Tag Archive for: landnám

Aðalstræti

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Landnám – Reykjavík„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

„Staðsetning elstu minja sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í vesturhluta Kvosarinnar.

Reykjavík - skilti

Landnám – Reykjavík; skilti.

1. Veggjarbrot frá því fyrir 871 +/-2, elsta mannvirkið sem fundist hefur í Reykjavík.
2. Aflöng bygging, sennilega skáli, frá því eftir 871 +/-2.
3. Skáli frá því um 930-1000.
4. Skáli, viðbygging við nr. 3, frá því um 950-1000.
5. Skáli frá því eftir 871 +/-2.
6. Smiðja, sambyggð skálanum nr. 5.
7. Eldstæði og fleiri minjar, líklega frá 9.-10. öld.
8. Bygging frá 10. öld.
9. Túngarður úr torfi með landnámsgjósku í (971 +/-2).
10. Vinnusvæði frá 9.-10. öld þar sem timbur var unnið, dýrum slátrað og skinn sútað.
11. Tvær smiðjur frá 9. og 10. öld.
12. Járnvinnsluofnar og eldstæði frá 9.-10. öld.
13. Kolagröf frá 9.-10. öld.
14. Bygging frá 9.-10 öld.
15. Túngarður frá 9.-10. öld.
16. Brunnur og grjótgarður frá 9.-10. öld.
17. Byggingar frá 9.-10. öld.

Reykjavík - skilti

Landnám – Reykjavík; skilti. Staðsetningar minjastaða.

Elsta byggðin í Reykjavík var á svæðinu milli Tjarnarinnar og sjávar. Talið er að fyrstu húsin hafi risið þar á seinni hluta 9. aldar. Við Aðalstræti hafa fundist merkar minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þar fannst meðal annars veggjarbrot frá því fyrir 871 +/-2 og rústir skála, sem nú má sjá á Landnámssýningunni handan götunnar.
Fyrstu landnemarnir komu frá Noregi og Bretlandseyjum á 9. öld. Minjarnar í miðbænum gefa góð mynd af því samfélagi sem hér var fyrstu aldirnar. Fólk bjó í skálum, en það var algeng gerð torfhúsa í Skandinavíu á þeim tíma. Í nágrenni skálanna voru smiðjur þar sem málmur var unninn og svæði þar sem járn var unnið úr mýrarrauða.
Dýrabein sem fundist hafa við fornleifauppgröft sýna að landnámsmenn hafa veitt sér fugl og fisk til matar. Þeir stunduðu landbúnað og ræktuðu nautgripi og svín. Rostungur var veiddur vegna tannanna, sem voru verðmæt útflutningsvara, og skinnið af þeim var notað í reipi.“

Landnámssýning

Landnámsýningin í Aðalstræti. Langeldur í miðju skálans.

Landnám

Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess„, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs:

Ritun Landnámu

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1067/1068 – 1148).

Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.

Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á Íslandi.

Víkingaskip

Farkostur landnámsmanna.

Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á Íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.

Hauksbók

Hauksbók á sýningu í gamla Landsbókasafninu.

Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, Hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.

Styrmisbók

Styrmisbók.

Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið.

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.

Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“.
LandnámÞessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Sjá meira um landnám Ingólfs HÉR.

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.

Reykjanes

Reykjanes fyrrum – kort ÓSÁ.

Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé við erfiðar aðstæður.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum.

Landnám Ingólfs

Landnám Ingólfs.

Þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast.

Landnám

Við upphaf landnáms.

Landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarli, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hrolleifur bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreind skálatóft á hól.

Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.

Stardalur

Stardalur – fyrrum bæjarstæði Múla?

Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.

Esjuberg

Esjuberg.

Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.

Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.

Eilífsdalur

Eilífsdalur.

Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.

Brynjudalur

Brynjudalur – tóftir Múla?.

Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ekki í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós.

Ölfusá

Ölfusá neðan Gnúpa.

Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.

Steinröðarstaðir

Steinröðarstaðir.

Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25).

Skálholt

Skálholt – teikning; Kalund.

Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að;
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
ÞingnesHér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Hafnir

Fjallað er um álit Páls Theodórssonar á rannsóknum gjóskulaga í Fréttablaðinu árið 2015 undir fyrirsögninni „Kallar á endurskoðun á sögu landnáms„:

Páll Theódórsson

Páll Theódórsson (1928-2018).

Með nýrri tölvuúrvinnslu á gögnum um gjóskulög telur Páll Theódórsson eðlisfræðingur hægt að tímasetja mannvistarleifar með ná kvæmari hætti en áður. Ljóst sé að landnám hafi hafist hér fyrr en áður hefur verið talið. Segir stöðnun ríkja í tímatali landnáms.

„Með nýrri tölvuúrvinnslu er hægt að tímasetja með nákvæmari hætti byggð og fornmuni sem fundist hafa hér á landi. Þetta kemur fram í nýju smáriti Páls Theódórssonar, eðlisfræðings og vísindamanns emeritus hjá Raunvísindastofnun Háskólans.
Páll segir að með aðferðinni sem hann hefur þróað sé kominn traustur grunnur að gjóskutíma talinu (þar sem tímasetning er ákvörðuð eftir gjóskulögum í jarðvegi) og nákvæmar tímasetningar mannvistarleifa og gjóskulaga mögulegar. Óvissumörk tímasetninga séu á bilinu fjögur til tíu ár. „Fornleifafræðingar reyna iðulega að tímasetja mannvist af formgerð muna. Þetta er nú úrelt aðferð,“ segir hann í ritinu.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

Páll vill meina að landnám Íslands hafi hafist umtalsvert fyrr en viðtekið sé í fræðaheiminum, þar sem talið sé að landnám hafi hafist í Reykjavík um 870. „Fyrstu landnámsmennirnir hafa vafalítið valið sér land til búsetu við sjávarsíðuna þar sem aðstaða til útróðra var góð,“ segir hann og bætir við að benda megi á fjölmarga staði á landinu sem hefðu þótt álitlegir.
„Þar sem umtalsverð forleifarannsókn hefur aðeins farið fram á einum slíkum stað, í Reykjavík, og margt sem bendir til að landnám hafi hafist mun fyrr, stöndum við í raun á byrjunarreit í þessum efnum.“
LandnámÝmsar niðurstöður nýrrar úrvinnslu gjóskusniða sem hann hefur hannað segir Páll að varpi ljósi á þennan frumþátt í sögu þjóðarinnar og sýni að landnám hafi hafist mun fyrr en nú sé talið. „Í ljósi þessara upplýsinga er augljóst að í íslenskri fornleifafræði ríkir alvarleg stöðnun í tímatali landnáms.“

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli. Bjarni Einarsson hefur haldið því fram að skálatóftin lýsi tímabundinni búsetu manna hér á landi fyrir eiginlegt landnám norrænna manna.

Sögu elstu búsetu á Íslandi þurfi að taka til gagngerrar endurskoðunar.
Niðurstöður sínar byggir Páll að hluta á nýrri nálgun við mat á þykknun jarðlaga, en hraði þykknunar segir hann að hafi verið stöðugur í átta aldir eftir 870. „Hvorki búseta manna né stórfelldar breytingar á veðurfari hafa haft áhrif á þykknunina — gagnstætt því sem almennt er talið.“
Í riti Páls kemur fram að hann líti á samantektina sem frumniðurstöður og nýja nálgun sem fleiri geti nýtt sér. „Ég lít á þetta kver sem byrjun þar sem aðrir taka síðan við keflinu.“

Hratt landnám bendir til fyrri heimsókna

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

„Fáum hlutum í fornleifafræði er hægt að slá fram sem fullvísum, segir Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, og fagnar allri umræðu um aldur fornminja hér á landi.
Spurningunni um hvort landnám Íslands hafi verið neglt niður við ártalið 870 segir hann bæði hægt að svara með jái og neii. „Það skýrist æ betur að svarið er já í þeim skilningi að það er ekki fyrr en eftir 870 sem stórfelldir fólksflutningar hefjast hingað. Þá er landið numið geysilega hratt og kannski mun hraðar en menn töldu áður,“ segir hann. Á hinn bóginn sé auðvitað vitað að hingað hafi verið komið fólk fyrir 870. „Og um það deilir enginn.“

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Stöðvarfirði.

Til þess að hratt landnám og uppbygging frá 870 gangi upp segir Orri menn hljóta að gera ráð fyrir fólki hér í einhverjum mæli og þess vegna töluvert löngu á undan. „Í mínum huga er ekkert sem mælir á móti því að fólk hafi siglt hingað eða komið þess vegna hundrað árum áður og það eru nýlegar niðurstöður frá Færeyjum sem benda í nákvæmlega þá átt.“ Orri segir menn hafa verið duglega að lesa söguna þannig að landið hljóti að byggjast um leið og það hafi verið uppgötvað. Allt eins gæti verið að fólk hefði vitað af landinu en ekki séð ástæðu til að byggja það fyrr en um 1870.“

Heimild:
-Fréttablaðið, 198. tbl. 26.08.2015, Kallar á endurskoðun á sögu landnáms, bls. 4.

Eiríksstaðir

Eiríksstaðir – skáli Eiríks rauða í Haukadal.

Ingólfur Arnarsson

Í ritstjórnargrein MBL 17. ágúst 1986, sem ber yfirskriftina „Reykjavík 200 ára“ segir m.a.:

Reykjavík

Aðalstræti – fyrrum búsvæði Ingólfs Arnarssonar.

„Um þessa helgi og sérstaklega á morgun, 18. ágúst, er þess minnst með glæsilegum hætti, að 200 ár eru liðin síðan Reykjavík og fimm kaupstöðum öðrum voru veitt kaupstaðarréttindi. Á árinu 1786 hófst saga Reykjavíkurkaupstaðar, saga, sem lýkur ekki, á meðan byggð helst á Íslandi.

Reykjavík

Reykjavík.

Gildi Reykjavíkur fyrir íslenskt þjóðlíf verður seint metið til fulls. Þegar þéttbýli var að myndast þar og annars staðar, voru þeir margir hér á landi, sem töldu þá þróun af hinu illa og að hún myndi spilla menningu og lífi þjóðarinnar.
Á sínum tíma urðu margir um kyrrt í Reykjavík, sem ætluðu aðeins að hafa þar viðdvöl á leið sinni til Vesturheims. Hið sama á við enn þann dag í dag, menn finna kröftum sínum viðnám í borgarsamfélaginu og þurfa ekki að leita út fyrir landsteina í því skyni.“

Reykjavík

Reykjavíkurbréf 17.08.1986.

Í „Reykjavíkurbréfi“ á sömu síðu blaðsins er m.a. af gefnu tilefni fjallað um uppruna borgarinnar, sem reyndar hét þá Reykjarvík:
„Ekki verður annað sagt en ærið óbyrlega blési fyrir landi og þjóð, er árið 1786 rann upp, enda höfðu næstu árin á undan verið hvort öðru erfiðara og óhagstæðara fyrir allan landslýð, og svo átakanlega hafði landsmönnum fækkað, að ekki náði fjörutíu þúsund sálum.
Þó átti þetta ár að verða merkisár í sögu landsins. Með kgl. auglýsingu dagsettri 18. ágúst um sumarið, var gefið fyrirheit um verzlunarfrelsi, sem lengi hafði verið þráð af landsmönnum. Að vísu var það einskorðað við þegna Danakonungs og öðrum þjóðum óheimiluð áfram öll verzlunarviðskifti við landsmenn. En það skiftir mestu máli fyrir oss íbúa höfuðstaðarins, sem nú lifum, og gerir þetta ár að því merkisári í meðvitund vorri, sem það er og verður, að með þessari sömu auglýsingu voru Reykjavík (og fímm kaupstöðum öðrum) veitt kaupstaðarréttindi,
svo að segja má, að á þessu ári hefjist saga Reykjavíkurkaupstaðar.“

Reykjavík

Árbækur Reykjavíkur 1786-1930.

Þannig hefst bókin Árbækur Reykjavíkur 1786-1936 eftir dr. Jón Helgason biskup, sem kom út 1941. Höfundur segist rita verkið í von um, að einhver gæti síðar meir notað þau „drög að Reykjavíkursögu“, sem í ritinu geymdust, við samningu fullkomnari sögu bæjarins. Í tilefni af 200 ára afmæli borgarinnar verður nú ráðist í að skrá þessa sögu, hafa þeir Guðjón Friðriksson og Eggert Þór Bernharðsson verið fengnir til þess. Við ritun sögu Reykjavíkur er unnt að nýta margar heimildir. Fyrsta reglulega Reykjavíkursagan, Saga Reykjavíkur, var skráð af Klemenz Jónssyni, landritara og ráðherra, og kom út í tveimur bindum á árinu 1929.

