Færslur

Hraunin

“Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti.

Straumur

Straumur.

Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður í þremur greinum rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa og góna,
Garðhverfinga sjá þeir róna.

Þessi gamli húsgangur um nágrannana í Garðahverfi og Hraunum segir sína sögu um kappsfulla sjósóknara sem réru á bátskeljunum sínum frá vörum í Hraunum og frá Dysjum í Garðahverfi.

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Meðalbú 18-20 kindur og 1-3 kýr

Brennisel

Brennisel – kolasel frá Óttarsstöðum.

Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.
Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur.

Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.

Þýskabúð

Útihús við Þýskubúð.

Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum. Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri (vestari) og neðri (austari).

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.

Frábært útivistar- og göngusvæði

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.
Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.

Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Þurrabúðarmenn og inntökuskip

Óttarsstaðir

Óttarsstaðarétt.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri – baðstofuglugginn.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Landmótun í Hraunum

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.
Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi.

Hraunin

Hraunin – jarðfræðikort ÍSOR.

Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Straumur

Straumur.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík. Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju..

Leiðin suður með sjó og leiðir suður yfir skagann

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krýsuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurnveginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krýsuvíkur.

Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar hefur dustað af því rykið, ef svo mætti segja, og merkt stígana í Hraununum með skiltum.

Hvað verður um Hraunin?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.

Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Útihús við Óttarsstaði.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður. Án efa eru Hraunin mikils virði, þó ekki væri vegna annars en þess að þau eru rétt við þröskuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum þætti ugglaust freistandi að byggja þar og má minna á, að í tímaritinu Arkitektúr verktækni og skipulag frá 1999, viðrar Gestur Ólafsson arkitekt hugmynd um samfellda borgarbyggð frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Með öðrum orðum: Höfuðborgarsvæðið verði í framtíðinni byggt á þann veginn í stað þess að teygja það upp á Kjalarnes.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Í næstu framtíð má telja víst að Hraunin verði útivistarsvæði. Eins og sakir standa eru þó annmarkar á því. Enda þótt merktur göngustígur liggi frá Eyðikoti til Lónakots er yfir girðingar að fara og einkalönd. Stundum eru hross þar í girðingum og þá er áríðandi að hliðum sé lokað, en ekki er víst að allir hirði um það. Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Til þess að svo geti orðið þyrfti að kaupa það sem eftir er í einkaeign og sumarbústaðir og girðingar ættu þá ekki að vera þar framar.” -Magnús Jónsson, fv. minjavörðu, Hafnarfirði.

Framangreind umfjöllun Magnúsar minjavarðar birtist áður á annarri vefsíðu, sem nú er, líkt og svo margar sambærilegar vefsíður, horfin á vit algleymisins. Þessu má öfugt líkja annars vegar við gamlar ljósmyndir á pappír og hins vegar þær, sem síðar urðu til með tilkomu hinnar stafrænu tækni. Hinar síðarnefndu munu einnig með tímanum hverfa út í “cosmósið”…

Hraunkarl

Hraunkona í Hraunum.

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Þorbjarnarstaði í Hraunum. Veður var frábært – sól og logn. Tjörnin milli Þorbjarnarstaða og Gerðis, Brunntjörn, var spegilslétt. Norðvestar er Fagurgerði umgirt.

Þegar komið er að Þorbjarnarstöðum frá gamla Keflavíkurveginum er fyrst komið að Þorbjarnarstaðaréttinni (Hraunaréttinni), sem mun hafa verið allfjörug á meðan var. Réttin stendur vel heilleg austan undan Sölvhól.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Þorbjarnarstaðastekkur/Himnaríki.

Byrjað var á því að ganga austan með hleðslugarði bæjarins, en heimatúnið er girt hringinn með slíkum garði – reyndar tvöföldum. Sunnan undir hraunhól skammt sunnar er tótt og gerði framan og til hliðar við hana. Skammt sunnan þess er önnur heilleg tótt og hlaðinn garður sunnan hennar. Þar virðist hafa veriðum matjurtargarð að ræða. Vestan garðsins er gamalt gerði og tótt sunnan í því. Framundan er Tjörnin. Í henni gæti sjávarfalla, en tjörnin er ekki síst merkileg vegna þess að ferkst vatn kemur í hana undan hrauninu þegar fjarar út. Suðvestast í henni eru mannvirki – hlaðinn bryggja út í tjörnina. Ef vel er að gáð má einnig sjá hlaðna brú út í hólma, sem þarna er og aðra hlaðna bryggju frá honum út í tjörnina. Í hólmanum mótar fyrir tótt. Þarna var m.a. ullin þveginn sem og annar fatnaður á árum fyrrum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir.

Stígur (þvottastígur) liggur frá aðstöðunni við tjörnina upp á heimtröðina. Þegar honum er fylgt sést skeifulaga lægð á vinstri hönd. Í henni er skúti. Á hægri hönd er hringlaga lægð. Í henni er einnig skúti. Tótt er vestan við lægðina. Efsti hluti heimtraðarinnar er hlaðinn beggja vegna. Þegar komið er að bæjarhúsunum má sjá tveggja rýma hús á vinstri hönd og fjölrýma hús á þá hægri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru bæjarhúsin á Þorbjarnarstöðum. Stutt er síðan þakið féll af syðri húsunum. Greinilegt er að tréþiljað hefur verið að framan á nyrðri húsunum og er fallegur gangur þar framan við. Vestan og sunnan við bæinn er hlaðinn garður. Frá bænum sést Miðmundarvarða á Miðmundarhól vel, fallega hlaðinn á sprungubarmi. Hún var eitt eyktarmarkanna frá Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Tótt er syðst á túninu. Þegar komið var yfir suðurveggina sást móta fyrir gamalli hleðslu neðan ytri veggjarins skammt austar. Vestan við hleðsluna er laut og sunnan hennar fótur af gamalli vörðu. Norðan hennar liðast Alfaraleiðin gamla úr vestri til austurs. Alfaraleiðin var aðalgatan út á Útnesin. Önnur varða sést við götuna skammt vestar.
Beint framundan til suðurs sjást hraunbakkar. Undir þeim er gömul hlaðin rétt. Inni í henni er hlaðinn dilkur og tveir aðrir vestan í henni. Réttin stendur enn mjög vel, enda hefur hún upphaflega verið vel gerð.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – flugmynd.

Þegar gengið er norður með vestanverðum heimatúnsgarðinum sést vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið. Við norðvesturhorn hans er nokkurs konar dalur í hrauninu. Þar gæti hafa verið nátthagi. Innan og norðanundir garðinum er minni dalur. Innst í honum er skúti. Vestan við hraunhólinn, sem myndar dalinn, er enn ein tóttin. Auðvelt er að greina húsaskipan af tóftum Þorbjarnarstaðabæjarins, sem fór í eyði um 1930.

Þorbjarnastaðaborgin er upp í Brunntorfum, en henni eru gerð góð skil í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. HÉR og HÉR.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Á Þorbjarnastöðum bjó hið ágætasta fólk og eru afkomendur þess m.a. margir mætir Hafnfirðingar.
Gangan tók u.þ.b. klukkustund. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur.

Lambhagi

Eftirfarandi grein eftir Gísla Sigurðsson um Hraunabæina birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir í Hraunum – tilgáta.

