Færslur

Heiðmörk

Í Morgunblaðinu 1997 fjallar Andrés Arnalds um “Endurheimt landkosta á Reykjanesskaga“:

“Það dylst fáum sem fara um Reykjanesskaga að þar hefur mikil landhnignun átt sér stað í aldanna rás. Í stað grænna grunda og vöxtulegs birkikjarrs blasa víða við gróðurtötrar ogjafnvel auðnir, skrifar Andrés Arnalds. Afieiðingamar em víðtækar, en koma e.t.v. hvað skýrast fram í skjólleysi og auknum skafrenningi. Skaginn, sem er heimkynni mikils hluta þjóðarinnar, er ekki nærri því eins byggilegur og hann ætti að vera.

Horfnir landkostir

Andrés Arnalds

Andrés Arnalds.

Þrátt fyrir berangurslega ásýnd landsins eru raunveruleg gróðurskilyrði góð víðasthvar á Reykjanesskaga. Til forna þótti þar mikil veðursæld, samanber þá frásögn Sturlungu að á Reykjanesi hafi aldrei orðið „ófrjóvgir akrar“.
Heimildum um gróðurfar á Reykjanesskaga ber öllum saman um að nær allar þær auðnir, melar og jarðvegssár, sem svo víða blasa við, hafi fyrrum verið grónar. Ástæðurnar fyrir því hve ástand þessa landssvæðis er slæmt eru margar. Mestu munar þó um aldalanga rányrkju liðinna kynslóða, toll sem landið galt við að framfleyta þjóðinni á tímum fátæktar og vanþekkingar á takmörkunum landsins. Einnig hafa hraun lagt undir sig stór svæði á sögulegum tíma.
Lítill vafi leikur á því að meginhluti Reykjanesskagans, að undanskildum yngstu hraunum og ystu annnesjum, hefur verið vaxinn skógi fyrrum, og lengi fram eftir öldum. Það sýna annars vegar kjarrleifar þær sem enn standa eftir, en hins vegar má ráða hið sama af vitnisburðum skráðra heimilda.
Reykjanesskagi - GeitahlíðÍ Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að um 1700 voru enn miklir skógar á Reykjanesskaga. Þá áttu 8 jarðir úr Grindavík og 23 jarðir úr Rosmhvalaneshreppi kolagerðarskóg í Suðurnesjaalmenningum. Í Vatnsleysustrandarhreppi áttu 20 jarðir og í Álftaneshreppi 22 jarðir kolagerðarskóg í almenningum. Á sumum jörðum, t.d. Krýsuvík, var þá enn nokkurt kjarr í heimalöndum en er að eyðast. Athyglisvert er að ekki er getið um að skógur til kolagerðar í almenningum fari þverrandi. Það undirstrikar stærð þeirra á þessum tíma, því yfirleitt var reynt að gera sem minnst úr öllum hlunnindum í þessari úttekt. Lyngrif segir líka sína sögu. Það er að vísu talið til hlunninda á fjölda jarða, en er þverrandi í heimalöndum og langsótt fyrir marga.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Mótekja var víða lítil á skaganum. Lyng og hrís var eftirsótt til eldiviðar og af mörgum býlum varð að gjalda hríshesta, einn eða fleiri, til Bessastaða.
Fjöruþang var helsta eldsneytið á Vatnsleysuströndinni og víðar, en „þurrabúðarhyskið” átti lítinn eða engan rétt á þangtöku. Því urðu margir að leita í úthagann eftir eldivið. Þegar búið var að eyða birkinu, var einirinn og lyngið rifið.
Sauðfé og annar búsmali átti að sjálfsögðu sinn þátt í eyðingunni og hindraði eðlilega endurnýjun gróðursins með því að bíta nýgræðinginn jafnharðan og hann óx.
Rányrkjan hélt áfram allt fram á þessa öld. Ástand gróðurs og jarðvegs er víða slæmt, eða jafnvel mjög slæmt ef tekið er tillit til gróðurfarslegra skilyrða. Breytir þar litlu þótt ástand lands hafi nokkuð batnað á síðari árum, m.a. vegna fjárfækkunar, ef litið er á skagann í heild.

Spyrnt við fótum

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Nokkuð er nú umliðið síðan augu manna tóku að opnast fyrir því að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til að sporna gegn frekari eyðingu.
Haustið 1952 tóku Árni G. Eylands og Sæmundur Friðriksson saman einkar fróðlega „greinargerð um athugun á að friða Reykjanesskaga ásamt Reykjavík, Hafnarfirði og nágrenni bæjanna fyrir ágangi búfjár“, en sauðfé á þessu svæði hafði verið fargað vegna mæðiveiki haustið 1951. Úr þessum áformum varð ekki að sinni, sem er önnur saga, en þar birtist m.a. úttekt á gróðri á Reykjaneskaga, sem Steindór Steindórsson samdi.
í lok úttektar sinnar víkur Steindór að endurheimt gróðurs á Reykjanesskaga: „En eru þá hraunbreiður þessar dæmdar til eilífðrar auðnar og að vera eitt ófrjósamasta og ömurlegasta svæði á öllu landinu? Naumast mun svo vera. Þau hafa einu sinni verið skógi klædd, og það geta þau aftur orðið, ef mannshöndin leggur þeim lið, og tekur nú til að græða það sem áður var eytt.“

Gömlu-Hafnir

Landgræðslugarðar við Gömlu-Hafnir.

Fyrstu landgræðsluframkvæmdir á Reykjanesskaga hófust 1938 með uppsetningu 20 km girðingar og stöðvun sandfoks vestast á skaganum. Ýmsir fleiri áfangasigrar hafa náðst í verndun landkosta á liðnum áratugum. Árin 1977-1978 var girt þvert yfir Reykjanesskagann og var þá allt land vestan Grindavíkurvegar, um 35.000 hektarar, friðað fyrir beit. Síðan hefur áburði og fræi verið dreift víða á því svæði. Ýmsar aðrar girðingar hafa verið settar upp, m.a. til að friða höfuðborgarsvæðið, og auðvelt að skoða árangur friðunar við fjölbreyttar aðstæður, bæði með og án uppgræðslu. Mikil reynsla hefur aflast sem unnt er að byggja á enn stærri áfanga í endurheimt landkosta á Reykjanesskaga.

Vatnshlíð

Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn 1960 – hús Hákons Bjarnasonar.

Á miklum hluta skagans mun gróður taka framförum ef hann fær algjöran frið fyrir búfjárbeit um nokkurn tíma. Fé er orðið fátt og mörg sveitarfélaganna hafa nú þegar bannað lausagöngu sauðfjár, en ekki öll og því fer féð víða um. Komin er góð reynsla af beitarhólfum, þannig að auðvelt á að vera að koma til móts við þá sem vilja stunda einhvern sauðfjárbúskap þótt tekið sé með öllu fyrir lausagöngu. Slík friðun er langódýrasta og mikilvirkasta leiðin til að bæta ástand gróðurs og jarðvegs sé til lengri tíma er litið. Jafnframt væri þá unnt að fjarlæga mikið af girðingum, sem margar hveijar eru komnar til ára sinna og þurfa mikið viðhald.

Hvaleyrarvatn

Vatnshlíðin 2022.

Þar sem uppblásturinn hefur hvað harðast unnið sín spellvirki mun friðunin ein ekki duga. Nakið land grær yfirleitt hægt án aðstoðar. Fyrir því eru ýmsar ástæður, en veigamestar eru e.t.v. skortur á raka- og næringarheldni, erfiðar spírunaraðstæður og hin gífurlega holklakamyndun sem er í ógrónu landi. Uppgræðsla með grasfræi og áburði, eða öðrum aðferðum, miðar að því að koma gróðurþróun af stað eða flýta fyrir henni, um áratugi eða aldir eftir aðstæðum. Þetta á ekki hvað síst við um Miðnesheiðina, Krýsuvík og reyndar mörg önnur svæði.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn um 1960 – Skátalundur nýbbyggður. Mynd ÓKG.

