Reykjanesskaginn

Á Reykjanesskaganum er vitað um a.m.k. 600 hella og hraunskjól.

Óbrennisbruni

Hlaðið fyrir skúta.

Hraunskjólin eru yfirleitt skútar, sem hlaðið hefur verið fyrir, ýmist í jarðföllum eða í hraunrásum. Nær undantekningalaust hafa þau verið notuð sem skjól fyrir fé því engin voru fjárhúsin á skaganum fyrr en kom fram á 20. öldina eða til að hlífa fólki á langri ferð og þá oftast nálægt gömlu þjóðleiðunum. Dæmi um fjárskjól má finna nálægt seljunum, en þau eru um 400 á Reykjanesskaganum, s.s. umhverfis Óttarstaðaselið og Straumsselið. Einnig má sjá þau nálægt bæjum eða beitaraðstöðu.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Fjárborgirnar, en vitað er um 90 slíkar, lutu sömu lögmálum. Þær standa yfirleitt hátt, eru hringlaga, og hafa veitt fé hið ágætasta skjól. Rétt er að minna á að hér fyrrum má segja að lífið hafi meira og minna snúist um fé, líkt og reyndar enn gerist, en bara annars konar fé. Hér áður fyrr snérist allt um feitt fé og magrar konur, en nú snýst allt um mikið fé og fagrar konur. Allt var gert til að halda lífinu í kindinni því hún hélt lífinu í mannfólkinu. Fiskurinn var ágæt búbót þegar hans varð vart og ein helsta verslunarvaran um tíma, en féð var viðvarandi. Mannvirkin frá þessum tíma eru svo til við hvert fótmál á Reykjanesskaganum.

Bjargarhellir

Dropsteinar í helli.

Því miður er ekki hægt að segja frá öllum hellum, sem vitað er um. Sumir eru mjög viðkvæmir fyrir ágangi og því meiri líkur á skemmdum eftir því sem fleiri fara um þá. Það er kannski ekki ætlun allra að valda skemmdum, en þær verða fyrir slysni. Þúsundir ára gamlir dropasteinar og hraunstrá eru viðkvæm viðkomu og svo er líka erfitt að varast hvorutveggja í þrengslum og í myrkri. Þá er einnig til fólk, sem beinlínis leitast við að taka slík djásn með sér úr hellum til að “eiga”. Rétt er að benda slíku fólki á að fallegur dropasteinn í helli er hvergi fallegri en þar sem hann varð til. Þar er samhengi hans við upprunann og jarðsöguna á staðnum. Heima í stofu er dropasteinn aðskotahlutur.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Skútar og hraunbólur, rásir og traðir hafa verið notað sem skjól fyrir ferðalanga og jafnvel sem sæluhús á ferðum þeirra um lengri vegu. Má í því sambandi t.d. nefna Hellukofann á Hellisheiði og sæluhúsið undir Lat í Ögmundarhrauni. Dæmi er um að fólk hafi borið beinin þar sem það leitaði skjóls í skútum, sbr. Dauðsmannsskúti nálægt Selvogsgötu, og jafnvel fætt börn sín þar. Til eru a.m.k. þrír Sængurkonuhellar á Skaganum.

Hellasvæði í nágrenni Hafnarfjarðar eru t.d. í Þverhlíð norðan Sléttuhlíðar (Kershellir/Ketshellir/Hvatshellir), Kaldárseli (Kaldárselsfjárhellar), Helgadal (Hundraðmetrahellir og Rauðshellir), í Kristjánsdölum (Kristjánsdalahellar), við Þríhnúka (Brúnn og Bratti), undir Grindarskörðum (Selvogsgötuhellar), í Dauðadölum (Flóki), í Tvíbollahrauni við Bláfjallaveg (Leiðarendi) og við Hrútargjárdyngju (Húshellir, Híðið, Maístjarnan, Hellirinn eini o.fl.).

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Í Húshelli er hlaðið hús í stórum geimi. Opið er ekki langt frá Stórhöfðastíg áleiðis upp á Undirhlíðaveg. Sá grunur læðist að manni að hellirinn kunni að hafa verið afdrep “útilegumanna” um tíma. Kershellir norðan Sléttuhlíðar var notaður af félögum í stúku Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM. Neyðarútgöngudyrahellir við Hrútaárgjárdyngju fékk nafn af hluta neyðarútgöngudyrar er fannst við opið. Í Leiðarenda eru leifar kindar er einhvern tímann í firndinni hefur rölt inn í einn endann og ekki ratað út aftur. Reyndar er hægt fyrir ókunnuga að villast í Leiðarenda og það gildir einnig um Flóka. Þangað ætti t.a.m. enginn að fara án þess að vera með línu meðferðis. Þá er góð regla þegar farið er í hella, auk þess að vera með góð ljós, hanska og húfu eða hjálm, að fara aldrei einn. Aldrei er hægt að útiloka að eitthvað geti komið upp á þar sem aðstoðar er þörf.

Húshellir

Hleðslur í Húshelli.