Færslur

Óttarsstaðir

Jónatan Garðarsson skrifar um “Hlöðnu húsin í Hraunum” á vef Hraunavina árið 2002:

Jónatan garðarsson

Jónatan Garðarsson.

“Rétt vestan við Straumsvík var nokkuð þéttbýlt um aldir enda var búið á einum 12 smábýlum þegar mest var. Jarðirnar báru ekki mannmörg heimili en þar var engu að síður gott að búa á meðan fólk gat sinnt búskap og sjósókn jöfnum höndum. Fram undir þriðja áratug 20. aldar var byggðin í Hraunum nokkuð blómleg en þá fór fólki að fækka um leið og búskaparhættir breyttust og sjávarbyggðirnar á suðvestuhorni landsins sóttu í sig veðrið. Þeir sem settust að í Hraunum lögðu megin áherslu á sauðfjárbúskap og sjósókn enda var stutt á gjöful mið skammt undan landi. Sauðfé gekk úti árið um kring sem var nauðsynlegt þar sem túnskikar voru ekki margir eða umfangsmiklir. Helst var heyjað fyrir kýrnar á heimatúnum og grastóm í næsta nágrenni bæjarhúsana, en kúabúskapur byggði á því að hægt væri að mæta mjólkurþörf heimilismanna. Hraunajarðirnar voru lengst af í eigu kirkju og síðan konungs eftir siðaskiptin.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Ábúðaskipti voru tíð vegna þess að þegar illa áraði til sjósóknar þótti ekki vænlegt að búa á þessum vindasama stað og eyðilega stað við sjávarsíðuna. Leiguliðar stöldruðu þar af leiðand ekki við nema í nokkra áratugi þegar best lét. Þeir sem settust að á þessum slóðum gátu með dugnaði og útsjónarsemi komið undir sig fótunum, einkum þeir sem voru dugmiklir sjómenn. Þarna efnuðust bændur á því að gera út árabáta og leggja inn aflann í kaupstað og taka út varning í staðinn eða gera skipti við vel stæða bændur annarsstaðar á landinu.

Straumur

Straumur.

Á þriðja áratug 19. aldar voru konungsjarðirnar í Hraunum og aðrar jarðir vítt og breitt um landið boðnar til sölu til að afla tekna fyrir ríkissjóð Dana. Þannig atvikaðist það að efnaðir bændur, kaupmenn og aðrir sem höfðu einhver fjárráð eignuðust Hraunajarðirnar. Sumir fluttu á staðinn en flestar jarðirnar voru áfram hjáleigur sem gengu kaupum og sölum um árabil. Meðal þeirra sem festu kaup á jörðum í Hraunum var Guðmundur Guðmundsson sem efnaðist er hann kvæntist vel stæðri ekkju í Hafnarfirði. Hann bjó um tíma á jörði sinni Lambhaga, en keypti einnig Þorbjarnarstaði og hálfa Óttarstaði. Guðmundur breytti Straumsseli í lögbýlisjörð en lést um miðjan aldur. Ekkja hans kvæntist aftur og Guðmundur Tjörvi sonur hans tók við búskap í Straumi þegar fram liðu stundir, af stjúpföður sínum.

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri (vestari).

Jón Hjörtsson átti alla Óttarstaða jörðina áður en hann seldi hálflenduna til Guðmundar Guðmundssonar. Jón efnaðist vel á útgerðar umsvifum sínum á meðan hann bjó á Óttarstöðum enda dugmikill sjósóknari. Rannveig dóttir hans tók við búinu þegar móðir hennar andaðist árið 1855, en faðir hennar lifði í nokkur ár til viðbótar. Steindór Sveinsson sonur Rannveigar varð eigandi hálfra Óttarstaða að afa sínum látnum og hafði þá um skeið verið einskonar bústjóri afa síns. Steindór var ókvæntur þegar Kristrún Sveinsdóttir frá Miðfelli í Þingvallasveit réðst sem vinnukona að Óttarstöðum. Kristrún var 7 árum yngri en Steindór og felldu þau hugi saman. Gengu þau í hjónaband 9. október 1860 og eignuðust soninn Svein Steindórsson sem varð seinna bóndi í Hvassahrauni.

Óttarsstaðir

Hesthúsið að Óttarsstöðum eystri.

Sveinn var dugandi skipstjóri eins og faðir hans og afskaplega vel látinn. Steindór Sveinsson bóndi á Óttarstöðum fékk holdsveiki og var illa haldinn síðustu æviár sín. Hann lést af völdum holdsveikinnar 1870 en þá hafði Kristrún fyrir nokkru tekið við búskapnum og útgerð eiginmanns síns. Sá hún um að versla til heimilisins og annaðist alla aðdrætti. Hún var auk þess dugandi formaður og sótti sjóinn af atorku og heppni og var órög að leggja á djúpmið. Stjórnaði hún hásetum sínum af myndugleik og aflaði vel.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Kristrún var óhrædd við að takast á við þau verkefni sem biðu hennar og hlóð Óttarstaða fjárborgina með bróður sínum Guðjóni Sveinssyni sem var vinnumaður hjá henni, á meðan Steindór eiginmaður hennar lá veikur heima. Það leið ekki nema ár eftir að Steindór andaðist að Kristrún giftist Kristjáni Jónssyni frá Skógarkoti í Þingvallasveit. Hann var 12 árum yngri en hún en það fór afskaplega vel á með þeim. Bjuggu þau saman á Óttarstöðum til ársins 1883 en fluttu þá að Hliðsnesi á Álftanesi og eignuðust þrjú börn.

Óttarsstaðir

Eldhúsið við Óttarsstaði eystri.

Kristrún lést 13. desember 1903 og fékk þau eftirmæli að hún hefði verið gædd mikilli atgervi til sálar og líkama, verið kona tígurleg yfirlitum og mjög einarðleg, hreinlunduð, trygg og staðföst. Hún var ráðdeildarsöm, ástrík og umhyggjusöm móðir og eiginkona. Síðustu æviárin var heilsu hennar farið að hnigna og fékk hún slag að kvöldi 4. desember 1903 og lá síðan í dái þar til hún lést. Var hún jarðsett að Görðum 22. desember við hlið fyrri eiginmanns síns og nokkurra barnabarna. Kristján gat ekki á heilum sér tekið eftir að Kristrún andaðist. Hann flutti nokkru eftir andlát hennar frá Hliðsnesi til Hafnarfjarðar og fór að versla þar. Heppnaðist það miðlungi vel gengu efni hans til þurrðar. Seldi hann verslun sína sumarið 1906 og bakaði féþurðurinn honum þungum áhyggjum. Var hann ekki með sjálfu sér eftir það og gekk í sjóinn 2. september 1906 milli Hafnarfjarðar og Garðahverfis og réð sér bana. Var hann tæpra 62 ára þegar þessi atburður átti sér stað. Svo aðgrunnt var á þessum slóðum að líkið var ekki alveg á kafi er það fannst. Var þessi atburður afar sorglegur og orti Friðrik Friðriksson eftirfarandi: Ljúfur með líkn og dáð; lengi var sveitarstoð, grandvar með góðri lund, gætinn í orði og hug.

Óttarsstaðir

Eldhúsið við Óttarsstaði vestari.

Guðmundur Jónsson og Ragnheiður Hannesdóttir keyptu jörðina af Kristrúnu og Kristjáni árið 1883 og tóku synir hennar, Guðjón og Sigurður Kristinn Sigurðsson, við búskapnum eftir þeirra dag. Guðmundur hafði ekki búið lengi á Óttarstöðum þegar hann seldi hálfa jörðina árið 1885. Kaupandinn var Friðfinnur Friðriksson skipstjóri sem átti þilskipið Lilju á móti Þorsteini Egilsen kaupmanni í Hafnarfirði. Friðfinnur hafði ekki neinn áhuga á að búa í gamla bænum, heldur keypti tvílyft timburhús sem stóð í landi Austurkots á Vatnsleysuströnd, tók það niður og flutti sjóleiðina að Óttarstöðum. Þetta hús byggði Ari Egilsson árið 1883 úr gæðatimbri sem rak á land í Höfnum eftir að barkurinn Jamestown strandaði þar. Ari og eiginkona hans fluttu til Vesturheims og þar með var húsið falt til kaups. Þetta merkilega hús stendur ennþá á eystri Óttarstöðum en er því miður afskaplega illa farið enda ekkert verið hirt um það áratugum saman.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Guðjón Sveinsson bróðir Kristrúnar á Óttarstöðum var listagóður hleðslumaður og má sjá handbragð hans víða í Hraunabyggðinni. Óttarstaða fjárborgin er jafnan nefnd eftir Kristrúnu Sveinsdóttur sem lagði drjúga hönd á gerð hennar, en Guðjóns er sjaldnar getið. Hann bar ábyrgð á því að hlaðin vorum myndarlegir eldaskálar úr hraungrjóti í Litla-Lambhaga sem og á Óttarstöðum vestri og eystri. Standa veggir þessara skála ennþá og sýna svo ekki verður um villst hversu góður verkmaður Guðjón var. Hann hlóð aukheldur upp gömlu bæjarveggina á báðum bæjunum, en eystri bænum var breytt í hesthús eftir að timburhúsið var flutt þangað árið 1885.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Óttarstaðahúsið er eitt það merkilegasta á landinu og það sama gildir um steinhlöðnu tóftirnar sem enn standa þrátt fyrir að þekjurnar hafi fyrir löngu fúnað og orðið veðrinu að bráð. Minjarnar bíða þess sem koma skal og ef hugmyndir um að breyta Óttarstaðalandi í geymslusvæði fyrir hafskip verða að veruleika tapast að eilífu stórmerkilegar minjar sem sýna hvernig umhorfs var á suðvesturhorni landsins áður en svokallaður nútími hóf innreið sína.” – Jónatan Garðarsson

Heimild:
-http://www.hraunavinir.net/hlodnu-husin-i-hraunum/

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari. Elshúsið lengst t.v.  Gamla hesthús eystri Óttarsstaða efst, ofan garðs.

Glaumbær

Eftir að baráttan við berklaveikina fór að bera árangur og staða berklasjúklinga í þjóðfélaginu að batna, beindist líknarstaf Kvenfélagsins Hringsins inn á nýjar brautir. Þá fór félagið að styrkja fátæk og veikluð börn úr Hafnarfirði til sumardvalar í sveit. Barnaverndarfélag Hafnarfjaðar átti mikinn þátt í, að barnaheimilið Glaumbær var stofnað 1957 og lagði því talsvert fé.
Bátur á þurru landi við GlaumbæGlaumbær er í Óttarsstaðalandi. Tildrög þess að sumardvalarheimili tók þar til starfa árið 1957 voru þau að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hafði oft rætt á fundum sínum um nauðsyn þess að koma á fót sumardvalarheimili fyrir börn á aldrinum 6-8 ára. Mjög erfitt hafði reynst fyrir foreldra að koma börnum á þessum aldri í sveit á sumrin og Hafnfirðingar höfðu aldrei átt barnaheimili fyrir þennan aldursflokk. KFUM í Kaldárseli hafði öðru hverju bætt úr mestu vandræðum fólks og tekið börn til dvalar stuttan tíma í einu, en aldrei sumarlangt. Rauði krossinn hafði einnig unnið gott starf á þessu sviði, og, og Kvenfélagið Hringurinn hafði árum saman styrkt hafnfirsk börn til sumardvalar í sveit.

