Eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins er Elliðaárdalurinn.
Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.
Elliði sá sem Elliðaár eru nefndar eftir var skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns.
Í Landnámu segir: “Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar. Hann átti Helgu dóttur Þórðar skeggja. Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá [þ.e. sjó]. Hann hafði skip það er Elliði hét. Hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði”.
Ingólfur Arnarson, landnámsmaður í Reykjavík, er talinn fyrsti eigandi Elliðaánna. Eflaust hafa laxveiðar verið stundaðar í Elliðaánum allt frá upphafi byggðar í Reykjavík, þótt áður hafi það verið með öðrum hætti en nú. Fram eftir öldum áttu bændur og kirkjan veiðirétt í Elliðaánum, en við siðaskiptin lagði Danakonungur eignir kirkjunnar undir sig og eignaðist um leið veiðina í Elliðaánum. Í upphafi lét hann stunda veiðarnar fyrir sig en síðan voru þær leigðar út, fyrst árið 1757, að því er talið er.
Upp úr 1800 fór konungur að selja jarðir sem að Elliðaánum liggja. Átti hann laxveiðirétt í Elliðaánum í um 300 ár. Áður fyrr var laxinn veiddur ýmist með ádrætti í voginum við árósana, eða með stíflun árkvíslanna, annarrar í einu og var þá vatninu veitt í hina. Þannig var laxinn tíndur upp því sem næst á þurru. Reykvískur kaupmaður sem átti árnar um tíma gekk mjög nærri laxastofninum með því að veiða laxinn í kistur og voru báðar kvíslarnar þvergirtar með þeim búnaði. Laxinn fór ekki að rétta úr kútnum fyrr en Englendingur nokkur, Pyne að nafni, keypti árnar árið 1890. Þá hófust þar stangaveiðar með líkum hætti og nú eru stundaðar. Reykjavíkurborg keypti síðan Elliðaárnar árið 1906, sem fyrr sagði.
Elliðaárvirkjun var vígð árið 1921. Þremur árum síðar var hafizt handa við gerð miðlunarstíflu uppi við Elliðavatn. Henni var lokið 1926 og við þessar framkvæmdir fór Elliðavatnsengi ofan núverandi stíflu undir vatn. Fram að þeim tíma rann Bugða um engjarnar og sameinaðist Dimmu, sem var afrennsli Elliðavatns, sem var þá helmingi minna en það er nú. Neðan ármóta þessara þveggja áa fékk áin nafnið Elliðaár.
Líklegt er, að Ingólfur Arnarson hafi grafið fyrsta brunninn í Reykjavík. Um aldamótin 1900 voru 34 brunnar í Reykjavík og árið 1906 brauzt út taugaveikifaraldur vegna mengaðs vatns í mörgum þeirra. Árið 1909 var tekið neyzluvatn úr Elliðaánum til hausts en þá var vatnsveitan frá Gvendarbrunnum tilbúin.
Vesturfarinn Frímann B. Arngrímsson hvatti fyrstur manna til athugunar á möguleikum til virkjunar Elliðaánna til hitunar og lýsingar húsa í Reykjavík. Bæjarstjórn samþykkti þó ekki byggingu rafstöðvar þar fyrr en 26. september 1918. Steingrímur Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, var ráðinn rafmagnsstjóri í Reykjavík 1. júní. Kristján X og Alexandrína drottning hans vígðu stöðina 27. júní 1921.
Elliðaárnar falla úr Elliðavatni, þær kvíslast um miðbik dalsins og renna í tveimur kvíslum til sjávar. Er fleirtölumyndin Elliðaár dregin af kvíslum þessum..
Jarðfræði Elliðaárdals er stórkostleg vegna jarðfræðilegrar sundurgerðar. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi. Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla.
Í Elliðaárdal hafa fundist minjar sem tengjast nýsköpun í atvinnuháttum Íslendinga, en það eru leifar af byggingum sem reistar voru vegna ullarvinnslu Innréttinganna um miðja 18. öldina. Innréttingarnar, sem svo voru nefndar, höfðu það að markmiði að stuðla að framförum í atvinnulífi. Skúli Magnússon landfógeti hafði forgöngu um stofnun fyrirtækisins. Sögufrægasta byggingin frá tíð Innréttinganna er húsið við Aðalstræti 10.
