Tag Archive for: fornminjar

Fornminjar

Í Samvinnunni árið 1956 eru skrif Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar í bók hans „Kuml og haugfé –  úr heiðnum sið á Íslandi„. Blaðið „grípur niður í þessari jólabók Norðra þar sem höfundur fjallar m.a. um álitamál fornleifafræðinnar“:

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn (1916-1982).

„Öllum fornleifum fylgir sá kostur, að þær eru áþreifanlegar og ótvíræðar að vissu marki. Rituð heimild getur verið tilbúin eða ýkt, en sverð er sverð og spjót er spjót, hvorki meira né minna. Um sverð og spjót fornaldar er ekki til betri heimild en gripirnir sjálfir, sem varðveitzt hafa til þessa dags og fundizt við öruggar aðstæður.
Íslenzkar fornleifar úr heiðnum sið bregða skærara ljósi yfir tiltekin atriði í menningu fornmanna en hin bezta rituð heimild gæti gert. Þær sýna vopnaburð fornmanna, alvæpni þeirra, sverð, spjót, axir, örvar og skildi, hvernig allt þetta leit út og var smíðað. Á sama hátt sýna þær skartgripi karla og kvenna, skrautnælur margs konar, prjóna, bauga, festar og fleira, sem fólk bar á sér til skrauts og þarfa. Þær sýna list hins daglega umhverfis, í skartgripum og að nokkru leyti í hýbýlum, smekk og fegurðarskyn. Þær sýna verðmálminn, silfrið, hversu það var saman sett og með farið, vegið með smámetum á skálavogum. Þær sýna að nokkru dægrastyttingu manna, taflíþróttina.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn við uppgröft að Stöng í Þjórsárdal.

Þær sýna daglegan verkfærakost, þann sem ekki var smíðaður úr viðnámslitlu efni, jarðvinnslutæki, uppskeruáhöld, smíðatól, tóvinnutæki, jafnvel báta að nokkru leyti. Þær sýna samgöngutækið, hestinn altygjaðan, ójárnaðan á sumar, en bryddan á vetur, sömuleiðis járnaðan fót mannsins á ís eða hjarni. Loks veita þær glögga vitneskju um hina hinztu för, hversu búið var um lík dauðra og gengið frá kumlum þeirra.
Öll þessi atriði hafa verið gaumgæfð. Þegar þau koma saman, verður af býsna fjölbreytileg og skýr menningarmynd úr lífi hinna fyrstu kynslóða á Íslandi.
Það er því ómaksins vert að leggja rækt við fornleifarnar eins og hvern annan efnivið í íslenzka menningarsögu. En skylt er að hafa jafnan í huga, hve þröngum takmörkum þær eru háðar sem heimildir. Þótt sæmilega fjölbreytt sé, verður mynd fornleifanna af daglegu menningarumhverfi gloppótt sökum þess, að margir þættir þess voru gerðir af þeim efnum, sem tímans tönn vinnur á. Mörg verkfæri og annað, sem gert var af trjáviði einum, svo og klæðnaður manna, hefur að heita má horfið ummerkjalaust, og verður það skarð seint fyllt.

Fornminjar

Silfurnæla, kringlótt og kúpt, skreytt með upphleyptu mynstri sem er bönd er ganga undir og yfir hvert annað í hring út frá miðju. Nælunni fylgir brotin nál. Fannst við rannsókn á hestkumli hjá Mið Sandfelli.

Og manninn sjálfan að öðru en ytra menningargervi megna fornleifarnar ekki að sýna nema í mjög daufri birtu. Það er rétt, að með fornminjunum fylgja oft líkamlegar leifar fyrri manna, meira og minna heillegar beinagrindur. Þetta eru merkilegar heimildir um útlit og sköpulag fornmanna, og mu nú þær reynast drjúg uppspretta þekkingar um ætternislegan uppruna landnámsmanna.
En bæði fornleifar og mannfræðilegar leifar hafa lítið til mála að leggja um andlega menningu þeirra manna, sem þetta hafa eftir sig látið. Raunar er enginn smíðisgripur svo með öllu vesæll, að ekki sé einhver mannleg hugsun forsenda hans. En sú hugsun, sem dylst að baki hversdagslegs nauðsynjagrips, er hluti af verkmenningu smiðsins, en ekki andlegri menningu.
FornminjarFornminjarnar birta listasmekk og veita nokkra sýn til trúarsiða, einkum í sambandi við útför og legstað, en að öðru leyti er hugsunarlíf og andleg menning utan seilingar fornleifafræðinnar. Af þessu stafar það, að menningarmynd fornleifafræðinga af fjarlægum forsöguskeiðum hættir til að vera mjög einhæf. Fræðigreininni verður þó ekki gefið þetta að sök, meðan hún ætlar sér af í samræmi við þau takmörk, sem efniviðurinn setur henni.
Fornleifafræði víkingaaldar er ekki forsöguleg fornleifafræði í strangasta skilningi. Menningarmynd vora af Íslendingum 10. aldar þarf ekki að draga af fornleifum einvörðungu. Af sögum og kvæðum og lögbókum þekkjum vér andlega menningu þessa tíma eins vel og verkmenningu hans og list af fornleifum. Þegar öll kurl koma til grafar, er nú tiltækur ekki lítill forði þekkingar á andlegum og líkamlegum högum þjóðarinnar, þegar hún hóf vegferð sína í landinu.
FornminjarÞað er fyrsta skylda fornleifafræðinnar að draga öll gögn, sem hún ræður yfir, að sem heillegastri mynd af menningarbrag þess tímabils, sem hún fæst við hverju sinni. En hún getur ekki látið þar við sitja, heldur hlýtur hún að spyrja, hvers vegna hvað eina sé eins og það er, hverjar forsendur þess á fyrri skeiðum og hver afdrif þess. Hún reynir að rekja þróunarferil menningarinnar, og kemst þá óhjákvæmilega inn á svið sagnfræðinnar, enda keppir hún að sama aðalmarki. Hún reynir að leggja nokkuð til mála um rás viðburða, skapa sögu.

Fornminjar

Grafið í kumlið á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Kaldárhöfði er bær gegnt Dráttarhlíð austan við Sogið. Þar var einn bezti veiðistaður árinnar áður en   Steingrímsstöð var byggð.
Árið 1946 fannst eitt verðmætasta kuml úr heiðni (10. öld) hérlendis á hólmanum Torfnesi rétt hjá þessum veiðistað. Þarna voru grafin fullorðinn maður og barn í litlum báti. Meðal muna, sem voru lagðir í hauginn með þeim, var alvæpni og silungadorg. Þessi fundur er oftast kenndur við Úlfljótsvatn, þótt hólmurinn sé í landi Kaldárhöfða.
Skammt frá bænum er tótt vöruhúss Skálholtsstaðar við ferjustaðinn yfir Sogið. Ein þjóðsaga Jóns Árnasonar segir frá gíg ofarlega í Soginu, þaðan sem bitmýið við ána sé upprunnið.

En sú saga, sem sögð er eftir heimildum fornminja einum, er ófullkomin og öðruvísi ásýndar en sú, er styðst við ritaðar heimildir. Því verður þó að taka, þegar fengizt er við hin löngu forsögulegu skeið mannkyns, sem enginn ritaður stafur bregður birtu yfir. Þá verður að reyna að nota fornminjar til að rekja hina stærstu sögulegu drætti ásamt menningarsögulegri þróun.
Nú er tímabil það í ævi íslenzku þjóðarinnar, sem fengizt er við í þessari bók, ekki forsögulegt skeið. Um það eru ritaðar heimildir, hvenær landið fannst, hvenær þjóðin tók kristni, hvaðan landnámsmenn komu og hverjir voru helztu viðburðir hér á 10. öld. í samanburði við þessar heimildir eru fornleifar tímabilsins engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar. En þær fylla þessar heimildir á sinn hátt og eru mikilsverður mælikvarði á gildi þeirra, geta eflt eða veikt traustið á áreiðanleik þeirra.
Kunnugt er af sögulegum heimildum, að írskir munkar fóru til Íslands ekki síðar en í lok 8. aldar, og slæðingur af þeim var hér á landi á seinni hluta 9. aldar.

Fornminjar

Grafið í kumlið á Torfnesi við Kaldárhöfða árið 1946. Fornleifafræðingar munu seint verða á ný svona töff í tauinu. Þarna var þó ærið tilefni til viðeigandi klæðnaðar!  Kumlið er sagt „Vestur af Vaðhól við Efra-Torfnes. Það er nú komið undir vatn nema lítill hólmi, þar sem það var hæst. Þar sem dysin var, er nú komið undir vatn“, segir í örnefnaskrá. 

Norrænir menn settust að í landinu um 870, en landnám þeirra hófst þó fyrst að marki um 890, og byggðu þeir síðan landið allt á næstu áratugum. Landsmenn tóku kristni árið 1000. Ef mælikvarði fornleifafræðinnar er lagður á þessar niðurstöður, kemur þetta í ljós: Rómverskir peningar frá um 300 e. Kr., fundnir á Austfjörðum, vekja grun um, að Ísland hafi fundizt, líklega frá Englandi, löngu áður en fornir sagnaritarar vissu. Byggð varð þó engin. Írskra einsetumanna sér ekki stað í fornminjum, en það hnekkir engan veginn sögulegum heimildum um þá. Norðurlandamenn nema allt landið um 900. Aðeins í einu kumli hafa fundizt gripir, sem taldir mundu vera frá fyrri hluta 9. aldar eða um 850, ef þeir hefðu fundizt á Norðurlöndum. Það eru Berdalsnælurnar frá Skógum í Flókadal, í Ásubergsstíl.

Fornminjar

Tveir möttluskildir eða nisti fundnir á uppblásnum stað nálægt Skógum í Flókadal.

Þessi eina undantekning styrkir aðeins þá meginreglu, að íslenzkir forngripir sögualdar eru 10. aldar gripir, sumir þó ef til vill frá lokum 9. aldar (Borróstíl). Annars hafa þær forngripagerðir, sem auðkenna 9. öld á Norðurlöndum, aldrei fundizt hér. Nefna má til dæmis jafnarma nælur, ýmsar gerðir kúptra nælna, spjót eins og Rygh 517 og Rygh 518, margar gerðir sverða. Það er 10. aldar byggð, sem blasir við í íslenzkum forngripgripum, heiðin, norræn 10. aldar byggð og menning, sú sem löngum er kennd við víkinga eða víkingaöld.
Fornminjarnar staðfesta söguna: landið hefur byggzt norrænum mönnum nálægt aldamótunum 900.

Fornminjar

Kúpt næla, forn, að gerðinni Rygh 656, Smykker 56. Úr kumli í Syðri-Hofdölum, Viðvíkurhreppi.

Í aðeins einu fornmannskumli hefur fundizt hlutur af þeirri tegund, sem yfirleitt er talin frá 11. öld á Norðurlöndum. Það er kúpta nælan Rygh 656 úr kumlinu í Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Þó er ekki loku fyrir skotið, að sú gerð hafi eitthvað verið farin að láta á sér brydda seint á 10. öld, og má því kuml þetta vera frá því fyrir 1000. En þótt svo væri ekki og þarna væri ein undantekning, sýna kumlin sem heild, að heiðnir grafsiðir hafa ekki haldizt hér fram á 11. öld að neinu ráði. Haugféð er frá 10. öld. Þannig kemur vitnisburður fornleifanna einnig ákjósanlega heim við hið sögulega ártal um lok heiðins siðar.

Fornminjar

Þríblaðanæla frá 10. öld með sérstæðum skrauthnút, fundin hjá Hóli í Hjaltastaðarþinghá í Norður-Múlasýslu en fundaraðstæður ókunnar. Mun þó úr kumli konu.

Af þessum samanburði sést, að fornleifafræði og sagnfræði fylla hvor aðra í smáatriðum, en ber algjörlega saman um aðalatriði, sem hvor um sig gæti borið sjálfstætt vitni um. Þótt ekki væru sögulegar heimildir, gætu fornleifarnar veitt örugga fræðslu um, að land þetta byggðist Norðurlandamönnum um 900 og hér bjó heiðin þjóð á 10. öld. Þegar nánar er eftir innt, gerist ógreiðara um svör, og verður þó einhvers í að leita.
Hér að framan hefur verið reynt að sýna, að íslenzkir grafsiðir stangist ekki við hina fornu arfsögn, að Íslendingar séu af Norðmönnum komnir. Er þá röðin komin að haugfé og öðrum forngripum heiðins tíma, þeim er á Íslandi hafa fundizt.

Fornminjar

Sverð, sem fannst í kumli manns og ungs drengs, hjá Kaldárhöfða. Hjölt og knappur eru úr bronsi og knappurinn með fimm tungum.

Sami svipur er á norrænni víkingaaldarmenningu, hvar sem hennar verður vart, enda er fjöldi íslenzkra forngripa af samnorrænum gerðum og hefðu getað fundizt hvar sem er á öllu svæði þessarar menningar. Aðrar forngripategundir eru aftur þannig, að þær virðast hafa verið algengastar í einhverju tilteknu landi en finnast þó oft utan þess. Enn eru svo aðrar, sem hægt er að marka þrengri bás.“

Heimild:
-Samvinnan, 12. tbl. 01.12.1956, Kuml og haugfé – úr heiðnum sið á Íslandi; Kristján Eldjárn, bls. 29-31.

Kaldárhöfði

Úlfljótsvatn – dys í landi Kaldárhöfða, við Torfunes. Fundarstaðurinn nú komin undir vatn.

Fornleifafræði

Virt breskt forlag gaf út rit Adolfs Friðrikssonar „Samspil fornleifa- og sagna“ árið 1994:

Adolf Friðriksson

Adolf Friðriksson.

„Avebury-forlagið í Englandi hefur sent frá sér ritið Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology. Höfundur þess er Adolf Friðriksson fornleifafræðingur. Bókin er afrakstur rannsókna hans á árunum 1988-1991, er hann var við nám við Fomleifafræðistofnun Lundúnaháskóla. Adolf hefur hlotið viðurkenningar erlendis vegna þessa verkefnis, þ.á m. frá breska utanríkisráðuneytinu, nefnd háskólarektora í Bretlandi og minningasjóði Gordon Childe.
Jafnframt veitti Vísindasjóður aðstoð við lokafrágang verksins og handritið að bókinni hlaut verðlaun Gjafar Jóns Sigurðssonar. Árið 1993 hlaut Adolf námsstyrk franskra stjórnvalda og er nú búsettur í París við nám og rannsóknir við École des Hautes Etudes.
Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaelogy fjallar um samspil fornsagna og fornleifa í íslenskri rannsóknarhefð.

Adolf Friðriksson

Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology – Adolf Friðriksson.