Hleðslur í einni hamraborginni - sennilega eftir Theodór

Snemma árs 1957 var ljóst, að Kvenfélagið Hringurinn fengi ekki inni fyrir börn úr Hafnarfirði á sumardvalarheimilum Rauða krossins á Hörðuvöllum. Dagheimili Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar á Hörðuvöllum var ætlað börnum á aldrinum 2-6 ára, og í vinnuskólann í Krýsuvík komust aðeins drengir á aldrinum 8-12 ára. Barnaverndarnefnd var ljóst, að nauðsynlegt var að reyna að brúa þetta bil, t.d. á þann hátt að koma á fót sumardvalarheimilli. Snemma árs 1957 komst nefndin á snoðir um, að sumarbústaður Theodórs heitins Mathiesens læknis suður í Hraunum væri til sölu, Hún skrifaði bæjarráði og óskaði eftir fyrirgreiðslu þess í sambandi við kaup á húsinu. Bæjarráð tók málaleitan nefndarinnar vel og lofaði ábyrgð bæjarins, ef nefndinni tækist að útvega lán til kaupanna. Enn fremur skrifaði barnaverndarnefnd þeim félögum í bænum, sem höfðu barnavernd og líknarstarfsemi fyrir börn á stefnuskrá sinni og óskaði eftir samvinnu þeirra um lausn málsins. Þetta bréf var dagsett 18. marz 1957.
Undirtekir voru mjög góðar. Tvö þeirra, Barnaverndarfélagið og Rauðakrossdeildin, tæmdu þegar sjóði sína. Þau gáfu 10.000 kr. hvert, og síðan jók Barnaverndarfélagið framlag sitt um 15.000 kr. og Rauðakrossdeildin bætti 20.000 kr. við framlag sitt. Barnaverndarnefnd útvegaði með aðstoð Axels Kristjánssonar í Rafha 40.000 kr. lán hjá Iðnaðarbankanum. Fleiri lögðu hönd á plóginn.
Klettaborgir GlaumbæjarÁ sumardaginn fyrsta þetta ár var Barnaheimilissjóður Hafnarfjarðar stofnaður. Tilgangur sjóðsins var að kaupa og reka barnaheimili fyrir hafnfirsk börn. Sjóðurinn keypti síðan sumarbústað Theodórs, er nefndist Glaumbær, 16. maí 1957 fyrir 80.000 kr. Glaumbær var á kyrrlátum stað skammt frá Hafnarfirði, stutt frá þjóðvegi, en þó úr alfaraleið. Húsið stóð á fögrum stað í skemmtilegu umhverfi, í snyrtilegum og vel ræktuðum lautarbolla, og klettaborgir gnæfðu við himinn allt um kring.
Hinn 16. júní 1957 hófust framkvæmdir í Glaumbæ. Húsið var lengt með viðbyggingu og fékkst þar mjög gott svefnloft fyrir 24 börn. Niðri var svefnstofa fyrir stúlkur, snyrtiherbergi með salerni og steypibaði, svo og rúmgóður gangur og pláss fyrir miðstöðvarketil. Einnig var byggt rafstöðvarhús og rotþró og unnið að ýmsum fleiri framkvæmdum.

Glaumbær

Sumardvalarheimlið í Glaumbæ tók til starfa 10. júlí 1957, og dvöldust þar 24 börn til 20. ágúst. Starfsemin gekk ágætlega, og þrifust börnin vel á heimilinu. Þau þyngdust að jafnaði um 4 kíló hvert, meðan á dvölinni þar stóð. Heimilinu veittu forstöðu hjónin Guðjón Sigurjónsson íþróttakennari og Steinunn Jónsdóttir. Þeim til aðstoðar var Ólöf Kristjánsdóttir. Þegar stafi heimilisins lauk í ágúst, var barnaheimilissjóðurinn orðinn mjög skuldugur, enda var starfsemin í Glaumbæ kostnaðarsöm. Sjóðurinn tók lán hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, og fjársöfnun meðal bæjarbúa var haldið áfram. Var því unnt að hefja starfsemi barnaheimilisins á ný sumarið 1958.
Barnaheimilið í Glaumbæ var starfrækt með líku sniði á hverju sumri frá 1957-68, en þá var starfseminni þar hætt, m.a. vegna hugsanlegrar mengunarhættu frá Álverinu í Straumsvík, sem var að hefja starsfemi sína um þær mundir.

Glaumbær

Glaumbær sem sumarhús.

Húsið stóð lengi autt uns það brann, líkt og nafni þess í Reykjavík nokkrum árum síðar. Enn má sjá klettaborgirnar sem og aðrar minjar um veru barnanna í Glaumbæ á framangreindu tímabili.
Óttarsstaðir var hof- og kirkjustaður fyrr á öldum. Þar er grafreitur, jafnvel á fleiri en einum stað. Heimild er fryrir því að árið 1379 votta þeir Kári Þorgilsson, Jón Oddsson og Ólafur Koðráðsson að hafa heyrt máldaga kirkjunnar í Viðey lesinn og að Ólafur hafi lesið hann sjálfur áður en kirkjan brann. Þann 9. september 1447 höfðu þeir Einar Þorleifsson og Steinmóður Viðeyjarábóti með sér jarðaskipti. Meðal þeirra jarða sem komu í hlut klaustursins voru 10 hundruð í Ottastöðum í Kálfatjarnarkirkjusókn. Óttarsstöðum bregður fyrir í fógetareikningunum 1547-1552 og eru þá líkt og aðrar Viðeyjarklaustursjarðir komnir í konungs eigu.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Óttarsstaðir eru meðal svokallaðra Hraunajarða. Á árunum 1825–1874 áttu sér stað ýmsir atburðir er snérust um tengsl Hraunajarða og almenningslands Álftnesinga á Reykjanesi. Óttarsstaðir voru seldir úr konungseigu þann 28. ágúst 1839. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er getið bæði Óttarsstaða og Óttarsstaðakots þrátt fyrir að hvorki prestur né sýslumaður geti hjáleigunnar. Ástæða þess er að nokkru leyti ábúendatalan sem sýslumaður gaf upp á öllum Óttarsstöðum en að auki var hún byggð 1803. Í jarðamatinu 1849 er kafli um jörðina Óttarsstaði með hjáleigunum Óttarsstaðakoti og Nýjakoti.
Þrjú landamerkjabréf fyrir Óttarsstaði voru undirrituð 26. maí 1890 og þeim öllum þinglýst 9. júní sama ár. Fyrsta bréfið fjallaði um landamerki milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Í fasteignamatinu 1932 er að finna lýsingar á eftirfarandi jörðum í Óttarsstaðahverfi: Óttarsstaðir I og II og Óttarsstaðagerði.

Glaumbær

Glaumbær sem barnaheimili. Á meðfylgjandi mynd af Glaumbæ má húsið eftir að það var lengt sem og stíginn heim að húsinu. Í dag sést grunnur hússins enn sem og stígurinn.

Klettaborgirnar ofan við Glaumbæ gefa tilefni til að rifja upp gamla deilu um landamerki Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur þar sem segir “… að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga [við landamerkjabréf Krýsuvíkur] nema óráðið mun um rjetta þekkingu á “Markhellu” að vestanverðu.” Undir þetta skrifaði Oddur V. Gíslason prestur á Stað í Grindavík … Önnur athugasemd var gerð og var hún svohljóðandi: “Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir “Markhellu” sjé settur “Markhelluhóll.Að öðru leyti samþykkt.” Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson. Athugasemdin um Markhelluhól hefur verið tekin til greina því skjalinu er þinglýst með því nafni. Nefnd Markhella er allnokuð austan við Búðarvatnsstæðið og Markhelluhól.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða. Markhellan er allnokkuð austar.

Setninguna “… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði” er vert að athuga nánar. Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eina sanna Markhella og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hana. Á hólnum er lítil varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á síðustu öld. Steindranginn, sem nefndur er í lýsingunni, er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við helluna út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhvern tímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir þessu við undirskrift bréfsins og að hægt var að ruglast á stöðunum vegna líkra nafngifta.

Heimild m.a.:
-Saga Hafnarfjarðar, Ásgeir Guðmundsson, 1983.
-Íslenzkt fornbréfasafn, IV. b. Kaupmannahöfn. 1895-1897, s. 707-708.
Glaumbær

Straumssel

Víða í hraununum sunnan, austan og vestan Hafnarfjarðar eru tóftir sem minna á horfna búskaparhætti. Hlaðnar réttir, fyrirhleðslur við skúta, kvíar, fjárhellar og vörður eru hluti af þeim minjum sem mest er af í Almenningi, en svo nefnist hraunið ofan Straumsvíkur. Þar eru líka tóftir frá þeirri tíð þegar haft var í seli á nær hverjum einasta bæ og koti á landinu. Eitt þessara selja var Straumssel og þar eru myndarleg tóftarbrot.

Selin framlenging á heimajörðunum
Straumssel-221Selin höfðu stóru hlutverki að gegna í Hraunum sem annarsstaðar. Þau liggja nánast í beinni línu frá býlunum á miðjum Reykjanesskaga um 3-4 km sunnan við bæina í svonefndum Almenningi, suður af Flám og Seljahrauni. Meðal þeirra voru Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Að þessum selum lágu slóðir sem hétu ýmsum nöfnum s.s. Straumselsstígur, Hraungata og Skógarstígur. Um sauðburðinn var lambfé fyrst í stað haldið í heimatúninu, en lömbum í stekk svo þau gætu ekki sogið mæður sínar.  Síðan var féð rekið inn í stekkinn á kvöldin, lömbunum komið fyrir í lambakofa í stekknum og féð mjólkað að morgni. Gekk þetta svona til framyfir Jónsmessu, en þá voru ærnar rúnar áður en þær voru reknar í selið. Lömbum var haldið heima nokkru lengur, þar til þau voru rekin á afréttinn. Selráðskona eða matselja flutti sig um set í selið og hafði hún það hlutverk að mjólka féð og vinna matvöru úr mjólkinni.
Raudamelsrett-221Úr ærmjólkinn var framleitt smjör, ostur og skyr. Selráðskonan hafði með sér eina eða tvær unglingsstúlkur og smala, sem sat yfir ánum, daga og nætur. Hann hafði oft það hlutverk að strokka smjör á meðan hann sat yfir ánum og stundum var strokkurinn bundinn við bak hans og hann látinn eltast við féð á meðan smjörið strokkaðist Bóndinn kom síðan á þriggja daga fresti til að sækja smjör, skyr og annað sem framleitt var í selinu og færði heim á bæinn. Við selin eru stekkir eða kvíar og jafnvel náttból þar sem fénu var haldið yfir nóttina og gat þá smalinn sofið rólegur í selinu, eða fjárskúta sínum. Í Hraunum eru húsakynni selanna eins; þrjú áföst hús, mjólkurhús, baðstofa og eldhús. Stundum var fénu haldið langt fram á haust í seli og jafnvel allan veturinn þegar snjólétt var, en annars var það flutt heim eftir réttir og beitt á fjörur.

Búseta í Straumsseli
straumsselsstigur-221Almennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson en honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 á með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

Fjárskilaréttir

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Á haustin voru leitir því geldfé sem gengið hafði á fjörubeit um veturinn var sleppt á vorin í úthaga, bæði sauðum og gemlingum. Einnig voru lömb látin ganga sjálfala í afrétti allt sumarið og þeim þurfti að koma heim á haustin til slátrunar. Var Gjárétt í Búrfellsgjá fjallskilarétt Álftnesinga lengi vel. Áttu allir fjáreigendur hreppsins hvort heldur voru búendur eða þurrabúðarmenn að gera fjallskil til Gjáréttar. Hraunamenn, Hafnfirðingar sunnan lækjar og Ásbóndinn fóru í svokallaða suðurleit, og höfðu náttstað í hellum við Kleifarvatn í Lambhaga.  Garðhverfingar, uppbæjarmenn, Hafnfirðingar norðan lækjar og Álftnesingar fóru í norðurleit og höfðu náttstað í Músarhelli við Valaból. Síðustu árin meðan byggð hélst í Hraunum var Guðjón Gíslason bóndi á Stóra-Lambhaga í Hraunum fjallkóngur suðurleitamanna. Þegar rétta þurfti í Hraunum var Þorbjarnarstaðarétt haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunbæina Litla- og Stóra Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot.   Rauðamelssrétt var vorrétt Hraunamanna og kallast þessu nafni þó hún hafi legið nokkuð frá melnum, en hún var skammt frá Réttargjá og voru réttir þessar aðallega notaðar til rúninga áður sem fóru oftast fram um fardagaleytið.