“Hraunamennirnir gapa hvorki né góna lengur, því þeir eru engir til utan einn maður. Skilyrði til nútíma búskapar eru þar naumast fyrir hendi, en unaðslegt er að ganga þar um í góðu veðri.
Suður í Hraunum er mikill unaðsreitur, sem fáir vita þó um. Þar eru djúpir grasbollar og háir hraunhólar.
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna, Hraunamennirnir gapa og góna, Garðhverfinga sjá þeir róna. Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó”. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó” þurfti ekki að skýra þaö nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Straumur-800Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komiö er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Straumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina.
Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni.
Ottarsstadir eystri-800Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni viö Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri-Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu. Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaður undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, aö nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur með ströndinni, hefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn meö þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann.
ottarsstadir vestri-800Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast aö koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstööum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi
í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkisefni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu. Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu.
Hus GudmundarStundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annað gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og heföi verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.
Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit. Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík.
Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Gudmundur batasmidurVestan við Óttarsstaði þrýtur
graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar. Ekki voru skilyrði til lendingar viö Lónakot og því ekkert útræöi þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.”

Lambhagi

Litli-Lambhagi; eldhúsið.

Gísli skrifaði einnig eftirfarandi grein um Hraunabæina í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
NÚTÍMINN fór að mestu leyti hjá garði í Hraununum, en hann sést tilsýndar þaðan. Álverið gnæfir yfir í næsta nágrenni og skammt fyrir sunnan, á Keflavíkurveginum, æðir umferðin viðstöðulaust fram og til baka. Ef til vill er það þversagnarkennt, en nú er hægt að njóta þessa umhverfis einmitt vegna þess að nútímanum þóknaðist að koma ekki við í þessari horfnu byggð. Annars væri búið að setja jarðýtur á alla þessa grjótgarða sem falla svo vel að landinu; það væri búið að moka hólunum ofaní lautirnar, mylja hraunið til að ýta upp vegum og síðan væru athafnaskáldin búin að byggja eitthvað flott úr steinsteypu. En fyrir einhverja guðslukku fóru framfarirnar þarna hjá garði. Og Hraunamennirnir höfðu ekki bolmagn til þess að bylta umhverfinu. Það mesta sem vélaöldin hefur skilið eftir sig eru nokkur bílhræ.
Eydikot-800Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af morgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hraumnu, vatnsból sem  ekki hefur brugðist.
Þyzkabud-800Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað.
En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins.

 

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri. Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.
ottarsstadir eystri-801Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir bollar.
Jónsbúðarvör er beint niður af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við víkina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar lét kanna Jónsbúð með prufuholugreftri og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjanns nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar.

Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból. Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur venð á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið hálfþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Úr fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá þlessuðum skepnunum.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. ottarsstadir eystri-803Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldn gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri. Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði. Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefin og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða.
lonakot-800Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar” sem taka á í Almenningi og „leverast in natura” heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu físka, þá guð gefur fiskinn af sjónum”.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn faiia”, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – skipasmíðastöð við Óttarsstaðavör.

Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin. Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallnu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ.
ottarsstadir vestri-802Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar. Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt.

Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.

Óttarsstaðir

Hesthúsið að Óttarsstöðum eystri. í gamla bæjarstæðinu.

Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.
Þyskabud-803Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og líklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

Á Óttarsstöðum vestri var búið til 1966, en bænum hefur verið vel við haldið. Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru Ragnheiður Hannesdóttir, húsfreyja á Óttarsstöðum vestri, og Guðmundur Sigurðsson, bátasmiður á Óttarsstöðum, síðasti maður sem átti heima í Hraunum.
Síðustu ábúendur á Óttarsstoðum eystri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
ottarsstadir eystri-805Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur. Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af
því að halda bænum í góðu horfi.
Vestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndlega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum. En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör.”

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Eftirfarandi grein birtist í Vísi árið 1969 um síðasta bóndann við Straumsvík:
Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.
Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.
ottarsstadir vestri-805Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga i Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll. Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes. Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-Lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðukot, Óttarsstaði og Lónakot. Það var yzti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum meðan ennþá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið, Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mann afla.
Eydikot-802Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botn inn meðfram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert. Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komizt á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.
Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við. Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnzt og mörgu vanizt.

Straumur

Straumur 1935.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harð vítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka.

Gudmundur batasmidur-2

En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal”, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum meðfram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land giört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið.
— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima Ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrarog Hvaleyrartjörnum var fyrrum; -mikil rauðsprettuveiði.
-Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.

Lambhagi

Lambhagi – grunnur íbúðarhúss. Eldhúsið fjær.

— Hér er orðin breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráð ið til hlunns í Straumsvíkur- og Lambhagavörum. Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveizlu ætlazt enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörina, sem lent var og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái” oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel. Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á úteftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þar ferðinni. Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.

ottarsstadir eystri-807

Svo „strengdi Stjáni klóna”, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síðustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.
— í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði. Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið.

Straumur

Straumur 1930.

Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni. Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járn
smiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum. Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar á móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn.
Þegar Thorbjarnastaðarrett-800verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.
Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, og kunni ég því vel.

Lambhagi

Litli-Lambhagi; útihús og eldhús.

Þó hér sé ekki sprottið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjöíbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem
hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna. Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur í Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Ottarsstadavor-800

Ég hef svo sem fengizt við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elzta skipið í íslenzka veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verzlunarsöguna bæði sem
sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913.
Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík. Stói- og Litli-Lambhagi nær.

— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Ennþá les ég gleraugnalaust. Ég hef aldrei ekið hratt ónei, og komizt leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, er áður lifðu þar lífi íslenzkra útvegsbænda?”

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, Suður í Hraunum, Gísli Sigurðsson, bls. 8-9 og bls. 13.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. mars 2000, Byggð og náttúra í Hraunum – Nútíminn fór hjá garði, Gísli Sigurðsson, bls. 4-6.
-Vísir 19. júní 1969, Bóndinn í Straumsvík, bls. 9-10.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Hraunin og Hraunabæina svonefndu, s.s. Straum, Gerði, Þorbjarnastaði, Óttarstaði, Eyðikot og Lónakot.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.
Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík.
Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju.

Hvasshraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krísuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krísuvíkur.
Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt.

En hvað verður um Hraunin?
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði, auk þess sem hluti þess fer undir fyrirhugaða stækkun álversins. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

-Byggt á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Eftirfarandi er frásögn Magnúsar Jónssonar, fyrrverandi minjavarðar Byggðasafns Hafnarfjarðar, af ferð suður í Voga á Vatnsleysutrönd:
“Einu sinni vissi ég til þess, að ung hjón sem að segja mátti að væru á götunni, fóru suður í Voga í Vatnsleysustrandarhreppi til þess að líta á laust húsnæði sem þau töldu sig hafa séð auglýst í blaðaauglýsingu. Þetta var algjör misskilningur, því að átt var við húsnæði í Vogahverfinu í Reykjavík.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

En í blöðunum sá ég að auglýst var eftir kennara við Stóru-Voga-skóla og svo alveg sömu villuna að hnýtt var aftan við . . . á Vatnsleysuströnd. En þetta byggðarlag, Vogarnir, er bara alls ekki á neinu, hvorki á Vatnsleysuströnd né annars staðar, en auðvitað er staðreynd að þeir eru í Vatnsleysustrandarhreppi. Og í þessum hreppi eru tvenn afmörkuð byggðarlög, Vogar og Vatnsleysuströnd og svo veit ég ekki . . . en nánast ætti þá að telja þriðja bæjarhverfið, þarna “innbæina”, og verður síðar komið að því.

