Helgafell

Eftirfarandi grein birtist í Mbl 4. febrúar árið 2001 um “Helgafell við Kaldárbotna“.
Kaldárbotnar“Helgafell í landi Hafnarfjarðar lætur frekar lítið yfir sér, en upp á það eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af því kom einnig Regínu Hreinsdóttur á óvart.
VIÐ hefjum gönguna við vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Nokkrar skemmtilegar uppgönguleiðir eru á Helgafellið bæði að sunnan- og norðanverðu. Auðveldast er þó að ganga upp að norðaustanverðu, þar sem brattinn er minnstur og það gerum við í þetta skipti. Fyrir þá sem ekki hyggja á fjallgöngu er einnig vel þess virði að ganga kringum fellið og heilsa upp á riddarann, móbergsstrýtuna sunnan á háfjallinu.
Kynjamyndir í Riddarinnmóbergi Fellið er skriðurunnið þar sem uppgangan hefst en ofar hefur lausagrjótið sópast burt og í ljós koma ýmsar kynjamyndir sem vindurinn hefur verið að dunda sér við að sverfa í móbergið, síðan jökla leysti. Þarna er hægt að gleyma sér lengi dags við að dást að listasmíð náttúrunnar, allskonar öldumynstri, skálum, örþunnum eggjum og andlitsdráttum trölla og álfa ef vel er að gáð. Landslagið er sumstaðar svo framandi að allt í einu læðist kannski að manni að einhvern veginn hafi maður í ógáti lent á tunglinu.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Hraunflæmið sem blasir við allt í kring vekur einnig ósjálfrátt til umhugsunar um hversu kraftmikil öfl eru að verki í náttúrunni. Síðasti hluti leiðarinnar er brattastur og nokkuð skriðurunninn og betra er að hafa varann á sér svo manni skriki ekki fótur í lausagrjótinu.

Músarhellir og farfuglar
TröllAf toppi fellsins sér vel til allra átta. Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluhálsinn, Keilir og Búrfellsgjá eru meðal kunnugra kennileita sem standa upp úr hrauninu auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið.
Þegar við höfum horft nægju okkar að þessu sinni, og skrifað í gestabókina, höldum við aftur sömu leið til baka. Þegar niður er komið er upplagt að koma við í Valabóli norðaustan í Valahnúkum, en þar er skjólsæl vin í eyðimörkinni sem Bandalag íslenskra farfugla hóf að rækta upp 1942.

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Innan uppgræðslusvæðisins er hellirinn Músarhellir sem notaður var af gangnamönnum allt til aldamótanna 1900 og þar gerðu farfuglar sér hreiður, ef svo mætti að orði komast og notuðu sem gististað á ferðum
sínum. Þetta er einnig vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Selvogsgötuna.

Kyrrðin áhrifamikil
VeðrunEftir skruðninginn í smásteinum í göngunni á Helgafellið verður kyrrðin sem ríkir í Valabóli enn áhrifameiri. Þar er eins og löngu liðnir atburðir liggi í loftinu og blærinn reyni að hvísla að manni gleymdum sögum. Ef við ákveðum ekki hér og nú að gerast útilegumenn og setjast að í þessum sælureit, skulum við halda förinni áfram meðfram Valahnúkunum. Þá getum við annars vegar valið að fara sömu megin við vatnsbólið og við komum eða tekið stefnuna á Helgadal þar sem við gætum rekist á hraunhella sem gaman er að skoða. Það er svo um að gera að nota heimferðina til að spá í hvaða uppgönguleið ætti að velja á Helgafellið í næsta skipti.”

Heimildir:
-Gönguleiðir á Íslandi, Reykjanesskagi. Einar Þ. Guðjohnsen 1996.
-Árbók 1984, Ferðafélag Íslands.
-Mbl 4. febrúar 2001, blaðsíða 3.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.