Hlunnindi og kvaðir
einir-221Ekki voru Hraunajarðirnar miklar hlunnindajarðir. Þó hefur kjarrskógur í Almenningi, eða Hraunaskógur, lengi talist til mestu hlunninda þessara jarða. Þar var hægt að gera kol til eldunar og stundum mátti fá þar stórvið. Kvaðir voru á jörðunum að færa nokkra hríshesta heim til Bessastaða ár hvert og jafnvel stórvið. Þessar kvaðir hafa íþyngt ábúendum jarðanna því árið 1703 kvartar Sigurður Oddleifsson ábúandi í Lónakoti við Árna Magnússon og Pál Vídalín ,,um að skógurinn í almenningum væri svo foreyddur að hann ei til treystist þar að safna kolviði til landskuldargjaldsins” til Bessastaða. Þegar birkihrís og einir eyddist voru bændur látnir rífa lyng og koma til Bessastaða. Var sortulyngið aðallega rifið því ekki mátti skerða krækiberjalyng eða bláberjalyng og enn síður beitilyngið þar eð sauðféð nærðist á því. Bændur áttu einnig að greiða afgjald til Bessastaða í dagsláttu, smjöri, fiskum, vaðmáli og mannsláni um vertíð og þurftu að fæða verkamennina að auki. Torfrista var engin, engjar voru ekki fyrir hendi og rekavon var lítil sem engin. Helstu hlunnindi voru fjörugrastekja, sölvafjara, hrognkelsatekja í lónum, selbitinn fiskur, skelfisksfjara til beitu og berjalestur.

Gjásel

Gjásel.

 

Tobba
Gengið var upp að Óttarsstaðaborg og um Smalaskálahæðir áleiðis upp í Brennisel. Á leiðinni var litið á Alfaraleiðina, skoðaðar leifar, sennilega kolasels, skammt norðvestan Brennisels og síðan haldið upp að Álfakirkju og skoðað fjárskjól þar undir kirkjunni; klofnum hraunkletti.
Óttarsstaðafjárborgin er heilleg. Hún hefur einnig verið nefnd Kristrúnarborg eftir samnefndri konu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hafði forgöngu um byggingu hennar um 1870.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Í Smalaskálahæðum eru sprungur. Ein þeirra kom við sögu í nýlegu sakamáli. Í hæðunum er falleg hraunskál með rauðamölshæð. Á henni var listaverk, sem nú er að mestu skemmt; Slunkaríki.
Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign. Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Þarna bjó fólk fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Brennisel

Brennisel – kolagröf fremst.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Í hrauninu sjást minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborgin og réttir. Í Almenningi eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt, frá 6. til 16. viku sumars.
Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hér má sjá hverning hraunið mótaði umhverfi Hafnarfjarðar fyrir 5000 árum.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.
Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hellnahraun

Hraun í nágrenni Hafnarfjarðar.

Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.
Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Hin reglubundna dagskrá fór í gang á ný fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.
Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum.

Brennisel

Brennisel – skjól.

Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.
Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim.
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður. Án efa eru Hraunin mikils virði, þó ekki væri vegna annars en þess að þau eru rétt við þröskuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum þætti ugglaust freistandi að byggja þar og má minna á, að í tímaritinu Arkitektúr verktækni og skipulag frá 1999, viðrar Gestur Ólafsson arkitekt hugmynd um samfellda borgarbyggð frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Með öðrum orðum: Höfuðborgarsvæðið verði í framtíðinni byggt á þann veginn í stað þess að teygja það upp á Kjalarnes.
Í landi Hafnarfjarðar er að finna mikla arfleifð gamalla bygginga og mannvistarleifa sem segja sögu bæjarins. Þessar minjar ber að varðveita fyrir komandi kynslóðir.

Álfakirkja

Fjárskjól undir Álfakirkju.

Upphaf náttúruverndar í Hafnarfirði má rekja til þess er málfundafélagið Magni fékk Hellisgerði til afnota árið 1922 og var tilgangur félagsins að koma í veg fyrir að sérkenni og tilbreytni frá náttúrunnar hendi hyrfi úr umhverfi byggðarinnar við mannvirkjagerð. Einnig var það markmið fyrstu skipulagsáætlunarinnar í bænum sem staðfest var árið 1933, að helstu einkennum hraunsins og fegurstu hraunborgunum skyldi lofað að standa án skemmda.
Mikið er af minjum í landi Hafnarfjarðar, rústum ýmis konar, gamlar alfaraleiðir, þurrabúðir, skreiðarklappir o.fl. Til þess að vernda þessar minjar þarf að hafa góða heildarsýn, hverju á að halda og hverju á að sleppa. Samkvæmt lögum teljast fornleifar hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Friðlýstar fornminjar í bæjarlandinu eru 16. Fornleifastofnun Íslands hefur útbúið skrá yfir fornleifar í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og fyrsti hluti þeirrar vinnu kom út árið 1998.

Straumssel

Straumssel.

Til þess að minjar í Hafnarfirði öðlist gildi fyrir almenning er nauðsynlegt að auka fræðslu og upplýsingar um einstaka staði og hluti af verndunarstarfi að kynna og fræða. Því er þörf á átaki í minjaskiltum, merkingu svæða og stikun þeirra. Sérstaklega á þetta við innan bæjarmarkana, því þar eru rústir víða án vitneskju bæjarbúa. Í dag er eitt minjaskilti í landi Hafnarfjarðar og er það við Krýsuvíkurkirkju.
Svonefnt Brennisel virðist hafa verið aðstaða til kolagerðar. Slík aðstaða hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg hefur átt sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningum. Norðvestan við Brenniselið má slá leifar af annarri svipaðri aðstöðu. Í hraunbollanum þar sem selið er, er tóft, nú þakin runnum. Skammt utar, í norðaustur, er hlaðið fyrir skúta; gæti verið fjárskjól.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem saman var tekin 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á Almenningum. Skiptin er þannig eftir hreppum: “Grindavíkurhreppur 7 jarðir, Rosmhvalaneshreppur 24 jarðir, Vatnsleysustrandarhreppur 20 jarðir, Álftaneshreppur 21 jörð og Seltjarnarneshreppur 5 jarðir.
Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með Almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Nokkrar jarðir hafa ennþá haft skógarhögg á heimajörð og eru þessar nefndar.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Krýsuvík, heimaskógur lítill, Hvassahraun, hrísrif á heimalandi og einnig notað í heyskorti. Lónakot á Álftanesi, skógur að mestu eyddur, en notaður jafnvel fyrir nautpening. Hvaleyri, að mestu eytt. Setberg, hefur átt skóga til forna. Garðar á Álftanesi á skóg og tekur mjög að eyðast. Vífilsstaðir, skóg hefur jörðin átt og er hann nú eyddur svo mjög að kolagerð minnkaði um fjórar tunnur. Hólmur, skóg hefur jörðin átt, sem nú er aldeilis eyddur. Jörðin Reykjavík átti þá sel undir Undirhlíðum norðan við Kleifarvatn, þar var hrísrif til nota fyrir selið.”
Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir.
Í gegnum þessi skrif má lesa, að menn hafa gert sér grein fyrir því, að skógarnir eyddust, en annað var ekki tiltækt til kolagerðar og eldiviðar.
Gengið var upp að Álfakirkju. “Kirkjan” er klofinn hraunhóll. Undir honum er fjárskjól. Hlaðið er upp í lárétta sprungu í hólnum. Inni er rúmgott skjól, sem virðist hafa verið mikið notað. Páfakjör kaþólikka fór fram um svipað leyti og gangan. Minnti hraunhóllinn óneitanlega á Sixtusarkapelluna í Róm þótt enginn væri reykurinn.

Smalaskjól

Smalaskjól við Smalaskálahæð.

Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin. Í Straumsseli og Óttarsstaðaseli voru brunnar.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu oft einmanalegt og erfitt starf.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986.

Heimildir m.a.:
-http://www.simnet.is/annalar/hvassahraun/temp5-gudmundur-hvassahraun.htm
-http://www.hafnarfjordur.is/hafnarfjordur/skipulag_og_framkvaemdir/stadardagskra/

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Glaumbær

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1957 er stutt grein undir yfirskriftinni “Ávarp” og fjallar um áhuga hóps fólks að stofna sumardvalarheimili fyrir börn í bænum:

Vilbergur Júlíusson

Vilbergur Júlíusson. Vilbergur var fæddur Hafnfirðingur að Eyrarhrauni og bjó þar lengst af í æsku sinni (20. júlí 1923-1. júlí 1999).
Vilbergur brautskráðist úr Kennaraskóla Íslands vorið 1944. Hann kenndi í Barnaskóla Hafnarfjarðar og Flensborgarskóla í samtals tíu ár áður en hann réðst skólastjóri við Barnaskóla Garðahrepps, þegar hann hóf göngu sína haustið 1958.

“Nokkrir áhugasamir menn og konur í Hafnarfirði hafa bundizt samtökum um að koma á fót sumardvalarheimili í nágrenni bæjarins, fyrir hafnfirzk börn, á aldrinum 5—8 ára. Hefur, í þessu skyni, verið ákveðið að festa kaup á sumarbústað Theódórs heitins Mathiesen suður í Óttastaðalandi. Sumarbústaðurinn er um 70 m2 að stærð, stór matsalur, tvö herbergi, eldhús, salerni og forstofa. Ennfremur er svefnloft yfir öllu húsinu.
Með nauðsynlegum endurbótum, má hafa þarna milli 25—30 börn, yfir sumarmánuðina. Snyrtilega unnin lóð fylgir sumarbústaðnum, og þykir staðsetning hans og húseignin öll vera hinn ákjósanlegasti stofn að barnaheimili.
Húseign þessi kostar 80 þúsund krónur. Hefur sérstakur barnaheimilissjóður verið stofnaður og fjársöfnunarnefnd verið kjörin.
Jafnframt hefur verið ákveðið að hefja skyndifjársöfnun meðal bæjarbúa. Hafa þegar borizt myndarleg fjárframlög, en ljóst er, að margir þurfa hér að leggja hönd á plóginn. Er þess fastlega vænst, að Hafnfirðingar bregðist nú fljótt og vel við og leggi fram, hver sinn skerf, svo að nauðsynjamál þetta nái fram að ganga og starfsemin geti hafizt nú þegar á þessu vori. Nöfn gefenda verða skráð í sérstaka bók, sem þegar hefur verið gefin bamaheimilissjóði, og mun hún verða látin liggja frammi í barnaheimilinu. Ennfremur verður gefið yfirlit yfir fjársöfnunina í blöðum bæjarins, jafnóðum og fjárframlögin berast. Fjárframlög má senda til einhvers úr fjársöfnunarnefndinni eða til barnaheimilissjóðs, pósthólf 2, Hafnarfirði.
Virðingarfyllst; Hjörleifur Gunnarsson (9366, 9978), Kristinn J. Magnúss. (9274), Selvogsgötu 5. Urðarstíg 3. Vilbergur Júlíusson (9285), Sunnuvegi 8.”

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar síðar þetta sama ár er viðtal við Vilberg Júlíusson, kennara, undir fyrirsögninni “Merkum áfanga náð í barnaverndarmálum – Barnaheimili í Glaumbæ bætir úr brýnni þörf“:

Glaumbær

Glaumbær sem sumarhús.