Reynslan sýnir að áburður og grasfræ geta víða gert kraftaverk. Þar sem jarðveginn vantar er þó langbest að nota lífrænan áburð, s.s. hey úr görðum eða úrgangshey, hrossatað, svína- og hænsnaskít til uppgræðslunnar. Mikið fellur til af slíkum efnivið á Reykjanesskaga, en hann fer að miklu leyti til spillis, svo skiptir þúsundum tonna árlega. Þar sem birki, víðir og fleiri tegundir hafa horfið úr landinu getur verið langt í frægjafa. Þar þarf að sá eða gróðursetja.

Margar hendur vinna létt verk

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn 2020.

Áhugamannasamtök, einstaklingar og sveitarstjórnir hafa lengi unnið að landbótum á Reykjanesskaga í samvinnu við Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins. Þetta samstarf hefur aukist mjög á síðustu árum og endurspeglar vaxandi þörf almennings fyrir gróðursælt umhverfi. Skógræktarfélögin, Lionsklúbbar og Landvernd hafa verið þar ötul, en ástæða væri til að nefna miklu fleiri, t.d. hestamannafélagið Mána í Reykjanesbæ sem hefur grætt mikið af örfoka landi til beitar. Nýlega voru stofnuð samtök, Gróður fyrir fólk, sem hafa á stefnuskrá gróðurbætur í öllu Landnámi Ingólfs. Vonandi tekst þeim að fá miklu áorkað í þessu brýna hagsmunamáli.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur í Gráhelluhrauni – minningarskjöldur.

Í þéttbýlinu á Reykjanesskaga býr fjöldinn allur af fólki sem beinlínis þráir að sækja sér lífsfyllingu í það að hlúa að gróðri úti í náttúrunni. Með góðu skipulagi og aðgengi að friðuðu landi geta hópar áhugamanna unnið stórvirki við uppgræðslu og notið síðan ánægjunnar af árangrinum. Gróðursælt og vistlegt umhverfi er sameiginlegt markmið okkar allra.” – Höfundur er fagmálastjóri landgræðslu ríkisins

Heimild:
-Morgunblaðið 01.06.1997, “Endurheimt landkosta á Reykjanesskaga”, Andrés Arnalds, bls. 14-15 E.

Guðmundarlundur

Guðmundarlunur í Kópavogi.

Sveppur

 Á Íslandi eru nú þekktir um 2000 tegundir af sveppum. Þá eru ekki taldir með rúmlega 700 tegundir sveppa sem eru fléttumyndandi, þ.e. hafa þörunga í þjónustu sinni.

Sveppir

Bessastaðasveppir.

Sveppir skiptast í marga flokka, en stærstir eru kólfsveppir og asksveppir. Til kólfsveppa teljast meðal annarra allir svokallaðir hattsveppir. Einnig teljst ryð- og sótsveppir sem lifa á blómplöntum og síkja þær, til kólfsveppa. Einkennandi fyrir kólfsveppi er kólfbeðurinn sem klæðir þá að einhverju leyti að utan, á hattsveppum þekur hann blaðkenndar fanir sem eru neðan á hattinum. Hver kólfur myndar 4 kólfgró á toppnum.
Til asksveppa teljast bæði disksveppir og skjóðusveppir, og einkennandi fyrir þá er askbeðurinn, sem er þéttsettur grósekkjum sem nefnast askar, og eru þeir venjulega hver með 8 gróum sem þeir skjóta upp í loftið þegar þeir eru fullþroska.

Sveppir

Berserkjasveppir.

Margir asksveppir sníkja á lifandi plöntum, en margir eru rotverur sem lifa á dauðum lífrænum efnum. Þeir stærstu mynda oft skrautlega diska eða skálar, og þekur asklagið efra borð þeirra. Aðrir asksveppir eru aðeins sýnilegir sem myglulag utan á því undirlagi sem þeir vaxa á.
Af öðrum minni flokkum sveppa má nefna oksveppi, eggsveppi, kitrusveppi og slímsveppi. Margir oksveppir lifa aðallega á myglustigi, en aðrir sníkja á skordýrum og sýkja þau.

Sveppir

Sveppir.

Eggsveppir valda sumir sjúkdómum á plöntum, en aðrir mynda eins konar myglu á lífrænum efnum í vatni, eða valda sjúkdómum á vatnaplöntum eða fiskum. Kitrusveppir lifa nær eingöngu í vatni. Slímsveppir er sjálfstæður hópur lífvera sem líklega eru óskyldir sveppum. Slímkórallinn er t.d. af flokki slímsveppa.
Sveppir eru því mjög margvíslegir og fjölbreyttir að allri gerð, og ef þú vilt kynnast þeim betur, skaltu velja Flóra Íslands hér til hliðar.
Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur varð fyrstur Íslendinga til að rannsaka og greina íslenzka sveppi af alvöru.

Heimild m.a.:
-http://www.floraislands.is/sveppir.htm

Sveppir

Sveppir.

Setberg

Myndin hér að neðan er af Setbergsbænum við Hafnarfjörð árið 1772. Þar bjó þá Guðmundur Runólfsson, sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Setbergsbærinn

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Þegar konungur bauð kálgarðagerð í landinu, var svo mælt fyrir, að sýslumenn skyldu ganga á undan öðrum með góðu eftirdæmi. Guðmundur Runólfsson gerði það, en svo dýrseldir þóttu honum kaupmenn, er hann var látinn borga spesíudal fyrir níu kvint af kálfræi, að hann kærði það fyrir rentukammerinu. Eftir það lækkaði verðið, og sýslumaður lét bændum í té fræ án endurgjalds. Komust þá upp 84 kálgarðar í Kjalarnesþingi. En nú hefur sýslumaður þá sögu að segja, að flestir hafi hætt við kálgarðana “eftir að okkar góðu verndarar við verslunina þótti það við hæfi að hræða fólkið frá slíku handafla með því að færa okkur fræ, sem ekki dugar, er ég hef mátt kaupa af þeim í tvö ár. Af því hefur ekki sprottið upp úr jörðinni ein einasta planta, sproti eða blað nokkurs staðar, hvorki í Gullbringu-, Kjósar- né Borgarfjarðarsýslu. – Þess konar fræ kom í Hólminn í tvö ár í röð, og annað árið jafngott í Hafnarfjörð”, segir sýslumaður í greinargerð um frækaup sín.

-Öldin okkar 1771

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Landrof

Gróður breytist frá einum tíma til annars. Margt getur haft áhrif á það. Reykjanesskaginn er ágætt dæmi um miklar gróðurbreytingar frá upphafi landsnáms til dagsins í dag.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróður- og jarðvegseyðing er að mati margra fræðimanna alvarlegasti umhverfisvandi Íslendinga. Ekki er til vel rökstutt mat á því hvar mörk samfellds gróðurs lágu inn til landsins við landnám, né hve stór hluti landsins var skógi eða kjarri vaxinn. Hitt er óumdeilanlegt að hér urðu mjög snögg umskipti á gróðurfari fljótlega eftir að land byggðist. Frjókornarannsóknir hafa sýnt að láglendi var að miklu leyti skógi eða kjarri vaxið við landnám. Landið hefur því tapað nær öllum sínum skógum og kjarri og hugsanlega meira en helmingi gróðurþekju sinnar á síðastliðnum 1100 árum. Víða í byggð virðast umskipti frá skógi eða kjarri í nær skóglaust land hafa verið snögg og ef til vill aðeins tekið einn til tvo mannsaldra. Jarðvegur breyttist einnig. Jarðvegur myndaður eftir landnám er víða grófkornóttur með lélega samloðun, hann er ljósari og með miklu meira af áfoksefnum en jarðvegur frá því fyrir landnám. Jarðvegsbreytingarnar sýna hversu þétt uppblásturinn fylgdi í kjölfar skógaeyðingarinnar.

