Gengið var frá Skerseyri um Langeyri, litið á landamerkjavörðu Hafnarfjarðar og Garðabæjar neðan Bala, kíkt undir Balaklöppina, haldið yfir að Garðalind, skoðuð verk steinsmiðsins mikla frá Görðum, spáð í Völvuleiði og Garðastekk og síðan Sakamannagatan gengin að Gálgaklettum.
Skerseyri og Skerseyrarmalir var nefnd fjaran frá gamla Hafnargarðinum út að Langeyri. Langeyri var í raun stutt eyri á Langeyrarmölum, en hún náði allt að Markavörðunni á Balaklöppum.
Balavarða.
Á Balaklettum var gengið að Markavörðu. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði, sagði eitt sinn að þeir bæjarstarfsmenn hefðu gengið að markavörðunum í landi Hafnarfjarðar og “gert þær varanlegri með steinsteypu.” Þannig hafi þeir “steypt upp hlöðnu vörðurnar á Balakletti, í Engidal við Hafnarfjarðarveginn, á Miðdegishól, á Hádegishól, við Setbergsfjárhelli, við Markrakagil og víðar.
Skarfur þakti klappirnar utan við ströndina.
Guðmundur Kjartansson kannaði mó og jurtaleifar við Balakletta um 1970. Reyndist aldur jurtaleifanna verð aum 7000 ára, en niðurstaðan gefur til kynna hvenær Búrfellshraunið (Garðahraun) hefur runnið. Nokkru austar er Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar. Bali er ofan við kampinn.
Bali – Sléttubraut.
Til fróðleiks má geta þess að austan undir Balatúni er vegarspotti, kallaður Sléttubraut. Sigurgeir Gíslason, vegaverkstjóri, lagði þennan veg, en nefndur Sigurgeir var m.a. verkstjóri við Gamla Grindarvíkurveginn á árunum 1914-1918.
Þá tóku við Dysjar. Gengið var framhjá Dysjatjörn, en á flóðum flæðir inn í hana.
Þá var gengið um land Pálshúss og síðan áfram um Garðamýri, inn á Lindargötu og eftir henni að Garðalind. Skammt vestar var Sjávargatan frá Görðum. Hlaðin brú er á götunni neðan við lindina, aðalvatnsból Garðhverfinga. Við lindina liggur gríðamikið bjarg, Grettistak. Vestan við Garðalind var í eina tíð Garðhúsabrunnur með allgóðu neysluvatni. Þar drapst sauðkind og var þá brunnurinn fylltur með grjóti og jarðvegi eins og svo algengt var um allt Reykjanesið og víðar.
Garðar – legsteinn.
Við Garða má sjá mikla garða. Á loftmyndum má t.d. sjá Garðatúngarð. Garðinum var skipt í Vesturgarð og Austurgarð. Bærinn Krókur stóð við Austurtúngarð og Krókstún niður við bæ. Vestan og neðan kirkjugarðs var Sjávargatan (Gata) niður að sjó. Við sjávargötuna var þurrabúðin Hóll. Sjá má tóftir hennar neðan við norðvesturhorn kirkjugarðsins.
Margir telja að Garðar séu landnámsjörðin í Álftaneshreppi hinum forna, en hún hét Skúlastaðir. Ekki liggur þó fyrir með óyggjandi hætti hvar Skúlastaðir voru, sbr. Skúlatún ofan Undirhlíða.
Garðakirkja er í Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Í Garðasókn eru tvær kirkjur: Garðakirkja og Vídalínskirkja. Garðakirkja á Álftanesi er vegleg kirkja á sögufrægum stað. Hún hefur átt tímana tvenna kirkjan, sem þar er nú. Hún var reist 1879-80 og Pétur Sigurgeirsson, biskup, vígði hana á öðrum degi hvítasunnu. Kirkjan er úr hlöðnu grjóti úr holtinu fyrir hana.
Garðakirkja 1956.
Hinn 20. desember 1914 var nýja kirkjan í Hafnarfirði vígð og frá sama tíma var Garðakirkja formlega lögð niður. Gekk nú á ýmsu uns konur í Garðahreppi tóku málið í sínar hendur á öndverðu ári 1953 og hafði kirkjan þá verið rústir einar að heita má í aldarfjórðung. Var kirkjan svo endurreist og endurvígð af biskupi hinn 20. mars 1966, þegar 300 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Vídalíns.
Björn Th. Björnsson listfræðingur velti fyrir hver steinsmiðurinn mikli í Görðum væri. Í þeim vangaveltum kom m.a. fram eftirfarandi:
“Allt of lengi hefur það farið fram hjá mönnum, að hér syðra, í næstu nálægð höfuðstaðarins, eru til slík steinhöggsverk sem vekja jafnt undrun og aðdáun á þeim ókunna manni sem beitti þar hagleik sínum. Er þar átt við svokallaða ,,Garðasteina” stóra legsteina í kirkjugarðinum í Görðum á Álftanesi og í nálægum görðum, Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd, úr kirkjugarðinum á Gufunesi í Mosfellssveit og á Þingvöllum. Allt eru þetta stórir steinar, sem næst í grafarstærð, höggnir úr ljósu grágrýti með frábæru klassisku letri og margvíslegri myndskreytingu. Grjót þetta virðist steinafræðingum annaðhvort vera úr Garðaklettum eða úr hömrunum á Setbergi, þar skammt frá.