Á bókarkápu kemur fram að umhverfi íslenskrar fornleifafræði er óvenjulegt því búseta á Íslandi hófst ekki fyrr en á víkingaöld, og jafnframt að til eru bókmenntir frá miðöldum er segja sögu Íslendinga frá fyrstu tíð.
Í bókinni er upphaf fornleifarannsókna á Íslandi rakið til áhuga og aðdáunar á fombókmenntunum. Í árdaga fornleifafræði voru sögurnar vegvísar fræðimanna á markverða minjastaði og voru þær lengi taldar geta aukið skilning á minjum víkingaaldar. Frumkvöðlar fornleifarannsókna og sporgöngumenn þeirra rannsökuðu greftrunarstaði fornmanna, hofminjar og þingstaði og fundu gjarnan augljósa samsvörun á milli minja og sagna er þeir töldu staðfesta gildi sagnanna.
Þegar samspil sagna og minja er skoðað kemur m.a. í ljós að alþýðuskýringar sem finna má um flesta minjastaði, hafa leikið stórt hlutverk.
Alþýðuskýringar um minjar sem taldar em frá fornöld eru fyrst og fremst heimildir um áhuga manna og forvitni, en ekki traustar vísbendingar um uppruna minja. Þessar skýringar hafa hins vegar verið færðar í búning vísindalegrar rannsóknasagna sem hafa haft afgerandi áhrif á ályktanir rannsakenda um aldur og eðli minjanna.

Sagnfræði

Sagnfræði – Möðruvallabók.

Á síðustu árum og áratugum hefur mjög dregið úr áhrifum örnefna, alþýðuskýringa og Íslendingasagna í fornleifafræði, enda hafa fræðimenn meiri efasemdir um heimildagildi þeirra. Nýjar kynslóðir fornleifafræðinga hafa kosið að yfirgefa fræðihefðina og stunda „sjálfstæða“ fornleifafræði. Komið hafa fram kenningar þar sem reynt hefur verið að kollvarpa fyrri hugmyndum um upphaf byggðar og fornleifafræðingar hafa leitast við að finna rannsóknastaði utan sögusviðs mennta. Þessi viðhorf byggja ekki á skýrum röksemdum um gang eða ógang Íslendingasagna við fornleifar og víða megi finna yfirlýsingar fornleifafræðinga um þessi efni. Rannsóknarhefðin hefur verið yfirgefin án athugunar á eðli hennar og takmörkum.

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Arnarfirði. Um er að ræða sjálfstæðan fornleifauppgröft þrátt fyrir ritheimildir.

Þrátt fyrir yfírlýsingar um gagnsleysi Íslendingasagna við fornleifarannsóknir má finna sterk áhrif þeirra í verkum hörðustu gagnrýnenda rannsóknarhefðarinnar. Mótsagnir af því tagi spilla mjög trúverðugleika niðurstaðna þeirra. Í ljósi þessa er mikilvægt að horfa um öxl og skoða eðli rannsóknarhefðarinnar, sögu rannsókna, og leggja mat á hugtök og aðferðir.
Bókin skiptist í sex kafla. Helstu einkenni íslenskrar fornleifafræði eru kynnt í inngangi. Í næstu fjórum köflum er fjallað um minjar um upphaf byggðar, trúarbrögð, þinghald og búsetu. Í lokakafla er rakin þróun fræðigreinarinnar í samhengi við breyttan tíðaranda og litið til framtíðar. Sagas and popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology er 240 bls. að stærð og prýdd flölda mynda, korta og teikninga.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 259. tbl. 12.11.1994, Samspil fornleifa og sagna – Adolf Friðriksson, bls. 21.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám. Minjarnar eru hvergi skráðar í ritheimildum.

Krummi

Margrét Hermanns-Auðardóttir skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2002 undir yfirskriftinni „Minjavernd á villigötum„:

Margrét-Hermanns-Auðardóttir

Margrét-Hermanns-Auðardóttir.

„Í helgablaði Morgunblaðsins 16. júní sl. birtist tvöfalt viðtal við forstöðumenn Þjóðminjasafns („Þjóðminjavarslan mun vaxa“) og nýstofnaðrar Fornleifaverndar ríkisisns („Vernd í sátt við þjóðina“), sem veitir leyfi til fornleifarannsókna og hefur eftirlit með þeim og öðru sem varðar vernd og varðveislu fornleifa þjóðarinnar. Tilefnið var viðtal í blaðinu við mig sem birtist viku áður. Fyrri grein mín, sem er að finna á netútgáfu Morgunblaðsins í fullri lengd takmarkast að mestu við leiðréttingu rangmæla í þessum „viðbrögðum“ forstöðumannanna, einkum forstöðumanns Þjóðminjasafns, sem nauðsynlegt er að gera, og í framhaldi viðtalanna í Kastljósþætti í ríkissjónvarpinu og annarri umfjöllun þessu tengdri sem fylgdi í kjölfarið og birtist hvað mest í Morgunblaðinu á þessu „mesta uppgraftasumri allra tíma“.

Fornleif

Fornleifauppgröftur.

Í þeirri grein er m.a. fjallað um þýlyndi við útlendinga sem hleypt er eftirlitslaust í 43 fornleifastaði þjóðarinnar, óráðsíu í málefnum Þjóðminjasafns, skil á gripum og einokunarhneigð í fornleifarannsóknum auk leyfisveitinga til stórtækra inngripa í eitt dýrmætasta fornleifasvæði landsins á Gásum í Eyjafirði. Leiðrétting rangmæla hefur dregist m.a. vegna tregðu í kerfinu við að veita umbeðnar upplýsingar, t.d. tók það Fornleifavernd ríkisins á 2. mánuð að verða við upplýsingum sem varða rannsóknaleyfi á liðnu sumri, og þá að takmörkuðu leyti, þegar þær bárust loks.
UppgröfturSíðari grein mín fjallar um „Nauðsyn á stefnu í fornleifavernd og vísindalega fornleifafræði„. Í henni er fjallað um stöðu fornleifaverndar frá sjónarhóli utan íslensku kerfismúranna, hina hlið málsins, ef svo mætti segja, sem ekki verður ráðin af ofangreindum viðtölum í Morgunblaðinu við forstöðumenn Þjóðminjasafns og Fornleifaverndar ríkisisns. Að draga fram þessa hlið málsins er viðleitni til að skýra nauðsyn þess að hafa vísindalega fornleifafræði að leiðarljósi við skilvirka varðveislu fornleifa þjóðarinnar, fylgja settum lögum og reglum hvað sem gengur á og hvaða þrýstingi sem beitt er, ekki síst þegar leyfi eru veitt til að raska fornleifum með uppgreftri.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Minjaverndin rekur augljóslega á reiðanum vegna holskeflu stóruppgrafta (m.a. þökk sé Kristnihátíðarsjóði), að verulegu leyti með „persónu- og sögudýrkandi“ forngripaleit að leiðarljósi, þar sem ófáum sem það stunda leyfist að vaða úr einum uppgreftrinum af öðrum án þess að hafa skilað af sér fyrri verkefnum sem skyldi. Í síðari greininni, verður þó ekki komist hjá því einnig að andmæla sumu af því sem fram kemur hjá forstöðumanni Fornleifaverndar ríkisins í viðtali hennar í Morgunblaðinu. Stefnumörkun í þágu fornleifaverndar og vísindaleg fornleifafræði er þó í fyrirrúmi í þeirri grein.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur.

Hér á eftir fylgja valdir kaflar úr greinum mínum, sem er að finna í fullri lengd á netútgáfu Morgunblaðsins eins og áður segir. Áhersla er lögð á það enn á ný, hversu torskilið það ætlar að reynast hjá framkvæmdavaldinu, að vernd og varðveisla jarðfastra fornleifa kallar á annars konar sérhæfni og skyldur en safnastörf. Stjórnvöld hafa ekki skilið enn sem komið er mikilvægi þess, að aðeins á styrkum stoðum fornleifafræðinnar sem sjálfstæðs vísindasviðs á háskólastigi er unnt að byggja upp hjá okkur ábyrga skilvirka fornleifavernd og fornleifafræði.

Lagði Þjóðminjasafn grunninn að Fornleifavernd ríkisins?

Margrét Hallgrímsdóttir

Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjastjóri.

Í viðtali Morgunblaðsins 16. júní sl. segir forstöðumaður Þjóðminjsafns: „Að Þjóðminjasafn hafi undanfarin sex ár lagt grunninn að Fornleifavernd ríkisins. Árangurinn af þessari vinnu má meðal annars sjá í nýju þjóðminjalögunum.“ Sannleikurinn er sá, að forstöðumaðurinn lagðist gegn aðskilnaði fornleifavörslunnar frá Þjóðminjasafni, enda var augljós fylgifiskur slíkrar breytingar skerðing á valdsköku hennar. Allt frá endurskoðun þjóðminjalaga 1988–89 hefur ítrekað verið lagt til að fornleifaverndin fengi sjálfstæða stöðu, og við síðustu endurskoðun þjóðminjalaga 2000–2001 voru nær allir fornleifafræðingar auk margra safnamanna fylgjandi slíkri breytingu.

Þjóðminjasafnið

Í Þjóðminjasafninu – fólk að horfa á það er skiptir nánast engu máli í stóra samhenginu…

En líkt og hjá öðrum þjóðum var mikilvægt að vernd fornleifa og eftirlit fornleifauppgrafta í landinu fengi sjálfstæða stöðu, óháð þeim skyldum og kvöðum sem hvíla á minjasöfnum. Meginhlutverk Þjóðminjasafnsins er að stuðla að sýningum og annarri kynningu „á minjum um menningarsögu þjóðarinnar“, sinna rannsóknum og varðveislu gripa og annarra menningarverðmæta þjóðarinnar sem varðveitt eru í safninu. Hjá öðrum í okkar heimshluta er það almennt viðurkennt að fornleifavernd kalli á annars konar sérhæfni og skyldur en safnastörf, enda útilokað að koma jarðföstum fornleifum fyrir í söfnum!

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi framkvæmda.

Fornleifavernd hefur engan veginn verið sinnt sem skyldi hér á landi, þrátt fyrir að við búum við betri aðstæður miðað við flest önnur lönd, þar sem þéttbýli og tilheyrandi framkvæmdir ógna fornleifum í miklu meira mæli en hjá okkur. Þessa stundina rekur yfirleitt á reiðanum í stjórnsýslunni vegna hagsmuna „vinavæðingar“ hér heima (sbr. t.d. Mbl. 23. júlí: „Einkavinavæðing út yfir gröf og dauða“) og þýlyndis við útlendinga, utan við lög og reglur. Ef ekki, sem er sjaldnar, þá eru þeir ágallar sem nú koma í ljós, þrátt fyrir gildistöku nýrra þjóðminjalaga, fyrst og fremst vegna áberandi vanþekkingar á því hvernig hlutunum er forgangsraðað við vernd og varðveislu fornleifa. Sú forgangsröðun, ef slíka skyldi kalla, er hér önnur en í öðrum Evrópuríkjum, þar sem fornleifafræðin sem vísindasvið hefur löngum átt sér sterka stöðu við helstu háskóla.

Er HÍ hindrun fyrir fornleifafræði sem vísindasvið?

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur á selstöðu, sem hvergi var getið í rituðum heimildum.

Það virðist greinilega þörf á að skýra, að alþjóðleg fornleifafræði hefur einkum mótast sem sjálfstætt vísindasvið við rannsóknir á mannvistarleifum (fornleifum) frá forsögulegum tíma. Ritmálið kemur fyrst inn í myndina á síðustu árþúsundum á þeim óralanga tíma sem þróun mannkyns spannar. Þar af leiðandi hafa þær aðferðir og túlkunarhefðir sem fornleifafræðin hefur þróað, grundvallast umfram annað á því að mæla, flokka og ráða í þann margþætta og flókna vitnisburð sem jarðfastar fornleifar frá mismunandi tímum hafa að geyma, bæði fyrir og eftir tilkomu ritheimilda.

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Arnarfirði. Um er að ræða sjálfstæðan fornleifauppgröft, þrátt fyrir ritheimildir.

En fornleifafræðileg nálgun er ekki síður nauðsynleg við rannsóknir á fornleifum frá sögulegum tíma. Hún er því einnig mikilvæg við rannsóknir á fornleifum okkar, sem geyma dýrmætan vitnisburð um ótalmargt sem viðkemur afkomu og verkmenningu þjóðarinnar í heild, sambúð hennar við landið og óblíð náttúruöfl allt aftur á landnámstíma.

Það er hverjum hugsandi manni ljóst, að allt um þetta er ekki að finna í varðveittum ritheimildum, sem auk þess eru snöggtum yngri en elstu minjar um búsetu í landinu. Það er hins vegar alls ekki viðurkennd aðferðafræði innan fornleifafræðinnar (og á raunar við um vísindarannsóknir á hvaða sviði sem er) að gefa sér niðurstöðu fornleifauppgraftrar fyrst á sögulegum grunni, og leita svo allra ráða til staðfestingar á „trú“ sinni (þ.e. fyrirframgefinni niðurstöðu).

Hrísbrú

Fornleifauppgröftur að Hrísbrú.

Eða „ganga í skrokk“ á helstu minja- og sögustöðum með leit að tiltölulega vel þekktum atriðum í seinni tíma sögu okkar að leiðarljósi, svo sem skólahúsum eða prentsmiðjum biskupa eða öðru slíku. Slíkt er ekki ámælisvert í þágu sögudýrkunar eða ferðaþjónustu, en þetta er hvorki vísindaleg fornleifafræði né samræmist heldur skilvirkri fornleifavernd. Þar er verið að villa okkur sýn.

Það er mikilvægt, að þeir sem fá leyfi til að stjórna uppgröftum á íslenskum fornleifum, hafi heildstæða menntun og lokapróf að baki í fornleifafræði og hafi öðlast reynslu og þroska (þ.e. skilning) á ábyrgð sinni. Slík hæfnisskilyrði fyrir rannsóknaleyfum er skilvirk (þ.e. ábyrg) fornleifavernd. Sérþarfir okkar (þ.e. þjóðarinnar) til viðhalds og styrktar eigin fornleifavernd og fornleifafræði eiga að vera í fyrirrúmi við veitingu uppgraftrarleyfa, enda slík afstaða ríkjandi í öðrum Evrópuríkjum, þar sem fornleifafræðin hefur löngum átt sér sterka stöðu við helstu háskóla. Sönn fornleifafræðikennsla (ekki sem hliðargrein eða þjónustufag við önnur fræðasvið á háskólastigi), er forsenda þess, að fornleifafræðin geti þróast áfram sem sjálfstætt vísindasvið hjá okkur!

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – kostaður uppgröftur á kirkjugólfi brunninnar timburkirkju frá 19. öld.

