Færslur

Garðar

Gengið var um Ráðagerði og nágrenni í fylgd Ágústar, bónda í Miðengi.

Garðalind

Garðalind.

Gengið var til austurs frá bænum og þá komið að hárri tótt með nokkrum hleðslum fyrir. Ágúst sagði að þarna hafi áður staðið þurrabúðin Hóll. Hún er gott dæmi um hinar mörgu hjáleigur frá Görðum, sem þarna voru víða. Hóllinn er svo til einu ummerkin eftir þær á svæðinu. Hver hjáleigubóndi átti að slá eina dagsláttur til að létt af leigu. Neðan við búðina og austan við hana má enn sjá móta fyrir Lindargötu. Gatan lá að Garðalind, aðalvatnsbóli Garðhverfinga. Ofan við lindina stendur stórt bjarg, Grettistak. Lindin er í raun undir steininum. Hlaðinn stokkur er niður frá henni og á honum hlaðin brú. Lindargatan heldur síðan áfram að Austurbæjunum. Sauðkind drapst í Garðalind og var brunnurinn þá fylltur með grjóti og möl. Það sést þó enn móta vel fyrir lindinni sjálfri og hlaðni stokkurinn er enn vel greinanlegur. Ofan og austan við hana er tótt, Garðhús.

Völvuleiði

Völvuleiði.

Gengið var til norðurs og austurs um Garðaholt. Á holtinu var höfð lukt á tímum Séra Þórarins Böðvarssonar og séra Jens Pálssonar (19. öldin). Nefndist luktin Garðaviti. Frá túnhliðinu liggur stígur í austur um Garðaholt, framhjá Torfavörðu og á Völvuleiði að Flatahrauni. Í dag er hæðin öll sögð heita Völvuleiði. Á og utan í því eru skotgrafir frá því á stríðsárunum. Ágúst fylgdi okkur suður með girðingunni neðan við rétt, sem þarna er og tilheyrir Ráðagerði, að þúfnahólum skammt ofan við skurð í mýri. Sagði hann hólinn líklega hafa verið hið svonefnda Völvuleiði, en nafnið síðan færst á holtið er fólk hafi ekki lengur vitað hvar leiðið var að finna.

Garðahverfi

Hallargerði.

Gengið var upp á holtið að skotbyrgjum, sem þar eru og snúa til norðurs. Um og í kringum þær eru ýmist grafnar eða hlaðnar skotgrafir. Sunnan þeirra, þegar fer að halla að Garðakirkju, eru hleðslur. Þar var þurrabúðin Höll í Hallargerði. Sést gerðið enn. Þegar gengið er frá túnhliðinu á Görðum, Garðatúnshliði, lá Garðagata vestan við svonefndan Götuhól, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól, sem enn er þar nokkuð áberandi við gatnamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar.

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ÓSÁ.

Gengið var spölkorn eftir veginum til vesturs og síðan beygt vestur götuna að Miðengi. Þar við veginn voru bæirnir Gata, Háteigur og Ráðagerði. Ágúst sagðist ekki treysta sér til að benda á hvaða bær hafi verið hvar. Þarna eru allnokkrar hleðslur, sem skoða þarf nánar. Þá eru gamlar sagnir um dómhring við Ráðagerði, en ætlunin er að fara síðar á vettvang og reyna að staðsetja hringinn. Ágúst sagðist sjálfur ekki hafa heyrt af dómhring þarna, en svæðið næst og ofan við Ráðagerði hefur verið látið óhreyft að mestu.
Garðahverfi er minjasvæði. Við hvert fótmál birtist saga fyrri tíma. Óvíða annars staðar er að finna jafn ósnert heildarlandslag minja en umhverfis Garðakirkju.
Veður var frábært – lygnt og sól. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Bakki

Ætlunin var að ganga um svæðið neðan við Garðakirkju á Álftanesi. Neðan Kirkjugarðs er Lindarflöt og lá Lindargata eftir henni að Garðalind. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi. Þar var um tíma þurrabúð, Garðhús [tóftir þess eru vestan við núverandi aðkeyrslu að Garðakirkju]. Ofar var Höll í Hallargerði. Sjást leifar gerðisins enn.
Leifar BakkaVestan við Garðamýri var hjáleigan Háteigur. Vestan við Garðamýri var býlið Miðengi. Neðan við Miðengi er breið klapparfjara og klapparnef, Miðengisklappir. Miðengisbrunnur var austan til í Miðengistúni.
Fjaran sunnan við Garðahverfi var oft nefnt einu nafni Garðafjara. Þar var áður góð skelfiskfjara og sölvatekja. Vestan við Bakka tók við Garðagrandi, allt vestur í Garðavarir (Háteigsvör, Ráðgerðisvör, Miðengisvör), milli Garðatjarnar og Garðamýrar. Þar var Garðamýrartjörn. Í Garðavörum var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í hverfinu. Garðabúð stóð ofan varanna og þar var Skiptivöllurinn.
Byrjað var á því að taka hús á Guðjóni Jósepssyni í Pálshúsi. Hann er uppalinn á staðnum og þekkir því vel til kennileita. Hann benti líka hiklaust á fyrrum bæjarstæði Bakka austast á Garðagranda. Það er sunnan við núverandi fjárhús frá bænum. Þrátt fyrir sléttanir mótar enn fyrir veggjum og görðum. Enn mótar fyrir hlöðnum veggjum skemmu, sem nú hefur verið fyllt af rusli. Gegnt hefur verið úr skemmunni um göng niður á sjávarkambinn þar sem sjórinn hefur náð að brjóta verulega framan af. Sagði Guðjón að verulega sæi á bakkanum á tiltölulega skömmum tíma.

