Færslur

Litluborgir

Í nágrenni Helgafells, sem í dag er orðið aðdráttarafl fyrir göngufólk í auknum mæli, er fjölmargt að skoða, s.s. Kaldárbotna, Helgadal, Valaból, Valahnúka, Húsfell, Litluborgir og Gvendarselshæðargígaröðina, svo eitthvað sé nefnt. Flest göngufólkið virðist þó hafa það að markmiði að ganga á fellið, njóta útsýnisins og þramma síðan umhugsunarlaust til baka. Þó eru þeir/þau til er vilja gefa sér tíma og njóta njóta allra dásemdanna, sem fellið og umhverfi þess hefur upp á bjóða…

-Kaldárbotnar

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar.

Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Síðar var farið að leiða vatn í hús.

KaldárbotnarNeysluvatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950 og fullnægir hún enn vatnsþörf bæjarins.

Rétt vestan við Búrfellsgíginn, í hrauntröðunum, sem frá honum liggja, er misgengi er nemur um 2 m og snýr eins og hin tvö þ. e. að vesturbarmur sprungunnar er lægri.
Búrfell sjálft er brotið um þvert af misgengissprungu, sem liggur um Helgadal, Kaldárbotna, Gvendarselshæð og Undirhlíðar.

Misgengi þetta er víða (1—8 m og sums staðar 10 m eða þar yfir. Austurhlíð sprungunnar er hér aítur lægri. Það er þessi sprunga, sem Kaldá raunverulega kemur úr. Þetta misgengi er augljóslega yngra en Búrfell og Búrfellshraunið eins og aðalmisgengið um Hjalla.
Það er athyglisvert að um 1,5—2 km sunnan við Kaldárbotna, en þar er vatnsból Hafnarfjarðar, heldur þessi sama sprunga gosið hrauni. Það hraun er hið yngsta þar í grennd.

Sjá meira um Kaldárbotna HÉR  og HÉR.

-Vatnsveitan

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Misgengið í Helgadal – Búrfell fjærGráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þótt leiðslan sé löngu aflögð og að mestu horfin má enn sjá undirhleðsluna frá Lækjarbotnum yfir að ofanverðri Sléttuhlíð.

Lækjarbotnar

Inntakið í Lækjarbotnum.

„Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan sleppt við suðurenda Setbergshlíðar [Setbergshlíð endar við Þverhlíð, hér á því að standa „Sléttuhlíðar“] þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.“

Sjá meira um Vatnsveituna úr Kaldárbotnum HÉR og HÉR.

-Helgadalur

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Helgadalur ofan við Kaldársel var lengi vinsæll staður fyrir skátamót. Strax árið 1938 héldu Hraunbúar Vormót sitt þar en fyrsta Vormótið var haldið í Kaldárseli árið áður.

Helgadalur

Helgadalur – skátamót.

Kaldársel var einnig vinsæll útilegustaðir og komu skátar t.d. úr Reykjavík oft þangað, ekki síst skátar sr. Friðriks Friðrikssonar í Væringjum.

Síðasta Vormót Hraunbúa var haldið í Helgadal árið 1963. Var svæðið þá skilgreint sem vatnsverndarsvæði og síðar lokað af. Bæjaryfirvöld virðast, í seinni tíð, vera meira annt um að loka af svæðinu en að bæta aðgengi að því.

Göngufólk gengur gjarnan um Helgadal á leið í Valaból – eftir gömlu Selvogsgötunni. Þegar komið er niður í dalinn, þar sem vatnsverndargirðingunni sleppir, má sjá inn í dalinn til hægri; fallega tjörn umlukta runnagróðri og misgengisvegg með mosavaxna Kaldárhnúka í bakgrunni.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið er í Helgadal sést vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, í ofanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Í Árbókinni 1908 fjallar Brynjúlfur Jónsson um „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“; annars vegar í Gullbringusýslu og hins vegar í Skúlatúni. Þar fjallar hann bæði um tóftir í Skúlatúni og í Helgadal.
„Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Sculastatun; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þenna stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið.
Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þennan stað, og fór eg þangað í sumar…

Sjá meira um Helgadal og Helgardalshella HÉR, HÉR og HÉR.

-Valaból

Valaból

Valaból.

Þegar við erum vel hálfnuð með gönguna komum við að trjálundi nokkrum, þokkalega stórum. Er það Valaból. Hefur það stundum verið nefnt fyrsta farfuglaheimili okkar Íslendingar. Farfuglar hófu þarna uppbyggingu fyrir miðja síðustu öld. Fyrst var reyndar staðurinn kallaður Músarhellir. Þar var hellisskúti sem Farfuglar mokuðu út úr. Þeir girtu svo af svæðið og hófu þar ræktun með þessum líka góða árangri. Í dag er bólið orðið af fallegum gróðurreit í annars gróðursnauðu umhverfi.

Sjá meira um Valaból HÉR.

-Valahnúkar

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér. Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.“

Sjá meira um tröllin á Valahnúkum HÉR.

-Litluborgir

Litluborgir

Litluborgir.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Litluborgir

Litluborgir – Gervigígur.

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.

Sjá meira um Litluborgir HÉR.

-Helgafell

Helgafell

Helgafell.

