Garðar

Gengið var um Ráðagerði og nágrenni í fylgd Ágústar, bónda í Miðengi.

Garðalind

Garðalind.

Gengið var til austurs frá bænum og þá komið að hárri tótt með nokkrum hleðslum fyrir. Ágúst sagði að þarna hafi áður staðið þurrabúðin Hóll. Hún er gott dæmi um hinar mörgu hjáleigur frá Görðum, sem þarna voru víða. Hóllinn er svo til einu ummerkin eftir þær á svæðinu. Hver hjáleigubóndi átti að slá eina dagsláttur til að létt af leigu. Neðan við búðina og austan við hana má enn sjá móta fyrir Lindargötu. Gatan lá að Garðalind, aðalvatnsbóli Garðhverfinga. Ofan við lindina stendur stórt bjarg, Grettistak. Lindin er í raun undir steininum. Hlaðinn stokkur er niður frá henni og á honum hlaðin brú. Lindargatan heldur síðan áfram að Austurbæjunum. Sauðkind drapst í Garðalind og var brunnurinn þá fylltur með grjóti og möl. Það sést þó enn móta vel fyrir lindinni sjálfri og hlaðni stokkurinn er enn vel greinanlegur. Ofan og austan við hana er tótt, Garðhús.

Völvuleiði

Völvuleiði.

Gengið var til norðurs og austurs um Garðaholt. Á holtinu var höfð lukt á tímum Séra Þórarins Böðvarssonar og séra Jens Pálssonar (19. öldin). Nefndist luktin Garðaviti. Frá túnhliðinu liggur stígur í austur um Garðaholt, framhjá Torfavörðu og á Völvuleiði að Flatahrauni. Í dag er hæðin öll sögð heita Völvuleiði. Á og utan í því eru skotgrafir frá því á stríðsárunum. Ágúst fylgdi okkur suður með girðingunni neðan við rétt, sem þarna er og tilheyrir Ráðagerði, að þúfnahólum skammt ofan við skurð í mýri. Sagði hann hólinn líklega hafa verið hið svonefnda Völvuleiði, en nafnið síðan færst á holtið er fólk hafi ekki lengur vitað hvar leiðið var að finna.

Garðahverfi

Hallargerði.

Gengið var upp á holtið að skotbyrgjum, sem þar eru og snúa til norðurs. Um og í kringum þær eru ýmist grafnar eða hlaðnar skotgrafir. Sunnan þeirra, þegar fer að halla að Garðakirkju, eru hleðslur. Þar var þurrabúðin Höll í Hallargerði. Sést gerðið enn. Þegar gengið er frá túnhliðinu á Görðum, Garðatúnshliði, lá Garðagata vestan við svonefndan Götuhól, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól, sem enn er þar nokkuð áberandi við gatnamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar.

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ÓSÁ.

Gengið var spölkorn eftir veginum til vesturs og síðan beygt vestur götuna að Miðengi. Þar við veginn voru bæirnir Gata, Háteigur og Ráðagerði. Ágúst sagðist ekki treysta sér til að benda á hvaða bær hafi verið hvar. Þarna eru allnokkrar hleðslur, sem skoða þarf nánar. Þá eru gamlar sagnir um dómhring við Ráðagerði, en ætlunin er að fara síðar á vettvang og reyna að staðsetja hringinn. Ágúst sagðist sjálfur ekki hafa heyrt af dómhring þarna, en svæðið næst og ofan við Ráðagerði hefur verið látið óhreyft að mestu.
Garðahverfi er minjasvæði. Við hvert fótmál birtist saga fyrri tíma. Óvíða annars staðar er að finna jafn ósnert heildarlandslag minja en umhverfis Garðakirkju.
Veður var frábært – lygnt og sól. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.