Garðagrandi

Ekki er langt um liðið að allar tóftirnar voru landmegin, en nú hefur sjórinn náð að brjóta hluta þeirra undir sig. Smá má móta fyrir hleðslum í moldarbakka sjávarmegin.Guðjón sagði að faðir hans, Jósep, hefði róið frá útræði vestan við Bakka, þ.e. austast í Garðafjöru. Bakki hefði farið í eyði 1927.
Guðjón benti á að þegar komið væri vestur yfir Grandann mætti þar sjá greinilega Sjávargötu upp frá vörunum áleiðis að Görðum.
Í Jarðabókinni 1703 er greint frá nokkrum Garðakirkjujörðum sem höfðu aðgang að skógi eða hrísi í staðarins landi. Skerseyri var hjáleiga Garða og hafði eldiviðartak í landi staðarins. Pálshús voru einnig hjáleiga Garða sem höfðu eldivið bæði af torfi og skógi í óskiptu landi kirkjunnar. Nýibær var eign Garðakirkju en um þá jörð segir Jarðabókin: “Selskarð og Hraunsholt voru einnig Garðakirkjujarðir og höfðu báðar hrístak til kolgerðar og hríshestskvöð í Garðakirkjulandi.

Tóft vestast á Garðagranda

Eftirtaldar Garðakirkjujarðir höfðu hríshest meðal virkra eða aflagðra kvaða sinna: Dysjar, Ráðagerði, Garðabúð, Miðengi, Hlíð, Móakot og Hausastaðakot.”  Ekki er getið um að þær eigi skóg, aðeins sagt að þær eigi eldiviðartak af móskurði í landi staðarins, og því verður að ætla að hríshesturinn hafi verið sóttur í Garðakirkjuland. Loks skal minnst á Vífilsstaði sem voru Garðakirkjujörð.
Garðalind var aðalvatnsból Garðhverfinga, aðallega Garðastaðar og bæjanna autast í hverfinu (G.S.) Austan kirkjustaðarins lá Lindargata að Garðalind. Árni Helgason segir í lýsingu sinni á Garðaprestakalli 1842: “…mikill steinn stendur sem á hleðslu yfir Garða vatnsbóli sem heitir Garðalind.”

Sjávargata og tóft vestast í Garðamýri

Markús Magnússon segir í lýsingu sinni á Görðum: “Ekki eru hér nein Grettistök en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestsetursins Garða, tveir sem mannaverk er á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu eins og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum sem að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann. Annars er brunnurinn afmarkaður á báðar hliðar inni undir klettinum með stórum steinum, óhræranlegum, enda hvílir kletturinn á þeim.”
Garðamýri var niður undan Garðatúni og var til forna allmikið flæmi en hefur nú verið minnkað með ári hverju (G.S.). Í Jarðabókinni 1703 segir: “Þessum bæ [Bakka] fylgdi til forna Garðamýri… Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útiheysiss slægjum og færði so aftur landskuldina, item tók burt eina kúgidið og mannslánið.”
Í lýsingu Markúsar um Garðatún fjallar hann um klett í miðju túninu. Þar segir: “Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestsetursins – er 13 álnir að umfangi og 1 1/3 alin að hæð og liggur flatur. Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann.

