Glaumbær

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1957 er stutt grein undir yfirskriftinni “Ávarp” og fjallar um áhuga hóps fólks að stofna sumardvalarheimili fyrir börn í bænum:

Vilbergur Júlíusson

Vilbergur Júlíusson. Vilbergur var fæddur Hafnfirðingur að Eyrarhrauni og bjó þar lengst af í æsku sinni (20. júlí 1923-1. júlí 1999).
Vilbergur brautskráðist úr Kennaraskóla Íslands vorið 1944. Hann kenndi í Barnaskóla Hafnarfjarðar og Flensborgarskóla í samtals tíu ár áður en hann réðst skólastjóri við Barnaskóla Garðahrepps, þegar hann hóf göngu sína haustið 1958.

“Nokkrir áhugasamir menn og konur í Hafnarfirði hafa bundizt samtökum um að koma á fót sumardvalarheimili í nágrenni bæjarins, fyrir hafnfirzk börn, á aldrinum 5—8 ára. Hefur, í þessu skyni, verið ákveðið að festa kaup á sumarbústað Theódórs heitins Mathiesen suður í Óttastaðalandi. Sumarbústaðurinn er um 70 m2 að stærð, stór matsalur, tvö herbergi, eldhús, salerni og forstofa. Ennfremur er svefnloft yfir öllu húsinu.
Með nauðsynlegum endurbótum, má hafa þarna milli 25—30 börn, yfir sumarmánuðina. Snyrtilega unnin lóð fylgir sumarbústaðnum, og þykir staðsetning hans og húseignin öll vera hinn ákjósanlegasti stofn að barnaheimili.
Húseign þessi kostar 80 þúsund krónur. Hefur sérstakur barnaheimilissjóður verið stofnaður og fjársöfnunarnefnd verið kjörin.
Jafnframt hefur verið ákveðið að hefja skyndifjársöfnun meðal bæjarbúa. Hafa þegar borizt myndarleg fjárframlög, en ljóst er, að margir þurfa hér að leggja hönd á plóginn. Er þess fastlega vænst, að Hafnfirðingar bregðist nú fljótt og vel við og leggi fram, hver sinn skerf, svo að nauðsynjamál þetta nái fram að ganga og starfsemin geti hafizt nú þegar á þessu vori. Nöfn gefenda verða skráð í sérstaka bók, sem þegar hefur verið gefin bamaheimilissjóði, og mun hún verða látin liggja frammi í barnaheimilinu. Ennfremur verður gefið yfirlit yfir fjársöfnunina í blöðum bæjarins, jafnóðum og fjárframlögin berast. Fjárframlög má senda til einhvers úr fjársöfnunarnefndinni eða til barnaheimilissjóðs, pósthólf 2, Hafnarfirði.
Virðingarfyllst; Hjörleifur Gunnarsson (9366, 9978), Kristinn J. Magnúss. (9274), Selvogsgötu 5. Urðarstíg 3. Vilbergur Júlíusson (9285), Sunnuvegi 8.”

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar síðar þetta sama ár er viðtal við Vilberg Júlíusson, kennara, undir fyrirsögninni “Merkum áfanga náð í barnaverndarmálum – Barnaheimili í Glaumbæ bætir úr brýnni þörf“:

Glaumbær

Glaumbær sem sumarhús.

“Tíðindamaður blaðsins kom nýlega að máli við barnaverndarfulltrúa, Vilberg Júlíusson, kennara, og innti hann frétta af hinu myndarlega barnaheimili, er tók til starfa sl. sumar í Glaumbæ. Það var Vilbergur Júlíusson, sem átti hugmyndina að stofnun barnaheimilis á þessum stað, og barðist manna mest að framgangi þessa mannúðarmáls. —
Hafi hann þökk allra bæjarbúa fyrir farsæla forgöngu sína í þessu merka máli. Hér fer á eftir viðtal við Vilberg Júlíusson:

Hver voru tildrög þess, að barnaheimilið í Glaumbæ var stofnað?

Glaumbær

Glaumbær – sumardvalarheimili.