Ekki er einasta það, að Vogarnir og Vatnsleysuströndin séu afmörkuð byggðarlög, heldur eru þau að mörgu leyti andstæður.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Úr Vogunum er tiltölulega stutt og auðvelt að sækja vinnu til Keflavíkur eða í Njarðvíkurnar, nú eða þá á Völlinn, ef svo vill verkast. Þarna í Vogunum fjölgar því heldur íbúunum og hús eru byggð. Á Ströndinni er þetta öfugt, þar fækkar fólki og býli leggjast í eyði.
En auk þess að reyna að kveða niður þetta með Voga á Vatnsleysuströnd þá er nokkuð á reiki hvenær og hvar sé komið á hina eiginlegu Vatnsleysuströnd. Sumir telja sig komna þangað strax þegar er komið í álverið eða a.m.k. rétt framhjá því. En það er mikill misskilningur.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Komið hefur fyrir að ég sé leiðsögumaður þegar farið er þarna suðurum. Ekki er það traustvekjandi þegar ég byrja míkrófónsmalið með því að segja að ég viti ekki hvað hann heiti fyrsti hraunflákinn sem leiðin liggur um. Annað hvort hafi hann ekkert heiti og að gerð hraunsins sé það sem nefnt er helluhraun, nú, eða þá að hér sé ákveðin nafngift, með stórum staf og þetta heiti Hellnahraun.
En fljótlega erum við komin í Kapelluhraunið, sem er gjörólíkt hinu, miklu úfnara og aðeins með mosagróðri, og því auðvitað ekki nærri eins gamalt og hitt. Um kapelluna, sem hraunið er kennt við, mætti margt segja, en hér verður aðeins minnst á eitt. Það er, að 1950 fannst þarna í tóttinni líkneski af kaþólskum dýrling, heilagri Barböru. Hún var einkum ákölluð við jarðskjálfta, eldsvoða og þessháttar ófyrirséða stórhættu. Hinum megin við veginn eru kerskálar álversins, taldir lengstu hús landsins en getur þá kapellan talist styzta húsið? Nú hefur verið látið töluvert stærra líkneski í tóftina.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Þegar Kapelluhrauninu sleppir komum við að þeirri hraunbreiðu sem á þessari leið er stærst, gróðursælust, elzt og mestri tilbreytni er gædd, af þeim hraunflákum sem leiðin liggur um. Hér má til að minnast á byggðarlagið Hraunin eða í Hraununum. Í samtali við elzta innfædda Hafnfirðinginn, kveðst hann muna eftir tólf bæjum þarna, og finnst mér það ótrúlega mikið. Aldrei voru þarna neinar stórjarðir, en helzt mætti þá nefna Óttarstaði, þar sem oftast var fleirbýli. En ein bygging þarna hefur fengið “andlitslyftingu” og er þar átt við húsakynnin í Straumi.

Straumur

Straumur.

Straumur er aðsetur listamanna. Íbúðarhúsið er í sama stíl og elztu byggingar á Laugarvatni, enda var víst á báðum stöðum þetta sett í samband við Bjarna Bjarnason, skólastjóra í Hafnarfirði og síðan á Laugarvatni, en hann var með landbúnaðarrómantík, svona í og með. Til Hraunabæjanna taldist líka Lónakotið, þótt það sé nokkru fjær vegi en hinir bæirnir. Það var í byggð fram á miðja þessa öld, sem nú senn kveður.
Ýmsir muna þrjár eða fjórar vísur eftir sr. Árna Helgason stiptprófast í Görðum. Ein er þessi:
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa’ og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.
Erum við nú ekki komin á Vatnsleysuströndina? Nei, hreint ekki, Hraunbyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en nú er þetta víst allt saman Hafnarfjarðarland, og svo er það að við komum í hreppinn með langa nafninu, þegar við förum úr Lónakotslandi.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots..

“Fyrst” er þá þar eyðibýlið Hvassahraun. Við höfum næstum lokið leiðinni um Almenninginn og sjáum nú mjög greinilega hvernig miklu yngra hraun, Afstapahraunið, hefur steypst niðuryfir hitt. Hér höfum við því sem sagt bæði örnefnin Hvassahraun og Afstapahraun. Sumir halda að Afstapahraunið sjálft hafi fyrst heitið Hvassahraun, en þetta er upplagt vangaveltuefni fyrir grúskara. Afstapahraunið er jafnvel enn úfnara og ójafnara en Kapelluhraunið. Þegar við höfum næstum lagt allt þetta hraunhröngl að baki, komum við í Kúagerði svokallað, þ.e. smávegis gróðurteygingar, en vegurinn er svo breiður að hann hefur næstum kæft það. En þarna hafa orðið svo mörg umferðarslys, að komin er þar vandlega hlaðin varða, með krossi efst. Hér er um tvo vegi að velja, og er ekkert áhorfsmál að við veljum þann eldri og mjórri, og auðvitað rómantískari. Brátt höfum við hægra megin næstum heila húsþyrpingu, en það er býlið Stóra- Vatnsleysa.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa – flugmynd.

Minni-Vatnsleysa, með svínabúinu stóra, er svo lengra út með sjónum. (Eða er þar kannske ekkert svínabú lengur?) Svo er þarna eitt útvegsbóndabýlið ennþá, með húsum en engum íbúum, en það er Flekkuvík. Ég hætti nú brátt þessum skriftum, en a.m.k. er eftir svarið við því hvenær við erum komin á Ströndina. Það er þegar komið er á samfelldu túnin, og er það þá víst fyrst Litlabæjartúnið. Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sem sagt, Vatnsleysuströndin er sá hluti hreppsins þar sem hvert túnið tekur við af öðru. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við “sjáum í gegnum fingur” í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Svo eru það sviplítil svæði sem um er að ræða unz komið er í Vogana.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Hér var aðeins ætlunin að spyrna við fótum þegar sézt eða heyrist talað um Voga á Vatnsleysuströnd, og hvar hin eiginlega Vatnsleysuströnd sé. Smávegis sönn frásögn úr þessu byggðarlagi að lokum: Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Kálfatjörn
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: “Jæja, á ekki að fara að breiða!?” Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: “Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.”
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.”

-Magnús Jónsson, fv. minjavörður, Hafnarfirði.

Flekkuvík

Brunnur í Flekkuvík.

Óttarsstaðir

Eftirfarandi frásögn eftir Gísla Sigurðsson birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978. Myndirnar eru ekki síður áhugaverðar.
Hraunin-401“Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó”. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó” þurfti ekki að skýra það nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komið er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Staumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina. Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni. 

Hraunin-402

Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni við Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.
Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu.
Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaöur undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.
Hraunin-403Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór
í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, að nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur meö ströndinni, nefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn með þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann. Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast að koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstöðum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkis
efni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu.

Hraunin-407

Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu. Stundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annaö gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og hefði verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit.

