Árbæjarsafn

FERLIR er vanur víðáttunni, en að þessu sinni var ákveðið að fræðast um Árbæjarsafn á svonefndum Safnadegi. Margt forvitnilegt bar fyrir augu og mikið af upplýsingum lágu á lausu á safnasvæðinu, ýmist utan við húsin, sem þar eru eða inni í þeim. Þó vantar merkingar við sumt, sbr. letursteininn vestast á svæðinu. Á hann er m.a. markaður stafurinn M, sem gæti merkt landamerki eða mörk lands. Um uppruna hans er hvergi getið að sjá má.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn.

Árbæjarsafn er í senn útisafn og byggðasafn og tilheyrir Minjasafni Reykjavíkur. Safninu er ætlað það hlutverk, að gefa almenningi innsýn í lifnaðarhætti, störf og tómstundir Reykvíkinga fyrr á tímum. Safnið er einnig varðveizlu- og skrásetningarstofnun safngripa, húsa og fornleifa. Árið 1957 var ákveðið, að á túni Árbæjar skyldi gerður almenningsgarður og komið upp safni gamalla húsa með menningarsögulegt gildi fyrir höfuðborgina.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn í árdaga.

Safnið var opnað strax sama sumar. Flest húsanna, sem safnið skartar eru úr Miðbænum. Húsin eru u.þ.b. 20 talsins og alltaf bætist við. Þau eru forvitnileg bæði innan- og utandyra. Safnsvæðinu má skipta í fimm hluta: Við Torgið eru stærstu húsin, reisuleg, tvílyft eða portbyggð timburhús frá s.hl. 19. aldar og byrjun hinnar 20. Í Þorpinu eru smærri íbúðarhús iðnaðar- og tómthúsmanna frá 19. öld og upphafi 20. aldar.
Á Hafnarsvæðinu eru tvö stór verzlunarhús frá Vopnafirði og leikfangasýning og aðstaða fyrir skólahópa í öðru þeirra. Fjölgað verður bátum og öðru, sem tilheyrir siglingum og útgerð á svæðinu. Í Sveitinni er gamli Árbærinn og fleira, sem tengist búskap og dreifbýli.

Árbæjarsafn

Bríet.

Í Vélasalnum er m.a. fyrsta eimreið landsins, gufuvaltarinn Bríet, slökkvibílar o.fl. Árbæjarsafn er aðallega opið yfir sumartímann en tekur á móti skólabekkjum og hópum allan ársins hring. Árbæjarsafn hefur árlega gengizt fyrir gönguferðum með leiðsögu um Elliðaárdalinn.
Árbæjarsafn var stofnað 1957 sem útisafn til að gefa almenningi hugmynd um byggingarlist og lifnaðarhætti fyrri tíma. Tíu árum seinna var það sameinað Minjasafni Reykjavíkur.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – Árbær.

Safnið er staðsett í landi Árbæjar, rótgróinnar bújarðar, sem er fyrst nefnd í rituðum heimildum árið 1464. Árbær var meðalstórt býli og bjuggu þar lengi tvær fjölskyldur. Síðasti ábúandinn flutti burtu árið 1948.
Flest húsin á Árbæjarsafni hafa verið flutt úr miðbæ Reykjavíkur. Elsta húsið er Smiðshús, byggt um 1820. Af öðrum 19. aldar húsum má nefna Suðurgötu 7, Nýlendu, Þingholtsstræti, Efstabæ og Líkn.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Í Árbæjarsafni eru ýmsar sýningar og viðburðir sem draga að sér fjölda gesta. Má þar nefna ýmsa handverksdaga, fornbílasýningu og jólasýningu. Að þessu sinni var áhugaverð sýning á gömlu bifhjólum.
Árbæjarsafn er minjasafn Reykjavíkur og er hlutverk þess á sviði minjavörslu, rannsókna og miðlunar í formi safnfræðslu, sýninga og útgáfu.
Borgarminjavörður er forstöðumaður Árbæjarsafns.
Að þessu sinni var m.a. sýning er nefndist Dagur í lífi Reykvíkinga – sjötti áratugurinn.
Á sýningunni er fylgst með sex Reykvíkingum á ólíkum aldri í amstri hversdagsins á árunum 1950-1960. Dvalist er við iðju þeirra einn tiltekinn dag og þeim fylgt eftir frá morgni til kvölds. Jafnframt er litið inn á heimili sex manna fjölskyldu í bænum 2. september 1958 og reynt að endurskapa andrúmsloft á dæmigerðu Reykjavíkurheimili þess tíma.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Veturinn 2003-2004 er hægt er að panta leiðsögn á þessa sýningu sem er í Kornhúsinu.
Þá voru gestir boðnir velkomnir á sýninguna Saga Reykjavíkur – frá býli til borgar í Árbæjarsafni – Minjasafni Reykjavíkur þar sem þróun byggðar og mannlífs í Reykjavík allt frá landnámi til ársins 2000 er í kastljósinu. Sýningin byggir að stórum hluta til á áralangri rannsóknarvinnu á safninu á fornleifum í Viðey og víðar, sögu Innréttinganna, munum 19. og 20. aldar og byggingarsögu borgarinnar.
Sögusýningin er liður í dagskrá Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000. Á þessari sýningu var m.a. farið yfir eftirfarandi úr sögu Reykjavíkur:

