Færslur

Landnám

Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess“, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs.

Ritun Landnámu
Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“
Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.
Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á íslandi. Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.
Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.
Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið. Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar. Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“. Þessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.
Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum. þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla. Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast. landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.
Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna. Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.
Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarls, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hann bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.
Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.
Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.
Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.
Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.
Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.
Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.
Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ókkur í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós. Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.
Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25). Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
Hér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Grindavík

Engar áreiðanlegar vísbendingar liggja fyrir um bæjarstæði Moldar-Gnúps, þess landnámsmanns er nam land, skv. Landnámu, í Grindavík. Ef vel er að gáð má þó sjá nokkrar vísbendingar þess efnis. Bent verður á þær hér – þangað til eitthvað annað bitastæðara kemur í ljós.

Hópsnes

Hópsnes – kort.

Við nákvæmari leitir að bæjarstæði Molar-Gnúps færumst alltaf nær og nær. Ljóst er að maðurinn átti þrjá sonu;  frumvarpið Gnúp, (Hafur) Björn og Þórð (Leggjanda). Hver og einn þeirra valdi sér bæjarstæði nálægt föður sínum. Vitað er að fjögur býli voru þá og þegar á fjórum stöðum í og við Grindavík; á Húsatóttum, á Járngerðarstöðum, á Hópi og á Þórkötlustöðum. Flestir hallast að því að Molda-Gnúpur hafi sjálfur búið á Járngerðarstöðum enda álitlegt höfuðbýli frá fornu fari. Haugur og bæjarhóll, sem þar voru lengi fram eftir öldum, voru því miður ruddir þegar núverandi hús voru byggð. Vesturbærinn var með beitaraðstöðu á Baðsvöllum, miðbærinn (Hóp) í Svartsengi og austurbærinn (Þórkötlustaðir) á Selsvöllum. Húsatóttir var með beitaraðstöðu inn við Þórðarfell. Þá er það a.m.k. komið að hluta. Þórður leggjandi bjó sem sagt á Húsatóttum.
Ef (G)Núpshlíðarhálsinn heitir eftir Gnúpi er líklegt að hann hafi búið á Þórkötlustöðum, enda Selsvellirnir undir hálsinum.
Skv. því má draga að því líkur að Hafur-Björn hafi búið á Hópi (Hofi).
Goðhús var á Hópi (Hofi). Þar er til gamall platti uppi á vegg með niðjatali Molda-Gnúps.
Við forkönnun á framangreindum stöðum kemur og einn annars staður til greina. Hann hefur ekki  áður verið skoðaður sem líklegur slíkur.

ÓSÁ tók saman.

Húshólmi
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða.

Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum. Hann skipti síðan á því landi við Hrolleif Einarsson á landi í Þingvallasveit þar sem hann bjó að Heiðarbæ, en flutti síðan að Bæjarskerjum á Romshvalanesi. Ásbjörn Özurarson fékk land frá Hvassahrauni að Álftanesi og Þórður skeggi fékk land norðan við Ingólf þar sem nú er Mosfellsveit. Herjólfur fékk land frá Kotvogi að Reykjanestá, en Molda-Gnúpur þaðan að Selatöngum. Austar var Þórir haustmyrkur (Krýsuvík) og Álfur Egzki austan Selvogs að Ölfusárósum.
Í nýrri bók Trausta Valssonar “Skipulag byggðar á Íslandi” er kort af skiptingu landnámsins, auk korta af verleiðum og helstu samgönguleiðum á SV-landi skv. korti frá 1849.
Landnám

„Fornleifafræðingar segjast hafa fundið skýrar vísbendingar um að Færeyjar hafi verið byggðar nokkrum öldum fyrr en til þessa hefur verið talið. Uppgötvunin er sögð kalla á endurskoðun á viðurkenndum hugmyndum um landnám eyja í Norður-Atlantshafi, þeirra á meðal Íslands.

refagildra-991

Fréttir um þetta birtust fyrst fyrir um tveimur árum en nú hefur fræðigrein verið birt um rannsóknina í vísindatímariti. Það voru fornleifafræðingar frá Durham-háskóla í Bretlandi og Þjóðminjasafni Færeyja sem kynntu þessar niðurstöður sínar á dögunum.
Þær byggjast á aldursgreiningu á móösku sem blandast hafði brenndum beinaleifum og byggi. Þetta eru talin ótvíræð merki um mannabyggð og segir Mike Church, fornleifafræðingur við Durham-háskóla, að slík blanda verði ekki til nema af mannavöldum. Mannvistarleifarnar fundust á Sandey og benda til að eyjan hafi verið byggð löngu fyrir tíma víkinga og þar hafi bygg verið ræktað.
Samkvæmt Færeyingasögu byggði Grímur Kamban fyrstur manna Færeyjar, í kringum árið 825, nærri hálfri öld áður en Ingólfur Arnarson er, samkvæmt opinberri söguskoðun, talinn hafa orðið fyrsti landnámsmaður Íslands. „Það liggja nú fyrir skýrar vísbendingar um landnám manna í Færeyjum 300-500 árum áður en víkingar komu þangað á 9. öld,“ hefur UPI-fréttaveitan eftir Mike Church.
sveppir-991„Þótt við vitum ekki hvaða fólk settist hér að, né hvaðan það kom, er þó ljóst að það stundaði mótekju, skar hann, þurrkaði og brenndi, sem gefur til kynna að það hafi búið hér í nokkurn tíma,“ segir Símun V. Arge, frá Þjóðminjasafni Færeyja, sem er meðhöfundur. Hann segir þetta benda til að fólkið hafi ekki verið til skammvinnrar dvalar.
Mike Church segir að þessir fyrstu íbúar Færeyja hljóti að hafa haft getu til að byggja báta sem gátu siglt yfir úthaf. Þeir hljóti einnig að hafa komið undirbúnir til að nema ný lönd. Þeir hljóti að hafa vitað af eyjunum og skipulagt leiðangra sína fyrirfram. Landnámið hafi ekki verið tilviljun.
Rannsókn vísindamannanna er sögð kalla á endurskoðun á fyrri hugmyndum um eðli, umfang og tímasetningu landnáms manna á eyjum Norður-Atlantshafs. Í grein í breska blaðinu The Independent er þetta sagt benda til að mörghundruð árum fyrir tíma víkingaferða hafi aðrir hópar sæfara úr Norður-Evrópu haft getu til víðtækrar landkönnunar yfir úthaf.
galgaklettar-991Blaðið segir einn möguleikann þann að hér hafi verið á ferð kristnir einsetumunkar frá Skotlandi eða Írlandi og er vitnað er til fornra írskra heimilda. Þannig hafi írskur munkur, Dicuil, skrifað í kringum árið 825, um afskekktar eyjar norðan við Bretlandseyjar, þótt hann hafi ekki sérstaklega lýst Færeyjum. Þá hafi Brendan biskup, sem uppi var á árunum 484 til 578, lýst siglingu til eyja í hafinu í norðri.
Helstu ritaðar heimildir um landnám Íslands, Landnáma og Íslendingabók Ara fróða, geta þess einnig að írskir munkar, papar, hafi verið komnir til Íslands á undan norrænum víkingum. Þeir hafa þó ekki öðlast þann sess í Íslandssögunni að teljast landnámsmenn.“