Miðengisbrunnur

Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja á sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.”
Gengið var vestur eftir Garðagranda og um Garðafjöru að Garðavörum. Vestast í þeim er gróinn hóll, fremur lítill. Beint ofan við hann er brunnur; Miðengisbrunnurinn.
Í Jarðabókinni 1703 segir um Garðabúd: “Gardabud, hjáleiga í óskiptu staðarins heimalandi, hefur grasnautn hina sömu sem ðaur fylgdi hjáleigu þeirri heima við staðinn, er Skemma var kölluð, og er það nú að kalla sú sama hjáleiga”. Um Skemmu segir: “Skiemma, útihús heima við staðinn á Görðum. hefur um féina tíma ljeð manni einum til ábúðar so sem hjáleiga, og fylgdi því þá grasnyt, er sú er með hjáleigunni, er Garðatún heitir, og var hún óbyggð á meðan Skemma bygðist so sem getið er áður við Garðabúð”. Skemma stóð ofan við Garðavarir líkt og Garðabúð. Í Örnefnalýsingu GS segir: “Garðabúð stóð ofan við Garðavarir með Skiptivöllinn þar sem hlutum var skipt”:
Garðavarir voru vestan við Garðamýri. Þar var uppsátur skipa Garðaprests og margra annarra bæja í Garðahverfi, Háteigsvör, Ráðagerðisvör og Miðengisvör.”
GötusteinninnGarðabúð, auk Garðalindar, eru einu friðlýstu fornleifarnar á þessu svæði, þó svo að fleiri slíkra hafi t.d. verið getið í lýsingum prestsins á Görðum í skýrslu sinni til dönsku fonleifanefndarinnar á ofanverðri 19. öld (sjá hér á eftir).
Þegar staðið var við fyrrnefndan hól var að sjá skeljasandsrákir í honum, auk steina á stangli. Fljótt á litið virtust þarna hafa verið leifar af sjóbúð, en ekki kotbýli. Hafa ber þó í huga að land hefur bæði breyst á þessu svæði í aldanna rás og sjórinn tekið talsvert af því til sín, einkum í útsinningi líkt og verið hefur að undanförnu [desember 2007]. Eftir að hafa skoðað Miðengisbrunninn var tekið hús á Ágústi Kristjánssyni í Miðengi. Hann var við gegninga úti við og tók fagnandi á móti FERLIRsfélögum (þekkti suma þeirra aftur af fyrri heimsóknum).
Ágúst sagði að ekki væri ólíklegt að Garðabúð hefði verið þar sem hóllinn er nú vestast í Garðafjöru, en skeljasandsrákirnar bentu þó fremur til þess að þar hefði verið minni sjóbúð svo framarlega á kampinum. Skeljalögin bentu til þess að þar hefði verið unnin beita úr skelfiski. Benti hann á aðra gróna tóft vestast í Garðamýri, sem hefði verið þar svo lengi sem hann myndi eftir sér, en Ágúst er fæddur í Miðengi 1931, ólst þar upp og hefur búið síðan á staðnum.Túnsteinninn
Tvennu vildi Ágúst vekja athygli á; annars vegar Götusteininum norðvestan við bæinn á Miðengi, og hins vegar Lindargötunni þar sem hún hafði legið frá Garðalind til suðvesturs suður fyrir bæinn og siðan upp með honum að vestanverðu með stefnu að bænum Hlíð [og Grjóta skammt ofar]. Hliðstólpinn sæist enn í griðingunni austan við bæinn og Götusteinninn væri enn ágætt kennileiti þess hvar gatan hefði legið fyrrum – þótt engin sæjust þess merki nú vegna túnsléttna.
Ágúst benti á ferkantaða hlaðna garða norðaustan við Miðengi; sagði það þar væru Hólsgarðar. Ef vel væri gáð mætti sjá leifar bæjarins þar í norðausturhorninu. Sunnar hefði Sjávargatan heim að Görðum legið.
Um Miðengisbrunninn sagði Ágúst að hann hefði ávallt verið notaður til að brynna dýrum. Vatnið hefði verið saltkeimað. Brunnurinn hefði verið hlaðinn þannig að neðst var sett trétunna, hlaðið um hana og siðan upp fyrir yfirborð. Brunnurinn hafi verið alldjúpur, en fylltur þegar vatn kom rennandi heim til bæja og brúkun hans var hætt.
GarðalindUm “Túnsteininn” fyrrnefnda sagðist Ágúst ekki vera alveg viss, en allt benti til þess að um væri að ræða tiltekinn stein sunnan við suðausturhornið á Háteigsgarðinum. Garðatúnið hefði fyrrum náð bæði allnokkru vestar og austar. Þrátt fyrir hjáleigurnar hefði veriðum óskipt land að ræða, m.a.s. þegar faðir hans fluttist að Miðengi hefði því enn verið þannig háttað.
Þegar steinninn í túninu var skoðaður passaði hann  vel við framangreinda lýsingu. Steinninn er um þriðjungur á hæð á við steininn yfir Garðalindinni og svipaður að sverleika. Hann er greinilega ekki jarðfastur, en nú hefur gróið í kringum hann svo ekki loftar undir. Sagði Ágúst að bóndinn í Háteig hafi jafnan haft á orði að ýmislegt væri um þennan stein að segja og að ekki væri hægt að skýra það allt með eðlilegum hætti. Taldi hann álög hvíla á steininum og að honum mætti ekki raska, enda hefði hann fengið að vera í friði allt til þessa dags. Hins vegar væri alveg eins líklegt að einhverjir framkvæmdamenn myndu ekki hika við að raska steininum ef þeir fengju að leika lausum hala á svæðinu eins og útlit væri fyrir um því búið væri að skipuleggja byggð á þessu svæði til lengri framtíðar. Taldi Ágúst það miður þvi þetta svæði væri síðasti óraskaði sveitarbletturinn á höfðuborgarsvæðinu og ætti fremur að varðveitast sem slíkur – í besta falli að endurbyggja þau bæjarhús, sem fyrir væru, enda mörg hver orðin æri lúin eins og á bárum mátti sjá.
Þegar Hólsgarðar voru skoðaðir virtist augljóst að leifar húsa voru þar í norðausturhorninu; grónar hleðslur, – veggir og stuttur gangur. Hóll skammt austar hefur gjarnan verið talinn til bæjarstæðis Hóls, en við athugun á honum virtist augljóst að þar hefur ekki staðið bær. Hleðslur eru í hólnum vestanverðum, í skjóli fyrir austanáttinni. Líklega hefur þar verið um að ræða gerði eða heimastekk.
BLindargataeint niður af Hóli er fyrrnefnd tóft, sem Ágúst hafði bent á, vestast í Garðamýri. Um er að ræða hóllaga þúst er stendur upp úr mýrinni. Sunnan hennar mótar fyrir götu; Sjávargötunni. Líklegt má telja að Garðavörin hafi verið þarna beint fyrir neðan og gatan verið notuð til að komast milli hennar og bæjar, enda styst að fara um hana heim og að heiman. Þústin gæti mögulega hafa verið fyrrnefnd Garðabúð. Hafa ber í huga að land hefur sigið á þessu svæði á löngum tíma, auk þess sem mýrin hefur áður fyrr þótt arðvænleg, bæði til mó- og torftekju, auk þess sem ætla má að hjáleigan (kotið) hafi fyrst og fremst grundvallast á útræði. Þurrara hefur verið þarna fyrrum því sjávarkamburinn hefur færst mun innar, jafnvel sem nemur hálfum hundraði metra á einum mannsaldri. Mýrin sjálf hefur því verið framar og kotið þá staðið á þurru. Garðhúsabrunnurinn skammt austar gaf það a.m.k. vel til kynna.
Í lýsingum er sagt að Garðhúsabrunnur hafi verið “vestan við Garðalind”. Svo mun og vera. Skammt vestsuðvestan við lindina má enn sjá leifar brunnsins. Hann er nú efst í Garðamýri, en hefur líklegast verið í jarðri hennar á meðan var. Brunnurinn hefur verið fylltur, svo vel að upphlaðningur hefur myndast á honum og gert hann greinilegan.
Skammt austar er Garðalind. Garðaflöt er í raun hallandi þurrþýfi neðan við kirkjugarðinn. Undir grágrýtisklöpp er uppspretta, sem mótuð hefur verið með holu í klöpp. Hlaðið afrennsli (yfirfall) liggur suður úr henni. Á því er hlaðin brú á Lindargötunni, sem lá frá henni bæði til austurs og vesturs. Ofan lindarinnar eru ummerki eftir seinni tíma “tækninýjungar”, þ.e. hlaðið brunnhýsi til að geyma rafmagnsdælu er tengt var við brunninn, sem gefur vel til kynna ágæti innihaldsins til langs tíma.
Lindargötunni var loks fylgt áleiðis að Pálshúsi (Dysjum).
Ljóst er að Garðasvæðið er ómetanlegt menningarminjasvæði. Telja má víst að minjar þess muni týna tölunni, ein af annarri þegar fram líða stundir, en vonandi fær það að verða sem mest óraskað sem lengst.
FERLIR stefnir að því að rissa upp allar minjar á svæðinu og koma á uppdrátt er gæti orðið innlegg í heilstæða mynd af búsetusögu þess um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – 2001.
-Frásagnir um fornaldarleifar, bls. 242-243.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing.
-Guðjón Jósepsson – Pálshúsi.
-Ágúst Kristjánsson – Miðengi.