Ingólfur og niðjar hans

Árbæjarsafn

Letursteinn í Árbæjarsafni.

Ísland byrjaði að byggjast frá Noregi á 9. öld. Samkvæmt hefðbundinni söguskoðun og þeim skriflegu heimildum, sem til eru, nam Ingólfur Arnarson fyrstur manna land á Íslandi. Hann setti bæ sinn niður í Reykjavík um 870 og staðfesta fornleifarannsóknir við Aðalstræti og Suðurgötu þá tímasetningu.
Lítið er vitað um fjölskyldu Ingólfs og hagi hennar annað en að kona hans hét Hallveig Fróðadóttir, sonur þeirra Þorsteinn og þrælar Vífill og Karli. Þau reistu sér skála við núverandi Aðalstræti en landið, sem Ingólfur helgaði sér, var afar víðáttumikið, náði frá Brynjudalsá í Hvalfirði að Ölfusá í Árnessýslu.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Afkomendur Ingólfs og Hallveigar í karllegg báru virðingarheitið allsherjargoðar vegna stöðu sinnar sem afkomendur fyrsta landnámsmannsins. Þeir beittu sér fyrir stofnun Kjalarnesþings og áttu verulegan þátt í stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Þorkell máni, sonarsonur þeirra, var lögsögumaður og sonur hans, Þormóður, var allsherjargoði er Íslendingar tóku kristni árið 1000.
Sagan segir að Ingólfur hafi valið sér Reykjavík til búsetu eftir tilvísun guðanna vegna þess að öndvegissúlur hans rak þar á land. Líklegra er þó að Reykjavík hafi verið valin vegna ótvíræðra landkosta. Þar má nefna milda veðráttu, gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám. Landnámsmennirnir þurftu ekki síst að treysta á veiðiskap sér til lífsviðurværis og er staðurinn sem Ingólfur kaus sér heppilegur frá því sjónarmiði.

Ingólfur hefur með hinu stóra landnámi sínu hugsað sér að ráða því hverjir settust að undir veldisstól hans á Suðvesturlandi.

Árbæjarsafn

Árbær.

Eftir hans daga saxaðist smám saman á landnám hans. Í nágrenninu risu stórbýli sem skyggðu jafnvel á sjálfa Reykjavík, hugsanlega vegna erfða meðal afkomenda Ingólfs. Þar má nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Eftir árið 1000 er Reykjavíkur sjaldan getið í heimildum og ætt Ingólfs hverfur af sögusviðinu. Vaðmál varð helsta útflutningsvara Íslendinga og veiðijörðin Reykjavík því ekki eins eftirsótt og hún var á landnámsöld.

Víkin og Viðey – búskapur og klausturhald

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.
Klaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins. Margir merkir menn hafa notið príors- eða ábótatignar í Viðeyjar-klaustri, þeirra á meðal Styrmir Kárason fróði, Steinmóður Bárðarson, officialis Skálholtskirkju, og Ögmundur Pálsson, síðar Skálholtsbiskup.

Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
Fornleifauppgröftur fór fram í Viðey á árunum 1987-1995 á vegum Árbæjarsafns – Minjasafns Reykjavíkur og fundust við hann margar merkar minjar, ekki síst frá klausturtímanum, þeirra á meðal fágætar vaxtöflur.