Heimild:
-http://www.visir.is/hverjir-byggdu-faereyjar-longu-a-undan-vikingum-/article/2013130829568

Ingólfur

Eftirfarandi frásögn um sjósókn í Reykjavík birtist í Sjómannadagsblaðinu árið 1991:
„Ósagt skal látið hvernig skipakostur var til sóknar við Flóann á Þjóðveldisöld, þegar bændur voru öflugir og gátu efnt til stærri skipa en á svörtu öldinni, sem heimildir ná til. Litlar heimildir eru um sjósókn úr Reykjavík fyrri alda, sem var spildan frá Rauðará að austan út að Eiðisgranda (Seli) að vestan, en vitað að hún var samskonar og sókn Kjalnesinga og Hafnfirðinga sem traustar heimildir eru til um. Það var sótt frá þessum stöðum, og eins Laugarnesi og eyjunum við Reykjavík á smáfleytum, mest eins til tveggja manna förum, á grynnstu mið, við innanverðan Faxaflóa. Ekki er það umdeilanlegt að sjósókn hefst hérlendis frá Reykjavík.
sjo-9Ingólfur Arnarson, svo sem aðrir landnámsmenn, varð að lifa með sitt fólk af fiskveiðum meðan hann var að koma upp bústofni. Landnámsmenn gátu ekki haft með sér hingað út kvikfénað sér til lifibrauðs, fyrr en sá litli kvikfénaður, sem þeir hafa getað flutt með sér tók að fjölga sér.
Fyrsta verk Ingólfs hefur verið að senda þræla sína á sjó á eftirbátnum, en svo hétu þeir bátar, sem landsmenn drógu með sér, en einnig höfðu þeir léttbát, litla skektu, sem þeir höfðu um borð til að skjóta út. En þótt svo sé að fyrst hefjist sjósókn hérlendis í Reykjavík þá er sem að ofan segir hljótt um Reykjavík í fyrri alda sjósóknarsögu og ber margt til þess.
Um aldir verður enginn stórbóndi í Reykjavík sjálfri, það er strandlengjunni sjálfri meðfram víkinni, Rauðará – Eiðisgrandi, nema þá Víkurbóndinn á bæ Ingólfs í Grjótanum, aðrir bændur hafa búið kotabúskap, fáliðaðir og efnalitlir til stórrar útgerðar, og þeirra fangaráð var að nýta innmiðin á þeim fleytum, sem þeir gátu efnað til. Byggð var strjál og fámenn, 100 til 150 manns á svæðinu Rauðará – Sel og Lækurinn klofið byggðina, en hann hefur verið stór og illfær fyrrum, og það getað gert mönnum óhægt með að róa í samlögum og manna sexæringa, enda kærðu innmiðamenn sig ekki um stóra báta. Sú var trú manna að eitt eða tvö færi á borð væru fengsælli í slítingsfiski á grunnslóð en mörg færi á borð.
reykjavik 1836Þegar Reykjavík varð verzlunarstaður á 17. öld og síðan iðnaðar á 18. öld, dró þetta hvorttveggja náttúrlega úr sjósókn, kotbændur og þurrabúðarmenn hafa leitað í pakkhús- og eyrarvinnu við höfnina og síðan iðnaðarvinnu við Innréttingarnar.
Allt fram til 1870 eða þar um bil var útgerð Björns í Brekkukoti dæmigerð reykvísk útgerð á árabátaöldinni. Þeirri útgerð er lýst í Ferðabók Eggerts og Bjarna og einnig í bók Horrebows. Menn reru frá Kjalarnesi og „í Reykjavík á ströndinni inná móts við Viðey í Laugarnes og Engey sækja menn sjó allt árið á smábátum.“ Mest var róið í tveggja manna förum en „hinir stærstu eru fjögra manna för en eins manns för þeir minnstu.“
Á útnesjum, þar sem verstöðvar mynduðust reru menn stærri bátum. Reykjavík var aldrei verstöð á áraskipaöldinni. Þangað komu menn ekki með báta sína til veiða né reistu verbúðir, og aðrir staðir geta ekki með réttu nafni kallazt verstöðvar. Það hefur alltaf komið eitthvað af aðkomumönnum úr nærsveitunum til vorróðra í Reykjavík, þótt fleytur væru smáar, en sóknin verið frá heimabæjunum og Reykjavík alltaf á árabátatímanum verið heimver, og þar hvorki verbátar né verbúðir. Á Seltjarnarnesi aftur á móti reru menn snemma úr veri og þar náðist snemma að myndast útvegsbændastétt, sem sótti útá Svið á sexæringum. Sá var munurinn þar á fyrir Reykvíkingum og Seltyrningum, að það var þriggja kortera róður úr vörum í Reykjavík, út á móts við yztu varir á nesinu.
reykjavik 874Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir að allt gildi hið sama um útgerð Reykvíkinga sem Kjalnesinga: „Á Kjalarnesi var sjór sóttur allt árið. Bátar eru hér litlir. Hinir stærstu eru fjagra manna för, en eins manns för hinir minnstu,“ og segla og reiðabúnaði og sjósókn er lýst svo, og gildir sú lýsing einnig um reykvísku sjósóknina. „Segl Kjalnesinga eru úr þunnum, fíngerðum ullardúk, sem ofin er með líkum hætti og léreft. Dúkur þessi kallast einskefta og notar bændafólk hana í skyrtur. Aðeins eitt segl er á hverjum bát, og er það haft fjórðungi mjórra að ofan en neðan. Siglutréin eru misjafnlega löng, en venjulegast er, að þau séu 2Á af bátslengdinni. Í siglutoppinum er