“Tíðindamaður blaðsins kom nýlega að máli við barnaverndarfulltrúa, Vilberg Júlíusson, kennara, og innti hann frétta af hinu myndarlega barnaheimili, er tók til starfa sl. sumar í Glaumbæ. Það var Vilbergur Júlíusson, sem átti hugmyndina að stofnun barnaheimilis á þessum stað, og barðist manna mest að framgangi þessa mannúðarmáls. —
Hafi hann þökk allra bæjarbúa fyrir farsæla forgöngu sína í þessu merka máli. Hér fer á eftir viðtal við Vilberg Júlíusson:

Hver voru tildrög þess, að barnaheimilið í Glaumbæ var stofnað?

Glaumbær

Glaumbær – sumardvalarheimili.

Barnaverndarnefnd hafði oft á fundum sínum rætt nauðsyn þess, að komið yrði á fót sumardvalarheimili fyrir hafnfirzk börn á aldrinum 6—8 ára. Mjög erfitt hefur reynzt fyrir foreldra að koma þessu aldursskeiði fyrir í sveit á sumrin. Hafnfirðingar hafa aldrei átt neitt barnaheimili fyrir þennan aldur. K.F.U.M. í Káldarsseli hefur öðru hverju bætt að nokkru úr mestu vandræðum fólks og tekið börn til dvalar, stuttan tíma í einu en aldrei sumarlangt. —

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Rauði krossinn hefur hka unnið gott verk á þessu sviði, og kvenfélagið Hringurinn hefur árum saman kostað börn á sumardvalarheimili víðs vegar um landið. Er þetta hinn merkasti þáttur í starfsemi félagsins, og liafa framkvæmdir að mestu hvílt á formanninum, frú Guðbjörgu Kristjánsdóttur. — Öll nefnd félög eiga miklar þakkir skildar fyrir óeigingjarnt starf í þágu barnanna. Nú á síðust árum hefur kreppt æ meir og meir að Hafnfirðingum, og á sl. vori var vitað að t.d. Hringurinn fengi ekki inni fyrir börn úr Hafnarfirði á sumardvalarheimilum Rauðakross Íslands Börnum á fyrrgreindum aldri fjölgar ár frá ári eins og öðru fólki í bænum. Börn á þessum aldri eru tápmikil og sjálfbjarga. Þau ganga næstum sjálfala um göturnar í bænum, og má öllum vera ljós sú mikla hætta og óhollusta, sem fylgir því. Og á meðan lifa foreldrarnir í stöðugum ótta um börnin allan heila daginn. — Dagheimili Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar að Hörðuvöllum tekur til dvalar börn á aldrinum 2ja—6 ára og á vinnuskólann í Krýsuvík komast aðeins 9—12 ára drengir. Barnaverndarn. hefur verið ljós nauðsyn þess að brúa bilið þarna á milli og hlaut að vinna að því, að komið yrði á fót sumardvalarheimil fyrir 6—8 ára aldurinn. Síðla vetrar hafði nefndin pata af því að til sölu væri hinn ágæti sumarbústaður Theódórs heitins Mathiesen læknis, suður í Hraunum, og skrifaði hún þá bæjarráði um málið og óskaði eftir fyrirgreiðslu þess í sambandi við kaup á fyrrgreindu húsi. Tók bæjarráð málaleitun nefndarinnar vel og lofaði ábyrgð bæjarins, ef nefndinni tækist að útvega lán til húskaupanna. Ennfremur skrifaði barnaverndarnefnd þeim félögum í bænum, sem hafa barnavernd og líknarstarfsemi fyrir börn á stefnuskrá sinni, og óskaði eftir samvinnu þeirra um lausn þessa vandamáls. Þetta bréf er dagsett þann 28. marz sl.

Hvað er um undirtektir félaganna að segja, og hvernig var aflað peninganna til kaups á húsinu?

Glaumbær

Glaumbær í Hraunum.

Undirtektir félaganna urðu strax mjög góðar. Tvö þeirra, Barnaverndarfélagið og Rauðakrossdeildin, tæmdu þegar sjóði sína. Þau gáfu 10 þúsund krónur hvort til þess að hægt væri að hrinda málinu í framkvæmd. Síðar jók Barnaverndarfélagið framlag sitt um 15 þús. krónur og Rauðakrossdeildin bætti 20 þús. krónum við sitt framlag. Styrkur þessara félaga til Glaumbæjar er því orðinn myndarlegur. Barnaverndarnefnd útvegaði, með aðstoð Axels Kristjánssonar, forstjóra, 40 þús. króna lán í Iðnaðarbanka Íslands og einnig tókst að fá 10 þús. kr. lán hjá Líftryggingarfélaginu Andvöku, samtals 50 þús. kr., sem Hafnarfjarðarbær ábyrgist og greiðir á sínum tíma. Er þetta styrkur bæjarins til barnaheimilisins í Glaumbæ.

Glaumbær

Glaumbær sem barnaheimili.

Kvenfélagið Hringurinn gaf síðan 20 þús. krónur. Loks skal þess getið, að fyrir frumkvæði Óskars Jónssonar, framkvæmdarstjóra, var hafin almenn fjársöfnun meðal bæjarbúa. Gekk söfnunin vel og söfnuðust um 45 þús. krónur. Sýndu fyrirtæki, einstaklingar og bæjarbúar almennt málinu mikla vinsemd.
Auk peninga gáfu bæjarbúar efni, áhöld og tæki. Fjáröflun gekk mjög að óskum, og á sumardaginn fyrsta var barnaheimilissjóður Hafnarfjarðar stofnaður. Fyrrnefnd félög og barnaverndarnefnd eiga fulltrúa í stjórn sjóðsins og mynda stjórn hans. Tilgangur sjóðsins er að kaupa hús og reka barnaheimili fyrir hafnfirzk börn. Sjóðurinn keypti síðan Glaumbæ, sumarbústað Theodórs heitins Mathiesen við Óttastaði, þann 16. maí sl. fyrir 80 þús. krónur. Barnaheimilið í Glaumbæ er því sjálfseignarstofun.

Uppfyllti staðurinn og húsið þær kröfur, sem gerðar verða til barnaheimilis?
Glaumbær
Já og nei. Staðurinn heillaði áhugamenn strax. Hann er kyrrlátur, skammt frá Hafnarfirði, stutt frá þjóðvegi en þó úr alfaraleið. Húsið stendur á fögrum stað, í skemmtilegu umhverfi, í snyrtilegum vel ræktuðum lautarbolla, með klettaborgir gnæfandi við himinn allt um kring. Staðurinn hefur mikið aðdráttarafl og marga kosti.
Og hinn 11. júní hófust framkvæmdir í Glaumbæ. Húsið var lengt með 9×6 metra viðbyggingu. Fékkst þar mjög rúmgott og skemmtilegt svefnloft fyrir meira en 20 börn. Niðri er svefnstofa fyrir stúlkur, björt og góð, ágætt snyrtiherbergi, með salernum og steypiböðum, svo og rúmgóður gangur og pláss fyrir miðstöðvarketil. Þessi viðbygging eykur mjög verðmæti eignarinnar, og það sem mestu máli skiptir, hún gerir barnaheimilið í Glaumbæ fullnægjandi fyrir 25—30 börn. —
Hús þetta reisti Hilmar Þorbjörnsson, húsasmíðameistari og kappar hans á 14 dögum, og var vel unnið. Einnig var byggt rafstöðvarhús og rotþró og unnið að ýmsum fleiri framkvæmdum.

Hvenær tók barnaheimilið til starfa, og hvemig gekk starfsemin í sumar?

Glaumbær

Glaumbær.

Barnaheimilið tók til starfa 10. júlí og lauk störfum 20. ág. Í Glaumbæ dvöldu í sumar 24 börn, 3 aðeins fáa daga, en hin öll nær allan tímann. Starfsemin í sumar gekk mjög vel, og var það ekki sízt þeim hjónum, Guðjóni Sigurjónssyni íþrótta- og söngkennara og konu hans frú Steinunni Jónsdóttur að þakka, en stjórn barnaheimilissjóðs var svo heppin að fá þau hjón til þess að veita heimilinu forstöðu. Þeim til aðstoðar var frú Ólöf Kristjánsdóttir. Má hiklaust þakka það starfsfólkinu, hve barnaheimilið í Glaumbæ fór giftusamlega af stað, og vil ég fyrir hönd stjórnarinnar flytja þessu fólki alúðarþakkir fyrir vel unnin störf. Börnin dvöldu þarna í bezta yfirlæti, við leik og starf, undir handleiðslu Guðjóns og í umsjá kvennanna, en börnin þyngdust öll, og nokkur komu fjórum kílóum þyngri í bæinn eftir þessa stuttu veru sína í Glaumbæ. Má það teljast all góð framför!
Veður var hið bezta allan tímann. Staðurinn brást ekki vonum manna.

Hvenær verður heimilið fullgert?

Glaumbær

Glaumbær – báturinn, sem var leiktæki á lóðinni er nú horfinn, kominn án samþykkis upp í Grafarvog.

Það er ekki gott að segja. Við erum að safna kröftum fyrir næsta sumar. Tími reyndist naumur í sumar, — og peningarnir voru búnir í bili. Allt fer fram úr áætlun. Sjóðurinn kom mjög skuldugur undan sumrinu, eftir allar framkvæmdirnar og reksturinn. Slíkar framkvæmdir sem þessar kosta ekki aðeins tugi heldur hundruð þúsunda. En það er brýn nauðsyn fyrir Hafnarfjörð að eiga svona heimili, og það verður æ kostnaðarsamara að leysa þetta vandamál með hverju ári, sem líður.
Því fyrr því betra. Með aðstoð Bjarna Snæbjörnssonar læknis fékk barnaheimilissjóður nú fyrir skömmu 60 þús. króna lán í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Getur hann því greitt niður mestu skuldirnar. Enn vantar mikið fé, enn er mikið ógert. Ættu bæjarbúar að efla barnaheimilssjóðinn. — Fjársöfnunin heldur áfram. Gjafir og áheit eru alltaf að berast til sjóðsins, eins og skýrslan í dagblöðunum sýnir.
Barnaheimilissjóður átti ekki krónu til í upphafi, en e.t.v. eru eignir hans 350 þús. króna virði. Svona hefur þetta gengið vel. Sjóðsstjórnin er þess fullviss, að bæjarbúar halda áfram að styrkja barnaheimilið í Glaumbæ. Hún gerir sér því vonir um að hægt verði að fullgera húsið fyrir næsta vor.

Hvað viltu svo að lokum segja um framtíð barnaheimllisins?

Glaumbær

Glaumbær – umhverfið var allt hið ævintýralegasta.

Ég er mjög bjartsýnn á framtíð þess. Í sjóðstjórninni er einhuga fólk, sem er ákveðið að fylgja þessu máli fast eftir og koma því heilu í höfn. Þetta hefur í rauninni allt gengið eftir áætlun. Samvinna félaganna er mjög heilladrjúgt og merkilegt spor. Árangur í svona starfi verður oft minni, þegar hver er að pukra í sínu horni, heldur en þegar dreifðir kraftar eru samstilltir og einlæg samvinna er höfð um framkvæmd mannúðarmála.
Ég vona, að barnaheimilissj. Hafnarfj. eigi eftir að vinna að lausn verkefna, sem miða að auknu öryggi og aukinni lífshamingju þeirra barna, er helzt þurfa á samhjálp og liðveizlu skilningsríka og góðra samborgara að halda.
Í stjórn barnaheimilissjóðs Hafnarfjarðar eiga sæti: Ólafur Einarsson, héraðslæknir, formaður, Hjörleifur Gunnarsson, gjaldkeri (Rauðakrossdeild Hafnarfj.), Árni Gunnlaugsson, Sigríður Sæland (barnaverndarnefnd Hafnarfj.), Jóhann Þorsteinsson, Ingibjörg Jónsdóttir (barnaverndarfélag Hafnarfj.), Björney Hallgrímsdóttir, Sólveig Eyjólfsdóttir (Kvenfélagið Hringurinn), Kristinn J. Magnússon og Vilbergur Júlíusson, kennari.”

