögum, grágrýti, en gjalllög ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (vikri og ösku) og hraunlögum. Strákar er ung móbergsmyndun vestan í Selöldu. Bergið er um 45-45 h hátt. Hugsanlega eru hraunin komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Fitjar-221

Tóftir Fitja.

Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.
Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt. Ekki er því ólíklegt að í Krýsuvíkurselinu megi finna nytjastað frá fyrri tíð.

Fitjar

Fitjar – stekkur.

Neðan og austan við Fitjar má m.a. sjá leifar af a.k. tveimur hlöðnum refagildrum. Skammt ofan við þær, á eldri lækjarfarvegi Vestari-lækjar eru minjar stekks, gerðis og hugsanlegar kvíar.
Gengið var um Fitjar, upp að Strákum og yfir að Eyri þar sem minjarnar voru skoðaðar. Þá var haldið út á Heiðnaberg, en svo skemmtilega vildi til að björgunarsveitin Þorbjörn var þá einmitt með æfingu á og undir bjarginu. Fylgst var með æfingunni áður en gengið var til baka.
Frábært veður – sól og lygna.

Eyri

Tóftir Eyrar undir Selöldu.

 

Selalda

Gengið var frá Krýsuvíkurréttinni eftir vegslóðanum niður að Selöldu. Um er að ræða greiðfæra og ákjósanlega leið fyrir alla aldurshópa. Framundan horfið Selaldan við, móbergshryggur sem vatn og vindar hafa sorfið til að ofanverðu og myndað þar alls kyns fígúrur. Rjúpa situr efst á steini, steinrunnin, fálki steypir sér niður og tröll horfa hreyfingarlaus á.

Selalda

Selalda – berggangur.

Vestarilækur rennur þarna niður með vestanverðri Selöldu, liðast um tún bæjarins Fitja og steypist síðan fram af Krýsuvíkurbergi vestan Heiðnabergs. Vestan við túnkantinn, yfir lækinn, er gömul hlaðin brú. Garðar eru með túnunum að norðanverðu og tóftir bæjarins eru bæði miklar og heillagar. Saga Fitja er rakin í annarri FERLIRslýsingu.
Gengið var upp að Strákum, stórum klettum á vestanverðri Selöldu. Undir þeim er fallega hlaðið og heillegt fjárhús. Frá því er ágætt útsýni eftir Selöldunni til austurs og neðanmóa. Haldið var á ný niður á slóðann og hann rakin niður á bjargbrúnina. Heiðnabergið gefur Vestfjarðarbjörgunum lítið eftir í góðu veðri. Í því austanverðu sést enn hluti Ræningastígsins, en stutt er síðan að sjórinn braut af neðsta hluta hans.

Selalda

Selalda – Strákar.

Áður var hægt að ganga þarna niður og undir bjargið. Líklegt er að stígnum hafi að nokkru verið haldið við þegar búið var ofan við bjargið svo hægt væri að komast niður og sækja reka, sem þar lendir, og önnur hlunnindi.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Annars dregur stígurinn nafn sitt af Tyrkjunum, sem eiga að hafa komið að bjarginu, haldið upp stíginn og komið að selsmatsstúlkum í Krýsuvíkurseli þar fyrir ofan. Smali sá til þeirra og flúðu heim að Krýsuvíkurkirkju þar sem séra Eiríkur í Vogsósum á að hafa verið við messugjörð. Hann afgreiddi síðan ræningjana er þá bar að garði og eiga þeir að hafa verið dysjaðir í Ræningjadys í Ræningjahól vestan við kirkjuna.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp að tóftum bæjarins Eyri, þær skoðaðar sem og fjárborgirnar tvær sunnan þeirra og loks haldið upp að tóftum Krýsuvíkursels austast í Selöldunni, áður en gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Fitjar

Fitjar.

Vestari-Lækur

Í Krýsuvík eru tvær lækir; Vestari-Lækur (Vesturlækur/Krýsuvíkurlækur vestri/Fitjalækur) og Eystri-Lækur (Nýjabæjarlækur/Krýsuvíkurlækur/Eystrilækur). Sá fyrrnefndi á uppruna sinn í mýrinni sunnan við Gestsstaðavatn og sá síðarnefndi í Dýjakrókum ofan bæjarstæðis Stóra-Nýjabæjar. Krýsuvíkurtorfan hefur stundum verið nefnd “byggðin milli lækja”, en það getur ekki verið alls kostar rétt því sjálfur Krýsuvíkurbærinn, auk Suðurbæjar, Norðurbæjar og Snorrakots, eru vestan Vestari-Lækjar.

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn í “eðlilegu” ástandi.

Báðir lækirnir steypast fram af Krýsuvíkurbergi, sá eystri austan Bergsenda eystri og sá vestari neðan Fitja undir Selöldu. Vestari-Lækur hefur náð að grafa sig niður í móbergið áður en hann fellur niður í fjöruna, en Eystri-Lækur hefur þurft að sætta sig við ýmist að falla ofan af skarpri hárri hraunbrúninni eða falla niður í sprungur ofan brúnarinnar, allt eftir því hvernig hún hefur þróast af sjóbarningnum neðanverðum eða áhrifum jarðskjálfta hverju sinni.