lítið hjól. Á því leikur strengur til þess að reisa og fella seglið. Siglan er fest í eina af fremstu þóftunum og bundið með taugum í framstafn og til hliðanna. Stýrið er fest á tvo króka, efst á því er þverfjöl sem stjórntaumarnir eru festir í. Þeir eru notaðir hér í stað stýrissveifar. Í akkerisstað nota menn kollóttan, harðan stein, og er gat í gegn um hann. Í gatið er rekið þvertré, sem taugin er bundið við og festir útbúnað þennan í botninn. Þegar róið er til fiskjar, verður hver maður af skipshöfninni að hafa færi, öngul, beitu og hníf, sem kallast sax, og auk þess að vera sjóklæddur. Allir veiða á handfæri eftir beztu getu, en að loknum róðri er aflanum skipt í jafna hluti, því að annars gæti orðið of mikill munur á afla eftir heppni manna. Bátseigandinn fær einn hlut aflans, þótt hann rói ekki með.
Aðallega veiða menn þorsk, sem er algengasti fiskurinn, en auk hans veiða menn líka flyðrur, skötur og smávaxna háfa. Flyðran er úrvals matfiskur, en hinir eru einkum veiddir vegna lifrarinnar, en úr henni fæst sérlega gott lýsi. Á haustin og framan af vetri veiða menn smálúður á þar til gerða öngla. Þeir eru festir tveir og tveir á þvertein úr járni. Lúðuveiði þessi er eingöngu nærri landi, sjaldan fjær en áttung úr mílu. Tittlingur, eða réttara sagt þyrkslingur, er smáþorskur. Rauði þyrsklingurinn kallast þarafiskur, af því að hann dvelst á þarabotni. Hann er oft hárauður á lit með rauðum dröfnum á kviðnum. Þetta eru einungis tilbrigði frá aðaltegundinni, þorskinum.
Á Kjalarnesi eru fiskveiðarnar auðveldari en annars staðar á Suðurlandi.“ Og Horrebow segir: „Svo má heita að smábátar séu einungis í Gullbringusýslu og við Hvalfjörð. Víðast hvar á landinu eru þeir stærri og er þeim róið af 4-6 og 8-20 mönnum.“ Þessar heimildir eiga hvor tveggja við 18. öldina og eru eflaust dæmi um sjósóknina í þessum byggðum um aldirnar.
Þegar kom fram um 1870 tók að færast mikið líf á árabátasóknina í Reykjavík á almennt stærri bátum, sexæringum og áttæringum og Reykvíkingar fóru að sækja á útmiðin.
sjo-10Saltfiskverkun var farin að stóraukast, en skreiðaverkun að dragast saman, og stórfiskur varð verðmætari í salt en minni fiskur. Verzlanir tóku að heimta stærri fisk til útflutnings. Upp risu í Reykjavík vestan Læks öflugir útvegsbændur í Grjótanum og á Hlíðarhúsatorfunni og vestur að Eiðisgranda, og þeir tóku að sækja á sexæringum og áttæringum útá Svið og liggja við í Garði og Leiru líkt og Seltirningar og Álftnesingar og Garðhverfingar og Hafnfirðingar. Það var mikill kraftur í þessum útvegsmönnum í Reykjavík og þróttur í árabátasókninni. Róið var í hverri vör frá Bryggjuhúsi, þar sem nú er Vesturgata 2, og vestur að Eiðisgranda, Austasta vörin, sú fram af Bryggjuhúsinu, Grófarvörin, var stærst varanna, en hana nýttu útvegsbændur í Grjótanum, Grandabótin var vestast. Nú sést ekkert orðið af þessum vörum, sem Ágúst Jósefsson telur upp í ævisögu sinni. Austan Læks voru áfram aðallega smáfleytur og róið af því svæði almennt sem fyrr á innmiðin.
Bönn við netalögnum á tilteknum slóðum voru í gangi mishörð allt frá 1772 sem fyrr á innmiðin. Þeir, sem sóttu á grynnstu mið við Ströndina töldu netalagnir Útnesjamanna hamla göngu fisks á sín mið, og voru Hafnfirðingar, Vatnsleysustrandar- og Vogamenn harðastir grunnslóðarmanna.
Árið 1874 var bannað að leggja net í sunnanverðan Flóann fyrir 14. marz, utan línu dregin úr Hólmsbergi við Keflavík í Keilisnes, og 1885 náði bannið til 14. apríl. Við þetta misstu þeir, sem sóttu í Garðsjó að stórum hluta af vetrargöngunni á þau mið. Reykvíkingar eins og aðrir Innnesjamenn fóru ekki varhluta af þessu banni og varð af styrjöld og harðvítugust 1886.
Uppúr 1890 hófust aflaleysisár við Faxaflóa og 1895 komu ensku togararnir til veiða í Flóann og allt þetta þrennt dró úr árabótasókn sjávarstaða við innanverðan Faxaflóa. Þá var og kominn hugur í marga að efla þilskipaútgerð, sem í gang var komin. í Hafnarfirði og Reykjavík og Seltjarnarnesi tók við ný gerð þilskipa — kútterar.
Árabátaútvegur helzt áfram víða um land í verstöðvum, sem lágu vel við árabátamiðum, þar til vélbátar leystu þá útgerð af hólmi. Allt fram um 1906 var árabátaafli landsmanna tvöfalt meiri en þilskipanna, enda voru árabátar í landinu jafnan um 2000 allt til 1905 og 8-9 þúsund manna í þeirri útgerð.“
Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 54. árg. 1991, 1. tbl., bls. 10-15.