Hjá okkur hefur á hinn bóginn lítið sem ekkert faglegt aðhald verið fyrir hendi á sviði fornleifafræði. Nauðsynlegur bakhjarl fyrir þróun hennar sem vísindasviðs, hefur ekki verið fyrir hendi. Í Háskóla Íslands eru það „sagnfræðileg“ sjónarmið sem hafa ráðið því hvernig líta beri á hlutverk fornleifafræðinnar, án tillits til sjálfstæðis hennar sem háskólagreinar.

Í „opnu bréfi“ eins postulans í sagnfræðiskor (sem hefur setið á kennslustóli í aldarfjórðung) til „kollega“ sinna í heimspekideild á liðnu sumri, þegar hann gat ekki sætt sig við meirihlutaniðurstöðu samkennara sinna á fundi í sagnfræðiskor, þess efnis að vísa frá hlutdrægu dómnefndaráliti um umsækjendur um starf kennara í fornleifafræði við skorina og auglýsa starfið á ný.

Kristín Huld Sigurðardóttir

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar.

Þar segir hann orðrétt m.a.: „sagnfræðingar eru best allra fallnir til þess að meta hæfni fornleifafræðinga, því eitt meginhlutverk fornleifafræði er að framreiða rannsóknarniðurstöður til samanburðar og ögrunar við niðurstöður sagnfræðinga af ritheimildum“!

Höfundur er dr. í fornleifafræði og sjálfstætt starfandi fræðimaður í Reykjavíkur Akademíunni með 30 ára feril í fornleifarannsóknum hér á landi sem erlendis.“

Síðan eru liðin 23 ár – að því er virðist án nokkurra áþreifanlegra breytinga til batnaðar í undirstöðum fræðigreinarinnar. T.d. tekur a.m.k. nokkra mánuði fyrir „venjulegt“ fólk að fá einhver svör sem skipta máli frá nefndum stofnunum, ef þau fást þá á annað borð…

Heimild:
-Morgunblaðið, 254. tbl. 10.11.2002, Minjavernd á villigötum! – Margrét Hermanns-Auðardóttir, bls. 34-35.

Fornleifafræði

Sagnfræði og fornleifafræði – þar sem fræðigreinarnar mætast…

Reykjavík

Lilja Björk Pálsdóttir skrifaði skýrslu um „Steinbryggjuna, framkvæmdaeftirlit og frágang árin 2018-2019“ á árinu 2020:

Aðdragandi rannsóknar og heimildir um minjarnar

Lilja Pálsdóttir

Lilja Björk Pálsdóttir.

„Vor og sumar árið 2018 var unnið að framkvæmdum í Tryggvagötu austan Pósthússtrætis auk Steinbryggju. Vitað var að leifar gömlu Steinbryggjunnar (Bæjarbryggjunnar) var að finna á þessum stað enda höfðu hlutar hennar áður komið fram við fornleifarannsóknir í Pósthússtræti. Í upphafi var áætlað að á svæðinu færi fram yfirborðsfrágangur ásamt minni háttar lagnavinnu og tekið fram að ekki þyrfti að ráðast í jarðvegsskipti á svæðinu.

Markmið og aðferðafræði
Markmið með rannsókninni var að hafa eftirlit með þessum framkvæmdum, og þá sérstaklega á gatnamótum Tryggvagötu og Pósthússtrætis þar sem vitað var um minjar.
Um framkvæmdavakt með framkvæmdaeftirliti og bakvakt var að ræða þar sem fornleifafræðingur var ávallt viðstaddur þegar jarðrask átti sér stað á svæðinu en sinnti annars daglegu eftirliti þegar verið var að vinna.
ReykjavíkÞegar minjar komu í ljós var hreinsað frá þeim jafnóðum. Notast var við vélgröfu til að fjarlægja yfirborðslög og uppfyllingar en minjarnar voru fínhreinsaðar með handafli til að koma í veg fyrir skemmdir.

Rannsóknin og niðurstöður
Verkið skiptist niður á tvö ár, 2018 og 2019. Árið 2018 var að mestu unnið á gatnamótum Pósthússtrætis þar sem tvö byggingarstig bryggjunar auk hafnargarða voru grafin fram, en einnig mestur hluti austurbakka Steinbryggjunar. Stærri hluti bryggjunar var svo afhjúpaður árið eftir. Mest var um framkvæmdavakt að ræða á meðan á framkvæmdum stóð en unnið var við lagnavinnu ýmisskonar. Reynt var að laga staðsetningu lagnanna að minjunum og tókst það að mestu.
ReykjavíkYfirborðslög og uppfylling voru fjarlægð með vélgröfu en þegar komið var niður að minjum voru þær hreinsaðar betur fram með skóflum, múrskeiðum og burstum.
Þrátt fyrir góða varðveislu vantaði steina á nokkrum stöðum í yfirborðslögnina og var því leitað eftir því hjá Minjastofnun að fá leyfi til að fjarlægja nokkra steina úr suðurenda lagnarinnar sem þegar var raskaður, til að fylla inn í þar sem vantaði. Voru til þess notaðir steinar syðst úr hleðslunni en óskað hafði verið eftir því við Minjastofnun að fá leyfi til að fjarlægja þá steina vegna framkvæmda. Með þeirri aðgerð varð stétt Steinbryggjunnar heildstæð.
ReykjavíkVið stækkun svæðisins kom í ljós hluti af járnbrautarteinum þeim sem lagðir voru til að ferja varning af bryggju og upp á hafnarbakkann. Teinarnir höfðu einnig komið í ljós við fyrri rannsóknir og höfðu þá verið mældir upp. Þegar ráðist var í miklar endurbætur á bryggjunni með því að skipta út maðkétnu timbri fyrir grjóthleðslur árið 1892, var jarðvegi mokað yfir þessa járnbrautarteina og þeir þar með teknir úr notkun. Á ljósmynd sést hækkunin vel sem varð á Steinbryggjunni við þessa framkvæmd.

Garðurinn rofinn
Komið var rof í garðinn vegna lagnavinnu sem áður hafði farið fram og því var ekki hægt að sjá bein tengsl hans við bryggjuna. Hár bakki uppfyllingarefnis lá upp að og yfir austurenda garðsins. Hleðslurnar hafa sigið til vesturs og er líklegt að það hafi að mestu gerst við síðari tíma lagnavinnu. Að öðru leyti var hleðslan þétt og stöðug.
ReykjavíkGrjótið sem notað hefur verið í hleðsluna er ótilhoggið holtagrjót úr Öskjuhlíð. Valið hefur verið stórt grjót, allt að 0,70m í þvermál. Smærri steinar voru notaðir til að skorða þá stærri. Vélgrafið var niður á um 2,5 metra sem var nauðsynleg fyrir vatnsbrunn og lagnir tengdar honum. Sást í allt að fjögur umför hleðslugrjóts á þessu dýpi. Ofan garðsins og að hluta yfir honum lágu vatns- og rafmagnslagnir sem þjóna Tollhúsinu við
Tryggvagötu 19. Skráning sniðsins gekk því erfiðlega en teknar voru ljósmyndir af garðinum eins og hægt var og teiknað eftir þeim. Hleðslur hafnargarðs sáust einnig austanmegin við Steinbryggjuna. Hleðslurnar höfðu orðið fyrir raski vegna síðari tíma framkvæmda en þær voru óhreyfðar upp við bryggjuna.
Þessi hluti hafnargarðsins var upphaflega hlaðinn á árunum 1913-1917 en var endurhlaðinn árið 1928.

Steinbryggjan í heimildum
ReykjavíkÍ skýrslu sem gefin var út árið 2015 af Fornleifastofnun Íslands ses. í tengslum við fyrrnefndar rannsóknir voru teknar saman eftirfarandi heimildir um bryggjuna sem hér eftir verður vísað til sem Steinbryggju:
“Fram á seinni hluta 19. aldar voru einu bryggjurnar í Reykjavík, timburbryggjur sem kaupmennirnir reistu sjálfir. Árið 1884 var hins vegar fyrsta bryggjan gerð, sem byggð var á vegum yfirvalda eftir nokkurra ára umræðu um frjálsan aðgang að bryggju í Reykjavík. Bryggjan hét formlega Bæjarbryggjan, en var yfirleitt kölluð Steinbryggjan. Bryggjan, sem lá beint undan Pósthússtræti, var byggð af Jakobi Sveinssyni trésmiði, og var hún upprunalega að hluta úr tré og að hluta úr steini. Bryggjan þótti illa smíðuð. Nokkrum mánuðum eftir að hún var tekin í notkun var ritað um hana í Ísafold:

Reykjavík

Steinbryggjan 2020.

„Bæjarbryggjan mikla, er bæjarstjórnin hefir snarað í um 10,000 kr., en sem er svo vísdómslega gerð, að það verður hvorki lent við hana um flóð nje fjöru, og sjór gengur upp eptir henni endilangri, ef ekki er nærri hvítalogn, og er þá ekki fyrir aðra en vatnsstigvjelaða að nota hana.“
Árið 1892 var bryggjan því endurbætt, og sá hluti hennar sem áður var úr tré hlaðinn úr grjóti. Árið 1905 var enn unnið að endurbótum á bryggjunni undir stjórn Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Ekki þótti þetta takast betur til en svo, að eftir viðgerðina fór bryggjan að síga og var hún þá kölluð Tryggvasker eða Tryggvaboði. Eftir að hafnargerðin hófst árið 1913 minnkaði hlutverk bryggjunar enn frekar og hvarf hún á endanum undir hafnarfyllingu á árum heimstyrjaldarinnar síðari.
Það voru þó ekki einungis bátar sem lögðust upp að Steinbryggjunni heldur segir frá í Mannlífi við Sund að flugvélar hafi lagst upp að henni áður en flughöfn var byggð í Örfirisey.
Engir gripir komu í ljós enda um að ræða svæði þar sem um uppfyllingu frá síðari tímum var að ræða ofan á og við minjarnar sjálfar auk enn yngri lagnafyllinga.“

Heimild:
-Steinbryggjan, Framkvæmdaeftirlit og frágangur árin 2018-2019, skýrsla Fornleifastofnunar Íslands 2020.

Reykjavík

Steinbryggjan við uppgröft.

Húshólmi

Orri Vésteinsson skrifaði grein í Morgunblaðið 2001 undir fyrirsögninni: „Fornleifar eru auðlind„:

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson – „Það er enginn skortur á fornleifum þó að viljann skortitil að nýta þær“.

„Nýverið kom út skýrsla á vegum samgöngumálaráðuneytis um menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi. Flestir sem starfa að íslenskri menningu hljóta að fagna henni enda er þar tekin afdráttarlaus afstaða með nauðsyn þess að efla menningartengda ferðaþjónustu. Í skýrslunni eru settar fram hugmyndir um leiðir sem ríkisvaldið hefur til að styðja þennan vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs. Er öruggt að þær verði til góðs ef þær komast í framkvæmd.
Í skýrslunni er sú forsenda gefin að hér á landi séu ekki fornleifar sem vert sé að kynna (s. 17) og þess vegna beri fyrst og fremst að leggja áherslu á bókmenntir og sögu þjóðarinnar í menningartengdri ferðaþjónustu. Á þeim grundvelli er sett fram ákveðin skoðun á framvindu Íslandssögunnar og hvaða atriði á hverju tímabili séu helst líkleg til að vekja áhuga.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu. Fundust við uppgröft.

Það er full ástæða til að efast um nauðsyn þess eða gagnsemi að ríkisvaldið byggi stefnu sína í ferðaþjónustu á einni tiltekinni söguskoðun, og víst er að í þessu tilfelli hefur þessi afstaða byrgt sýn á þá fjölmörgu möguleika aðra sem eru á vexti á þessu sviði. Ekki er hægt að kenna um áhugaleysi, því í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsyn aukinna fornleifarannsókna (s. 11, 23). Þar ræður fremur skortur á þekkingu á íslenskum fornleifum og möguleikum til að hagnýta þær.

Íslenskar fornleifar

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.

Það er almenn skoðun en röng að ekki séu á Íslandi miklar eða merkilegar fornleifar. Íslendingar notuðu að vísu lengst af forgengileg byggingarefni eins og torf og tré þannig að mannvirkjaleifar skera sig ekki úr í landslaginu eins og byggingar úr
steini myndu gera. Það þýðir hinsvegar ekki að leifarnar séu ekki til eða að þær séu ekki áhugaverðar.
Á vegum Fornleifastofnunar er unnið að skráningu fornleifa um allt land og hefur nú verið safnað upplýsingum um 53.000 íslenska fornleifastaði. Skráningin nær til um 44% landsins þannig að ætla má að alls séu 120.000 fornleifastaðir á landinu öllu. Það er því enginn skortur á fornleifum þó að viljann skorti til að nýta þær.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi. Áþreifanlegar fornleifar.

Í nýlegri könnun um áhuga erlendra ferðamanna á íslenskum menningararfi kemur í ljós að flestir nefna fornleifar sem það atriði menningararfsins sem þeir höfðu mestan áhuga á. Hinsvegar kom í ljós að þessir ferðamenn töldu gæði kynningar á fornleifum hvað lakasta og var um þetta atriði mestur munur á væntingum ferðamanna og frammistöðu íslenskrar ferðaþjónustu (Rögnvaldur Guðmundsson: Sagnagarður Íslands, 2000). Með öðrum orðum þá stöndum við ekki undir þeim væntingum sem erlendir ferðamenn hafa um eðlilega þjónustu á þessu sviði.

Dæmi frá Orkneyjum

Keltar

Minjar Kelta á Orkneyjum.

Á Orkneyjum er ferðaþjónusta ein stærsta atvinnugreinin og hafa eyjaskeggjar um 3,5 milljarða íslenskra króna í tekjur af henni árlega. 23% ferðamanna nefna fornleifar sem meginástæðuna fyrir því að þeir heimsækja eyjarnar, en 73% nefna fornleifar sem eina af ástæðunum, þannig að tekjur hinna tuttugu þúsund Orkneyinga af fornleifum einum eru á bilinu 1-2 milljarðar íslenskra króna (upplýsingar frá Orkney Enterprise). Til Íslands koma tvöfalt fleiri ferðamenn og ætti því að vera raunhæft markmið að við gætum haft 2-3 milljarða tekjur á ári af þessari auðlind. Eins og er eru tekjur Íslendinga af fornleifum varla meiri en nokkrar milljónir á ári.

Orkneyjar

Orkeneyjar – keltneskar minjar.

Ástæðan fyrir því að ég tek Orkneyjar sem dæmi er að þar eru hvorki pýramíðar né kastalar sem setja svip sinn á landslagið heldur eru fornleifar þær sem vekja svo mikinn áhuga ekki ólíkar þeim íslensku að eðli og umfangi. Munurinn liggur í því að hinar orkneysku fornleifar hafa verið rannsakaðar og staðirnir í kjölfarið gerðir aðgengilegir gestum. Orkneyingar hafa verið lengi að við þetta og verið óhræddir við að fjárfesta í rannsóknum, kynningu á rannsóknarniðurstöðum og aðgengi að fornleifastöðum.