Hraunin-410

Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík. Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Vestan við Óttarsstaði þrýtur graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar.
Ekki voru Hraunin-408skilyrði til lendingar við Lónakot og því ekkert útræði þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.”
Við þetta má bæta að bátasmiðurinn Guðmundur var sonur Sigurðar Kristins Sigurðssonar síðasta bóndans á Óttarstöðum eystri og konu hans Guðrúnar Bergsteinsdóttir. Guðmundur hélt lengst allra tryggð við Hraunin. Hann smíðaði hér báta sem þóttu eftirsóknarverðir og hleypti þeim af stokkunum í Óttarstaðavör. Þegar Guðmundur lést 1985 var íbúðarhúsið jafnað við jörðu eftir að kveikt hafði verið í því.
Eyðikotið varð um tíma sumarhús. Sjá má letursteina við bæjardyrnar með áletrununum BS-1865 (vinstra megin) og BS-1896 (hægra megin). Þær gerði Bergsteinn Sveinsson þau árin þegar hann gerði bæinn upp.

Nefna má að bóndinn í Eyðikoti, Guðmundur Bergsveinsson, sótti sér kvarnarsteina í Brennuna í Hraunin-411Kapelluhrauni (Brunanum) og bar þá heim á bakinu. Setti hann mosa á bakið til að hlífa því, er hann bar hellugrjótið heim í Eyðikot. Sjá má einn slíkan (brotinn) í hleðslunni við dyrnar.

Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var ein þeirra.
Eyðikot er nú þríbursta hús ofan við Kotabótina. Þriðjungi, þeim nyrsta, var bætt við húsið fyrir u.þ.b. 40 árum, en kotið var gert upp sem sumarhús árið 1950. Það gerðu þau Vilborg Ólafsdóttir og Erling Smith. Þá var hlaðið fallega upp með veggjum og húsið gert líkt og það var. Þá var húsið nefnt Alsæla. Letursteinar Bergsveins Sveinssonar hafa verið varðveittir í hleðslunum beggja vegna við innganginn.

Heimild:
-Suður í Hraunum – Gísli Sigurðsson, Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, bls. 8-9.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Garðar

Grein þessi um “Átthagafræði Garðahrepps” birtist í tímaritinu Harðjaxl árið 1924:
“Hr. ritstjóri!
Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mór í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. þessvegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
lonakot-221Syðsti bær hreppsins er Lónakot. Þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður. Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skamt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot. Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Straumur-221Nú kemur engin bygð fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri héfir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst. Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum. Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út f yrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn. Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli í Stóra Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns. . .
Stekkur-221Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skamt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við. Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum. Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn f yrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað.
En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu. Skamt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum. Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast Gardar-221í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.
Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. par bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið. Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Ísak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður.
Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin Hausastadir-221hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls. Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Guði Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn. Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausastaði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið. – Gamall Garðhreppingur.”

Heimild:
-Harðjaxl, 1. árg. 1924, 16. tbl. bls. 3.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Straumur

Eftirfarandi umfjöllun um Hraunabæina eftir Gísla Sigurðsson birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
Straumur-231Nútíminn fór að mestu leyti hjá garði í Hraununum. Ef til vill er það þversagnarkennt, en nú er hægt að njóta þessa umhverfis einmitt vegna þess að nútímanum þóknaðist að koma ekki við í þessari horfnu byggð. Annars væri búið að setja jarðýtur á alla þessa grjótgarða sem falla svo vel að landinu; það væri búið að moka hólunum ofaní lautirnar, mylja hraunið til að ýta upp vegum og síðan væru athafnaskáldin búin að byggja eitthvað flott úr steinsteypu. En fyrir einhverja guðslukku fóru framfarirnar þarna hjá garði. Og Hraunamennirnir höfðu ekki bolmagn til þess að bylta umhverfinu. Það mesta sem vélaöldin hefur skilið eftir sig eru nokkur bílhræ.

Þorbjarnarstaðir
Thorbjarnastadir-231Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af mörgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hrauninu, vatnsból sem ekki hefur brugðist.

Þýskubúð
ThysakabudSteinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað. En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins. Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri.
Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.

Jónsbúð
Jonsbud-221Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir þollar. Jónsbúðarvör er beint niður af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við vörina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið. Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjarins nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar. Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu. Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból.
Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur verið á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið heilþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Úr fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá blessaðri skepnunni. Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldri gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þess konar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20.

Ottarsstadir - loftmynd IITvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri. Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin. Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði, sem Stefán Rafn byggingameistari eignaðist og eiga hann og Eiríkur bróðir Thorolfs Smith fréttamanns heiðurinn af bænum eða sumarbústaðnum eins og hann er nú.

Óttarsstaðir eystri
Ottarsstadir eystri IIUmhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefin og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar” sem taka á í Almenningi og „leverast in natura” heim til Bessastaða. En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu fiska, þá guð gefur fiskinn af sjónum”.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn falla”, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon. Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin.

ottarsstadir-gislatoft

Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallinu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ. Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar. Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt. Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.
Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.

Óttarsstaðir vestri
Ottarsstadir vestri IISpölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og lfklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.
Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar tU 1966, en dóu þá með þriggja vikna milibili.
Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur. Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af því að halda bænum í góðu horfi.
Ottarrsstadir-221Vestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndilega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum.
En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör til að draga fisk úr sjó og eiga eitthvað í soðið. Og enginn horfir lengur út á flóann og hefur áhyggjur af því að Garðhverfingar séu rónir á undan Hraunamönnum eins og segir í húsganginum.
Fátt stendur eftir annað en náttúran í allri sinni dýrð og fegurðin. Þeir sem fara með skipulagsmál í Hafnarfirði virðast ekki gefa mikið fyrir þesskonar landkosti. Að minnsta kosti var búið að gera ráð fyrir því á aðalskipulagi frá 1997 að allt svæðið frá Straumsvík og vestur fyrir Óttarsstaði yrði gert að iðnaðarog athafnasvæði í tengslum við nýja höfn. Síðar hefur því lítillega verið breytt; meðal annars vegna verndaðra fornminja á Óttarstöðum. Eftir stendur að megnið af svæðinu á að eyðileggja; nútíminn mun um síðir senda sínar jarðýtur á hraunið nema einhver hulinn verndarkraftur komi í veg fyrir það.

Helstu heimildir:
-Óprentuð örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar lögregluþjóns í Hafnarfirði.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
-Hraunin við Straumsvík, Kynningarbæklingur um útivistarsvæði í Hraununum. Útg. af Umhverfis- og útivistarfélagi Hafnarfjarðar.
-Jónatan Garðarsson: útivistarperlan í Hraunum, Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti. 1998.
Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson: Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Jóhannes Sturlaugsson, Ingi Rúnar Jónsson, Stefán Eiríkur Stefánsson og Sigurður Guðjónsson: Dvergbleikja á mótum ferskvatns og sjávar. Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Arnar Ingólfsson: Lífríki í tjörnum við Straumsvík. Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Munnlegar heimildir: Ragnheiður Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 25. mars 2000, bls. 4-6.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Straumssel

Hraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Barnaskóla Hafnarfjarðar og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.

Hraunamenn og gamlar götur
ÞorbjarnastaðabrunnurÍbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.
Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn eftir Reykjanesskaga. Þvert á Alfaraveg eru stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og Straumsselsstígurskipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarstaði í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá austri til vesturs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.

Selin voru mikilvæg
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Ennfremur eru nátthagar, stekkir, fjárskjól og smalaskútar við selin.

Helstu búskaparhættir
StraumsselSauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Smalaskjól

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarstaðahúsinu til ársins 1952 og í Vesturbæ til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Vesturbær og Eyðikot.

Útræði var nauðsynlegt
Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi Óttarstaðaréttsjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð.  Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.
Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.