Bátur

Eftirfarandi um upphaf útgerðar í Reykjavík birtist í Sjómannadagsblaðinu árið 1986:
„Ingólfur útvegsbóndi bóndi í Vík hefur ekki getað komizt með yfir hafið þann kvikfénað, sem nægt gæti heimilisfólki hans og því hefur það verið hans fyrsta verk að senda þræla sína á sjó á eftirbátnum, en svo hétu þeir bátar, sem landnámsmenn og landafundamenn þessa tíma drógu með sér og einnig höfðu þeir með sér léttbát til ,,skjóta út“, litla byttu, sem þeir höfðu á hvolfi uppi í skipi sínu og var hún þar þá einnig til skjóls.
sjo-1Ekki hefur Ingólfi litist á að stunda róðra frá Ingólfshöfða, þar sem er lending brimasöm, og tekur sig upp og fer að leita fyrir sér að betri stað til sjósóknar; hann fer yfir grösug héruð, girnileg til landbúskapar, en lýkur ekki ferð sinni fyrr en á uppgrónum hraunkarga vestur við sjó, þar sem nes og víkur og eyjar búa honum góða lendingu og þó jafnframt stutt róið á fengsæla slóð. Svo einföld er skýringin á staðarvali Ingólfs til búsetu, að hann finnur ekki álitlegan stað á suðurströndinni til róðra, og honum var nauðsynlegt að finna skjólgóða vík fyrir brimi, þar sem hann hafði ekki nema tveggja eða þriggja manna far til sóknar, en þær litlu fleytur voru illa fallnar til brimlendingar, ekki sízt eins og hann brimar fyrir suðurströndinni.
Það er hljótt um Reykjavík í fyrri alda fiskveiðisögu, það er varla að nafninu bregði fyrir í heimildum í sambandi við fiskveiðar. Það er margt, sem veldur því, að Reykjavík verður ekki sögufrægt sjávarplass á áraskipatímanum. Reykjavík verður t.a.m. aldrei verstöð og því veldur lega hennar, að þar er alla tíð á árabátaöldunum róið í heimræði.
Það er rangt, sem margir þeir hafa gert, sem reynt hafa að rekja fiskveiðisögu Reykjavíkur, að slá saman fiskveiðum og útvegi Seltirninga og Reykvíkinga. Það eru allir sammála um að Reykjavík sé það svæði, sem kaupstaðurinn reis á og það er spildan frá Rauðará og út af Örfiriseyjargranda eða út að Seli, gegnt honum. Það hefur ekki verið minna en þriggja kortéra róður úr vörunum austan við Örfiriseyjargrandann og út á móts við yztu varir á Nesinu, svo sem Nesvör og Bygggarðsvör og fengsælasta þorsklóðin, Sviðið, því ekki nýtzt Reykvíkingum til sóknar á tveggja manna förum sínum, sem sókn þeirra byggðist á að heimildir segja. Það verða snemma skörp skil milli útvegsins á Reykjavíkursvæðinu og Seltjarnarness, sem varð verstöð snemma, en verstöðvar mynduðust á yztu nesjum og víkum yzt við firði. Það varð bæði allt annar útvegur og allt annað fólk á Nesinu en í Reykjavík. Á Nesið flykktust vermenn, mest austan yfir fjall, hraustir piltar, sem gerðu Nesstúlkum börn, og settust þar að, og þarna óx upp sterkur stofn harðsækinna sjómanna, sem sóttu út á Sviðsslóð og veiddu stórþorsk.
sjo-3Á Nesinu myndaðist útvegsbændastétt, öflugir karlar, sem gerðu út fjagramannaför, sexæringa og áttæringa og notuðu tveggjamannaför aðeins í grásleppuna og eitthvað til sumarróðra. Það má sjá það í sagnfræðibókum, að Reykvíkingar hafi sótt fyrri hluta vertíðar suður í Garð og Leiru; um þetta má finna einstakt dæmi á 19du öld, — en það voru Seltirningar, sem höfðu þennan háttinn á almennt, ekki Reykjavíkingar.
Þar sem Reykjavík varð ekki verstöð byggðist útvegurinn þar á róðrum heimamanna, og byggðin ekki fjölmennari en 100—150 manns framá daga Innréttinganna. Þá hefur það gert þeim örðugra fyrir að sameinast um róðra á stærri bátum en tveggja manna förum, að Lækurinn klauf byggðina og menn austan Lækjar ekki sameinast mönnum til róðra, sem reru úr Grófarvörunum. Lækurinn hefur oft verið illur yfirferðar áður en brú kom á hann.
sjo-4Ásamt því, sem áður er sagt, að lega staðarins leiddi til sóknar á smábátum á innmið, þá hefur það einhverju valdið máski, að byggðin var klofin. Víkurbóndi hefði þó meðan hann hafði bein í nefinu átt að hafa getað gert út stærra skip, þar sem byggð var snemma nokkuð þétt í Grjótanum, og kannski hefur hann gert það, þó engar séu heimildir fyrir slíkri útgerð. Það má mikið vera, ef mikill útvegsbóndi hefði verið einhvern tímann á áraskipaöldum í Reykjavík, að hann hefði þá ekki komizt inn í söguna með nafnið sitt.
Reykjavík verður á 17du öld verzlunarstaður og síðan iðnaðarpláss á 18du öld og það dregur úr ástundun fiskveiðanna. Menn á kotbýlunum og þurrabúðarmenn hafa þá farið að snúast í kringum verzlunina, sem pakkhúsmenn og eyrarvinnumenn í upp- og útskipun og það dregið úr róðrum þeirra og löngun til sjósóknar og síðan komu Innréttingastofnanirnar uppúr miðri 18du öldinni og sú starfsemi hefur ekki örvað sjósókn Reykvíkinga. Skúli var meira að segja með þær tvær duggur, sem hann keypti 1752, og komu hingað 1753, í Hafnarfirði. Eins var um hina miklu Húkkortuútgerð kóngsins, 1776 — 87, að hún hafði bækistöð sína í Hafnarfirði.