Hólsgarðar - gula línan sýnir legu Lindargötu

Gálgaklettar

Gengið var frá Skerseyri um Langeyri, litið á landamerkjavörðu Hafnarfjarðar og Garðabæjar neðan Bala, kíkt undir Balaklöppina, haldið yfir að Garðalind, skoðuð verk steinsmiðsins mikla frá Görðum, spáð í Völvuleiði og Garðastekk og síðan Sakamannagatan gengin að Gálgaklettum.
Skerseyri og Skerseyrarmalir var nefnd fjaran frá gamla Hafnargarðinum út að Langeyri. Langeyri var í raun stutt eyri á Langeyrarmölum, en hún náði allt að Markavörðunni á Balaklöppum.

Balavarða

Balavarða.

Á Balaklettum var gengið að Markavörðu. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði, sagði eitt sinn að þeir bæjarstarfsmenn hefðu gengið að markavörðunum í landi Hafnarfjarðar og “gert þær varanlegri með steinsteypu.” Þannig hafi þeir “steypt upp hlöðnu vörðurnar á Balakletti, í Engidal við Hafnarfjarðarveginn, á Miðdegishól, á Hádegishól, við Setbergsfjárhelli, við Markrakagil og víðar.
Skarfur þakti klappirnar utan við ströndina.
Guðmundur Kjartansson kannaði mó og jurtaleifar við Balakletta um 1970. Reyndist aldur jurtaleifanna verð aum 7000 ára, en niðurstaðan gefur til kynna hvenær Búrfellshraunið (Garðahraun) hefur runnið. Nokkru austar er Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar. Bali er ofan við kampinn.

Bali

Bali – Sléttubraut.