Barnaverndarnefnd hafði oft á fundum sínum rætt nauðsyn þess, að komið yrði á fót sumardvalarheimili fyrir hafnfirzk börn á aldrinum 6—8 ára. Mjög erfitt hefur reynzt fyrir foreldra að koma þessu aldursskeiði fyrir í sveit á sumrin. Hafnfirðingar hafa aldrei átt neitt barnaheimili fyrir þennan aldur. K.F.U.M. í Káldarsseli hefur öðru hverju bætt að nokkru úr mestu vandræðum fólks og tekið börn til dvalar, stuttan tíma í einu en aldrei sumarlangt. —

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Rauði krossinn hefur hka unnið gott verk á þessu sviði, og kvenfélagið Hringurinn hefur árum saman kostað börn á sumardvalarheimili víðs vegar um landið. Er þetta hinn merkasti þáttur í starfsemi félagsins, og liafa framkvæmdir að mestu hvílt á formanninum, frú Guðbjörgu Kristjánsdóttur. — Öll nefnd félög eiga miklar þakkir skildar fyrir óeigingjarnt starf í þágu barnanna. Nú á síðust árum hefur kreppt æ meir og meir að Hafnfirðingum, og á sl. vori var vitað að t.d. Hringurinn fengi ekki inni fyrir börn úr Hafnarfirði á sumardvalarheimilum Rauðakross Íslands Börnum á fyrrgreindum aldri fjölgar ár frá ári eins og öðru fólki í bænum. Börn á þessum aldri eru tápmikil og sjálfbjarga. Þau ganga næstum sjálfala um göturnar í bænum, og má öllum vera ljós sú mikla hætta og óhollusta, sem fylgir því. Og á meðan lifa foreldrarnir í stöðugum ótta um börnin allan heila daginn. — Dagheimili Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar að Hörðuvöllum tekur til dvalar börn á aldrinum 2ja—6 ára og á vinnuskólann í Krýsuvík komast aðeins 9—12 ára drengir. Barnaverndarn. hefur verið ljós nauðsyn þess að brúa bilið þarna á milli og hlaut að vinna að því, að komið yrði á fót sumardvalarheimil fyrir 6—8 ára aldurinn. Síðla vetrar hafði nefndin pata af því að til sölu væri hinn ágæti sumarbústaður Theódórs heitins Mathiesen læknis, suður í Hraunum, og skrifaði hún þá bæjarráði um málið og óskaði eftir fyrirgreiðslu þess í sambandi við kaup á fyrrgreindu húsi. Tók bæjarráð málaleitun nefndarinnar vel og lofaði ábyrgð bæjarins, ef nefndinni tækist að útvega lán til húskaupanna. Ennfremur skrifaði barnaverndarnefnd þeim félögum í bænum, sem hafa barnavernd og líknarstarfsemi fyrir börn á stefnuskrá sinni, og óskaði eftir samvinnu þeirra um lausn þessa vandamáls. Þetta bréf er dagsett þann 28. marz sl.

Hvað er um undirtektir félaganna að segja, og hvernig var aflað peninganna til kaups á húsinu?

Glaumbær

Glaumbær í Hraunum.

Undirtektir félaganna urðu strax mjög góðar. Tvö þeirra, Barnaverndarfélagið og Rauðakrossdeildin, tæmdu þegar sjóði sína. Þau gáfu 10 þúsund krónur hvort til þess að hægt væri að hrinda málinu í framkvæmd. Síðar jók Barnaverndarfélagið framlag sitt um 15 þús. krónur og Rauðakrossdeildin bætti 20 þús. krónum við sitt framlag. Styrkur þessara félaga til Glaumbæjar er því orðinn myndarlegur. Barnaverndarnefnd útvegaði, með aðstoð Axels Kristjánssonar, forstjóra, 40 þús. króna lán í Iðnaðarbanka Íslands og einnig tókst að fá 10 þús. kr. lán hjá Líftryggingarfélaginu Andvöku, samtals 50 þús. kr., sem Hafnarfjarðarbær ábyrgist og greiðir á sínum tíma. Er þetta styrkur bæjarins til barnaheimilisins í Glaumbæ.

