Setberg

Myndin hér að neðan er af Setbergsbænum við Hafnarfjörð árið 1772. Þar bjó þá Guðmundur Runólfsson, sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Setbergsbærinn

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Þegar konungur bauð kálgarðagerð í landinu, var svo mælt fyrir, að sýslumenn skyldu ganga á undan öðrum með góðu eftirdæmi. Guðmundur Runólfsson gerði það, en svo dýrseldir þóttu honum kaupmenn, er hann var látinn borga spesíudal fyrir níu kvint af kálfræi, að hann kærði það fyrir rentukammerinu. Eftir það lækkaði verðið, og sýslumaður lét bændum í té fræ án endurgjalds. Komust þá upp 84 kálgarðar í Kjalarnesþingi. En nú hefur sýslumaður þá sögu að segja, að flestir hafi hætt við kálgarðana “eftir að okkar góðu verndarar við verslunina þótti það við hæfi að hræða fólkið frá slíku handafla með því að færa okkur fræ, sem ekki dugar, er ég hef mátt kaupa af þeim í tvö ár. Af því hefur ekki sprottið upp úr jörðinni ein einasta planta, sproti eða blað nokkurs staðar, hvorki í Gullbringu-, Kjósar- né Borgarfjarðarsýslu. – Þess konar fræ kom í Hólminn í tvö ár í röð, og annað árið jafngott í Hafnarfjörð”, segir sýslumaður í greinargerð um frækaup sín.

-Öldin okkar 1771

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.