Örnefni og kennileiti
MiðmundarvarðaSérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Dagmálahæð (kl. 9:00), Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir við Straum og Þorbjarnarstaði og hafa einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Ferskvatnstjarnir með sjávarföllum
StraumurTalið er að Straumsvík dragi nafn sitt af sjávarstraumum þeim sem myndast á milli Straumshólmanna á fallaskiptum, eða af ferskvatnsfljóti því sem rennur neðanjarðar frá Kaldárbotnum og Undirhlíðum. Sprettur ferskvatnið fram undan hrauninu við víkina og er rennslið talið jafnast á við margfalt vatnsmagn Elliðaánna.
Undir öllu hrauninu og mestöllum Reykjanesskaga liggur jarðsjór á nokkru dýpi. Ofan á jarðsjónum flýtur ferskt jarðvatn vegna þess hversu eðlisléttara það er og eru nokkuð skörp skil á milli þeirra.
Þegar fellur að flæðir sjávarstraumurinn inn undir hraunið. Við það hækkar grunnvatnsstaða jarðvatnsins undir hrauninu og ferskvatnstjarnir myndast í lægðum og lautum við ströndina.
StraumurVið Faxaflóa getur munur sjávarhæðar milli flóðs og fjöru verið allt að 4 metrar. Í tjörnum fer munur á sjávarföllum að miklu leyti eftir staðsetningu þeirra. Flestar tjarnirnar eru þurrar á fjöru, en geta orðið 1-2 m. djúpar á flóði, t.d. Jónsbúðatjörn. Í Brunntjörn er um 2 m. munur á flóði og fjöru. Þessar ferskvatnstjarnir eru einstök náttúrufyrirbæri og ekki er vitað til þess að þær eigi sína líka hvorki hérlendis eða erlendis.
Gróðurinn við tjarnirnar er einnig einstakur þar sem hann hefur þurft að aðlagast þessum ferskvatns sjávarföllum; aðlögun sem einungis hefur staðið yfir í 5 til 7 þúsund ár, eða frá því hraunið rann.

Jarðfræði og einkenni hraunsins
KapelluhraunHraunið er dæmigert helluhraun, mishæðótt með falleg ker og skemmtilega hraunhóla sem eru yfirleitt sprungnir í kollinn. Það hefur átt upptök sín í Hrútagjárdyngju vestur undir Sveifluhálsi fyrir um 5 til 7 þúsund árum. Það þekur Almenning og myndar alla ströndina milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur.
Austan við Hraunin er Kapelluhraun sem álverið við Straumsvík stendur nú á. Það er mjög úfið gjallkennt hraun og er dæmigert apalhraun. Það hefur átt upptök sín í Undirhlíðum og rann á sögulegum tíma, að öllum líkindum árið 1151. Einungis nyrsti hluti hraunsins nefnist Kapelluhraun og er kennt við kapellu heilagrar Barböru sem stendur rétt sunnan við álverið.

Fjölskrúðugur gróður
KapellanHraunið er að mestu klætt mosa og er grámosi ríkjandi, en grónir grasbalar eru áberandi næst bújörðum og selstöðum. Lynggróður er mjög algengur t.d. beitilyng, krækilyng, bláberjalyng og sortulyng. Fallegir burknar vaxa í hraunsprungum og ýmiskonar blómplöntur þrífast á víð og dreif um hraunið s.s. blóðberg, blágresi, lyfjagras, tágamura, maríustakkur og burnirót.
Almenningur er víða vaxinn kjarri en í lok síðustu aldar var kjarrið nánast að fullu eytt af hrístöku og fjárbeit því sauðfé var öldum saman haft á útigangi í afréttinum. Eftir að dró úr lausagöngu búfjár í Hraunum eftir miðja 20. öld hafa birki, víðir og einir tekið mikinn vaxtakipp. Almenningur er stundun nefndur Hraunaskógur í dag.

Dýralíf  í Hraunum
RefurMest ber á fluglalífi s.s. rjúpu, heiðlóu, sandlóu, stelk, kríu, gæs, þúfutittlingi, skógarþresti, músarindli, spóa, hrossagauk og hrafni. Áður fyrr var tófa mjög algeng í Hraunum og sjást víða skotbyrgi sem hlaðin voru til að fella hana. Minnkur er mjög algengur við fjöruna og má víða sjá ummerki eftir hann. Margskonar smádýr t.d. hagamýs finnast í Hraunum.

Sjórinn og fjaran
Sjórinn og fjaran í Hraunum hafa löngum heillað marga, jafnt unga sem aldna. Fjaran er svo margbreytileg að það er sama hversu oft hún er gengin, það er alltaf eitthvað nýtt að sjá. Hægt er að gá að skipaferðum eða fylgjast með birtuspilinu út við sjóndeildarhringinn. Fátt jafnast á við að horfa á Snæfellsjökul baða sig í kvöldsólinni á góðum sumardegi.
Kræklingur er nokkuð algengur og víða má finna stórar skeljar. Á fjöruklettum má sjá kuðunga, aðallega þangdoppu og klettadoppu og í lónum sem verða þegar fjarar út má oft finna litla krabba.
Mikið landbrot á sér stað við ströndina sem stafar aðallega af landsigi og hefur fjaran breyst talsvert á síðustu árum.

Flutningahöfn fyrr og nú
KræklingurÍ Hraunum spila gamli og nýi tíminn saman. Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn vöndu komur sínar til landsins. Það var oft mikið um að vera þegar farmur var tekinn á land og verslunarbúðir settar upp þar sem nú kallast Þýskubúð. Þar áttu kaupmenn ýmiskonar viðskipti við inn- og útnesjamenn.
Nú fara stærstu flutningaskip sem sigla til Íslands um Straumsvíkurhöfn þegar þau bera hráefni um hálfan heiminn til álversins við Straumsvík og flytja síðan fullunna vöru aftur frá landinu.

Fjölbreyttar gönguleiðir
VarðaGamlir stígar og götur hafa reynst skemmtilegar gönguleiðir í Hraunum og er hægt að velja sér lengri eða skemmri leiðir með því að fylgja þeim. Svæðið er mjög áhugavert og full ástæða til að kanna það af eigin rammleik því víða leynast áhugaverðar minjar, sérstæð náttúra og margt sem gleður augað.
Markmiðið með þessu upplýsingariti og kortinu sem fylgir er að gera Hraunin aðgengileg til útivistar, náttúruskoðunar og búsetuminja fræðslu.

Útivistarsvæðið í Hraunum
Hraunin eru mun merkilegri en margur hyggur og kjörið útivistarsvæði. Hafnfirðingar eru lánsamir að eiga slíkt svæði við bæjardyrnar. Hraunin geyma minjar sem eru samofnar búsetusögu og náttúru Hafnarfjarðar, merkar jarðmyndanir, fjölbreytt gróðurfar og lífríki sem er vel þess virði að kynna sér nánar.

Samantekt: Jónatan Garðarsson og Lovísa Ásbjörnsdóttir.

Heimild:
-visithafnarfjordur.is

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Alfaraleiðin

“Byggðin í Hraununum var ekki aðeins við alfaraleiðina suður með sjó heldur í næsta nágrenni við mesta þéttbýli á landinu. Samt leið hún undir lok. Hér verður reynt að bregða ljósi á búskapinn í Hraununum og litið á einstakar jarðir. 