sjo-5Fyrstu heildarlýsingu á byggð og búskap á Reykjavíkursvæðinu er að finna í Jarðabók Árna og Páls (1702—14) og manntalinu 1703. Þá eru 150 manns búsettir á svæðinu frá Rauðará út að Seli og af búskaparháttum má ráða að fólkið lifir þar mest á sjófanginu og þar er getið heimræðis nær við hvert kotbýli og landskuldir greiddar í fiskum en ekki getið bátaeignar. En við höfum heimildir úr Ferðabók Eggerts og Bjarna og Frásögnum Horrebows, hvorttveggja heimildin frá miðri 18du öld, um báta Reykvíkinga.
Í Ferðabókinni er sagt frá því að í verstöðvunum sunnanlands og allt að Keflavík sé róið kóngskipum mest og það eru sexæringar áttæringar og teinæringar, en í höfnunum fyrir norðan Keflavík „sækja menn sjó allt árið á smærri skipum og fámennari.“ Á öðrum stað segir: „ .. . í Reykjavík, á ströndinni inn á móts við Viðey, í Laugarnesi og Engey, sækja menn sjó allt’ árið á smábátum.“
Horrebow segir: „Svo má heita að smábátar séu einungis í Gullbringusýslu og við Hvalfjörð. Víðast hvar á landinu eru þeir stærri og er þeim róið af 4,6 og 8—20 mönnum.“
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er lýst sjósókn Kjalnesinga, en þeir sóttu á sömu mið og Reykvíkingar og hafa róið á samskonar bátum. Það er athyglisvert að þeir Eggert orða sóknina við Kjalnesinga en ekki Reykvíkinga, sem getur ekki stafað af öðru en að hún hafi þá verið meiri og dæmigerðari á Kjalarnesi. Að hvorki þeir Eggert né Horrebow nefna Reykjavík í fiskveiðilýsingu segir náttúrlega sína sögu.
sjo-6Í Ferðabókinni segir svo: „Á Kjalarnesi er sjór sóttur allt árið. Bátar eru hér litlir. Hinir stærstu eru fjagramanna för en einsmannsför þeirminnstu.
Segl Kjalnesinga eru úr þunnum, fíngerðum ullardúk, sem ofinn er með líkum hætti og léreft. Dúkur þessi kallast einskefta og notar bændafólk hann í skyrtur. Aðeins eitt segl er á hverjum bát, og er það haft fjórðungi mjórra að ofan en neðan. Siglutréin eru misjafnlega löng, en venjulegast er, að þau séu % af bátslengdinni. Í siglutoppinum er lítið hjól. Á því leikur strengur til þess að reisa og fella seglið. Siglan er fest í eina af fremstu þóftunum og bundið með taugum í framstafn og til hliðanna. Stýrið er fest á tvo króka, efst á því er þverfjöl sem stjórntaumarnir eru festir í. Þeir eru notaðir hér í stað stýrissveifar.
Í akkeris stað nota menn kollóttan, harðan stein, og er gat í gegnum hann. Í gatið er rekið þvertré, sem taugin er bundin við og festir útbúnað þennan í botninn. Þegar róið er til fiskjar, verður hver maður af skipshöfninni að hafa færi, öngul, beitu og hníf, sem kallast sax, og auk þess að vera sjóklæddur. Allir veiða á handfæri eftir beztu getu, en að loknum róðri er aflanum skipt í jafna hluti, því að annars gæti orðið of mikill munur á afla eftir heppni manna. Bátseigandinn fær einn hlut aflans, þótt hann rói ekki með.
Aðallega veiða menn þorsk, sem er algengasti fiskurinn , en auk hans veiða menn líka flyðrur, skötur og smávaxna háfa. Flyðran er úrvals-matfiskur, en hinir eru einkum veiddir vegna lifrarinnar, en úr henni fæst sérlega gott lýsi. Á haustin og framan af vetri veiða menn smálúður á þar til gerða öngla. Þeir eru festir tveir og tveir á þvertein úr járni. Lúðuveiði þessi er eingöngu nærri landi, sjaldan fjær en áttung úr mílu. Tittlingur, eða réttara sagt þyrsklingur, er smáþorskur. Rauði þyrsklingurinn kallast þarafiskur, af því að hann dvelst á þarabotni. Hann er oft hárauður á lit og með rauðum dröfnum á kviðnum. Þetta eru einungis tilbrigði frá aðaltegundinni, þorskinum. Á Kjalarnesi eru fiskveiðarnar auðveldari en annars staðar á Suðurlandi.“
Í sóknarlýsingu séra Árna Helgasonar í Görðum, en hún frá því um 1830, er sagt að Hafnfirðingar rói eingöngu tveggja manna förum og það er heldur engin ástæða til að ætla að Reykvíkingar hafi verið farnir, fremur en Hafnfirðingar, að breyta neitt sínum aldagömlu róðrarháttum á tveggja manna förum mest.
Það er ekki fyrr en á síðustu þremur áratugum 19du aldar, þegar upp eru komnir í Reykjavík útvegsbændur eins og Hlíðarhúsamenn og Borgarabæjarmenn í Grjótanum, að Reykvíkingar fara að róa stærri árabátum en þeir höfðu gert um aldirnar.“
Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 49. árg 1986, 1. tbl. bls. 54-56.

