Valaból

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli.
Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður.

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin leyndi sér enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar. Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal. Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu sjaldnast lengi á sama stað.

Valaból

Valaból.

Þá var haldið áfram norður Mosana yfir að Smyrlabúðum. Þar var staldrað við og skoðuð gömul vegghleðsla utan í Smyrlabúðahrauni þar sem ætla mætti að gæti hafa verið hinn gamli áningastaður Selvogsmanna eða viðstaldur brennisteinslestarmanna á leið þeirra úr Grindarskörðum.
Kíkt var inn í Ketshelli og hann skoðaður að hluta. Þá var Setbergsselið skoðað, litið á stekkinn og gengið í gegnum Kershelli, fjárskjól í selinu þar sem einnig er fyrir aðstaða Hamarskotssels og litið í skjól norðan selsins. Haldið var áfram niður með Setbergshlíð og litið eftir gömlu hlöðnu fjárhúsi frá Setbergi er byggt var 1906 er féð var flutt úr fjárhellinum í selinu upp í hlíðina. Staldrað var við fjárskjól undir Gráhellu í Gráhelluhrauni og síðan skoðuð vatnsvirkjunin og stíflurnar í Lækjarbotnum áður en ferðinni lauk við kirkjugarðinn.
Veður var frábært – sól og blanka logn. Gangan tók um 5 og ½ klst því áningartíminn í Músarhelli var óvenjulangur að þessu sinni.

Valaból

Valaból.