Hraunin-231

Þarna mætti lifa á fegurðinni, sagði hrifnæmur maður eftir gönguför á fallegum degi suður í Hraun. Þeim Hraunamönnum hefði þótt það skrýtin og fjarstæðukennd ályktun, enda hefði fegurðin ein verið létt í maga í þurrabúðum og kotum Hraunanna á liðnum öldum. Húsgangurinn fyrrnefndi, sem segir að Hraunamennirnir gapi og góni, það er að þeir hafi verið eitthvað slakari sjósóknarar en Garðhverfingar. En Hraunamenn voru seigir og það er í rauninni ótrúlegt hversu lengi ábúð hélzt á smákotum og hjáleigum í þessu plássi. Búskapurinn á Hraunajörðunum lognaðist að mestu útaf á kreppuárunum eftir 1930; þó var búið á Óttarsstöðum vestri til 1966, en kindabúskap var eitthvað haldið áfram eftir að fólkið á bæjunum var flutt í burtu.
Þegar ég leitaði upplýsinga um endalok búskapar á Hraunajörðunum virtist sem vitneskja um þessa byggð væri mjög á hverfanda hveli í Hafnarfirði, þar sem eðlilegast var þó að leita fyrir sér. Engir frægðarmenn höfðu brugðið ljóma á Hraunin og markverð afrek virðast ekki hafa verið unnin þar, önnur en þau að lifa af á smáum efnum og koma mörgum börnum til manns. Við þessa samantekt hef ég reynt að styðjast við minni ýmissa fullorðinna Hafnfirðinga, en flestum er þeim sameiginlegt að vita frekar takmarkað um þessa nágrannabyggð fortíðarinnar. Undantekning er Ragnheiður Guðmundsóttir, sem nú er 84 ára, skýr kona og skilmerkileg. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum á Óttarsstöðum vestri. Við þessa samantekt hefur ég einnig getað stuðzt við óútgefnar heimildir frá alnafna mínum, Gísla Sigurðssyni, lögregluþjóni í Hafnarfirði, sem var vandaður fræðimaður og óþreytandi skrásetjari. Allur sá fróðleikur er varðveittur í handritum í bókasafni Hafnarfjarðar sem veitti góðfúslega aðgang að þeim. Á þessum heimildum er hinsvegar sú gloppa að nafna mínum hefur ekki enzt aldur til að skrá hinar afdrifaríku breytingar á Hraunabæjunum þegar kemur fram á 20. öldina.

Lónakot
lonakot-232Eins og tekið var fram í fyrri hluta greinarinnar var byggðin í Hraununum að stærstum hluta í hnapp á graslendinu kringum Óttarsstaðabæina. Lónakot skar sig úr; bærinn stóð einn sér við ströndina, 2-3 km vestur frá Óttarsstöðum. Alfaraleið í Lónakot hefur að líkindum legið með ströndinni þar sem nú er merkt gönguleið. Annar stígur lá þangað sunnan að og verður síðar vikið að honum.
Bærinn stóð á fallegum stað uppi á hraunhóli sem hefur verið talsvert sprunginn og ekki stærri en svo að ofanverðu að bæjarhúsin hafa orðið að vera afar fyrirferðarlítil. Þetta undarlega bæjarstæði á sér þá líklegu skýringu, að 

Lónakotsbærinn hafi áður staðið lægra, en að mikið sjávarflóð eftir 1700 hafi eytt honum. Tóftirnar standa merkilega vel ennþá, enda hlaðnar úr úrvals hraungrjóti, en vitna um mikið þröngbýli á mælikvarða nútíðar. Þarna er fallegur útsýnisstaður og sést annars vegar vestur yfir fjöruna og malarkambinn upp af henni, svo og túnið sem nú er víða þakið rusli og rekaviðarsprekum, en mest er þar þó af lábörðum hnullungum úr fjörunni. Sá ágangur hefur ugglaust alltaf verið fyrir hendi, en þá hefur grjótið verið fjarlægt jafnóðum. Út yfir tók í flóði og stórsjó 1958; þá brast varnargarður og eftir það seig á ógæfuhliðina. Hinsvegar sést af bæjarhólnum austur yfir hraunin og lónin sem bærinn dregur nafn sitt af. Eitt þeirra, Suðurtjörnin, er alveg við bæjarhólinn og merkilegt er að brunnur bæjarins var niðurgrafinn í tjörnina. Annað lón er lengra inni í hrauninu, Þessi hraunalón, svo og Brunntjörnin hjá Straumi, sem er samskonar náttúrufyrirbæri, eru undursamlega falleg og í þeim er merkilegt lífríki segja náttúrufræðingar. Á lognkyrrum degi speglast hraunhólar í miklum fjölbreytileika í lónunum og gegnum spegilmyndina sést botninn langar leiðir.
Hraunin-241Lónin þarna og við Straum eiga sér þá skýringu, að undir öllu hrauninu og raunar undir mestöllum Reykjanesskaga mun vera jarðsjór á talsverðu dýpi. Ofan á jarðsjónum flýtur ferskt jarðvatn, sem er eðlisléttara og blandast mjög takmarkað jarðsjónum. í lónunum gætir sjávarfalla. Jarðvatnið hækkar þegar fellur að og sjávarstraumur flæðir inn undir hraunin. Þessvegna hækkar í lónunum á flóði, en vatnið er samt alltaf ferskt. Sum lón verða þurr á fjöru en geta orðið tveggja metra djúp á flóði, til dæmis Jónsbúðartjörn út með Straumsvíkinni.
Lónakot er nefnt eftir lónunum sem ná drjúgan spöl taldar svo sér á parti sem náttúrufyrirbæri að þær eiga ekki sinn líka, hvorki hér né erlendis.
Ég kom fyrst að Lónakoti 1975 og málaði þá mynd af því sem eftir var af bænum, en sú mynd virðist vera glötuð. Eina myndin sem til er af Lónakotsbænum er líklega sú sem hér birtist; málverk Jóhanns Björnssonar, sem því miður er ekki ársett. Bærinn á mynd Jóhanns var naumast þekkjanlegur fyrir aldarfjórðungi; járn að hluta fokið af þökum og sperrur brotna. Nú er ekkert eftir af yfirgerðinni; öll hefur hún eyðst og fokið burt. Vestar á túninu var fjárhús; einnig það er fallið niður og tóftin full af spýtnabraki. Austar og innar í hrauninu standa grjótgarðar, en ekki er ljóst hvort þar voru túnblettir, eða einungis gerði, sem voru algeng og til þess ætiuð áður en girðingar komu til sögunnar að halda fénaði heima við. Austur af bænum, innan túngarðs, er sérkennilega sprunginn hraunhóll sem heitir Krumfótur. Fyrrum lá stígur suður í Lónakotssel og var hluti af samgöngukerfi Hraunanna. Nú liggur vegarslóði, fær aldrifsbílum, austur úr túninu og þræðir milli hraunhóla 2-3 km leið unz komið er á Keflavíkurveginn, en þar er þessum slóða lokað með keðju. Þetta er samt ágæt gönguleið og þá er farið framhjá allstórri hlöðu og fjárhúsum. Kornelíus Jónsson, þekktur úra- og skartgripakaupmaður við Skólavörðustíg, hefur átt helming Lónakots síðan um 1950 og rekið þar fjárbúskap ásamt fjölskyldu sinni. Nú eru þar nokkrar ær og fáeinir hestar á fóðrum, en heyja er ekki hægt að afla í Lónakoti og verður að kaupa fóðrið. Á sumrin er ánum sleppt í hraunið, en Lónakotsland er eins og fleygur: breiðast neðst, en mjókkar inn eftir og endar í Mið-Krossstapa.
Hraunin-239Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að jarðardýrleiki Lónakots sé óviss, en eigandinn er „Kongl. Majestat”. Leiguliði kóngsins heitir Sigurður Oddleifsson og er eftirtektarvert, að landskuldin, xl álnir, skal greiðast í 8 kolatunnum heim til Bessastaða. Það eru sem sagt viðarkol sem Bessastaðavaldið heimtar í afgjald og fyrir utan alla vinnuna við kolagerðina má ætla að drjúgri spildu með kjarri hafi verið eytt árlega vegna þessa.
Þar kom að ábúandinn kvartaði um að skógurinn í Almenningi væri svo foreyddur, „að hann ei til treystist þar að safna kosti til landskuldargjaldsins.” Þá var það gefið eftir að landskuldin mætti betalast með II vættum fiska, en leigur af leigukúgildum skyldu betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess fylgdu jörðinni kvaðir um mannslán til Bessastaða og skyldi bóndi fæða verkamanninn. Allt er þetta í samræmi við þá ánauð sem lögð var á leiguliða í næsta nágrenni Bessastaða og nefnir Jarðabókin fleira. Þar á meðal eru hríshestar „þegar kallaðir eru”, svo og „skipaferðir”. En manntalsárið 1703 eru sex manns í heimili í Lónakoti.
Um hlunnindi jarðarinnar segir í Jarðabókinni: „skógur hefur til forna verið, og er nú meira hrísríf, það brúkarjörðin til kolagjörðar og eldiviðar og stundum til að bjarga sauðpeningi í heyskorti.” Bústofninn er 2 kýr, 2 kvígur, 21 ær, 5 sauðir, 7 lömb og 2 hross. Á heyfeng má fóðra 3 kýr, segir þar. Rekavon er sögð lítil, en sölvafjara er „hjálpleg fyrir heimamenn”, sömuleiðis hrognkelsafjara, en „heimræði má ekki kallast að sé hér, því lending er engin nema við voveiflega sjávarkletta…” Hinsvegar fær ábúandi Lónakots að nota uppsátur á Óttarsstöðum þó það sé óþénugt. Engjar eru öngvar og ekki kemur það á óvart. Af virðingargerð um Lónakot 60 árum síðar, anno 1763, má ráða að kotið hafi heldur lasnast; þar séu bæjardyr með fornfálegu þili, en gat er fallið á göngin milli búrdyra og baðstofu. Veggir utan eru víða fallnir. Með sjónum er túngarður, mjögfallinn. „Þannig er Kongs-jörðin Lónakot af oss undirskrifuðum úttekin og álitin, eftir göfugs sýslumannsins befaling”, skrifa virðingarmennirnir Páll Þorleifsson og Guðmundur Ólafsson.