Þorp myndast – Innréttingarnar

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Með kaupauðgistefnunni á 17. og 18. öld vaknaði áhugi um Evrópu á að auka sem mest framfarir í hverju landi með því að koma upp innlendum iðnaði og efla aðra atvinnuvegi. Danska konungsvaldið stuðlaði að því að sú stefna næði einnig fram að ganga á Íslandi með því að styrkja stofnun hlutafélags um íslenskt iðnaðarfyrirtæki, svokallaðar Innréttingar. Konungsjarðirnar Reykjavík og Örfirisey voru m.a. lagðar til fyrirtækisins. Ullariðnaði var komið á laggirnar í Reykjavík. Alls voru reist um 16 hús á vegum Innréttinganna á sjötta áratug 18. aldar og urðu þau fyrsti vísirinn að þorpi í Reykjavík. Ummerki um öll þessi hús, nema tvö, eru nú horfin. Húsið Aðalstræti 10 er eina húsið, sem enn stendur heillegt, en Aðalstræti 16 er einnig að grunni til Innréttingahús.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Fyrsta húsið, sem reis í Reykjavík, fyrir utan verksmiðjuhúsin og nokkur íbúðarhús, var stórt steinhús sem byggt var í landi Arnarhóls fyrir austan læk á árunum 1761 til 1771. Það var tugthús fyrir Ísland (nú Stjórnarráð Íslands) sem átti að rúma 54 fanga. Hugmyndin var sú að fangarnir ynnu við ullariðnað og yrðu þannig betri verkmenn.
Skúli Magnússon landfógeti var meðal helstu talsmanna Innréttinganna og barðist ötullega fyrir tilvist þeirra allan embættistíma sinn. Hann kom sér upp virðulegum bústað í Viðey, sem enn stendur, og bjó þar frá 1754 til dauðadags 1794. Eftir 1767 dró mjög úr starfsemi Innréttinganna. Í Reykjavík var lengst unnið við ullariðnað og hélst það fram yfir aldamótin 1800.

Verslun og handverk

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Elsta heimild um verslunarstað í Hólminum (Grandahólma) við Reykjavík er frá 1521 en um 1700 voru verslunarhúsin flutt þaðan í Örfirisey. Kaupmaðurinn fluttist inn til Reykjavíkur 1759 en verslunarhúsin voru ekki flutt þangað fyrr en 1780.
Konungleg auglýsing um afnám einokunarverslunar var gefin út 18. ágúst 1786 og 17. nóvember sama ár var gefin út tilskipun um einkaleyfi sex kaupstaða til verslunar á Íslandi en Reykjavík ein hélt því óslitið til frambúðar. Verslun var þó eingöngu heimil þegnum Danakonungs og danskir kaupmenn voru eftir sem áður allsráðandi um verslunina.
Í febrúar 1787 var kaupstaðarlóð Reykjavíkur mæld út en þá var aðeins einn kaupmaður í Reykjavík, Sunchenberg, sem áður hafði stýrt einokunarversluninni. Verslunarhús hans stóð þar sem nú er Aðalstræti 2. Ári síðar lét fyrsti nýi kaupmaðurinn, Hans Kristjan Fisker frá Björgvin í Noregi, útmæla sér lóð þar sem síðar var Aðalstræti 3. Þar með var hafin samkeppni í verslun í Reykjavík.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Tíu til tólf danskir og norskir kaupmenn settu næstu ár niður verslunarhús sín á fjörukambinn (í Hafnarstræti) en bjuggu yfirleitt sjálfir í Danmörku eða Noregi og höfðu verslunarstjóra (faktora) til að stýra daglegum rekstri í Reykjavík. Auk kaupmanna, faktora og verslunarþjóna gátu iðnaðarmenn einnig fengið borgarabréf og töldust meðal borgara bæjarins. Bráðlega myndaðist þar stétt margs konar handverksmanna.
Sölubúðir kaupmanna í Reykjavík voru yfirleitt í lágreistum, biksvörtum timburhúsum í dönskum stíl. Búðirnar voru kaldar og dimmar og þar ægði saman hvers kyns vörum. Peningaverslun var nær óþekkt fram undir aldamótin 1900 en allt fór fram með vöruskiptum.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn.

Ný tímamót í verslunarsögu Íslands urðu árið 1855 er verslunin var gefin frjáls öllum þjóðum. Upp úr 1880 breyttust verslunarhættir verulega í Reykjavík með nýjum verslunarsamböndum, auknu vöruúrvali og bættri þjónustu. Þáttur íslenskra kaupmanna jókst þá hratt og ný verslunarsambönd urðu til, einkum við Noreg, sem þá tilheyrði ekki lengur Danaveldi, og Bretlandseyjar.

