Búrfellsgjá

Gjáarrétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár, ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár.
GjáarréttRéttin er hlaðin úr hraungrýti enda er gnægð af því byggingarefni nærtækt. Veggir, sem enn standa, bera verklagi hleðslumanna gott vitni.
Líklegt er að Gjáarrétt hafi verið reist og gerð að fjallskilarétt árið 1840. Síra Árni Helgason prófastur í Görðum á Álftanesi (1777-1869) ritar sóknarlýsingu Garðaprestakalls árið 1942. Hann segir þar: “Rétt fyrir þennan hrepp er sett í kirkjulandinu næstliðið ár. Lengi að undanförnu var ekki skipt um slíkt; þá var og sauðfé hér miklu færra en nú er orðið.”
Í safnritinu Göngum og réttum er ekki rætt um fjallskil í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Heimildir um Gjáarrétt og fjallskil þar eru þess vegna fremur litlar.
Gjáarrétt var ef að líkum lætur fjallskilarétt, lögrétt, í liðlega áttatíu ár eða fram yfir 1920. Þá var fjallskilaréttin flutt niður í Gráhelluhraun, ofan við Hafnarfjörð, og nefndist Hraunrétt. Árið 1955 var rétt gerð við Kaldársel. Þar er skilarétt nú (1986). Eftir þetta var þó smalað til Gjáarréttar á sumrin allt fram yfir 1940.
Gjáarétt var friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar 1964.
Á uppdrættinum má sjá dikaskipan samkvæmt frumrissi Gísla Guðjónssonar og staðfest af Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti. Dilkar: 1 – Grindavík. 2. Vatnsleysuströnd. 3. Suður-Hafnarfjörður. 4. Setberg. 5. Hraunabæir. 6. Garðahverfi. 7. Vestur-Hafnarfjörður. 8. Urriðakot og Hofstaðir. 9. Vífilsstaðir. 10. Ómerkingar. 11. – Vatnsendi og fleiri bæir í Seltjarnarneshreppi. 12. Selvogur.

Gata við Gjáarrétt

Við Gjáarrétt er réttargerði. Fjársafnið var geymt í gerðinu nóttina áður en réttað var. Þar inn undir berginu er hlaðið byrgi, sem ýmsar skýringar eru á til hvers hafi verið notað. Víst er að menn notuðu þetta byrgi sem skjól meðan Gjáarrétt var fjallskilarétt. Það hefur líka verið notaðs em fjárbyrgi. Okkur kemur til hugar að byrgið gæti upphaflega verið eldra en Gjáarrétt eða frá sama tíma og seljarústirnar í Selgjá. Byrgið hefur nú látið allmikið á sjá, meðal annars var þar nokkurt hrun vorið 1982.

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Gjáarrétt

Gjáarrétt.