Hvernig getum við hagnýtt íslenskar fornleifar?

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ – skáli eftir uppgröft. Dæmi um vandaðan frágang og aðgengilegan.

Það eru margar leiðir til að hagnýta íslenskar fornleifar. Aðeins er fjallað um eina þeirra í áðurnefndri skýrslu, þá að gera fornleifauppgröft sem síðan er byggt á við kynningu á viðkomandi stað. Það er dýrasta leiðin og sú sem lengstan tíma tekur.
Ódýrari leiðir eru einnig til. Ljóst er að fjölmarga uppgrafna íslenska minjastaði mætti gera aðgengilega og kynna fyrir gestum. Í þeim skilningi má líta á eldri rannsóknir sem vannýtta auðlind.
En það þarf heldur ekki uppgröft til að hagnýta fornleifar. Sandblásin verbúð á eyðiströnd eða vallgróin beitarhúsatóft á lækjarbakka geta sagt meira um lífshætti og lífskjör Íslendinga á liðnum öldum en margar blaðsíður af ritmáli.

Borgarholt

Borgarholt – fyrrum selsminjar við Úlfljótsvatn?

Slíkar fornleifar er að finna um allt land og eru nánast endalausir möguleikar á því hvernig hægt er að nýta þær í ferðaþjónustu.

Kynning á slíkum minjastöðum byggist á því að líta á þá sem hluta af landslaginu og skynjun þess. Það gerbreytir upplifun ferðamannsins af íslenskri náttúru þegar honum er bent á minjar um íslenskt samfélag og komið í skilning um þá lífshætti sem hér tíðkuðust og þá lífsbaráttu sem hér fór fram. Það er ekki ómerkileg saga.

Reykjavik

Steinbryggjan við enda Pósthússtrætis, nú Bryggjugata.

Fornleifar hafa þann meginkost fyrir ferðaþjónustu að þær eru staðbundnar og krefjast þess að menn ferðist til að hægt sé að skoða þær öfugt við bókmenntir sem hver sem er getur notið í stofunni heima hjá sér. Þær hafa líka þann kost að þær eru dreifðar um allt land, sem þýðir að hægt er að hafa áhrif á hvert ferðamenn fara með því að stjórna uppbyggingu fornleifastaða.

Skynjun okkar Íslendinga af fortíðinni byggist nær alfarið á sögum og rituðu máli. Það er sérstaða okkar því fæstar aðrar þjóðir eiga jafnmikinn sagnaarf og við, eða eru jafnmeðvitaðar um hann. Það er sjálfsagt fyrir okkur að nýta okkur þessa sérstöðu í ferðaþjónustu, en það er ástæðulaust að láta hana takmarka möguleika okkar. Erlendis er mönnum tamara að skynja fortíðina í gegnum hluti byggingar, listaverk eða gripi – og þeir búast við því að þeim sé miðlað upplýsingum með sama hætta þegar þeir koma hingað. Hvers vegna eigum við að valda þeim vonbrigðum?“

Heimild:
-Morgunblaðið, 281. tbl. 07.12.2001, Fornleifar eru auðlind – Orri Vésteinsson, bls. 64.

Reykjavík

Steinbryggjan við enda Pósthússtrætis 1930.

Húshólmi

Í Morgunblaðinu 1998 kynnti Orri Páll Ormarsson sér sögu fornleifaskráningar á Íslandi, sem skiptist í nokkur góðæri með löngum harðindaskeiðum á milli, fræddist um starfið sem nú er verið að vinna og ræddi við Orra Vésteinsson, fornleifafræðing, undir fyrirsögninni „Fortíðinni forðað frá glötun„:

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar, nú í verulegri hættu vegna orkuframkvæmda.

„Sá dýri arfur sem fólginn er í fornleifum þessa lands er að hverfa. Þetta fullyrða fornleifafræðingar. Svo virðist sem Íslendingar, sem til þessa hefur verið annt um sögu sína og uppruna, haíí gleymt sér í töfraheimi tækninnar – fortíðin er fótum troðin. Nú er mál að linni, segja fornleifafræðingar. Vöknum til vitundar um illvirkið áður en það er um seinan!
Fornleifar eru ekki ótæmandi auðlind. Þjóð sem veit ekki hvaðan hún kemur getur ekki vitað hvert hún er að fara!

Beittasta vopnið í baráttunni fyrir varðveislu fornleifa er sú tegund grunnrannsókna sem nefnist fornleifaskráning. En hún er lítt þekkt meðal almennings hér á landi.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi orkuframkvæmda 2025 – og það þrátt fyrir alla viðleytni hlutaðeigandi um vonlega varðveislu.

Fornleifaskráning er kerfisbundin leit og skráning á fornum mannvistarleifum en án slíkra upplýsinga er ekki hægt að gera ráðstafanir til að vernda minjarnar. Skráning af þessu tagi hefur verið unnin jafnt og þétt í rúma öld í nágrannalöndunum og á sumum stöðum er hafin önnur eða þriðja umferð. Á Íslandi lauk fyrstu yfirferð um 1823 en þær upplýsingar eru að mestu gagnslausar eða úreltar sem tæki til minjaverndar eða annarrar stjórnsýslu á nútímavísu. Engin heildarskrá yfir fornleifar landsins er enn fyrir hendi. Er því lítið vitað um fornleifar á Íslandi, hve margar hafa eyðst á síðustu áratugum, hve margar eru hólpnar. Þetta er þó óðum að breytast.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

Markviss fornleifaskráning hefur opnað ýmsa nýja möguleika í fornleifavernd, að sögn Orra Vésteinssonar, fornleifafræðings sem stjórnar fornleifaskráningarstarfinu hjá Fornleifastofnun, og nú er hægt að áætla hversu margir minjastaðir séu á landinu öllu, rúmlega 100.000, hversu stórt hlutfall þeirra hefur orðið fyrir skemmdum eða eyðileggingu, allt að 60%, og hvaða svæði eða minjaflokkar séu í mestri hættu. Forsendur hafa því skapast til að gera nákvæmar áætlanir um umfang og kostnað við skráningu fornleifa og leggja þannig grunninn að öflugri minjavernd á næstu öld.
Orri VésteinssonOrri segir að á þeim stutta tíma síðan Fornleifastofnun byrjaði á skráningunni hafi hugmyndir fornleifafræðinga um íslenskar fornleifar tekið stakkaskiptum. „Við vissum lítið sem ekkert um þær í upphafi – hvorki hvað þær væru margar né hvers eðlis þær væru. Núna höfum við að minnsta kosti allgóða hugmynd um það og eftir nokkur ár munum við vita miklu meira. Við erum rétt byrjuð að fleyta rjómann ofan af þessum upplýsingum sem við höfum verið að safna en hægt verður að nýta þennan grunn mjög lengi, gera bæði skemmtilegar og gagnlegar rannsóknir á íslenskum fornleifum og miðla upplýsingum til ferðamanna um staði sem gaman er að heimsækja. Við teljum því nefnilega statt og stöðugt að með því að gera fornleifar meira spennandi vinnum við um leið að verndun þeirra.“

Hjátrúin betri en enginn

Flekkuvík

Flekkusteinninn – rúnasteinn í Flekkuvík.

Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi hófst árið 1817 er hin konunglega danska fornminjanefnd sendi spurningalista til allra sóknarpresta í landinu. Fékk nefndin upplýsingar um fomleifar af ýmsum toga á um 700 stöðum hringinn í kringum landið, einkum minjar tengdar söguöld, svo sem hauga, hof, þing og dómhringa. Frásagnir um þessar minjar voru umluktar þjóðsögulegri hulu og er þess víða getið að menn hafi reynt að grafa tilteknar minjar og orðið fyrir allskyns óhöppum fyrir vikið. Hefur hjátrúin, að sögn Orra, reynst betri en enginn við varðveislu fornleifa. Nefndin gekkst fyrir fyrstu friðlýsingunum í sögu íslenskrar minjaverndar og friðaði meðal annars Snorralaug í Reykholti, dómhring á Þórsnesi á Snæfellsnesi og allnokkra steina með rúnaáletrunum.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið +/- 874 er í garðinum.

Undir miðja 19. öld sendi Hið íslenzka bókmenntafélag sóknarprestum spumingalista um nærri allt milli himins og jarðar, enda hugðist félagið gefa út allsherjarlýsingu á landi og þjóð. Því verki lauk aldrei en skýrslur frá prestum, sem varðveist hafa, geyma upplýsingar um fornleifar í flestum sóknum þótt víða hafi menn svarað erindinu á þann veg að í þeirra sókn væri „engar fornleifar“ að finna. Fornleifar eru auðvitað alls staðar þar sem einhver mannvist hefur verið en þessi sérkennilegu viðbrögð segir Orri að megi væntanlega skýra með því að skýrsluhöfundar hafi talið að einungis væri verið að leita markverðra fornleifa. „Enn í dag eru þetta oft fyrstu viðbrögð ábúenda þegar skráningarmaður mætir á vettvang til að spyrjast fyrir um minjastaði.“

Kristian kålund

Peter Erasmus Kristian Kaalund (1844–1919).

Er líða tók á 19. öldina hófst sjálfstæðisbaráttan og um leið jókst áhugi Íslendinga á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem unnt var að fella saman við lýsingar á fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna og var það danski norrænufræðingurinn Kristian Kálund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í því skyni að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans, Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-82, er enn meðhöndlað sem undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir, að því er fram kemur í máli Orra.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838-1914).

Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra vítt og breitt um landið í þrjá áratugi. Fyrir þeim fóru Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kálunds – að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöld.
Sigurður og Brynjúlfur skráðu fjölda rústa og birtu niðurstöður sínar jafnóðum í Árbók fornleifafélagsins.

Hlutlægari aðferðir
Um síðustu aldamót voru hér einnig á ferð danski kafteinninn Daniel Bruun og Þorsteinn Erlingsson skáld en þeir beittu heldur hlutlægari aðferðum en Sigurður og Brynjúlfur. Báðir reyndu þeir að lýsa og skilgreina tegundir fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fyrstu íslensku þjóðminjalögin, svonefnd „Lög um verndun fornmenja„, voru samþykkt árið 1907 og embætti fornminjavarðar – síðar þjóðminjavarðar – sett á laggirnar.

Húshólmi

Húshólmi – teikning Brynjúlfs í Árbókinni 1903.

Með þessum lögum voru fornleifar skilgreindar með lagabókstaf og þjóðminjaverði heimilað að friðlýsa minjastaði. Bar honum jafnframt að semja skrá yfir allar fornleifar sem honum þótti ástæða til að friða. Lögðust leiðangrar Fornleifafélagsins þá af að mestu.
Á árunum 1926-30 var fjöldi fornleifa tekinn á friðlýsingaskrá. Friðlýsingar þessar byggðust einkum á rannsóknum Sigurðar og Brynjúlfs sem gerðar voru allt að öld áður. Út frá því dregur Orri þá ályktun að stefnan í minjavörslu á fyrri hluta aldarinnar hafi verið sú að varðveita einkum þá staði sem taldir voru sögualdarminjar.

Friðlýsingar frá árdögum opinberrar fornminjavörslu mynda meginhluta friðlýstra minja í landinu en að jafnaði hafa friðlýsingar verið stopular frá því á fjórða áratugnum.
Á sama tíma og dró úr sögustaðaskráningu í byrjun aldarinnar fór áhugi á örnefnum vaxandi og stóð Fornleifafélagið og síðar Þjóðminjasafnið að örnefnaskráningu um land allt.

Sigurður Vigfússon

Sigurður Vigfússon (1828–1892).

Í örnefnaskrám er oft að finna upplýsingar um minjastaði, eða mikilvægar vísbendingar um staði þar sem mannvirki hafa staðið áður en eru nú horfin.
Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar en ekki aðeins þær sem þóttu „merkilegar“, hófst í Reykjavík á sjöunda áratugnum og hefur staðið með löngum hléum síðan. Henni er ekki lokið. Skráning er líka hafin víðar um land en hvergi að fullu lokið á þann veg að út hafi verið gefin rækileg fornleifaskrá.
„Í kjölfar húsverndunaráhuga, sem efldist mjög á 8. áratugnum, fóru menn að hugsa skipulega um fornleifaskráningu,“ segir Orri.
„Þjóðminjasafnið reið á vaðið og stóð fyrir skráningu í samstarfi við nokkur þéttbýlissveitarfélög, einkum á suðvesturhorninu, þar á meðal flesta kaupstaðina í kringum Reykjavík.
HelgadalurAð mörgu leyti var þetta skynsamleg nálgun því fornminjar eru auðvitað í mestri hættu í þéttbýli. Þarna var því unnið mjög mikilvægt starf.“
Ólíkt fornleifakönnun 19. aldar, sem hafði það markmið að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðustu tvo til þrjá áratugi þannig fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum stóraukinnar þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði allt frá stofnun lýðveldisins.

Stórhöfði

Stórhöfði við Hafnarfjörð – nátthagi. Minjarnar eru enn óskráðar þrátt fyrir meinta fornleifaskráningu af svæðinu.

Segir Orri sveitarstjórnarmenn fyrir bragðið víða hafa tekið við sér og hlutast til um að hefja skráningu fornleifa í héraði.
„Það er gaman að lesa greinar sem menn skrifuðu um þetta vandamál um síðustu aldamót. Þá sáu þeir ofsjónum yfir eyðileggingu fornleifa af völdum túnaslétta með handverkfærum, sem var auðvitað ekki nema brotabrot af því sem síðar varð. Þetta segir okkur það að maður er alltaf aðeins of seinn! Í svo til hvert einasta skipti sem við komum í nýja sveit er gamli maðurinn sem vissi allt nýdáinn. Þetta er eitt af því sem maður verður að sætta sig við. Við getum líka huggað okkur við það, að þótt við séum heldur sein fyrir núna verður þessi skráning óvinnandi vegur eftir fimmtíu ár.“

Vatnaskil í minjavernd

Fossárrétt

Fossárréttin í Kjós 2011 – var friðlýst 16.03.1972. Fornleifarnar eru nú klæddar skógi.

Auk fornleifaskráningar á vegum sveitarstjórna hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Víða um land hefur áhugasamt fólk reyndar skráð fornleifar að eigin frumkvæði. Slíkar skrár eru, að hyggju Orra, misjafnar að gæðum en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.
Árið 1989 urðu vatnaskil í íslenskri minjavernd er Alþingi samþykkti ný lög um þjóðminjavörslu í landinu. Með nýjum lögum öðluðust allar fornleifar á Íslandi friðhelgi: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja…“ Á þetta jafnt við um fornleifar sem eru þekktar og sýnilegar og þær fornleifar sem koma í ljós við jarðrask af einhverju tagi. Brot gegn þessum ákvæðum varða sektum til ríkissjóðs eða þyngri refsingu.