Helgafell ofanvið Hafnarfjörð er 340 m hátt. Ein sjö samnefnd fell eru til í landinu; þetta suðaustur af Hafnarfirði, ofan Kaldárbotna, klettótt og bratt á flesta vegu, í Mosfellssveit, fjall og bær sem sama nafni, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan (einnig samnefndur kirkjustaður), hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar, fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).

Ýmsar leiðir liggja um Helgafell. Auðveldasta uppgangan er að norðvestanverðu. Efst á vestanverðu fellinu er móbergskletturinn “Riddari” og neðan hans til suðvesturs er klettaborg; “Kastali”.
Hugsanlega er nafnið “Riddarinn” tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Nú er og helgiblær á Helgafellinu ofan við Hafnarfjörð eftir að fólk frá KFUMogK í Kaldárseli reisti trékross á Kaldárhnúkum vestari.

Helgafell

Helgafell – krossinn.

„Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Nafnið Helgafell gæti vísað til helgi á fjallinu til forna. Þar uppi er varða. Vísir menn á borð við Þórarinn Þórarinsson arkitekt hafa tengt saman vörður á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur á kort, t.d. á Helgafelli, Ásfelli og Sandfelli, og fundið líkindi til þessa að þær hafi markað tímatal eftir gangi sólar. Gæti því verið að fjall eins og Helgafell hafi notið sérstaks álits í heiðnum sið? Enn aðrir segja að á Helgafelli kunni að vera grafinn Hinn heilagi bikar.

Sjá meira um Helgafell HÉR.

-Gvendaselshæðargígar

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs. Gvendarsel er í ofanverðum Bakhlíðum.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.
Gatið svonefnda í suðvestanverðu Helgafelli er til komið vegna ágangs vatns og vinda í kjölfar yfirgangs ísaldarjökulsins. Þar er niðurgönguleið, ef varlega er farið.

Sjá meira um Gvendarselshæðargíga HÉR.

-Kaldársel

Kaldársel

Kaldársel.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur Daniels Bruun í lok 19. aldar.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir Garðapresta við Kaldá. Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

-Kaldárhraun

Helgafellshraun

Hraunin ofan Helgafells – Jón Jónsson.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 ha.

Sjá meira um hraunin í kringum Helgafell HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://vatnsidnadur.net/2019/09/13/kaldarbotnar-vatnsbol-hafnarfjardar/
-https://www.hafnarfjordur.is/media/uppland/GreinargerdKaldarselKaldarbotnarGjarnar.pdf
-https://timarit.is/page/4262872?iabr=on#page/n33/mode/2up/search/kald%C3%A1rbotnar
-https://www.fjardarfrettir.is/ljosmyndir/thegar-skatamot-voru-haldin-helgadal
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/13-valahnukar-troll/

Litluborgir

Hraunmyndanir í Litluborgum.

Helgafell

Eftirfarandi grein birtist í Mbl 4. febrúar árið 2001 um “Helgafell við Kaldárbotna“.
Kaldárbotnar“Helgafell í landi Hafnarfjarðar lætur frekar lítið yfir sér, en upp á það eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af því kom einnig Regínu Hreinsdóttur á óvart.
VIÐ hefjum gönguna við vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Nokkrar skemmtilegar uppgönguleiðir eru á Helgafellið bæði að sunnan- og norðanverðu. Auðveldast er þó að ganga upp að norðaustanverðu, þar sem brattinn er minnstur og það gerum við í þetta skipti. Fyrir þá sem ekki hyggja á fjallgöngu er einnig vel þess virði að ganga kringum fellið og heilsa upp á riddarann, móbergsstrýtuna sunnan á háfjallinu.
Kynjamyndir í Riddarinnmóbergi Fellið er skriðurunnið þar sem uppgangan hefst en ofar hefur lausagrjótið sópast burt og í ljós koma ýmsar kynjamyndir sem vindurinn hefur verið að dunda sér við að sverfa í móbergið, síðan jökla leysti. Þarna er hægt að gleyma sér lengi dags við að dást að listasmíð náttúrunnar, allskonar öldumynstri, skálum, örþunnum eggjum og andlitsdráttum trölla og álfa ef vel er að gáð. Landslagið er sumstaðar svo framandi að allt í einu læðist kannski að manni að einhvern veginn hafi maður í ógáti lent á tunglinu.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Hraunflæmið sem blasir við allt í kring vekur einnig ósjálfrátt til umhugsunar um hversu kraftmikil öfl eru að verki í náttúrunni. Síðasti hluti leiðarinnar er brattastur og nokkuð skriðurunninn og betra er að hafa varann á sér svo manni skriki ekki fótur í lausagrjótinu.

Músarhellir og farfuglar
TröllAf toppi fellsins sér vel til allra átta. Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluhálsinn, Keilir og Búrfellsgjá eru meðal kunnugra kennileita sem standa upp úr hrauninu auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið.
Þegar við höfum horft nægju okkar að þessu sinni, og skrifað í gestabókina, höldum við aftur sömu leið til baka. Þegar niður er komið er upplagt að koma við í Valabóli norðaustan í Valahnúkum, en þar er skjólsæl vin í eyðimörkinni sem Bandalag íslenskra farfugla hóf að rækta upp 1942.