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Ísland er eitt virkasta eldfjallaland í heimi. Hér hafa orðið gos að meðaltali á um 5 ára fresti frá landnámi. Gosunum fylgir gjóska sem sest í jarðveginn og ljær honum óvenjulega eiginleika, bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega. Gjóskan er eðlislétt – allir vita hve léttur vikur er. Vindur og vatn ná því að hreyfa og flytja kornin auðveldlega til. Þykk öskulög mynda lög í jarðveginum sem auðveldlega grefst undan eða fýkur burt þegar gróðurhulan verndar ekki lengur.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þá er Ísland ákaflega vindasamt land. Sé gróðurþekjan fjarlægð er jarðvegurinn mjög auðrofinn hvort heldur er af vindi eða vatni. Einkum hefur vindurinn verið afkastamikill. Verstu uppblástursskeiðin er ekki hægt að kalla annað en náttúruhamfarir. Dæmi er hinn hamslausi uppblástur sem geisaði í Landssveit og Rangárvöllum og náði hámarki undir lok 19. aldar og sem hefði getað lagt stóran hluta Rangárvallasýslu í eyði. Gróður eyddist annars vegar við uppblástur þannig að vindurinn reif burt jarðveg þar til ekkert varð eftir nema jökulurðin undir en hins vegar við það að þau ógrynni sands sem losnuðu og bárust but með vindi, lögðust yfir gróður annars staðar og kæfðu hann.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Þetta tvennt, tíð eldgos og vindasamt veðurfar, var vissulega til fyrir landnámen olli þó ekki verulegum skaða á gróðurþekju. Eldgos hafa ekki verið tíðari eftir landnám en næstu árþúsund þar á undan.
Sigurður Þórarinsson benti t.d. á að útbreiðsla skóga á Suðurlandi gæfu ekki til kynna að eldgos væru frumorsök að eyðingu skóga: helstu skógarleifar er þvert á móti að finna í nágrenni virkustu eldfjallanna.

Rof

Rof á Krýsuvíkurheiði.

Bæjarstaðarskógur er nálægt rótum Öræfajökuls, Næfurholtsskógur og Galtalækjarskógur eru í næsta nágrenni Heklu og í Skaftártungum, skammt austan Kötlu, er talsvert kjarr. Merki um staðbundinn uppblástur munu finnast í jarðvegi frá því fyrir landnám en þau eru fá. Meira að segja feiknarleg gjóskugos, miklu stærri en komið hafa eftir landnám, virðast ekki hafa valdið verulegri jarðvegseyðingu. Hún hófst ekki fyrr en þriðji þátturinn bætist við með umsvifum mannsins.

Rofabarð

Rofabarð.

Því er stundum haldið fram að jarðvegseyðingu megi rekja til kólnandi loftslags. Fátt bendir til þess að svo sé. Uppblástur hófst skömmu eftir landnám og áður en veðurfar tók að kólna að ráði nálægt 1200. Þorleifur Einarsson taldi til dæmis að á þeim tíma hafi holtin umhverfis Reykjavík verið orðin gróðurvana og uppblástur þar um garð genginn. Annað sem mælir á móti því að frumorsök hnignandi gróðurfars hafi verið kólnandi loftslag er að skógar virðast víða hafa haldist lengst inn til landsins, á mörkum byggðar og óbyggða sem sést til dæmis á breyttum skógarítökum kirkna. Þar hefðu þeir þó átt hörfa fyrst vegna kólnandi loftslags. Litla ísöldin hefur þó lagst á sveif með eyðingaröflunum og haft áhrif, til dæmis í stærri jökulfljótum sem brutu gróið land, meiri jökulhlaupum og í framskriði jökla sem skildu seinna eftir sig gróðurvana auðnir og báru oft einnig fram fínkornótt efni sem farið gat á flakk.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags þrátt fyrir gróðureyðinguna umhverfis.

Það sem líklega skipti sköpum og hrinti af stað vítahring jarðvegseyðingar eftir landnám er að gjóskufall hefur miklu afdrifaríkari afleiðingar fyrir gróður á skóglausu landi. Nokkurra tuga sentimetra gjóskufall getur kæft gróður á graslendi og þar sem beit eða sláttur hefur tekið ofan af gróðri, og náð að drepa allar plönturnar sem flestar hafa sína vaxtarbrodda neðanjarðar, í sverði eða rétt ofan við yfirborð. Þá liggur gjóskan óvarin fyrir vindi og vatni og verður upphaf að sandfoki og frekari gróðureyðingu á nærliggjandi svæðum þegar aðflutt efni kæfa gróður á nýjum stað. Jafnþykkt gjóskulag kann að hafa lítil áhrif á skóg og kjarrlendi þar sem eru tré og runnar sem standa upp úr. Botngróður deyr en hávaxnari gróður heldur að gjóskunni og kemur í veg fyrir að hún fari að fjúka, og skapar auk þess betri skilyrði fyrir uppvöxt botngróðurs á nýjan leik.

Hér má heyra í Ríó Tríóinu; “Landið fýkur burt” – Sjá og HEYRA.

-Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í líffræði við HÍ.
-http://www.land.is/landbunadur/wglgr.nsf/key2/hofudstodvar.html
-https://www.youtube.com/watch?v=mBwrzCNSP0s

Rof

Landrof.

Njarðvíkursel

Landnám Ingólfs markast af strandlengju Reykjanesskagans og í austri af Ölfusá, Sogi, Þingvallavatni og botni Hvalfjarðar.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Landnám Ingólfs er um 3.000 ferkílómetrar að stærð, eða um 3% af landinu öllu. Þar búa hins vegar um 200 þús manns eða tæplega 70% þjóðarinnar.
Gróðurfarslega er Landnám Ingólfs víða grátt leikið. Kemur þar til eldvirkni fyrri tíma auk þess sem svæðið hefur mátt þola ofbeit aldirnar í gegn, líkt og mörg önnur svæði hér á landi. Engu að síður hefur Landnám Ingólfs orðið útundan í viðleitni til landgræðslu á síðustu áratugum. “Gróður fyrir fólk” leggur áherslu á að gróður eykur útivistargildi lands. Heiðmörkin er gott dæmi þar um, svæði sem lengst af var hrjóstrugir melar og hraunflákar en er nú, fyrir framsýni manna um miðja 20. öld, gróðursæl útivistarparadís fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Á íslenskan mælikvarða eru veðurfarsleg gróðurskilyrði á svæðinu góð og óhætt er að fullyrða að þegar Ingólfur Arnarsson nam þar land hafi svæðið verið nær algróið og láglendið skógi vaxið. Nú, rúmlega 1100 árum síðar, er myndin allt önnur, gróðurfarið ber dapurleg merki aldalangrar búsetu, gróðurnýtingar og annarra mannlegra aðgerða, enda hefur svæðið verið þéttbýlt allt frá landnámi til þessa dags. Skógi og kjarri hefur að mestu verið útrýmt og hefur það víða leitt til mikillar jarðvegs- og gróðureyðingar sem enn hefur ekki tekist að stöðva.

Fossárrétt

Fossárrétt 2009 – að hverfa í plantaðan skóg.

Ástæða er til þess að ætla að þrátt fyrir margháttaðar landgræðsluaðgerðir sé gróðurþekjan á svæðinu enn á undanhaldi og aðeins á friðuðum svæðum getur gróður talist í framför.

Nú má víða á Reykjanesskaganum sjá ummerki uppgræðslu og gróðuraðhlynningar. Trjáplöntum hefur verið komið fyrir í fornum tóftum, tré þekja gömul fjárskjól og stekkir hafa horfið í skóga.

