Þorbjarnastaðir

Nýtti sem FERLIRsfélagi góðviðrið í morgun að rölta í rólegheitum um slóðir forferðranna í Hraunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – tóftir.

Á Þorbjarnastöðum bjuggu skömmu eftir aldarmótin 1900 langamma mín, Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar hreppstjóra á Setbergi, og Þorkell Guðnason frá Guðnabæ í Selvogi. Hann var langdvölum við sjósókn, en Ingveldur stjórnaði búrekstrinum af röksemi. Þau, hjúin, eignuðust samt sem áður ellefu börn, þ.á.m.a. Ingveldi Þorkelsdóttur, ömmu mína, síðar bústýru í Teigi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík (byggður 1934). Hún, með elskulegum manni sínum, Árna Guðmundssyni frá Klöpp í sama hverfi eignuðust einnig ellefu börn, þ.á.m. föður minn, Inga Ármann Árnason. Án hans, sem og ekki síst móður minnar, Fjólu Eiðsdóttur frá Raufarhöfn, og allra hinna fyrrum væri ég ekki að skrifa þessa lýsingu. Fjóla var dóttir Eiðs Eiríkssonar frá Gasgeira á Melrakkasléttu og Járnbráar Kristrúnar Sveinbjörnsdóttur frá Klifshaga í Öxnarfirði. Í dag hafa afkomendurnir því miður lítinn áhuga á fortíð sinni. Þeir virðast hafa meiri áhuga á sjálfum sér og nánustu líkamspörtum – ef marka má samfélagsmiðlana.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Rifjaði upp á röltinu lýsingar á hinu og þessu í umhverfinu með vísan til opinberra skráninga og viðtala við afkomendur þessa fólks í gegnum tíðina. Niðurstaðan varð m.a. sú að örnefni eru ekki bara örnefni. Þau eiga það til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Örnefni skráð á einum tíma, af tilteknum aðila, eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála. Þá reynir gjarnan á skynsemina að greina þar á milli…

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.