Dalurinn

Fjárskjól frá Ási, hið síðasta innan bæjarmarka Hafnarfjarðar. Eyðilagt af verktökum vegna framkvæmda 2023.

Í þessum lögum var einnig það nýmæli að fornleifaskráning varð lögbundin forsenda skipulagsvinnu: „Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess…“
Árið 1993 voru einnig samþykkt lög um umhverfismat sem herða enn á fornleifavernd. Er nú ekki hægt að leggja í stórar framkvæmdir nema gerð hafi verið fornleifakönnun á undan.
Segir Orri þessa öru þróun í löggjöf í þágu minjaverndar kærkomna. „Til þess að fylgja mætti þessari löggjöf eftir var nauðsynlegt að þróa og bæta aðferðir við fornleifaskráningu. Til þessa hafði hún verið ómarkviss, hægvirk og afar kostnaðarsöm.

Kringlumýri

Horft niður á Kringlumýri, forna selstöðu frá Húshólmabæjunum. Selstaðan hefur aldrei verið fornleifaskráð þrátt fyrir að fornleifaskráningu svæðisins er sögð vera lokið.

Fornleifastofnun hefur unnið að endurbótum á skráningaraðferðum síðustu ár. Markmiðið með þessu óvenjulega samstarfi sveitarstjórnarmanna og fornleifafræðinga var að sameina ólíka hagsmuni minjaverndar, framkvæmdaaðila, skipulagsgerðar, ferðaþjónustu og almennrar héraðsstjórnar.“ Segir Orri árangurinn þegar vera að koma í ljós. Fjöldi minja hafi verið kortlagður og fornleifavernd og hagnýting minjastaða er tekin með í reikninginn við skipulagsvinnu og framtíðaráform í ferðaþjónustu. Þá gaf menntamálaráðuneytið út í júní síðastliðnum reglugerð með þjóðminjalögum, þar sem er að finna skilgreiningu á því í hverju fornleifaskráning er fólgin. Segir Oni þessa viðleitni ráðuneytisins stuðla að því að fagmannlega verði unnið að fornleifaskráningu framvegis og færa fornleifafræðingum beitt vopn í hendur í baráttu þeirra fyrir öflugri fornleifavernd á nýrri öld.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu. Selið hefur aldrei verið fornleifaskráð þrátt fyrir meinta fullnaðarfornleifaskráningu fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar.

Fornleifaskráning er nú eingöngu fjármögnuð af sveitarfélögum og framkvæmd að vilja og frumkvæði sveitarstjórnarmanna í hverju héraði. Þetta nýja hlutverk sveitarstjórna hefur að vísu ekki verið lögfest en Orri segir að í því felist umtalsverðir hagsmunir, meðal annars þar sem brýnt sé að til séu nákvæmar og aðgengilegar upplýsingar um menningarminjar. Þar að auki fari skilningur vaxandi á því að fornleifar séu vannýttar auðlindir í ferðaþjónustu.

En hvað eru fornleifar?

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel í Grafningi. Var fyrst nýlega fornleifaskráð þrátt fyrir nokkrar fyrrum skráningar á svæðinu.

Orri segir að skoðanir manna á því hafi breyst mikið á undanförnum áratugum. Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum séu nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Í lögum eru fornleifar skilgreindar á eftirfarandi hátt: „Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk era á… Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar…“
Í lögunum eru gefin allnokkur dæmi, svo sem byggðaleifar, bæjarstæði, húsleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli sem aldrei hefur verið fornleifaskráð.

Einnig vinnustaðir þar sem aflað var fanga, gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita, gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra; varnamannvirki; þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brannar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð; áletranir, greftranarstaðir og skipsflök.
Það er skýrt af þessari skilgreiningu að fornleifar eru ekki aðeins öll mannvirki í víðasta skilningi heldur einnig staðir sem á einn eða annan hátt tengjast menningu og atvinnuvegum.

Skálafell

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu.

Er þessari skilgreiningu nú fylgt við fornleifaskráningu, auk þess sem allar byggingar úr torfi og grjóti eru skráðar sem og önnur mannvirki sem eru vitni um horfið verklag eða tækni, þótt þau séu yngri en 100 ára. Þar með geta talist elstu steypubyggingar, byggingar úr blönduðu efni (torf, grjót, timbur, steypa, bárajárn) og mannvirki eins og heimarafstöðvar, sundlaugar, upphlaðnir vegir frá því fyrir jarðýtuöld, fiskplön, áveituskurðir og hvers kyns minjar aðrar sem tengjast umbreytingum í atvinnuvegum og lífsafkomu á fyrri hluta 20. aldar. Minjar sem tengjast seinni heimsstyrjöldinni, veru setuliðsins og framkvæmdum á vegum þess (vegir, flugvellir, braggahverfi, skotgrafir o.s.frv.) eru einnig skráðar að jafnaði.

Nauðsynlegnr undirbúningur

Hraun

Refagildra við Hraun. Gildran sú er með fjórum inngöngum, sem verður að þykja verulega  sjaldgæft. Refagildran, sem er ein af u.þ.b. 100 slíkur á Reykjanesskaganum hefur aldrei verið fornleifaskráð. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, er hér ásamt Sesselju Guðmundsdóttur o.fl.

Nauðsynlegar upplýsingar um gerð og ástand fornleifa er aðeins hægt að afla með vettvangsathugun og við það er venjulega átt með hugtakinu fornleifaskráning. Til þess að vettvangsathugun komi að fullu gagni verður, að sögn Orra, þó fyrst að taka saman ýmiskonar upplýsingar, bæði skriflegar og munnlegar, sem vísa á minjastaði og geta gefíð vísbendingar um hlutverk mannvirkjaleifanna. „Slík heimildakönnun er nauðsynlegur undirbúningur undir vettvangsathuganir en hún getur líka skilað sjálfstæðum niðurstöðum. Til eru heimildir sem geta gefið grófa mynd af fjölda, eðli og ástandi minja á ákveðnum svæðum og skipuleg heimildaúttekt í því skyni getur komið að gagni við skipulagsgerð jafnt sem minjavernd og rannsóknir.“

Gufuskálar

Brunnur (lind) við Gufuskála í Suðurnesjabæ. Lindin hefur aldrei verið fornleifaskráð. Skammt neðan hennar er meint bæjarstæði Steinunnar gömlu, sem einnig hefur ekki verið fornleifaskráð.

Aðferðir fornleifaskráningu fela í sér að skráningunni er skipt í þrjú afmörkuð stig og eru þar höfð til riðmiðunar þrjú stig skipulagsvinnu, það er svæðis-, aðal- og deiliskipulag.
Svæðisskráning felst í því að taka saman gögn annars vegar um þekktar fornleifar og hins vegar um atriði sem geta gefið vísbendingar um staðsetningu og eðli fornleifa. Á þeim grunni er lagt mat á fjölda, dreifingu, eðli og ástand menningarminja viðkomandi svæða og gerðar tillögur um verndun, nýtingu og frekari athuganir. Niðurstaða svæðisskráningar er annars vegar skýrsla með heildarmati á menninganninjum á svæðinu og hins vegar skrá yfir allar þær upplýsingar sem safnað hefur verið með kortgrunni sem aðalskráning fornleifa mun síðan byggjast á.

Hlöðunes

Hlöðunesleiði. Helgi Davíðsson í Vogum, þá  84 ára, var manna fróðastur um Ásláksstaði og nágrenni, en hann ólst þar upp og bjó þar lengi framan af. Helgi gat bæði bent á leiði Hlöðvers í Hlöðunesi og Hjónaleiðið á Ásláksstöðum. Helgi lést skömmu síðar.

Á því stigi skráningar, sem kallast aðalskráning, er farið á vettvang og viðtöl tekin við ábúendur eða aðra staðkunnuga. Markmið með viðtölum er að endurskoða þær upplýsingar sem þegar hefur verið safnað, fá upplýsingar um nýja staði og síðan leiðsögn um viðkomandi landareign.
Með hliðsjón af munnlegum og rituðum heimildum er síðan gengið á þá minjastaði sem upplýsingar hafa fengist um, en jafnframt eru athuguð svæði þar sem líklegt getur talist, út frá gróðurfari og öðram aðstæðum, að fornleifar leynist. Orri segir að á velflestum minjastöðum séu tóftir eða aðrar mannvirkjaleifar ekki sýnilegar og því ekki annað hægt að gera en komast sem næst staðsetningu minjanna og færa hana á kort. Er það gert með því að finna hnattstöðu staðarins með staðsetningartæki.

Reykjavík

Steinbryggjan við uppgröft við enda Pósthússtrætis í Reykjavík.

Þar sem fornleifar eru huldar sjónum er lögð áhersla á að komast að því fyrir hvers konar hnjaski þær geta hafa orðið, hvernig aðstæður voru áður á viðkomandi stað og reynt eftir fóngum að meta hvort staðurinn sé enn í hættu.
Þar sem tóftir eða mannvirkjaleifar eru sýnilegar er þeim lýst á staðlaðan hátt og gerður af þeim uppdráttur, auk þess sem þær eru færðar á kort og hnattstaða þeirra fundin. Áhersla er lögð á að fá skýra mynd af umfangi, lögun og ástandi minjanna en að öðra leyti er ekki um að ræða nákvæma rannsókn á hverjum stað. Einnig er ástæðum lýst og reynt að meta hvort minjastaðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.

Leynir

Skjól í Leyni ofan Lambhaga við Hafnarfjörð. Nú horfið vegna framkvæmda.

Ólíkt svæðis- og aðalskráningu fornleifa er ekki gert ráð fyrir að deiliskráning verði gerð á öllum minjastöðum. Deiliskráning er fyrst og fremst gerð þar sem verið er að vinna deiliskipulag og niðurstöður umhverfismats benda til að séu markverðar fornleifar sem rannsaka þarf nánar og þar sem haft er í hyggju að kynna minjastaði fyrir almenningi.
Markmið deiliskráningar er öðru fremur að fá nákvæmar upplýsingar um einstaka minjastaði eða minjar á litlum afmörkuðum svæðum. Aðferðirnar sem beitt er geta verið mismunandi eftir markmiði athugunarinnar en í minnsta lagi er gerð nákvæm yfirborðsmæling á minjunum og þeim lýst í smáatriðum. Sömuleiðis getur í sumum tilvikum verið æskilegt að grafa litla könnunarskurði, til dæmis til að komast að aldri minjanna eða þegar staðfesta þarf að um mannvirki sé að ræða.
Aðferðir deiliskráningar eru í aðalatriðum þær sömu og beitt er í rannsóknum í vísindaskyni og raunar er æskilegt að vísindaleg sjónarmið séu látin ráða ferðinni við uppgröft þótt tilefni athugunarinnar séu önnur.

Hefur gefið góða raun

Reykjavík

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913—17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. […] Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.
Við framkvæmdir þróunarfélagsins Landstólpa hefur hafnargarður frá Reykjavíkurhöfn sem fór undir landfyllingu árið 1939 komið í ljós. Garðurinn var reistur á fyrri stríðsárunum sem hluti af hafnargerðinni en hún var á þeim tíma stærsta og merkasta verklega framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í.
Garðurinn tengdist steinbryggju sem var við enda Pósthússtrætis. Nú horfinn undir byggingaframkvæmdir.

Orri segir þessa skráningartilhögun hafa gefið góða raun. Nú liggja fyrir um fimmtíu skýrslur með skrám um fornleifar á hverri jörð í allnokkrum hreppum. Framundan er þó mikið starf, því ætla má að einungis um 15-20% minjastaða séu komin á skrá og þar af hefur minna en fjórðungur verið skráður á vettvangi.
„Vöxturinn í greininni hangir saman við miklu meiri skipulagsvinnu. Nú er landið allt orðið skipulagsskylt og stefnt er að því að aðalskipulag fyrir það verði til á næstu áram eða áratugum. Í sambandi við þá vinnu á, samkvæmt lögunum, að fara fram fornleifaskráning og stefnum við að því að henni verði lokið eftir um tvo áratugi.“
Fornleifastofnun Íslands hefur þjálfað nokkurn fjölda manna í fornleifaskráningu. Segir Orri starfið fjölbreytilegt en að mörgu
leyti erfitt. „Það krefst þess að menn kunni á ritaðar heimildir, geti tekið viðtöl og séu tilbúnir að leggja á sig miklar göngur, meðal annars á fjöllum, og talsverða útivist. Þetta er óvenjulegt starf en skemmtilegt finnst okkur sem stundum það.“
En eitthvað hlýtur skráning sem þessi að kosta?

Reykjavík

Reykjavík – varðveittar minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.

„Vissulega. Fornleifaskráning er dýr, til dæmis í samanburði við sagnfræðirannsóknir, en reynt hefur verið að taka á þessu annars vegar með því að lækka kostnað með hraðari og staðlaðri vinnubrögðum en áður þekktust og hins vegar með því að efla skilning almennings á þeim verðmætum sem felast í starfi af þessu tagi. Ég held að þær sveitarstjórnir sem þegar hafa ráðist í fornleifaskráningu hafi að verki loknu yfirleitt verið undrandi á því hversu miklum upplýsingum tókst að safna á skömmum tíma. Þetta er þannig spurning um verðmætamat og ef menn skilja hvílík verðmæti felast í upplýsingum um fornminjar og sögu byggðar, þá má alveg eins segja að fornleifaskráning sé hlægilega ódýr.
Það hefur líka verið tiltölulega auðvelt að sannfæra almenning, sérstaklega sveitarfélög, um að það sé mikilvægt að setja pening í rannsóknir og skráningu af þessu tagi. Áhuginn er fyrir hendi – það þarf bara að virkja hann. Það hefur því ekki verið vandamál að fá þau verkefni sem við höfum borið okkur eftir.“
Orri segir það meira áhyggjuefni hversu fáir fornleifafræðingar séu í landinu og hversu fáir leggi stund á nám í þeim fræðum.“

Fornleifar

Friðlýstar fornleifar.

Framangreind grein er athyglisverð, 27 ára gömul opinber umfjöllun. Allt sem sagt er lýsir mikilli bjartsýni og góðri von fyrir hönd minjavörslu landsins.

Betra ef hvorutveggja hefði gengið eftir. Hið jákvæða er að fjöldi fornleifaskráninga hefur farið fram síðan skráð var, en draga þarf bæði gæði þeirra og viðbrögð embættismanna og kjörinna fulltrúa í efa.
Þegar horft er til gæðanna er ljóst að skráningaraðilar virðast líta framhjá allt of mörgum merkilegum fornminjum, líklega til að spara sér tíma og pening. Hin meintu viðbrögð má auk þess augljóslega sjá í hversu margföld minjaeyðileggingin hefur orðið á umliðnum árum og virðist fara ört vaxandi. Svo virðist sem og hinu opinberu stofnanir, sem eiga að gæta fornminja landsins, standi sig bara ekki í stykkinu…

-Morgunblaðið, 208. tbl. 15.09.1998, Fortíðinni forðað frá glötun – Orri Vésteinsson, bls. 32-33.

