Viðey

Í Tímanum 1986 er umfjöllun Ingólfs Davíðssonar; “Hugsað til Viðeyjar“:

“”Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur, víða eg trúi hann svamli sá gamli”. Svo kvað Jón biskup Arason árið 1550.
Langt er síðan munkar gengu þar um garða, en um skeið var Viðeyjarklaustur eitt hið auðugasta á Íslandi og átti jarðeignir miklar.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Skúli Magnússon landfógeti, sem nefndur hefur verið faðir iðnaðar og þar með kaupstaðar í Reykjavík, bjó lengi í Viðey. Mætti segja að hann hafi þar reist sér minnisvarða með byggingu Viðeyjarkirkju og stofu. Mun Viðeyjarstofa elsta hús í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þrír frægir menntamenn þ.e. Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson dvöldu oft á vetrum í Viðey hjá Skúla og unnu að hinum stórmerkilegu ferðabókum sínum.
Eftir Skúla tók við veldi Stefánsunga.

Löngum hefur verið rekið stórbú

Viðey

Viðey.

Í Viðey og um skeið var þar mikil útgerðarstöð. Þorsteinn Erlingsson kvað: „Í logninu fuglinn um fjörurnar þaut og flaug upp um engjar og tún. Hann veitti þar eggjunum unað og skraut og Ólafi Stephensen dún”.
Í jarðabók 1703 segir: „Engi yfirfljótanlega mikið og gott ef nýtt og ræktað er. Hagbeit um sumar og vetur hin allra besta.” Og í sýslulýsingum 1852 stendur: „Viðey sögð öll grasivaxin, en mjög þýfð, einkar grasgefin. Æðarvarp mikið og afbragðsmikill heyskapur og einhver hinn besti heykostur.”
Nokkur tilraunastarfsemi var í Viðey á fyrr öldum. Voru nokkrar trjátegundir gróðursettar þar 1752, en allar dóu þær út á næsta ári. Grenifræi var sáð í óræktað land hingað og þangað, einkum í klettunum við sjóinn, en allar plönturnar dóu á þriðja ári. Telur Skúli tilraunirnar ekki hafa verið gerðar af nægilegri þekkingu.

Reynihríslur í Viðey

Viðey

Viðey.

Arthur Dillon lávarður, sem dvaldi í Reykjavík 1834-1835, getur um hríslur í Viðey. Hann ritar á þessa leið um för sína og franskra manna út í Viðey: „Við lentum við brattar steintröppur. Milli þeirra og hússins var grasflötur og þar voru gróðursett um 50 tré. Þó þau væru mjög ung voru þau orðin meira en 12 fet á hæð og munu sennilega dafna betur en flest önnur, þar sem þau vaxa í skjóli hússins og hæða til beggja handa. Húsið var á stærð við stiftamtmannshúsið og lítil kirkja við annan endann.” Dillon nefnir ekki trjátegundina, en líklega hafa þetta verið reyniviðir eins og hjá stiftamtmanninum í landi á sama tíma.
Skyldi Magnús Stephensen hafa gróðursett þessi tré, eða Ólafur Stephensen? Sennilega hafa tré ekki haldist lengi við í Viðey.

Kornrækt í Viðey og Reykjavík

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Getið er kornræktar í Viðey á 12. öld og einu sinni kvað hafa þurft Þorlák helga til að setja niður músagang, sem át kornið! Í Sturlungu er sögð kornyrkja í Gufunesi árið 1220. Víkurkirkja átti akurlendi í Örfirisey 1397. Örnefnið Akurey er sennilega gamalt og segir sína sögu. Sennilega hefur einhver kornyrkja haldist allt frá landnámsöld og fram á síðari hluta 16. aldar. Kornyrkjan lagðist niður bæði vegna kólnandi veðurfars og innflutnings á ódýru korni.

Viðey

Nafnið Viðey bendir til þess að þar hafi verið skógur eða kjarr þegar eyjan fékk nafn. Fornleifarannsóknir á eyjunni hafa einmitt sýnt að þar hafi verið gróskumikið á landnámsöld og skógur eða kjarr hafi einkennt hana allt fram á 12. öld.