Sjá einnig Glaumbær í Hraunum II.

Heimildir:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 4. tbl. 01.05.1957, Ávarp, bls. 4.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 8. tbl. 12.10.1957, Merkum áfanga náð í barnaverndarmálum – Barnaheimili í Glaumbæ bætir úr brýnni þörf, rætt við Vilberg Júlíusson, bls. 3.

Glaumbær

Glaumbær í dag – 2021; loftmynd. Grunnurinn af sumardvalarheimilinu stendur einn eftir.

Friðrik Bjarnason

Í blaðinu “Akranesi” árið 1956, skrifar Friðrik Bjarnason um “Minningar” sínar um allt og nánast ekki neitt. Hvað Garðahrepp og Hafnarfjörð varðar eru þær flestar því miður fánýtar í ljósi staðreynda sögunnar, en þær eru þó ekki alveg allar alvitlausar. Það er ávallt fróðlegt að sjá hvað öðrum finnst um hitt og þetta. Skoðum nokkrar þeirra Friðriks er varða Reykjanesskagann:

XXI.
Hraunin

Friðrik Bjarnason

Friðrik Bjarnason.

“Sunnan Hafnarfjarðar, sem og víðar kringum Fjörðinn eru víðlend hraun, úfin og ill yfirferðar. Þar gefur að líta háa og margvíslega lagaða hraunsnaga. Þar eru líka djúpar dældir, sumar mosavaxnar og með ýmsum gróðri, og einnig eru þar djúpar gjár og sprungur, er oft reynast illar yfirferðar og hættulegar. Hellar eru þar víða, margvíslegir að lögun og stærð Hraunkleprar, dropasteinar eru sums staðar. Þar eru einnig mannvirki, svo sem fjárhellar og aðrir, er líkastir eru því, sem þar hafi mannabústaðir verið.
Eitt sinn var bóndi af Hraunabæjum að huga að fé sínu suður í hrauni. Þetta var að vetri til, er snjór var á jörðu. Rakki fylgdi bónda, og rann hann á undan, sem hundum er títt. Er komið var langt út í hraunið, veitir bóndi því athygli, að hundurinn hverfur skyndilega, niður í hraunsprungu. Bóndi hraðaði sér sem mest hann má að sprungunni, heyrir hljóð hundsins niður í gjánni, en smám saman veikara, þar til það hverfur með öllu. Bóndi heldur áfram för sinni og svo heim til bæjar aftur. Á sextánda degi frá atburði þessum, kom hundurinn heim, allur blóðrisa og kviðdreginn mjög.

Piltur og stúlka fóru eitt sinn yfir sama hraun, en á öðrum stað og höfðu hest með í förinni, sem stúlkan reið. Þegar þau voru því nær komin upp úr hrauninu, festist hægri framfótur hestsins í hraunsprungu og varð eigi losaður. Fer þá piltur heim til næsta bæjar, en það var löng leið, og fær mann með sér og sleggju, til þess að brjóta bergið frá fæti hestsins, og tókst það svo vel, að hesturinn kom alheill upp úr sprungunni. En á meðan pilturinn var fjarverandi lá stúlkan ofan á hestinum, svo að hann brytist ekki um, og mun það hafa verið nálægt þremur tímum.

XXII.
Eyðibýli

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

Þorlákstún nefndist eyðibýli sunnan í Hvaleyrarholti. Býli þetta var lengi í eyði, en er nú aftur byggt og nefnist Þorgeirsstaðir eftir þeim, er reisti. Í fornum skrifum er getið um stórbýli eitt, að nafni Þorláksstaðir. Munnmæli herma að það hafi þarna verið. Sögusagnir segja, að þar hafi eitt sinn verið bænahús frá Hvaleyri og á því 18 hurðir á hjörum, með koparhúnum.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Straumsel er eyðibýli upp af Hraunbæjum sunnan Hafnarfjarðar. Sagnir herma, að það hafi í byggð verið lengi vel. Fyrir rúmum mannsaldri bjó þar maður að nafni Jón Þorsteinsson.
Bærinn brann, og fórst Jón bóndi þar, og hefur þar eigi byggð verið síðan.

Bali

Vigdísarvellir – tóftir undir Bæjarfelli. Bali er vestar, undir hlíð Vesturfells.

Vigdísarvellir heitir eyðibýli norðvestur af Krýsuvík. Jörð þessi hefur í byggð verið nokkurn tíma, eða frá því um 1830 að sumra sögn. Oft var þar tvíbýli. Slægjur voru þar engar, nema túnið, en sauðbeit allgóð niður í Núpshlíð, og er þangað löng leið frá bænum. Sumarhagar em þar ágætir heima við.
Mór var notaður til eldsneytis og mosi. Vatnsból er gott. Ástæður fyrir því að jörðin lagðist í eyði, eru sagðar margar. Fyrir aldamótin síðustu hrundi bærinn þrisvar sinnum af jarðskjálftum á rúmum 30 árum. Ágangur var mikill af sauðfé og hrossum úr Grindavík og af Ströndinni. Örðugt er þar til aðdrátta og langt til vetrarbeitar, sem fyrr segir og býlið nokkuð afskekkt. Sá, er síðast bjó þar, hét Ívar.

Garðaflatir

Garðaflatir – óskilgreindar minjar.

Sagnir eru til um það, að í fyrndinni hafi byggð verið á Garðaflötum og síðar selstöð, einnig i Helgadal, Skúlatúni og víðar. Sumir draga þó í efa, að svo hafi verið, einkum vegna skorts á neyzluvatni. Gamlir menn, er bezt máttu um þetta vita, svo og rannsóknir, er fram hafa farið á þessu, benda ótvírætt í gagnstæða átt. Vatnsskortur hefur ekki valdið heldur aðrar orsakir.

Akranes, 7.-9. tbl. 01.07.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 99.

XXIV.
Vígslur

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja.

Þjóðkirkjan í Hafnarfirði var byggð árið 1914 og vígð það ár, 20. desember. Vígsluna framkvæmdi Þórhallur Bjarnason biskup. Safnast var saman vígsludaginn við barnaskólahúsið og þaðan gengið til kirkju klukkan 12 á hádegi.
Í broddi fylkingar fór biskup og sóknarpresur, síra Árni Björnsson, en næstir þeim voru prófastur, síra Kristinn Daníelsson og síra Bjarni Jónsson og þá þeir síra Árni Þorsteinsson og síra Janus Jónsson, allir hempuklæddir. Þar næst kom sóknanefnd og þar á eftir aðrir kirkjugestir einnig í skrúðgöngu. Þegar að kirkju kom var klukkum hringt og leikið preludium á orgelið og því næst hófst sálmasöngur. Þar á eftir flutti biskup vígsluræðu, frá háaltari, og svo hin venjulega messugerð. Stólræðuna flutti sóknarpresturinn, en prófastur tónaði.
Um tólf hundruð manns voru viðstaddir athöfn þessa, eftir því sem nánast var talið. Sagt er að kirkjan taki 450 manns í sæti. — Athöfnin fór virðulega fram, enda til hennar vandað eftir föngum.
Um kvöldið bauð Ágúst kaupmaður Flygenring og kona hans biskupi, prestunum, kirkjusmiðnum, svo og öllum starfsmönnum kirkjunnar til kvöldverðar að heimili sínu, og var þar veitt af mikilli rausn. — Kirkjuvígslunnar er hér getið, því ekki var hennar minnzt í blöðunum, sakir annríkis í prentsmiðjunum fyrir jólin.
Fyrstur manna var jarðsunginn frá kirkjunni Guðni Þorláksson, yfirsmiður hennar. Naumast var lokið smíði kirkjunnar, er hann tók sótt þá, er dró hanri til dauða.
Fyrstu hjónin, sem gefin voru saman í kirkjunni, voru Björn Árnason og Guðfinna Sigurðardóttir frá Ási.

Kirkjugarðsvígsla

Hafnarfjarðarkirkjugarður

Kirkjugarðurinn á Öldum.

Hinn nýi kirkjugarður Hafnarfjarðarkaupstaðar, uppi á svonefndum Öldum, var tekinn til notkunar og vígður 3. marz 1921 að viðstöddu miklu fjölmenni. Athöfnin fór fram kl. 3 í hinum nýja grafreit. Sunginn var viðeigandi sálmur, og að því loknu hóf prófasturinn, síra Árni Björnsson, vígsluræðu og þar á eftir var sunginn sálmur. Að því loknu var jarðsett lík Einars Jóhannessonar Hansen, hið fyrsta í grafreit þessum. Hann var moldu ausinn af presti sínum, síra Ólafi Ólafssyni, fríkirkjupresti, og loks var sálmur sunginn. Söngflokkar beggja kirknanna sungu við athöfn þessa. Bylslitringur var á, dimmviðri og vestangarri.

Hafnarfjarðarkirkjugarður

Kirkjugarður Hafnarfjarðar hefur þjónustað Hafnfirðinga og nærsveitunga frá víglsudegi, 3. mars 1921. Garðurinn var vígður að viðstöddu fjölmenni séra Árni Björnsson prófastur flutti vígsluræðuna og var Einar Jóhannesson Hansen jarðsettur. Einar er því vökumaður garðsins. Þjóðtrúin segir að sá sem er fyrst grafinn í kirkjugarði eigi að vaka yfir garðinum og taka á móti þeim sem eru greftraðir þar á eftir honum.

Hinn nýi grafreitur á svo nefndum öldum, stendur á þurru moldarbarði. Þegar nokkuð kemur niður í grafirnar tekur við deiglumór, svo að grafirnar eru þarna þurrar og þokkalegar. Steyptur garður er í kringum reitinn. Inni í honum er dálítið skýli, til afnota fyrir gæzlumann garðsins.”

Heimildir:
-Akranes, 4.-6. tbl. 01.04.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 59.
-Akranes, 7.-9. tbl. 01.07.1956, Minningar – Friðrik Bjarnason, bls. 99.
Friðrik Bjarnason

Þorbjarnastaðir

“Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Fuglalíf

Í frétt í MBL, þriðjudaginn 6. júlí, 1999, sagði Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð svæðisins.
Hraun kallast landsvæðið vestan og sunnan Straumsvíkur, en víkin hefur myndast milli Lambhagatanga að austan og Hrauna að vestan. Hraunið sem þekur svæðið er 5000-7000 ára gamalt helluhraun sem átt hefur upptök sín í Hrútagjárdyngju.
Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld. Á svæðinu má sjá fjölda rústa, tóftarbrot býla og gripahúsa, minjar eru um útræði í fjörunni, þurrabúðir, fiskbyrgi, vörslugarðar og fiskreitir eru einnig sýnilegir. Helstu lögbýli í Hraunum voru Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu síðan hjáleigur og þurrabúðir, s.s. Gerði, Péturskot, Litli-Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot. Heimild er um forna kirkju á svæðinu og grafreit.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Árið 1999 fékk Umhverfis- og útivistarfélagið Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing til að grafa prufuholur í Jónsbúð, sem er þurrabúð eða hjáleiga utarlega við vestanverða Straumsvík. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.

Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, segir í fyrrgreindri MBL-frétt 19999 að ekkert hafi verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. “Ljóst er að menn fara sér hægt við að skipuleggja framtíð þess.” Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði. Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.”