Glaumbær

Glaumbær sem barnaheimili.

Kvenfélagið Hringurinn gaf síðan 20 þús. krónur. Loks skal þess getið, að fyrir frumkvæði Óskars Jónssonar, framkvæmdarstjóra, var hafin almenn fjársöfnun meðal bæjarbúa. Gekk söfnunin vel og söfnuðust um 45 þús. krónur. Sýndu fyrirtæki, einstaklingar og bæjarbúar almennt málinu mikla vinsemd.
Auk peninga gáfu bæjarbúar efni, áhöld og tæki. Fjáröflun gekk mjög að óskum, og á sumardaginn fyrsta var barnaheimilissjóður Hafnarfjarðar stofnaður. Fyrrnefnd félög og barnaverndarnefnd eiga fulltrúa í stjórn sjóðsins og mynda stjórn hans. Tilgangur sjóðsins er að kaupa hús og reka barnaheimili fyrir hafnfirzk börn. Sjóðurinn keypti síðan Glaumbæ, sumarbústað Theodórs heitins Mathiesen við Óttastaði, þann 16. maí sl. fyrir 80 þús. krónur. Barnaheimilið í Glaumbæ er því sjálfseignarstofun.

Uppfyllti staðurinn og húsið þær kröfur, sem gerðar verða til barnaheimilis?
Glaumbær
Já og nei. Staðurinn heillaði áhugamenn strax. Hann er kyrrlátur, skammt frá Hafnarfirði, stutt frá þjóðvegi en þó úr alfaraleið. Húsið stendur á fögrum stað, í skemmtilegu umhverfi, í snyrtilegum vel ræktuðum lautarbolla, með klettaborgir gnæfandi við himinn allt um kring. Staðurinn hefur mikið aðdráttarafl og marga kosti.
Og hinn 11. júní hófust framkvæmdir í Glaumbæ. Húsið var lengt með 9×6 metra viðbyggingu. Fékkst þar mjög rúmgott og skemmtilegt svefnloft fyrir meira en 20 börn. Niðri er svefnstofa fyrir stúlkur, björt og góð, ágætt snyrtiherbergi, með salernum og steypiböðum, svo og rúmgóður gangur og pláss fyrir miðstöðvarketil. Þessi viðbygging eykur mjög verðmæti eignarinnar, og það sem mestu máli skiptir, hún gerir barnaheimilið í Glaumbæ fullnægjandi fyrir 25—30 börn. —
Hús þetta reisti Hilmar Þorbjörnsson, húsasmíðameistari og kappar hans á 14 dögum, og var vel unnið. Einnig var byggt rafstöðvarhús og rotþró og unnið að ýmsum fleiri framkvæmdum.

Hvenær tók barnaheimilið til starfa, og hvemig gekk starfsemin í sumar?

Glaumbær

Glaumbær.

Barnaheimilið tók til starfa 10. júlí og lauk störfum 20. ág. Í Glaumbæ dvöldu í sumar 24 börn, 3 aðeins fáa daga, en hin öll nær allan tímann. Starfsemin í sumar gekk mjög vel, og var það ekki sízt þeim hjónum, Guðjóni Sigurjónssyni íþrótta- og söngkennara og konu hans frú Steinunni Jónsdóttur að þakka, en stjórn barnaheimilissjóðs var svo heppin að fá þau hjón til þess að veita heimilinu forstöðu. Þeim til aðstoðar var frú Ólöf Kristjánsdóttir. Má hiklaust þakka það starfsfólkinu, hve barnaheimilið í Glaumbæ fór giftusamlega af stað, og vil ég fyrir hönd stjórnarinnar flytja þessu fólki alúðarþakkir fyrir vel unnin störf. Börnin dvöldu þarna í bezta yfirlæti, við leik og starf, undir handleiðslu Guðjóns og í umsjá kvennanna, en börnin þyngdust öll, og nokkur komu fjórum kílóum þyngri í bæinn eftir þessa stuttu veru sína í Glaumbæ. Má það teljast all góð framför!
Veður var hið bezta allan tímann. Staðurinn brást ekki vonum manna.