Eystri fossinn hafði ekki nafn fyrrum, en í seinni tíð hafa einstaka ferðamenn reynt að nefna hann “Krýsuvíkurfoss”, sem varla getur talist frumlegt örnefni. Lækurinn ofan bjargbrúnarinnar var áður einnig nefndur “Lækur á Bergi”. Vestari fossinn heitir Mígandi í örnefnaskrám.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um lækina: “Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn í víkina [Hælsvík] vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.
Vestur frá Litlahrauni [austan Bergsenda eystri] tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. Um hana rennur Eystri-Lækur og rennur í sjó á austanverðu berginu.”

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn þegar hann fellur niður um ofanverðar sprungumyndanir.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) segir m.a. um lækina og fossana í Krýsuvík: “Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum. Þegar nokkuð var komið frá Nýjabæjartúni, nefndist Nýjabæjarlækur, Krýsuvíkurlækur eystri eða Eystrilækur. Nokkuð niður með honum er Austurlækjarvað, liggur þar gata yfir um lítið holt er nefnist Reiðholt, en gatan lá heim milli garða heim til Krýsuvíkurbæjar. Svæðið sunnan Vesturlækjar og Austurlækjar mætti með réttu nefnast Milli lækja.

Vestari-Lækur

Vestari-Lækur, ónefndur foss ofan Míganda. Fallegur berggangur í rauðamölskriðunni.

Hér vestur undan fellinu [Bæjarfelli] er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði. Takmarkast að norðan af Hálsinum, en að sunnan af Krýsuvíkurlæk vestri eða Vesturlæk. Vesturlækur á uppruna sinn í mýrinni neðan undir Gestsstaðavatni. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist þá Fitjalækur.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Þegar haldið var vestur Bergið þá varð fyrst fyrir í sjónum Selasker og ofan við það Selalón. Vestar var komið að allmiklu viki eða vík, Keflavík. Þar var Keflavíkurkampur stórgrýttur, og þar voru Keflavíkurrekar. Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hhér fellur Mígandi fram af berginu í skoruna nær.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er er undir Hei[ð]nabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri.”

Mígandagróf

Mígandagróf.

Nafngiftin “Mígandi” er einnig til á litlum fossi í Hvalfirði, háum fossi norður af Dalvík, myndarlegum fossi í Vatnsdal Austur-Húnavatnssýslu (einnig nefndur Hjallafoss), á fossi austur af Bjarnanúp á Vestfjörðum og auk þess má finna örnefnið Mígandagróf ofan Lönguhlíða á Reykjanesskaganum.

Sjá myndband um austanvert Krýsuvíkurberg HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn nafnlausi á góðum degi.

Selalda

Eftirfarandi fréttir tveggja dagblaða um væntanlegan urðunarstað sorps í Selöldu í Krýsuvík er ágætt dæmi um fávitahátt þeirra er hlut áttu að máli – og hversu stutt er á milli glapræðis og skynsemi. Selalda er eitt af djásnum Reykjanesskagans, bæði hvað jarð- og menningarminjar varðar.

Í Dagblaðiðinu Vísi árið 1987 segir eftirfarandi um fyrirhugaða sorpurðunarstað í Selöldu:

Nýir sorphaugar í Selöldu við Krýsuvík?

Selalda - sorp“Ruslið af höfuðborgarsvæðinu á Íslandi er heimsmet. Um 110.000 tonn falla til af því á ári. Eftir þrjú ár verður sorpstæðið við Gufunes yfirfullt. Líklegast er, eftir miklar athuganir, að flytja verði höfuðborgarruslið til urðunar í Selöldu, út við sjó sunnan Krýsuvíkur. Það er 40 kílómetra leið í staðinn fyrir þá fjóra kílómetra sem nú þarf að aka frá Elliðaárbrúnum.

Sorpvinnsla óarðbær
Þetta er niðurstaða nefndar frá átta sveitarfélögum á þessu svæði. Hún lét kanna eina fimm möguleika á vinnslu sorpsins til orkuframleiðslu og síðan leita uppi hugsanlega urðunarstæði. Á tímabili leit ekki illa út að vinna sorpið í köggla til varmaframleiðslu í verksmiðjum, til dæmis fiskimjölsverksmiðjum. Þetta féll um sjálft sig þegar olían snarlækkaði í verði.
Aðrir orkuvinnslukostir reyndust of dýrir eða að ekki fannst markaður fyrir orkuna. Þá var urðunarleiðin eftir. Augu nefndarmanna beindust að 74 hektera, fjögurra metra djúpri mýri á Álfsnesi í Kjalarneshreppi og 120 hektara, tveggja metra djúpri mýri í Saltvík í sama hreppi. En hreppsnefndin og hreppsbúar hafa lagst gegn þessari notkun jarðanna og þar við situr að svo komnu.
Til þessara jarða eru 15-20 kílómetrar frá Elliðaárbrúnum. Enginn sérstakur stofnkostnaður er áætlaður vegna urðunar á þessum svæðum. Rekstrarkostnaður vegna sorpflutninga og -urðunar í Saltvík er metinn um 115 milljónir króna á ári eða 1145 krónur á sorptonnið.