Til fróðleiks má geta þess að austan undir Balatúni er vegarspotti, kallaður Sléttubraut. Sigurgeir Gíslason, vegaverkstjóri, lagði þennan veg, en nefndur Sigurgeir var m.a. verkstjóri við Gamla Grindarvíkurveginn á árunum 1914-1918.
Þá tóku við Dysjar. Gengið var framhjá Dysjatjörn, en á flóðum flæðir inn í hana.
Þá var gengið um land Pálshúss og síðan áfram um Garðamýri, inn á Lindargötu og eftir henni að Garðalind. Skammt vestar var Sjávargatan frá Görðum. Hlaðin brú er á götunni neðan við lindina, aðalvatnsból Garðhverfinga. Við lindina liggur gríðamikið bjarg, Grettistak. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi eins og svo algengt var um allt Reykjanesið og víðar.

Garðar

Garðar – legsteinn.

Við Garða má sjá mikla garða. Á loftmyndum má t.d. sjá Garðatúngarð. Garðinum var skipt í Vesturgarð og Austurgarð. Bærinn Krókur stóð við Austurtúngarð og Krókstún niður við bæ. Vestan og neðan kirkjugarðs var Sjávargatan (Gata) niður að sjó. Við sjávargötuna var þurrabúðin Hóll. Sjá má tóftir hennar neðan við norðvesturhorn kirkjugarðsins.
Margir telja að Garðar séu landnámsjörðin í Álftaneshreppi hinum forna, en hún hét Skúlastaðir. Ekki liggur þó fyrir með óyggjandi hætti hvar Skúlastaðir voru, sbr. Skúlatún ofan Undirhlíða.
Garðakirkja er í Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Í Garðasókn eru tvær kirkjur: Garðakirkja og Vídalínskirkja. Garðakirkja á Álftanesi er vegleg kirkja á sögufrægum stað. Hún hefur átt tímana tvenna kirkjan, sem þar er nú. Hún var reist 1879-80 og Pétur Sigurgeirsson, biskup, vígði hana á öðrum degi hvítasunnu. Kirkjan er úr hlöðnu grjóti úr holtinu fyrir hana.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Hinn 20. desember 1914 var nýja kirkjan í Hafnarfirði vígð og frá sama tíma var Garðakirkja formlega lögð niður. Gekk nú á ýmsu uns konur í Garðahreppi tóku málið í sínar hendur á öndverðu ári 1953 og hafði kirkjan þá verið rústir einar að heita má í aldarfjórðung. Var kirkjan svo endurreist og endurvígð af biskupi hinn 20. mars 1966, þegar 300 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Vídalíns.
Björn Th. Björnsson listfræðingur velti fyrir hver steinsmiðurinn mikli í Görðum væri. Í þeim vangaveltum kom m.a. fram eftirfarandi:
“Allt of lengi hefur það farið fram hjá mönnum, að hér syðra, í næstu nálægð höfuðstaðarins, eru til slík steinhöggsverk sem vekja jafnt undrun og aðdáun á þeim ókunna manni sem beitti þar hagleik sínum. Er þar átt við svokallaða ,,Garðasteina” stóra legsteina í kirkjugarðinum í Görðum á Álftanesi og í nálægum görðum, Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd, úr kirkjugarðinum á Gufunesi í Mosfellssveit og á Þingvöllum. Allt eru þetta stórir steinar, sem næst í grafarstærð, höggnir úr ljósu grágrýti með frábæru klassisku letri og margvíslegri myndskreytingu. Grjót þetta virðist steinafræðingum annaðhvort vera úr Garðaklettum eða úr hömrunum á Setbergi, þar skammt frá.

Garðalind

Garðalind.

Vel má ímynda sér verkferilinn við slíkt steinhögg: Fyrst að kljúfa tilætlaðan stein úr berginu, og þá líklegast með frostþenslu trékíla, svo sem reykvískir legsteinasmiðir gerðu síðar á Skólavörðuholti. Næst er að flytja steininn heim á þann stað þar sem hann á að vinna. Kemur þar naumast annað til greina en sleði á vetri. Kemur þá að því þolinmæðisverki að jafna steininn undir og yfir, slétta hann ofan og fága, höggva brúnir. Loks kemur að hagleiksverkinu sjálfu: mæla út og reikna fyrirferð letursins, stað myndskreytinga og jafnvel teikna fyrir þeim. Eftir allt þetta kemur loks til meitils og hamars, þar sem smiðurinn situr á steininum og stýrir eggjárninu um hina fögru stafi. Allt er letrið á þessum steinum hrein antikva, þ.e. rómverskt jafnstilka letur, oftast með fæti og höfði, andstætt steinskriftarletri, sem hann notar samt á elzta steininn.
Þegar hugað er að aldri legsteina, hafa þeir það fram yfir flest önnur hagleiksverk, að ártals er þar getið. Markar það tímann á eldri veginn, en mörg dæmi eru hinsvegar til þess að minningarmörk séu gerð alllöngu eftir andlát og greftrun manns.

Garðar

Legsteinn yfir guðmund Sigurðsson í Garðakirkjugarði.