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Innan uppgræðslusvæðisins er hellirinn Músarhellir sem notaður var af gangnamönnum allt til aldamótanna 1900 og þar gerðu farfuglar sér hreiður, ef svo mætti að orði komast og notuðu sem gististað á ferðum
sínum. Þetta er einnig vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Selvogsgötuna.

Kyrrðin áhrifamikil
VeðrunEftir skruðninginn í smásteinum í göngunni á Helgafellið verður kyrrðin sem ríkir í Valabóli enn áhrifameiri. Þar er eins og löngu liðnir atburðir liggi í loftinu og blærinn reyni að hvísla að manni gleymdum sögum. Ef við ákveðum ekki hér og nú að gerast útilegumenn og setjast að í þessum sælureit, skulum við halda förinni áfram meðfram Valahnúkunum. Þá getum við annars vegar valið að fara sömu megin við vatnsbólið og við komum eða tekið stefnuna á Helgadal þar sem við gætum rekist á hraunhella sem gaman er að skoða. Það er svo um að gera að nota heimferðina til að spá í hvaða uppgönguleið ætti að velja á Helgafellið í næsta skipti.”

Heimildir:
-Gönguleiðir á Íslandi, Reykjanesskagi. Einar Þ. Guðjohnsen 1996.
-Árbók 1984, Ferðafélag Íslands.
-Mbl 4. febrúar 2001, blaðsíða 3.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Búrfell

Gengið var frá Kaldárseli að Valahnúkum. Steinrunnin tröllin trjónuðu efst á hnúkunum. Þau sáust langt að og reyndu heldur ekki að leynast. Tröllin virtust vera að bíða af sér veturinn.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir.
Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir, sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru. Það eru til ýmsir skrítnir steinar í náttúrunni sem má kannski geta sér til um að hafi verið tröll sem ekki náðu heim til sín áður en sólin kom upp.
Tröllabörn
Talið er líka að sum önnur ummerki í náttúrunni séu eftir tröll því sumar sögur segja að þau hafi fært til fjöll. Grýla og Leppa-Lúði, sem svo margir hafa heyrt um og eru foreldrar jólasveinanna, eru tröllahjón. Vitað er um dvalarstað þeirra í einum hellanna í Arnarseturshrauni við Grindavík (sjá FERLI-783). Önnur tröllafjölskylda er talin búa í Rauðshelli skammt frá Valabóli, örskotslengd frá Valahnúkum. Maður úr Hellarannsóknar-
félaginu, sem sá tröllabarnastóðið og heyrði hroturnar á ferð sinni um hellinn, varð svo mikið um að hann flúði öfugur út aftur – og er hann þó talinn með stilltari mönnum. Síðar var nákvæm mynd af hópnum rissuð upp eftir lýsingu hans. Þá er vitað af tröllum í Trölladyngju. Sögn er a.m.k. um að hjón úr Vogunum hafi séð þar tröllabarni bregða fyrir síðla kvölds í hálfrökkrinu.

Valaból

Í valabóli.

Tröll eru líka stundum kölluð skessur, risar, jötnar eða þursar.
Komið var við í Músarhelli og síðan gengið eftir slóð í gegnum Mygludali, um Víghól að Húsfelli. Þar var haldið um Kringlóttugjá og upp á brún Búrfells. Gígurinn er stórbrotinn og hrauntröðin tilkomumikil þar sem hún liggur um og myndar Búrfellsgjána. Í stað þess að ganga niður gjána var haldið til norðurs yfir að Kolhól. Hólinn er landamerki. Sunnan undir honum, í grónum hvammi, má sjá hleðslur. Einnig eru hleðslur með hraunkanti skammt vestar.
Gengið var frá Kolhól niður um Garðaflatir og að Gjáarrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.hi.is/~soleya/#TRÖLL

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárbotnum áleiðis að Valabóli.

Valahnúkar

Gengið á Valhnúka.

Tröllin á austanverðum Valahnúkum teygðu sig upp í loftið svona til að gefa til kynna að ekki mætti ganga framhjá þeim í þetta skiptið. Þegar komið var á milli Valahnúkanna að vestanverðu mátti sjá hrafnslaup austan í vestanverðum hnúkunum. Laupurinn er á fallegum stað og aðgengilegum til skoðunar. Horft var yfir Valabólasvæðið og yfir að Búrfelli áður en gengið var uppá austanverða hnúkana, til móts við tröllin. Þau eru þarna ýmist þrjú eða fjögur, eftir hvernig á þau er litið. Um er að ræða berggang í gegnum hnúkana og mynda tröllinn efsta hluta þeirra, þ.e. þann er vindar, veður og regn hefur ekki tekist að vinna á, enn a.m.k.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Þegar komið var niður af hnúkunum að suðaustanverðu mátti sjá þar hluta misgengisins, sem liggur í gegnum sunnanverð Helgafellið. Haldið var suður fyrir fjallið og stefnan tekin á hraunsvæði Tvíbollahrauns þar sem fyrir eru nokkurs konar Minni-Dimmuborgir, hraunsúlur og þak yfir. Margir skútar og kytrur standa á súlum í hrauninu. Tveir hellar eru þarna, annar sæmilegur með fallegum hraunsúlum inni í, en auk þess fannst op á öðrum. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi komið þangað inn.
Eftir að hafa fjarlægt nokkra steina frá opinu sást hvar göng lágu niður á við og inn undir hraunið. Þar sem ekki var ljós meðferðist að þessu sinni bíða þessi göng nánari skoðunnar síðar. Gæti orðið áhugavert að kíkja þar inn. Opið er í jarðri svæðisins.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Þessar fallegu hraunmyndanir virðast hafa orðið til er hraunið rann þarna niður eftir og í vatns, sem þá hefur verið þarna aflokað sunnan Helgafells. Sömu myndanir má sjá í hrauninu skammt norðaustar, en bara í minna mæli. Þá eru þarna nokkrir gervigígar, sem einmitt hafa myndast við sömu aðstæður. Þetta er mjög fallegt hraunsvæði, sem ástæða er til að ganga varfærnislega um því mosinn þarna þolir varla mikinn umgang. Hann er órjúfanlegur hluti af heildarmynd svæðisins.