Straumur
straumur-232Af Hraunabæjunum er Straumur kunnastur og helgast einkum af því að glæsilegt timburhús í burstabæjarstíl hefur staðið þar í meira en hálfa öld og blasir við af Keflavikurveginum hjá Straumsvík. Þrátt fyrir álverið austan víkurinnar, aðeins snertuspöl frá, er Straumsvík með því fegurra í ríki náttúrunnar við Faxaflóa. Hún lætur samt ekki mikið yfir sér víkin sú arna; þar eru hvorki sjávarhamrar eða skriður í sjó fram né neitt það sem kalla má stórbrotið. Það er hin smágerða fegurð sem þarna á sitt konungsríki og hún er aldrei eins frá degi til dags og síbreytileg frá morgni til kvölds vegna þess að birtan ræður úrslitum um það hvernig hún nýtur sín, svo og munurinn á flóði og fjöru. Menn hafa að sönnu lítinn tíma til að gaumgæfa þetta á fullri ferð um Keflavíkurveginn, en það er meira en ómaksins virði að staldra við, leggja bílnum og ganga niður að víkinni þar sem húsin í Straumi speglast oft á lognkyrrum dögum og hraunið gengur í samband við vatnið. Það er ótrúlegt, en samt satt, að stórhuga menn höfðu einhverntíma í hyggju að gera uppfyllingu í víkina; eyða henni og byggja þar þilplötuverksmiðju.
Straumur-531Umhverfi Straums er þó ef til vill ævintýralegast við Brunntjörn, lítið eitt vestar, þar sem bröttum hraunhóli með fallegum hraunreipum snarhallar niður að vatninu og speglast í því á lygnum degi. Hafa lærðar ritgerðir verið skrifaðar um sérkennilegt lífríki í Brunntjörn, til að mynda dvergbleikju, sem ekki er til annars staðar en í lónunum þarna og virðist ganga milli þeirra, enda mikill vatnsgangur undir hrauninu. Dvergbleikjan er sérkennileg í útlití og ekki beint gáfuleg. En hún plumar sig við þessar aðstæður og segir svo í samantekt þriggja náttúrufræðinga sem birtist í Náttúrfræðingnum 1998: „Það að dvergbleikja skyldi finnast þar er eitt og sér markvert í ljósi þess hve fátítt þetta bleikjuafbrigði er í vatnakerfum landsins. Einnig kemur þar tál að lífshættir bleikjunnar á þessu svæði eru einstakir, því ekki er vitað til þess annars staðar að dvergbleikjur nýti sér í senn umhverfi ferskvatns og sjávar.”
Í tjörnunum við Straumsvík verður verulegur munur á vatnshæð eftir sjávarföllum eins og í lónunum við Lónakot. Á útfiri verður stríður straumur milli tjarnanna og kemur í ljós að lækir og jafnvel miðlungsstór á sprettur fram undan hrauninu. Sumpart gæti það verið Kaldá sem rennur á víð og dreif undir hraunin allar götur vestur í Straumsvík og sumpart neðanhraunsvötn með upptök sunnar við fjallgarðinn.
Straumur er stór jörð sem bezt sést af því að hún á land til móts við Krýsuvík. Austanmegin er land Þorbjarnarstaða, en land Óttarsstaða að vestan. Straumur hafði hinsvegar þann annmarka sem bújörð, að þar er nánast ekkert tún og heima við er varla hægt að tala um ræktanlegt land. Ekki lét Bjarni Bjarnason, síðar skólastjóri á Laugarvatni, það aftra sér frá því að hefja fjárbúskap í stórum stíl í Straumi þegar hann var skólastjóri í Hafnarfirði. Hann hefur ekki fundið kröftum sínum fullt viðnám við kennslu og skólastjórn svo kappsfullur og átakamikill sem hann var. Bjarni eignaðist Straum og hóf búskap þar 1918, þá ókvæntur. Fallegur burstabær sem fyrir var á jörðinni brann til kaldra kola 1926, segir Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum, sem horfði á eldsvoðann. En Bjarni hefur ekki látið þetta áfall draga úr sér kjarkinn, heldur snúið sér að því á næsta ári að koma upp nýju húsi.
Með fullu starfi varð Bjarni að byggja búskapinn í Straumi á aðkeyptu vinnuafli og ólíklegt að nokkur maður hafi rekið stærra bú í Hraunum fyrr eða síðar. Ég hef fyrir því orð Þorkels sonar hans á Laugarvatni, að Bjarni hafi haft 400 fjár í Straumi, en Þorkell fæddist í Straumi 1929, sama ár og Bjarni flutti austur að Laugarvatni. Búskap hans í Straumi lauk þó ekki fyrr en 1930. Nærri má geta að mjög hefur verið treyst á vetrarbeit, en samt verður ekki hjá því komizt að eiga allverulegan heyfeng handa 400 fjár, ef jarðbönn verða. Þeirra heyja varð aðeins aflað að litlu leyti í Straumi og mun Bjarni hafa heyjað austur í Árnessýslu.
Alfaraleid-741Lítið eða ekki neitt sést nú eftir af fjárhúsunum, en eins og áður var vikið að, byggði Bjarni af verulegum stórhug hús í burstabæjarstíl, ólíkt þeim lágreistu byggingum sem fyrir voru á Hraunabæjunum. Húsið í Straumi stendur enn; það er staðarprýði og fellur ákaflega vel að umhverfinu.
Ekki kemur á óvart að höfundur hússins er Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríldsins, og hefur hann þá teiknað húsið um líkt leyti og Laugarvatnsskólann. Teikningin er til og merkt manni sem að líkindum hefur starfað hjá Guðjóni, en Þorkell Bjarnason á Laugarvatni segir, og hefur það eftir fóður sínum, að Guðjón sé arkitektinn. Það er einnig staðfest á minningarskildi sem upp var settur í Straumi. Ýmisskonar búskapur var um árabil í Straumi, þar á meðal svínabú. í meira en 20 ár bjó enginn í húsinu og það var að grotna niður, bæði að innan og utan. Sáu sumir þann kost vænstan að rífa húsið, en ekki varð þó af því og Hafnfirðingar sýndu þann metnað að vilja varðveita það.
Sett var á laggirnar menningarmiðstöð í Straumi með vinnuaðstöðu fyrir listamenn. Sverrir Ólafsson myndhöggvari hefur frá upphafi verið forstöðumaður listamiðstöðvarinnar, auk þess sem hann hefur eigin vinnustofu í Straumi. Það kom í hans hlut að endurgera húsið að innan og utan með fulltingi Hafnarfjarðarbæjar og styrk frá Álverinu og einstaklingum.
Alfaraleid-921Hlöðunni hefur verið breytt í 150 fermetra sýningarsal eða vinnustofu sem fær birtu frá þrem kvistgluggum á framhliðinni. Þar fyrir aftan er stór vinnustofa með þakglugga og birtu eins og allir myndlistarmenn sækjast eftir. Á þeim áratug sem listamiðstöðin í Straumi hefur starfað hafa um 1000 listamenn dvalið í Straumi; fólk úr öllum listgreinum og frá 32 þjóðlöndum. Í þeim hópi eru rithöfundar, kvikmyndagerðar-menn, tónlistarfólk, arkitektar, hönnuðir, málarar, myndhöggvarar og leirlistafólk. Í íbúðarhúsinu eru íbúðir fyrir listamenn; þar geta búið 5 í einu. Mikil spurn er eftir vinnustofum í Straumi, sem menningarmálanefnd Hafnarfjarðar og forstöðumaðurinn ráðstafa, enda eru allskonar verkfæri látin í té.

