Arnesarhellir

Oscar Clausen ritar um Arnes útileguþjóf í Lesbók Morgunblaðsins árið 1941:

Arneshellir

Í Arneshelli í Garðabæ.

“Frá Arnesi útileguþjóf er sagt í þætti Gísla Konráðssonar [Lbs. 1259 4to.] af Fjalla-Eyvindi, Höllu og fjelögum þeirra, en af því að Arnes er eiginlega sögulegasta persónan í þessu fjelagi, að Eyvindi undanskildum, er ekki úr vegi að segja nokkuð sérstaklega frá honum.
Arnes var Pálsson og ættaður af Kjalarnesi og er sagt að foreldrar hans hafi haft mikið dálæti á honum í uppvextinum og alið hann upp í eftirlæti, og ekkert vandað um við hann þó að hann sýndi varmensku og ójöfnuð á unglingsárunum. Hann var þegar á unga aldri hinn knálegasti maður og svo fóthvatur að fáir hestar tóku hann á hlaupum, þó að þeir væru vel fljótir, en harðgeðja var hann og grimmur í skapi og fram úr hófi fégjarn. — Þegar Arnes var orðinn iitileguþjófur var lýst eftir honum á Alþingi 1756 og er honum þá lýst svo, að hann væri smár vexti, smá- og snareygður, með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur, með litla vörtu hárvaxna neðarlega á kinninni, gjörnum á að brúka það orðtak „karl minn”. En síðar er honum lýst svo: „Lágur vexti, þrekinn, kringluleitur, þó kinnbeinahár, munn við hæfi, litla höku, snar og dökkeygur, dökkur á háralit, mælti við völu”. —
Eftir Akrafjallsveruna sprettur Arnes, fyr en varir, aftur upp á fornum stöð um og gjörir nú vart við sig við Elliðaárnar fyrir innan Reykjavík. Þar var þá þófaramylla frá klæðaverksmiðjum Skúla fógeta, í Reykjavík og gætti hennar danskur maður, — bóndi frá Sjálandi — og bjó hann á Bústöðum. Einn morgun var sá danski snemma á ferli og gekk til myllunnar, en sá þá að gluggi var þar brotinn og þegar hann gáði inn, sá hann hvar maður lá sofandi á gólfinu og hafði staf og poka sjer við hlið. — Sá danski greip þetta hvorutveggja og hljóp með það heim til Bústaða, en skömmu síðar vaknaði hinn sofandi maður og elti hann. Bóndinn kallaði þá til konu sinnar og sagði henni að senda ,,meystelpu”, sem hjá þeim var til Reykjavíkur og láta bókhaldara verksmiðjanna vita hvað í efni væri. Hann sagði henni að láta ,,meystelpuna” fara út um reykháfinn á eldhúsinu svo lítið bæri á og biðja menn í Reykjavík að bregða þegar við og koma sem fljótast, því að sjer litist mjög illa á gestinn, sem kominn væri til sín. —

Arnesarhellir

Arnesarhellir við Elliðaár.