Upp úr miðri 18. öld var farið að reyna kornrækt aftur. Fyrir áeggjan Skúla Magnússonar o.fl. sendi Friðrik Danakonungur fimmti 15 jóskar og norskar bændafjölskyldur til landsins, einkum til að gera akuryrkjutilraunir á ýmsum stöðum, aðallega á árunum 1752-1757. Einn bóndinn var settur niður í Reykjavík, annar var í Viðey. Á báðum stöðum var brotið land til kornyrkju árið 1752 og stóðu tilraunir í 5 ár. Reyndar var vetrarrúgur og vorrúgur, bygg, hafrar og blendingskorn og óx það best, en þar næst bygg. Lítið af korninu náði fullum þroska og voru flestir kjarnar linir að hausti. Kornið var því ekki þreskt, en gefið skepnum eins og hvert annað hey. Þótti kornið þrífast heldur skár í Viðey en í Reykjavík.
Næst reyndi Schierbeck landlæknir kornrækt í Reykjavík og fékk m.a. sáðkorn frá nyrstu héruðum Noregs. Þroskaðist bygg sæmilega hjá honum sum árin (1884-1893). Síðan varð hlé uns Klemenz Kristjánsson hóf tilraunir í kornrækt í Gróðrarstöðinni í Reykjavík 1923-1927, og síðar lengi á Sámstöðum í Fljótshlíð. Prentsmiðja var í Viðey á vegum Magnúsar Stephensen 1819-1844. Sjaldgæfar eru Viðeyjarbækur nú og í fárra höndum.

Stórbúskapur í Viðey

Viðey

Austanverð Viðey á tímum Milljónafélagsins.

og mikil útgerð í byrjun þessarar aldar varð Viðey eign þeirra feðga séra Eiríks Briem og Eggerts sonar hans. Var þá umfangsmikill búskapur og búið í Viðeyjarstofu. Á árunum 1907-1914 voru mikil umsvif „Milljónafélagsins” í Viðey, gerð hafnarmannvirki, rekin mikil útgerð og fiskvinnsla. Síðan tók við Kárafélagið fram að kreppuárunum; þá fjaraði atvinnulífið út og þorpið sem hafði myndast fór í eyði 1943. Þar höfðu búið um 100 manns og helmingi fleiri á vertíðinni þegar best lét.
Margir merkismenn hafa átt heima í Viðey Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Styrmir samdi Ólafs sögu helga, og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson, síðar biskup í Skálholti, var ábóti í Viðey um skeið. Á síðari hluta 18. aldar bjó Skúli Magnússon í Viðey, áhrifamikill höfðingi. Hann stofnaði mikið iðnaðarfyrirtæki (Innréttingarnar) í Reykjavík og átti í stríði við einokunarverslunina og barðist fyrir bættri verslun.
Viðey
Við af honum tók í Viðey mikill rausnarmaður, Ólafur Stephensen. Er hans og lífsins í Viðey á þeim tíma, getið í ýmsum útlendum ferðabókum. Útlendum ferðamönnum var oft vísað til Viðeyjar og róma gestirnir höfðingsskap Ólafs og stórkostlegar veislur. Sonur Ólafs, Magnús Stephensen gerði og garðinn frægan í Viðey. Hann var valdamesti maður á Íslandi bæði í veraldlegum efnum og menningarmálum um sína daga.
Saga Viðeyjar er sannarlega viðburðarík. Byggð mun hafa lagst af í Viðey um 1970. Búsældarlegt og gróskumikið hefur jafnan verið í Viðey. Þar fann undirritaður 126 jurtategundir við lauslega athugun 1938. Sjá Náttúrufræðinginn 1939. Sennilega finnast fleiri tegundir við nákvæma leit. Nú er Viðey nýorðin eign Reykjavíkurborgar.”