Garðalind.
Vel má ímynda sér verkferilinn við slíkt steinhögg: Fyrst að kljúfa tilætlaðan stein úr berginu, og þá líklegast með frostþenslu trékíla, svo sem reykvískir legsteinasmiðir gerðu síðar á Skólavörðuholti. Næst er að flytja steininn heim á þann stað þar sem hann á að vinna. Kemur þar naumast annað til greina en sleði á vetri. Kemur þá að því þolinmæðisverki að jafna steininn undir og yfir, slétta hann ofan og fága, höggva brúnir. Loks kemur að hagleiksverkinu sjálfu: mæla út og reikna fyrirferð letursins, stað myndskreytinga og jafnvel teikna fyrir þeim. Eftir allt þetta kemur loks til meitils og hamars, þar sem smiðurinn situr á steininum og stýrir eggjárninu um hina fögru stafi. Allt er letrið á þessum steinum hrein antikva, þ.e. rómverskt jafnstilka letur, oftast með fæti og höfði, andstætt steinskriftarletri, sem hann notar samt á elzta steininn.
Þegar hugað er að aldri legsteina, hafa þeir það fram yfir flest önnur hagleiksverk, að ártals er þar getið. Markar það tímann á eldri veginn, en mörg dæmi eru hinsvegar til þess að minningarmörk séu gerð alllöngu eftir andlát og greftrun manns.
Legsteinn yfir guðmund Sigurðsson í Garðakirkjugarði.
Í sögu lærðra manna á 17. öld er aðeins einn mann að finna sem uppfyllir kosti steinsmiðsins, og þá ekki sízt um stað og tíma. Sá maður er Þorkell Arngrímsson sem var guðsþénari í Görðum á Álftanesi um nær tvo áratugi, frá 1657 eða ’58 og til dauðadags 1677, á þeim tíma sem flestir steinarnir eru höggnir.
Líklegt er um mann með þann feril, að hann hafi verið vel búinn tækjum og áhöldum til viðureignar við steina, enda stóð hugur hans svo lítt til prestsskapar, að hann segir í bréfi til biskups 1657, að ,,höfuðsmaðurinn Henrik Bjelke er að knýja mig mig til þess að taka Garða á Álftanesi”; hefur viljað hafa slíkan vísindamann nálægt sér. En þar sem ekki var af öðru lífvænt hér á landi, gekkst hann undir það jarðarmen árið 1658. Ekki varð prestskapartíð Þorkels Vídalíns með neinum friði, heldur eilífum róstum og ákærum sóknarbarna hans, enda hefur hugur hans staðið til annars frekar en messusöngs yfir illviljuðum sálum.
Henrik Bjelke.
Í stað slíkra leiðindaverka rannsakaði hann hverina á Laugarnesi, brennisteinsnámurnar í Krýsuvík og Surtshelli, og meitlaði steingervinga úr berglögum handa erlendum vísindamönnum. Milli þess hefur hann setið á hlaðinu heima í Görðum og hoggið út þessa makalausu legsteina. Enn er slíkt þó tilgáta ein og til frekari rannsókna.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan við Álftanesveg. Þar lá vegurinn (Fógetastígur) um til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Nafnið er frá þeim tíma er dómsvaldið var á Bessastöðum. Eins og fram hefur komið í öðrum FERLIRslýsingum (t.d. FERLIR- 541) um svæðið er Gálgahraun hluti Búrfellshrauns. Við stíginn má sjá vörðubrot og hleðslur á a.m.k. tveimur stöðum. Ekki er útilokað að þar kunni að leynast dysjar genginna vegfarenda.
Völvuleiðið í Garðaholti ofan Dysja.
Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur (sjá FERLIR-541), lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu.
Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist.
Garðagata – kirkjuvegurinn.
Garðagata var reiðgata eða stígur frá Garðahliði norður yfir Garðaholt, fast austan við skotbyrgi frá síðari heimstyrjöldinni, vestan Götuhóls, norður í Álftanesstíg. Við nefnda Garðagötu er dys, vinstra megin þegar gengið er til norðurs, norður undir Garðaholti. Öllu sennilegra er að þarna sé um Mægðnadys að ræða, enda við götu þar sem algengt var að dysja látna ókunna ferðalanga.
Skotbyrgi frá stríðsárunum eru í Garðaholti sem og skotgrafir frá þeim tíma. Ein þeirra tekur í sundur Garðagötuna hina fornu efst á hæðinni. Að norðanverðu má sjá hana síðan liðast niður hlíðina, í átt að Álftanesvegi hinum nýja.
Gálgaklettar.