Húshólmi

Húshólmi – frágangur Fornleifaverndar ríkisins til upplýsingagjafar á staðnum til a.m.k. tíu ára. Staðsetningin og áhugaleysið getur varla lýst miklum metnaði af hálfu ríkisstofnunarinnar.

Rjúpa

Á Vatnsleysuströnd eru fjölmörg sel og stekkir frá nánast öllum bæjum þar fyrrum, jafnvel fleiri en ein/n frá sumum þeirra.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Saga seljanna og stekkjanna verður ekki sögð hér, enda hefur ítarlega verið um hana fjallað bæði annars staðar á vefsíðunni og víðar.
Í stuttu máli má þó segja að sagan hafi enduspeglað búskaparsögu landssvæðisins, frá upphafi þess til loka hinna gömlu búskaparhátta, sem óðum hafa fjarlægst okkur „nútímafólki“, eða við „nútímafólkið“ hefur fjarlægst því, þótt ekki væri nema hugafarslega.
Gallinn er hins vegar sá, ef marka má skráðar heimildir, að hvorki ábúendur né fornleifaskráendur virðast hafa áttað sig á forsögunni til vorra daga. Fornleifaskráningar bera a.m.k. þess skýr merki. Margra fornleifa er jafnan getið með vísan til örnefnalýsinga og annarra skráðra heimilda, einstaka er bætt um betur, s.s. „vörður“, sem oftar en ekki eru reyndar fornar refagildrur eða grenjamerkingar, en þá er því miður ógetið hinna mörgu fornleifa, sem hvergi er getið í skráðum skrám.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Reynsla FERLIRsfélaga er sú að verulega reynslu og góða innsýn í búsetusögu viðkomandi svæðis þarf til að skrá fornleifar af einhverju viti. Dæmi: Þegar félagsskapurinn byrjaði að leita uppi sel og selstöður á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs, var í fyrstu byggt á skráðum heimildum, s.s. jarðabókinni 1703 og öðrum slíkum. Þannig var hægt að staðfesta a.m.k. 103 slíkar. Næsti áfanginn var að leita uppi öll skráð örnefni með selsörnefni. Í kjölfarið bættust 121 áður óþekkt selstaða. Loks var stefnt að því að skoða allar landfræðilegar aðstæður er gætu boðið upp á selstöður, þ.e. dalverpi upp frá fornu bæjarstæði, graslendi í skjóli fyrir austanáttinni, graslendi við læk, við á eða vatnsstæði þar sem mætti a.m.k. merkja einhverjar mannvistarleifar, s.s. stekk, vörðu, nátthaga, fjárskjól eða smalabyrgi.

Hraunssel

Hraunssel.

Niðurstaðan varð 444 skráðar selstöður á landssvæðinu.
Hafa ber í huga að sel á Reykjanesskaganum eru að mörgu leiti ólík seljum í öðrum landshlutum þar sem bússmalinn var jafnan fluttur í sel inni djúpum grónum dölum yfir sumarið. Mörg þau selin urðu síðar að kotbýlum að seltiðinni lokinni. Á Skaganum eru hins vegar aðeins örfá dæmi um slíkar umbreytingar.
Reykjanesskaginn er hraunum þakin að vestanverðu, en austurhlutinn hefur boðið upp á djúpa dali (Kjalarnes og Kjós). Þrátt fyrir tilbrigðin virðast húsaskipan seljanna löngum hafa verið þau sömu, þ.e. baðstofa, búr og eldhús, ýmist innbyggt eða frístandandi.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Margar selstöðurnar hafa ýmist verið endurbyggðar, jafnvel oftar en tvisvar, eða fluttar um set. Líklega hefur aðgengi að vatni haft mest um það að segja hverju sinni. Nokkur dæmi eru um að bæir einstaka hverfa með ströndinni hafi tekið sig saman og byggt upp selstöðuþyrpingu, s.s. Brunnastaðahverfi, Knarrarneshverfi og Breiðagerðishverfi sem og Grindavíkurbændur, sem byggðu selstöður sínar um stund á Selsvöllum, færðu þær á Baðsvelli og síðan aftur á nýjan stað á Selsvöllum. Forn sel eru á Skaganum sem hvorki hafa verið fornleifaskráð né þeirra getið í örnefnaskrám.

Selsbúskapurinn, sem verið hafði með einhverjum smábreytingum allt frá landnámi, lagðist af skömmu fyrir aldamótin 1900. Útselin fyrrum, sem var bæði ætlað að bæta um betur jarðnæðið í neðra og staðfesta landamerki viðkomandi jarða, færðust undir lokin smám saman nær bæjunum í takt við fækkun heimilis- og þjónustufólksins. Í lok hins gamla bændasamfélags í upphafi 20. aldar urðu selstöðurnar og stekkirnir nánast komnir inn að túngarði viðkomanda bæja. Hafa ber í huga að fyrir þann tíma voru nánast engir túnbleðlar til umleikis þá. Með miklum dugnaði og þrautseigju tókst bændum, með aðstoð vinnu- og útróðramanna, að græða upp velli, lægðir og jafnvel holt, sem barin voru jafnvel niður af handafli með sleggjum og síðan borin á þau þari og sló til uppgræðslu.

Árnastekkur

Árnastekkur.

FERLIR hefur jafnan borðið gæfu til þess að allir er til hefur verið leitað hafa verið fúsir til að útskýra og gefa upplýsingar um fornar minjar á sínum landssvæðum. Flestir eru nú, því miður, nú horfnir til annarra starfa handan við Móðuna miklu. Segja má því að www.ferlir.is sé lifandi vefsíða um minjar hins liðna!

Að þessu sinni leituðu FERLIRsfélagar að Rauðstekk, Brunnhólsstekk, Árnastekk og Vorkvíum – og skoðuðu.
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-keflavíkurvegarins)“ skrifar Sesselja Guðmundsdóttir um framangreindar minjar.

Rauðstekkur

Rauðstekkur.

Um Árnastekk segir: „Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót austri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð en fleiri segja Árnastekkur og verður það nafn látið gilda hér.“

Rauðstekkur er sagður „nafn á hól eða grjóthleðslum sem standa rétt suðvestan Krummhóls og er u.þ.b. 8 mínútna gangur þangað frá Vatnshólum og Gamlavegi með stefnnu á Keili. Í Rauðstekk var farið með kýrnar frá Sjónarhóli í tíð Magnúsar Jónssonar (1881-1963). Ekki er ljóst af hverju nafnið er dregið.“

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur.

Um Brunnhól segir: „Brunnhóll heitir hóll með vörðu á og er hann suðvestur af Fornastekk en suður af Skjaldarkotslágum, u.þ.b. 200 m fyrir ofan Gamlaveg. Neðan og norðan við hólinn, rétt fyrir ofan fjárgirðinguna, er llítið vatnsstæði í klöpp og annað ofar og aðeins vestan við hólinn. Heimildir eru til um tvo Brunnhóla á þessum slóðum, Efri-Brunnhól og Neðri-Brunnhól og það gæti verið að þessi tvö vatnsstæði tengdust umræddum hólum.
Stekkurinn gæti einnig með réttu verið nefndur Arnarbælisstekkur.

Þá er getið um Vorkvíar, sbr. „Vorkvíar eða Vorkvíablettur heitir nokkuð stór grasmói í vikinu milli veganna“.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrslu II“ frá árinu 2014 koma fram athuganir á framangreindum minjastöðum:

Árnastekkur

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

„Ofar nokkuð í Strandarheiði var Árnastekkur við Árnastekkshæð“, segir í örnefnskrá Hlöðuness. Árnastekur er um 925 m suðaustan við bæ.
Stekkurinn er sunnan undir grónum hraunhól í tiltölulega grónum móa. Þó er flagmói fast suðaustan við stekkinn.
Tvær tóftir um 5x10m að stærð og snýr nálega austur -vestur. Tóft A er grjóthlaðin, um 5x7m að stærð…. og síðan kemur einhver steypa…“.

Rauðstekkur
„Í örnefnaskrá Ásláksstaða segir: „Fyrir innan Arnarbælishólanna er Rauðstekkur, og var grjóthrúga upp á hólnum, sem hér Rauðhóll. Í sömu heimild segir: „Rauðstekkur eru stórþýfðir móar eða holt, sem snúa í norðvestur. Komið er að Rauðstekk, ef stefnt er þvert af gamla veginum frá grútarbræðslunni aðeins vestan við deili og gengið í 7-8 mínútur. Ekki man Guðjón eftir mannvirkjum þar.“

Rauðstekkur

Rauðstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkurinn er greinilegur. Hann er um 1.3 km suðaustan við bæ og um 580 m NNA við Ásláksstaðastekk [í Kúadal].
Stekkurinn er á grónu og nokkuð sléttu svæði. Allt umhverfis er hins vegar hraunlendi þar sem mikið er um hæðir og dældir.
Stekkurinn er 13×3.5m á stærð, snýr noður-suður og hallar talsvert til suðurs og er torfhlaðinn að mestu en grjóthlaðin að hluta. Hann skiptist í 4 hólf. Hólf I er syðst. Það er sporöskjulaga og er innanmál þess 3x2m og í veggjum þess sjást grjóthleðslur. Hólf II norðan við hólf II. Það er 2.5x2m að innanmáli og snýr norður-suður. Í veggum þess sjást grjóthleðslur líkt og í hólfi II. Á milli hólfs II og III er grjóthlaðinn veggur. Hólf IV er norðan við hólf II og á milli þeirra er grjóthlaðinn veggur. Hólf IV er sporöskjulaga og er op á suðvesturhliðinni. Innamál hólfsins er 4x3m og snýr norður-suður.“

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur

Brunnhólsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

„Stekkurinn er efst í hæsta hól Arnarbælis, í sprungnum hraunhól. Tóftin er tvískipt og grjóthlaðin. Hún er um 10x4m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hæð veggja utanmáls er 0.3m en innanmáls er mesta hæð um 1m. Ekki er vitað með vissu hvert hlutverk tóftarinnar var.“
Bæði Rauðstekkur og Brunnhólsstekkur bera keim að fyrrum heimaseljum, þ.e. tvískiptir stekkkir með hliðar(geymslu)tóft.

Vorkvíar
„Vorkvíar eru lítil tóft í litlu viki inn í hólinn Stakk. Til vesturrs við hana er Vorkvíablettur. lítið flatlent og sléttað tún. Tóftin er einföld og gróin. Ekki sést í grjóthleðslurþ Mesta hæð veggja er um 0.4m. Óvíst er að þetta sé kvíatóft.“

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1. mín.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 42 og 48-49.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrsla II, 2014.

Vorkvíar

Vorkvíar.

Uppgröftur

Vala Garðarsdóttir skrifaði um „Varðveislu menningarminja“ í tímaritið Saga árið 2017:

Hver á menningararfinn?

Vala Garðarsdóttir

Vala Garðarsdóttir.

„Undanfarin misseri hefur mikil umræða skapast um þær forn- og menningarminjar sem rannsóknir hafa beinst að upp á síðkastið, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Þessi umræða hófst ekki að ástæðulausu því svo virðist sem ekki sé sama hvers eðlis rannsóknarefnið er né hvar. En til þess að útskýra gróflega eðli fornleifarannsókna er ágætt að benda á að fornleifauppgröftur er gerður þegar um er að ræða rannsókn eða björgun minja sem liggja í jörðu, iðulega vegna fyrirhugaðra framkvæmda.
Lög um menningarminjar eru skýr. Þær minjar sem við eigum eru okkar allra. Við sem þjóð, sem ein heild, deilum menningararfinum og okkur ber að virða hann óháð því hvaðan hann kemur og hvar hann er á landinu, hvort sem um er að ræða minjar frá nítjándu öld eða þeirri níundu, kuml eða naust, gröf eða bæjarstæði. Um minjar gildir jafnræði.

Daðastaleiti

Daðastaðaleiti – kuml.

Við nútímafólk getum ekki metið hvort minjar á okkar tíma séu merkilegri en aðrar eða hvort fólk nú á dögum beri meira skynbragð á fornminjar en fólk á nítjándu öld, hvað þá heldur hvað fólki fannst um menningararfinn þá. Við vitum það einfaldlega ekki.
Það er þó þannig, hérlendis sem erlendis, að við mannfólkið göngum gjarnan í sömu spor og forverar okkar og nýtum þann grunn sem skapast hefur mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð. Við njótum góðs af þeim grunni og skilum honum áfram til næstu kynslóða til að læra af og nýta. Hvernig þessum grunni er komið til skila til framtíðar og í hvaða formi skiptir öllu máli þegar við ræðum um virðingu við menningararfinn. Um þetta form getum við síðan deilt til eilífðarnóns því þær tilfinningar sem við, sem nú lifum, berum í brjósti til liðins tíma eru eins mismunandi og við erum mörg.

Pálstóftir

Á síðustu árum og áratugum hafa þó nokkrir minjastaðir horfið undir miðlunarlón, til dæmis Pálstóftir, tóftir sels frá 10. öld sem nú eru á botni Hálslóns.

Að þessu sögðu skal það áréttað að í gildi eru lög um menningararfinn sem fræðimönnum, stjórnmálamönnum og sér fræðingum ber að fara eftir þegar kemur að því að varðveita menningu og minjar liðins tíma.
Það þarf ekki að tíunda það hér að oft hefur mannvirkjum og mannvistarlögum liðinna kynslóða verið rutt til, þau skemmd og brotin án nokkurs hiks eða umræðu um hvort eðlilegt þyki að svo sé gert. Við erum sem betur fer orðin mun meðvitaðri um mikilvægi þess að varðveita þær menningarminjar sem við eigum í sameiningu og hafa gert okkur að þjóð. Við lærum í auknum mæli af sögunni, reynum að læra af syndum feðranna og vitum að hversu lítilfjörlegt sem það kann að virðast þá skiptir öllu máli að fara vel með það sem við fengum í arf.

Reykjavík

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913—17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. […] Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.
Við framkvæmdir þróunarfélagsins Landstólpa hefur hafnargarður frá Reykjavíkurhöfn sem fór undir landfyllingu árið 1939 komið í ljós. Garðurinn var reistur á fyrri stríðsárunum sem hluti af hafnargerðinni en hún var á þeim tíma stærsta og merkasta verklega framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í.
Garðurinn tengdist steinbryggju sem var við enda Pósthússtrætis. Nú er garðinn hvergi að sjá á yfirborði.