Bær Ingólfs Arnarsonar
Enginn hefur ritað meira um sögu Reykjavíkur hér í Morgunblaðið en Árni Óla, blaðamaður. Hafa ritgerðir hans og sagnaþættir auk þess verið gefnir út í mörgum bókum.

Árni Óla

Árni Óla (1888-1979).

Eins og svo mörgum öðrum, sem um Reykjavík fjalla, var Árna Óla það hugleikið, að fyrsti landnámsmaðurinn settist að, þar sem síðan varð höfuðborg. Síðasta ritsmíð Árna um þetta efni heitir Verndið helgar tóftir og er frá 1968. Þar segir meðal annars:
„Mér hefír löngum verið mikið áhugamál, að Reykjavík glataði sem fæstu af minningaarfi sínum. En þar sem ég geri ráð fyrir, að héðan af muni ég leggja fátt til þeirra mála, þá knýr hugur mig nú fast til þess að lokum að eggja Reykvíkinga lögeggjan, að láta ekki helgasta söguarf sinn og minningar fara forgörðum.
Hér í hjarta höfuðborgarinnar er helgasti reitur þessa lands og hefir forsjónin falið hann vernd og umhyggju borgarbúa. Helgi hans er bjartari og meiri en sagnhelgi Þingvalla og menningarhelgi biskupsstólanna fomu. Þetta er reiturinn, þar sem fyrsti landnámsmaður Íslands, Ingólfur Arnarson, reisti hinn fyrsta íslenska bæ að tilvísan guðanna.

Reykjavík

Reykjavík – fornleifakort af miðbænum.

Fyrir rúmum 100 árum var til félag menntamanna hér í Reykjavik og nefndist Kvöldfélagið. Það hóf fyrst umræður um það 1864 hvernig Íslendingar, og þó einkum Reykvíkingar ættu að minnast þúsund ára byggingar Íslands árið 1874. Og þá gaf það út ávarp til Reykvíkinga og lauk því á þessum orðum: Allir erum vér Reykvíkingar leiguliðar Ingólfs og höfum honum mikla landskuld aðgjalda. Nú er komið að skuldadögunum. Annað ávarp sömdu nokkrir merkir menn í desembermánuði 1959, þar sem því var beint til Alþingis og ríkisstjómar, forráðamanna Reykjavíkur og allrar þjóðarinnar að bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar við Aðalstræti verði friðlýst sem þjóðlegur helgistaður (leturbr. mín).
Í þessu ávarpi segir meðal annars: „Frá höfuðsetri Ingólfs í Reykjavík, á dögum sjálfs hans og nánustu niðja hans og með þeirra ráði, þróaðist hið íslenzka þjóðfélag og lýðveldi, með allsherjarlögum, alþingi við Öxará og allsherjargoða í Reykjavík.

Reykjavík

Reykjavík – fornleifakort af miðbænum.

Efalaust verður að telja, að bær Ingólfs í Reykjavík hafi staðið við sunnanvert Aðalstræti að vestan, andspænis þeim stað þar sem síðar var kirkjan og gamli kirkjugarðurinn. Öllum má kunnugt vera, hversu það bar til, að höfuðborg landsins var reist á túnum og tóftum hins fyrsta landnámsmanns, þar sem ævafom sögn hermir að guðimir hafi vísað honum til bólfestu. Söguhelgi þessa staðar er sameign allra Íslendinga. Engin þjóð önnur kann frá slíkum atburðum að segja úr sinni sögu, þar sem í einn stað koma upphaf og framtíð. Ekki þarf orða við um það, að
bæjarstæði Ingólfs á að vera um aldur og ævi friðhelgur þjóðminningarstaður.“
Það var einvalalið, sem ritaði nöfn sín undir ávarp þetta: Bjarni Jónsson vígslubiskup, Einar Ól. Sveinsson prófessor, Guðni Jónsson prófessor, Helgi Hjörvar rithöfundur, Kristján Eldjám þjóðminjavörður, Magnús Már Lárusson prófessor, Matthías Þórðarson fyrrv. þjóðminjavörður, Ólafur Lárusson prófessor, Pétur Benediktsson bankastjóri, Ragnar Jónsson forstjóri, Sigurbjöm Einarsson biskup, Sigurður Nordal prófessor, Tómas Guðmundsson skáld og Þorkell Jóhannesson háskólarektor.

Reykjavík

Reykjavík – fornleifauppgröftur í Aðalstræti.

Senn líður að því, að vér eigum að minnast 11 alda afmælis landnámsins, og vér höfum eigi enn goldið Ingólfi landskuldina, né heldur rækt þá höfuðskyldu, er á oss hvílir, að friða um aldur og ævi stað hinna „helgu höfuðtófta“ fyrsta landnámsmannsins.
Enginn maður þarf að vera í vafa um, hvar þessar höfuðtóftir voru. Um það höfum vér einróma álit þeirra merku manna, er sendu ávarpið 1959. Verður ávarp þetta að teljast fullnaðarúrskurður um hvar bær Ingólfs Arnarsonar hafi staðið.“
Í fyrrgreindu ávarpi segir meðal annars fyrir utan þau orð, er Árni Óla vitnar til: „Það er og ályktun vor, að friðhelgun þessa staðar sé ekki og skuli ekki vera háð sérstakri húsbyggingu né miklum mannvirkjum á þessum stað, heldur skyldi reisa þar minnismerki í einhverri mynd, eða marka staðinn að sinni, en friðaður gróðurreitur fyrir almenning gerður þar umhverfis.

Reykjavík

Reykjavík – skáli (langeldur) eftir forneifauppgröft í Aðalstræti.

Árið 1974 mætti gefa efni til, að virðulegum áfanga væri náð í þessu máli, en þá mun verða talið ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar og landnáms Ingólfs.“

Fornleifagröftur

Á þeim tíma, sem þetta ávarp var samið, urðu töluverðar umræður um bæjarstæði Ingólfs Amarsonar. Helgi Hjörvar ritaði á árinu 1961 nokkrar greinar um málið hér í Morgunblaðið. Í tilefni af því, að nú rétt fyrir 200 ára afmælisdag höfuðborgarinnar hefur verið kynnt niðurstaða í samkeppni um nýtt húsnæði fyrir Alþingi, er forvitnilegt að rifja upp þennan kafla úr einni af Morgunblaðsgreinum Helga (1. febrúar 1961): „Alþing hins íslenzka lýðveldis ætti að reisa hús sitt á bæjartóftum Ingólfs, hins fyrsta landnámsmanns á Íslandi, á tóftum Þorsteins Ingólfssonar, sem var sjálfur frumkvöðull að allsherjarríki á Íslandi, í sóknarbroddi að stofnun alþingis á Þingvelli, forvígismaður lagasetningar, fyrsti allsherjargoðinn.

Reykjavík

Reykjavík – uppgröftur í Alþingisreitinn.

Þorsteinn flutti fórnarblóðið til Þingvalla úr hofi föður síns. Hann gerði Þingvöll heilagan frá Reykjavík. Þegar Jón Sigurðsson flutti Alþingi aftur til Reykjavíkur, þá flutti hann þingið með vissum hætti heim aftur, til síns uppruna. Þá voru mönnum þessir furðulegu þræðir örlaganna ekki svo ljósir sem nú er orðið.“
Vegna Morgunblaðsgreina Helga Hjörvar um bústað Ingólfs var eftirfarandi sagt í Reykjavíkurbréfí 15. júlí 1961: „Ætla verður að bær Ingólfs hafi staðið þar sem nú er horn Aðalstrætis og Túngötu eða þar á næstu slóðum. Með því mæla allar líkur, enda koma beztu fræðimenn sér saman um það. Úr þessu verður sennilega aldrei skorið til fulls, en uppgröftur sunnan við Herkastalann fyrir nokkrum árum studdi mjög fyrri rök fræðimanna.

Reykjavík

Reykjavík 1836 – August Mayer.

Helgi Hjörvar hefur með réttu hneykslazt á, að þeim uppgreftri var ekki sinnt sem skyldi. Úr því verður ekki bætt héðan af. En nú er nýlega búið að rífa neðsta húsið við Túngötu, er stóð andspænis Suðurgötu og mikill hluti Andersenslóðarinnar er enn óbyggður. Leikmönnum virðist svo sem nú sé einstætt tækifæri til að grafa á þessum slóðum og kanna hvort einhverjar fornar minjar finnist í jörðu. Þó að slíkur uppgröftur geti líklega ekki eðli málsins samkvæmt skorið úr um það, hvort fyrsta byggð Reykjavíkur var á þessum slóðum, sýnist hvergi fremur ástaeða til fornleifagraftar hér á landi en einmitt þarna. Menn mega því ekki láta þetta tækifæri sér úr greipum ganga.“

Reykjavík

Reykjavík – fornskáli í Aðalstræti eftir fornleifauppgröft.

Fyrir ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar 1974 beitti Reykjavíkurborg sér fyrir fornleifagreftri á þessum stað. Í byrjun júlí 1971 hófst fornleifagröftur á horni Aðalstrætis og Túngötu. Var sænskur fornleifafræðingur, Bengt Schönbeek, ráðinn til að hafa umsjón með verkinu. Vann hann við það ásamt konu sinni, Else Nordahl, sem einnig er fornleifafræðingur. Stjórnuðu þau rannsóknum þarna í nokkur sumur, og með þeim unnu bæði fornleifafræðingar, nemendur í fornleifafræði, jarðfræðingar og ósérhæft fólk. Þorkell Grímsson vann þarna í umboði Þjóðminjasafns. Reykjavíkurborg kostaði verkið. Því miður hefur ekki enn verið lögð fram endanleg greinargerð um niðurstöður þessara rannsókna, þótt leikmönnum sýnist, að tími til að vinna þær sé orðinn meiri en nægur.

Aðalstræti

Landnámsskálinn í Aðalstræti.

Hitt er vitað, að fornleifagröfturinn leiddi í ljós órækar sannanir fyrir því, að þarna var byggð á landnámsöld. Eða svo vitnað sé til orða dr. Kristjáns Eldjárns á Reykjavíkurráðstefnu 1974: „Ég undirstrika það að lokum, að engin sýnileg fomfræðileg ástæða virðist til að rengja að landnám hafí hafizt á þeim tíma sem Ari nefnir, nefnilega 870 eftir burð Krists,
heldur benda fornleifar hér á landi miklu fremur til þess að það geti verið laukrétt og um leið að líta megi á það sem sögulega vissu að þá hafí Reykjavík byggzt.“

Reykjavík höfuðstaður
Þegar minnst var 150 ára afmælis kaupstaðarréttinda Reykjavíkur, kom út ritið Þættir úr sögu Reykjavíkur. Var félagið Ingólfur útgefandi þess. Félagið starfaði á árunum 1934-42 og var Georg Ólafsson, bankastjóri, formaður þess til 1940 en síðan Bjarni Benediktsson, þáverandi borgarstjóri. Gaf félagið út 26 ritverk, stór og smá. Félagið Ingólfur var endurreist á fundi 14. nóvember 1981 og hafði dr. Björn Þorsteinsson, prófessor, forgöngu um það, en Steingrímur Jónsson er formaður félagsins. Tilgangur þess er að gefa út rit er heiti: Landnám Ingólfs og hafa verið gefín út tvö bindi í safninu frá endurreisn félagsins.