Aðalstræti

Fyrir nokkru sendu 14 þjóðkunnir menn bæjarráði, borgarstjórn, forsætisráðherra og forseta sameinaðs alþingis ávarp um friðhelgi á bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar.
larus-1Nú er það svo að fáir vita með hokkurri vissu hvar bæjarstæðið er, og hafa komið fram margar tilgátur um það mál. Blaðið hefur nú snúið sér til Lárusar Sigurbjörnssonar skjala-. og minjavarðar Reykjavíkurbæjar, og spurt hann um álít hans á málinu. Lárus hefur sem kunnugt er mikinn áhuga fyrir máli þessu, og hefur viðað að sér miklum fróðleik um allt, er viðkemur staðsetningu á bæjarstæðinu. Fyrsta spurning okkar er þessi:
— Hvar telur þú að bær Ingólfs hafi staðið?
— Mín skoðun á málinu er sú, að bærinn hafi staðið þar sem n ú eru gatnamói Kirkjustrætis og Suðurgötu. Mörg allsterk rök liggja til grundvallar þessari skoðun minni.
— Hver eru helztu rökin?
— Þegar grafið var fyrir Steindórsprenti fannst haugur, sem ég tel að hafi verið haugur frá bæ Íngólfs. En í haug þessum fundust m.a. geirfuglabein og svínabein. Annað er svo það, að staðurinn hefur margt til síns ágætis hvað snertir veðursæld, þarna hefur verið harður tjarnarbakkinn til að byggja á, og kaldavermsl til að sækja vatnið í hefur verið skammt frá bænum. Til er safn sagna frá 1860, sem Sigurður Guðmundsson listmálari hefur safnað. Safn þetta samanstendur af sögnum um hvar bær Ingólfs hafi stáðið. Ein sögnin er höfð eftir gamlalli konu, sem var vinnukona í Viðey. Segir hún að bær Ingólfs hafi verið þar sem gamla klúbbhúsið var, og seinna var útbygging byggð 1914 við hús Hjálpræðishersins.
Mikllar líkur eru fyrir að þessar skoðanir mínar fáist sannaðar eða afsannaðar áður en langt um líður, því innan skamms á að byrja að grafa grunn á fyrrnefndu horni fyrir nýju húsi.
— Er nokkuð fleira, sem þér finnst benda í þá átt, að þarna hafi bærinn verið?
larus-2— Já, það mætti kannski benda á, að eftir líkani, sem ég hef látið gera eftir hugmyndinni, kemur ljóslega fram sú götuskipan, sem er í nágrenni bæjarstæðisins, og hefði getað orðið til eftir staðsetningu húsanna.
— E r nokkuð fleira, sem þú vilt taka fram í þessu sambandi?
— Já, ég vil minnast á það, að þó að skoðanir mínar á þessu máli séu aðrar en þeirra, sem telja að bærinn hafi staðið þar, sem nú eru Uppsalir, er ekki þarmeð sagt, að ég hafi nokkuð á móti friðhelgun bæjarstæðisins. —
Þvert á móti. Þetta eru aðeins mínar skoðanir á málinu. Við þökkum Lárusi svörin.
Myndin af líkaninu sýnir, hvernig Lárus hefur hugsað sér að byggingarnar hafi staðið. No. 1 er skáli. No. 2 eru útihús. No. 3 er eldhús. No. 4 er gamli kirkjugarðurinn. No. 5 er smiðja. Á myndinni sést hvernig afstaða Túngötu og Aðalstrætis er við hugmynd Lárusar.

Heimild:
-Alþýðublaðið 26. febrúar 1960, bls. 7.