Hvenær verður heimilið fullgert?

Glaumbær

Glaumbær – báturinn, sem var leiktæki á lóðinni er nú horfinn, kominn án samþykkis upp í Grafarvog.

Það er ekki gott að segja. Við erum að safna kröftum fyrir næsta sumar. Tími reyndist naumur í sumar, — og peningarnir voru búnir í bili. Allt fer fram úr áætlun. Sjóðurinn kom mjög skuldugur undan sumrinu, eftir allar framkvæmdirnar og reksturinn. Slíkar framkvæmdir sem þessar kosta ekki aðeins tugi heldur hundruð þúsunda. En það er brýn nauðsyn fyrir Hafnarfjörð að eiga svona heimili, og það verður æ kostnaðarsamara að leysa þetta vandamál með hverju ári, sem líður.
Því fyrr því betra. Með aðstoð Bjarna Snæbjörnssonar læknis fékk barnaheimilissjóður nú fyrir skömmu 60 þús. króna lán í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Getur hann því greitt niður mestu skuldirnar. Enn vantar mikið fé, enn er mikið ógert. Ættu bæjarbúar að efla barnaheimilssjóðinn. — Fjársöfnunin heldur áfram. Gjafir og áheit eru alltaf að berast til sjóðsins, eins og skýrslan í dagblöðunum sýnir.
Barnaheimilissjóður átti ekki krónu til í upphafi, en e.t.v. eru eignir hans 350 þús. króna virði. Svona hefur þetta gengið vel. Sjóðsstjórnin er þess fullviss, að bæjarbúar halda áfram að styrkja barnaheimilið í Glaumbæ. Hún gerir sér því vonir um að hægt verði að fullgera húsið fyrir næsta vor.

Hvað viltu svo að lokum segja um framtíð barnaheimllisins?

Glaumbær

Glaumbær – umhverfið var allt hið ævintýralegasta.

Ég er mjög bjartsýnn á framtíð þess. Í sjóðstjórninni er einhuga fólk, sem er ákveðið að fylgja þessu máli fast eftir og koma því heilu í höfn. Þetta hefur í rauninni allt gengið eftir áætlun. Samvinna félaganna er mjög heilladrjúgt og merkilegt spor. Árangur í svona starfi verður oft minni, þegar hver er að pukra í sínu horni, heldur en þegar dreifðir kraftar eru samstilltir og einlæg samvinna er höfð um framkvæmd mannúðarmála.
Ég vona, að barnaheimilissj. Hafnarfj. eigi eftir að vinna að lausn verkefna, sem miða að auknu öryggi og aukinni lífshamingju þeirra barna, er helzt þurfa á samhjálp og liðveizlu skilningsríka og góðra samborgara að halda.
Í stjórn barnaheimilissjóðs Hafnarfjarðar eiga sæti: Ólafur Einarsson, héraðslæknir, formaður, Hjörleifur Gunnarsson, gjaldkeri (Rauðakrossdeild Hafnarfj.), Árni Gunnlaugsson, Sigríður Sæland (barnaverndarnefnd Hafnarfj.), Jóhann Þorsteinsson, Ingibjörg Jónsdóttir (barnaverndarfélag Hafnarfj.), Björney Hallgrímsdóttir, Sólveig Eyjólfsdóttir (Kvenfélagið Hringurinn), Kristinn J. Magnússon og Vilbergur Júlíusson, kennari.”

Sjá einnig Glaumbær í Hraunum II.

Heimildir:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 4. tbl. 01.05.1957, Ávarp, bls. 4.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 8. tbl. 12.10.1957, Merkum áfanga náð í barnaverndarmálum – Barnaheimili í Glaumbæ bætir úr brýnni þörf, rætt við Vilberg Júlíusson, bls. 3.

Glaumbær

Glaumbær í dag – 2021; loftmynd. Grunnurinn af sumardvalarheimilinu stendur einn eftir.