Baðsvellir

Selsminjar í skógi á Baðsvöllum.

Minna þarf áhugafólk um uppgræslu og skógrækt að huga að hugsanlegum mannvistarleifum á einstökum svæðum áður en lengra er haldið. Svæði hafa verið endurskýrð, s.s. Sólskógur þar sem áður hétu Selbrekkur. Selsminjarnar þar hafa verið kaffærðar í skógrækt. Trjám hefur verið plantað í Njarðvíkursel við Seltjörn og í Rósel við Ró[sa]selsvötn ofan Keflavíkur. Þar hefur skógræktarfólk einnig plantað trjám í hina fornu Melabergsleið (Hvalsnesgötu). Þá hafa tré verið gróðursett ofan í fornminjar í svonefndum Selskóg á og ofan Baðsvalla norðan Þorbjarnarfells, líkt og í Víkursel vestan Öskjuhlíðar. Svona mætti, því miður, lengi telja…
Sjá meira HÉR og HÉR.
Heimild:
-http://www.gff.is/landnam-ingolfs.html

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Gullkollur

“Þar sem hraun þekur mest af yfirborði Reykjanesskagans og lítið er um jarðvatn er fjölbreytni gróðursins ekki mikil. Mikil úrkoma nægir ekki til að mynda þykkan jarðveg ofan á hrauninu vegna þess hve það er ungt. Dæmigert úthafsloftslag og veturnir sem eru yfirleitt mildir eru plöntum í hag en hins vegar blæs mikið og lítið er um heita og sólríka sumardaga sem rýrir vaxtarskilyrði gróðursins verulega.

Heiðmörk

Blandaður gróður á Reykjanesskaganum.

Algengasta plantan er gamburmosi, síðan koma krækilyng og beitilyng. Nokkuð má sjá af birki sérstaklega við Straumsvík, í Almenningum og í Herdísarvíkurhrauni. Votlendisgróður finnst aðeins á smá blettum fyrir utan mýrarnar við Kleifarvatn og í við Krýsuvík. Hér eru engin há og stór fjöll sem mynda skjól fyrir vindi svo að trén nái að vaxa vel. Því er gróðurinn mjög lágvaxinn á Reykjanesinu”.

Heiðmörk

Nýsprottinn gróður upp úr gömlu hrauni.

Stór samfelld grassvæði eru t.d. á Selsvöllum, Vigdísarvöllum, Krýsuvík, Baðsvöllum og víða með ströndinni.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Birki og kjarr er víða í hraunum, sem mynda gott skjól víða á Reykjanesinu. Þess nýtur sá best, sem gengur um um þau í norðannæðingi eða austanágjöf. Þá er víða snjólétt í hraunum og snjó tekur fljótt upp vegna sólarhitans frá dökku grjótinu.

Sum svæðin hafa látið mjög á sjá á seinni öldum vegna gróðureyðingar, s.s. Vatnsleysustrandarheiðin, Selvogsheiðin og Krýsuvík, og uppblásturs. Þá hefur orðið verulegt sandfok í Selvogi og á Hafnaheiði. Eitt seljanna, sem þar var tilgreint [frá Gálmatjörn (Kalmannstjörn)], undir Stömpum, er t.d. með öllu horfið. Sum selin á Vatnsleysustrandarheiði sjást enn vel frá Reykjanesbrautinni þar sem þau kúra á gróðurtorfum, sem þráast enn við fyrir áburðinn frá selstímanum.

Lyklafellsleið

Gróður á Mosfellsheiði.

Hvaleyrarvatn

Í ritgerð Daníels Páls Jónassonar; Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða”, hjá Háskóla íslands 2012 má m.a. lesa eftirfarandi um um jarðfræði Reykjanesskagans:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi vestanverður – jarðfræðikort.

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi (Jón Jónsson, 1983, 127).

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Reykjanes er það svæði þar sem Reykjaneshryggurinn nær yfirborði en fyrir suðvestan skagann er hryggurinn undir sjávarmáli (Ármann Höskuldsson, Hey., Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007). Jarðfræðileg lega skagans nær frá Reykjanestá í suðvestri og að þrígreiningu plötuskilanna fyrir sunnan Hengilinn (Kristján Sæmundsson, 2010a) en á því svæði mætast Reykjanesgosbeltið, Suðurlandsbrotabeltið og Vesturgosbeltið (Weir o.fl., 2001). Á skaganum er sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í eldstöðvakerfum sem liggja frá suðvestri til norðausturs (Kristján Sæmundsson, 2010a). Heildarlengd þessa rekbeltis á skaganum eru um 65 kílómetrar (Peate o.fl., 2009).

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – gosskeið.

Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára (Peate o.fl., 2009) en stór hluti yfirborðs Reykjaness þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum Brunhes (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Síðasta jökulskeið, Weichsel, er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið Brunhes, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum (Elsa G. Vilmundardóttir, 1997).

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi (Páll Imsland, 1998). Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos. Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi (e. Dry Rock Equivalent, DRE) (Þorvaldur Þórðarson & Ármann Höskuldsson, 2008). Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998).”

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Á vefsíðunni ferlir.is segir auk þess um aðstæður á svæðinu: “Þar sem hraun þekur mest af yfirborði á sunnanverðum Reykjanesskagans er lítið um jarðvatn er fjölbreytni gróðursins ekki mikil. Mikil úrkoma nægir ekki til að mynda þykkan jarðveg ofan á hrauninu vegna þess hve það er ungt.
Algengasta plantan er gamburmosi, síðan koma krækilyng og beitilyng. Nokkuð má sjá af birki í hraununum. Hér eru engin há og stór fjöll sem mynda skjól fyrir vindi svo að trén nái að vaxa vel. Því er gróðurinn mjög lágvaxinn á Reykjanesinu.

Reykjanesskagi 1944.

Reykjanesskagi 1844.

Stór samfelld grassvæði eru t.d. á Selsvöllum, Vigdísarvöllum, Krýsuvík, Baðsvöllum og víða með ströndinni. Birki og kjarr er víða í hraunum, sem mynda dágott skjól víða á Reykjanesinu. Þá er víða snjólétt í hraunum og snjó tekur fljótt upp vegna sólarhitans frá dökku grjótinu. Sum svæðin hafa látið mjög á sjá á seinni öldum vegna gróðureyðingar, s.s. Vatnsleysustrandarheiðin, Selvogsheiðin og Krýsuvík, og uppblásturs. Þá hefur orðið verulegt sandfok í Selvogi og á Hafnaheiði. Eitt seljanna, sem þar var tilgreint [frá Gálmatjörn (Kalmannstjörn)], undir Stömpum, er t.d. með öllu horfið. Sum selin á Vatnsleysustrandarheiði (undir þráinskyldi) sjást enn vel frá Reykjanesbrautinni þar sem þau kúra á gróðurtorfum og þráast enn við fyrir áburðinn frá selstímanum.”
Um gróður á Reykjanesskaganum segir jafnframt: “Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis. Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Vötn, ár og lækir eru víðast hvar, hvort sem litið er á norðanverðan Skagann; Hvalvatn, Meðalfellsvatn, Fossá, Laxá,  Bleikdaslá, Bugðu, Köldukvís, Leirvogsá o.s.frv., eða á honum sunnanverðum; Ölfusá, Elliðaár, Rauðará, Rauðavatn, Elliðavatn, Urriðavatn, Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Kaldá, Djúpavatn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Eystri-Lækur, vestri-Lækur, Seltjörn o.s.frv.
Seljabúkapurinn hefur ekki síst stuðlað að viðhaldi og útbreiðslu plantna sem og nýgróðurs. Þegar leitað er leifa fyrrum seljabúskapsins á Reykjanesskaganum má a.m.k. ganga út frá tvennu sem vísu; grasi í móa í skjóli við hól, hæð, misgengi eða gjá, fyrir austanáttinni (rigningaráttinni), og á, læk, vatni eða vatnsbóli. Báðir staðirnir bjóða því jafnan, auk minjanna, upp á fölskrúðuga flóru allt umhverfis.”

