Bakki

Ætlunin var að ganga um svæðið neðan við Garðakirkju á Álftanesi. Neðan Kirkjugarðs er Lindarflöt og lá Lindargata eftir henni að Garðalind. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi. Þar var um tíma þurrabúð, Garðhús [tóftir þess eru vestan við núverandi aðkeyrslu að Garðakirkju]. Ofar var Höll í Hallargerði. Sjást leifar gerðisins enn.
Leifar BakkaVestan við Garðamýri var hjáleigan Háteigur. Vestan við Garðamýri var býlið Miðengi. Neðan við Miðengi er breið klapparfjara og klapparnef, Miðengisklappir. Miðengisbrunnur var austan til í Miðengistúni.
Fjaran sunnan við Garðahverfi var oft nefnt einu nafni Garðafjara. Þar var áður góð skelfiskfjara og sölvatekja. Vestan við Bakka tók við Garðagrandi, allt vestur í Garðavarir (Háteigsvör, Ráðgerðisvör, Miðengisvör), milli Garðatjarnar og Garðamýrar. Þar var Garðamýrartjörn. Í Garðavörum var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í hverfinu. Garðabúð stóð ofan varanna og þar var Skiptivöllurinn.
Byrjað var á því að taka hús á Guðjóni Jósepssyni í Pálshúsi. Hann er uppalinn á staðnum og þekkir því vel til kennileita. Hann benti líka hiklaust á fyrrum bæjarstæði Bakka austast á Garðagranda. Það er sunnan við núverandi fjárhús frá bænum. Þrátt fyrir sléttanir mótar enn fyrir veggjum og görðum. Enn mótar fyrir hlöðnum veggjum skemmu, sem nú hefur verið fyllt af rusli. Gegnt hefur verið úr skemmunni um göng niður á sjávarkambinn þar sem sjórinn hefur náð að brjóta verulega framan af. Sagði Guðjón að verulega sæi á bakkanum á tiltölulega skömmum tíma.

Garðagrandi

Ekki er langt um liðið að allar tóftirnar voru landmegin, en nú hefur sjórinn náð að brjóta hluta þeirra undir sig. Smá má móta fyrir hleðslum í moldarbakka sjávarmegin.Guðjón sagði að faðir hans, Jósep, hefði róið frá útræði vestan við Bakka, þ.e. austast í Garðafjöru. Bakki hefði farið í eyði 1927.
Guðjón benti á að þegar komið væri vestur yfir Grandann mætti þar sjá greinilega Sjávargötu upp frá vörunum áleiðis að Görðum.
Í Jarðabókinni 1703 er greint frá nokkrum Garðakirkjujörðum sem höfðu aðgang að skógi eða hrísi í staðarins landi. Skerseyri var hjáleiga Garða og hafði eldiviðartak í landi staðarins. Pálshús voru einnig hjáleiga Garða sem höfðu eldivið bæði af torfi og skógi í óskiptu landi kirkjunnar. Nýibær var eign Garðakirkju en um þá jörð segir Jarðabókin: “Selskarð og Hraunsholt voru einnig Garðakirkjujarðir og höfðu báðar hrístak til kolgerðar og hríshestskvöð í Garðakirkjulandi.

Tóft vestast á Garðagranda

Eftirtaldar Garðakirkjujarðir höfðu hríshest meðal virkra eða aflagðra kvaða sinna: Dysjar, Ráðagerði, Garðabúð, Miðengi, Hlíð, Móakot og Hausastaðakot.”  Ekki er getið um að þær eigi skóg, aðeins sagt að þær eigi eldiviðartak af móskurði í landi staðarins, og því verður að ætla að hríshesturinn hafi verið sóttur í Garðakirkjuland. Loks skal minnst á Vífilsstaði sem voru Garðakirkjujörð.
Garðalind var aðalvatnsból Garðhverfinga, aðallega Garðastaðar og bæjanna autast í hverfinu (G.S.) Austan kirkjustaðarins lá Lindargata að Garðalind. Árni Helgason segir í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842: “…mikill steinn stendur sem á hleðslu yfir Garða vatnsbóli sem heitir Garðalind.”

Sjávargata og tóft vestast í Garðamýri

Markús Magnússon segir í lýsingu sinni á Görðum: “Ekki eru hér nein Grettistök en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestsetursins Garða, tveir sem mannaverk er á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu eins og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum sem að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann. Annars er brunnurinn afmarkaður á báðar hliðar inni undir klettinum með stórum steinum, óhræranlegum, enda hvílir kletturinn á þeim.”
Garðamýri var niður undan Garðatúni og var til forna allmikið flæmi en hefur nú verið minnkað með ári hverju (G.S.). Í Jarðabókinni 1703 segir: “Þessum bæ [Bakka] fylgdi til forna Garðamýri… Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útiheysiss slægjum og færði so aftur landskuldina, item tók burt eina kúgidið og mannslánið.”
Í lýsingu Markúsar um Garðatún fjallar hann um klett í miðju túninu. Þar segir: “Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestsetursins – er 13 álnir að umfangi og 1 1/3 alin að hæð og liggur flatur. Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann.