Kjalarnes

Í upphafi Kjalnesinga sögu segir frá frumbýlingum á Kjalarnesi:
„Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, nam Kjalarnes millum Leiruvogs ok Botnsár, ok bjó at Hofi á Kjalarnesi. Hann var nýtmenni mikit í fornum sið, blótmaðr lítill, spakr ok hægr við alla. Helgi átti Þórnýju, dóttur Ingólfs í Vík, er fyrst bygði Ísland. Þeirra synir voru þeir Þorgrímr ok Arngrímr; þeir voru báðir miklir ok sterkir, ok hinir vaskligustu menn. Helgi skipaði skipverjum sínum lönd þau, sem hann hafði numit; hann fékk Þrándi á þrándarstöðum, Eilífi í Eilífsdal, Hækingi í Hækingsdal, Tind á kjalarnes - ornefniTindsstöðum, ok þar hverjum sem honum þótti fallit vera. Maðr hét Örlygr; hann var írskur at allri ætt; í þann tíma var Írland kristið; þar réð fyrir [Konufögr Írakonungr. Þessi fyrnefndr maðr varð fyrir konungs reiði; hann fór at finna Patrek biskup, frænda sinn; en hann bað hann sigla til Íslands: því at þangat er nú, sagði hann, mikil sigling ríkra manna; en ek vil þat leggja til með þér, at þú hafir iij hluti: þat er vígð mold, at þú látir undir hornstafi kirkjunnar, [ok plenarium ok járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan at Íslandi; þá skaltu sigla vestr fyrir, þartil er fjörðr mikill gengr vestan í landit; þú munt sjá í fjörðinn inn iij fjöll há, ok dali í öllum“; þú skalt stefna inn fyrir hit synnsta fjall; þar muntu fá góða hafn, ok þar er spakr formaðr, er heitir Helgi bjóla; hann mun við þér taka, því hann er lítill blótmaðr, ok hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli, er fyr sagði ek þér frá; þar skaltu láta kirkju gjöra’, ok gefa [hinum heilaga Kolúmba. Far nú vel, sagði biskup, ok geym trú þinnar sem bezt, þótt þú verðir með heiðnum. Eptir þat býr Örlygr ferð sína, ok er frá ferð hans þat fyrst at segja, at allt gekk eptir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn; síðan fór hann at finna Helga bjólu, ok tók hann vel við honum; reisti Örlvgr þar nú hú ok kirkju, ok bjó þar síðan til elli.
Esja-233Á ofanverðum dögum Konufögrs kom skip í Leiruvog; þar voru á írskir menn. Maðr hét
Andríðr, ungr ok ókvongaðr, mikill ok sterkr. Þar var þá kona sú, er hét Esja, ekkja ok mjok auðig. Sá maðr er nefndr Kolli, er þar var á skipi með þeim. Helgi tók við þeim öllum; Kolla setti hann niðr í Kollafjörð; en með því at Örlygr var gamall ok barnlauss, þá gaf hann upp land ok bú, ok tók Esja við; settist hún þá at Esjubergi. Allir þessir menn voru kallaðir skírðir; en þó var þat margra manna mál, at Esja væri [forn í brögðum. Andríðr fór um vetrinn til vistar til Hofs; var þar þá fóstbræðralag ok með sonum Helga. Andríðr bað Helga fá ser bústað ok kvonfang; Hann hafði auð fjár. Þá var skógi vaxit allt Kjalarnes, svo at þar at eins [var rjóðr, er menn ruddu til bæja eða vega. Braut mikil var rudd eptir holtinu frá Hofi; þangat riðu þeir Helgi ok Andríðr um vorit; ok er þeir komu út á holtið, þá mælti Helgi: ber vil ek, Andríðr, sagði bann, gefa þér jörð, ok at þú reisir þér bæ; mér þykkir sem þeir synir mínir vilji, at þér sitið nær. Eptir þat reisti Andríðr bæ í brautinni ok kallaði Brautarholt, því at skógrinn var svo þykkr, at honum þótti allt annat starfameira; Andríðr setti þar reisuligt bú saman.
Kjalarnes-239Maðr hét Þormóðr, hann bjó í Þormóðsdal; með honum var systir hans, er Þuríðr het; hun var fríð sjónum ok auðig at fe. Þessar konu bað Helgi til banda Andríði, ok þessi konu var honum heitið. Þetta sumar var ok heitið Þorgrími Helgasyni Arndísi, dóttir Þórðar skeggja af Skeggjastöðum, ok voru brullaupin bæði saman at Hofi, ok var veitt með hinu mesta kappi; var þar ok allfjölmennt. Eptir boðit fór Þuríðr í Brautarholt, ok tók við [búi fyrir innan stokk; var þat brátt auðsætt, at hon var mikill skörungr. Þau höfðu margt gangandi fjár, ok gekk allt nær sjálfala úti í skóginum um nesið. Þetta haust [var honum vant kvígu þrévetrar, myrkrar; hon hét Mús. Þessi kvíga fannst [þrem vetrum síðar á nesi því, er liggr til vestrs undan Brautarholti, ok hafði hon þá með sér ij dilka, annann vetrgamlan, en annann sumargamlan; því kölluðu þeir þat Músarnes. Þann vetr, er Andríðr bjó fyrstan í Brautarholti, andaðist Helgi bjóla; þat þótti mönnum hinn mesti skaði, því at hann var hinn vinsælasti maðr. Um vorit skiptu þeir bræðr föðrarfi sínum, hafði þorgrímr föðrleifð þeirra ok mannaforráð, því at hann var eldri, en Arngrímr utjarðir. Hann reisti bæ við fjörðinn, er hann kallaði Saurbæ…“

Heimild:
-Íslendinga sögur, Kjalnesinga saga,1843, bls. 397-401.

Festisfjall

Í „Þjóðsögur og munnmæli“ skráðum af Jóni Þorkelssyni segir m.a. um forna sögn af Írum á Íslandi:
Irar-1„I. Forn sögn er það ein, að í gamalli kálfskinnsbók frá anno 400 post Cristum natum standi, að Ísland hafi verið bygt af Írum, er hafi hingað út farið á 8 skipum og verið hér um 200 ár: Eptir það er mælt, að niðjar þeirra hafi hingað komið, er bygð áttu á Írlandi, og séð hér yfir 50 elda, og var þá útdautt hið gamla fólk, qvi delirabant dix. hinc ven. Tröll. Þar segir og um Siglubergsháls, sem skuli hafa verið í Grindavík. Þar skyldu Írskir hafa fest skipum sínum, þá hingað komu, og segja gamlir menn, að um stórfjörur megi þar sjá járnhringa fasta í sjávarklöppunum.
(Eptir handriti sjéra Friðriks Eggertz 1852).“

Sjá meira um Festisfjall / Festarfjall HÉR.