Höfuðstaður í nánd við nýja tíma

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Þjóðhátíðin 1874 hafði mikla þýðingu fyrir Reykjavík. Bærinn var þá allur prýddur, götur breikkaðar og lagaðar, reglulegt torg var gert á Austurvelli með styttu eftir Thorvaldsen á því miðju og í framhaldi af því voru götur í fyrsta sinn lýstar í Reykjavík. Árið 1881 var Alþingishúsið reist við völlinn. Þjóðleg öfl voru í sókn í höfuðstaðnum. Það lýsti sér í auknu félags- og menningarstarfi og blaðaútgáfu. Aukið sjálfstraust íslenskra borgara í Reykjavík sást meðal annars í nýjum og veglegum timburhúsabyggingum í klassískum stíl. Tómthúsmennirnir tóku nú einnig að reisa sér steinhlaðna bæi og hús í stað torfbæja.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Reykvíkingar fögnuðu nýrri öld er árið 1901 gekk í garð. Miklar tækniframfarir við lok 19. aldar og upphaf þeirrar tuttugustu efldu hagvöxt í Evrópu og breyttu hugarfari manna. Þessi framfaratrú og vísindahyggja náði einnig til Íslands eins og sést best á kvæðum sem ort voru í tilefni aldamótanna. Fyrstu vélarnar (steinolíumótorar) höfðu komið til Reykjavíkur árið 1897 og nú voru vélbátar og gufuknúnir togarar í augsýn.
Árið 1904 var Íslendingum veitt takmarkað sjálfstæði með heimastjórn. Þeir fengu eigin ráðherra sem var ábyrgur gagnvart Alþingi og Stjórnarráð Íslands var stofnað í Reykjavík. Þar með tók Reykjavík raunverulega við hlutverki Kaupmannahafnar sem höfuðborg Íslands. Þessi þróun var svo innsigluð með fullveldi Íslands árið 1918. Gamla íslenska bændasamfélagið var að ummyndast í nýtískulegt borgar- og iðnaðarsamfélag þar sem Reykjavík bar höfuð og herðar yfir aðra staði. Fólk streymdi þangað og mikil fólksfjölgun hélst nær óslitin alla 20. öld.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Með örri fjölgun bæjarbúa og iðnvæðingu á nýrri öld varð bæjarstjórn Reykjavíkur loks að taka á sig rögg og hefja miklar verklegar framkvæmdir í bænum. Embætti borgarstjóra var stofnað 1908. Fyrsta stórframkvæmdin var vatnsveitan 1909. Samhliða henni voru lögð holræsi í götur og hreinlæti jókst stórlega. Árið 1910 var Gasstöð Reykjavíkur tekin í notkun og var hún fyrsta orkuverið í Reykjavík. Næst kom vatnsaflsvirkjun í Elliðaám 1921. Austurstræti var malbikað 1912 og um svipað leyti var farið að leggja gangstéttir.
Stærsta framkvæmd bæjarstjórnar var Reykjavíkurhöfn sem gerð var á árunum 1913 til 1917. Höfnin varð til þess að Reykjavík fékk yfirburðastöðu sem togarabær og miðstöð heildverslunar fyrir allt landið.