Burnirót

Burnirót.

Nokkrar blómtegundir eru að reyna að festa rætur nálægt opunum, s.s. burnirót, steinbrjótur, blágresi og fleiri tegundir. Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru t.d. í Katlahrauni við Selatanga og Hraunsnesi austan Ísólfsskála. Þar hefur hraunið runnið í sjó fram og þá myndast hraunstöplar og holrúm á milli uns þakið féll niður og lægðir og hraunbollar mynduðust.
Á svæðinu eru nokkur hraun og er þetta hluti af eldra helluhrauni, því sama og liggur að Helgafelli. Gæti verið Tvíbollahraun, sem fyrr er nefnt eða hluti af Hellnahrauninu. Skammt ofan við svæðið er úfið aðpalhraun, Húsfellsbruni.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Gengið var vestur með Helgafelli, hlustað á smyril smella í hlíðum þess, sjá steinbogann efst í fjallinu og síðan gegnið áleiðis yfir Riddarann. Þá var þar fyrir fallegur gráleitur spörfugl á stærð við skógarþröst með gula bringu. Varðaði hann nálæga fugla við af ákafa. Ágætt útsýni er af Riddaranum yfir að Gvendarselsgígum undir Gvendarselshæðum.
Gengið var eftir sléttu helluhrauninu neðan Helgafells að austustu gígunum í gígaröðinni og þeir skoðaðir.
Fallegt veður – stilla og hlýindi. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Valaból

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli.
Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður.

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin leyndi sér enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar. Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal. Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu sjaldnast lengi á sama stað.

Valaból

Valaból.

Þá var haldið áfram norður Mosana yfir að Smyrlabúðum. Þar var staldrað við og skoðuð gömul vegghleðsla utan í Smyrlabúðahrauni þar sem ætla mætti að gæti hafa verið hinn gamli áningastaður Selvogsmanna eða viðstaldur brennisteinslestarmanna á leið þeirra úr Grindarskörðum.
Kíkt var inn í Ketshelli og hann skoðaður að hluta. Þá var Setbergsselið skoðað, litið á stekkinn og gengið í gegnum Kershelli, fjárskjól í selinu þar sem einnig er fyrir aðstaða Hamarskotssels og litið í skjól norðan selsins. Haldið var áfram niður með Setbergshlíð og litið eftir gömlu hlöðnu fjárhúsi frá Setbergi er byggt var 1906 er féð var flutt úr fjárhellinum í selinu upp í hlíðina. Staldrað var við fjárskjól undir Gráhellu í Gráhelluhrauni og síðan skoðuð vatnsvirkjunin og stíflurnar í Lækjarbotnum áður en ferðinni lauk við kirkjugarðinn.
Veður var frábært – sól og blanka logn. Gangan tók um 5 og ½ klst því áningartíminn í Músarhelli var óvenjulangur að þessu sinni.

Valaból

Valaból.