 

Nú, 2008, hefur Samfylkingin í Hafnarfirði uppi áform um að eyðileggja flestar menningarminjarnar á norðanverðu Hraunasvæðinu og þar með hið fjölbreytilega dýralíf sem og hina dýrmætu útivistarmöguleika bæjarbúa.
veggurÍ frétt í Fjarðarpóstinum 11. september (af öllum dögum, en þó vel við hæfi) kom m.a. eftirfarandi fram um þessar áætlanir undir fyrirsögninni: “Nýtt hafnarsvæði á Hraunum? – Hugmyndir eru uppi um nýja stórskipahöfn vestan Straumsvíkur.
„Okkar fyrstu niðurstöður eru þær að fýsilegt sé að byggja nýja höfn vestan Straumsvíkur sem að mestu yrði í landi Óttarstaða,“ segir formaður hafnarstjórnar. „Við höfum einnig kannað möguleikana austan Straumsvíkur, en þar reyndust ekki vera ákjósanlegar aðstæður. Við höfum í samvinnu við Siglingastofnun kannað öldufar og rannsakað botnlög með tilliti til hafnar gerðar vestan Straumsvíkur og virðast aðstæður þar allgóðar. Þetta yrði stór höfn sem þjónað gæti stórum hluta siglinga til höfuðborgarsvæðisins og skapað mikla uppbyggingu og atvinnustarfsemi.“

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Að sögn formannsins eru hugmyndirnar sem hér eru kynnntar hins vegar á frumstigi. Tillögurnar voru kynntar í hafnarstjórn í júní og í skipulags- og byggingarráði á þriðjudaginn. Næsta skref er að sögn formanns að ræða við landeigendur á svæðinu sem eru allmargir. Stefnt er að því að kynna þessar hugmyndir fyrir bæjarbúum og skapa um þær umræðu. Ljóst er að skoðanir verða skiptar um þessar tillögur en við hafnargerðina hverfa margar minjar en gert er ráð fyrir að vernda bæjarstæði Óttarstaðabæjanna í einskonar vin á miðju athafna svæðinu. Einnig yrðu Þýskabúð og Jónsbúð óraskaðar.
Landslagsarkitekt var fenginn til að útfæra þessar fyrstu hugmyndir og aðlaga þær lands laginu þannig að sem best fari, að sögn formanns, „en auðvitað á þetta eftir að fara í umhverfismat og í gegn um skipulagsferil,“ sagði formaðurinn.
HugmyndirSkv. hugmyndunum er gert ráð fyrir að meðfram nýrri legu Reykjanesbrautar verði hafnarsvæði lækkað um 12-14 m en næst sjónum yrðu 6-8 m varnargarðar til að skilja svæðið að en það er um 160 ha. (1,6 millj. m²) sem er svipuð stærð og svæði sem afmarkast af Hjallabraut, Hjallahrauni, Reykjanesbraut, Hvammabraut og Suðurgötu. Hafnargarðurinn yrði gerður úr efni sem þarna fengist en hann yrði skv. hugmyndunum gerður í tveimur áföngum.”

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Segja má með sanni að Samfylkingin hafi tilhneigingu til að vernda minjar og náttúru með vinstri hendinni, en rífa hvorutveggja niður með þeirri hægri. “Vonandi verða hvorki hugmyndir né fulltrúar þeirra langlífir”, varð einum rólyndismanni að orði er hann heyrði tíðindin. Mörg dæmi eru um að vilji til að takmarka verndun minja innan stórra athafnasvæða hafi farið fyrir lítið er á reyndi.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Segja má að einstakir fulltrúar og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi að undanförnu verið í tómu klúðri – sem virðist það því miður fara vaxandi.
Umhverfi og náttúra í Hraunum er einstök á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Hluti þeirra njóta náttúruverndar. Auk þess mynda Hraunabæirnir ofan við ströndina heilstætt og dýrmætt minjasvæði með tilheyrandi útstöðvum ofar í hraununum; seljum, fjárskjólum, nátthögum og aðliggjandi götum. Svæðið sem heild er því einstaklega dýrmætt, ekki síst vegna þess hversu nálægt þéttbýlissvæði það er. Þessu virðist eiga að farga án teljandi hugsunar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Samstarf og samnýting Faxaflóahafna hefur dregið úr þörfinni á hafnargerð sem þessari, enda koma aðrir staðir á höfðuborgarsvæðinu mun betur til greina en landssvæðið þar sem Hraunin eru.
Sjá meira um svæðið HÉR og HÉR. Vefsíðan geymir uppdrætti af u.þ.b. 400 minjasvæðum og yfir 6000 lýsingum á Reykjanesskaganum, auk fróðleiks og frásagna af minjum og örnefnum á svæðinu – fyrrum landnámi Ingólfs. Allt efnið er unnið af áhuga og umhyggju – án ríkisstyrkjar.

Heimildir m.a.:
-Mbl – Þriðjudaginn 6. júlí, 1999 – Smáfréttir
-fjardarposturinn.is – 11. september 2008
http://www.fjardarposturinn.is/images/FP-pdf/FP-2008-34-skjar.pdf

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

 

Straumssel

Hraunin
Hraunajarðirnar, millum Hvaleyrar og Hvassahrauns, hafa, líkt og aðrar jarðir á Reykjanesskaganum, haft fé í seli að sumarlagi svo lengi sem sögur herma. Jarðirnar byggðust upp allnokkru eftir landnám og þar hefur að öllum líkindum verið kotbúskapur til að byrja með þar sem ábúendur lifðu aðallega á sjávarútvegi og fáeinum kindum og sauðum. Kýr hafa þar heyrt til undantekninga í fyrstu, en eftir því sem kotin urðu að bæjum jukust umsvifin. Engin kúasel eru þekkt á Hraunasvæðinu, en örnefni tengd tengd kúabúskap eru kunn, s.s. Kúarétt vestan Straums – í landi Óttarsstaða. Þar var nátthagi fyrir kýr og augljóslega stöðull ef tekið er mið af grjóthlöðnum mannvirkjum.
Sennilega er fyrst haft í seli frá Straumi á 14. öld og þá í Fornaseli. Forn selstígur, markaður í hraunhelluna á kafla, liggur upp frá bænum, upp með túngarði Þorbjarnarstaða og áfram upp gróin hraunin austan Almennings, að Fornaseli. Stígurinn er varðaður alla leiðina með litlum mosagrónum vörðum. Ábúendur á Þorbjarnarstöðum hafa síðar notað stíginn upp að þeirra selstöðu í Gjáseli, jafnvel samtímis um einhvern tíma. Straumsselsstígurinn liggur hins vegar upp frá Straumi skammt vestan Þorbjarnarstaða, um hraunið vestan Draughólshrauns og kemur að Straumsseli að norðvestan. Hann er varðaður með litlum vörðum, en gatan hverfur á köflum í mosagróningum. Báðum framangreindum stígum verður betur lýst hér á eftir.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur BFE.

Fornasel – prufuholur
Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings; “Fornasel – Prufuholugröftur í seljarústir suður af Straumsvík” frá árinu 2001, segir m.a.: “Selsins er hvergi getið í rituðum heimildum og er aðeins nefnt í Örnefnaskrá. Um nafngiftina er ekkert vitað en hún hlýtur að vísa í fornt sel eða að annað sel hafi tekið við þessu (Nýjasel?) og nýtt nafn fest á hið gamla!”.
Ekki er minnst á Fornasel í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum. Hins vegar er getið um Fornasel í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar við sama bæ. Þá er og sagt frá Fornaseli í örnefnalýsingu Gísla fyrir Þorbjarnarstaði, en þar er það staðsett þar sem heitir Gjásel, sem var sel frá þeim bæ. Í Jarðabókinni 1703 er Gjásel tiltekin sem selstaða frá Þorbjarnarstöðum.
Þegar selstaðan í Straumsseli er skoðuð er ljóst að hún hefur ekki verið þar um langa tíð. Bæði eru húsatóftir í selinu augljósleg yngri en í Fornaseli og auk þess hafa þær ekki verið endurbyggðar margsinnis eins og t.d. sjá má í Óttarsstaðaseli (hár og umfangsmikill tóftahóll). Húsin í Fornaseli líkjast eldri tegundum húsa í seljum á þessu landssvæði; stök sundurlaus hús, sem hvert um sig þjónaði ákveðnum hlutverki, s.s. baðstofa, búr og eldhús, en húsin í Straumsseli líkjast hins vegar nýrri tegunum húsa; sambyggð með reglulegum hætti þar sem baðstofa og búr eru sambyggð og eldhúsið hliðstætt.

Fornasel

Vatnsstæði í Fornaseli.

Vatnsból í Fornaseli hefur þótt að jafnaði gott, en er opið og hefur eflaust þornað upp á þurrviðrasömum sumrum.
Í Óttarsstaðasseli er vatnsbólið líkt því í Fornaseli, en húsin hafa verið endurbyggð aftur og aftur, enda endast slíkir bústaðir, sem einungis hafa verið ætlaðir sem skjól í skamman tíma að sumarlagi og lítt verið vandað til, ekki nema takmarkað. Ef grafið yrði í tóftahólinn í Óttarsstaðaseli munu að öllum líkindum koma í ljós eldri stakkennd rými neðst. Þau nýjustu eru lík þeim, sem sjá má í Straumsseli.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í niðurstöðum rannsóknar Bjarna í Fornaseli segir: “Allt bendir til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Hús 1 og 2 hafa verið byggð ofan í dálítilli sprungu í hrauninu og með tíð og tíma hefur sprunga þessi fyllst af áfoki, mannvistarlögum og mold og selið hækkað hægt og bítandi við hverja endurbyggingu sem átt hefur sér stað. Slíkar endurbyggingar virðast allavega hafa verið þrjár. Þessi mikla jarðvegsmyndun sem átt hefur sér stað bendir frekar en ekki til þess að selstaðan eigi sér langa sögu frekar en að áfok sé mikið á staðnum. Kannski er sú saga lengri en C-14 niðurstaðan gefur tilefni til að ætla.
Hús 1 og 2 virðast bæði vera mannabústaðir. Hús 3 gæti verið það, en hólfið sem var kannað í því var ekki mannabústaður heldur trúlega búr. Varla hafa öll húsin verið í notkun samtímis, eða að þau hafi haft breytilega notkun. Þegar eitt þeirra var nýtt sem mannabústaður, var annað eða önnur nýtt sem búr, eldhús eða annað. Hús 1 minnir mest á húsin frá Færeyjum og gæti því gerðþróunarlega séð verið það elsta. Öll eru húsin hlaðin úr hraungrjóti og hellum.

Hraunin

Hraunin – selstígar.

Staðsetning selsins, og annarra selja á svæðinu, er all óvenjuleg fyrir þær sakir að þar er ekki rennandi vatn og selin kúra ekki utan í fjalshlíð eins og alvanalegt er. Vatnsleysið er vandamál á svæðinu öllu og það var leyst með rigningarvatni í vatsbólinu. En að selið skuli ekki vera í Undirhlíðum, er undarlegt, en skýringin gæti verið að þar er ekki rennandi vatn og jarðvegur of gljúpur til að hægt sé að safna því með góðu móti. Eins gætu eignarhald verið skýringin (ekki kannað nú). Þessi staðreynd virðist gilda fyrir öll sel á svæðinu svo sem Straumssel, Óttarsstaðasel, Lónakotssel og Hvassahraunssel.”
Bjarni telur að Fornasel gæti hafa verið eldra en frá því um 1600 og er það að öllum líkindum rétt hjá honum. Einnig gæti selstaðan hafa verið nýtt eitthvað áfram þrátt fyrir að hún hafi verið færð upp í Straumsel. Hins vegar er staðsetning selsins, sem og annarra selja á svæðinu, alls ekki óvenjuleg. Sel á Reykjanesskaganum, sem eru vel á annað hundrað talsins, “kúra” sjaldnast undir fjallshlíðum heldur yfirleitt undir hraunhólum, -hæðum eða gjám.

Brunntorfur

Fornasel – fjárskjól.