Vélvæðing og sérhæfing

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Mestallur togarafloti Íslendinga var gerður út frá Reykjavík á árunum milli stríða. Aflinn var einkum verkaður í salt og fiskreitir til þurrkunar saltfisks settu sem fyrr svip sinn á umhverfi bæjarins. Þegar stríðið skall á 1939 var togaraflotinn orðinn gamall og úr sér genginn en ekki var hægt að endurnýja hann fyrr en eftir stríð. Heimsstyrjaldarárin urðu þó mikil veltiár í togaraútgerð en fiskur var þá nær eingöngu veiddur í ís og fluttur þannig til Bretlands.
Iðnaður tók mikinn fjörkipp í Reykjavík með tilkomu rafmagnsins. Fyrsti áfangi Elliðaárvirkjunar, fyrstu stórvirkjunar á Íslandi, var tekinn í notkun 1921. Um svipað leyti var farið að ræða um virkjun Sogsins í þágu Reykvíkinga og næsta virkjun, Ljósafossvirkjun, tók til starfa 1937.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Á þriðja áratugnum beindust sjónir manna fyrir alvöru að nýtingu jarðvarma í Reykjavík. Um 70 hús fengu heitt vatn úr Þvottalaugunum í Laugardal árið 1930 en á stríðsárunum var hitaveita lögð í meginhluta bæjarins og kom vatnið frá Reykjum í Mosfellssveit. Við það hvarf kolareykurinn í bænum að mestu.
Bílainnflutningur til Íslands hófst að einhverju marki árið 1913. Á millistríðsárunum voru bílar einkum notaðir sem atvinnutæki; til leigubílaaksturs og vöruflutninga. Strætisvagnar Reykjavíkur tóku til starfa 1931 og voru fyrst í stað einkafyrirtæki.
Þróun verslunar í Reykjavík á millistríðsárunum var frá stórum vöruhúsum til margra sérverslana. Litlar matvöruverslanir voru á hverju horni en duglegustu kaupmennirnir færðu út kvíarnar og ráku margar slíkar búðir. Þar má nefna Liverpool, Silla & Valda og Kiddabúð. Mikill fjöldi mjólkurbúða og kjötverslana setti líka svip á umhverfið.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Fiskkaupmenn seldu úr opnum vögnum og hjólbörum á götum og torgum. Vandaðar verslanir með sérvöru, svo sem fatnað, skó, búsáhöld og rafmagnsvörur, voru flestar í miðbænum og við Laugaveginn. Fínasta verslunargatan var Austurstræti.
Vorið 1940 hernámu Bretar Ísland og fjölmennt setulið settist að í bænum, svo fjölmennt að Bretarnir urðu næstum því jafnmargir og Reykvíkingar. Árið 1941 tóku Bandaríkjamenn við herverndinni. Mikil umsvif og ný tækni fylgdu hernum og atvinnuleysi kreppuáranna hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Reykjavík nútímans

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Á fyrstu árunum eftir stríð var Reykjavík að mörgu leyti eins og ofvaxið sveitaþorp. Stöðugt streymdi þangað fólk á besta aldri og börn settu mikinn svip á borgina. Ísland var enn tiltölulega einangrað land og fáir útlendingar lögðu leið sína þangað. Íslendingar voru þó farnir að reyna sig við útlendinga í íþróttum og náðu meðal annars langt í frjálsum íþróttum á eftirstríðsárunum.
Eftir stríð hóf módernisminn loks innreið sína í listir á Íslandi. Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950 og sama ár var Sinfóníuhljómsveit Íslands stofnuð en listmálarar sýndu einkum verk sín í Listamannaskálanum við hliðina á Alþingishúsinu.

Árbæjarsafn

Í Skagafirði má finna tvö gömul guðshús, annars vegar Grafarkirkju á Höfðaströnd og svo Víðimýrarkirkju. Kirkjusmiður Víðimýrarkirkjurvar Jón Samsonarson, en hann var jafnframt kirkjusmiður gömlu kirkjunnar á Silfrastöðum. Gamla kirkjan á Silfrastöðum var reist 1842 og fylgdi þeirri hefð að hafa tvenn skilrúm milli kórs og kirkjuskips. Í endurgerðinni á Árbæjarsafni hefur öðru kórþilinu verið sleppt. Í kór áttu sæti heldri bændur, kirkjubóndinn, meðhjálpari og hreppstjórinn auk nefndarbænda. Milli kórs og kirkjuskips var stúkan en þar sátu eiginkonur þeirra bænda sem áttu sæti í kórnum. Aðrir meðlimir safnaðarins sátu í kirkjuskipinu og samkvæmt gamalli venju sátu karlmenn sunnan megin í kirkjunni en kvenfólk norðan megin.
Kirkjan, sem var bændakirkja, var tekinn ofan 1895 en þá var hún farin að láta á sjá. Ný kirkja var reist og er önnur tveggja guðshúsa á Íslandi sem er átthyrnd, en hin er á Auðkúlu í Húnaþingi. Sami kirkjusmiður er að báðum kirkjum, Þorsteinn Sigurðsson. Kirkjuviðirnir úr gömlu kirkjunni voru nýttir í nýja baðstofu sem reist var á Silfrastöðum. Var baðstofan þó einu stafgólfi (þ.e. lengd milli tveggja stoða) styttri. Predikunarstóllinn fékk einnig nýtt hlutverk og varð búrskápur. Búið var í baðstofunni til 1954 þegar heimamenn fluttu sig yfir í nýtt íbúðarhús. Baðstofan stóð þó áfram og árið 1959 voru viðirnir gefnir Árbæjarsafni. Skúli Helgason tók baðstofuna niður og endurreisti sem kirkju á safninu og var hún vígð af biskupnum yfir Íslandi árið 1961.
Viðir gömlu baðstofunnar voru margir fúnir og lítt nothæfir en þó var grindin eða laupurinn að mestu heil. Skúli bætti við stafgólfi svo kirkjan yrði jafn löng og áður. Auk þess skar hann út vindskeiðar til að prýða kirkjuna og hafði sem fyrirmynd vindskeið sem Þjóðminjasafnið varðveitir. Jafnframt smíðaði Skúli nýja bekki en ein brík (þ.e. gaflhlið) hafði varðveist og var höfð sem fyrirmynd. Predikunarstóllinn var gerður upp og þjónar nú aftur sínu gamla hlutverki.
Meðal gripa í kirkjunni er ljóshjálmur sem var áður í Dómkirkjunni í Reykjavík og altaristafla sem fengin er að láni frá Þjóðminjasafninu og er máluð 1720.