Í Tímanum 1988 fjallar Ingólfur Davíðsson um “Viðey á dagskrá“:

Viðey
“Nú er Viðey eign Reykjavíkurborgar. Kirkja og stofa hafa verið lagfærð með myndarskap, o.fl. mun vera á prjónunum. Talsverðar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar í Viðey hin síðustu ár og margt merkilegt komið í ljós, einkum frá klausturtímabilinu 1226-1550. Viðeyjarklaustur var lengi menntasetur og hafa margir merkismenn gengið þar um garða. Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Hann samdi Ólafs sögu helga og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson hinn voldugi Skálholtsbiskup, samtíðarmaður Jóns biskups Arasonar, var ábóti í Viðey á yngri árum.
Í framtíðinni verður Viðey eflaust fjölsóttur ferðamannastaður, bæði vegna sögu sinnar og legu.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1996 fjallar Sigurlaugur Brynleifsson um “Viðeyjarklaustrið“:

Viðey“Þáttaskil í sögu Viðeyjar verða 1750, þegar Skúli Magnússon er skipaður landfógeti. Ætlunin var að stiptamtmaður og landfógeti sætu báðir í Viðey, en svo fór að. landfógeti sat þar. Efnt var til stórbyggingar sem ætluð var báðum, en byggingin var minnkuð nokkuð eftir að stiptamtmaður hvarf frá búsetu. Hafist var handa við byggingu Viðeyjarstofu 1753 og henni lokið 1755. Nefnt Slotið í Viðey – þá stærsta hús á Íslandi. Með þessum framkvæmdum og stórbúskap ásamt búnaðartilraunum, hefst Viðey til helstu stórbúa landsins á þeirra tíma mælikvarða. Samfara þessu var hafinn undirbúningur að viðreisn landsins með „Innréttingunum” og margvíslegustu tilraunum til aukins afraksturs í landbúnaði og sjávarútvegi.
Með þessum áætlunum og framkvæmdum hófst nýr þáttur í atvinnusögu landsmanna. Og Viðey var höfuðstöð þessara umbreytinga hér á landi og önnur höfuðstöðin var Kaupmannahöfn, en þaðan barst meginhluti þess fjár sem varið var til viðreisnarinnar, úr sjóðum stjórnarinnar. Valdamiklir menn innan dönsku stjórnarinnar studdu Skúla í Viðreisnartilraunum hans, Thott greifi, Molkte og Rantzau stiptamtmaður voru stuðningsmenn hans.
Margt varð til þess að áætlanirnar um viðreisn landsins náðu ekki þeim árangri sem stefnt var að. Harðindi, Skaftáreldar 1783-84 og andúð úrtölumanna og fjandmanna Skúla meðal kaupmanna. En þrátt fyrir það urðu þessar tilraunir til þess að sanna landsmönnum að gjörlegt var að framkvæma það, sem áður var talið vonlaust.
Skúli Magnússon bjó í Viðey í um 40 ár.
Viðey
Ólafur Stephensen stiptamtmaður tók við Viðey og bjó þar við mikla rausn. Mikill munur var að litast um í Viðey í tíð Skúla og Ólafs eða árið 1703, þegar eyjan var í eyði, niðurnídd.
Magnús Stephensen keypti Viðey 1817 og flutti þangað Leirárgarða – og síðar Beitistaðaprentsmiðju 1819. Þar með hefst aftur bókagerð í Viðey. Magnús rak prentsmiðjuna til dánardags 1833 og sonur hans Ólafur sekreteri til 1844. Þeir ættmenn bjuggu í Viðey þar til 1901 og seldu þá eyna.”

Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju:

Viðeyjarstofa

Viðey

Viðeyjarstofa frá tíma Skúla Magnússonar.

“Skúli Magnússon landfógeti fékk eyna til aðseturs árið 1751. Skúli var merkisberi nýrra tíma á Íslandi. hann setti á stofn Innréttingarnar í Reykjavík og hugðist þannig koma á fót iðnaði á Íslandi. Hann hefur oft verið nefndur faðir Reykjavíkur en í kringum Innréttingarnar óx fyrst upp þéttbýli í Reykjavík

Viðeyjarstofa

Upprunaleg teikning að Viðeyjarstofu upp á tvær hæðir.