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Í fyrrgreindu afmælisriti, sem félagið Ingólfur gaf út 1936, er ritgerð eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, útvarpsstjóra, sem heitir: Hversu Reykjavík varð höfuðstaður. Þar er skýrt frá því, að Skúli fógeti Magnússon „varð til þess sjálfrátt og ósjálfrátt, að leggja grundvöll hins íslenzka höfuðstaðar í skjóli stjórnar- og viðskiptastefnu hins upplýsta einveldis. En hann og hrakfarir erlendrar einokunar urðu til þess að lyfta undir trúna á tilraunimar til að þess að bæta ástandið á íslenzkum grundvelli. Á þeim grundvelli reis Reykjavík sem höfuðstaður nýs lífs í nýju landi.“
Segir Vilhjálmur að nú finnist mönnum það máske ekkert merkilegt, hvað Skúla fógeta og fylgismönnum tókst þegar þeir lögðu í hina þjóðlegu íslensku viðreisnarbaráttu nýjan þátt, baráttuna fyrir efnalegri endurreisn atvinnulífsins í landinu. En þá hafi þetta verið „það merkilegasta, sem fyrir þjóðina hafði komið í mörg hundrað ár og það svo, að mikill hluti Íslendinga þumbaðist á móti þessu, á meðan hann gat. Það, sem um var að ræða, og það, sem stórhugur og framkvæmdaþrek Skúla fógeta vildi koma hér á, var nýtt íslenzkt þjóðfélag, verklega og fjárhagslega séð, ný íslenzk verzlun, peningaverzlun, og ný íslenzk sjósókn og íslenzkur iðnaður. Hið sýnilega tákn þessarar nýju íslenzku menningar var Reykjavík.“

Vilhjálmur V. Gíslason

Vilhjálmur Þ. Gíslason (1897-1982).

Í ritgerð sinni segir Vilhjálmur Þ. Gíslason, að sú almenna skoðun hafí legið í loftinu, að Reykjavík hafi verið valin sem tilraunastöð hins nýja atvinnulífs, af því að hún var bær fyrsta landsnámsmannsins. Hann bendir á, að í Reykjavíkursögu sinni telji Klemenz Jónsson, að þetta muni að minnsta kosti með fram hafa ráðið staðnum. „En þetta er eflaust ekki rétt,“ segir Vilhjálmur og minnir á þau orð Eggerts Ólafssonar í ferðabókinni, að enginn hafi hugsað um það, að í Reykjavík var elsti bær landsins og bústaður fyrsta landnámsmannsins, þegar innréttingunum var valinn þar staður. Sama segi Eggert í einu kvæði sínu, Mánamálum, að enginn hafi munað, að í Reykjavík væru „helgar tóftir“ hins fyrsta landnámsmanns.
Vilhjálmur segir, að Reykjavík hafi vantað virðuleikann. Um þetta hafí Skúli fógeti ekki hugsað í fyrstu eða ekki tekið eftir því. En hér hafi Eggert Ólafsson, einn helsti aðdáandi Skúla, komið til sögunnar. Hann hafi gert sér grein fyrir því, að til að hin nýja atvinnumálastefna bæjarmenningarinnar í Reykjavík ætti að heppnast, þyrfti hún ekki einungis að vera reist á rökum hagfræðinnar og hinnar nýju náttúrufræði um hagnýtingu landsgæðanna, heldur þyrfti Reykjavík einnig að tileinka sér þann þjóðlega, sögulega grundvöll, sem eldri sveitamenning og stórbýlaskipulag hvíldi á og verða þjóðlegur framtíðarbær á sögulegum grundvelli.

Reykjavík

Ferðabók Eggerts – Vilhjálmur Þ. Gíslason.

„Þann grundvöll fann Eggert í þeirri staðreynd, að Reykjavík var einhver elzti sögustaður landsins og helgur staður hins fyrsta landnámsmanns. Þannig varð Eggert Ólafsson höfundur hinnar nýju Ingólfshelgi í landinu og hvatamaður hinnar þjóðlegu Reykjavíkur, eins og Skúli er stofnandi Reykjavíkur sem verzlunar- og atvinnubæjar.“

Alþingi í Reykjavík
Hér verður ekki rakin saga byggðarþróunar í Reykjavík eða lýst reiptogi milli embættismanna og kaupmanna. Smám saman safnaðist valdið í þjóðfélaginu á hendur manna, sem bjuggu í bænum. Menn skiptust í flokka um það, hvar skóli og biskupsstóll ættu að vera, en deildu laust fyrir miðja 19. öld enn ákafar um það, hvar þingstaður þjóðarinnar ætti að vera. Í konungsauglýsingunni frá 1840 um endurreisn Alþingis var hugmyndinni um að þingið skyldi endurreist á Þingvöllum gefíð undir fótinn. Jón Sigurðsson beitti sér fyrir því af festu og rökvísi, að Alþingi yrði í Reykjavík. Um þetta segir Vilhjálmur Þ. Gíslason: „Jón Sigurðsson er að vísu engu ómælskari en Þingvallamennirnir sjálfir, þegar hann er að tala um hinn forna alþingisstað: „Hvergi væri því hátíðlegri staður en við Öxará til að byrja starf það, sem vekja skal oss og niðja vora til föðurlandsástar og framkvæmdarsemi, slíkra sem sæmir siðuðum og menntuðum mönnum á þessari öld,“ segir hann og enn fremur:

Víkingur

Íslenskur víkingur á alþingishátíðinni 1930.

„Sá mætti vera tilfinningarlaus Íslendingur, sem ekki fyndi til föðurlandsástar eða nokkurra djúpra hugsana, þegar hann kemur á þann stað, sem Alþingi feðra vorra hefír staðið. Náttúran hefir í fyrstu sett þar á merki sitt, eitthvert hið stórkostlegasta, sem hún á til … sá staður hefir verið vitni til hins bezta og ágætasta, sem fram hefir farið á landi voru: til heitrar trúar og sambands hinnar fyrstu kristnu, til margra viturlegra ráðstafana, til að halda við góðri stjórn og reglu í landinu, til baráttu feðra vorra fyrir frelsi sínu…“

Hvað á nú Reykjavík á móti þessu öllu?
Jón Sigurðsson telur sjálfur fram ýmsa kosti Reykjavíkur — „ekki ófagurt bæjarstæði“, nóg rými til bygginga, góða höfn og víða, stutt til aðdrátta á sjó og landi frá beztu héruðum og samgöngur jafnhægastar til alls landsins og til útlanda, og loks telur hann það, að töluverður stofn sé í þeim embættis- og lærdómsmönnum, kaupmönnum og iðnaðarmönnum, sem þar séu. Þess vegna telur Jón Sigurðssom, að „þótt hugur og tilfinningar mæli fram með Þingvelli, þá mælir að minni hyggju skynsemi og forsjálni með Reykjavík“.

Landnám

Aðkoma landnámsmannanna.

Þótt menn hafi hatazt við Reykjavík af því að hún væri danskt óræsti og mótsnúin öllu þjóðerni Íslendinga, þá telur hann, „að það standi í voru valdi að gera hana íslenzka, ef vér viljum“. Jón Sigurðsson var samt ekki með Reykjavík sem alþingisstað, af því að þingið ætti að vera Reykjavík til framdráttar, þvert á móti af því „að þingið getur betur orðið það, sem því er ætlað í Reykjavík en á Þingvöllum“. Þessar og þvílíkar röksemdir Jóns Sigurðssonar og hans manna urðu ofan á, eins og kunnugt er. Þar með var Reykjavík í sannleika orðin höfuðstaður, og af Alþingi fékk hún nýjan virðuleik, vegna þeirrar helgi, sem hvíldi á hinni fornu stofnun, sem gekk í endumýjun lífdaga sinna, og Reykjavík varð þá einnig Alþingi gott hæli.“

Mikil saga

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.

Í tilefni af 200 ára afmæli Reylgavíkur hefur hér verið staldrað við þá þætti úr sögu hennar, sem lúta að Ingólfshelginni og þeirri ákvörðun að endurreisa Alþingi hér á þessum stað. Saga mannlífs, atvinnu, menningar og lista er ekki síður merk. Þar er af mörgu að taka eins og sést af öllu því, sem um Reykjavík hefur verið ritað og á eftir að rita. Árið 1967 bundust Reykjavíkurborg og Sögufélagið samtökum um að hefja útgáfu á Safni til sögu Reykjavíkur, Ac.ta Civitatis Reykiavicences. Í þeim flokki hefur Lýður Björnsson annast útgáfu á tveimur bókum, Kaupstaður í hálfa öld 1786-1836 og Bæjarstjórn í mótun 1836-1872. Auk þess hafa komið út fjögur verk önnur í ritröðinni; tvö ritgerðasöfn: Reykjavík í 1100 ár og Reykjavík miðstöð þjóðlífs; og Ómagar og utangarðsfólk. Fátæktarmál Reykjavíkur 1786-1907 eftir Gísla Ágúst Gunnlaugsson og nú í tilefni 200 ára afmælisins Sveitin við sundin. Búskapur í Reykjavík 1870-1950 eftir Þóranni Valdimarsdóttur.

Reykjavík

Reykjavík – nútímalistaverk er minna á forna frægð. Svo virðist sem seinni tíma afkomendur hafi ekki tekist á skrá sig á spjöld sögunnar svo marktækt getur talist.

Reykjavík er borg er býður allt það, sem miklu fjölmennari borgir í milljónaþjóðfélögum veita. Þeirri þróun verður ekki snúið við og henni á ekki að snúa við. En því aðeins viðurkenna menn þau stórvirki, sem unnin hafa verið, að þeir meti þau í réttu ljósi. Þá birtu veitir rannsókn á fortíðinni. Nú á tímum hættir okkur til að leggja efnislegt mat á alla hluti, en eins og hér hefur verið leitast við að draga fram, er það eldmóður hugsjónanna, þróttur skáldanna, virðingin fyrir fortíðinni ásamt með skynsemi og forsjálni, sem hefur veitt Íslendingum þann kraft, er einn dugði til að gera Reykjavík að þeirri höfuðborg, sem nú fagnar 200 ára afmæli sínu.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 182. tbl. 17.08.1986, Reykjavík 200 ára – Reykjavíkurbréf, bls. 32-33.

Reykjavík

Reykjavík – landnámsbæjarstæðið.

Ingólfur Arnarsson

Helgi Þorláksson, prófesor emeritus í sagnfræði við HÍ, svaraði spurningunni „Var Ingólfur Arnarsson til í alvörunni?“ á Vísindavefnum:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson.

„Um 1940 voru dásamlegir tímar í íslenskri miðaldasagnfræði, fræðimenn trúðu flestum Íslendingasögunum eins og nýju neti um menn og málefni 10. aldar en þeirri dýrð lauk um 1950. Því olli líklega einkum að bókfestukenningin svonefnda hafði skotið rótum. Hún nefndist öðru nafni íslenski skólinn og samkvæmt henni voru Íslendingasögur að mestu skáldskapur, og ónothæfar sem heimildir um menn og atburði tímabilsins frá um 870 til um 1050. Gætti aukinnar gagnrýni í allri notkun miðaldaheimilda og er tímaritið Saga, sem hóf göngu um miðja síðustu öld, skýr vitnisburður um slíkar hræringar.
Landnámabók taldist þó halda velli. Stundum er ósamræmi milli gerða hennar og sú gerðin sem helsti sérfræðingur síns tíma um Landnámu, Jón Jóhannesson, taldi standa næst frumtexta segir að Ingólfur hafi verið Björnólfsson. Jón benti á að Björnólfur kunni að hafa haft viðurnefnið örn. Þannig gat Ingólfur verið bæði Arnarson og Björnólfsson.

Ingólfur Arnarsson

Stytta Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli. Styttan var afhjúpuð árið 1924 og er afsteypa. Frummyndin var gerð árið 1907.

Um 1970 var hins vegar almennt farið að draga í efa vitnisburð Landnámu og Íslendingabókar um sögu Íslands fyrir 1050. Sjálfstæðisbaráttan var að baki, lýðveldið að verða aldarfjórðungs gamalt og eðlilegt að endurskoða gömul viðhorf. Hið nýja viðhorf var að heimildir eins og Landnáma segðu jafnvel meira um þá sem sögðu frá, létu festa frásagnir á skinn, en hina sem sagt var frá. Hin rétta spurning var þá ekki: Var Ingólfur til? Heldur: Hvaða tilgangur vakti fyrir þeim sem sögðu frá Ingólfi? Efasemdir komu jafnvel fram um Íslendingabók Ara fróða og það sem hann segir um Ingólf. Til greina þótti koma að það hefði verið samkomulagsatriði ráðamanna um 1120 að telja að Ingólfur hefði verið fyrstur og merkastur landnámsmanna, slíkt hefði getað þjónað hagsmunum ráðamanna á tímum Ara.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Örnefni voru líka gengisfelld sem heimildir um 1970, með svonefndri náttúrunafnakenningu. Höfundur hennar er Þórhallur Vilmundarson sem flutti röð rómaðra fyrirlestra árið 1966 og á næstu árum um kenninguna. Hún snýst um að mannanöfn séu lesin út úr örnefnum en ekki öfugt; örnefnin séu ekki endilega tengd mannanöfnum eins og Landnáma og aðrar heimildir gefa í skyn. Þannig er ing- í Ingólfshöfði standur, fyrirbæri í náttúrunni sem rís upp yfir umhverfi sitt. Höfundur benti líka á Inghól sem er efst á Ingólfsfjalli.