Það er ekki að undra að mörgum þyki óeðlilegt að með fornleifarannsóknum skuli það sem liggur í jörðinni vera tekið upp og fjarlægt. Mörgum finnst líklega að verið sé að eyðileggja og vanvirða þær minjar sem rannsaka skal og má í því samhengi nefna grein eftir Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörð, sem birtist í Morgunblaðinu árið 2013. En við getum líklega deilt um þetta til eilífðarnóns.
Með rannsóknum erum við að auka þekkingu okkar á fortíðinni, skrásetja og forverja minjar, skrifa um það sem ekki var vitað áður og bæta við fyrri þekkingu. Við erum að afla upplýsinga og auka skilning okkar á því sem áður var gert, hvernig Íslendingar háðu lífsbaráttuna og drógu björg í bú, fræðast um innlend og erlend samskipti forfeðra okkar og -mæðra, verkmenningu í landi og á sjó, hefðir og hjátrú, trúarhætti, félagslíf, búskaparhætti og svo mætti lengi telja. Við viljum skilja það sem áður fyrr var gert, hver við erum og hvaðan við komum. Það er virðingarvert og eðlilegt og að sama skapi virðingarvottur við þá sem byggt hafa upp okkar margbrotna og ríka samfélag.

Rannsóknir eru mikilvægar

Reykjavík

Gröf við Landssímahúsið, nú hótelbygging.

Ef við fjarlægjum minjar er það gert á þeim forsendum að vandað sé til verka og farið eftir lögum sem um slíkt gilda. Við gerum það ekki síst af virðingu við fortíðina og minjarnar sjálfar. Þekkingin situr eftir og við auðgumst á því og bætum við söguna sem var okkur áður hulin, jafnvel glötuð og óþekkt, til að mynda sögu hins hversdagslega, sögu einstaklinga, kotbænda og sauðsvarts almúga sem aldrei var skrifað um.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – fyrirmyndar frágangur eftir uppgröft. „Fornleifarannsóknir eru til þess gerðar að rannsaka minjar með vísindalegum aðferðum og varðveita vitneskju um fortíðina fyrir komandi kynslóðir“ – Ragnheiður Traustadóttir.

Við eigum að sameina krafta okkar og sérfræðiþekkingu til þess að miðla því sem áður var — og gera það vel, af virðingu við okkur sjálf og forfeður okkar. Þannig varðveitum við menningararfinn í bland við það sem er og verður á söfnum landsins eða í jörðu; með varðveislu gripa, uppbyggingu og endurgerð á eldri húsum, póstleiðum, vörðum, túngörðum, naustum, sjóbúðum, hjöllum, öskuhaugum, bæjarhólum, slóðum og vegum, brúm, bryggjum, kvíum, stekkjum, álagablettum og öllu sem við eigum. Þannig sýnum við í verki að þótt við byggjum á sama stað mann fram af manni mun sagan um það sem var aldrei hverfa.“

Heimild:
-Saga, 2. tbl. 2017, Varðveisla menningarminja – Vala Garðarsdóttir, bls. 19-20 og 25.

Hafurbjarnastaðir

Sverð úr uppgreftri við Hafurbjarnastaði.

Snældursnúðar

Bjarni F. Einarsson skrifaði tvær greinar um fornleifaskráningu í Sveitarstjórnarmál árið 1996. Sú síðari bar yfirskriftina „Skyldur okkar gagnvart fortíðinni„:

Inngangur

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson. Starfsmaður Þjóðminjasafnsins.

„Í fyrri grein minni um fornleifaskráningu á Íslandi fjallaði ég aðallega um þau lög sem lúta að fornleifaskráningu og öðru sem tengist henni. Ég skilgreindi hugtökin fornleifar (skv. þjóðminjalögum) og fornleifaskráning. Jafnframt fjallaði ég um forsögu fornleifaskráninga og sýndi hvernig þessi mál hafa breyst í tímans rás eins og hugtökin fornleifar og fornleifaskráning. Í þessari grein ætla ég að fjalla um nauðsyn fornleifaskráningar og skyldur okkar gagnvart fortíðinni, enda eru þessi atriði náskyld.
Síðan „Commissionen for Oldsagers Opbevaring“ var og hét í byrjun 19. aldar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Þjóðin hefur fengið sjálfstæði, stofnað háskóla og þjóðminjasafn og sett lög um hvað séu fornleifar og hvað ekki. Til að rifja það stuttlega upp þá eru allar minjar eða rústir, sem eldri eru en 100 ára og mannaverk eru á, taldar til fornleifa. Einnig eru staðir tengdir þjóðtrú eða athöfnum manna og jafnvel yfirnáttúrulegra vera, svo sem álfasteinar og stöðlar, taldir til fornleifa skv. þjóðminjalögum.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Fornleifar eru leifar mannlegra athafna og sumar þeirra eru mikilvægar fyrir skilning okkar á allri sögu þjóðarinnar, svo sem þingstaðir, verslunarstaðir, landnámsbýli o.s.frv. Flestar fornleifarnar eru þó mikilvægastar fyrir aukinn skilning okkar á byggðasögu einstakra svæða eða héraða, svo sem fjárhúsarústir, seljarústir o.s.frv. Oft skarast þessi atriði og varasamt getur verið að fylgja þeim í blindni.

Herdísavíkursel

Í Herdísarvíkurseli.

Starfsgreinar sem hvíla á gömlum merg, eins og seljabúskapur, sjósókn, kvikfjárrækt og járnsmíði svo dæmi séu tekin, hvíla á gömlum merg og eiga sér oft á tíðum sínar sérstöku fornleifar sem eru afleiðing þeirra athafna sem greinunum fylgdu. Þessar fornleifar eru okkar sameiginlega eign. Þær geta verið gjallvörp eða rauðablástursminjar eftir járnsmíðar eða járnframleiðslu, varir og naust þar sem sjósókn var o.s.frv. Samantekið eru allar fornleifarnar mikilvægur hluti af búsetulandslaginu okkar og eru mikilvægur hluti af skynjun okkar á því.

Af hverju ekki fyrr?

Bárujárn

Torfbærinn.

Sú staðreynd að við Íslendingar höfum ekki skráð fornleifar okkar fyrr, svo að heitið geti, er býsna athyglisverð. Í þessum efnum erum við ca 100 árum á eftir nágrannaþjóðum okkar mörgum. Eina af ástæðunum hygg ég vera þá staðreynd að rústir þær og minjar sem finnast úti um landið eru svo nátengdar þeim veruleika sem eldri kynslóð landsins ólst upp við og man. Enginn eðlismunur var t.d. á fjárhúsi frá 18. öld og fjárhúsi frá fyrstu áratugum hinnar 20. Bæði voru hluti af hinu íslenska landbúnaðarþjóðfélagi, sem segja má að hafi fyrst liðið undir lok um miðja þessa öld. Þá hóf nútíminn innreið sína og gamli tíminn, sem var tími fátæktar og vesældar fyrir marga, best gleymdur og grafinn og húsakynnin sömuleiðis.

Galtastaðir

Gamall bær.

Eitt sinn átti ég samtal við gamla bóndakonu um mikilvægi þess að varðveita gamlan torfbæ, sem enn stóð á hlaðinu hjá henni. Nú hafði risið nýtt og reisulegt steinhús á bæjarstæðinu og allir fluttir yfir í það. Gömlu konunni var fyrirmunað að skilja þennan áhuga minn á gamla bænum og vamaði mér meira að segja inngöngu þegar ég sýndi tilburði í þá áttina. Hins vegar var ég rneira en velkominn að skoða nýja bæinn og jafnvel þiggja kaffitár og meira til, eins og tíðkast á landsbyggðinni. Gamli bærinn var aðeins minning um kulda og vosbúð, eilífa vinnu og lítil laun og gamla konan vildi alls ekki leyfa mér að eiga nokkra hlutdeild í slíkri minningu.
„Hvað gæti hann haldið um slíka konu?“ hugsaði hún ef til vill.

Hafnarfjörður

Ás – plógur.

Hugarfar þetta, sem kom fram hjá gömlu konunni, hef ég orðið var við víðar. Þessu hugarfari verðum við að allt hugarfar sem er byggt á reynslu. Þá reynslu er hins vegar mikilvægt að varðveita fyrir framtíðina og komandi kynslóðir, enda var hún svo mikilvægur hluti af sögu þessarar þjóðar að ef hún glatast fáum við beinlínis ranga hugmynd um fortíðina. Einnig er mikilvægt að sannfæra fólk um að þessi reynsla þeirra og sá veruleiki sem það bjó við er mikilvægur menningararfur en ekki eitthvað persónulegt sem engum gagnast að muna eða þekkja. Ekki held ég að hugmyndin um fátækt liggi ein að baki hugmyndum gömlu konunnar. Nútíminn með öllum sínum tækninýjungum og breyttu hugarfari almennt gerir það sem gamalt er úrelt og skapar nýjar þarfir sem eru bein afleiðing af nýja tímanum. Í því ljósinu virðist hið gamla oft lítils virði og fólki gjarnt á að tengja það vanefnum.
Við verðum að bera virðingu fyrir fortíð okkar, ekki síst fyrir þá sök að við erum það sem við erum einmitt vegna hennar.

Fornleifar og menningin

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ – fyrirmynd góðs frágangs eftir fornleifauppgröft.

Fornleifar eru efnislegar minningar genginna kynslóða. Sjálfar kynslóðimar hverfa ein af annarri og hugsanir þeirra að mestu leyti með þeim. Fornleifarnar voru hluti af veruleika forfeðranna sem mikilvæg mannvirki, kennileiti eða staðir og þær skiptu þá miklu máli. Gátu þær meira að segja verið þeim lífsnauðsynlegar. Án þessara fornleifa væri sagan harla óáþreifanleg og jafnvel álitamál hvort við værum sjálfstæð þjóð yfirleitt. Er hægt að byggja land og halda uppi menningu án beinna tengsla við söguna?
Íslendingar eru stoltir af sögu sinni. Áþreifanlegar leifar þessarar sögu eru fornleifarnar. Þess vegna eigum við að gera þeim hátt undir höfði, varðveita þær og vernda.

Landamerki

Landamerkjavarða á Fremstahöfða.

Landslagið er mikilvægur hluti af veruleika manneskjunnar og einn þeirra þátta sem skapa hana. Skilgreiningin á því að vera Vestfirðingur er t.d. að hluta til fólgin í því landslagi sem einkennir Vestfirðina og Vestfirðingar kalla heimaslóðir. Í þessu landslagi eru fornleifarnar mikilvægur þáttur með sínum formum og sögnum og þær eru gjarnan úr sömu efnum og landið sjálft. Það er því mikilvægt að standa vörð um fornleifar landsins, vegna þess að þær útskýra að sumu leyti skilgreiningar okkar á sjálfum okkur svo sem það að vera Vestfirðingur, Austfirðingur, Eyjamaður, Skagfirðingur, úr Flóanum eða einfaldlega það að vera Íslendingur.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Á bak við allar fornleifar liggur ákveðin hugmyndafræði og segja má að oftast sé það hin ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins hverju sinni. Hús átti að byggja á ákveðinn hátt, úr ákveðnum efnum og á ákveðnum stöðum. Þessir þættir stýrðust af hugmyndafræðinni og var ekki sjálfgefið að ætíð hafi verið byggt á sem bestan máta, bestu efnin notuð eða besta staðsetningin valin. Inn í myndina kom hefð og hugmyndir sem voru afrakstur aldalangrar aðlögunar og reynslu. Reynslan var sótt í umhverfið og hugarfylgsni mannanna, svo sem trúarlegar hugmyndir og jafnvel hindurvitni ýmiss konar. Allt þetta er falið í fornleifunum.
Eins er dreifing fornleifa í landslaginu ekki afleiðing tilviljana, heldur lágu þar að baki ákveðnar reglur og venjur samfélagsins. Því eru fornleifar einnig vitnisburður um þessa hluti.

Húshöfði

Húshöfði – beitarhús og Jófríðarstaðasel.

Ef við tökum sem dæmi fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeirn beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjaman komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og aðra tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurs konar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið hvers gagnvart öðrum.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól. Eyðilagt vegna vanskráningar.

Þegar skipuleggja á eitthvert svæði eða jarðrask er í vændum vegna húsbygginga, vegagerðar o.s.frv. er nauðsynlegt að viðkomandi aðilar séu meðvitaðir um þær minjar sem kunna að vera á svæðinu. Til að svo megi vera þarf fornleifaskráning að hafa farið fram og niðurstaða þeirrar skráningar verður einnig að vera aðgengileg þeim sem hennar kunna að þurfa við. Án þessarar skráningar er minjavarslan einfaldlega máttlausari en ella í ráðgjöf sinni til einstakra aðila, svo sem skipulagsyfirvalda, framkvæmdaraðila ýmiss konar og jafnvel einkaaðila.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Fyrsta vinnuregla minjavörslunnar í þessum efnum er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Þegar því verður hins vegar ekki við komið er það minjavarslan ein sem ákvarðar hvað skuli gera, eða hversu ítarleg rannsókn þurft að vera eigi slík að fara fram að áliti minjavörslunnar. Þá þarf leyfi fornleifanefndar. Í vissum tilfellum þarf ekki mikla rannsókn eða athugun til að komast að því að viðkomandi fornleifa uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru svo að þær njóti ævinlegrar friðunar þjóðminjalaganna. Annars vegar getur verið að minjarnar séu ekki eitt hundrað ára eða eldri og falla þá ekki undir þjóðminjalögin, eða hins vegar að minjagildið sé það lítið að lítil athugun sé nægjanleg áður en þær verði fjarlægðar. Í einstaka tilfellum getur verið að vettvangsathugun ein nægi, en í öðrum tilfellum þarf að rannsaka fornleifarnar mjög ítarlega og gætu slíkar rannsóknir tekið mörg ár.

Skálafell

Tóft í Skálafelli. Líklega fyrrum skáli Ingólfs.

Að síðustu ber að nefna að í nokkrum tilfellum getur verið um fornleifar að ræða sem minjavarslan getur ekki leyft að raskað verði á nokkurn hátt, enda séu þær svo mikilvægur minnisvarði um sögu þjóðarinnar að jaðri beinlínis við ábyrgðarleysi að hleypa nokkrum í þær nema að mikið liggi við.
Ef fornleifar glatast eru þær horfnar að eilífu. Þær er ekki hægt að laga eða endurgera. Þær eru horfnar veruleikanum og þær eru horfnar vísindunum. Sama má segja um fornleifarannsóknir að vissu marki. Þegar fornleifar eru grafnar eyðileggjast þær og hverfa, en þær hverfa inn í annars konar tilveru og sú tilvera er varðveitt á bókum eða í ritum. Gangi það hins vegar ekki að um þær sé ritað er enginn eðlismunur á beinni eyðileggingu og fornleifauppgreftri, í báðum tilfellum hverfa fornleifarnar að eilífu.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól , enn óskráð.