Minjar Innréttinganna, sem enn sjást og færri vita um, eru rústir sem standa í árhólmanum nokkru neðan við rafstöðvarbygginguna, á móts við veiðistað sem nefnist Teljarastrengur. Þarna voru þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði, en vefsmiðjan var í Aðalstræti. Ástæða þess að þófaramyllunni og litunarhúsinu var komið fyrir í Elliðaárdal var sú að starfsemin þarfnaðist rennandi vatns. Tilgangur þæfingarinnar var að þétta ullarvoðir og gaf straumur árinnar drifkraftinn. Sneri hann vatnshjóli sem tengt var drifhjóli sem aftur tengdist búnaði sem hamraði ullina. Þegar ullin hafði verið þæfð, sem var mismikið eftir því til hvers átti að nota hana, var hún gjarnan lituð. Talið er að litunarhúsið hafi staðið skammt frá þófaramyllunni, en óvíst nákvæmlega hvar. Þó er talið að húsið hafi staðið nokkru neðan við mylluna. Tvennar aðrar rústir eru á þessum slóðum. Er talið að önnur hvor geti verið leifar sútunarverkstæðis.
Stríðsárin, 1939-1945, settu mark sitt á íslenskt þjóðlíf og ekki síst Elliðaárdalinn. Eftir hernám Íslands og tilkomu setuliðs, skiptu hermenn þúsundum hér á landi, fyrst Bretar, en síðan Bandaríkjamenn. Voru víða reistir braggar þar sem setuliðið dvaldist, svonefndir kampar, og voru nokkrir slíkir í Elliðaárdal. Sjást ummerki þeirra á nokkrum stöðum. Alls voru kamparnir fimm talsins. Sá efsti, nefndur Camp Baldurshagi, var ofarlega í Elliðaárdal, við nyrðri enda skeiðvallarins. Sjást þar rústir hans. Fjórar þyrpingar voru neðarlega við ána, Camp Phersing, skammt frá rafstöðinni, Camp Battle var aðeins neðar, Camp Hickham var í Ártúnsbrekkunni þar sem jarðhýsin eru nú og loks Camp Fenton Street, en hann var þar sem nú er athafnasvæði fyrirtækisins Ingvar Helgason.
Fleiri braggaþyrpingar voru í næsta nágrenni, bæði á Ártúnshöfða og vestan Elliðaáa. Einu ummerki um hernaðarmannvirki við Elliðaárnar neðanverðar eru í Ártúnsbrekku. Annars vegar eru það dæld eftir sandpokavígi sem fallin er saman að mestu og hins vegar ummerki undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, en munni þess er hulinn jarðvegi.
Elliðaárnar voru síðasti farartálminn á leiðinni til Reykjavíkur þegar komið var til bæjarins úr austri. Lá þjóðbrautin um Ártún og yfir árnar á vaði rétt neðan við rafstöðina núverandi, eftir Bústaðahálsi, Öskjuhlíð og niður í Kvos. Er ekki að undra að fljótlega hafi þótt nauðsynlegt að brúa árnar og voru fyrstu brýrnar byggðar árið 1883. Nú er svo komið að Elliðaárnar eru sú á landsins sem flestar brýr eru yfir. Hafa glöggir menn talið yfir 20 brýr á ánum.
Á 30 ára afmælisári Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 hófu starfsmenn fyrirtækisins undir stjórn Steingríms Jónssonar, rafmagnsstjóra, skógræktar- og uppgræðslustarf í Ellidaárhólma og lögðu þar með grunn að þeirri skógrækt sem þar er. Fyrsta árið voru gróðursettar 3000 plöntur. Upp úr 1970 var dalurinn friðaður fyrir beit en nokkru áður var skógrækt hafin í afgirtu hólfi í árhólmanum. Við friðunina tók gróður við sér og hófst þá gróðurframvinda sem enn á sér stað.
Í Elliðaánum lifa fjórar tegundir fiska sem kalla mætti nytjafiska, aðallega lax, urrið og bleikja, en einnig má þar finna ál í litlum mæli. Í ánum er auk þess fjölskrúðugt botndýralíf sem er mikilvægur þáttur í uppvexti seiðanna.
Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann. Elsta bergið þarna er þó frá meginselstöð mun utar er gaf af sér hraunmyndun fyrir 3-4 milljón árum (sjá HÉR).
Heimildir m.a.:
http://www.rafheimar.is