Reykjavík

“Norrænt landnám á Íslandi hefst með Ingólfi Arnarsyni og telst frá því, er hann reisti byggð í Reykjavík sumarið 874.
ondvegissulur-2Hin fáorða saga hans sýnir vel, að hann 
hefir ekki hrapað að því að nema land á afskekktu eylandi lengst vestur í Atlantshafi. Nokkrum árum áður fór hann þangað til þess að kynnast landinu. Þá tók hann land í Álftafirði hinum syðra í Austfjörðum. Þar dvaldist hann eitt ár og kannaði landið. Segir sagan, að honum hafi litist landið betra suður en norður. Þessi stutta setning sýnir að hann muni hafa látið kanna allvíða og má vel vera að þeir hafi þá komist alla leið suður í Hornafjörð.
Næsta vetur sat hann í Noregi og gekk þá til véfréttar um forlög sín, en véfréttin vísaði honum til Íslands. Hefir Ingólfur verið trúmaður mikill og treyst á handleiðslu guðanna. Sést það einnig á því, að þá er hann sigldi að Íslandi næsta sumar, þá varpaði hann öndvegissúlum sínum fyrir borð og hét á guðina að láta þær koma þar að landi er hann skyldi byggja. Þetta var helgiathöfn og um leið afsalaði hann sér ákvörðunarrétti um hvar hann skyldi nema land. Ákvörðunin var falin guðunum. Ekki er þess getið hvar þetta gerðist, en ekki er ólíklegt að það hafi verið í nánd við Vestrahorn, og hafi Ingólfur vænst þess, að öndvegissúlurnar ræki beint til lands. Það hefir aðeins verið fróm og mannleg ósk, ef hann hefir litið Hornafjörð áður um sumar í sólskini, því að sú sjón mundi vekja löngun hjá öllum að eiga þar heima. En nú voru það guðirnir sem réðu, og austanfallið hreif öndvegissúlurnar þegar og bar þær allhratt vestur með landi. Vera má, að Ingólfur hafi ekki viljað missa sjónar á þeim og hafi þess vegna tafist við að fylgja þeim eftir. Fram að þessu höfðu þeir fóstbræður haft samflot, en nú bar Hjörleif undan og sigldi hann rakleitt vestur með landi. Hann treysti ekki á forsjá guðanna, enda varð honum að því. Ingólfur hefir farið mjög hægt yfir og þegar komið var vestur að Öræfum, mun hann sennilega hafa misst sjónar á öndvegissúlunum, enda hafa þá verið komnar dimmar nætur. Þá tekur hann sér vetursetu hjá Ingólfshöfða; þar var þá höfn og gat hann haldið skipi sínu óskemmdu um veturinn. En það var lífsspursmál fyrir hina fyrstu landnámsmenn, að gæta vel skipa sinna, svo að þeir gæti komist aftur af landi burt, ef þeim litist ekki á sig hér. Um vorið sendir hann svo tvo af mönnum sínum vestur með sjó, 
 til þess að leita öndvegissúlnanna. Þessi leit mun hafa staðið í tvö ár, en þá fundust súlurnar í Reykjavík.

Öndvegissúlur

Öndvegissúlur.

Ýmsir hafa haldið því fram, að þetta muni vera skröksaga öndvegissúlurnar hafi ekki getað hrakið meðfram allri suðurströnd Íslands, síðan fyrir Reykjanes og inn Faxaflóa, og alla leið inn í Sund. En nú vill svo til, að þetta er ekki einsdæmi. Nokkrum árum seinna varpaði Þórður skeggi öndvegissúlum sínum í hafið á svipuðum slóðum og Ingólfur. Má marka þetta á því, að hann veitti súlunum ekki eftirför, heldur tók land í Lóni og hugðist bíða þar frétta af því hvar þær hefði borið á land. Sú bið varð nokkuð löng, því að 15 ár bjó hann að Bæ í Lóni, áður en hann frétti til súlnanna. Þær hafði ekki borið á land í námunda við hann, heldur höfðu þær borist vestur með öllu landi, fyrir Reykjanes, inn Faxaflóa og seinast komið á land í Leirvogi í Mosfellssveit. Þessu höfðu guðirnir ráðið, og Þórður fór að vilja þeirra. Hann lagi þegar á stað, er honum barst fréttin, fékk landskika hjá Ingólfi og reisti bú að Skeggjastöðum í Mosfellssveit, og er sá bær enn við hann kenndur. Þessir tveir menn voru sanntrúaðir og treystu guðunum í blindni, eins og sjá má á því, að annar var þrjú ár á hrakningi áður en hann fann hinn útvalda stað, en hinn hljóp frá vildisjörð eftir 15 ára búsetu, til þess að setjast að á stað, sem í engu virtist komast til jafns við hinn upphaflega bústað, — aðeins vegna þess, að guðirnir bentu honum á, að þar ætti hann að vera. En sögurnar af öndvegissúlunum eru merkar að öðru leyti, því að þær eru elsta vitneskja um hafstrauma við Ísland.”

Heimild:
-Árni Óla – Sjómannablaðið, Forsjónin valdi Reykjavík, 37. árg. 1974, bls. 1-2.

Reykjavík

Reykjavík 1801.