Heimildir:
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða; Daníel Páll Jónasson, Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóli Íslands 2012.
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum-2/
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum/

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Mosi

Hafdís Erla Bogadóttir skrifaði grein um Bergþór Jóhannesson og mosa í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000. Hér er hluti greinarinnar:
Mosi-10“Bergþór Jóhannsson mosafræðingur hefur um áratuga skeið ferðast um landið og safnað mosum. Hefur hann fundið oglýst mörgum nýjum tegundum mosa hér á landi. Margir aðrir hafa einnig safnað mosum og fært honum.
Nú vinnur Bergþór að útgáfu fyrstu íslensku mosaflórunnar en það verk er langt komið. Í henni eru teikningar af öllum tegundum og útbreiðslukort, auk lýsinga og greiningarlykla. Hann hefur einnig búið til íslensk nöfn á allar tegundir í flórunni sem fæstar báru alþýðuheiti fyrir. Bergþór hefur einnig verið fundvís á nýjar tegundir annarra hópa plantna hérlendis og bjó, ásamt Herði Kristinssyni, til reitkerfi fyrir rannsóknir á útbreiðslu plantna og dýra hér á landi. Bergþór var í hópi þeirra náttúrufræðinga sem lögðu grunn að líffræðikennslu við Háskóla Íslands árið 1969. Þar kenndi hann í um 20 ár.

Um 600 íslenskar mosategundir

mosar-9

Það vekur eflaust undrun margra að á íslandi vaxa um 600 mosategundir. Flestir kannast eflaust við gamburmosa, sem klæðir öll yngri hraun á Suður- og Suðvesturlandi þykku, gráu teppi. Fáir gera sér líklega grein fyrir því að þegar farið er ístórframkvæmdir, svo sem virkjanir, verksmiðjubyggingar og vegalagningu þarf mosafræðingurinn að kanna mosana á svæðinu því þeir eru teknir með þegar náttúruverndargildi svæðisins er metið. Það hefur verið hljótt um þennan iðna og virta náttúrufræðing hérlendis og lítið fjallað um vinnu hans. í tilefni heiðursdoktorsnafnbótarinnar þótti blm. ástæða til að forvitnast örlítið um hagi og líf þessa manns sem hefur helgað líf sitt mosum og ýmsum öðrum rannsóknum í þágu náttúruvísindanna.

Sáraumbúðir úr barnamosa
„Nýting mosa hefur að mestu lagst af en það þarf ekki að fara lengra aftur en til fyrri heimsstyrjaldar til að finna dæmi um stórfellda notkun þeirra. Þá voru starfræktar verksmiðjur bæði í Evrópu og Ameríku til að framleiða sáraumbúðir úr barnamosum. Barnamosar eru mjög sérstæðir að byggingu. Þurrir draga þeir í sig fjórfalt meiri vökva en sama þyngd baðmullar. Það var því hægt að flytja særða hermenn margfalt lengri vegalengd án þess að skipta þyrfti um umbúðir ef notaðir voru barnamosar í stað baðmullar og í svipuðum tilgangi voru barnamosar notaðir öldum saman.

mosi-8

Fram að aldamótum 1900 notuðu mæður í Lapplandi og Alaska barnamosa í dýnur, kodda og sængur fyrir smábörnin. Skipt var um mosa kvölds og morgna og höfðu börnin þá næga hlýju og héldust þurr og hrein. Víða er mór að mestu myndaður úr barnamosum. Notkun mós sem eldsneytis er alþekkt en til þeirra nota er talið að mór sé um hálfdrættingur á við kol. Mótekja hefur líkast til verið stunduð í Norður-Evrópu þúsöldum saman. Um aldamótin 1900 framleiddu Bretar móull úr mó og var hún notuð í fatnað. Þessi framleiðsla náði þó aldrei verulegri fótfestu. Núna eru barnamosar einna helst notaðir til að halda raka að plöntum og dýrum sem senda þarf milli staða og við ræktun í uppeldisstöðvum.
Aðrir mosar sem vert er að nefna eru haddmosarnir. Þeir eru allt öðru vísi byggðir en barnamosar. Úr stönglum hávöxnustu tegundanna, sem geta orðið vel yfir hálfur metri, voru búin til reipi. Fundist hafa margra metra löng haddmosareipi frá því skömmu fyrir Krists burð. Reipin voru meðal annars notuð til að binda saman eikarplanka við bátasmíðar.

mosi-7

Slík notkun er þó enn eldri því haddmosareipi voru notuð við bátasmíðar á bronsöld. Haddmosar voru notaðir a.m.k. fram undir aldamótin 1900 í Lapplandi í dýnur og nokkurs konar rúm. Samarnir brutu rúmin saman, bundu utan um þau og báru þau þangað sem þeir ætluðu að gista næstu nótt. Ef þau urðu of þurr og samþjöppuð voru þau bara bleytt og fengu þá fjaðurmagn sitt á ný. Haddmosastönglar voru notaðir í mottur, körfur og bursta og sitthvað fleira. Notkun haddmosa hélst að einhverju leyti fram á 20. öld í Evrópu.
Mosar hafa verið notaðir í margskonar tilgangi öðrum, t.d. næfurmosar til þéttingar við bátasmíðar, ármosi sem tróð milli skorsteins og veggja til þess að hindra fkveikju og margar tegundir hafa verið notaðar til lækninga og skreytinga. Núna eru mosar talsvert notaðir við athuganir og mælingar á mengun. Tildurmosi er t.d. notaður til slíkra mælinga hér á landi.”

„Mosi” ekki alltaf mosi
mosi-6„Sumar lífverur bera nöfn mosa en eru þó ekki mosi og má þar nefna m.a. að „hreindýramosi” er ekki mosi heldur fléttutegund. Fjallagrös, sem á sumum erlendum tungumálum eru kölluð „íslenskur mosi”, eru einnig flétta. Reyndar eru Þjóðverjar núna farnir að kalla fjallagrösin „íslandsfléttu”. „Litunarmosi” er líka flétta, „írskur mosi” er þörungur og „spænskur mosi” er háplanta. Þannig að orðið „mosi” hefur verið notað um sitt af hverju tagi. Skófir eða fléttur breytast aldrei í mosa. Þær eru myndaðar af sveppi og þörungi sem lifa saman og mynda nýja gerð af lífverum. Þær eru því alls óskyldar mosum. Stundum er það svo að fyrst koma skófir á steina og síðan mosar sem vaxa að lokum yfir skófirnar og drepa þær. í náttúrunni er sífelld barátta um rými milli lífveranna, líka innbyrðis milli mosanna. Oft fá skófirnar reyndar að vera alveg í friði fyrir mosunum. Þetta fer eftir aðstæðum á hverjum stað.
Skófir geta einnig mosi-5vaxið á mosum og geta gert út af við þá. Bygging mosa og lífsferill er rétt á mörkum þess að henta til lífs á þurru landi og ber með sér að mosarnir eru leifar einnar elstu þróunargreinar landplantna. Þessa grein má vissulega líta á sem nokkurs konar þróunarlega blindgötu því að hún leiðir ekki til framhalds yfir í neitt annað. Þrátt fyrir það er tegundafjöldi þeirra meiri en nokkurs annars plöntuhóps að dulfrævingum einum undanteknum. Aðlögunarhæfni þeirra er mikil og þeir eru mikilvægur hluti margra vistkerfa, m.a. þar sem aðrar plöntur vaxa lítt eða ekki.”