Oft eru þau við vötn og læki, einkum á austanverðu svæðinu, en jafnoft við vatnsstæði, bæði náttúruleg og handgerð. Á vestanverðu svæðinu voru t.d. selin á Selsvöllum vestan undir Núpshlíðarhálsi og Sogasel í Sogaselsgíg sunnan Trölladyngju við læki.
Skammt sunnan við Fornasel er hlaðið fjárskjól í litlu jarðfalli. Skjólið er ekki ólíkt því og finn má í kringum Straumssel. Vestan við Gjásel er fjárskjól (Gránuskjól) með fyrirhleðslum framan við. Sunnan og vestan við Óttarsstaðasel eru einnig fjárskjól (Rauðhólsskjól og Þúfhólsskjól).
Hraunajarðirnar áttu ekki land í Undirhlíðum.

Örnefnin við Óttarsstaðasel

Óttarsstaðaborg

Borgin – Óttarsstaðaborg.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: “Nú er að fara upp fyrir þjóðveginn. Þar er ofan við gamla veginn hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker. Smalaskálahæðir heitir hæðin hér í kring. Þar aðeins ofar er lægð, og ofan hennar taka við aðrar hraunhæðir, Löngubrekkuhæðir, og meðfram þeim eru Löngubrekkur. Meðfram þeim lá vegur hér áður fyrr. Austur af Smalaskálahæðum er svo Rauðimelur sá, sem nú er að mestu fluttur burt og kominn í vegi. Vestur af Löngubrekkuhæðum er gömul fjárborg glögg, sem heitir Borg, og þar vestar og niður að vegi er hóll, Sauðaskjól.

Brennisel

Brennisel í Brenniselshæðum – brúkað til kolagerðar frá Óttarsstöðum.

Nú er á honum hár rafmagnsstaur. Norðvestur frá Sauðaskjóli eru Högnabrekkur í Lónakotslandi.
Ofan við Borgina eru svonefndir Litluskútar, og þar ofar liggur þar þvert yfir svonefndur Breiðiás, hraunbreiða, sér hæð, er með keri ofan í. Vestur af Litluskútum er í Lónakotslandi Skjöldubali. Upp af Löngubrekkum, í norðaustur af Breiðás, er Litliás rétt ofan við gamla veginn. Þar austur af honum heita Brenniselshæðir (62), og austan við Löngubrekkur er svo Gvendarbrunnshæð í Straumi.
Austur af Lónakotsseli eru tveir klettar, nefndir Valklettar, og þar austur af er sérkennilegur hóll með helli undir, sem heitir Steinkirkja. Upp af Brenniselshæðum heitir Bekkur og í hrauninu þar hjá Bekkjarhellir. Upp af þessu er svo Óttarsstaðasel, og þar austur af heita Tóhólar. Á þeim er Tóhólavarða.

Skorás

Skorás – selsvarða.

Upp af Lónakotsseli tekur við einn ásinn, sem heitir Skorás. Þar upp og vestur er svo Bjarnarás, og efstur er Snjódalaás. Upp af Bekkjum (svo), milli þeirra og Óttarsstaðasels, er Sveinshellir; vont er að finna hann – varða við hann á flata hrauninu. Þar var hægt að hafa á þriðja hundrað fjár. Neðan Bekkja, ofan við Gvendarbrunnahæð (svo), er Seljahraun.
Nokkuð langt upp af Tóhólum heita Merarhólar. Þetta eru allháir hólar. Neðan við þá er Rauðhóll. Þetta er mikill hóll upp af Tóhólum. Niður af honum er Rauðhólstagl. Þar er fjárhellir.”

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaðasel segir m.a.: “Frá Gvendarbrunni liggur gamla hestaslóðin (fyrsti Keflavíkurvegurinn) vestur framan við Gvendarbrunnshæð og áfram suður með Löngubrekkum. Vegurinn er nú uppgróinn fyrir löngu, en þó sést víða móta fyrir honum. Víða voru hlaðnar vörður á klapparhólum með veginum, og standa sumar þeirra enn.
Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni. Þar var mikið bláberjalyng og var mikið farið þangað til berja í gamla daga. Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni suður yfir Seljahraun og þaðan upp í Mjósundavörðu.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn . Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker. Framan við hellinn óx fyrrum mikil birkihrísla. Hana kól í frostunum 1918, en rafturinn er þarna enn. Töluvert vestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita. Vestur og niður af þeim er hæð, sem nefnist Breiðás. Skammt suður frá fjárbyrginu eru Litluskútar og þar austur af slétt hæð, sem nefnist Litliás.

Skógargata

Gerði við Skógargötu.

Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur stígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er feiknastór, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er svo þröngt. Fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur, og fé fór ekki inn í hann nema rétt inn fyrir opið. Varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.

Óttarsstaðasel

Meitilsskúti.

Sunnanverðu við götuna eru klettar, sem nefnast Meitlar, Stóri-Meitill og Litli-Meitill. Í þeim stærri er stór fjárskúti, sem kallaður er Meitilshellir eða Meitilsskúti. Austur frá Meitlum eru Stórhæðir í Straumslandi. Skammt sunnan við Meitla er komið í laut nokkuð langa og blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru. Snúa dyr austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilegar verið reft yfir þetta skjól og það þá verið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparker með vatni, á annan metra að dýpt. Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Suðaustur frá selinu taka við klapparhæðir á stóru svæði, nefndar Bjarnarklettar. Þar er grasi gróið jarðfall, sem nefnt er Bjarnarklettaker. Þar fennti oft fé. Þar suður af eru kölluð Klungur í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, nafnið haft eftir Sveini í Eyðikoti. Gústaf þekkir ekki þetta nafn, en telur óhætt að treysta Sveini. Landamerkjalínan liggur suður og upp úr Mjósundavörðu, yfir hraunflatneskju, sem nefnd er Flatahraun. Þar vestarlega er smájarðfall, grasi gróið. Eru þar tvö op nær samliggjandi. Ekkert vatn er þarna nema í frostum. Upp frá hraunbreiðu þessari eru brekkur, sem nefnast Bringur). Neðst í þeim er lítill klapparhóll, sprunginn, nefndur Steinhúsið. Efst í Bringum er Markaklettur (nefndur Klofaklettur í landamerkjalýsingu). Á hann eru klappaðir stafirnir Ótta., Str. Landamörkin liggja þar um og upp í Eyjólfshól. Á honum er varða, sem kallast Eyjólfshólsvarða, en kringum hólinn eru mosahæðir, sem nefnast Mosar. Línan liggur áfram suður í Markastein.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðasel – Þúfhólsskjól.

Vestur frá Óttarsstaðaseli er Þúfhóll í Þúfhólshrauni. Vestan í því er Þúfhólsskjól, allgott skjól. Framan við það er kolagröf svo ætla má að skjólið hafi verið notað til geymslu kola.
Suðvestur frá selinu blasa við miklar hæðir, sem nefnast Tóhólar. Á hæsta hólnum er varða, sem kölluð er Tóhólavarða. Vestur frá hólunum gengur Tóhólatagl og niðri í því er Tóhólaskjól við Tóhólaskúta. Suðvestur frá Tóhólavörðu er stór klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Rauðhóll. Smáskúti er vestan í honum. Kringum hólinn er Rauðhólshraun. Suður frá Rauðhól eru litlir hólar, Merarhólar, á stóru svæði. Vestur af þeim eru lægðir og efst í þeim stakur hóll, Einirhóll. Er þá komið mjög nálægt mörkunum við Hvassahraun.”

Örnefnin við Straumssel

Draughólshraun

Draughólshraun.


Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Straumssel segir m.a.: “Ofan við Grenigjár tekur svo við hraunssvæði sem heitir Draughólshraun og efst af því er svo stór hóll sem heitir Draughóll. Vestan við Draughólshraun að Óttarstaðamerkjum er skógur og kvistur sem heitir Mjósund, ofan við þetta strax upp af hrauninu heitir Straumssel, milli Draughóls og Straumsels eru höfðar sem heita Straumsselshöfðar og þar niður af með hraunjaðrinum á Draughólshrauni niður að Grenigjá heitir Katlar. Neðan við þá eru Tobbuklettar.”

Tobburétt

Tobburétt vestari – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straumssel segir m.a.: “Suðsuðaustur frá Mjósundum blasir við hóll í hrauninu, nefnist Draughóll. Kringum hann er úfið hraun og nefnist það Draughólshraun. Af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða. Í skrá G.S. segir, að þarna hafi einnig verið Tobbuklettsrétt. Nafnið þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar. Vestur frá Tobbuklettum eru klettar miklir og margsprungnir. Óvíst er um heiti þeirra, en vestan þeirra eru Grenigjár. En suður frá Tobbuklettum liggur landamerkjalínan um Flárnar eða Flárnar nyrðri eða Neðri-Flár allt upp í Jónshöfða og síðan um Flárnar syðri eða Efri-Flár. Straumsselsstígurinn hefur legið vestan landamerkjalínunnar spotta og spotta. Annars liggur hann að miklu leyti austan línu í landi Þorbjarnarstaða.

Tobbuklettarvarða eystri

Tobbuklettavarða eystri.

Þegar Flánum sleppir, tekur við mikil brekka og hraunið, úfið mjög. Þar taka við svonefndir Katlar, djúpir hraunbollar og hraunhryggir. Ofar taka svo við Straumsselshöfðar. Sunnarlega í höfðunum er Höfðavatnsstæði uppi á hól. Þar er á sumrum drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra. Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann. Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús er hér innan garðs, og hér er Selsgarðurinn, matjurtagarður. Austur frá Selinu var Selsbrunnurinn eða Straumsselsvatnsstæði, sem er ker, og þrýtur þar aldrei vatn. Suður og upp frá selinu er Straumsselshæð. Þar á er Straumsselshæðarvarða og sunnan í hæðina er Straumsselshæðarskjól.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri.

Úr Jónshöfða liggur landamerkjalínan um Katlana og höfðann og um svokallaðar Stórhæðir, og þaðan liggur línan í Hafurbjarnarholt. Þar uppi er svo Hafurbjarnarholtsvarðan. Síðan liggur línan í Steininn, stóran og mikið sprunginn. Síðan í Nyrzta-Höfða og um Nyrzta-Slakka og svo í Mið-Höfða og Miðhöfðaslakka og síðan í Fremsta-Höfða. Þar á eru þrjár vörður, sem Gísli Sigurðsson nefnir Lýritti, en það nafn þekkja ekki heimildarmenn sr. Bjarna. Suður í garði frá Selinu liggur Straumshellnastígur suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels, og þaðan liggur stígurinn í Straumshellana syðri. Hér eru allgóð fjárskjól, og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstrar.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Suðvestur og upp er allmikil hæð, sem ekki ber sérstakt nafn, en þar er þúfa mikil, sem nefnist Gamlaþúfa. Vestur af henni liggja Bringurnar. Þar er Steinhús, klapparhóll mikill og áberandi. Rétt austan við það er fjárskjól eða skúti, sem mun ekki hafa neitt sérstakt nafn. Í skrá Gísla Sigurðssonar er skúti þessi nefndur Gústafsskjól. En þetta nafn hafði Gísli sjálfur gefið, þegar hann var í örnefnaleiðangri ásamt Gústaf Brynjólfssyni. Áður höfðu þeir Gústaf gefið þessu nafnið Steinhússkjól.”

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Óttarsstaðasel og Straumssel eru dæmigerðar selstöður á Reykjanesskaganum.

Búseta í Straumsseli
Almennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af í framhaldinu. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Sum selin voru ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Má þar t.d. nefna Kaldársel. Þegar Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli og húsaði selið vel um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853.

Straumssel

Straumssel.