Í sögu lærðra manna á 17. öld er aðeins einn mann að finna sem uppfyllir kosti steinsmiðsins, og þá ekki sízt um stað og tíma. Sá maður er Þorkell Arngrímsson sem var guðsþénari í Görðum á Álftanesi um nær tvo áratugi, frá 1657 eða ’58 og til dauðadags 1677, á þeim tíma sem flestir steinarnir eru höggnir.
Líklegt er um mann með þann feril, að hann hafi verið vel búinn tækjum og áhöldum til viðureignar við steina, enda stóð hugur hans svo lítt til prestsskapar, að hann segir í bréfi til biskups 1657, að ,,höfuðsmaðurinn Henrik Bjelke er að knýja mig mig til þess að taka Garða á Álftanesi”; hefur viljað hafa slíkan vísindamann nálægt sér. En þar sem ekki var af öðru lífvænt hér á landi, gekkst hann undir það jarðarmen árið 1658. Ekki varð prestskapartíð Þorkels Vídalíns með neinum friði, heldur eilífum róstum og ákærum sóknarbarna hans, enda hefur hugur hans staðið til annars frekar en messusöngs yfir illviljuðum sálum.

Henrik Bjelke

Henrik Bjelke.

Í stað slíkra leiðindaverka rannsakaði hann hverina á Laugarnesi, brennisteinsnámurnar í Krýsuvík og Surtshelli, og meitlaði steingervinga úr berglögum handa erlendum vísindamönnum. Milli þess hefur hann setið á hlaðinu heima í Görðum og hoggið út þessa makalausu legsteina. Enn er slíkt þó tilgáta ein og til frekari rannsókna.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan við Álftanesveg. Þar lá vegurinn (Fógetastígur) um til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Nafnið er frá þeim tíma er dómsvaldið var á Bessastöðum. Eins og fram hefur komið í öðrum FERLIRslýsingum (t.d. FERLIR- 541) um svæðið er Gálgahraun hluti Búrfellshrauns. Við stíginn má sjá vörðubrot og hleðslur á a.m.k. tveimur stöðum. Ekki er útilokað að þar kunni að leynast dysjar genginna vegfarenda.

Völvuleiði

Völvuleiðið í Garðaholti ofan Dysja.

Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur (sjá FERLIR-541), lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu.
Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist.

Garðagata

Garðagata – kirkjuvegurinn.

Garðagata var reiðgata eða stígur frá Garðahliði norður yfir Garðaholt, fast austan við skotbyrgi frá síðari heimstyrjöldinni, vestan Götuhóls, norður í Álftanesstíg. Við nefnda Garðagötu er dys, vinstra megin þegar gengið er til norðurs, norður undir Garðaholti. Öllu sennilegra er að þarna sé um Mægðnadys að ræða, enda við götu þar sem algengt var að dysja látna ókunna ferðalanga.
Skotbyrgi frá stríðsárunum eru í Garðaholti sem og skotgrafir frá þeim tíma. Ein þeirra tekur í sundur Garðagötuna hina fornu efst á hæðinni. Að norðanverðu má sjá hana síðan liðast niður hlíðina, í átt að Álftanesvegi hinum nýja.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Utan í vesturhraunbrún Gálgahrauns, norðan við Krummakletta, er Garðastekkur, allstór hraunhlaðin fjögurra hólfa rétt, sem notuð var fram til 1930. Leifar af fimmta hólfinu sést enn. Þar hjá er gróin tóft er gæti hafa verið stekkurinn sjálfur. Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá síðustu öld, en um 200 m norðan við stekkinn er gömul hleðsla í hraunbrúninni, sem gæti verið leifar af eldri stekk. Á hraunbrúninni ofan við réttina er gömul fjárborg, sem enn sést móta vel fyrir.

Fógetagata

Fógetastígur.

Fógetastígurinn liggur þarna upp í Gálgahraunið skammt norðar. Hann var alfaraleiðin um hraunið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið; liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes.

Utar með Lambhúsatjörninni var Selskarð. Bæjarhóllinn í Selskarði er hár og greinilegur og fast upp við þjóðveginn að austan. Hann geymir leifar eftir a.m.k. 600 ára mannvist og eflaust talsvert eldri. Telja má þær til merkustu fornleifa á þessu svæði.

Gálgastígur

Sakamannagata.

Gálgahraunsstígurinn nyrðri (neðri) var einnig nefndur Gálgastígur eða Sakamannastígur. Þegar komið var yfir hraunhrygg á stígnum birtust Gálgaklettanir framundan, seiðmagnaðir, svartir upp úr annars hvítum freranum í einum mestu vetrahörkum nóvembermánaðar síðan 1985. Gálgaklettarnir eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi. Í raun er um háan hraungúlp, glóandi kvikuhólf, að ræða er lokast hefur af í storknandi hrauni og flætt hefur frá allt um kring. Við það myndaðist margklofinn hraunhóll sem svo algengt er í hraunum Reykjanesskagans. Ef skoðað er umhverfi Gálgakletta má sjá jarðfræðilega skál vestan þeirra.