Elstu mosasteingervingar taldir um 380 milljón ára
mosi-4„Elstu mosasteingervingar sem vitað er um eru, að ég held, taldir um 380 milljón ára gamlir. Í jarðlögum hafa fundist allmargar ættkvislir útdauðra mosa sem eru verulega frábrugðnar núlifandi mosum. Þrátt fyrir það er þekking okkar aftur í tímann af mjög skornum skammti. Meðal elstu steingervinga eru t.d. útdauðar ættkvíslir sem gætu verið skyldar blettamosa. Nokkru yngri eru ættkvíslir sem gætu verið skyldar haddmosum og barnamosum. Mosar eru skyldir burknum og þörungum en hvaða þörungum þeir eru skyldastir er óljóst. Líklega komast menn að því innan: fárra áratuga. Núna er farið að skipta mosum í þrjár fylkingar. Þótt þessar fylkingar eigi ýmislegt sameiginlegt eiga þær líklega engan sameiginlegan forföður sem teldist vera mosi. Þetta þýðir að mosar eru mun óskyldari innbyrðis en t.d. maður, froskur og fiskur en þessi dýr tilheyra öll sömu fylkingu.”

Mosar eru harðgerðir
mosi-3„Margir mosar þola miklar hitasveiflur og sem dæmi má taka hæruskrúf sem er útbreidd tegund hér, bæði á láglendi og hálendi. Hann þolir að hitinn fari úr 20 gráðu hita í 30 gráðu frost á einum sólarhring. Hann þolir yfir 70 gráðu hita án þess að skaðast og yfir 40 gráðu frost. Sumir mosar þola meira en 100 gráðu frost og aðrir yfir 100 gráðu hita. Veggjasnúður, sem vex hér aðeins á syðsta hluta landsins en er algengur sunnar í álfunni, vex á berum klettum og veggjum þar sem getur orðið mjög heitt, þolir t.d. yfir 100 gráðu hita. Hiti og kuldi eru meðal þeirra þátta sem takmarka útbreiðslu tegunda. Margar tegundir eru breytilegar í þessu tillliti, t.d. er hagstæðasta hitastig fyrir líkamsstarfsemi hraungambra um 10 gráðum lægra nyrst í Skandinayiu en á Bretlandseyjum. Mosar geta einnig aðlagast breyttum aðstæðum. Hvert hagstæðasta hitastigið er getur breyst dálítið eftir árstíðum og mosar sem eru fluttir sunnar eða norðar geta eftir vikudvöl á nýja staðnum verið búnir að færa hagstæðasta hitastigið til í átt að því sem hentar á þeim stað.”

Líftími mosa
mosi-2„Vitað er til að sama tegund mosa hafi vaxið á sama stað í hundrað ár en við lok þess tímabils eru áreiðanlega engar einstakar plöntur þær sömu og voru þar í upphafi tímabilsins. Sumar tegundir vaxa í endann en deyja jafnframt að neðan. Hraungambri er ein þessara tegunda. Þótt mosaplantan sé 20 cm löng eru aðeins um fimm cm fremst á sprotanum raunverulega lifandi. Hraungambri lengist um 1 cm á ári eða þar um bil. Það eru því varla mikið meira en 5 ár frá því sprotahluti verður til þangað til hann hættir starfsemi og deyr.

mosi-1

Þrátt fyrir það má ef til vill halda því fram að þessar plöntur séu allt að því eilífar. Hafi myndast hliðarsprotar verða þeir að nýjum plöntum þegar hlutinn fyrir neðan visnar. Um tildurmosann, annan hávaxinn mosa sem er ekki jarðfastur, gildir það sama. Það er algengt að hann lengist um 2-4 cm á ári en það er varla nema ársvöxtur síðustu 3-5 ára sem er raunverulega lífs hverju sinni. Haddmosar eru jarðfastir og mega ekki missa neðri hlutann vegna þess að þeir taka vatn og steinefni upp í gegnum stöngulinn. Á hávöxnustu tegundunum eru það aðeins blöðin á efsta hluta stöngulsins sem eru lifandi og virk. Ég hef séð haddmosaplöntur sem voru a.m.k. 8 ára gamlar. Sumar mosategundir verða varla yfir 5 mm langar og ársvöxtur þeirra er að sjálfsögðu afar lítill en aldur líklega svipaður og flestra annarra mosa. Ég held að mosar verði yfirleitt ekki gamlir heldur taki nýjar plöntur við þegar hinar deyja. Þeir hafa þróað ýmsar aðferðir til að fjölga sér og mynda nýjar plöntur. Þótt okkur finnist mosagróður á einhverjum steini vera óbreyttur árum saman held ég að það sé að nokkru leyti blekking, breytingar eru örari en við gerum okkur grein fyrir.”

Lítil næring í mosum
mosi-13„Það er lítil næring í mosum en þó er vitað að dýr á norðlægum slóðum éta mosa að vetrarlagi og á vorin, t.d. læmingjar, hreindýr, gæsir og rjúpur. Sum smærri dýr éta einnig mosa, svo sem bessadýr, engisprettur og fiðrildalirfur. Langflestir mosar eru fjölærir og sígrænir. Þeir fella því ekki blöðin eða visna niður á haustin eins og t.d. blómplöntur og grös. Þetta skiptir verulegu máli því þar sem mosaþekja er að einhverju marki vernda þeir jarðveginn allan ársins hring fyrir utanaðkomandi eyðingaröflum.
Mosar vaxa mjög hægt og sé mosaþekju raskað getur það tekið náttúruna marga áratugi að bæta skaðann og í sumum tilvikum veita slík sár eyðingaröflunum, t.d. vindum og vatni, þann aðgang að jarðveginum og mosaþekjunni að skaðinn verður ekki bættur.

mosi-14

Menn ættu því að bera virðingu fyrir mosunum sem klæða verulegan hluta landsins og umgangast gróðurinn varlegar en þeir hafa gert hingað til.
Hver mosategund hefur sitt kjörlendi og sína útbreiðslu. Sumar tegundir vaxa mjög víða, bæði á hálendi og láglendi, aðrar finnast eingöngu á láglendi og enn aðrar eingöngu á hálendi. Sumar vaxa aðallega í mýrum, aðrar í móum, sumar á klettum, aðrar á steyptum veggjum, sumar í ám og lækjum, aðrar í snjódældum, sumar í kjarrlendi, aðrar á þurrum steinum, sumar aðeins í fjörusandi, aðrar eingöngu eða svo til eingöngu í jarðhita o.s.frv. Ef verulegur mosagróður er í næsta nágrenni við nýrunnið hraun eru mosar komnir í það fljótlega eftir að það er kólnað, a.m.k. innan árs. Hversu langur tími líður þar til verulegur mosagróður er kominn í það fer eftir ýmsum aðstæðum, svo sem hæð yfir sjó, áfoki, úrkomu og hita.”

Útbreiðsla tegunda misjöfn á landinu
mosi-15„Útbreiðsla einstakra tegunda er ákaflega mismunandi. Allmargar eru um allt land, aðrar finnast á víð og dreif um mikinn hluta landsins, enn aðrar eru staðbundnar á mismunandi hátt. Nokkuð margar tegundir hafa hér suðlæga útbreiðslu og vaxa eingöngu á Suðurlandi en útbreiðslusvæði þeirra er mismunandi eftir tegundum, sumar eru bundnar við lítið svæði syðst á landinu en aðrar finnast um allan suðurhluta landsins. Það má því skipta þeim í nokkra hópa eftir því hversu suðlægar þær eru. Allmargar tegundir hafa hafræna útbreiðslu hér og eru þá á suður- og vesturhluta landsins. Aðrar tegundir hafa norðlæga útbreiðslu, sumar hafa eingöngu fundist á vesturhluta landsins, aðrar eingöngu á Austurlandi o.s.frv.
mosi-16Síðan eru það tegundirnar sem hafa aðeins fundist á örfáum stöðum eða jafnvel aðeins á einum stað. Sjaldgæfustu tegundirnar þyrfti að vernda á einhvern hátt. Nokkrar tegundir virðast hafa horfið alveg á síðustu áratugum og vaxa líklega ekki hér lengur. Ástæðan er í sumum tilvikum óvarleg meðferð mannsins á náttúrunni og virðingarleysi fyrir þeim gróðri sem fyrir er. Sérstaklega ber okkur skylda til þess að varðveita þær tegundir sem hér vaxa og eru afar sjaldgæfar í heiminum og hafa jafnvel aðalútbreiðslu sína hér á landi. Einnig tegundir sem yaxa ekki annars staðar í Evrópu en hér. Öðrum finnst það kannski ekki mikill skaði þótt mosategundum fækki eitthvað á landinu en fyrir mér er þetta alvörumál. Hver ný tegund sem hér finnst er sem nýr kunningi og það er alltaf dálítið sárt að komast að því að maður eigi ekki eftir að sjá hann oftar nema sem eintak á safni sem er varðveitt sem sönnun þess að einhvern tímann hafi hann vaxið hér og verið hluti af hinni lifandi íslensku náttúru”.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 16. desember 2000, bls. 8-9.