Valaból

Gengið var um gömlu Selvogsgötuna frá Helgadal, upp með Valahnjúkum án viðkomu í Valabóli og Músarhelli, en þess í stað haldið áfram upp Mygludali (sem sumir segja að heiti eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, en aðrir að þeir dragi nafn sitt af myglunni, sem þarna legst yfir sem grá slæða á ákv. árstímum), inn með Kaplatór, öðru nafni Strandartorfum og áfram upp hraunið. Gatan er þarna mjög skemmtileg á köflum. Markað er ofan í klappirnar eftir hófa, klaufir og fætur margra alda.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Um þennan veg (nefndur Suðurfararvegur af Selvogsbúum) fór meginumferðin til og frá Selvogi, Hlíð og Herdísarvík, auk þess sem lestarferðirnar ofan úr Brennisteinsfjöllum á seinni hluta 19. aldar fóru um götuna. Gatan er vel vörðuð og greinileg alveg upp í Kerlingarskarð.
Þegar komið var á Bláfjallaveginn var vent til suðausturs, upp í Tvíbollahraunið í átt að Stórabolla. Þar hefur gömul leið legið upp hraunið og má sjá markað þar í klappirnar á nokkrum stöðum. (Síðar kom í ljós að þar gæti verið um gömlu leiðina áleiðis upp í Grindarskörð að ræða). Gatan liggur að Vatnsstæði vestast í Kristjánsdölum, undir Lönguhlíðinni. Þaðan liggur svo gata til suðvesturs í átt að Kerlingaskarði. Birtan var slík að mosinn var grænni en ella og ýmsar fallegar myndanir birtust í hlíðunum. Vegna hitans frá sólinni liðuðust gufur upp frá honum í logninu.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Nokkru frá vatnsstæðinu var gengið fram á sást greinilegt uppstreymi úr gati í mosanum. Þegar stungið var þar niður höfði sást að þar undir er djúpur gígur, annað hvort hraungígur eða gasuppstreymisgígur. Hann virtist ósnertur með öllu og ekki var að sjá að þarna hafi verið gengið um áður. Dýpið í holunni er a.m.k. 6-7 metrar, en ljós, sem notað var til að lýsa niður í það, náði ekki botninum. Veggirnir voru sléttir að sjá. Nánari skoðun mun verða verkefni fyrir Hellarannsóknarfélagið. Mun sérstök ferð verða farin þangað á allra næstu dögum.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Norðaustar með hlíðum Kristjánsdala, í átt að Krisjánsdalahorni, í dalverpi, sem þar er, var gengið fram á gamla tótt. Þarna eru leifar húss, sem refa- og rjúpnaskyttur höfðust við í á sínum tíma. Þarna skammt frá eru nokkur greini, sem gaman er að sjá. Norðar er gamalt hlaðið skotbyrgi refaskyttu, en um mosana liggja víða slóðir refsins og sjást margar þeirra ennþá. Svo var að sjá að grenin í Kristjánsdölum væru flest yfirgefin, en í bakaleiðinni sást grár skolli skjótast yfir Bláfjallaveginn – með hertan fiskhaus í kjaftinum. Hann virðist því hafa farið um langan veg eftir æti, eða alla leið niður í trönurnar niður við Krýsuvíkurveg.
Gangan tók 4 klst og 2 mín. Frábært veður.

Mygludalir

Mygludalir.

Valahnúkar

Gengið var frá Kaldárseli á Helgafell, um Valahnúka með viðkomu í Valabóli og síðan stolist um Kaldárhnúka á leiðinni til baka.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og ekki leið á löngu áður en þær lögðust af í Álftaneshreppi og síðan á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta. Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.

Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Helgafell

Helgafell – móbergsfjall.

Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Helgafell

Áð efst á Helgafelli.

Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni. Að þessu sinni var haldið suður fyrir fjallið og niður og í gegnum gataklett, sem þar er. Niðurgangurinn er auðveldur. Þegar komið var niður á jafnsléttu var gengið til austurs með sunnanverðu fjallinu, upp á Valahnúka þar sem heilsað var upp á tröllin, og niður að Valabóli þar sem áð var um stund. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir.

Frá Valabóli var gengið niður í Helgadal, sem áður var vinsæll útivistarstaður, einkum af hálfu skátanna, upp á Kaldárhnúka og komið niður í Kaldárbotnum þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa. Venjulega er svæðið girt af, en vegna mikilla snjóa var girðingin á kafi og leiðin því greið um hnúkana.

Valaból

Valaból.

Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins.
Neðar sprettur Kaldá fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðrar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, allmerkileg náttúrusmíð.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Helgafell

Í jólablaði Fjarðarfrétta 2022 er saga af “Jólasveininum í Helgafelli“, samin af Þórarni Reykdal á næturvöktum í Íshúsi Reykdals um miðjan sjötta áratuginn:

Jólasveinn“Jólasveinninn í Helgafelli vaknaði af værum blundi. Hann settist fram á rúmstokkinn og geispaði óskaplega og teygði úr sér. Það var nú reyndar engin furða, því að nú var kominn fyrsti vetrardagur, en eins og þið vitið þá sofa allir jólasveinar frá þrettándanum og fram til fyrsta vetrardags.
Jólasveinninn klæddi sig í skyndi og opnaði sjónvarpið sitt, til þess að gæta að hvað börnin niðri í byggðinni hefðust að.
-„Það er nú einhver munur síðan ég fékk sjónvarpið,“ sagði hann við sjálfan sig.
-„Nú get ég setið hér og horft í sjónvarpið mitt og séð alla krakkana, í stað þess að hlaupa um allar jarðir og kíkja á gluggana.“
Í sjónvarpinu sá hann hvítt hús með rauðu þaki. Það var Móberg í Garðahreppi. Hann sá krakkana fjóra sitja inni í stofu. Þau voru að lesa og skoða blöð. Þá varð honum litið á kamínuna.
jólasveinn
-„Já, nú skal ég reyna að gera það sem jólasveinarnir í útlöndum gera, “ sagði hann við sjálfan sig.
-„Ég heyrði það í útvarpinu einu sinni, að þeir færu niður um strompinn og settu jólagjafir í sokka sem hengdir eru á kamínuhilluna og ég sá einmitt svona jólasokka hér í fyrra. Ég vona að þau hengi þá aftur á hilluna núna á jólunum.“
Svo liðu dagarnir fram að jólum.
Jólasveinninn var önnum kafinn við að búa til jólagjafir og að horfa í sjónvarpið sitt. Hann sá inn í öll hús í Garðahreppi og Hafnarfirði og miklu víðar. Stundum sá hann krakka sem voru óþekk, en þau voru nú sem betur fer ekki mörg og þegar jólin fóru að nálgast urðu öll börn miklu þægari. Því að allir vildu fá jólagjafir frá jólasveininum. Þegar aðfangadagur kom var poki jólasveinsins orðinn fullur og svo hélt hann af stað.
jólasveinn
Jólasveinninn á heima einhvers staðar í toppinum á Helgafelli og hann fer alltaf í gegnum gatið á Helgafelli þegar hann fer niður í byggðina.
Þegar jólasveinninn var kominn svolítið niður fyrir Helgafell mætti hann trölli.
-„Sæll vertu,“ sagði Jóli, -„og hver ert þú eiginlega?“
-„Ég heiti Narfi nátttröll. Ég átti einu sinni heima í Valabóli, en síðastliðin fjögur hundruð ár hef ég staðið eins og klettur hérna utan í Valahnúkunum. Ég fór suður í Kleifarvatn að veiða eitt sinn en varð of seinn heim og sólin skein á mig svo að ég varð að steini“.
-„Já, nú man ég eftir þér,“ sagði Jóli. -„Ég var nú bara jólasveinastrákur þegar þetta skeði, en nú er ég orðinn fjögurhundruð og fjórtán ára. En segðu mér annars hvað þú ert að gera hér núna“.
jólasveinn-„Jú sjáðu,“ sagði tröllið „ég er búinn að standa þarna svo agalega lengi að ég var orðinn dauðþreyttur í fótunum, svo að ég mátti til með að liðka mig svolítið. Ég skrapp áðan heim í gamla hellinn minn Valaból. Þar er nú orðið fínt maður. Það er komin hurð og allskonar fínirí, svo að mig dauðlangar að halda þar jólaveislu eins og í gamla daga, enn nú þekki ég ekki lengur neinn sem ég get boðið. Kannske getur þú hjálpar mér,“ sagði tröllið og klóraði sér vandræðalega í hraunskegginu.
-„Ég skal nú sjá til,“ sagði Jóli og kvaddi tröllið og hann flýtti sér af stað.
Þegar Jóli kom niður í Gráhelluhraun mætti hann tveimur litlum grænklæddum körlum.
-„Sælir verið þið,“ sagði hann „og hvaða fuglar eruð þið nú eiginlega?“
jólasveinn-„Ég heiti Síðskeggur,“ sagði annar þeirra -„og hann bróðir minn þarna heitir Stuttskeggur. Við erum dvergar og eigum heima hérna í Gráhellu“.
-„Rétt er nú það,“ sagði Jóli.
-„En heyrið þið mig annars. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Viljið þið nú ekki vera svo góðir að koma, því að trölli greyið þekkir svo fáa og hefur ekki talað við nokkurn mann í fjögur hundruð ár“. Það vildu dvergarnir og svo kvaddi Jóli þá og þrammaði áfram.
Jólasveinninn var kominn niður á Svínholt, þegar hann sá einhverja skrýtna veru koma hoppandi á móti sér. Hann staðnæmdist, setti frá sér pokann og hló svo mikið að hann varð að halda um magann. „Ha, ha, sæll vert þú og ha, ha, ha hvað heitir þú?“ gat Jóli loksins stunið upp. Aldrei hafði hann séð svona skrýtinn karl.
jólasveinn-„Ég er tunglpúki,“ sagði karlinn, sem var eins og hjól í laginu.
-„Þú lítur út fyrir að vera skemmtilegur náungi,“ sagði Jóli -„viltu ekki koma í jólaveislu til nátttröllsins í Valahnúkum?“
-„Jú það vil ég,“ sagði tunglpúkinn og svo hoppaði hann og skoppaði sína leið, en jólasveinninn hélt áfram ferð sinni.
Jólasveinninn hafði ekki gengið lengi er hann mætti stórri og ljótri kerlingu.
-„Sæl Grýla mín,“ sagði hann.
-„Mikið ertu nú vesældarleg núna“.
-„Já það er nú von,“ sagði Grýla, -„ég er nú nú búin að vera á flakki um allar sveitir frá morgni til kvöld um langan tíma og ekki fengið eitt einasta krakka krýli í pokann minn. Sko sjáðu. Hann er alveg tómur“.
jólasveinn-„Já, Grýla mín,“ sagði Jóli, -„blessuð jólin eru nú að koma og þá eru öll börn góð og þæg, svo að það er ekki von að þú finnir marga óþekka krakka þessa dagana. En heyrðu nú greyið mitt. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Vilt þú ekki koma þangað, svo að þú farir ekki á mis við alla jólagleði í ár?“
Grýla var ósköp þakklát fyrir boðið og svo kvöddust þau og Jóli flýtti sér á stað því hann var búinn að tefjast svo oft á leiðinni. Hann sá nú ljósin í bænum, það var víða búið að kveikja á jólaljósum úti.
Jæja, þarna er þá Móberg. Það er best að fara þangað fyrst. Fyrir utan húsið á Móbergi stóð snjókarl. Jólasveinninn gekk til hans og heilsaði honum.
-„Sæll vert þú Snjólfur minn.“
-„Komdu sæll,“ sagði Snjólfur snjókarl“.
-„Hvað er þú að gera hér um miðja nótt?“
jólasveinn-„Það skal ég segja þér,“ sagði Jóli. „Ég ætla nú að reyna svolítið, sem enginn jólasveinn á Íslandi hefur gert. Þú veist, að það er kamína hérna og nú ætla ég, lagsmaður, að stinga mér niður um strompinn, eins og þeir gera í útlöndum, jólasveinarnir. Þá þarf ég ekki að vekja neinn til þess að opna fyrir mér.“
-„Niður um strompinn,“ sagði snjókarlinn, -„hvernig í ósköpunum ætlar þú að fara að því? Þú, sem ert svona feitur“.
-„O, við jólasveinar kunnum nú ráð við slíku,“ sagði Jóli, -„við getum gert okkur stóra og litla eftir þörfum“.
-„Jæja, þú um það,“ sagði Snjólfur, -„en hræddur er ég um að þú verðir allur kolsvartur á þessu“.
-„Við sjáum nú til,“ sagði Jóli -„en nú verð ég að fara að koma mér að verki, því að víða verð ég að koma í nótt. En heyrðu kunningi, það verður nú hálf kuldalegt fyrir þig að híma þarna úti um jólin.
jólasveinn-Viltu ekki koma í jólaveislu til hans Narfa nátttrölls í Valabóli?“
Jú, snjókarlinn vildi það og svo klifraði Jóli upp á þak og stakk sér niður í strompinn. Þetta gekk nú ekki eins vel og til stóð. Jóli stóð nefnilega fastur í strompinum. Í ákafanum hafði hann gleymt að gera sig lítinn. „Æ, hver skollinn,“ sagði hann og gerði sig svo lítinn að hann losnaði. En þá tók ekki betra við. Hann gerði sig of lítinn, svo að hann datt nú allt í einu niður og valt með brauki og bramli inn á mitt stofugólf.
-„Æ, þetta var nú meiri klaufaskapurinn,“ hugsaði Jóli -„nú vakna krakkarnir“. Og það var einmitt það sem skeði. Jói, Gréta, Tóta og Iðunn hlupu öll fram í gang. Hurðin á stofunni var opin og þau sáu jólasveininn sitja á gólfinu. „Það er bara jólasveinninn,“ sögðu þau „við megum ekki trufla hann, þegar hann er að koma með jólagjafirnar“.
Og svo fóru þau öll í bólin sín aftur og sofnuðu. En morguninn eftir sögðu þau öll að þau hefði dreymt að jólasveinninn hefði komið.