Þegar Guðmundur gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Bærinn Guðmundur lét reisa í Straumsseli stóðu fram undir aldamótin 1900 eða aðeins lengur en þá mun hann hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar og vel greinilegar ásamt hlöðnum görðum umhverfis Seltúnið. Rými bæjarins eru þrjú, auk hlaðins garðs að norðvestanverðu. Brunnurinn er þar norðaustanvið.

Straumsselsstígur.

Straumselsstígur.

Selstígar í Hraunum
Í seinni tíma lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshraun, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Straumi, hafi verið forn gata þaðan. Þessi sel lögðust af fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af. Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.
Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.

Straumssel

Straumsselshæðarvarða.

Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.
Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.

Straumssel

Straumssel – Höfðavatnsstæðið.

Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan sem áður sagði. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Straumssel

Straumssel – bærinn og garðar umleikis.

Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Innan selsgarðsins um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta fyrir utan auðvitað vöruflutninga. Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi frekar verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.

Straumssel

Straumsselið.

Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.
Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].
Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.

Verklag í seli

Selsmatselja

Selsmatsselja í seli.

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum. Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.
Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.

Mosfellsbær

Í stekknum.

Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.
Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.

Færukví

Færukví – smalinn fremst; Daniel Bruun.

Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði.
Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Rauðhólssel

Rauðhólssel. Frá selinu þurfti oft að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Draugagangi var kennt um.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til sex vikur. Sumsstaðar á Reykjanesskaganum þurfti stundum að stytta viðveruna í seljunum vegna vatnsskorts. Erfitt gat verið fyrir bændur að viðurkenna undanhaldið. Þá var oftar en ekki reimleikum, ásókn útilegumanna eða huldufólks kennt um.
Oft var glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Ef á vantaði í hópinn við mjaltir var smálinn látinn “eta skömmina”, þ.e. hann fékk ekki mat þanni daginn. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði en áður þekktist. Samt sem áður, þegar fyrrum smalar voru spurðir um fyrrum ævi sína, sögðu þeir jafnan að vinna þeirra í seljunum hafi verið besti tíminn. Þá höfðu þeir ákveðið og tiltekið hlutverk, báru ábyrgð og nutu útivistarinnar frjálsir úti í náttúrunni.

Seljabúskapur

selhús

Hús í seli.

Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson):
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”. Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.

Mosfellssel

Mosfellssel – tilgáta.

Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóri, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.
Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.

selhús

Selshús – teikning ÓSÁ.

Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilget var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók han svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.
Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan, ekki síst vegna breyttra atvinnuhátta og þéttbýlismyndunar, neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugum aldarinnar.
Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.

Vatnaborg

Vatnaborg – fjárborg ofan Vatnsleysustrandar.

Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.
Á Reykjanesskagnum þekktist ekki að byggð væru sérstök hús yfir fé fyrr en í upphafi 21. aldar. Fram að þeim tíma var notast að mestu við fjárskjól og fjárborgir.

Einkenni seljannna á Reykjanesskaganum

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Sel á Reykjanesi eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum og Baðsvöllum. Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér. Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð . Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel og aðrar minjar (ÓSÁ).

Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.
Áður hefur verið minnst á skrif Geirs Bachmanns í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 þar sem hann segir bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.

Hraunssel

Hraunssel.

Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn. En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var. Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli. Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið ofan Brunntorfa, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus. Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur. Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa. Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins. Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans. Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.

Fornasel

Fornasel ofan Vatnsleysustrandar – uppdráttur ÓSÁ.

Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel. Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.

Merkinessel

Merkinessel.

Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar. Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu.
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.
Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, sem fyrr sagði, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldamótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar. Þórkötlustaðir hafði um tíma selstöðu sunnan Vigdísavalla í skiptum fyrir útræði frá Þórkötlustaðanesi. Um tíma hafði Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn, einnig í skiptum fyrir útræði á Ströndinni. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma. Skammt frá Kaldárseli, í Helgadal, eru tóftir selstöðu. Skammt norðaustan hennar eru mannvistarleifar selstöðunnar, s.s. hleðslur fyrir og í hraunrás og hlaðinn stekkur.

Sogasel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaðafjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – Rauðhólsskjól.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna gerði við Efri-Straumsselshellana, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimildir frá miðöldum og jJarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.

Kringlumýri

Kringlumýri á Sveifluhálsi.

Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapar á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður um hugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Heildarfjöldi selja árið 1703

Nessel

Nessel; dæmigert sel á Reykjanesskaga – uppdráttur ÓSÁ.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá frásagnir um sel og selstöður, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á Reykjanesskaganum; í fyrrum landnámi Ingólfs. Þau og þær eru yfir fjögur hundruð talsins. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun millum Garðabæjar og Hafnarfjarðar og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreindar selaðstöður á a.m.k. fimm stöðum, sem ekki hefur verið skráðar hingað til (við Selöldu, í Húshólma, við Hraunsnes vestan við Lónakot og Kringlumýri í Sveifluhálsi og norðan Krossfjalla).

Hafnarsel II - Breiðabólstaðasel II

Hafnarsel II – Breiðabólstaðasel II – vatnsstæði.

Í Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 er getið 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn. Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldarmótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg. Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu. Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir.

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur.

Við nýlegan uppgröft Ragnheiðar Traustadóttir í Urriðakoti við Urriðakotsvatn í Garðabæ kom í ljós að þar hafði um tíma verið kúasel, enda kjörlendi til slíks og selstígurinn frá Hofstöðum stuttur.
Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt.
Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í

Selalda

Selalda; Krýsuvíkursel og Eyri.

Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma). Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar. Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.

Gránuskúti

Í Gránuskúta við Gjásel.

Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Fjarlægð selja frá Hraunabæjum
Á Reykjanesskaganum voru selstöðurnar að jafnaði innan við 6 km frá bæjum. Í Hraununum voru fjarlægðirnar eftirfarandi:
Straumur – Fornasel: 5.0 km
Straumur – Straumssel: 3.5
Óttarsstaðir – Óttarsstaðasel: 4.0
Þorbjarnarstaðir – Gjásel: 3.5 km
Lónakot – Lónakotssel: 3.5 km

Niðurlag

Fjárskjól

Fjárskjól Straumsbænda í Fornaseli.

Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár. Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.

Þrátt fyrir framansagt misjafnlega gáfulegt um selstöður og sel á Reykjanesskaganum er eitt alveg heiðskýrt; haft var í seli á Skaganum um árhundraða skeið, enda bera öll áþreifanlegu ummerkin þess glögg vitni…

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing fyrir Straum – Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Straum – Gísli Sigurðsson.
-Fornasel – Prufuholugröftur í seljarústir suður af Straumsvík, Bjarni F. Einarsson, 2001.
-Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson.
-Andvari, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884 – Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48.
-Lýsing Grindavíkursóknar 1840-41 – Geir Bachmann.
-Lýsing Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842.
-Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983.
-Egon Hitzler, “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, gefin út í Noregi árið 1979.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir, grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Þýskabúð

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 fjallar Ómar Smári Ármannsson um “Hraunin” og Hraunabæina:

Hraunabæirnir
“Rétt við bæjardyr höfuðborgarsvæðisins er að finna einstaka vin sem staðið hefur nær óbreytt í aldir. Þetta eru Hraunabæirnir. Þeir liggja á svæðinu milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur, sunnan við Hafnarfjörð, í skugga hins risavaxna álvers. Þar þjóta bílarnir framhjá þúsundum saman en fæstir vita að hér leynist paradís sem birtir okkur sögu útvegs og einstakra búskaparhátta á liðnum öldum.

Straumur

Straumur.

Í Straumsvík, sem bærinn Straumur stendur við, var verslunarhöfn á miðöldum og þangað sigldu þýskir kaupmenn. Straumur er einn af Hraunabæjunum. Aðrir Hraunabæir eru Óttarsstaðir, Lónakot, Hvassahraun og fjölmargar hjáleigur þeirra.
Útræði var stundað frá þessum bæjum sem höfðu sameiginlegt beitiland sem kallað var Almenningur. Þar voru víða sel sem kennd voru við bæina. Umhverfis bæina eru víða enn uppistandandi heillegir grjótgarðar, auk fjárrétta, kvía, byrgja og nátthaga. Í annarri grein Jónatans Garðarssonar segir frá einni slíkri hleðslu, Kristrúnarborg, og konunni sem stóð að hleðslu hennar. Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur hefur rannsakað þetta svæði, ásamt stórum hluta Reykjanesskagans, árum saman, og safnað ómældum fróðleik. Hann heldur úti heimasíðunni www.ferlir.is, sem er aðgengileg öllum á netinu.Inngangar, millifyrirsagnir og myndatextar eru ritstjóra.

Omar 2021

Ómar Smári Ármannsson.

Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarsstaðir eystri og Óttarsstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi (hét Nýjakot áður). Þýskabúð og Jónsbúð voru hjáleigur Straums. Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot voru hjáleigur Óttarsstaða, en Gerði og Péturskot frá Þorbjarnarstöðum að sunnanverðu.
Þessir tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir, stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins hlaðnir garðar, gerði og aðrar tóftir, auk nokkurra sumarbústaða. Náttúrufegurðin er óumdeild – þrátt fyrir nálægð álversins. Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni.
Landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í vörunum þegar norðanáttin rak ölduna beint á hraunbrúnirnar er skaga út í fjöruna. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýskubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – loftmynd.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu. Víða má enn finna fjárskjól með grjóthleðslum.

Straumssel

Straumssel. Bær Guðmundar skógavarðar efst til vinstri.

Í Almenningi, sem svo er nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli allt til 1870 og þar bjó fólk og starfaði frá 6. til 16. viku sumars.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarsstöðum eystri.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krýsuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Frá Straumsvík lá Straumsselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumsseli suður í Almenning. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og heitir Ketilsstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn.
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – hlaðinn garður.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumsstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýst sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.
Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem „brimið þvær hin skreipu sker“.”
Byggt m.a. á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Hraunin – Ómar Smári Ármannsson, bls. 7-8.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur  neðan Reykjanesbrautar – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Nýtti sem FERLIRsfélagi góðviðrið í morgun að rölta í rólegheitum um slóðir forferðranna í Hraunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – tóftir.

Á Þorbjarnastöðum bjuggu skömmu eftir aldarmótin 1900 langamma mín, Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar hreppstjóra á Setbergi, og Þorkell Guðnason frá Guðnabæ í Selvogi. Hann var langdvölum við sjósókn, en Ingveldur stjórnaði búrekstrinum af röksemi. Þau, hjúin, eignuðust samt sem áður ellefu börn, þ.á.m.a. Ingveldi Þorkelsdóttur, ömmu mína, síðar bústýru í Teigi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík (byggður 1934). Hún, með elskulegum manni sínum, Árna Guðmundssyni frá Klöpp í sama hverfi eignuðust einnig ellefu börn, þ.á.m. föður minn, Inga Ármann Árnason. Án hans, sem og ekki síst móður minnar, Fjólu Eiðsdóttur frá Raufarhöfn, og allra hinna fyrrum væri ég ekki að skrifa þessa lýsingu. Fjóla var dóttir Eiðs Eiríkssonar frá Gasgeira á Melrakkasléttu og Járnbráar Kristrúnar Sveinbjörnsdóttur frá Klifshaga í Öxnarfirði. Í dag hafa afkomendurnir því miður lítinn áhuga á fortíð sinni. Þeir virðast hafa meiri áhuga á sjálfum sér og nánustu líkamspörtum – ef marka má samfélagsmiðlana.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Rifjaði upp á röltinu lýsingar á hinu og þessu í umhverfinu með vísan til opinberra skráninga og viðtala við afkomendur þessa fólks í gegnum tíðina. Niðurstaðan varð m.a. sú að örnefni eru ekki bara örnefni. Þau eiga það til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Örnefni skráð á einum tíma, af tilteknum aðila, eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála. Þá reynir gjarnan á skynsemina að greina þar á milli…

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.