Mikill uppgangur varð í Reykjavík eftir 1960 og borgin þandist út sem aldrei fyrr. Einkabílaeign varð almenn og margvísleg rafmagnstæki léttu heimilisverkin. Hópferðir til sólarstranda tóku að tíðkast og með aukinni velmegun varð til sérstök unglingamenning í Reykjavík.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Um þetta leyti myndaði flugfélagið Loftleiðir ódýra loftbrú yfir Atlantshaf með viðkomu á Íslandi. Einangrun Íslands var að nokkru rofin og æ algengara varð að útlendingar, þar á meðal þekktir listamenn, legðu leið sína til Íslands. Stór og nýtískuleg hótel voru reist í borginni.
Listahátíðir, sem haldnar voru í Reykjavík annað hvert ár frá 1970, áttu ekki lítinn þátt í blómlegu listalífi. Ekki þótti lengur tiltökumál að heimsfrægir menn legðu leið sína til Reykjavíkur. Ferðir Íslendinga sjálfra til útlanda og stóraukin menntun áttu líka þátt í að rjúfa einangrunina. Ný matarmenning setti svip á veitingahúsin í borginni.
Á níunda áratugnum var losað um banka- og gjaldeyrisviðskipti og tölvubyltingin bauð upp á nýja möguleika. mislegt af því sem gert hafði Reykjavík sérstaka og svolítið sveitalega hvarf. Bjór var leyfður á ný eftir að hafa verið bannaður áratugum saman. Miðbærinn varð smám saman að fjörugu kráa- og skemmtihúsahverfi en í stað hans fluttist miðja verslunar á Laugaveg og í Kringluna. Einnig var hundahald leyft á ný eftir áratuga bann.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Staða Reykjavíkur í alþjóðlegu tilliti var rækilega undirstrikuð er leiðtogafundur stórveldanna var haldinn haustið 1986 í Höfða, móttökuhúsi Reykjavíkurborgar.
Á síðasta áratug aldarinnar vakti Reykjavík æ meiri athygli á alþjóðavettvangi. Reykvíkingurinn Björk átti ekki síst þátt í að beina athygli umheimsins að Íslandi. Eins og til að leggja áherslu á hversu mikilvæg Reykjavík var orðin í alþjóðlegu samhengi var hún valin ein af níu menningarborgum Evrópu aldamótaárið 2000.

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.

Með nægilegri innsýn í söguna og hæfilegri forvitni á sjálfbjarga safngestur tiltölulega auðvelt með að tileinka sér fjölmargt af því sem boðið er upp á í safninu. Áhugasamt starfsfólk er reiðubúið að gefa upplýsingar ef eftir er leitað og fróðlegt er að fylgjast með handbragði gamla fólksins, sem þarna nýtur sín vel. Reyndar er Árbæjarsafn ekki síður ágætt tækifæri fyrir þá er lítið sem ekkert vita um tímann fyrir tvítugt, en vilja bæta um betur. Dagsstund í safninu er fyllilega þess virði.

Frábært veður – sól og hiti. Röltið um sýninguna tók 2 klst og 49 mín.

Framangreindar upplýsingar eru m.a. fengnar af:
http://www.arbaejarsafn.is/

Árbæjarsafn

Í Árbæjarsafni.