Líklega hefur hún verið betrumbætt að hluta, en hún er a.m.k. vel gróin með mynduðum veggjum.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Þarna gætu hafa farið fram einhvers konar atfhafnir fyrrum. Stígurinn upp í klettana að vestanverðu liggja upp með garðinum. Skammt er þaðan upp að klofinu, þar sem þvertré á að hafa verið yfir og reipi niður úr. Ef vel er að gáð má sjá grópir efst í klettunum beggja vegna. Vel má gera sér í hugarlund hvernig aftakan hefur gengið fyrir sig því aðstæður tala sínu máli – þó ekki væri annað en að horfa frá klofanum uppi í klettunum heim að Bessastöðum, þar sem yfirvaldið hefur setið, sæmilega öruggt, og séð þegar “réttlætinu” var fullnægt. Sagnir eru bæði um að farið hafi verið með sakamennina gangandi að Gálgaklettum frá dómsuppkvaðningu í Kópavogsþingi (stað erfðahyllingarinnar) eða á bát frá Bessastöðum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Úr því fæst ekki skorið nema beint “samband” náist við einhvern, sem þekkti til. Annars eru Gálgaklettar ágætt dæmi um andspænistákn samfélagsins; sjálfstöku samtvinnaðs embættisvalds og dómsvalds annars vegar og vonlitla baráttu alþýðufólksins gagnvart hvorutveggja hins vegar ef þannig skipaðist veður í lofti. Oft mátti lítið út af tilviljunum bera hjá hinum síðarnefndu til að “friðþæg” yfirstéttinn gripi til geðþóttaákvarðana. Í rauninni hefur lítil breyting orðið þar á, þótt “myndbreytingin” sé nú önnur en var. Staðreyndin er sú að margur “baráttumaðurinn” var því miður dæmdur saklaus eða fyrir litlar sakir og varð gert að taka afleiðingum, ekki endilega af sínum gerðum, heldur af hugdettum og ákvörðunum annarra að tilteknum ákveðnum hagsmunum – líkt og enn tíðkast. Dæmi þar um er dómurinn yfir Hólmfasti forðum. Þjóðfélagið hefur í rauninni lítið breyst þrátt fyrir aukna reynslu og aukna menntun – því miður.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Gálgaklettarnir í Gálgahrauni eru ágæt áminning þar um.
Lengi voru munnmælasögur um bein í skútum í hrauninu við Gálgakletta, en Gísli Sigurðsson telur líklegt að sakamenn hafi að henginu lokinni verið dysjaðir í Gálgaflötinni skammt norðan við Gálgakletta.

Gengið var um Gálgahraun yfir að Fógetastíg, hina fornu leið um Gálgahraun frá Reykjavík og Bessastaða, og hann rakin til vesturs og síðan gengið um Hafnarfjarðarhraun, stystu leið að upphafsstað.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifakönnun – FL FS087-99081 – 1999 – OV
-www.nat.is
-http://www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast2/steinsmidur.html
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2001
-Saga Hafnarfjarðar – 1983.

Garðahverfi

Garðahverfi – Örnefnakort – ÓSÁ.

Garðarholt

Sigríður B. Guðmundsdóttir á Görðum var heimsótt. Hún er fædd og uppalin á Görðum. Við hornið á íbúðarhúsinu lá steinn með áklöppuðum keltneskum krossi. Sigríður sagði son hennar, Guðmund, hafa fundið steininn fyrir stuttu þarna skammt frá húsinu. Kirkjugarðurinn er vestan við það. Í gömlum heimildum er getið um Garðalind, aðalvatnsból Garðhverfinga, aðallega Garðastaðar og bæjanna austast í hverfinu. Austan kirkjugarðsins lá Lindargata að Garðalandi. Skv. þeim átti lindin að vera undir stórum þríhyrndum steini, sem hvíldi á þremur öðrum. Áður hafa verið gerðar tilraunir til að hafa uppi á lindinni með hliðsjón af lýsingunni, en það ekki tekist.

Garðalind

Garðalind.

Sigríður fylgdi FERLIR austur fyrir kirkjugarðinn á Görðum þar sem enn má sjá hinar gömlu hleðslur umhverfis hann. Gengið var niður fyrir garðinn og síðan skammt til norðurs. Þar vestan við kirkjugarðinn er stór þríhyrndur steinn. Vestan við hann er hlaðin rás og yfir hana steinbrú, sennilega á hinni gömlu Lindargötu.

Garðalind

Garðalind.

Fast vestan við steininn er hlaðin þrep niður að lindinni, sem er undir þessum stóra steini. Hún er í nokkurs konar skál undir honum. Frá lindinni til norðurs er gamall flóraður stígur. Ofan og fast við steininn hefur verið gert múrsteinshlaðið byrgi. Sigríður sagði að þar ofan í hafi verið sett dæla fyrir löngu síðan og vatninu úr lindinni dælt heim að bæ. Hlaðna rásin vestan við lindina er enn nokkuð heilleg. Sunnan við Garðalind er gömul hlaðin tótt.
Þá sýndi Sigríður FERLIR Völvuleiði á hæðinni austan Garðaholts. Þar er völva sögð hafa verið dysjuð. Sigríður kunni ekki frekari sögu af henni. Beggja vegna hæðarinnar eru grafnar skotgrafir.
Sigríður sagðist ekki vita hvar Garðahúsabrunnur og Miðengisbrunnur væru, en benti á Guðjón frá Pálshúsum, sem er næsti bær sunnan við Garða. Vestan við Pálshús, niður við sjávarkambinn, var bærinn Bakki, sem enn sést móta fyrir þar á kambinum. Norðan við hann er “Jobbasteinninn”, sem fannst fyrir ári síðan.