Utan í vesturhraunbrún Gálgahrauns, norðan við Krummakletta, er Garðastekkur, allstór hraunhlaðin fjögurra hólfa rétt, sem notuð var fram til 1930. Leifar af fimmta hólfinu sést enn. Þar hjá er gróin tóft er gæti hafa verið stekkurinn sjálfur. Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá síðustu öld, en um 200 m norðan við stekkinn er gömul hleðsla í hraunbrúninni, sem gæti verið leifar af eldri stekk. Á hraunbrúninni ofan við réttina er gömul fjárborg, sem enn sést móta vel fyrir.
Fógetastígur.
Fógetastígurinn liggur þarna upp í Gálgahraunið skammt norðar. Hann var alfaraleiðin um hraunið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið; liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes.
Utar með Lambhúsatjörninni var Selskarð. Bæjarhóllinn í Selskarði er hár og greinilegur og fast upp við þjóðveginn að austan. Hann geymir leifar eftir a.m.k. 600 ára mannvist og eflaust talsvert eldri. Telja má þær til merkustu fornleifa á þessu svæði.
Sakamannagata.
Gálgahraunsstígurinn nyrðri (neðri) var einnig nefndur Gálgastígur eða Sakamannastígur. Þegar komið var yfir hraunhrygg á stígnum birtust Gálgaklettanir framundan, seiðmagnaðir, svartir upp úr annars hvítum freranum í einum mestu vetrahörkum nóvembermánaðar síðan 1985. Gálgaklettarnir eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi. Í raun er um háan hraungúlp, glóandi kvikuhólf, að ræða er lokast hefur af í storknandi hrauni og flætt hefur frá allt um kring. Við það myndaðist margklofinn hraunhóll sem svo algengt er í hraunum Reykjanesskagans. Ef skoðað er umhverfi Gálgakletta má sjá jarðfræðilega skál vestan þeirra.
Líklega hefur hún verið betrumbætt að hluta, en hún er a.m.k. vel gróin með mynduðum veggjum.
Garðastekkur.
Þarna gætu hafa farið fram einhvers konar atfhafnir fyrrum. Stígurinn upp í klettana að vestanverðu liggja upp með garðinum. Skammt er þaðan upp að klofinu, þar sem þvertré á að hafa verið yfir og reipi niður úr. Ef vel er að gáð má sjá grópir efst í klettunum beggja vegna. Vel má gera sér í hugarlund hvernig aftakan hefur gengið fyrir sig því aðstæður tala sínu máli – þó ekki væri annað en að horfa frá klofanum uppi í klettunum heim að Bessastöðum, þar sem yfirvaldið hefur setið, sæmilega öruggt, og séð þegar “réttlætinu” var fullnægt. Sagnir eru bæði um að farið hafi verið með sakamennina gangandi að Gálgaklettum frá dómsuppkvaðningu í Kópavogsþingi (stað erfðahyllingarinnar) eða á bát frá Bessastöðum.
Gálgaklettar.
Úr því fæst ekki skorið nema beint “samband” náist við einhvern, sem þekkti til. Annars eru Gálgaklettar ágætt dæmi um andspænistákn samfélagsins; sjálfstöku samtvinnaðs embættisvalds og dómsvalds annars vegar og vonlitla baráttu alþýðufólksins gagnvart hvorutveggja hins vegar ef þannig skipaðist veður í lofti. Oft mátti lítið út af tilviljunum bera hjá hinum síðarnefndu til að “friðþæg” yfirstéttinn gripi til geðþóttaákvarðana. Í rauninni hefur lítil breyting orðið þar á, þótt “myndbreytingin” sé nú önnur en var. Staðreyndin er sú að margur “baráttumaðurinn” var því miður dæmdur saklaus eða fyrir litlar sakir og varð gert að taka afleiðingum, ekki endilega af sínum gerðum, heldur af hugdettum og ákvörðunum annarra að tilteknum ákveðnum hagsmunum – líkt og enn tíðkast. Dæmi þar um er dómurinn yfir Hólmfasti forðum. Þjóðfélagið hefur í rauninni lítið breyst þrátt fyrir aukna reynslu og aukna menntun – því miður.
Mæðgnadys.
Gálgaklettarnir í Gálgahrauni eru ágæt áminning þar um.
Lengi voru munnmælasögur um bein í skútum í hrauninu við Gálgakletta, en Gísli Sigurðsson telur líklegt að sakamenn hafi að henginu lokinni verið dysjaðir í Gálgaflötinni skammt norðan við Gálgakletta.
Gengið var um Gálgahraun yfir að Fógetastíg, hina fornu leið um Gálgahraun frá Reykjavík og Bessastaða, og hann rakin til vesturs og síðan gengið um Hafnarfjarðarhraun, stystu leið að upphafsstað.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimildir m.a.:
-Fornleifakönnun – FL FS087-99081 – 1999 – OV
-www.nat.is
-http://www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast2/steinsmidur.html
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2001
-Saga Hafnarfjarðar – 1983.
Garðahverfi – Örnefnakort – ÓSÁ.