Selalda líklegust

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri.

Næsti kostur til urðunar, að mati nefndarinnar, er eldstöðin Selalda í landi Krýsuvíkur, nær sjónum. Þar er móberg í yfirborðinu. Þangað eru 40 kílómetrar og rekstrarkostnaður vegna sorpflutninga þangað og urðunar er áætlaður 137 milljónir króna á ári eða 1.365 krónur á tonnið. Þar að auki þarf að endurbæta Krýsuvíkurveginn eða leggja nýjan veg fyrir 75-125 milljónir króna. Veginn þarf raunar að bæta hvort sem er.
Ókannað er að hve miklu leyti þessi kostnaður félli á sveitarfélögin annars vegar og ríkið hins vegar. Landið er í eigu Hafnarfjarðar.
Um leið og urðun á sorpi af höfuðborgarsvæðinu færist fjær því telur nefndin að koma verði fyrir móttöku á jarðvegsefni, svo sem úr húsgrunnum, í hverju sveitarfélagi. Eins verði að koma á móttókuhusum í byggðinni þar sem sorpinu verði safnað dags daglega og það pressað til flutnings á sérstökum farartækjum á urðunarstaðinn. Aðalmóttökustöð myndi kosta um 50 milljónir króna en útibú frá henni 10-20 milljónir.

Sorphlutafélag
Sorpnefndin leggur loks til að aukarusl frá heimilum og minni fyrirtækjum eigi griðastaði í gámum sem nú þegar er farið að koma fyrir hingað og þangað. Hún fjallar um gjaldtöku vegna sorpeyðingarinnar og undirstrikar mikilvægi þess að hún verði í sem mestu samræmi milli sveitarfélaganna.
Upp úr þessu nefndarstarfi á nú að stofna hlutafélag, Sorpeyðingu höfuðborgarsvæðisins hf. Það er næsta skrefið í málinu. Fyrsta verkefni þess verður að velja sorpeyðingarúrræði, líklegast urðun í Selöldu með öllu tilheyrandi.” – HERB

Í Þjóðviljanum árið 1988 segir um sama efni:

Sorpið stefnir í Selöldu

Selalda - sorp
“Gufunes tekur við í tvö ár enn. Tvœr móttökustöðvar reistar. Ingi U. Magnússon; Óvíst hvað verður gert við bílhrœ og annað brotajárn í framtíðinni.
Allt bentir nú til þess að að sorp frá höfuðborgarsvæðinu verði í framtíðinni urðað í Selöldu við Krýsuvík. En sá staður er einn af þremur sem stjórn byggðarsamlagsins Sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins hafði í huga sem framtíðar sorphauga þegar hætt yrði að taka móti sorpi í Gufunesi.
– Sorphaugarnir í Gufunesi taka ekki við nema í tvö ár í viðbót svo það er mjög þarft að fara að huga að þessum málum. Fari svo að Selalda verið valin sem framtíðar sorphaugar, eftir að Kjalnesingar höfnuðu beiðni félagsins um að fá að urða sorp í Álfsnesi, verður að koma upp móttökustöðum þar sem sorpið verður bögglað og flutt þannig í Selöldu, sagði Ingi Ú. Magnússon en hann á sæti í stjórn félagsins.
Ingi sagði að ljóst væri að hér þyrfti að koma upp aðstöðu til að pressa bílhræ og annað brotajárn, þannig að hægt verið að senda það úr landi til endurvinnslu. – Við leituðum eftir samstarfi við fyrirtækið Sindra sem fengist hefur við svona lagað áður, við vorum jafnvel tilbúnir að borga með þessum rekstri. Þeir gerðu okkur ákveðið tilboð sem við höfnuðum. Íslenska stálfélagið hefur líka verið inni í myndinni, sagði Ingi, en bætti við að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um hvað ætti að gera við brotajárnið.
Fari svo að Selalda verði valin verða þeir sorphaugar ekki opnir almenningi eins og nú er heldur verða reistar tvær móttökustöðvar, önnur væntanlega á lóð gömlu sorpeyðingarstöðvarinnar í Ártúnshöfða. Þar verður sorpið pressað og síðan ekið með það út í Selöldu við Krýsuvík.” -sg

Sem betur fer varð framangreind tillaga ekki að veruleika – landinu og afkomendum þess til heilla.

Heimildir:
-Dagblaðið Vísir-DV, 108. tbl. 15.05.1987, Nýir sorphaugar í Selöldu við Krýsuvík?, bls. 4.
-Þjóðviljinn, 147. tbl. 01.07.1988, Sorpið stefni í Selöldu, bls. 2.

Selalda

Selalda – berggangar.