Miðengisbrunnur

Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja á sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.”
Gengið var vestur eftir Garðagranda og um Garðafjöru að Garðavörum. Vestast í þeim er gróinn hóll, fremur lítill. Beint ofan við hann er brunnur; Miðengisbrunnurinn.
Í Jarðabókinni 1703 segir um Garðabúd: “Gardabud, hjáleiga í óskiptu staðarins heimalandi, hefur grasnautn hina sömu sem ðaur fylgdi hjáleigu þeirri heima við staðinn, er Skemma var kölluð, og er það nú að kalla sú sama hjáleiga”. Um Skemmu segir: “Skiemma, útihús heima við staðinn á Görðum. hefur um féina tíma ljeð manni einum til ábúðar so sem hjáleiga, og fylgdi því þá grasnyt, er sú er með hjáleigunni, er Garðatún heitir, og var hún óbyggð á meðan Skemma bygðist so sem getið er áður við Garðabúð”. Skemma stóð ofan við Garðavarir líkt og Garðabúð. Í Örnefnalýsingu GS segir: “Garðabúð stóð ofan við Garðavarir með Skiptivöllinn þar sem hlutum var skipt”:
Garðavarir voru vestan við Garðamýri. Þar var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í Garðahverfi, Háteigsvör, Ráðagerðisvör og Miðengisvör.”
GötusteinninnGarðabúð, auk Garðalindar, eru einu friðlýstu fornleifarnar á þessu svæði, þó svo að fleiri slíkra hafi t.d. verið getið í lýsingum prestsins á Görðum í skýrslu sinni til dönsku fonleifanefndarinnar á ofanverðri 19. öld (sjá hér á eftir).
Þegar staðið var við fyrrnefndan hól var að sjá skeljasandsrákir í honum, auk steina á stangli. Fljótt á litið virtust þarna hafa verið leifar af sjóbúð, en ekki kotbýli. Hafa ber þó í huga að land hefur bæði breyst á þessu svæði í aldanna rás og sjórinn tekið talsvert af því til sín, einkum í útsinningi líkt og verið hefur að undanförnu [desember 2007]. Eftir að hafa skoðað Miðengisbrunninn var tekið hús á Ágústi Kristjánssyni í Miðengi. Hann var við gegninga úti við og tók fagnandi á móti FERLIRsfélögum (þekkti suma þeirra aftur af fyrri heimsóknum).
Ágúst sagði að ekki væri ólíklegt að Garðabúð hefði verið þar sem hóllinn er nú vestast í Garðafjöru, en skeljasandsrákirnar bentu þó fremur til þess að þar hefði verið minni sjóbúð svo framarlega á kampinum. Skeljalögin bentu til þess að þar hefði verið unnin beita úr skelfiski. Benti hann á aðra gróna tóft vestast í Garðamýri, sem hefði verið þar svo lengi sem hann myndi eftir sér, en Ágúst er fæddur í Miðengi 1931, ólst þar upp og hefur búið síðan á staðnum.Túnsteinninn
Tvennu vildi Ágúst vekja athygli á; annars vegar Götusteininum norðvestan við bæinn á Miðengi, og hins vegar Lindargötunni þar sem hún hafði legið frá Garðalind til suðvesturs suður fyrir bæinn og siðan upp með honum að vestanverðu með stefnu að bænum Hlíð [og Grjóta skammt ofar]. Hliðstólpinn sæist enn í griðingunni austan við bæinn og Götusteinninn væri enn ágætt kennileiti þess hvar gatan hefði legið fyrrum – þótt engin sæjust þess merki nú vegna túnsléttna.
Ágúst benti á ferkantaða hlaðna garða norðaustan við Miðengi; sagði það þar væru Hólsgarðar. Ef vel væri gáð mætti sjá leifar bæjarins þar í norðausturhorninu. Sunnar hefði Sjávargatan heim að Görðum legið.
Um Miðengisbrunninn sagði Ágúst að hann hefði ávallt verið notaður til að brynna dýrum. Vatnið hefði verið saltkeimað. Brunnurinn hefði verið hlaðinn þannig að neðst var sett trétunna, hlaðið um hana og siðan upp fyrir yfirborð. Brunnurinn hafi verið alldjúpur, en fylltur þegar vatn kom rennandi heim til bæja og brúkun hans var hætt.
GarðalindUm “Túnsteininn” fyrrnefnda sagðist Ágúst ekki vera alveg viss, en allt benti til þess að um væri að ræða tiltekinn stein sunnan við suðausturhornið á Háteigsgarðinum. Garðatúnið hefði fyrrum náð bæði allnokkru vestar og austar. Þrátt fyrir hjáleigurnar hefði veriðum óskipt land að ræða, m.a.s. þegar faðir hans fluttist að Miðengi hefði því enn verið þannig háttað.
