Hausastaðaskóli

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er afleíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistabarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.
Stofnun barnaskóla á Íslandi var að vísu ekki algert nýmæli, því að hinn fyrsti barnaskóli landsins var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745. Ekki fara þó langar sögu af honum. hann mun hafa verið endurbættur 1750, en nokkrum árum seinna var hann kominn í kalda kol.
Árið 1761 gerðu Finnur biskup Jónsson og Magnús amtmaður Gíslason reglugerð fyrir væntanlegan skóla, er stofnaður skyldi í Njarðvík. Það átti að vera hinn væntanlegi uppeldisskóli samkvæmt gjöf J. Þork. Skal hér birtur útdráttur úr reglugerðinni, sem var alls í 33 greinum, þar eð hún var í öllum meginatriðum tekin upp, þegar Hausastaðaskólinn var stofnaður 1791. Sýnir reglugerðin ljóslega tíðarandann og hugmyndir æðstu embættismanna þjóðarinnar um fyrirmyndar barnaskóla.

Hausastaðir

Hausastaðir og tóft Hausastaðaskóla 2024.

Skólahaldarinn átti að vera lærður maður, “kunnur að guðhræðslu og reglusemi og hæfur til að gegna svo þýðingarmiklum starfa”. Sé hann kvongaður “skal kona hans vera þekkt af heiðarlegum lifnaði”. Hann átti að hafa “gang og sæti á opinberum mannafundum næst á eftir prestum eða conrektorum við latínuskóla”. Í skólann mátti ekki taka yngri börn en 6-7 ára.

Hausastaðir

Hausastaðaskóli (t.v.), minnismerki og Hausastaðir.

Um kennsluna var það tekið fram, að “með því að ótti drottins er upphaf allrar visku, hamingju og blessunar”, þá átti daglega, “kvöld og morga, að halda í skólanum bænargjörð eða lofsöng”, lesa kafla úr Biblíunni eða annarri guðsorðabók og “stuttlega skýra innihaldið fyrir börnunum”, og “aldrei gleyma að biðja fyrir guðs kirkju, fyrir hans hátign konunginum, öllu konungsfólkinu og fyrir heill landsins”.

Hausastaðir

Hausastaðir 2022.

Þá átti að láta börnin sjálf lesa í Biblíunni og venja þau á að syngja “alla sálma tíðkanlega hér á landi.” Og til þess að “lærdómar Biblíunnar nái betur að festa rætur muni nokkuð af því, (skólahaldarinn) rannsaka, hvort þau muni nokkuð af því, sem lesið var og skýrt fyrir þeim morguninn eða kvöldið áður.”
Þá voru hreinlætisreglur. Börnin áttu að vera með hreinar hendur og kembt hár. Um matinn er þess getið, að þau skuli fá hann “eftir óbrotnum landssið, en ekki til að fylla búk þeirra eða seðja græðgi þeirra”.
Börnin áttu að læra lestur, og stálpaðir piltar skyldu læra að draga til stafs. Og þau, sem til þess væru hæf, áttu að læra 4 höfuðreglur reiknings í heilum tölum. Eldri börn áttu að hjálpa þeim yngri við lestrarnámið.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þá skyldu börnin læra öll algeng störf, að þetta var jafnframt verknámsskóli. Drengirnir áttu að vera við slátt og fara til róðra með vönduðum formönnum. Stúkunum var ætluð ullarvinna, spuni, saumur, prjón og að bæta föt. – Börnin áttu að vera kurteins, ekki mátti þola þeim yfirsjónir, og skyldi þeim hengt fyrir brot á skólareglum, annaðhvort með ávítunum eða hrísvendi.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki í Njarðvíkum.

Að skólahaldi í Njarðvík varð þó ekki. Yfirstjórnendur sjóðsins [Torkelliissjóðsins)] töldu verð á byggingarefni of hátt, til þess að hægt væri að ráðast í skólabyggingu.
Árið 1793 var svo byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé “afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn. Langs eftir er húsið gegnum þiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 værelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi. Fyrir þesum værelsum eru 8 hurðir á járnum, fyrir 2mur skrár tvílæstar, fyrir 2 einlæstar og 2mur lítt nýtar. Fyrir forstofu þiljarðri er vænghurð á hjörum með klínku; fyrir útidyrum hurð á járnum með stórri skrá einlæstri. Á húsinu eru 8 gluggar með 6 rúðum hver.”

Jón Þorkellsson - minnismerki

Minnismerki um Jón Þorkelsson í Njarðvík – teiknað af Ríkarði Jónssyni.

Þá er því ennfremur lýst, að í “sængurkamersinu sé innþiljuð lokrekkja með lagföstum hillum umhverfis. Í dagkegustofunni er kaalofn, sem gengur út til kokkhússins, þar hjá opinn bókaskápur með 4 hillum.” Úr forstofu lá stigi upp á loft. kennslustofur voru niðir, en uppi á lofti voru svefnkamers. Á loftinu voru 3 gluggar með 4 rúðum hver.
Sér Þorvaldur stjórnaði skólanum í 12 ár eða til ársins 1804. Á þessu tímabili höfðu 26 börn verið í skólanum. Af þeim 12, sem fyrst voru tekin í skólann, hafði eitt farið úr skóla eftir vottorði landlæknis og úrskurði stiptamtmanns. Einn drengur og eins telpa höfðu verið öll þessi 12 ár í skólanum, og voru nú útskrifuð sem sjálfbjarga og vel vinnufær ungmenni, tvær telpur voru í 11 ár, drengur og telpa í 9 ár, drengur og telpa í 8 ár, einn drengur í 6 ár, en einn drengur vék úr skóla eftir eitt ár. Einn piltur, sem kominn var yfir brottfararaldur, hélt áfram að vinna á vegum skólans.

Hausastaðir

Hausastaðir og minnismerkið um Hausastaðaskóla.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafi starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði.

Heimild:
-Jón Skálholtsrektor; minning um Jón Þorkelsson Thorkillius á 20 ára árstíð hans. Gunnar M. Magnússon tók saman, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1950, bls. 119-127.

Hausastaðaskóla

Tóftir Hausastaðaskóla.