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson skráði, 1899, bls. 1.

Reykjavík

„Norrænt landnám á Íslandi hefst með Ingólfi Arnars

yni og telst frá því, er hann reisti byggð í Reykjavík sumarið 874.
ondvegissulur-2Hin fáorða saga hans sýnir vel, að hann 
hefir ekki hrapað að því að nema land á afskekktu eylandi lengst vestur í Atlantshafi. Nokkrum árum áður fór hann þangað til þess að kynnast landinu. Þá tók hann land í Álftafirði hinum syðra í Austfjörðum. Þar dvaldist hann eitt ár og kannaði landið. Segir sagan, að honum hafi litist landið betra suður en norður. Þessi stutta setning sýnir að hann muni hafa látið kanna allvíða og má vel vera að þeir hafi þá komist alla leið suður í Hornafjörð.
Næsta vetur sat hann í Noregi og gekk þá til véfréttar um forlög sín, en véfréttin vísaði honum til Íslands. Hefir Ingólfur verið trúmaður mikill og treyst á handleiðslu guðanna. Sést það einnig á því, að þá er hann sigldi að Íslandi næsta sumar, þá varpaði hann öndvegissúlum sínum fyrir borð og hét á guðina að láta þær koma þar að landi er hann skyldi byggja. Þetta var helgiathöfn og um leið afsalaði hann sér ákvörðunarrétti um hvar hann skyldi nema land. Ákvörðunin var falin guðunum. Ekki er þess getið hvar þetta gerðist, en ekki er ólíklegt að það hafi verið í nánd við Vestrahorn, og hafi Ingólfur vænst þess, að öndvegissúlurnar ræki beint til lands. Það hefir aðeins verið fróm og mannleg ósk, ef hann hefir litið Hornafjörð áður um sumar í sólskini, því að sú sjón mundi vekja löngun hjá öllum að eiga þar heima. En nú voru það guðirnir sem réðu, og austanfallið hreif öndvegissúlurnar þegar og bar þær allhratt vestur með landi. Vera má, að Ingólfur hafi ekki viljað missa sjónar á þeim og hafi þess vegna tafist við að fylgja þeim eftir. Fram að þessu höfðu þeir fóstbræður haft samflot, en nú bar Hjörleif undan og sigldi hann rakleitt vestur með landi. Hann treysti ekki á forsjá guðanna, enda varð honum að því. Ingólfur hefir farið mjög hægt yfir og þegar komið var vestur að Öræfum, mun hann sennilega hafa misst sjónar á öndvegissúlunum, enda hafa þá verið komnar dimmar nætur. Þá tekur hann sér vetursetu hjá Ingólfshöfða; þar var þá höfn og gat hann haldið skipi sínu óskemmdu um veturinn. En það var lífsspursmál fyrir hina fyrstu landnámsmenn, að gæta vel skipa sinna, svo að þeir gæti komist aftur af landi burt, ef þeim litist ekki á sig hér. Um vorið sendir hann svo tvo af mönnum sínum vestur með sjó, 
 til þess að leita öndvegissúlnanna. Þessi leit mun hafa staðið í tvö ár, en þá fundust súlurnar í Reykjavík.

Öndvegissúlur

Öndvegissúlur.

Ýmsir hafa haldið því fram, að þetta muni vera skröksaga öndvegissúlurnar hafi ekki getað hrakið meðfram allri suðurströnd Íslands, síðan fyrir Reykjanes og inn Faxaflóa, og alla leið inn í Sund. En nú vill svo til, að þetta er ekki einsdæmi. Nokkrum árum seinna varpaði Þórður skeggi öndvegissúlum sínum í hafið á svipuðum slóðum og Ingólfur. Má marka þetta á því, að hann veitti súlunum ekki eftirför, heldur tók land í Lóni og hugðist bíða þar frétta af því hvar þær hefði borið á land. Sú bið varð nokkuð löng, því að 15 ár bjó hann að Bæ í Lóni, áður en hann frétti til súlnanna. Þær hafði ekki borið á land í námunda við hann, heldur höfðu þær borist vestur með öllu landi, fyrir Reykjanes, inn Faxaflóa og seinast komið á land í Leirvogi í Mosfellssveit. Þessu höfðu guðirnir ráðið, og Þórður fór að vilja þeirra. Hann lagi þegar á stað, er honum barst fréttin, fékk landskika hjá Ingólfi og reisti bú að Skeggjastöðum í Mosfellssveit, og er sá bær enn við hann kenndur. Þessir tveir menn voru sanntrúaðir og treystu guðunum í blindni, eins og sjá má á því, að annar var þrjú ár á hrakningi áður en hann fann hinn útvalda stað, en hinn hljóp frá vildisjörð eftir 15 ára búsetu, til þess að setjast að á stað, sem í engu virtist komast til jafns við hinn upphaflega bústað, — aðeins vegna þess, að guðirnir bentu honum á, að þar ætti hann að vera. En sögurnar af öndvegissúlunum eru merkar að öðru leyti, því að þær eru elsta vitneskja um hafstrauma við Ísland.“

Heimild:
-Árni Óla – Sjómannablaðið, Forsjónin valdi Reykjavík, 37. árg. 1974, bls. 1-2.