Vestmannaeyjar

Í Landnámabók segir að írskir þrælar Hjörleifs Hróðmarssonar úr Dalsfirði í Noregi, fóstbróður Ingólfs Arnarssonar, hafi fyrstir sest að í Heimaey og Vestmannaeyjar kenndar við þá. Nafngreindir voru þeir: Dufþakur, Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór, Drafdritur og fleiri, alls tíu og bjuggust þeir fyrir í eyjunni um hríð, eða þar til Ingólfur kom og hefndi Hjörleifs fóstbróður síns sem þeir höfðu drepið. Ýmis örnefni í eyjunni eru enn við þá kennd svo sem Dufþekja og Halldórssandur.

Einfaldast væri að sniðganga Ingólf alveg. Þá er ritheimildum um hann hafnað og ekki fengist við spurninguna um það hvort hann var til. Sú saga gengur að fréttamaður hafi spurt fornleifafræðing einn um Ingólf Arnarson og hann svarað „Ingólfur hvaða?“ Þetta ætti einmitt að vera fyrsta spurning, hvaða Ingólfur er það sem við höfnum, höfnum við eingöngu vitnisburði ritheimilda um hann, ef til vill að vissu marki, eða höfnum við tilvist hans með öllu? Sagan í Landnámu um þá félaga, Ingólf og Hjörleif, ber skýr bókmenntaeinkenni, er vafalítið skáldskapur og miklar líkur til að Hjörleifur hafi ekki verið til, að minnsta kosti ekki í þeirri mynd sem birt er af honum í Landnámu.
Mér finnst einsýnt að hafna líka persónunni Ingólfi, eins og hann kemur fram í Landnámu. En merkir það að hinn ætlaði frumherji hafi ekki verið til, og verði jafnvel sniðgenginn með öllu? Ari fróði segir að landið hafi verið numið nærri 870 og vísar til þriggja heimildarmanna um þetta. Hann skrifar eins og Ingólfur hafi verið hinn mikli frumherji. Kannski vissi hann þetta ekki fyrir víst en vafalítið er að landnemar í Reykjavík komu snemma út. Fornleifarannsóknir sýna að menn voru á ferð í Reykjavík þegar fyrir 871 ± 2 ár. Hversu löngu fyrr er óljóst. Einhver var fyrstur og miðað við stöðu fornleifarannsókna er líklegt að það hafi verið landneminn í Reykjavík enda þekkjast ekki skýrar vísbendingar um að aðrir landnemar hafi verið fyrr á ferð annars staðar. Í öðru lagi er varla ástæða til að efast um að frumherjinn hafi verið af norskum uppruna og er það eins og Ari telur. Í þriðja lagi er líklegt að hann hafi numið allmikið land, fyrst hann kom snemma. Í fjórða lagi er líklegt að hann hafi getað látið til sín taka og verið áhrifamikill, eins og sagt er, hafi hann komið fyrstur eða manna fyrstur og fékk þetta forskot á aðra.

Skálafell

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu þegar Ingólfur er sagður hafa leitað Karla og fundið.

Það skiptir máli hér að Reykjavík var ekki höfðingjasetur, svo að séð verði, á 12. og 13. öld þegar sagðar voru sögur af Ingólfi, fyrirmynd annarra landnema, enda er Karli þræll látinn undrast í Landnámu að Ingólfur skyldi setjast að á útnesi. Þetta styður þá skoðun að það sé ekki tilbúningur frá 12. öld að frumherjinn hafi átt heima í Reykjavík, getur að minnsta kosti verið mun eldri sögn. Af Íslendingabók verður ráðið að sagnir um mikilvægi Ingólfs voru til áður en Ari samdi bókina.
Þótt efast sé um að tilgangurinn með Íslendingabók hafi verið algjörlega fræðilegur og því trúað að Ari kunni að þegja um sumt verður hann ekki auðveldlega sniðgenginn með öllu um Ingólf.

Ingólfshöfði

Ingólfshöfði – MWL.

En þótt þannig sé gerður munur á gildi frásagna um Ingólf og Hjörleif er heldur rýrt það sem eftir stendur um landnemann í Reykjavík. Hann hét kannski Ingólfur, var norskur, kom snemma, var ef til vill fyrstur og hann og afkomendur hans munu líklega hafa orðið nokkuð fyrirferðarmikil á elsta skeiði Íslandssögunnar. Eftir stendur það mat margra fræðimanna, lítt haggað, að ritheimildir séu ekki vænlegar til að færa okkur örugga vitneskju um persónur og atburði eða stjórnmálasögu fyrir 1050. Það má kannski segja að það sé samkomulagsatriði að telja, svo lengi sem annað afsannar það ekki, að hinn fyrsti landnemi hafi sest að í Reykjavík og heitið Ingólfur. Hvorugt vitum við þó fyrir víst, kannski voru einhverjir fyrr á ferð annars staðar og kannski er nafn Ingólfs lesið út úr örnefnum.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=7366
-Helgi Þorláksson prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ.

Ölfusá

Ölfusá. Ingólfsfjall fjær.
Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 „undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“.

Kringlumýri

Á Vísindavef HÍ var spurt: „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“ Höfundur svarsins var Orri Vésteinsson prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

„Stutta svarið er nei.
Hér kemur langa svarið:

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

Í hugum flestra hefst landnám með því að einhver kemur á hinn nýja stað, kastar eign sinni á landið, kemur undir sig fótunum og skilur eftir sig arfleifð í afkomendum, örnefnum og sögum. Fleiri fylgja í kjölfarið og leika sama leikinn þar til landið er orðið fullt og ekki pláss fyrir fleiri. Allar landnámssögur fylgja þessum stefum og gildir þá einu hvort söguhetjan er Ingólfur Arnarson á Íslandi, Abraham og Lot í Jórdandalnum og Kananslandi, eða skipverjarnir á Mayflower í Nýja Englandi.

Víkingar

Víkingar komu til Norður-Ameríku, þar sem nú er Nýfundnaland í Kanada, í kringum árið 1000. En af hverju gerðu þeir svæðið ekki að nýlendu sinni eins og aðrir Evrópubúar gerðu nokkrum öldum síðar?
Þessari spurningu var nýlega velt upp á vef Live Science sem bendir á að í kjölfar fyrstu ferðar Kristófers Kólumbusar yfir Atlantshafið 1492 hafi Spánn og fleiri Evrópuríki staðið fyrir stórfelldu landnámi sem varð til þess að evrópskir landnemar og afkomendur þeirra lögðu stærsta hluta álfunnar undir sig.
En eins og við Íslendingar vitum, þá voru Kristófer Kólumbus og samferðamenn hans ekki fyrstu Evrópubúarnir sem komu til Norður-Ameríku. Eftir að víkingarnir tóku sér bólfestu á Íslandi og Grænlandi á níundu og tíundu öld, náðu þeir til Nýfundnalands í krinum árið 1000. Þeir komu sér upp útvarðstöð í L‘anse aux Meadows og notuðu hana sem útgangspunkt fyrir könnunarferðir um önnur svæði í norðausturhluta Norður-Ameríku. Sögulegar heimildir benda til að þeir hafi síðan komið sér upp annarri útvarðstöð sem nefnist „Hop“ en hún var einhvers staðar þar sem nú er New Brunswick.
En víkingarnir stunduðu ekki stórfellt landnám í Norður-Ameríku, að minnsta kosti ekki í samanburði við það sem aðrir Evrópubúar gerðu eftir 1492.

Slíkar sögur lúta lögmálum frásagnarinnar: það verður að vera aðalpersóna og gerðir hennar verða að hafa sæmilega skýrt upphaf og skilgreinanlegar afleiðingar. Það er erfitt að segja sögu um landnám nema það sé einhver skilgreindur gerandi sem gerir markverða hluti á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma. Landnámssögur lúta hins vegar ekki lögmálum raunveruleikans. Raunveruleikinn er iðulega lítið annað en kássa af samhengislausum atburðum og nafnlausu fólki sem hegðar sér alls ekki eins og sögupersónur. Landnám gerist í raun ekki eins og sögur um það bera með sér; það hefur ekki eitt ákveðið upphaf og það er ekki hægt að skilgreina það út frá einstaklingum eða verkum þeirra.
Upphafsmýta Bandaríkjanna segir til dæmis frá því þegar skipverjar á Mayflower stigu á land á Plymouth Rock í Massachusetts árið 1620 en er það upphaf landnáms Evrópumanna á þeim slóðum? Sumir rekja upphafið frekar til þess að Plymouth-félagið fékk konunglega heimild til landnáms þar sem nú er Nýja England árið 1606 og stofnaði skammlífa nýlendu í Popham í Maine árið eftir. Aðrir benda á aðra staði þar sem Evrópumenn voru löngu búnir að koma sér fyrir þegar Mayflower bar að landi, frá Red Bay á Labrador (frá um 1550) til Jamestown í Virginíu (1607), St. Augustine í Flórída (1565) og Santa Fe í Nýju Mexíkó (1598). Fyrir öðrum eru þetta allt afleiðingar af því að Kólumbus fann Ameríku árið 1492 og enn öðrum sýnist að allir þessir atburðir séu aukaatriði í meir en fimmtán þúsund ára sögu mannvistar í Ameríku. Hvenær byrjaði þá landnám í Ameríku?

Hvalstöð

Leyfar eldhólfs hvalsbræðslu á Asknesi í Mjóafirði.

Margir myndu segja að landnámssögur geymi kjarna málsins. Að það skipti ekki svo miklu máli að einhverjir Baskar voru að veiða hvali við Labrador á 16. öld enda leiddi það hvorki til varanlegrar byggðar þeirra þar né hafði það nein sýnileg áhrif á seinni þróun. Að það séu fremur atburðir eins og koma Mayflower sem lýsa því sem markvert er: koma fólks með þekkta afkomendur sem leiddi til samfelldrar sögu og vaxandi byggðar, og sem þar að auki gerði með sér sáttmála – Mayflower compact – sem markar upphaf hugmyndarinnar um sérstakt samfélag Evrópumanna á austurströnd Norður-Ameríku. Þessu má halda fram en þegar spurt er um upphaf landnáms verður að skilgreina hvað það er sem maður á við: er það þegar landið var uppgötvað, þegar fyrsta tilraunin var gerð til að búa þar eða þegar slík tilraun bar fyrst árangur sem skilaði sér í varanlegri byggð? Eða var það sú varanlega byggð sem hafði mest áhrif á síðari þróun sem skiptir mestu máli að halda á lofti?

Mayflower

Mayflower.

Í íslenskri sagnahefð skipar Ingólfur Arnarson sams konar sess og Mayflower í bandarískri. Sagan um hann markar það upphaf sem Íslendingum, frá 12. öld að minnsta kosti, hefur þótt skipta máli. Hún lýsir upphafi samfelldrar byggðar fólks sem átti eitthvað undir sér og átti þekkta afkomendur sem þar að auki voru lykilmenn í þróun laga og réttar á fyrstu áratugum íslensks samfélags. Aðrar sögur eru til, um Naddoð, Garðar og Hrafna-Flóka að ekki sé minnst á Náttfara (sem fær ekki að vera fyrsti landnámsmaðurinn, ekki af því að hann hafi ekki verið það, heldur af því að hann var ekki nógu fínn pappír).

Skarðsbók

Skarðsbók Landnámu.