Valaból

Valaból.

En það er af jólasveininum að segja að hann hét því að gera betur næst.
-„Þá hef ég æfinguna,“ sagði hann. Svo flýtti hann sér að útbýta öllum gjöfunum úr stóra pokanum sínum, og þegar því var lokið hélt hann aftur til fjalla til þess að sitja jólaveisluna í Valabóli.
– Og svo komu sjálf jólin. Öll góð börn fengu einhverjar jólagjafir. Það voru jól í hverju húsi og það voru líka jól í Valabóli. Narfi nátttröll var ánægður með jólaveisluna sína. Það var nóg að borða og það var svo gaman að fá að tala við einhvern, þegar maður hefur þagað í fjögur hundruð ár. Allir í Valabóli skemmtu sér vel. En Snjólfur snjókarl var samt dálítið hræddur um að hann myndi bráðna áður en veislan væri búin. Honum þótti vissara að sitja næst dyrunum og hann borðaði lítið af heita hangikjötinu, sem hann Kjötkrókur hafði sent, en hann át mest af eftirmatnum, sem var rjómaís. Það var óhætt fyrir snjókarl.”

Góða nótt og gleðileg jól
gott er sig að hvíla.
Ef krakkar eru komin í ból
kemur engin Grýla.

Höfundur texta og mynda er Þórarinn Reykdal. Sagan hefur ekki áður komið út á prenti og er birt með leyfi afkomenda.

Heimild:
-Fjarðarfréttir 20 des. 2022, Jólasveinninn í Helgafelli, Þórarinn Reykdal, bls. 15 og 19.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.

Helgafell

Gengið var frá Kaldárseli um Gvendarselsgíga, upp með Kastala og þaðan í Kaplatór (Minni-Dimmuborgir/Litluborgir), sem eru einstakt náttúrufyrirbæri.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í bakaleiðinni var komið við hjá Tröllunum á Valahnjúkum, í Músarhelli í Valabóli og í Kaldárbotnum.

Þetta svæði er einstaklega hentugt til gönguferða að vetrarlagi, tiltölulega greiðfært og fögur fjallasýn. Stutt er í áhugaverða skoðunarstaði og auðvelt að snúa við eða hagræða göngunni m.t.t. getu og tíma hvers og eins. Nægilegt er að kynna sér svæðið áður og stefna síðan á það sem áhugavert kann að þykja.

Valaból

Valaból að vetrarlagi.

Þessi ferð var gengin nálægt áramótum, skömmu eftir að sólin tekur að feta sig upp á við, en birtan við slík skilyrði er í rauninni engu lík. Því ætti áhugasamt fólk um útivist að nýta sér þessa miklu nálægð. Tilvalið er t.d. að leggja af stað síðdegis eftir vinnu, ganga frá Kadárseli og umhverfis Helgafell. Á leiðinni er fjölmargt að sjá. Þessi ganga þarf ekki að taka lengri tíma en t.d. 2 klst.

Í bakaleiðinni var komið við í Gvendarseli í Gvendarselshæð, kíkt á Gvendarselsgígaröðina og nyrsta gíg gígaraðar Ögmundarhrauns frá árinu 1151.