Skúli reisti Viðeyjarstofu sem embættisbústað landfógeta en stofan er fyrsta steinhúsið sem byggt var á Íslandi. Hún er að mestu úr grágrýti en einnig úr íslenskum sandsteini og var smíði hennar lokið árið 1755. Arkitekt stofunnar var Nicolai Eigtved en hann teiknaði margar sögufrægar byggingar í kaupmannahöfn og er Amalienborg þeirra þekktust.
ViðeyNæsti ábúandi Viðeyjar á eftir Skúla var Ólafur Sthephensen, fyrsti íslenski stiftamtmaðurinn. Ólafur bjó í Viðey frá 1794 til dauðadags 1812. Hann var merkur framfarasinni og með búsetu hans úi í eynni varð hún æðsta embættissetur landsins um níu ára skeið. hann hélt ófáar veislur í Viðey og eru til margar frásagnir af þeim.
Arftaki Ólafs í Viðey var sonur hans, Magnús Stephensen konferensráð og dómstjóri. Magnús var, eins og Skúli Magnússon, maður upplýsingar og framfara. Hann réð yfir prentsmiðju, hinni einu á landinu á þeim tíma. Hún var starfrækt í Viðey á árunum 1819-1844. Magnús bjó í Viðey til dauðadags 1833. Hann keypti eyjuna af Danakonungi árið 1817 fyrir stórfé og var hún í eigu ættarinnar út nítjándu öld”.

Viðeyjarkirkja
Viðey
“Viðeyjarkirkja var reist að frumkvæði Skúla Magnússonar landfógeta. Hún er byggð úr grágrýti úr Viðey og var vígð árið 1774 af sr. Árna Þórarinssyni, þá sóknarpresti í Reykjavík en síðar biskupi á Hólum. Arkitekt kirkjunnar er ókunnur en gæti hafa verið Georg David Anton, eftirmaður N. Eigtveds, höfunar Viðeyjarstofu. Viðeyjarkirkja er næst elsta kirkja landsins og geymir elstu upprunalegu kirkjuinnréttingu, sem hér er til. Hóladómkirkja er elst, vígð 1763, en þar er endirgerð innrétting.
Það er einkum þrennt, sem atgygli vekur í þessari gömlu innréttingu. Fyrst má nefna að prédikunarstóllinn stendur fyrir ofan altarið. Slíkt er sjaldgæft hérlendis, en var ekki óalgengt á Norðurlöndunum á þessum tíma. Þetta hefur þá táknrænu merkingu, að boðun Guðs skuli skipa hærri sess í guðsþjónustunni en altarissakramentið.

Viðey

Stóllinn í Viðeyjarkirkju.

Annað sem vekur athygli er stóllinn sem stendur hægra megin við altarið. Hann er einstæður gripur í lúterskri kirkju á Íslandi, eini skrifastóllinn frá gamalli tíð. Fram á miðja 19. öld fengu menn ekki að fara til altaris hér á landi nema þeir hefðu skriftað fyrst, Þeir, sem ætluðu til altaris, fóru út í kirkju með prestinum nokkru áður en messa skyldi hefjast. Presturinn settist í stólinn. En skriftabörnin krupu eitt í einu á knébeð, sem var fyrir framan stólinn og fóru þar með utanbókarlærða almenna syndajátningu og fengu þá aflausn hjá prestinum.
Þriðja atriðið varðar kirkjubekkina. Konur sátu fyrr vinstra megin í kirkju, þegar inn er horft, en karlar hægra megin, svo sem enn tíðkast við brúðkaup. Í Viðeyjarkirkju er bekkirnir kvennamegin 7 sendtimetrum lægri en bekkir karlanna”.

Fornleifarannsóknir á bæjarhól Viðeyjar
Viðey
“Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 fékk borgin að gjöf Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju frá ríkinu. Við endurgerð Viðeyjarstofu var byggt stórt jarðhýsi við húsið norðanvert. Vegna þeirra framkvæmda hófst fornleifarannsókn á bæjarhólnum árið 1986. Í fyrstu var um björgunaruppgröft að ræða á um 400 fermetra svæði, en árið 1989 var rannsóknarsvæðið stækkað til norðurs um 600 fermetra og rannsóknaruppgröftur hafinn. Fornleifauppgröfturinn var á vegum Árbæjarsafns og stóð til ársins 1995.