Sagnahefð okkar er nógu rík til að fólk getur á grundvelli hennar einnar saman valið sér mismunandi áherslur og haft ólíkar skoðanir á hvað það var sem skipti máli. Í einu af handritum Landnámu, Skarðsárbók, hefur einhver skemmt sér við að setja ártöl á spássíuna hjá sögunum um landkönnuðina. Samkvæmt því kom Naddoður til Íslands árið 770. Af hverju skyldum við ekki taka mark á þessu og nota sem upphafsár landnáms á Íslandi?
Í hugum Íslendinga er landnám Íslands órjúfanlega tengt þessum sögum og flestum finnst erfitt að hugsa um það án tilvísunar til þeirra. Á síðastliðnum áratugum hafa hins vegar verið að koma í ljós æ fleiri fornleifar sem knýja okkur til að hugsa öðruvísi um landnámið. Þær sýna að mikill fjöldi fólks tók sér bólfestu á Íslandi skömmu eftir að mikið gjóskulag, svokallað landnámslag, sem þekur um tvo þriðju hluta landsins, féll um 870.

Torfbær

Torfbær.

Fyrir lok 9. aldar var komin byggð á smákotum upp til heiða jafnt sem góðbýlum á láglendi og bendir það til þess að landnámið hafi gengið mjög hratt fyrir sig. Það sést einnig af því að í byrjun 10. aldar hafði orðið gerbreyting á gróðurfari landsins: þar sem áður voru samfelldir birkiskógar voru nú grasmóar. Fornleifar sem örugglega eru frá seinni hluta 9. aldar og þeirri 10. eru mjög miklar að vexti og í samanburði við þær eru vísbendingar um eldri mannvist hverfandi. En þær eru þó til og hefur fólki eðlilega orðið starsýnt á þær: gætu þær bent til þess að fólk hafi verið komið til Íslands löngu áður en Ingólfur á að hafa stigið á skipsfjöl?

Landnámslagið

C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.

Tvær hliðar eru á þessu máli. Annars vegar snýst það um ákveðna tímasetningaraðferð, kolefnisaldursgreiningu. Sú aðferð hefur þann kost að hún gefur aldur á lífrænum leifum óháð samhengi. Hún er sjálfstæð og þegar henni var fyrst beitt á leifar frá upphafi Íslandsbyggðar virtist hún sýna að landnám gæti hafa hafist allt að 200 árum fyrr en talið hafði verið. Á þeim tíma var ekki búið að tímasetja landnámslagið og þá snerust deilur vísindamanna um tímasetningu landnáms í raun um hversu gamalt landnámslagið væri – það var innan ramma hins mögulega að lagið væri mun eldra og þar með öll byggð sem hægt var að tímasetja út frá því. Árið 1995 var sýnt, með tilvísun í lagskiptingu vegna bráðnunar íss á yfirborði Grænlandsjökuls, að landnámslagið hefði fallið á árunum 869-73. Þar með dró kraft úr þessum deilum því þó að á tveimur stöðum hafi fundist torfveggir undir landnámslaginu þá hafa hvergi fundist nein yfirgefin hús, hvergi neinar grafir, öskuhaugar eða gripir sem sannarlega eru undir þessu lagi og þar með eldri en það.
Á fjölmörgum stöðum eru hins vegar merki um mannvist beint ofan á landnámslaginu sem sýnir að veruleg breyting verður ekki fyrr en eftir að lagið féll. Eftir standa allmargar kolefnisaldursgreiningar sem virðast benda í aðra átt. Margar hafa einfaldlega verið túlkaðar vitlaust: skekkjumörkin eru oft víð og ná iðulega fram yfir 870 þó miðgildið sé mun eldra og þó það sé freistandi að horfa á miðgildið þá er það ekki líklegri aldur á tilteknu sýni en gildin til endanna á líkindadreifingunni.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

Ýmiss konar vandræði geta verið með tæknileg atriði eins og hlutfall geislavirks kolefnis í umhverfinu og eiginn aldur sýnanna en meginatriðið er að ekkert einasta sýni sem gefur svo háan aldur er sannarlega tekið úr lögum sem eru eldri en landnámslagið. Sýnin eru annaðhvort tekin úr lögum sem eru sannarlega yngri en landnámslagið eða þau eru úr óþekktu samhengi (sem þýðir líka að þá er óvíst hvað þau eru að tímasetja).
Þetta þýðir ekki að fólk hafi ekki verið komið til Íslands fyrir 870 og er það hin hlið málsins. Torfveggirnir tveir sýna raunar ótvírætt að fólk var komið til Íslands áður en landnámslagið féll en þeir skera ekki úr um hvort það hafi verið nokkrum mánuðum fyrr eða áratugum.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið er í garðinum.

Undir landnámslaginu hafa fundist frjó sem gætu verið úr korni, kolasalli sem gæti stafað af bruna af mannavöldum og ummerki um að birkiskógarnir hafi verið byrjaðir að minnka áður en lagið féll. Þá eru nokkrir gripir til sem geta hafa verið komnir til landsins fyrir 870. Engar af þessum vísbendingum eru ótvíræðar en þær koma heim og saman við þá hugmynd að fólk hljóti að hafa verið komið til Íslands allnokkru fyrir 870.
Það er ekki einfalt mál eða auðvelt að nema land þar sem enginn býr og það myndi gera það miklu skiljanlegra sem gerðist á árunum eftir 870 ef við gerum ráð fyrir því að fólk hafi þá verið hér á ferli um hríð til að kanna landið, gera tilraunir með búskap og koma upp bústofni.

Húshólmi

Húshólmi – skáli. Skráð fornleif, sennilega sú elsta hér á landi.

Einkum og sér í lagi verður allt auðveldara ef fólkið sem kom eftir 870 hefur getað keypt eða leigt búfé sem þegar var búið að rækta. Það eru getgátur einar að svo hafi verið en það er ekkert í fornleifaheimildunum sem útilokar að Ísland hafi fundist og það hafi verið kannað áratugum, og jafnvel öldum, áður en stórfellt landnám hófst, né að fólk hafi verið byrjað að prófa sig áfram með búskap nokkrum áratugum fyrr. Það getur ekki hafa verið mjög víða eða í stórum stíl en nógu mikið til að gera eftirleikinn mögulegan.
Kolefnisaldursgreiningarnar sem notaðar hafa verið til að rökstyðja landnám á 7. öld stafa ekki frá slíkri frumbyggð. Þær tengjast allar byggðinni sem reis eftir 870. En það þýðir ekki að fólk hafi ekki getað verið hér á ferli á 7. eða 8. öld.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=64420

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Hofsstaðir

Fornleifarannsóknir við Hofsstaði hófust árið 1994 en árið 1985 komu í ljós minjar sem bentu til búsetu á þessum stað á 10. eða 11. öld. Í Minjagarðinum eru þrír margmiðlunarsjónaukar sem gefa gestum færi á að skyggnast inn í fortíðina en auk þess hafa fræðsluskilti verið uppfærð.

Merkar fornminjar í miðbæ Garðabæjar

Hofsstaðir

Hofsstaðir – minjagarður.

Bæjarstjórn Garðabæjar óskaði eftir að Þjóðminjasafn Íslands tæki að sér fornleifarannsókn á svæðinu þar sem minjarnar komu í ljós við jarðrask vegna framkvæmda við leikskólann Kirkjuból árið 1985. Forkönnun fór fram árið 1989 en sjálf rannsóknin hófst árið 1994. Í torfveggnum, sem var meðal minja, fannst aska frá landnámstíma og sömuleiðis í soðholunni sem einnig var uppgötvuð.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – minjagarður.

Ákveðið var að byggja Minjagarð og varðveita þannig merkar fornminjar og gera umhverfið fræðandi, aðlaðandi og aðgengilegt fyrir gesti. Niðurstöður fornleifarannsóknanna varpa mikilvægu ljósi á líf og starf fólks við upphaf byggðar á tímum landnáms og stórhug fyrstu íbúa Garðabæjar en landnámsskálinn er að öllum líkindum frá lokum 9. aldar og með stærri skálum sem fundist hafa á Íslandi. Efni á upplýsingaskiltum og margmiðlunarsjónaukum er byggt á fornleifarannsókninni.

Í Minjagarðinum eru 6 upplýsingaskilti með eftirfarandi texta:

Minjagarður á Hofsstöðum
HofsstaðirHér má sjá minjar af reisulegum skála, heimili landnámsfólks, sem stóð á Hofsstöðum alveg frá landnámi fram á tóftu öld.
Minjagarðurinn gefur vísbendinu um hvernig var umhorfs á þessum stað til forna. Torfveggirnir sýna ytri mörk skálans á síðasta byggingarskeiði hans og leifar af stóru hringlaga gerði voru látnar halda sér.
Bæjar á þessums tað er ekki getið í ritheimildum fyrr en seint á fjórtándu öld, lögu eftir að hann var byggður. Fornleifar á þessu svæði fundust af tilviljun við jarðrask árið 1986. Fornleifarannsókn á Hofsstöðum fór svo fram á vegum Þjóðminjasafns Íslands og garðabæjar á árabilinu 1994-2000.
Hægt er fá enn betri innsýn í líf fólksins á Hofsstöðum á öldum áður með því að horfa í gegnu sjónaukana hér í garðnum.

Landnámsbýli
HofsstaðirSkálar voru algengustu íveruhús Íslendinga til forna.
Skálinn á Hofsstöðum er óvenju stór. um það bil 8×30 metrar að ummáli, en þó í fullu samræmi við norræna byggingarhefð á þjóðveldisöld.
Hellur voru lagðar í anddyri skálans og stétt framan við hann en að öðry leyti var moldargólf. Veggirnir voru nær engöngu úr strengjatorfi og þörfnuðustviðgerðar árlega. Ítrekað voru gerðar breytingar og endurbætur á skálanum á meðan búið var í honum.
Á miðju gólfi fannst langeldur með flötum baksturshellum og merki um að setið hefði verið á upphækkuðum bekkjum til beggja hliða. Langeldurinn var um tevir metrar á lengd. Þar vann fólk, skemmti sér, mataðist og hvíldist.

Íbúar á Hofsstöðum
HofsstaðirFyrstu íbúarnir í Garðabæ höfðu nautgripi, kindur, geitur og svín, réru til fiskjar, ófu klæði og ábreiður, smíðuðu úr járni og báru fagra skartgripi. Hér á Hofsstöðum hafa meðal annars fundist soðholur með dýrabeinum, járnsmiðja, brunnur, gerði og túngarður umhverfis heimatúnið.
Hofsstaðir standa í landnámi Ingólfs Arnarssonar og Hallveigar Fróðadóttur en engar heimildir eru til um hver eða hverjir hafi búið hér. Fer þó ekki á milli mála að hér hefur ríkt stórbóndi á sinni tíð og minjarnar benda til þess að hann hafi haft tengsl við Noreg. Miðað við stærð skálans gætu hafa búið hér 30 manns.
Nafnið á bænum gefur auk þess til kynna að hér hafi staðið hof í heiðni.

Forngripir
HofsstaðirÝmsir forngripir hafa fundist á Hofsstöðum. Í vegghleðslu gerðisins fannst kringlótt næla úr brosni, 3.1 sentimetri að þvermáli, hæst í miðju, skreytt með samfléttuðu dýri í stíl sem kennt er við Jalangur, jóska héraðiðr Jellinge á Jótlandi. Jalungursstíll var algengur á Norðurlöndum á tíundu öld.
Að minnsta kosti einn hringprjónn fannst á svæðinu en hann er brotinn og því hvorki hægt að greina aldur hans né uppruna. Hringprjónar voru eingum notaðir til að taka saman skikkju á brjóstinu.
Þá fundust einnig kljásteinar og snældursnúðar úr vefstólum, vaðsteinar í fiskinet og ýmis verkfæri, svo sem sleggjurm kvarnasteinar, hnífar, brýni og tinna til eldsláttu. Lóks má nefna pottabrot úr norsku klébergi.

Vefstofa
HofsstaðirUm vefnað á Hofsstöðum vitnar fjöldi kljásteina úr vefstólum og snældursnúðar. Snældusnúðarnir eru flestir úr klébergi, sem er mjúk steintegund sem var flutt hingað á landnámsöld, sennilega frá Noregi. Steininn er hægt að tálga með hnífi og einnig er hann eldfastur og hentar því vel í potta og önnur suðuílát.
Vestaðurinn var í norðurenda skálans, innan hlaðinna veggja. Á slíkum kljásteinavefstöðum er talið að konur hafi ofið vaðmál frá upphafi landnáms og fram á nítjándu öld. Þettavar erfitt verk, vefkonan varð að standa upprétt og ganga til og frá við vefstaðinn og slá upp fyrir sig með þungri vefjaraskeið, oft úr hvalbeini.
Allur klænaður var ofinn í slíkum vefstofum og var vaðmál helsta útflutningsvara landsmanna.