Í bæjardyrunum snjeri sá danski sjer við og hafði járn í hendinni, en í því bar komumann þar að, en það var Arnes og heimtaði hann nú staf sinn og poka. Bóndi neitaði að láta það af hendi og sagði Arnesi að hann skyldi þá reyna að ná því úr greipum sjer. Ekki þorði Arnes að ráðast á karlinn, en eftir nokkur orðaskifti og heitingar á milli þeirra varð það úr, að Arnes gekk í bæinn og þáði heita mjólk, hefir eflaust verið orðinn langsoltinn. — Bústaðabóndinn gerði nú allt til þess að tefja fyrir Arnesi og var altaf, öðru hvoru, að hlaupa fram í bæjardyrnar til þess að gá að hvort nokkur kæmi úr Reykjavík. Hann var í þungu skapi og setti járnið um þverar dyrnar, en var svo sjálfur fyrir framan svo að Arnes kæmist ekki út. Arnes var hvergi smeikur og gjörði nú skyndiáhlaup á þann danska. Hann hljóp til og greip járnið, en snaraði sjer síðan að bónda og skelti honum flötum á ganginn, tók staf sinn og poka og hljóp út úr bænum og yfir á Digranesháls. Þaðan sá hann svo til hóps manna úr Reykjavík, sem voru komnir innan til á Öskjuhlíðina og hjeldu nú með Bústaðaholti. Bóndi hjelt nú til móts við þá og svo labbaði allur skarinn inn. að Elliðaám. Þegar þangað kom, þorðu þeir ekki yfir árnar, þótti þær ófærar gangandi mönnum og hjeldu upp með þeim, en Arnes hafði hlaupið yfir þær þar efra og sáu þeir á eftir honum. Snjór hafði fallið og var því sporrækt. Eltu þeir nú Arnes þrjátíu í hóp, flest vefarar úr Reykjavík, en þegar Arnes sá þá veita sjer eftirför, sneri hann við og hvarf þeim. Þeir ráku þá för hans suður að Hofsstöðum norðan Vífilsstaðavegs. Hljóp hann þaðan í Garðahraun yfir Vífilsstaði eða Hraunlæk, en þeir eltu hann enn. Arnes tók nú það ráð að halda sig hrauninu og stikla á hraunstríkum, svo að ekki sáust spor hans, enda mistu þeir af honum og leyndist hann í hrauninu um nóttina. Ekki gáfust Reykvíkingar samt upp við þetta og var nú safnað enn meira liði til leitarinnar að Arnesi. —  Um kvöldið var sent til Hafnarfjarðar, um Álftanes og í Garðahverfið að smala mönnum og skipuðu þeir sjer kringum hraunið uni nóttina, því að ekki átti Arnes að sleppa. Allan daginn eftir var hans leitað, en alt var það að árangurslausu og að svo búnu fóru leitarmenn hver heim til sín og þótti ver farið en heima setið. Ekki var grunlaust um, að einhverjir þarna ekki langt frá hefðu hjálpað Arnesi og leynt honum, og voru hjónin á Hofsstöðum tekin föst og sökuð „um bjargir” við Arnes, en að lÖgum mátti honum enginn bjargir veita eða verða honum að nokkru liði, og er það harla einkennilegt þar sem hvergi sjest að hann hafi þá verið dæmdur fyrir þjófnað. Þessi Hofstaðahjón meðgengu það, að þau hefðu ..haldið Arnes á laun” tvo eða þrjá vetur, soðið fyrir hann matvæli og hjálpað honum á ýmsa vegu. — Sýslumaður í Gullbringusýslu var þá Guðmundur Runólfsson, Jónsson frá Höfðabrekku. Hann hafði þessi mál með höndum og dæmdi hann hjónin á Hofsstöðum í miklar fjesektir fyrir það að hafa liðsinnt þessum hælislausa afbrotamanni. — Um þessar mundir var mikið um þjófnaði á Suðurlandi og var það mest kent útileguþjófum, en samt var það nú ekki fyrr en eftir þetta að Arnes lagðist út fyrir fult og alt, og yfirgaf mannabygðir. Það er nú af Arnesi að segja, að hann leyndist í Hafnarfjarðarhrauni altaf meðan á leitinni stóð og leitarmennirnir voru þar að verki og úr hrauninu fór hann ekki fyr en leitinni var hætt og allir voru farnir heim til sín. Áður en hann yfirgaf hraunið faldi hann vel og gróf peninga sína, en þeir höfðu verið í pokanum, sem Bústaðabóndinn danski hafði hrifsað frá honum, þegar hann kom að honum sofandi í þófaramyllunni, og honum hafði verið svo annt um að ná aftur. — Ekki þorði Arnes að hafast við í nágrenni höfuðstaðarins, en brá sjer inn fyrir Hvalfjörð og gjörðist nú útilegumaður.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Síðaan brá hann sjer til æskustöðvanna, suður á Kjalanes og lagðist í Esjuna, og fór þá jafnskjótt að hverfa fjenaður manna. Í Esjunni urðu menn fyrst varir við Arnes þannig, að hann sást oft fáklæddur á hlaupum í hitum að sumrinu og var hann þá að afla sjer eldiviðar til þess að sjóða við slátur það, sem hann hafði stolið. Stundum sást hann koma hlaupandi úr fjallinu ofan í byggð til þess að stela sjer mat og öðru, sem hann þá vanhagaði um. —
Það ljek líka orð á því að Arnes ætti eitthvert hæli eða athvarf einhversstaðar í byggðinni þegar honum lægi mest á og margt þótt ust menn verða varir að hann hefði haft saman að sælda við bóndann í Saltvík á Kjalarnesi sem Þorkell hjet Tómasson, og svo fannst líka fjársjóður, sem Arnes átti og hafði falið einhversstaðar og var það ekki nein smáræðisupphæð, 20 spesíur, 8 dalir krónuverðs og 12 dalir sléttir. — Þorkell í Sandvík var bendlaður við að hafa haft þessa peninga með höndum fyrir Arnes og þótti nú augljóst að Arnes lægi einhversstaðar í Esjunni. — Þegar sýslumaðurinn, Guðmundur Runólfsson frjetti þetta, sendi hann menn til þess að ná Arnes og taka Þorkel bónda í Sandvík fastan og færa sjer þá báða. Var nú safnað liði á Kjalarnesi og leitað fjallið. Fannst hreysi Arnesar, en sjálfur komst hann undan og er sagt, að hann hafi þá átt fótum sínum fjör að launa, þó segja sumir að í þetta skifti hafi hann brugðið fyrir handahlaupum, en talið er ólíklegt að hann hafi þurft þess, þar sem hann var svo frár á fæti að fljótustu hestar höfðu hann ekki á sprettinum.
Eftir að yfirvaldið hafði komið hendur yfir Arnes og flutt í Gullbringusýslu var hann oft lánaður í vinnu að Bessastöðum og er sagt, að alt af, þegar færi gafst. Hafi hann vitjað peninga sinna, sem hann hafði grafið í Garðahrauni og tekið var eftir því, að aldrei skorti hann aura.
Arnes kom sjer svo vel í vinnunni á Bessastöðum, að Wibe amtmaður fjekk konung til þess að náða hann að fullu. Sagt er, að Arnes hafi með snarræði sínu bjargað heilli skipshöfn úr sjávarháska á Álftanesinu, en allar kringumstæður að því eru gleymdar.
Arnes varð gamall maður, en varð aldrei snauður og hafði altaf nokkur peningaráð. Þó að alt væri honum andstætt og öfugt fyrri hluta æfinnar, þá var hann á elliárunum vel látinn af öllum, sem hann kyntist. Að lokum var Arnes niðursetukarl í Engey og þar dó hann 91 árs gamall 7. september 1805 og var jarðaður fjórum dögum síðar í kirkjugarðinum í Reykjavík. Þar hvíla lúin bein hans.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 13. júlí 1941, bls. 233-235.
-Lesbók Morgunblaðsins 17. ágúst 1941, bls. 277-278.

Arnes Pálsson

Fylgsni Arnesar í Elliðaárhólma.