Mosi

Mosi.

Svartsengi

Áhrif álvera á Íslandi – þungmálmar og brennisteinn í mosa
“Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands hélt  fyrirlestur í nóv. 2007 þar sem hann gaf stutt yfirlit yfir vöktun á þungmálmum í Evrópu á síðustu áratugum og segir frá helstu niðurstöðum rannsóknanna hér á landi, einkum í nágrenni iðjuveranna í Straumsvík og á Grundartanga.
MosadauðiÍ Evrópu hefur um árabil farið fram vöktun á magni þungmálma í mosum með það að markmiði að fylgjast með mengun í andrúmslofti. Íslendingar hafa tekið þátt í þessu fjölþjóðlega verkefni á fimm ára fresti frá árinu 1990 og hefur tildurmosa (Hylocomium splendens) verið safnað víðs vegar um land og þungmálmar (As, Cd, Cr, Cu, Fe, Hg, Ni, Pb, V, Zn) greindir. Síðust árin hefur brennisteinn (S) einnig verið mældur.
Vöktun með mosaaðferðinni byggist á því að mosar, einkum þeir sem mynda breiður, fá mestan hluta næringar sinnar með úrkomu og ryki sem á þá fellur. Málmarnir safnast fyrir í mosanum og því endurspeglar magn þeirra hreinleika þess andrúmslofts sem um mosann hefur leikið.
Árin 2000 og 2005 var mosa einnig safnað til mælinga á þungmálmum bæði við álverið í Straumsvík og í nágrenni fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Var það hugsað sem upphaf vöktunar á þungmálmum við álverin. Sumarið 2005 voru þessar rannsóknir endurteknar og vöktun einnig hafin í nágrenni verksmiðjanna á Grundartanga.
MosadauðiNiðurstöðurnar sýna að styrkur flestra þeirra efna sem mæld voru reyndist vera hærri í nágrenni iðjuverana í Straumsvík og á Grundartanga en bakgrunnsgildin gefa til kynna. Þessi áhrif eru þó mjög mismikil eftir efnum. Í Straumsvík kemur talsvert af þungmálmum einnig frá iðnaði í nágrenninu og á Grundartanga leggur Járnblendiverksmiðjan til talsvert af viðbótarefnum.
Á stórum svæðum á landinu urðu einnig töluverðar breytingar á styrk efna sem ekki verða raktar til innlends iðnaðar eða beint til umsvifa manna hér á landi.
Tildurmosi (Hylocomium splendens) er algeng mosategund hér á landi. Hann vex víða í breiðum og myndar afmarkaða árssprota. Tildurmosi er því mjög heppilegur til mælinga á þungmálmum. Með þessum rannsóknum fæst yfirlit yfir dreifingu þungmálma á landinu og hvort breytingar hafa orðið með tíma.
Vöktun á þungmálmum í mosa er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að iðnaður fer nú vaxandi hér á landi auk þess sem alltaf má búast við að eldvirkni geti haft veruleg áhrif á magn sumra efna í andrúmslofti og þar með á lífríki Íslands.
MosadauðiÁrin 1990 og 1995 sá Rannsóknastofnun landbúnaðarins um framkvæmd rannsóknanna en eftir það hefur Náttúrufræðistofnun Íslands séð um verkið. Auk þessara stofnana hefur verkefnið verið styrkt af Norrænu ráðherranefndinni, umhverfisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, Umhverfisstofnun, stóriðjufyrirtækjum o.fl.

Mosi drepst við Hellisheiðarvirkjun
Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru að Hellisheiðarvirkjun föstudaginn 5. september eftir að hafa fengið ábendingu um að mosi hefði drepist á nokkru svæði vestan við virkjunina. Skoðuðu þeir svæðið milli Þjóðvegar 1, Svínahrauns og vegarins að virkjuninni. [Síðan hefur komið í ljós, sem reyndar flestir vissu, að mosi hefur verið að drepast í nágrenni við Svartsengisvirkjun ofan við Grindavík allt frá því að virkjunin tók til starfa.]
Á þessu svæði er mosinn hraungambri ríkjandi og myndar hann þar þykkt mosateppi, einkum á hraunbungum. Í lægðum setja háplöntur mikinn svip á gróður þótt hraungambri finnist þar í nokkrum mæli. Athuganirnar leiddu í ljós að mosinn er allvíða talsvert skemmdur. Mestar eru skemmdirnar í brúnum sem snúa í átt að virkjuninni. Skemmdir eru hins vegar litlar í lautum og uppi á hraunbungum.

Sveppir

Vaxtarsprotar mosans hafa drepist og göt hafa komið í mosaþekjuna. Eldri og hálfrotnaðir mosastönglar standa eftir og þekja yfirborð. Nánast hvergi sér í mold. Aðrar tegundir virðast hafa orðið fyrir mun minni áhrifum. Þó má allvíða merkja að blaðendar stinnastarar, sem þarna vex með mosanum, eru óvenju dökkir. Einnig sáust merki um að hattsveppir væru dekkri á þeirri hlið sem snéri að virkjuninni.
Skemmdirnar eru mismiklar, einna mestar eru þær norðvestan við virkjunina en einnig eru talsverðar skemmdir norðaustan við Þjóðveg 1. Þær eru greinilega mun minni við jaðar Svínahrauns en ná þar aðeins upp í hraunjaðarinn en lítið sem ekkert upp á hraunið.

Hvað drepur mosann?
Á þessu stigi er ekki ljóst hvað veldur mosadauðanum en útbreiðsla skemmdanna og ummerki benda ekki til þess að skaraveður eða rof hafi valdið þeim. Hins vegar er mun líklegra að um einhvers konar mengun sé að ræða. Hellisheiðarvirkjun losar brennisteinsvetni í talsverðum mæli og er hugsanlegt að mosadauðann megi rekja til brennisteins. Myndirnar sem hér fylgja sýna skemmdirnar nokkuð vel. Ekki er hægt að fullyrða á þessu stigi hvort skemmdirnar ná út fyrir það svæði sem skoðað var en það þyrfti að kanna.”

Mosadauði

Til viðbótar má geta þess, án allra tímafrekra vísindalegra rannsókna, að mosadauði í nágrenni við jarðvarmavirkjanir er og hefur verið staðreynd um langt skeið. Hann hefur verið vel þekktur af þeim, sem að virkjunum hafa staðið. Þeir hinir sömu hafa hins vegar þagað þunnu hljóði í von um að ekki vitnaðist. Betra hefði verið ef þeir hefðu vakið athygli á fyrirbærinu fyrr í von um að finna mætti aðferð til að koma í veg fyrir, eða a.m.k. minnka líkur á, slíku tjóni í framtíðinni.
Núlifandi kynslóðir munu áfram upplifa niðurlægingu gróðurs umhverfis (hinar umhverfisvænu) gufuaflsvirkjanir. Og þrátt fyrir skammlífi slíkra virkjana (ca. 40-60 ár) munu næstu kynslóðir ekki fá að njóta endurheimt gróðursins því á svæðunum mun ríkja auðn næstu aldirnar.