Viðey

Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!

Fyrstu ritheimildir um byggð í Viðey eru frá 12. öld, þegar Þorlákur helgi Þórhallsson (1133-1193) var fenginn til að bregðast við músagangi í einni. “Hann vígði vatn og stökkti yfir eyna – uatn um eitt nes”. Á þeim tíma var komin kirkja í Viðey. Árið 1225 stofnaði Þorvaldur Gissurason, með stuðningi Snorra Sturlusonar, klaustur í Viðey af reglu heilags Ágústínusar. Viðeyjarklaustur var starfrækt til ársins 1539, en þá var það rænt af mönnum Danakonungs, munkarnir reknir á brott og Viðey lýst eign konungs.
Eftir að klaustrið var lagt niður var í Viðey rekið bú og “hospital” sem var einskonar vistheimili fyrir farlama fólk, Hospitalið var síðan flutt til Gufuness, þegar Skúli Magnússon landfógeti settist að í Viðey árið 1751.
Uppgröfturinn í Viðey var einn sá viðarmesti sem farið hefur fram á Íslandi á sínum tíma og sá fyrsti sem gerður var á klaustursstað. Hluti af kirkju, kirkjugarði og klausturhúsunum voru rannsökuð. Jarðsjármælingar hafa sýnt að framan við Viðeyjarstofu og -kirkju hafa verið byggingar, sem trúlega voru hluti af klausturhúsunum. Í elstu jarðlögunum komu í ljós leifar bæjar frá 10. öld. Í honum var langeldur, um þriggja metra langur.
Við fornleifarannsóknina fundust um 20.000 gripir, margir athyglisverðir. Mannvistarlög í bæjarhól Viðeyjar eru 2-3 metra þykk og sýna að þar hefur verið byggð allt frá 10. öld fram til 20. aldar. Stór svæði á bæjarhólnum eru ókönnuð og munu rannsóknir í framtíðinni skýra enn betur uppbyggingu húsakosts og lifnaðarhætti Viðeyinga”.

Kúabúið í Viðey
Viðey
“Hér stóð það sem var á sínum tíma eitthvert stærsta og glæsilegasta fjós á Íslandi. Það var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, þegar hjónin Eggert Briem og Katrín Thorsteinsson Briem reistu stórbú í Viðey. Fjósið rúmaði 48 kýr og var sambyggt hlöðu sem tók um 3000 hestburði af heyi. Húsið var úr timbri og bárujárni, með steyptum og hlöðnum undirstöðum. Á hverjum degi var mjólkin flutt til Reykjavíkur og seld í mjólkurbúð Viðeyjarbændanna í húsinu Uppsölum á horni Túngötu og Aðalstrætis, en hún hefur verið nefnd fyrsta mjólkurbúðin í Reykjavík.
Viðey
Á Viðeyjarbúinu störfuðu aldrei færri en 20 manns yfir veturinn og enn fleiri þegar heyjað var á sumrin. Fjósverkin hófust klukkan sex á morgnanna. Fimm stúlkur sáu um mjaltirnar og mjólkuðu 10-12 kýr hver. Strax að loknum mjöltum var siglu með mjólkurbrúsana yfir sundið inn í Laugarnes og þeim ekið þaðan til Reykjavíkur.

Viðey

Fjósið sem sést hér til hægri á myndinni var eitt stærsta og nýtískulegasta fjós og heyhlaða landsins þegar það var byggt af Eggerti Briem stórbónda í byrjun 20. aldarinnar. Fjósið tók 48 kýr og var hægt að geyma gífurlegt magn af heyi í hlöðunni. Mjólkina frá kúnum flutti hann á hverjum degi á bátum yfir sundið til Reykjavíkur og svo á hestvögnum niður í Aðalstræti, þar sem hann var með mjólkurbú.