Völvuleiði

Á Völvuleiði.

Hausastaðaskóli

Gengið var um Langeyri og Malir, skoðaðir gamlir fiskreitir og síðan haldið út með ströndinni með Bala, Dysjum og Görðum. Gengin var Lindargata að Garðalind og síðan út á Hliðsnes og að Hausastaðaskóla.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Langeyri var upphaflega tómt hús í landi Garðakirkju sem stóð autt árið 1703 vegna aflabrests. Þegar fríhöndlunin gekk í garð 1787 lögðu danskir lausakaupmenn Langeyri undir sig og reistu sér íbúðarhús og vöruskemmur. Örnefnið Rauðhúsnef er frá þeim tíma er rauðlituð dönsk hús stóðu við tangann er kallast í dag Rauðsnef. Þar var í eina tíð hvalstöð sem lagðist niður þegar alvarlegt slys varð í stöðinni. Núverandi Langeyrarbær var byggður árið 1904 og telst vera dæmigerður hafnfirskur hraunbær af stærri gerðinni.

Fagrihvammur

Fagrihvammur.

Nokkru vestar eru fleiri gömul hús Eyrarhraun, Fagrihvammur og steinbærinn Brúsastaðir. Utar taka við Brúsastaðamalir eða Litlu-Langeyrarmalir og Skereyrarmalir. Hér voru fyrirtaks malir fyrir smábáta sem þurftu ekki að fara djúpt til að afla vel.
Finna mátti samskonar malarkamba inn eftir öllum Hafnarfirði í aldarbyrjun. Langeyrarmalir voru lengstar malanna og hér reisti August Flygenring fiskvinnsluhús 1904. Malirnar voru mikið athafnasvæði og var saltfiskur breiddur til þurrkunar á góðviðrisdögum á fiskreitum í hrauninu sem enn sést móta fyrir, t.d. utan við beygjuna neðan við Eyrarhraun.

Allians

AllianZ-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Fiskverkunarhúsin voru rifin á níunda tug 20. aldar. Líklegt er að þessir fiskreitir verði eyðilagðir innan skamms vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á svæðinu. Allians-reiturinn, sem var þarna skammt ofar, var t.d. rifinn uppá einum degi þegar síðast var byggt við Hrafnistu. Í rauninni virðist það hafa verið óþarfa eyðilegging ef tekið er mið af byggingunni, sem reist var á svæðinu. Í rauninni hefði verið táknrænt að vernda þennan gamla fiskreit svo til við gaflinn á þessu dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954. Fiskreitir víða.

Þegar saltfiskverkun var sem mest í bænum á fyrrri hluta 20. aldar var fjöldi fiskreita og stakkstæða um allan bæ þar sem fiskurinn var breiddur og þurrkaður. Það er enn hægt að skoða fagurlega hlaðna fiskreiti á nokkrum stöðum í bænum þó mjög hafi verið þrengt að þeim. Alliansreitur (stundum nefndur Allanzreitur) er sunnan Hrafnistu. Hann er kenndur við Allen Major, framkvæmdastjóra hinna ensku Hellyers bræðra sem stunduðu útgerð frá Hafnarfirði 1924 – 1929. Annar þekktur fiskreitur var Einarsreitur, sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður og kaupmaður lét útbúa, er á svæðinu milli Arnarhrauns, Smyrlahrauns, Álfaskeiðs og Reykjavíkurvegar.

Einarsreitur

Einarsreitur.

Byggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð og er talið að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og bjó á Skúlastöðum. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Minnismerki stendur nú þar sem Hausastaðaskóli var. Enn má sjá tóftir hans. Skólinn var annar fyrstu skóla á Íslandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára. Skólinn starfaði á árunum 1792-1812. Skólinn var stofnaður handa fátækum börnum sem fengu ekki tækifæri til að læra. Það voru bæði strákar og stelpur í skólanum sem þótti merkilegt því stelpur gengu ekki í skóla þá. Fyrst í stað voru 6 stelpur og 6 strákar en þeim fjölgaði fljótlega. Eftir 1804 fækkaði þeim aftur. Markmið Hausastaðaskóla var ekki bara að lesa, skrifa og reikna, heldur líka að ala upp fátæk börn. Minnisvarði um Hausastaðaskóla var reistur árið 1979.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá meira um Hausastaðaskóla HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.gardabaer.is/default.asp?cat_id=69
-http://www2.hafnarfj.is/hafnarfj.nsf/pages/merkir_stadir
-Jón Skálholtsrektir – minning um Jón Þorkelsson Thorkillius, Rvík 1959.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli.