Njarðvíkursel

Landnám Ingólfs markast af strandlengju Reykjanesskagans og í austri af Ölfusá, Sogi, Þingvallavatni og botni Hvalfjarðar.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Landnám Ingólfs er um 3.000 ferkílómetrar að stærð, eða um 3% af landinu öllu. Þar búa hins vegar um 200 þús manns eða tæplega 70% þjóðarinnar.
Gróðurfarslega er Landnám Ingólfs víða grátt leikið. Kemur þar til eldvirkni fyrri tíma auk þess sem svæðið hefur mátt þola ofbeit aldirnar í gegn, líkt og mörg önnur svæði hér á landi. Engu að síður hefur Landnám Ingólfs orðið útundan í viðleitni til landgræðslu á síðustu áratugum. “Gróður fyrir fólk” leggur áherslu á að gróður eykur útivistargildi lands. Heiðmörkin er gott dæmi þar um, svæði sem lengst af var hrjóstrugir melar og hraunflákar en er nú, fyrir framsýni manna um miðja 20. öld, gróðursæl útivistarparadís fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Á íslenskan mælikvarða eru veðurfarsleg gróðurskilyrði á svæðinu góð og óhætt er að fullyrða að þegar Ingólfur Arnarsson nam þar land hafi svæðið verið nær algróið og láglendið skógi vaxið. Nú, rúmlega 1100 árum síðar, er myndin allt önnur, gróðurfarið ber dapurleg merki aldalangrar búsetu, gróðurnýtingar og annarra mannlegra aðgerða, enda hefur svæðið verið þéttbýlt allt frá landnámi til þessa dags. Skógi og kjarri hefur að mestu verið útrýmt og hefur það víða leitt til mikillar jarðvegs- og gróðureyðingar sem enn hefur ekki tekist að stöðva.

Fossárrétt

Fossárrétt 2009 – að hverfa í plantaðan skóg.

Ástæða er til þess að ætla að þrátt fyrir margháttaðar landgræðsluaðgerðir sé gróðurþekjan á svæðinu enn á undanhaldi og aðeins á friðuðum svæðum getur gróður talist í framför.

Nú má víða á Reykjanesskaganum sjá ummerki uppgræðslu og gróðuraðhlynningar. Trjáplöntum hefur verið komið fyrir í fornum tóftum, tré þekja gömul fjárskjól og stekkir hafa horfið í skóga.

Baðsvellir

Selsminjar í skógi á Baðsvöllum.

Minna þarf áhugafólk um uppgræslu og skógrækt að huga að hugsanlegum mannvistarleifum á einstökum svæðum áður en lengra er haldið. Svæði hafa verið endurskýrð, s.s. Sólskógur þar sem áður hétu Selbrekkur. Selsminjarnar þar hafa verið kaffærðar í skógrækt. Trjám hefur verið plantað í Njarðvíkursel við Seltjörn og í Rósel við Ró[sa]selsvötn ofan Keflavíkur. Þar hefur skógræktarfólk einnig plantað trjám í hina fornu Melabergsleið (Hvalsnesgötu). Þá hafa tré verið gróðursett ofan í fornminjar í svonefndum Selskóg á og ofan Baðsvalla norðan Þorbjarnarfells, líkt og í Víkursel vestan Öskjuhlíðar. Svona mætti, því miður, lengi telja…
Sjá meira HÉR og HÉR.
Heimild:
-http://www.gff.is/landnam-ingolfs.html

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.