Þá er alltaf áhugavert að staldra við jarðmyndanir Kaldárhnúkanna í Kaldárbotnum.

Valahnúkar

Tröllin á Valanúk.

Níutíumetrahellir

Gengið var frá Kaldá að Níutíumetrahellinum. Nokkrir duglegir krakkar voru með í för. Þótt opið gefi ekki til kynna að þarna sé langur hellir er hann nú samt sem áður jafn langur og nafnið gefur til kynna.

Helgadalshellar

Í Fosshelli.

Fyrst er komið niður í nokkurs konar lágan forsal, sem þrengist síðan smám saman uns fara þarf niður á fjóra fætur. Sem betur fer var moldin á botninum frosin svoauðveldara var að feta sig áfram inn eftir hellinum. Eftir spölkorn vítkar hann á ný, en þó aldrei verulega. Svo virðist sem hellirinn beygi í áttina að Lambagjá, sem er þarna norðvestan við opið. Sennilega er þessi rás ein af nokkrum, sem runnið hafa í gjána á sínum tíma og myndað þá miklu hraunelfur, sem runnið hefur niður hana til norðvesturs og síðan til vesturs í átt að Kaldárseli.
Þá var haldið niður í Helgadal við horn vatnsverndargirðingarinnar. Þar í brekkunni er Vatnshellir, op niður í misgengi, hægra megin við stíginn. Annað op á helli, ofan í sama misgengið. Gæta þarf sín vel þegar farið er ofan í Vatnshelli. Opið er tiltölulega lítið, en þegar komið er niður virðist leiðin greið til vesturs. Svo er þó ekki því kristaltært vatnið er þarna alldjúp. Það sést hins vegar ekki fyrr en stigið er í það. Ef komast á áfram þarf bát. Það fer þó eftir vatnshæðinni, en vatnið í Kaldárbotnum stöðvast þarna við misgengið á leið sinni til sjávar. Það er ástæðan fyrir tilvist vatnsbóls Hafnfirðinga þarna skammt vestar, undir Kaldárhnúkum.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Áður en haldið var inn í Hundraðmetrahellinn, sem opnast innan úr sprungu, var gengið að Rauðshelli, sem er þar skammt norðvestar. Einhvern tímann hefur hluti hellisins verið notaður sem fjárskjól, a.m.k. gróið jarðfallið við annað op hans. Gömul sögn er til af Rauðshelli, en hellirinn fékk síðar nafnið Pólverjahellir eftir að skipshöfn leitaði þar skjóls. Sjá má bælið við stærra opið. Hellirinn sjálfur er rúmgóður og lítið sem ekkert hrun í honum. Hægt er að ganga svo til uppréttur inn eftir honum, en í heildina er hellirinn hátt í hundrað metra langur. Hann beygir til hægri þegar inn er komið og síðan til vinstri. Fremst í hellinum eru fallegar hraunsyllur. Skammt norðar er forn stekkur. Hann er ekki á fornminjaskrá.

Vatnshellir

Í Vatnshelli.

Þegar komið er niður í sprunguna þar sem Hundraðmetrahellirinn er sést op til norðvesturs. Sá hluti nær einungis nokkra metra. Fallegir steinbekkir eftir storknaðan flór er með veggjum rásinnar er liggur til suðausturs. Hún þrengist smám saman og lækkar uns skríða þarf áfram. Loks lokast hellirinn svo til alveg. Hrunið hefur úr loftinu. Áður fyrr var hægt að skríða áfram og koma upp á milli steina í jarðfalli nokkru austar, en nú þarf grannan mann til ef það á að vera hægt. Mjög erfitt er að finna leiðina í hellinn þeim megin.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Þá var haldið inn í stóra rás við eystri op Hundraðmetrahellis, sem er í rauninni hluti af þeirri fyrri, og inn í Fosshellinn. Í geyminum áður en komið er að fossinum er komið að miklu hruni. Ekki er óhugsandi að rás kunni að leynast efst og norðvestast í hruninu ef nokkrir steinar væru færðir til. Fossinn kemur úr rás í u.þ.b. þriggja metra hæð. Hefur hann storknað þar í þessari fallegu hraunmyndun. Farið var upp í rásina. Fallegur flór sést þar í henni. Gengið var upp eftir honum og áfram út úr rásinni skammt austan fjárgirðingar, sem þar er. Annað op er skammt vestar, en ekki var farið inn í það að þessu sinni. Fosshellirinn gæti verið um 40 metra langur.

Músarhellir

Í Músarhelli.

Frá Fosshelli var gengið upp í Valaból og komið við í Músarhelli. Hann er í rauninni rúmgóður skúti, sem hlaðið hefur verið framan við og gert rammað hurðargat á. Bekkur er þar inni og gestabók. Farfuglar gerðu afdrep þetta á sínum tíma, en síðan hafa skátar og fleiri nýtt sér það af og til. Í Valabóli er fallegur og skjólsæll trjálundur með sléttum grasblettum. Valahnúkar gnæfa yfir með fallegum bergmyndunum.
Veður var ágætt – lygnt, en fremur skuggsýnt. Það kom þó ekki að sök því góð leiðarljós lýstu veginn.
Gangan tók um 2 klst. Frábært veður.

Valaból

Valaból.