Þéttbýlissvæði eru mörg hver að vaxa úti um landið og sú þróun mun vonandi halda áfram í náinni framtíð. Ný lönd verða brotin í þessari þróun og þá munu margar fornleifar verða á veginum, sumar jafnvel alveg óþekktar í dag. Þó að svæði kunni að vera skráð einu sinni og jafnvel tvisvar er það aldrei trygging fyrir því að ekkert meira kunni að leynast undir yfirborðinu. Því er mikilvægt að fara nákvæmlega yfir þau svæði sem raska á til að minnka hættuna á óvæntum uppákomum fornleifa eins og framast er unnt. Slíkar uppákomur eru yfirleitt dýrar og tímafrekar.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám. Hefur aldrei verið skráð.

Það getur verið þarft að minnast þess að oft finnast skemmtilegustu fornleifarnar við óvæntustu aðstæðurnar. Við getum aldrei gengið út frá því sem vísu að við séum undir allar hugsanlegar fornleifar búin.
Saga okkar er að hluta til skráð í umhverfi okkar, umhverfi sem við höfum skapað smátt og smátt í aldanna rás. Sjálf skilgreinum við okkur sem einstaklinga í gegnum umhverfið og þjóðin sem slík skilgreinir sig út frá þessu umhverfi og það sem þar kann að leynast. Við berum öll ábyrgð á sögu okkar og menningu og þar eru fornleifarnar engin undantekning.“

Heimild:
-Sveitarsjórnarmál, 56. árg. 01.06.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi – upphaf og ástæður – síðari grein; Skyldur okkar gagnvart fortíðinni, Bjarni Einarsson, bls. 112-116.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála – ein af uþ.b. eitt hundrað á Reykjanesskaganum.

Fornleifar

Bjarni F. Einarsson skrifaði tvær greinar um fornleifaskráningu í Sveitarstjórnarmál árið 1996. Sú fyrri bar yfirskriftina „Upphafið og lögin„:

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson – starfsmaður Þjóðminjasafnsins.

„Í Þjóðminjalögum stendur m.a. eftirfarandi: „Þjóðminjasafn lœtur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess og skal Þjóðminjasafn eiga samvinnu við skipulagsyfirvöld um það. “
Í I. grein laga um mat á umhverfisáhrifum stendur: „Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvœmdir, sem kunna, vegna staðarvals, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrifá umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipidagsáœtlana.“ Í 10. grein sömu laga stendur: „Í mati á umhverfisáhrifum skal tilgreina á viðeigandi hátt áhrif sem framkvœmdir og fyrirhuguð starfsemi kunna að hafa á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þœtti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta. “

Fornleifaskráning

Fornleifaskráning.

Því er ljóst að samkvæmt lögum ber okkur að skrá fornleifar og aðrar greinar þjóðminjalaga sýna að ekki skiptir máli hvort um þekktar eða óþekktar fornleifar er að ræða, allar njóta þær friðunarákvæða þjóðminjalaganna.

Þjóðminjaráð og Þjóðminjasafn Íslands hafa nú ákveðið að hefja undirbúning að fornleifaskráningu á öllu landinu. Fyrsta skrefið er að finna þá aðferð sem hentar og Þjóðminjasafn mælist til að notað verði um landið allt. Næsta skref er að hrinda tilraunaskráningu af stað og reyna kerfið til fulls.
En okkur ber ekki að skrá fornleifar einungis vegna þess að lög kveða á um það, heldur höfum við siðferðislegar, fræðilegar og sögulegar skyldur í þessum efnum. Í þessari grein verður lítillega fjallað um upphaf þessara mála hér á landi og hugtökin fornleifaskráning og fornleifar skilgreind. Í næstu grein mun ég fjalla um þessi mál út frá siðferðislegum, heimspekilegum og fræðilegum sjónarhóli.

Fornleifaskráning

Álfakirkja

Álfakirkja í Almenningi, sem er jafnframt fjárskjól.

Hugtakið fornleifaskráning felur í sér skráningu á fornleifum og er þá átt við svokallaðar fastar fornleifar, svo sem mannvirki, varir, kuml o.s.frv. (ekki lausar fornleifar sem við köllum forngripi. Hugtökin fornleifar og forngripi köllum við fornminjar). Einnig er hægt að tala um fastar fornleifar sem ekki eru mannvirki í orðsins fyllstu merkingu, svo sem uppsprettur, álfasteina og álagabletti, og fornleifar sem eru afleiðing óskyldra athafna, svo sem reiðgötur, vöð og stöðlar.

Bekkjarskúti

Bekkjaskúti, fjárskjól, í Almenningum.

Hugtakið greinir ekki í sundur þekktar fornleifar frá óþekktum, heldur felur það í sér skráningu á öllum fornleifum og til að hún geti gengið eftir þarf að leita skipulega að þeim í landslaginu. Stundum getur jafnvel borgað sig að leita að þeim í heimildum. Til eru skráningar sem ekki fela í sér skráningu allra fornleifa, svo sem skráning á sérstökum tegundum fornleifa, eins og kumlum, þjóðleiðum, álfasteinum o.s.frv. Eins má ímynda sér staðbundnar skráningar á sögulegum minjum, hellum, vörðum, stríðsminjum, minjum tengdum hvalveiðum Norðmanna o.s.frv.

Hernám

Skotbyrgi, stríðsminjar, á Garðaholti.

Slíkar skráningar uppfylla tæplega ákvæði þjóðminjalaga um fornleifaskráningu, hversu góðar eða merkilegar þær kunna að vera.
Við fornleifaskráningu er fylgt aðferðafræði, sem ákveðin er áður en sjálf skráningarvinnan hefst. Má segja að lykilatriði í þeirri vinnu sem nú fer fram varðandi aðferðafræðina sé skipulag og einfaldleiki, hvernig svo sem það verður ákveðið þegar yfir lýkur. Þessi atriði fela í sér að aðferðin verður fljótvirk og ódýr.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól. Eyðilagt vegna vanskráningar.

Ef fornleifaskráin á að gagnast öllum sem hana þurfa að nota, svo sem opinberum framkvæmdaraðilum, einkaaðilum, skipulagsyfirvöldum og áhuga- og fræðimönnum, er mikilvægt að skráð sé samkvæmt sama kerfi hvar sem er á landinu. Þess ber að geta að ekki er til nein galdralausn í þessu sambandi, mikilvægast er að hefjast sem fyrst handa með það kerfi sem við getum sem best búið til miðað við allar forsendur sem við höfum.

Fornleifar

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi. Áþreifanlegar fornleifar.

Fornleifar eru allar þær leifar sem mannaverk eru á og eldri eru en hundrað ára. Þjóðminjalögin orða það á svohljóðandi hátt í grein nr. 16, III. kafla: „Fornleifar teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðhundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru. Að auki njóta staðir sem tengjast þjóðtrú, siðum, venjum og þjóðsagnahefð, eins og hörgar, álfasteinar og uppsprettur, vemdar laganna, enda séu þeir mikilvægur menningararfur rétt eins og mannvirkin.

Grindavík

Álfhóll við Þorbjörn h/f í Grindavík. Efnislegar fornleifar.

Skipta má fornleifum í tvo staði, annars vegar efnislegar fornleifar og hins vegar andlegar eða huglægar fornleifar. Hinar efnislegu fornleifar eru það sem við í daglegu tali köllum rústir eða tóttir. Þær eru áþreifanlegar og greinilega orðnar til af mannavöldum. Hinar andlegu fomleifar eru aftur á móti staðir sem tengjast hugarfari þjóðarinnar, eins og álfasteinar o.fl.

Þórkötlusdys

Þórkötludys í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Slíkir staðir eru oft algerlega án allra beinna verksummerkja mannlegra athafna, þó að vitundin um þá hafi stundum leitt af sér óbein verksummerki, svo sem á álagablettum þar sem gras er aldrei slegið eða þar sem annað afskiptaleysi hefur beinlínis orðið til þess að staðurinn varðveittist óbreyttur og óhreyfður í aldir.
Þegar fram líða stundir bætast sífellt fleiri rústir og önnur mannvirki í hóp fornleifa einfaldlega vegna hundrað ára reglunnar. Að auki mun okkur lærast meir og meir að lesa í landið og jafnvel nýjar tegundir fornleifa skjóta upp kollinum. Þannig lýkur í raun aldrei fornleifaskráningu, nokkuð sem við verðum að sætta okkur við, verra er ef hún byrjar aldrei!

Upphafið

Finnur magnússon

Finnur Magnússon (1781-1847).

Hugmyndir um að skrá allar íslenskar fornleifar eiga sér alllanga sögu og má rekja hana tæp 200 ár aftur í tímann. Þá voru reyndar fornleifar skilgreindar á allt annan hátt en gert er nú, eins og mun koma fram hér á eftir.
Árið 1807 var komið á fót í Danmörku nefnd er kallaðist „Commissionen for Oldsagers Opbevaring“ eða á íslensku „Nefndin til verndunar fornleifa“. Hlutverk nefndarinnar var að afla upplýsinga um fornleifar í öllu ríkinu, þ.e.a.s. hinu danska konungsríki, svo hægt væri að marka einhverja stefnu um varðveislu þeirra og verndun. Spurningalisti frá nefndinni var sendur út þegar árið eftir til allra sóknarpresta sem náðist til í ríkinu. Til Íslands bárust hins vegar listarnir ekki að ráði m.a. vegna styrjalda í álfunni.
Tæpum tíu árum síðar, eða árið 1816, vann prófessor Finnur Magnússon að eigin skráningu á íslenskum fornleifum og ýmsurn sögnum og virðist hann hafa gert þetta til að koma upplýsingunum á framfæri við „Commissionen“. Stuttu síðar var Finnur gerður að nefndarmanni og var hlutverk hans að sjá um tengsl „Commissionen“ við Ísland. Finnur þýddi og staðfærði spurningalista nefndarinnar og sá til þess að þeir yrðu sendir til Íslands strax um vorið 1817.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1877-1961).

Þessi skrá Finns var höfð til hliðsjónar þegar fyrsta friðlýsing á fornleifum hér á landi átti sér stað þann 19. apríl 1817, en þá voru 10 fornleifar friðaðar eða öllu heldur friðlýstar hér á landi.
Fornleifar voru ekki friðlýstar á ný fyrr en 90 árum síðar, eða með tilkomu nýrra fornminjalaga árið 1907. Á árunum 1926-1930 var svo gert gríðarlegt átak í friðlýsingarmálum og hafa aldrei jafn margar fornleifar verið friðlýstar hér á landi og einmitt þá, eða um 84% allra friðlýstra fomleifa í dag. Aðalhvatamaður að þeim friðlýsingum var þáverandi þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, en hann mun þó ekki hafa farið á staðina sjálfur, heldur notað eldri gögn og ritaðar heimildir við sína friðlýsingu.
Aldrei fór eiginleg fomleifaskráning fram vegna þessara friðlýsinga. Slík vinna hófst ekki fyrr en um 1980, u.þ.b. 160 árum eftir að „Commissionen “ hóf starf sitt hér á landi. Sú skráning var ekki yfirgripsmikil og voru margir að skrá næstu árin, hver með sína aðferð og sínar lausnir á þeim vandamálum sem upp komu við skráninguna.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi. Talinn með elstu fornleifum landsins.

Árið 1990 var í fyrsta sinni birt á prenti skrá yfir friðlýstar fornleifar skv. nýjum þjóðminjalögum nr. 88/1989. Þar kemur í ljós að fjölda friðlýstra fornleifa er mjög misskipt eftir sýslurn. Þannig eru aðeins 3 fornleifar, eða staðir með fornleifum, friðlýstar í Gullbringusýslu. Ekki er hægt að halda því fram að úrval friðlýstra fornleifa sé dæmigert fyrir fornleifar landsins, þvert á móti. Varla liggur mismunurinn í stærð sýslnanna eða þýðingu fomleifanna sjálfra. Aðrir þættir, svo sem áhugi einstakra fræðimanna á vissum stöðum og vissum fornleifum ásamt fjölda fornra heimilda um viðkomandi svæði og fornleifar, eru trúlega mikilvægir í þessu sambandi. Þetta mun breytast í náinni framtíð, enda mun væntanleg fomleifaskráning á Íslandi ekki taka mið af slíkum þáttum.

„Commissionen og Reykjavík“

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

Þegar „Commissionen“ hóf starfsemi sína í byrjun 19. aldar töldust fornleifar vera eitthvað annað en við teljum í dag. Töldust t.d. venjulegar rústir af beitarhúsum og öðrum rústum varla til fornleifa.
Í landi Reykjavíkur eru í dag ca 160 staðir með fornleifum á fornleifaskrá. Fjöldi einstakra fornleifa er u.þ.b. 300 í svari til „Commissionen“ frá Árna Helgasyni, dómkirkjupresti í Reykjavík um tíma, segir að í sókninni hafi aðeins verið þrennar fornleifar og allt voru það lausir gripir frá kaþólskum tíma. Þeir voru biskupakápa, skímarfontur og kaleikur einn vel gylltur. Aðrar fornleifar þekkti Árni prestur ekki í Reykjavík (Vík) og þótti honum það allundarlegt í sjálfu landnámi Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns Íslands að margra áliti.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Í fornleifaskrá prófessors Finns Magnússonar frá 1816 er einnig getið um þrennar fornleifar (nemar þó) í landi Reykjavíkur (Víkur). Þær voru biskupakápan og skírnarfonturinn áðurnefndu og fallbyssur tvær, sem verið höfðu á Bessastöðum í fyrstu, en var síðar komið fyrir í virkinu Fort Phelp af sjálfum Jörundi hundadagakonungi. Sagði Finnur að til fallbyssnanna hefði sést í flæðarmálinu á fjöru, en þar munu þær hafa lent að lokum eins og aðrar þekktar fallbyssur hér við land (á Grundarfirði og Flatey!). Aðrar fornleifar þekkti Finnur ekki í landi Reykjavíkur.
Það verður að teljast nokkuð athyglisvert að hvorugum hafi borist til eyrna nein munnmæli um neitt það sem þeim þótti ástæða til að telja upp í bréfum eða skrám sínum. Hvergi er t.d. minnst á meintan haug Ingólfs Arnarsonar þar sem sumir töldu hann vera við Breiðagerðisskólann, eða hof” hans sem sumir töldu vera þar skammt frá. Munnmæli um þessa staði voru talsvert áberandi á fjórða áratug þessarar aldar og var hinn meinti haugur Ingólfs til og með rannsakaður lítillega og um hann sagt að hann væri athyglisverður og nánari rannsóknar þörf. Nánari rannsókn fór þó aldrei fram.

Í næstu grein mun ég fjalla um hina siðferðislegu og fræðilegu skyldu okkar að standa vörð um fornleifar landsins. Það er okkur beinlínis lífsnauðsynlegt sem þjóð á meðal þjóða og er jafnvel þjóðarvitundin sjálf að veði.“

Heimild:
-Sveitarsjórnarmál, 56. árg. 01.03.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi – upphaf og ástæður – fyrri grein; Upphafið og lögin, Bjarni Einarsson, bls. 34-38.

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Stöðvarfirði.