Soðholur
HofsstaðirTvær soðholur, öðru nafni seyðar, fundust á Hofsstöðum, önnur óvenjulega stór. Þær eru sérstakar fyrir þær sakir að ahfa verið utandyra en kki innanhúss eins og algengast var.
Í soðholunum var soðinn matur. Þær voru fullar af eldbrunnum steinum og brenndum dýrabeinum. Aldursgreining bendir til þess að síðast hafi verið eldað í þeim á tíundu eða elleftu öld.
Dýrabeinin gefa mikilvægar upplýsingar um fæðu fólks, hvers konar búskap landnámsfólkoð stundaði, efnahag og lífsviðurværi. Einnig hvaða dýrategundir fólk veiddi sér til matar. Í soðholunum voru mest svína- og kindabein en einnig bein úr hrossum og nautgripum. Engin fugla- eða fiskbein fundust á Hofsstöðum, þó ekki sé vafi á að íbúar þar hafi róið til fiskjar og veitt fugla.

Forsagan

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Ingólfur Arnarson er jafnan talinn fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann kom fyrst til Íslands ásamt systur sinni Helgu Arnardóttur og fóstbróður sínum og mági, Hjörleifi Hróðmarssyni, til landkönnunar í kringum 867. Þeir komu svo til að nema land á Íslandi í kringum 870, þó hefð sé að miða við 874. Ingólfur hafði verið gerður útlægur frá heimkynnum sínum í Dalsfirði í Firðafylki í Noregi og ákvað því að flytja til Íslands. Framhald þess málatilbúnaðar er þegar þekkt, ef marka má skrif Landnámu.

Ingólfshöfði

Ingólfshöfði – MWL.

Ingólfur er sagður hafa haft vetursetu í Ingólfshöfða sinn fyrsta vetur á Íslandi. Í Íslendingabók segir svo: „Ingólfr hét maðr norrænn, er sannliga er sagt, at færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldr inn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annat sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suðr í Reykjarvík. Þar er Ingólfshöfði kallaðr fyr austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyr vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan“.

Hofsstaðir

Hofsstaðir.

Sagan segir að hann hafi kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð áður en hann kom að landi og svarið að setjast að þar sem þær kæmu að landi, vegna þess að þar myndu goðin vilja að hann byggi. Hann sendi svo þræla sína Karla og Vífil til að leita þeirra, og fundu þeir þær við Arnarhvol í Reykjavík. Sú leit tók 3 ár. Ingólfur settist að í Reykjavík en landnám hans náði á milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir og áttu þau saman soninn, Þorstein.
Þorsteinn Ingólfsson erfði skv. venju foreldra sína af eftirstöðvum Reykjavíkurlandnámsins, þ.e. Reykjanesskagann allan, sem faðirinn hafði þá reyndar þegar úthlutað verulega ríflega til ættingja og vina.

Þingnes

Uppgraftarsvæði á Þingnesi við Elliðavatn.

Erfðirnar höfðu þ.m. takmarkast til mikilla muna og gerðu það að verkum að Reykjavíkurbærinn varð smám saman, með tímanum, svipur hjá sjón. Þorsteinn eftirgaf þó, um stund, meðan hann hafði ráð og völd, lítinn landsbleðil til „leiðarþings“, skv. eigin tilskipan, við Elliðavatn ofan Reykjarvíkur, millum bæjar og vonarspils Alþingisins á Þingvöllum.
Þorsteinn var frumburður Ingólfs, en ekki minna máli í sögunni skiptu fyrirliggjandi ættingjar og velþóknandi duglegir þrælar er gerðu landnámið upphaflega mögulegt. Á meðan Þorsteinn tileinkaði sér Elliðavatn fékk þrællinn Vífill land á Vífilsstöðum, og fékk þar með Vífilsvatn til umráða, en ekki mikið meira. Er líklegt að áður hafi Ingólfur ánafnað systur sinni Helgu álitlegra jarðnæðið neðanvert, nær sjó, er þá hlaut nafnið „Hofsstaðir“. Ekki er ólíklegt að Helga hafi tekið upp og haft í heiðri fyrrum sið föður síns.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; fornt sel frá Hofstöðum.

Arnarnes er t.a.m. nálægt örnefni með vísan í Arnarhól og tengsli forfeðranna við upprunann. Síðar komu í framhaldinu ýmis „Ingólfs“-örnefnin, sem enn lifa í fornum skrifum.

Helga hafði m.a. um tíma selstöðu við Urriðavatn, við eitt af hinum þremur nálægum meginvötnum landnámsins, þ.e. auk Elliðavatns og Vífilsstaðavatns. Þess vegna er rangt að tala um „landnámsmann“ á Hofsstöðum. Þar ríkti kona fyrr á öldum, líklega ein af fáum slíkum skörungum á þeim tíma er lagði ríka áherslu á vefnað. Hvort hún átti eiginmann, fryðil eða lagskonu er hvergi getið í skriflegum heimildum. Þrátt fyrir allt það hefur búinu verið vel við haldið fyrstu árhundruðin.
Ekki er ólíklegt að meginskilyrði þrælsins Vífils fyrir frelsinu, skv. Landnámu, hafi átt að ætla honum systur Ingólfs þar til verndar fjarri bæ landnámsmannsins…

Heimildir m.a.:
https://www.gardabaer.is/mannlif/menning-og-listir/minjagardur-ad-hofsstodum/

Hofsstaðir

Hofsstaðir – upplýsingaskilti: S1 – seyðir, S2 – Hofsstaðir, S3 – Landnámsbærinn, S4 – Fólkið, S5 – Gripir og S6 – Vefstaðurinn.

Landnám

Í Tímanum árið 1989 fjallar Margrét-Hermanns Auðardóttir um kenningar sýnar um upphaf landnáms hér á landi að fenginni reynslu hennar að uppgreftri landnámsbýlis í Herjólfsdal í Vesmannaeyjum undir fyrir sögninni „Öllum fyrri kenningum um upphaf og tímasetningu landnáms á Íslandi kollvarpað – Var Ingólfur á seinni skipunum?“. Þrátt fyrir að tilefnið tengist ekki Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, beint er þó ástæða til að gefa hugmyndafræðinni gaum.

Margrét-Hermanns Auðardóttir

Margrét-Hermanns Auðardóttir, f. 1949.

„Margrét Auðar-Hermannsdóttir fornleifafræðingur varði nýlega doktorsritgerð sína við Umeaa Háskóla í Svíþjóð. Ritgerðin ber heitið: „Islands tidiga bosattning“ og fjallar um fyrstu byggð norrænna manna á Íslandi. Þar er því haldið fram að byggð á Íslandi nái allt aftur á sjöundu öld.
Niðurstöður sínar byggir Margrét á fornleifarannsóknum í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum sem fóru fram á árunum 1971 til 1983. Tímasetning Margrétar á landnáminu byggir á uppgreftrinum í Herjólfsdal, þ.e. því hvað má lesa út frá húsaleifunum og þeim munum sem þar hafa fundist. Þá er mannvistarlagið, þykktin á því og hvernig það hefur hlaðist upp í gegnum tímann, borið saman við gjóskulög eða gosöskulög. Sú viðmiðun sem Margrét notar er meðal annars svokallað landnámslag sem er öskufall frá gosi á Vatnaöldusvæðinu fljótlega eftir að landið byggðist. Hún styðst einnig við aldursgreiningar með geislakoli, svokallaða C-14 aðferð, við aldursgreiningarnar.

Landnámsbyggð í Herjólfsdal

Herjólfsdalur

Uppgraftrarsvæðið í Herjólfsdal séð frá austri. Eftirfarandi er merkt á myndina:
I) Skáli-íveruhús
II) Skáli-íveruhús
III) Eldhús
IV) Fjós
V) Skáli-íveruhús
VI) Heygarður
VII) Matargerðarhús
VIII)Fjós og íveruhús undir sama þaki
IX) Byggingaleifar
X) Garður, sennilega kví
XI) Lítið gripahús, trúlega fyrir svín.

Niðurstöður Margrétar eru í stuttu máli á þá leið að byggð norrænna manna á Íslandi nái allt aftur á sjöundu öld og að byggðin í Herjólfsdal hafi varað frá sjöundu öld og fram á tíundu eða elleftu öld. Margrét hefur j afnframt tengt niðurstöður rannsóknanna úr Herjólfsdal við rannsóknir sem hafa verið gerðar á fastalandinu og telur hún að komið hafi í ljós að byggðin á fastalandinu sé jafngömul byggðinni í Herjólfsdal.
Margrét hefur bent á að áður hafi niðurstöður mælinga samkvæmt geislakolsaðferðinni bent til byggðar á Íslandi fyrir árið 874. Menn hafi hinsvegar aðeins tekið þær niðurstöður gildar sem stutt hafi að landnám hafi átt sér stað í kringum 874 en ekki þær niðurstöður sem gefi til kynna eldri uppruna.
Fyrrnefnt landnámslag, sem Margrét hefur meðal annars til viðmiðunar hefur verið tímasett í kringum árið 900 e. Kr. en Margrét telur að gosið hafi átt sér stað allt að 200 árum fyrr.

Landnámslag 200 árum eldra

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – viðarleifar.

Átta sýni, viðarkol úr birki, úr uppgreftrinum í Herjólfsdal voru tekin til aldursgreiningar. Sex aldursgreiningar benda til hærri aldurs en 874 og þrjár þeirra gáfu til kynna að byggð á svæðinu nái allt aftur á sjöundu öld.
Í viðtali við Tímann útskýrði Margrét niðurstöður sínar varðandi aldur landnámslagsins á eftirfarandi hátt: „Niðurstöður aldursgreininganna eru á bilinu frá sjöundu öld og fram á tíundu og elleftu öld. Neðarlega í mannvistarlaginu í Herjólfsdal er svokallað landnámslag. Ég lít svo á úr því að landnámsaska hefur fallið snemma á byggðina, þá sé það væntanlega eftir elstu aldursgreiningarnar sem ná aftur á sjöundu öld. Þessvegna held ég því fram að þetta gos hafi orðið á sjöundu öld eða í seinasta lagi í kringum árið 700.“

Herjólfsdalur

Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft á sama svæði og Matthías Þórðarson hafði grafið upp langhús áratugum áður. Rannsóknin hélt áfram í fimm sumur en tafðist um nokkur ár vegna eldgossins í Heimaey 1973. Haustið 1980 lauk formlega áralöngum rannsóknum Margrétar og sagði hún í fréttatilkynningu í september, þetta sama ár, að á því 1300 m² uppgraftarsvæði hefðu m.a. fundist átta hús og garðhleðslur. Þau tilheyrðu 4-5 byggingarskeiðum og voru frá mismunandi tímum. Þarna bjuggu bændur, enda ummerki um húsdýr, en einnig nýttu bændur sér hin ýmsu hlunnindi s.s. fugl og fisk. Samkvæmt aldursgreiningum Herjólfsdalsbyggðar, sem formlega voru út gefnar ári seinna, var um mjög forn híbýli að ræða. Elstu húsbyggingarnar eru frá fyrri hluta 9. aldar eða mun eldri en áður var talin. Byggð þessi virðist síðan hafa lagst af á seinni hluta 10. aldar, líklega vegna uppblásturs. Landnámsbyggð í Vestmannaeyjum er því, samkvæmt þessu, eldri en kemur fram í elstu heimildum, Sturlubók og Hauksbók.