Þegar steinninn í túninu var skoðaður passaði hann  vel við framangreinda lýsingu. Steinninn er um þriðjungur á hæð á við steininn yfir Garðalindinni og svipaður að sverleika. Hann er greinilega ekki jarðfastur, en nú hefur gróið í kringum hann svo ekki loftar undir. Sagði Ágúst að bóndinn í Háteig hafi jafnan haft á orði að ýmislegt væri um þennan stein að segja og að ekki væri hægt að skýra það allt með eðlilegum hætti. Taldi hann álög hvíla á steininum og að honum mætti ekki raska, enda hefði hann fengið að vera í friði allt til þessa dags. Hins vegar væri alveg eins líklegt að einhverjir framkvæmdamenn myndu ekki hika við að raska steininum ef þeir fengju að leika lausum hala á svæðinu eins og útlit væri fyrir um því búið væri að skipuleggja byggð á þessu svæði til lengri framtíðar. Taldi Ágúst það miður þvi þetta svæði væri síðasti óraskaði sveitarbletturinn á höfðuborgarsvæðinu og ætti fremur að varðveitast sem slíkur – í besta falli að endurbyggja þau bæjarhús, sem fyrir væru, enda mörg hver orðin æri lúin eins og á bárum mátti sjá.
Þegar Hólsgarðar voru skoðaðir virtist augljóst að leifar húsa voru þar í norðausturhorninu; grónar hleðslur, – veggir og stuttur gangur. Hóll skammt austar hefur gjarnan verið talinn til bæjarstæðis Hóls, en við athugun á honum virtist augljóst að þar hefur ekki staðið bær. Hleðslur eru í hólnum vestanverðum, í skjóli fyrir austanáttinni. Líklega hefur þar verið um að ræða gerði eða heimastekk.
BLindargataeint niður af Hóli er fyrrnefnd tóft, sem Ágúst hafði bent á, vestast í Garðamýri. Um er að ræða hóllaga þúst er stendur upp úr mýrinni. Sunnan hennar mótar fyrir götu; Sjávargötunni. Líklegt má telja að Garðavörin hafi verið þarna beint fyrir neðan og gatan verið notuð til að komast milli hennar og bæjar, enda styst að fara um hana heim og að heiman. Þústin gæti mögulega hafa verið fyrrnefnd Garðabúð. Hafa ber í huga að land hefur sigið á þessu svæði á löngum tíma, auk þess sem mýrin hefur áður fyrr þótt arðvænleg, bæði til mó- og torftekju, auk þess sem ætla má að hjáleigan (kotið) hafi fyrst og fremst grundvallast á útræði. Þurrara hefur verið þarna fyrrum því sjávarkamburinn hefur færst mun innar, jafnvel sem nemur hálfum hundraði metra á einum mannsaldri. Mýrin sjálf hefur því verið framar og kotið þá staðið á þurru. Garðhúsabrunnurinn skammt austar gaf það a.m.k. vel til kynna.
Í lýsingum er sagt að Garðhúsabrunnur hafi verið “vestan við Garðalind”. Svo mun og vera. Skammt vestsuðvestan við lindina má enn sjá leifar brunnsins. Hann er nú efst í Garðamýri, en hefur líklegast verið í jarðri hennar á meðan var. Brunnurinn hefur verið fylltur, svo vel að upphlaðningur hefur myndast á honum og gert hann greinilegan.
Skammt austar er Garðalind. Garðaflöt er í raun hallandi þurrþýfi neðan við kirkjugarðinn. Undir grágrýtisklöpp er uppspretta, sem mótuð hefur verið með holu í klöpp. Hlaðið afrennsli (yfirfall) liggur suður úr henni. Á því er hlaðin brú á Lindargötunni, sem lá frá henni bæði til austurs og vesturs. Ofan lindarinnar eru ummerki eftir seinni tíma “tækninýjungar”, þ.e. hlaðið brunnhýsi til að geyma rafmagnsdælu er tengt var við brunninn, sem gefur vel til kynna ágæti innihaldsins til langs tíma.
Lindargötunni var loks fylgt áleiðis að Pálshúsi (Dysjum).
Ljóst er að Garðasvæðið er ómetanlegt menningarminjasvæði. Telja má víst að minjar þess muni týna tölunni, ein af annarri þegar fram líða stundir, en vonandi fær það að verða sem mest óraskað sem lengst.
FERLIR stefnir að því að rissa upp allar minjar á svæðinu og koma á uppdrátt er gæti orðið innlegg í heilstæða mynd af búsetusögu þess um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – 2001.
-Frásagnir um fornaldarleifar, bls. 242-243.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing.
-Guðjón Jósepsson – Pálshúsi.
-Ágúst Kristjánsson – Miðengi.

Hólsgarðar - gula línan sýnir legu Lindargötu