Heimildir m.a.:
-www.ni.is
-Sigurður H. Magnússon, Áhrif álvera á Íslandi – þungmálmar og brennisteinn í mosa: 7. nóvember 2007.
-Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur, Mosi drepst við Hellisheiðarvirkjun: 8. september 2008.
Nesjavallavirkjun

Krækiberjablóm

Þegar gengið er um móana má, ef vel er að gáð, sjá fyrir fótum nokkrar berjategundir, s.s. bláber, krækiber, hrútaber og skollaber.
Bláberjalyngið er sumargrænn smárunni. Blöðin eru breytileg að gerð og lögun. Blómin, sem nefnast sætukoppar, eru nokkur saman efst á árssprota fyrra árs. Fullþroska eru berin dökkblá að utan en grænleit að innan með litlausum en bragðgóðum safa. Bláberjalyng er að finna um allt land, einkum í votlendi og mólendi. Bláberjarunninn blómgast í maí – júní og er þá u.þ.b. 10 – 30 cm. á hæð. Það fer mikið eftir árferði hvenær berin verða nægjanlega þroskuð til tínslu en líkt og með önnur íslensk ber má ekki reikna með fullum þroska fyrr en eftir miðjan ágúst. Ber, blöð og rót voru talin kælandi og barkandi. Þau voru notuð gegn lífsíki, köldu og skyrbjúgi. Gott þótti að strá dufti af rótinni á holdfúa sár.
BlaberAðalbláber
eru dökkblá og í sumum tilfellum svört ber sem vaxa villt víða um landið. Að innan eru þau rauð og bragðið er súrsætt. Aðalbláber vaxa í skógum, lautum og mólendi og oft er mest um þau á snjóþungum stöðum.
Algengust eru þau á norðanverðu landinu en heldur sjaldgæfari á landinu sunnarverðu, en þó ekki óalgeng. Aðalbláberjalyngið er grænn smárunni. Blöðin eru smásagtennt, ljósgræn, þunn og egglaga. Þau eru græn báðum megin en roðna er líður að hausti. Aðalbláberjalyngið blómgast í júní og er þá 10-30 cm. á hæð. Berin eru þó sjaldnast fullþroska fyrr en eftir miðjan ágúst. Ber, blöð og rót voru talin kælandi og barkandi. Þau skyldu nota, líkt og hálfnefnur þeirra, við lífsýki, köldu og skyrbjúgi. Te má gera af blöðunum til daglegrar notkunar. Aðalbláber hafa verið notuð við ýmis konar kvillum tengdum sjóninni. Rannsóknir benda til þess að aðalbláber bæti nætursjón, a.m.k. tímabundið. Tvær rannsóknir hafa verið gerðar á aðalbláberjum sem sýna að jurtin bætir sjón í rökkri, styttir þann tíma sem það tekur að venjast myrkrinu o
g styttir þann tíma sem augun eru að ná sér eftir að hafa orðið fyrir skerandi birtu. FERLIR hefur nýtt sér áhrifin, einkum þegar gengið er í myrkri eða áður en farið er niður í myrkvaða hella. Önnur áhrif berjanna virðast vera stutt og koma strax fram, þannig að ráðlagt er að nota berin eða þykkni úr þeim, rétt áður en þörf er á betri nætursjón.
Í MBL þann 15. ágúst 2000 er í grein fjallað um upphaf berjatímans: “Krækiber, bláber og aðalbláber hafa verið tínd hér á landi allt frá landnámi. Berjatíminn er nú hafinn og víst að margir eiga eftir að leggja leið sína í berjamó enda eru berin talin holl og af mörgum hreinasta sælgæti. Margir berjatínslumenn eiga sitt uppáhalds berjasvæði þar sem þeir fylla ílát sín ár hvert um þetta leyti. Aðrir ferðast um landið þvert og endilangt til að leita uppi ný berjasvæði og kynnast um leið margs konar náttúru enda útiveran stór hluti berjatínslunnar.

Einiber

Einiber í Skógarnefi.

Ber hafa áreiðanlega alltaf verið höfð til matar á Íslandi. Í bók Hallgerðar Gísladóttur, Íslensk matarhefð, kemur fram að samkvæmt íslensku þjóðveldislögunum mátti tína ber upp í sig á eignarlandi annarra en það varðaði sektum að tína þau og flytja burtu. Þar kemur einnig fram að krækiberjavín var bruggað í Skálholti snemma á öldum, sennilega vegna skorts á innfluttu messuvíni.
Berjaskyr var algengur réttur síðsumars og á haustin áður fyrr. Berin voru gjarnan geymd í súru skyri fram eftir vetri eða í sýru og drukkin með henni til bragðbætis. Berin hafa áreiðanlega oft stuðlað að því að draga úr skorti á C-vítamíni, sem var mjög algengur hérlendis, einkum á vetrum. Krækiber eru óvíða borðuð annars staðar en á Íslandi þó þau vaxi í fleiri löndum eins og t.d. á Grænlandi, í Kanada og í Skandinavíu. Samar, Inúítar og norður-amerískir indíánar borða raunar mikið af þeim.
Bláber og aðalbláber eru náskyld en aðalbláberin þykja betri enda sætari og safaríkari. Bláber eru fremur smá hér á landi en þykja bragðgóð. Þau eru vinsælust fersk en einnig notuð í bökur, grauta og í skyr. Þau má frysta og þurrka og gera úr þeim saft, hlaup og sultur. Best er þó að borða berin fersk, næstbest er að frysta þau því þá varðveitist eitthvað af C-vítamíninu en versti kosturinn með tilliti til næringargildis er að gera sultu eða saft.”

Hrútaber

Hrútaber.

Hrútaberjalyng er algengt á láglendi um allt land. Það vex í frjósömum brekkum og bollum,einnig oft í skógarbotnum. Plantan er með löngum, skriðulum renglum, sem eru bæði blöðóttar og hærðar. Þessar renglur, sem stundum eru kallaðar skolla- eða tröllareipi, geta orðið allt að tveir metrar á lengd. Blómstönglarnir eru uppréttir og með þyrnum. Blóm eru fá saman og eru bikarblöðin niðurbeygð en krónublöðin upprétt. Hrútaberin þroskast fremur seint á sumrin, þau eru safamikil og örlítið súr á bragðið. Berin hafa töluvert verið nýtt til sultugerðar. Dropar af hrútaberjum þykja styrkjandi bæði fyrir maga og hjarta. Einnig er talið að þeir lækni skyrbjúg. Droparnir eru búnir til á eftirfarandi hátt: 100 gr. af steyttum berjum eru sett í 1/2 lítra af sterku brennivíni og geymt á flösku í heitum sandi í þrá daga. Hið þunna er síðan síað frá og geymt.
Hið síðastnefna hefur áreiðanlega vakið athygli einhvers.
Skollaber vaxa innan um lyng og kjarr. Berin vaxa ætíð í breiðum, en oftast á fremur litlum svæðum. Þau eru víða að finna á norðanverðu Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og við utanverðan Eyjafjörð. Skollaber eru einnig að finna nyrst á Austfjörðum. Ef vel er að gáð má einnig finna þau á Reykjanesskaganum. Hvítu blöðin fjögur eru ummynduð laufblöð sem lykja um blómsveipinn. Blómin sjálf eru nær svört eða rauðsvört á litinn. Skollaber þroskast ekki fyrr en seint á haustin, oft í september. Oftast þroskast ekki nem 2-3 ber í hverjum sveip.kraekiber