Margrét bætti því við að niðurstöður sem þessar byggðu auðvitað á líkum á sama hátt og niðurstöður jarðfræðinga sem hafa verið ríkjandi varðandi aldur gosa og gjóskulaga. „Ég er sammála öðrum fræðimönnum um að gjóskufallið frá Vatnaöldusvæðinu er landnámslag. Þetta er gjóskufall frá gosi sem á sér stað skömmu eftir að land byggðist. Það eru flestir fræðimenn sammála um að það megi kalla þetta landnámslag en ég er ekki sammála þeim um hvenær gosið varð. Auðvitað getur verið að það eigi eftir að mæla þetta nákvæmar. En ef miðað er við uppgröftinn í Eyjum og aldursgreiningarnar þaðan, þá er byggðin í landinu örugglega eldri en frá árinu 874. Spurningin er hvort að ég teygi aldurslíkurnar of langt aftur eða of stutt, það verður ekki vitað fyrr en haldið verður áfram að rannsaka þessa hluti með tilliti til aldurs.“- En er þá hægt að komast lengra í að fá nákvæmari vitneskju um aldur landnámsins?
„Já, slíkt er mögulegt. Það þarf að halda rannsóknum áfram hvað varðar elstu byggð í landinu, enda er stöðugt unnið að því að þróa aðferðir til að fá fram nákvæmari aldur til dæmis á lífrænum leifum.“

Aldursgreining gagnrýnd
Margrét Hallsdóttir jarðfræðingur hefur gagnrýnt niðurstöður Margrétar Auðar-Hermannsdóttur varðandi aldur landnámslagsins. Gagnrýnir hún að aldursgreint er út frá viðarkolum en ekki út frá gróðurleifum í öskulaginu. Viðarkol séu ekki endilega úr gróðri sem lifði á Íslandi við upphaf Íslandsbyggðar.

Landnámslagið

C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.

Geislakolsmælingar á gróðurleifum úr landnámslaginu hafi sýnt aldur á bilinu frá 700-900 e. Kr. og 95% líkur séu á því að lagið sé frá því tímabili. Aðrar rannsóknaraðferðir en geislakolsmælingar bendi þó á síðari hluta níundu aldar.
Varðandi þessa gagnrýni segir Margrét Auðar-Hermannsdóttir: „Hvað varðar aldursgreiningar á lífrænum leifum í landnámslaginu sjálfu, þá hafa þeir sem ég hef leitað ráða hjá mælt með sýnum sem tekin eru undir landnámslaginu til aldursgreininga, en ekki í því vegna truflana sem geta skapast á gosog öskufallstímanum.
Það er greinilegt ósamræmi í því hvernig fjallað er um 14 C aldursgreiningar. Jarðfræðingar draga til dæmis sjaldnast í efa aldursgreiningar frá tíundu og elleftu öld en ef að aldursgreiningar benda til eldri tíma en 874 þá er þeim fundið allt til foráttu. Það sem ég geri í minni rannsókn er að raða saman upplýsingum sem fengnar eru með því að skoða húsaleifarnar og muni sem fundust. Því miður hef ég ekki muni úr elsta hluta mannvistarlagsins, sem gætu sagt til um aldur út frá gildandi formfræði, svokallaðri týpólogíu fornleifafræðinnar. Aftur á móti hef ég hluti efst úr mannvistarlaginu sem eru frá sama tímaskeiði og yngstu aldursgreiningarnar. Þar af leiðandi bendi ég á að þarna er ákveðin fylgni á milli. Rétt er að taka fram að það er mjög algengt að formfræðilega greindir munir finnist ekki í lögum frá þessum eldri tíma, sé tekið mið af fornleifarannsóknum á eyðibýlum í Skandinavíu.“

Myrkar aldir

Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar – Uppdráttur af Heimaey frá 1776
eftir Sæmund Holm.

„Við verðum að hafa í huga að á þessu tímabili, frá 600-800, eru myrkar aldir á Norðurlöndum, sérstaklega í Vestur-Noregi. Mér sýnist á öllu að þetta landnámsfólk komi frá sömu svæðum og áður hefur verið talið út frá hinni hefðbundnu skoðun.
Ari fróði nefnir að hér á landi hafi verið fólk, papar, fyrir hið eiginlega landnám. Ég kem inn á það í ritgerðinni að papar hafi hugsanlega verið norrænir menn. Enda er alltaf tilgreint að Norðmenn kalli þá papa. Einnig má nefna vangaveltur sem hafa komið fram um að þeir hafi verið kristnir og þess vegna kallast papar. Þó að hér hafi fundist írskar bjöllur og baglar þá segir það ekkert til um uppruna fólksins. Það var engin kirkja til á Norðurlöndum svo snemma, þannig að kirkjuleg tákn sem finnast á Íslandi koma annað hvort frá Bretlandseyjum eða meginlandi Evrópu, en segja ekki endilega til um uppruna fólksins sem bjó hér fyrst.

Landnáma

Landnáma.

Þeir sem stóðu að baki Landnámabók á miðöldum gátu ekki haldið því fram að papar hafi verið fyrstu landnámsmennirnir. Með ritun bókarinnar var verið að verja ákveðin völd og eignir og þar þurfti gjarnan að rekja jarðnýtingarréttinn aftur á „landnámstíma“ viðkomandi ætta.
Ég tel sýnt að fyrsta byggðin nái aftur fyrir árið 874 en það verður örugglega áfram deilt um hve langt aftur hún nær. Þar sem ekki er að sjá nein greinileg skil í byggingahefð eða öðru er snertir fyrstu landnámsmenn og þá er seinna koma, þá virðist sem þetta fólk sé að stærstum hluta af sameiginlegum uppruna.“- Af hverju eru menn svona tregir til að meðtaka niðurstöður af þessu tagi?

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – uppdráttur af uppgraftarsvæðinu.

„Í ritgerðinni kem ég inn á það strax í byrjun að íslensk menningarsaga hefur stjómast af miðalda heimildum, en alls ekki af fornleifafræði. Þegar ráðist hefur verið í fornleifauppgreftri á stöðum sem grunur leikur á að tengist elstu byggð, þá er yfirleitt byrjað á að slá upp í Landnámu eða öðrum rituðum heimildum og að loknum uppgreftri lestu yfirleitt í niðurstöðunum að þetta sé landnámsbær þessa eða hins og þetta passi við hefðbundnar hugmyndir um landnám, o.s.frv. Það hafa sjaldnast verið notaðar aldursgreiningaraðferðir að hætti fornleifafræðinnar. Auk þess er lítill hluti svokallaðra heiðinna grafa eða kumla þar sem munir hafa fundist sem geta sagt til um aldur.“

Að breyta fornleifafræðinni

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – skilti.

„Ég sé ritgerðina sem lið í því að það verði vonandi tekið öðruvísi á fornleifaframkvæmdum hér á landi en hingað til hefur verið gert. Þá vil ég ekki síður sýna fram á að fornleifafræðin vinnur ekki út frá rituðum heimildum heldur eigin aðferðum. Auðvitað hundsar hún ekki ritaðar heimildir en hún gengur ekki út frá þeim sem vísum. Fomleifafræðingar eiga að veita gjaldgengum aðferðum eigin faggreinar sem að mínu mati hefur verið gert of lítið af hér á landi, og erum við þar langt á eftir nágrannaþjóðunum bæði hvað opinber framlög varðar og eins menntun þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmdunum. “

Er 874 heilög tala?- Afhverju hefur þessi afstaða verið ríkjandi?

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík um 870.

„Allt þetta með landnámið, ártalið 874 og sjálfstæðisbaráttuna er svo greipt í huga Íslendinga að það er nánast heilagt. En þar sem sjálfstæðisbaráttunni lauk meira eða minna með fullveldinu 1918 þá hefði maður búist við að ný og ferskari stefna yrði ríkjandi í sagnfræði og norrænum fræðum og lögð yrði áhersla á þátt fomleifarannsókna, en sú varð ekki raunin. Þegar stöðnun festist í sessi þá er henni alltaf beitt hatrammlega gegn öllu sem dregur í efa ríkjandi skoðanir og þar með stöðu einhverra valdaaðila og svo er því miður með íslenska fornleifafræði og aðrar tengdar greinar.
Í nágrannalöndunum finnst mönnum óskaplega skrítin sú afstaða að finna því allt til foráttu ef einhver kemst að því að byggð á Íslandi sé hugsanlega eldri en hefðbundnar hugmyndir gera ráð fyrir. “

Sömu niðurstöður í miðbæ Reykjavíkur- Hafa fleiri komist að sömu niðurstöðu?

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.

„Það eru til háar aldursgreiningar frá fleiri stöðum á Íslandi en Herjólfsdal. Fyrir mörgum er þetta greinilega mikið tilfinningamál, fyrir mér er þetta auðvitað bara fagleg staðreynd sem hefur ekkert með tilfinningar að gera.
Það eru til háar aldursgreiningar úr uppgreftrinum í miðbæ Reykjavíkur frá síðasta áratug. Skýrslan um þann uppgröft kom út í vetur í sænskri ritröð sem út af fyrir sig sýnir hve staða íslenskrar fornleifafræði er bágborin. Þar koma fram aldursgreiningar sem eru sambærilegar við aldursgreiningarnar úr Eyjum. Auk þess eru til merki um elstu byggð, þ.e.a.s. mannvist undir landnámslagi, á vesturhluta Suðurlands.“

Er hægt að breyta svona rótgrónum hugmyndum?

Hólar

Fornleifauppgröftur að Hólum. Fornleifafræðingar er jafnan sjálfum sér verstir. Skýrsla um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifavernd hafði t.d. að geyma tímbundnar rangfærslur um störf Ragnheiðar Traustadóttur, stjórnanda Hólarannsóknarinnar, sem voru til þess fallnar að valda henni tímabundnum álitshnekki og fjártjóni. Ragnheiður er í dag einn traustvekjandi fornleifafræðingur landsins.

„Já, ég hugsa það. Þetta síast smám saman inn í vitund manna. Þetta er spurning um tíma. Það verða örugglega einhverjir aðrir en ég sem fá hluti upp í hendurnar sem benda í sömu átt. Ég túlka það þannig að það hafi þegar gerst með uppgreftrinum í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er spurning um hvernig maður vill líta á þessar aldursgreiningar í heild sinni. Það er ekki hægt að taka einungis góðar og gildar þær aldursgreiningar sem eru okkar megin við 874 og neita að horfa á þær sem eru hinumegin við sama ártal. Við verðum að líta á niðurstöðurnar sömu augum hvoru megin sem þær lenda við hefðbundnar hugmyndir.“

Í ómarkvissu þarsi fornleifafræðinga í gegnum tíðina um mat á einstökum merkilegheitum virðist meginmarkmið fræðagreinarinnar gleymst. Dæmi eru um að einhverjir þóknanlegir pótentátar eru fengnir til að taka saman „rannsóknarskýrslur“ fyrir einstakar stofnanir eða Hið opinbera án þess þó að hafa a.m.k. lágmarksþekkingu á viðfangsefninu. Þeir eða þau er hlut eiga að máli hafa sjaldnast fengið að tjá sig um um „rannsóknina.
Fornleifafræðingar landsins þurfa að reyna að hefja sig upp úr daglegu argaþrasi hversdagsins, sem engu skilar, og beina þekkingu sinni að því sem raunverulega skiptir máli – til framtíðar litið.

Heimildir:
-Tíminn, 192. tbl. 28.09.1989, Öllum fyrri kenningum um upphaf og tímasetningu landnáms á Íslandi kollvarpað: Var Ingólfur á seinni skipunum?, bls. 10-11.
-Fornleifaskráning; Fyrri hluti – heimildir fyrir Vestmannaeyjar, 2002.

Herjólfsbær

Herjólfsbær. Í októbermánuði 2005 var ráðist í byggingu nýs Herjólfsbæjar í Herjólfsdal. Að smíðinni er notast við áreiðanlegastu heimildir og reynt að gera hann sem líkastan upprunalegum bænum. Húsið er byggt sem langhús og gripahús. Lista- og menningarfélagið Herjólfsbæjarfélagið hafði frumkvæði að smíðinni. Að framkvæmdinni stóðu Árni Johnsen, Þórður Guðnason, Þorsteinn D. Rafnsson, Esra Ó. Víglundsson og Víglundur Kristjánsson.

Reykjavík

Eftirfarandi fróðleikur er fenginn af vefsíðu Árbæjarsafns undir „Menningarmerkingar í Reykjavík„:

Reykjavík

Staðsetning elstu minja sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í vesturhluta Kvosarinnar.