Mjólkin þurfti helst að vera komin í mjólkurbúðina fyrir klukkan tíu. Þar var einnig unnið úr henni smjör, rjómi og skyr. Viðeyjarmjólkin þótti góð, enda voru kýrnar vel hirtar og fyllsta hreinlætis gætt við alla mjólkurvinnsluna. Heimilisfólkið í Viðey var stolt af búskapnum og þegar frúr úr Reykjavík eða vestan af fjörðum heimsóttu húsmóðurina fór hún gjarnan með þær í skoðunarfeð út í fjós.
Mjólkurneysla var mun minni í Reykjavík í upphai 20. aldar en síðar varð. Mjólkin var dýr, kýr voru tiltölulegar fáar í bænum og samgöngur við nágrannasveitirnar torveldar. Mjólkurflutningarnir úr Viðey voru líka erfiðir, sérstaklega yfir háveturinn. Á öðrum áratug 20 aldar reisti Eggert Briem annað fjós í Reykjavík, þar sem nú mætast Njarðargata og Smáragata, hafði kýrnar í Viðey á sumrin en í Briemfjósi í Reykjavík á veturna.
Eggert Briem lést árið 1939, skömmu eftir að hann seldi Viðey nýjum eigendum. Seinni kona hans. Halla Briem, lifði hann, en Katrín Thorsteinsson Briem lést 1919. Fjósið og hlaðan í Viðey stóðu lengi enn, en byggingin var rifin um 1900 í kjölfar endurbóta á Viðeyjarstofu”.

Garðrækt Skúla Magnússonar
Viðey
“Á síðari hluta 18. aldar var Skúli Magnússon húsráðandi í Viðey. Hann fékk eina til aðseturs þegar hann var skipaður landfógeti á Íslandi árið 1750 og hér bjó hann til dauðadags árið 1794.
Skúli Magnússon var einn af frumkvöðlunum að stofnun Innréttinganna svokölluðu árið 1751, en það var félag um viðreisn landshaga á Íslandi. Innréttingarnar stóðu fyrir margvíslegri nýsköpun í íslensku atvinnulífi með stuðningi Danakonungs. Þar á meðal beindu forsvarsmenn þeirra augum sínum að möguleikum til aukinnar jarðræktar á Íslandi.
Almenningur var hvattur til þess að koma sér upp kálgörðum og stjórnvöld vildu líka stuðla að trjárækt í landinu. Embættismenn skyndu ganga á undan með góðu fordæmi. Þar lét Skúli Magnússon ekki sitt eftir liggja og ræktaði bæði tré og fjölbreyttar matjurtir við heimili sitt í Viðey.

Viðey

Heyskapur í Viðey 1906.

Árið 1753 pantaði Skúli ólíkar frætegundir til ræktunar. Þar voru til dæmis kastaníurunnar, átján askar, níu rifsberjarunnar, níu stikilsberjarunnar (fjórir að vísu dauðir, en fimm í góðu ástandi) og nokkur ávaxtatré, þar á meðal tvö perutré. Næstu ár voru hins vegar köld og þá er talið að flest trén hafi drepist.
Skúli gerði tilraunir með ræktun á hör og hampi, rúgi og höfrum. Hann freistaði þess að rækta baunir og tóbaksrækt reyndi nann í svokallaðri Tóbakslaut, en hvort tveggja bar lítinn árangur. Betur gekk honum að rækta kartöflur og kúmen. Kúmenið vex enn um alla Viðey og er tínt seint á hverju sumri, þegar það er orðið þroskað”.

Heimildir:
-Tíminn, 222. tbl. 30.09.1986, Hugsað til Viðeyjar, Ingólfur Davíðsson, bls. 12.
-Tíminn, 195. og 196. tbl. 27.08.1988, Viðey á dagskrá, Ingólfur Davíðsson, bls. 27.
-Lesbók Morgunblaðsins 28.09.1996, Viðeyjarklaustrið – Siglaugur Brynleifsson, bls. 5.
-Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu.

Viðey