Straumsland náði lítið eitt út með Straumsvíkinni að norðan en fyrst og fremst er það í hrauninu fyrir sunnan. Bæjarstæðið í Straumi var fyrr á tímum á sama stað, en túnin voru ekki annað en smáblettir og hefur líklega munað mest um Lambhúsgerði sem þekkist af hlöðnum grjótgarði lítið eitt vestan við Straum. Við bæinn var sjálft Straumstúnið, sem aðeins var smáskiki, og sunnan við Keflavíkurveginn var ein skák til viðbótar og grjótgarður í kring; þar hét Fagrivöllur.
Þar sem Keflavíkurvegurinn liggur fyrir botni Straumsvíkur stóð áður hjáleigan Péturskot og eru Péturskotsvör og Straumstjarnir þar niður af. Austan við Ósinn var býlið Litli-Lambhagi en sunnar, undir brún Kapelluhrauns, var hjáleigan Gerði. Þar er nú sumarbústaður.

Þorbjarnarstaðir
Thorbjarnarstadir-941Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af mörgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hrauninu, vatnsból sem ekki hefur brugðist. Bærinn fór í eyði um 1930.

Þýzkubúð – þar sem þýzkir höndluðu

thyskabud-232

Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað. En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins. Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri.
Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.

Jónsbúð
Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir þollar. Jónsbúðarvör er beint niður Hraunin-254af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við vörina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið. Grafnar voru í Jónsbúð prufuholur og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjarins nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar. Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu. Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból.
Jonsbud-541Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur verið á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið heilþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Frá fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá blessaðri skepnunni.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldri gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri.Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin. Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði, sem Stefán Rafn byggingameistari eignaðist og eiga hann og Eirfkur bróðir Thorolfs Smith fréttamanns heiðurinn af bænum eða sumarbústaðnum eins og hann er nú.

Óttarsstaðir eystri
ottarsstadir-232Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefið og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar” sem taka á í Almenningi og „leverast in natura” heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu fiska, þá guð gefur Sskinn afsjónum”.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn falla”, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon. Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin.
ottarsstadir-233Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallinu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ. Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar.
Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt. Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.
Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.

Óttarsstaðir vestri
ottarsstadir-234Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og lfklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.
Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur.
Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af því að halda bænum í góðu horfi.
ottarsstadir-rett-stekkurVestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndilega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum.
En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör til að draga fisk úr sjó og eiga eitthvað í soðið. Og enginn horfir lengur út á flóann og hefur áhyggjur af því að Garðhverfingar séu rónir á undan Hraunamönnum eins og segir í húsganginum.
Fátt stendur eftir annað en náttúran í allri sinni dýrð og fegurðin. Þeir sem fara með skipulagsmál í Hafnarfirði virðast ekki gefa mikið fyrir þesskonar landkosti. Að minnsta kosti var búið að gera ráð fyrir því á aðalskipulagi frá 1997 að allt svæðið frá Straumsvík og vestur fyrir Óttarsstaði yrði gert að iðnaðar- og athafnasvæði í tengslum við nýja höfn. Síðar hefur því lítillega verið breytt; meðal annars vegna verndaðra fornminja á Óttarstöðum. Eftir stendur að megnið af svæðinu á að eyðileggja; nútíminn mun um síðir senda sínar jarðýtur á hraunið nema einhver hulinn verndarkraftur komi í veg fyrir það.”

Helstu heimildir:
-Óprentuð örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar lögregluþjóns í Hafnarfirði.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
-Hraunin við Straumsvík, Kynningarbæklingur um útivistarsvæði í Hraununum. Útg. af Umhverfis- og útivistarfélagi Hafnarfjarðar.
-Jónatan Garðarsson: útivistarperlan í Hraunum.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson: Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Jóhannes Sturiaugsson, Ingi Rúnar Jónsson,
-Stefán Eiríkur Stefánsson og Sigurður Guðjónsson: Dvergbleikja á mótum ferskvatns og sjávar.
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Arnar Ingólfsson: Lífríki í tjörnum við Straumsvík. Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Munnlegar heimildir: Ragnheiður Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. mars 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. mars 2000, bls. 4-6.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.