1. Veggjarbrot frá því fyrir 871 +/-2, elsta mannvirkið sem fundist hefur í Reykjavík.
2. Aflöng bygging, sennilega skáli, frá því eftir 871 +/-2
3. Skáli frá því um 930-1000
4. Skáli, viðbygging við nr. 3, frá því um 950-1000
5. Skáli frá því eftir 871 +/-2
6. Smiðja, sambyggð skálanum nr. 5
7. Eldstæði og fleiri minjar, líklega frá 9.–10. öld
8. Bygging frá 10. öld
9. Túngarður úr torfi með landnámsgjósku í (871 +/-2)
10. Vinnslusvæði frá 9.-10. öld þar sem timbur var unnið, dýrum slátrað og skinn sútuð
11. Tvær smiðjur frá 9.-10. öld
12. Járnvinnsluofnar og eldstæði frá 9.-10. öld
13. Kolagröf frá 9.-10. öld
14. Bygging frá 9.-10. öld
15. Túngarður frá 9.-10. öld
16. Brunnur og grjótgarður frá 9.-10. öld
17. Byggingar frá 9.-10. öld

Landnámssýning

Skáli – Landnámssýningin í Aðalstræti.

Elsta byggðin í Reykjavík var á svæðinu milli Tjarnarinnar og sjávar. Talið er að fyrstu húsin hafi risið þar á seinni hluta 9. aldar. Við Aðalstræti hafa fundist merkar minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þar fannst meðal annars veggjarbrot frá því fyrir 871 +/-2 og rústir skála, sem nú má sjá á Landnámssýningunni handan götunnar.
Fyrstu landnemarnir komu frá Noregi og Bretlandseyjum á 9. öld. Minjarnar í miðbænum gefa góða mynd af því samfélagi sem hér var fyrstu aldirnar. Fólk bjó í skálum, en það var algeng gerð torfhúsa í Skandinavíu á þeim tíma. Í nágrenni skálanna voru smiðjur þar sem málmur var unninn og svæði þar sem járn var unnið úr mýrarauða.

Landnám

Landnámssýning – brýni.

Dýrabein sem fundist hafa við fornleifauppgröft sýna að landnámsmenn hafa veitt sér fugl og fisk til matar. Þeir stunduðu landbúnað og ræktuðu nautgripi og svín. Rostungur var veiddur vegna tannanna, sem voru verðmæt útflutningsvara, og skinnið af þeim var notað í reipi.

Byggð í Aðalstræti á 10. öld

Við fornleifauppgröft í Aðalstræti 14-18 fundust skálarústir frá því um 930-1000 sem nú má sjá í Landnámssýningunni á horni Aðalstrætis og Túngötu.

Landnámssýning

Landnámssýning – skáli.

Skálinn í Aðalstræti var svipaður því sem tíðkaðist almennt í Norður-Evrópu á víkingatíma. Hann var aflangur með tveimur stoðaröðum eftir endilöngu og vönduðu eldstæði á miðju gólfi. Á skálanum voru tveir inngangar, aðaldyr á framhlið (austurhlið) og bakdyr á vesturhlið. Í norðurenda skálans voru básar fyrir uxa eða hesta. Annar minni skáli fannst við suðurhlið skálans og hafði hann verið byggður við nokkrum áratugum seinna.
Stóri skálinn var 85,5 m2 að flatarmáli og í stærra meðallagi miðað við aðra íslenska skála frá sama tíma. Talið er að 5-10 manns hafi búið í skálanum.

Heimild:
-https://borgarsogusafn-api.prod.thon.is/uploads/Fogetagardur_Landnam_e72425c1c0.pdf

Reykjavík

Landnám í Reykjavík.

Hraun

Hér verður fjallað um „Landnám á Reykjanessskaga“ út frá upplýsingum teknum saman af Óbyggðanefnd árið 2004 vegna úrskurðar nefndarinnar í málum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: „En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út“.

Núpshlíð

[G]Núpshlíðarhorn ofan Húshólma.

Um landnám á því svæði, sem Grindavíkurhreppur náði yfir, ber Landnámugerðum ekki saman að öllu leyti: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.
En um várit eptir fóru þeir Molda-Gnúpr vestr í Grindavík ok staðfestisk þar; … Björn [Molda-Gnúpsson] fór í Grindavík ok staðfestisk þar“.
Þórir haustmyrkur nemur því austasta hlutann af því svæði sem hér er til umfjöllunar.

Húshólmi

Húshólmi – skáli undir [G]Núpshlíðarhorni.

Molda-Gnúpr hafði numið Álftaver en hrakist þaðan undan jarðeldum vestur til Höfðabrekku og lent þar í ófriði og vígaferlum. Sturlubók segir Molda-Gnúp hafa flutt til Grindavíkur með sonum sínum, en samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt sonum sínum tveimur, en Björn sonur hans hafi hefnt föður síns og bræðra og farið síðan í Grindavík.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Mörk landnáma Þóris haustmyrkurs og Molda-Gnúpssona eru ekki nefnd í Landnámu. Því segir Haraldur Matthíasson, að um vesturmörk landnáms Þóris sé það eitt vitað að þau séu fyrir utan Krýsuvík. Á þessu svæði hafa orðið miklar landbreytingar vegna eldgosa og gróðureyðingar. Athugandi er að landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála eru vestan við Ögmundarhraun, sem Jón Jónsson jarðfræðingur telur hafa runnið um 1040 en Haukur Jóhannesson jarðfræðingur telur frá árinu 1151.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar skálatóftir á hól.

Landnám Molda-Gnúpssona er talið hafa náð til Reykjaness, en þar tók við landnám Herjólfs Báðarsonar frænda og fóstbróður Ingólfs Arnarsonar.
Landnámabók getur tveggja manna sem námu Vatnsleysuströnd [?], Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, og Eyvindar frænda og fóstra Steinunnar: „Steinuðr en gamla frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon gaf fyrir heklu flekkótta ok vildi kaup kalla; henni þótti þat óhættara við riptingum“.
Steinunnr hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með honum hinn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon <gaf fyrir> heklu flekkótta enska ok vildi kaup kalla; henni þótt þat óhættara við riptingum.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Eyvindr hét maðr, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hon land milli Kvíguvágabjarga og Hvassahrauns. Eyvindur var síðar neyddur til landaskipta við Hrolleif Einarsson, Ölvissonar barnakarls, en landnámsmörk virðast hafa haldist. Kvíguvágar nefnast nú Vogar og Kvíguvágabjörg Vogastapi. Landnám Eyvindar er talið ná inn til Hvassahrauns, en Hvassahraunsbærinn tilheyrir Vatnsleysustrandarhreppi, en næsta landnám er frá Hvassahrauni: „Ásbjörn Özurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álptanes allt, ok bjó á Skúlastöðum“.

Grindavíkurhreppur – Lýsing Grindavíkursóknar

Framfell

Framfell – forn varða. Selvellir fjær.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er lýsing á landkostum í Grindavík: „Um alla þessa sveit er það að nótera að með því hjer er so víða neyðarlegur grasbrestur á túnum og haga, þá fæðist hjer kvikfjenaður, bæði naut og sauðir, mikinn part á fjöru, sölvum og murukjarna. Þar með kappkostar fólk að draga til sín á haustin ofan úr heiðum hrís og lýng so mikið sem hvör megnar, og á þessu helst peníngurinn við lífið og gjörir gagn, þó heybjörg sé lítil, og er ekki kvikfjenaðurinn á þenna framflutníng settur í þessari jarðabók“.

Vesturfell

Vesturfell frá Vigdísarvöllum.

Í „Lýsingu Grindavíkursóknar 1840 – 1841“ eftir Geir Bachmann, sem skráð er í verki Landnám Ingólfs, stendur eftirfarandi um sóknarmörkin: „Að norðanverðu við núnefnda markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradalshagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradalshagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunsselsvatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur.

Kringlumýri

Horft niður á Kringlumýri, forna selstöðu, af Hettustíg. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. – Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að gizka 2 mílur, ef beint yrði farið. Á móts við Grindvíkinga að vestan eiga Krýsuvíkingar land að austanverðu við síðst nefnd mörk úr Framfelli. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur“.

Hraun

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fornri kirkju nær.

Hrauns er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270.
Máldagi Viðeyjarklausturs frá því um 1284 sem greinir frá ítökum í annarra manna jarðir er varðveittur í þremur gerðum. Í b-gerðinni stendur: „Savda hofnn j hravnslandi j grindavik. j c. gielldings. hvsrvm fiarmanni vit þridia mann þott þurfi. kietil ok elldivid og blondv leigvlaust. … Samvidvnnar skog j hravnvm vt fra hvaleyri. jtem skogar toptt j selvikar skogvm“.
Í c-gerðinni segir: „Saudhøfnn j hrauns land j Grindavijk hundrad Gielldingz. hüsrüm farmonnum vid þridia mann þo þurfe. kietil ok elldevid og blöndv leigulaust. … Samvidunar skog j hraunum ut fra Hvaleyri. jtem Skogartuptt j Selvikar skogie“.

Hraunssel

Hraunssel.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem gerð var árið 1703 fyrir Grindavíkurhrepp, má ætla að Hraun hafi átt selstöðu í eigin landi: „Selstaða lángt í frá og þó sæmilega góð“.
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að stólsjörðin Hraun hafi verið seld 8. ágúst 1787.
Í kaflanum um Hraun í Jarðamati 1849-1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið, en landið uppblásið. Sumarbeit góð í seli upp til fjalla. Vetrarhagar lángt frá og rírir“…

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Landamerkjabréf Hrauns var samið 12. október 1889 og þinglesið 20. júní 1890: „Í miðjum „marka-bás“í fjöru er mark á klöpp, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þorkötlustaða, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við „Húsafell“ og yfir „Vatnsheiði“, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum, fyrir norðan Fagradals-fjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, uppaf „Sogasels-dal“, þá eptir Selsvalla-fjalli, til suðurs, samhliða landamerkjum jarðarinnar „Krýsuvíkur“ þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á „móklettum“, skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar „Ísólfsskála“, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru. Einkennismark marksteinanna er L.M. er þýðir landamerki. Lýsing þessi var samþykkt af eigendum og umráðamönnum Ísólfsskála, Klappar, hálfs vesturbæjarins og miðbæjarins á Þorkötlustöðum, Kálfatjarnarkirkjulands og óstaðsetts vesturbæjar“. [líklega er átt við vesturbæ á Þorkötlustöðum].

Selsvellir

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Fyrir neðan ofannefndar undirskriftir stendur eftirfarandi: „Hinsvegar tilgreind landamerki jarðarinnar Hrauns í Grindavík samþykkjast hjermeð að því leyti sem þau ekki koma í bága við landamerkjalýsingu Krýsuvíkur, sem naumast getur hugsast, þar sem allir þrír eigendur Hrauns hafa samþykkt og undirskrifað hana óbreytta“. Undir þennan texta skrifar Á. Gíslason, Krýsuvík 17. júní 1890.
Á manntalsþingi fyrir Grindavíkurhrepp sem haldið var 1. júní árið 1900 var þinglesið skjal frá eigendum og ábúendum jarðarinnar Hrauns. Í skjalinu kom fram að fyrrnefndir aðilar hefðu ákveðið að banna allskonar landrif í landareign jarðarinnar, að undanskildum mosa. Bannið skyldi taka gildi sama dag og skjalið var þinglesið þ.e. 1. júní.

Sloki

Slokahraun – Slokatá fremst t.h. og fornir fiskigarðar nær. Hraun að handan.

Í greinargerð í fasteignamati Gullbringusýslu 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar Hrauns: „Landamerki að vestanverðu, svonefndur markabás á Slokatá þaðan beina línu vestan í vatnsheiði [fell yfirstrikað] í Kálffell, þaðan í vatnskatla (steinker) fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan að Sogaseli fyrir norðan Selsvelli í Selsvalla fjalli, þaðan til suður eftir háfjallinu í göngumannaskarð á Núphlíd, þaðan í götuna hjá móklettum, þaðan yfir há – Festarfjall á sjó út. Þar kemur einnig fram að útengi sé ekkert og að útbeit sé fjalllendi“.
Í maí 1920 gáfu umráðamenn eftirtalinna jarða á Vatnsleysuströnd yfirlýsingu um afnot á landi ofan jarðanna:

Eldborgargreni

Eldborgargreni ofan Knarrarnessels.

„Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren“….
Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891“.

Kálffell

Kálffell – rétt.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingunni um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á Litla Skógfelli“.
Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í þeim hluta fasteignamatsins 1932 sem fjallar um jörðina Hraun stendur m.a. að beitiland hennar sé víðlent og skjólsælt. Deilur séu um landamerki milli eiganda og Vatnsleysustrandarhrepps.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Hraun

Hraun.